Gullver landar á Seyðisfirði

Gullver NS að landa. Ljósm. Ómar BogasonGullver NS að landa. Ljósm. Ómar BogasonÍsfisktogarinn Gullver NS kom til heimahafnar á Seyðisfirði í morgun með tæplega 96 tonn. Aflinn er mestmegnis þorskur og ufsi. Landað verður úr skipinu í dag og það mun síðan halda til veiða á ný í kvöld. Heimasíðan ræddi stuttlega við Rúnar L. Gunnarsson skipstjóra og spurði fyrst hvernig túrinn hefði gengið. „Hann gekk svona þokkalega en við vorum fimm daga að veiðum. Við hófum veiðar á Öræfagrunni og enduðum á Glettinganesflakinu. Mér finnst vanta dálítinn kraft í þorskinn, það hefði mátt ganga betur að eiga við hann. Það liggur fyrir að loðna er komin hér fyrir austan land því það er talsvert af henni í fiskinum,“ segir Rúnar.
 
Að sögn Ómars Bogasonar hjá frystihúsinu á Seyðisfirði fer vinnslan þar vel af stað og enginn skortur á hráefni. Segir hann mjög mikilvægt að fyrirtækin á Seyðisfirði séu farin að starfa eftir skriðuföllin og lífið á staðnum sé óðum að nálgast eðlilegt horf.
 
 

Eyjarnar báðar með fullfermi

Bergey VE. Ljósm. Egill Guðni GuðnasonBergey VE. Ljósm. Egill Guðni GuðnasonÍsfisktogararnir Bergey VE og Vestmannaey VE komu báðir til heimahafnar í gær með fullfermi eða á milli 70 og 80 tonn. Bæði skip munu síðan halda til veiða á ný á morgun. Heimasíðan ræddi við þá Birgi Þór Sverrisson skipstjóra á Vestmannaey og Jón Valgeirsson skipstjóra á Bergey. Birgir sagði að veður hefði verið þokkalegt í veiðiferðinni miðað við árstíma. „Það var engin blíða en varla hægt að kvarta. Lengst af var austan kaldi og dálítill fræsingur. Aflinn hjá okkur var mest ýsa og ufsi. Við byrjuðum að veiða á Gerpisflaki og sigum síðan suður á Breiðdalsgrunn. Þarna var ágætis nudd. Við enduðum síðan á Öræfagrunni,“ sagði Birgir Þór.
 
Jón tók undir með Birgi og sagði vart unnt að kvarta undan veðri. „Við lentum í brælu í upphafi túrsins en þá vorum við að veiða á Brettingsstöðum, en síðan var veðrið þokkalegt. Við byrjuðum í þorski en héldum síðan suður með Austfjörðum og fengum mest ýsu. Það var sérstaklega staldrað við á Gerpisflakinu. Við kláruðum síðan túrinn í Skeiðarárdýpinu,“ sagði Jón.

Vinnsla hafin enn á ný í frystihúsinu á Seyðisfirði

Starfsfólk frystihússins er ánægt með að hefja störf að nýju. Ljósm. Ómar BogasonStarfsfólk frystihússins er ánægt með að hefja störf að nýju. Ljósm. Ómar BogasonFrá því var greint að sl. fimmtudagsmorgun hafi vinnsla hafist í frystihúsi Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði eftir skriðuföllin. Það stóð ekki lengi því húsið var rýmt eftir hádegi sama dag. Í gær var haldinn fundur með starfsfólkinu þar sem rætt var um stöðu mála í kjölfar hamfaranna. Á fundinum voru fulltrúar frá lögreglunni, sveitarfélaginu Múlaþingi, almannavörnum og veðurstofunni auk fulltrúa frá Síldarvinnslunni. Farið var yfir stöðu mála með starfsfólkinu bæði á íslensku og ensku og fólk meðal annars frætt um öll öryggismál. Ómar Bogason hjá frystihúsinu segir að fundurinn hafi tekist vel og nú sé allt ljósara í hugum starfsfólksins en áður. „Í málum sem þessum skiptir öllu máli að fólk fái haldgóðar og réttar upplýsingar,“ segir Ómar.
 
Vinnsla hófst enn á ný í frystihúsinu í morgun og að sögn Ómars er fólk miklu rólegra eftir upplýsingafundinn.
 
Gert er ráð fyrir að fljótlega verði birt nýtt ofanflóðahættumat fyrir Seyðisfjörð og munu þá umræður hefjast um ráðstafanir til lengri tíma á staðnum.

Þokkalegasta kolmunnaveiði

Bjarni Ólafsson AK er á landleið með fullfermi af kolmunna. Ljósm. Smári Geirsson Bjarni Ólafsson AK er á landleið með fullfermi af kolmunna. Ljósm. Smári Geirsson Bjarni Ólafsson AK, Beitir NK og Börkur NK hafa verið að kolmunnaveiðum suður af Færeyjum að undanförnu. Bjarni Ólafsson er á landleið með fullfermi og Beitir og Börkur eru langt komnir með að fylla. Heimasíðan ræddi í morgun við skipstjórana á Bjarna Ólafssyni og Beiti um veiðarnar.
 
Runólfur Runólfsson, skipstjóri á Bjarna Ólafssyni, sagði að skipið kæmi til löndunar í Neskaupstað í kvöld. „Við erum með fullfermi eða 1810 tonn en veiðin hófst 5. janúar sl. Aflinn fékkst í sjö holum en það er mjög lengi dregið eða frá 18 tímum og upp í 32. Stærsta holið okkar var 505 tonn en það minnsta 130. Veiðin fer fram í færeysku lögsögunni alveg við skosku línuna. Það hefur verið töluverður straumur en veiðin hefur engu að síður gengið þokkalega. Það er spurning hve lengi er unnt að veiða þarna því fiskurinn er að ganga suðureftir og hann spáir ekki vel. Það fer brátt að bræla og síðan verður vart veiðiveður fyrr en um miðja næstu viku,“ segir Runólfur.
 
Tómas Kárason, skipstjóri á Beiti, sagði að veiðiferðin hefði gengið vel. „Við erum komnir með tæp 3000 tonn og erum væntanlega á okkar síðasta holi. Það hefur verið hörkugangur í þessu. Við erum með nýtt troll frá Hampiðjunni og það virðist svínvirka. Aflinn hjá okkur hefur gjarnan verið töluvert meiri en hjá öðrum þrátt fyrir að við höfum dregið í styttri tíma. Við höfum verið að draga frá 6 tímum og upp í 24 og fengum til dæmis mjög gott hol eftir 12 tíma. Við erum nú á okkar ellefta holi og síðan verður lagt af stað í land síðar í dag eða í kvöld með fullfermi,“ segir Tómas.
 
Börkur var að toga í morgun og vantar um 400 tonn til að fylla. 
 
Gert er ráð fyrir að Beitir og Börkur muni landa í Neskaupstað og á Seyðisfirði.