Áhugasamar í íslenskunámi

Starfsmenn frystihúss Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði sem sótt hafa íslenskunám hjá Austurbrú í vetur. Talið frá vinstri: Everita Zulke frá Lettlandi, Marianna Weinrauch frá Ungverjalandi og Daniella Sokolov frá Serbíu. Ljósm. Ómar BogasonStarfsmenn frystihúss Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði sem sótt hafa íslenskunám hjá Austurbrú í vetur. Talið frá vinstri: Everita Zulke frá Lettlandi, Marianna Weinrauch frá Ungverjalandi og Daniella Sokolov frá Serbíu. Ljósm. Ómar BogasonAusturbrú hefur í vetur boðið upp á íslenskunám fyrir útlendinga á Seyðisfirði. Kennari hefur verið Ólafía Stefánsdóttir. Þrír starfsmenn frystihúss Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði hafa sótt námskeiðið og hafa sýnt náminu einstakan áhuga. Heimasíðan spjallaði við Ólafíu og spurði hana nánar út í námið. „Það er Austurbrú sem stendur fyrir náminu og það hefur gengið vel. Í haust var byrjað á námskeiði fyrir byrjendur og sóttu það átján nemendur þegar mest var, þar af þrjár konur frá frystihúsi Síldarvinnslunnar. Þær eru frá Lettlandi, Ungverjalandi og Serbíu og sýndu náminu einstakan áhuga. Þegar ég ætlaði að hlífa nemendum og sleppa þeim við heimavinnu komu þær og báðu um heimaverkefni. Mikið væri gott ef allir nemendur væru svona. Fyrir utan námskeiðið notuðu þær netið óspart en þar er unnt að finna gott námsefni eins og Icelandic Online frá Háskóla Íslands. Þetta var námskeið fyrir byrjendur en síðan verður boðið upp á áframhaldandi nám eftir áramót. Ég vona að þá komi fleiri starfsmenn frystihússins. Fyrirtækin greiða námskeiðskostnaðinn fyrir starfsmenn sína og það gerir Síldarvinnslan. Sum fyrirtæki hvetja starfsfólk sitt sérstaklega til að sækja námskeiðin og það er einmitt það sem Síldarvinnslan gerir,“ segir Ólafía.
 
Ómar Bogason hjá frystihúsinu á Seyðisfirði segir að mikil ánægja sé með íslenskunámskeið Austurbrúar. Hann segir jafnframt að í frystihúsinu sé mikil áhersla lögð á að tala íslensku við erlenda starfsmenn og eigi það örugglega þátt í því að margir þeirra ná tökum á málinu á undraskömmum tíma.
 
 

Jólasíldin slær í gegn enn eitt árið

Jólasíldin sett í fötur. Ljósm. Jón Gunnar SigurjónssonJólasíldin sett í fötur. Ljósm. Jón Gunnar SigurjónssonFyrir marga sem starfa hjá Síldarvinnslunni eða tengjast fyrirtækinu er jólasíld Síldarvinnslunnar ómissandi hluti jólahátíðarinnar. Í hugum flestra er Síldarvinnslujólasíldin besta síldin og mikið tilhlökkunarefni að fá að neyta hennar. Síldin er framleidd eftir kúnstarinnar reglum í fiskiðjuverinu í Neskaupstað og yfirverkstjórinn, Jón Gunnar Sigurjónsson, stýrir framleiðslunni. Jón Gunnar segir að ávallt sé ánægjulegt að fá þakkir fyrir jólasíldina og ekkert fari á milli mála að framleiðslan í ár sé vel heppnuð. Síldin er framleidd í takmörkuðu magni og er áhersla lögð á að hráefnið sé af bestu gæðum. Framleiðsluferillinn er að sjálfsögðu leyndarmál en hann byggir bæði á mikilli þekkingu og næmni.
 
Jón Gunnar segir að það sé ávallt gaman að fást við framleiðslu á jólasíldinni. „Fólk segir í ár að síldin sé sú besta. Það höfum við heyrt áður og það sýnir að við erum alltaf á réttri leið. Ég tel að jólasíldin í ár sé algjört ljúfmeti og hún er í reynd lokapunkturinn á frábærlega vel heppnaðri síldarvertíð,“ segir Jón Gunnar.
 
Fyrir utan þá jólsíld sem starfsfólk og velunnarar Síldarvinnslunnar hafa fengið hefur fyrirtækið sent Mæðrastyrksnefnd síld og mun hún örugglega vera vel metin á þeim vettvangi. Auk jólasíldar fékk Mæðrastyrksnefnd fisk að gjöf frá Síldarvinnslunni og eins var Samhjálp styrkt til matargjafa. Fyrir utan þetta hefur Síldarvinnslan lagt sitt af mörkum til matargjafa í Neskaupstað og á Seyðisfirði.
 
 

Stór og fallegur kolmunni

Bjarni Ólafsson AK er á landleið með fullfermi af kolmunna. Ljósm. Smári GeirssonBjarni Ólafsson AK er á landleið með fullfermi af kolmunna. Ljósm. Smári GeirssonBjarni Ólafsson AK er væntanlegur til Neskaupstaðar í kvöld með fullfermi af kolmunna eða um 1.870 tonn. Heimasíðan ræddi við Runólf Runólfsson skipstjóra og spurði fyrst hvar aflinn hefði fengist. „Við vorum að veiðum á gráa svæðinu suður af Færeyjum alveg við skosku línuna. Þarna var svolítið lóð á köflum, en það var ekki að gefa mjög mikið. Það þurfti semsagt að draga lengi eða frá 6 tímum og upp í 24. Aflinn fékkst í sex holum og það voru frá 200 tonnum og upp í 350 tonn í holi. Þetta er stór og fallegur kolmunni sem þarna fékkst, eðlilegur göngufiskur. Vandamálið í síðasta túr var það að skipin fengu einungis smáfisk þó víða væri farið, en nú var allt annað upp á teningnum. Veðrið var misjafnt í túrnum. Við vorum sex daga að veiðum og fengum þrjá góða daga, en svo brældi inn á milli,“ segir Runólfur.

 

 

Jólatónleikar Síldarvinnslunnar og Eskju

Jólatónleikar Síldarvinnslunnar og EskjuSíldarvinnslan og Eskja bjóða starfsfólki sínu upp á glæsilega jólatónleika á netinu laugardaginn 12. desember nk. Útsending hefst kl. 20 og tónleikarnir hefjast kl. 20.30.
 
Á tónleikunum koma fram stórsöngvararnir Jóhanna Guðrún og Eyþór Ingi ásamt frábærri hljómsveit.
 
Nánari upplýsingar koma fram á auglýsingum á vinnustöðum.
                                                                          
Góða skemmtun !