Vélstjórnarbraut í Verkmenntaskóla Austurlands - vígsla glæsilegs kennslubúnaðar
- Details
- Dagsetning: 31. Maí 2014

Hermirinn mun nýtast við kennslu á vélstjórnarbraut sem mun taka til starfa við skólann í haust. Við brautina verður boðið upp á nám sem veitir réttindi til að gegna starfi yfirvélstjóra og á skipum með vélarafl 1500 kW og minna og undirvélstjóra á skipum með 3000 kW vélarafl og minna. Einnig er stefnt að því að nemendur á vélstjórnarbraut geti að námi loknu gengist undir sveinspróf í vélvirkjun.
Kennslubúnaðurinn sem hér um ræðir er viðurkenndur og uppfyllir alla alþjóðlega staðla til vélstjórnarkennslu.
Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar fagnar mjög tilkomu vélstjórnarbrautar við Verkmenntaskóla Austurlands. „Þessi áfangi er mjög ánægjulegur fyrir atvinnulífið á Austurlandi,“ sagði Gunnþór. „ Sterkur skóli með öflugu verknámi styður mjög við starfsemi fyrirtækja í landshlutanum. Með tilkomu þessa nýja og öfluga vélarúmshermis skapast traustur grundvöllur fyrir nám í vélstjórn í heimabyggð og það er afar þýðingarmikið. Öflugir vélstjórar eru mikilvægir atvinnulífinu hvort heldur er við keyrslu fiskiskipa eða framleiðslubúnaðar í landi. Tel ég að það gæti verið áhugavert framhald á samvinnu Verkmenntaskólans og atvinnulífsins að taka frumkvæði í því að skapa starfsþjálfunarpláss úti í atvinnulífinu fyrir nema í vélstjórn bæði um borð í fiskiskipum og í framleiðslufyrirtækjum í landi.“