Beitir og Börkur halda til loðnuveiða – samstarf um veiðarnar

Beitir NK að loðnuveiðum árið 2018. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonBeitir NK að loðnuveiðum árið 2018.
Ljósm. Helgi Freyr Ólason
Síldarvinnsluskipin Beitir og Börkur héldu til loðnuveiða í gær. Veðrið hefur verið heldur óhagstætt á miðunum en í morgun hafði það heldur gengið niður. Heimasíðan ræddi við Tómas Kárason skipstjóra á Beiti. „Við erum á Meðallandsbugtinni og það er víða eitthvað að sjá. Við erum að skoða þetta núna. Hér er heldur leiðinleg sunnanátt en það er vel hægt að kasta þannig að veðrið háir okkur ekki“, segir Tómas.
 
Samkomulag hefur verið gert við áhafnir Beitis og Barkar um samstarf skipanna við loðnuveiðarnar. Samstarfið felst í því að skipin skipuleggi veiðarnar þannig að þau skiptist á að koma með sem ferskastan afla að landi hverju sinni til að tryggja sem mest gæði framleiðslunnar. Þess vegna er gert ráð fyrir að afla verði dælt á milli skipanna á miðunum ef á þarf að halda. Áhafnirnar munu síðan skipta aflaverðmætunum á milli sín. Samstarf sem þetta hefur ekki verið reynt við loðnuveiðar áður en það gafst vel hjá Síldarvinnsluskipunum á makrílvertíðinni sl. sumar.
 
 
 
 

Japanir hafa saknað íslensku loðnunnar

Kusa að störfum í fiskiðjuverinu í Neskaupstað. Líneik Haraldsdóttir er með honum á myndinni. Ljósm. Hákon ErnusonKusa að störfum í fiskiðjuverinu í Neskaupstað. Líneik Haraldsdóttir er með honum á myndinni.
Ljósm. Hákon Ernuson
Í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað hefur að undanförnu verið fryst loðna úr norskum loðnuskipum allan sólarhringinn. Þrír fulltrúar japansks loðnukaupanda fylgjast grannt með starfseminni og þar á meðal er Takaho Kusayanagi sem venjulega er kallaður Kusa. Tíðindamaður heimasíðunnar hitti Kusa að máli og spurði fyrst hve lengi hann hefði fylgst með loðnuvinnslu á Íslandi. „Það er langur tími. Ég kom fyrst til landsins fyrir um 30 árum og fylgdist í upphafi mest með vinnslu í Vestmannaeyjum, Grindavík, Keflavík og Þorlákshöfn. Undanfarin ár hef ég verið í Neskaupstað. Þar þekki ég orðið allar aðstæður og fólkið þar eru kunningjar mínir og vinir. Það er afskaplega gott að koma til Neskaupstaðar og starfa þar. Nú erum við þrír hérna frá fyrirtækinu sem ég starfa hjá,“ segir Kusa.
 
Þegar Kusa er spurður út í loðnuleysið tvö síðustu ár segir hann: „Það voru dapurleg ár. Ég veit að loðnuleysið hafði slæm áhrif á mörg fyrirtæki hér á Íslandi og sömu sögu er að segja frá Japan. Fyrirtækin þar sem vinna Íslandsloðnuna lentu í verulegum erfiðleikum. Japanir söknuðu þess mjög að fá ekki íslenska loðnu. Loðnan er vinsæll matur í Japan. Hún er mest söltuð og þurrkuð og síðan hituð á pönnu eða í ofni. Loðnan er borðuð eins og hvert annað snakk og oft drukkinn bjór með. Síðan eru loðnuhrognin einnig eftirsóknarverð en þau eru til dæmis mikið notuð í sushi. Við viljum helst hafa loðnuna með yfir 13% hrognafyllingu. Sú loðna sem veiðst hefur núna hefur hingað til einungis verið með 9-10% hrognafyllingu þannig að við bíðum eftir að hrognafyllingin aukist og það mun gerast fljótlega. Við fylgjumst daglega með þeirri loðnu sem berst að landi og bíðum eftir því að hún verði hæf fyrir okkar markað. Fram að því er framleitt fyrir aðra markaði.“

Loðnustemmning

Loðnu landað úr norska skipinu Steinevik í Neskaupstað. Ljósm. Smári GeirssonLoðnu landað úr norska skipinu Steinevik í Neskaupstað. Ljósm. Smári GeirssonÁ fyrri tíð fjölluðu margir um þá stemmningu sem myndaðist í síldarbæjunum þegar síldarvertíð hófst. Síldin, þessi litli fiskur, hafði undarleg áhrif á mannfólkið. Því var líst hvernig sjúkir risu úr rekkjum sínum þegar síld tók að veiðast, hvernig daprir urðu glaðir og hvernig latasta fólk varð hamhleypur til verka. Og fólk víðs vegar að réði sig í síldarvinnu til að upplifa síldarstemmninguna og allt það fjör sem fisknum fylgdi.
 
Ef einhver fiskur kemst nálægt því að skapa þá stemmningu sem fylgir síldinni þá er það loðnan. Þegar loðna tekur að veiðast færist bros yfir mörg andlit og loðnubæirnir lifna við. Forsvarsmenn fyrirtækjanna verða glaðir og sömuleiðis verkafólkið og sjómennirnir. Þá færist vellíðunarsvipur yfir andlit sveitarstjórnarmannanna sem sjá fram á betri tíð. Það eru ekki síst þeir sem hugsa um hag hafnarsjóðsins sem fyllast kæti og sjá fram á betri tíma og jafnvel auknar framkvæmdir.
 
Gert við loðnunót norska skipsins Rav hjá Hampiðjunni í Neskaupstað. Ljósm. Smári GerissonGert við loðnunót norska skipsins Rav hjá Hampiðjunni í Neskaupstað. Ljósm. Smári GerissonTvö síðustu ár hafa verið loðnulaus og loðnustemmningin fjarlæg. Nú bregður hins vegar svo við að gefinn hefur verið út kvóti. Þó kvótinn sé ekki stór virðist hann duga til að skapa stemmninguna og það er bjart yfir austfirsku loðnubæjunum. Íslensk loðnuskip liggja að vísu enn bundin við bryggju og bíða þess að hrognafylling loðnunnar aukist, en grænlensk, færeysk og ekki síst norsk skip hafa verið að veiðum úti fyrir Austfjörðum. Norsku skipin hafa verið um 20 talsins og þau mega ekki veiða sunnan línu sem dregin er í austur frá punkti sunnan Álftafjarðar. Allmörg þessara norsku skipa hafa landað afla á Fáskrúðsfirði, Eskifirði og í Neskaupstað.
 
Hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað ríkir ótvíræð loðnustemmning. Fyrirtækið gerir út tvö skip til loðnuveiða auk þriðja skipsins sem er í eigu dótturfélagsins Runólfs Hallfreðssonar ehf. Áhafnir þessara skipa hafa verið í startholunum og gert er ráð fyrir að þau haldi jafnvel til veiða um komandi helgi. Í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar starfa um 80 manns á loðnuvertíð og þar hefur verið fryst loðna úr norskum skipum allan sólarhringinn að undanförnu. Nær öll loðnan fer til manneldisvinnslu en ef eitthvað af aflanum færi til framleiðslu á mjöli og lýsi þá starfa um 20 manns í fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar. Á hinu nýja netaverkstæði Hampiðjunnar í Neskaupstað hafa verið miklar annir en þar starfa 7-8 manns að öllu jöfnu. Svo mikil verkefni hafa fylgt loðnuvertíðinni að Hampiðjan hefur sent viðbótarmannskap til starfa í Neskaupstað. 
 
Þegar tíðindamaður heimasíðunnar tók hafnarrúnt í gær var verið að landa loðnu úr norska skipinu Steinevik og við netagerðarbryggjuna lá Rav sem hafði orðið fyrir því að skemma loðnunótina mikið. Inni í fiskiðjuverinu var allt á fullu og fryst loðna hlóðst upp í frystigeymslunum. Allir sem voru á ferli voru að flýta sér því verkefnin voru næg. Loðnustemmningin var ótvírætt gengin í garð.

Góður afli í fótreipistrollið

Bergey VE kemur til hafnar í Vestmannaeyjum í gær. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonBergey VE kemur til hafnar í Vestmannaeyjum í gær.
Ljósm. Guðmundur Alfreðsson
Ísfisktogarinn Bergey VE kom til heimahafnar í Vestmannaeyjum í gær með fullfermi. Tíðindamaður heimasíðunnar ræddi við Jón Valgeirsson skipstjóra í morgun en þá var skipið að veiðum í Háfadýpinu. „Aflinn sem við lönduðum í gær var blandaður; ufsi, þorskur og ýsa. Við vorum í Breiðamerkurdýpinu og fengum þar fínasta afla í fótreipistrollið. Síðan var komið við í Háfadýpinu og þar voru tekin tvö síðustu holin. Þar fékkst rígaþorskur fullur af gotu. Það er búin að vera endalaus austan bræla og það er verulega þreytandi en það hlýtur að koma að því að henni ljúki. Við urðum ekki varir við loðnu í Breiðamerkurdýpinu en það eru fréttir af henni austar,“ segir Jón.