Síldveiðar Síldarvinnslunnar vottaðar

Síldveiðar skipa Síldarvinnslunnar hafa verið vottaðar. Ljósm. Vilhelm Harðarson.Nýverið fékk Síldarvinnslan allar síldveiðar sínar vottaðar. Um er að ræða svonefnda MSC – vottun og nær hún bæði til veiða á norsk-íslenskri síld og íslenskri sumargotssíld. Vottunin felur í sér viðurkenningu á því að síldveiðar á vegum fyrirtækisins séu stundaðar með sjálfbærum hætti og að fyrirtækið muni fyrir sitt leyti vinna að því að strandríki nái samkomulagi um ábyrgar veiðar úr viðkomandi síldarstofnum.

Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar segir að vottun veiðanna sé mikilvægur áfangi en áður hafði öll síldarvinnsla á vegum fyrirtækisins hlotið vottun. Segir hann að vottun af þessu tagi skipti miklu máli fyrir sölu afurðanna enda veiti hún kaupendum traustar upplýsingar um að veiðarnar séu sjálfbærar og nýting aflans eins og best verður á kosið. Vottunin styrkir því markaðslega stöðu fyrirtækisins með ótvíræðum hætti.


Skipin til veiða eftir sjómannadag

Börkur NK að veiðum. Ljósm. Geir ZoegaSkip Síldarvinnslunnar hafa verið að halda til veiða eftir sjómannadag. Ísfisktogarinn Bjartur lét úr höfn í gær og kolmunnaveiðiskipin Börkur og Beitir einnig. Frystitogarinn Barði mun halda til úthafskarfaveiða í dag. Kolmunnaveiðiskipið Birtingur mun ekki halda til veiða fyrr en fréttir berast af miðunum.

Alls eiga kolmunnaveiðiskip Síldarvinnslunnar eftir að veiða 15.600 tonn af kvóta yfirstandandi vertíðar en það þýðir að skipin eigi 2-3 veiðiferðir eftir. 


Fjöldi fólks kom að skoða Börk og Beiti og hlýða á Pollapönk

Fjöldi fólks kom til að skoða Börk og Beiti og hlýða á Pollapönk. Ljósm. Hákon ViðarssonSjómannadagshelgin í Neskaupstað var vel heppnuð og hátíðarhöldin sem stóðu yfir í fjóra daga voru fjölsótt. Síðdegis á föstudag voru nýjustu skip Síldarvinnslunnar, Börkur og Beitir, almenningi til sýnis og um leið var efnt til tónleika með Pollapönk á hafnarbakkanum. Mikill fjöldi fólks kom að skoða skipin og hlýða á Pollapönk og virtist fólk njóta stundarinnar til hins ítrasta í veðurblíðunni, ekki síst yngsta kynslóðin. Boðið var upp á grillaðar pylsur með tilheyrandi drykkjum á hafnarbakkanum á meðan skipin voru til sýnis og samkvæmt upplýsingum þeirra sem stóðu við grillið runnu hvorki fleiri né færri en 900 pylsur niður í svanga maga þetta ljúfa og skemmtilega síðdegi.

Síldarvinnslan styrkir Knattspyrnufélag Fjarðabyggðar (KFF)

Gunnþór Ingvason og Ívar Sæmundsson undirrituðu styrktarsamninginn. Ljósm. Hákon Viðarsson.Föstudaginn 30. maí var undirritaður nýr styrktar- og auglýsingasamningur á milli Knattspyrnufélags Fjarðabyggðar (KFF) og Síldarvinnslunnar en Síldarvinnslan hefur lengi verið í hópi þeirra fyrirtækja sem helst hafa stutt við bakið á kraftmiklu starfi Knattspyrnufélagsins.

Það voru þeir Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar og Ívar Sæmundsson formaður Knattspyrnufélagsins sem undirrituðu samninginn. Ívar segir að samningurinn við Síldarvinnsluna skipti miklu máli og það sé mikilvægt að finna að fyrirtæki á borð við Síldarvinnsluna kunni að meta það starf sem Knattspyrnufélagið sinnir. „Það er eilíf barátta hjá félagi eins og okkar að halda starfseminni úti og kostnaðurinn vex ár frá ári,“segir Ívar. „Helstu útgjöld félagsins eru ferðakostnaður. Sem dæmi má nefna að í síðustu viku lék meistaraflokkur karla bikarleik á Ísafirði við BÍ/Bolungarvík og ferðakostnaður vegna leiksins nam einni milljón króna. Þó svo að ítrasta aðhalds sé gætt þá er kostnaðurinn óheyrilegur.“ Fyrir okkur sem stöndum í að reka félagið er afar mikilvægt að finna þann stuðning og þá velvild sem ríkir í garð þess hjá fyrirtækjum í Fjarðabyggð og samningurinn við Síldarvinnsluna er einmitt tákn um slíkan stuðning.“