Aðalfundur Síldarvinnslunnar hf. vegna ársins 2013

  • Aðalfundur Síldarvinnslunnar hf. vegna ársins 2013Hagnaður ársins nam 5,6 milljörðum króna
  • Opinber gjöld fyrirtækisins og starfsmanna þess námu 4 milljörðum króna 
  • Eiginfjárhlutfall er 54%
  • Fiskimjölsverksmiðjur félagsins tóku á móti 206 þúsund tonnum af hráefni
  • Fiskiðjuverið tók á móti 80 þúsund tonnum af hráefni
  • Um frystigeymslur félagsins fóru 85 þúsund tonn af afurðum
  • Framleiddar afurðir voru 101 þúsund tonn
Rekstur
Rekstrartekjur samstæðunnar á árinu 2013 voru alls 23,6 milljarðar króna og rekstrargjöld námu 16,2 milljörðum króna. EBITDA var 7,4 milljarðar króna.  Fjármagnsliðir voru jákvæðir um 168 milljónir króna. Hagnaður samstæðunnar fyrir reiknaða skatta nam 6,9 milljörðum króna. Reiknaðir skattar námu 1325 milljónum króna og var hagnaður ársins því tæpir 5,6 milljarðar króna.  

Gjöld til hins opinbera
Síldarvinnslan greiddi 2,8 milljarða til hins opinbera. Greiddur tekjuskattur á árinu var 1350 milljónir króna. Veiðileyfagjöld námu 940 milljónum á síðasta fiskveiðiári og önnur opinber gjöld 520 milljónum 

Fjárfestingar
Rafvæðingu fiskimjölsverksmiðjunnar í Neskaupstað var lokið á árinu.  Skipt var á skipum þegar Beitir var seldur til Noregs og nýr Beitir keyptur.

Haldið var áfram á braut uppbyggingar í fiskiðjuveri félagsins. 

Efnahagur
Heildareignir samstæðunnar í árslok 2013 voru bókfærðar á 45,3 milljarða króna. Veltufjármunir voru bókfærðir á 14,5 milljarða króna og skuldir og skuldbindingar samstæðunnar námu 20,9  milljörðum króna. Eigið fé samstæðunnar í árslok var 24,4 milljarðar króna.   Í árslok var eiginfjárhlutfall samstæðunnar 54%.

Starfsemi
Útgerð félagsins gekk vel á árinu. Afli bolfiskskipa samstæðunnar var 15.500 tonn, aflaverðmæti 3.910 milljónir króna. Afli uppsjávarskipa var 128 þúsund tonn, aflaverðmæti 4.675 milljónir. Heildaraflaverðmæti skipa var 8.600 milljónir króna og aflamagn 143.000 tonn á árinu. 

Fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar tóku á móti um 206 þúsund tonnum af hráefni á árinu 2013. Framleidd voru 41 þúsund tonn af mjöli og 15 þúsund tonn af lýsi. Samtals voru þannig framleidd 56 þúsund tonn af mjöli og lýsi á árinu og verðmætið um 11.554 milljónir króna.

Í fiskiðjuverið var landað rúmum 80 þúsund tonnum af hráefni. Framleiddar afurðir voru 41.000 tonn. Þar vega loðnuafurðir þyngst og síðan síldarafurðir og loks makrílafurðir.  Verðmæti framleiðslunnar var 6.880 milljónir króna. 

Um frystigeymslurnar fóru 85 þúsund tonn af afurðum á árinu.

Samtals framleiðsla á afurðum nam 101.000  tonnum á árinu 2013 að verðmæti tæplega 20 milljarðar króna.

Starfsmenn
Hjá samstæðu Síldarvinnslunnar starfa um 300 manns til sjós og lands. Launagreiðslur félagsins námu 3.320 milljónum króna á árinu 2013 og greiddu starfsmennirnir 1160 milljónir í skatta.

Aðalfundur
Aðalfundur Síldarvinnslunnar hf. var haldinn föstudaginn 6. júní.  Á fundinum var samþykkt að greiða 2 milljarða í arð. 

Fréttatilkynning frá Síldarvinnslunni hf.föstudaginn 6. júní 2014.
Nánari upplýsingar veitir Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri, í síma 896 4760.


Aðalfundur Síldarvinnslunnar

Stjórn og varastjórn Síldarvinnslunnar hf. ásamt framkvæmdastjóra. Ljósm. Hákon Viðarsson.Aðalfundur Síldarvinnslunnar hf. var haldinn í Neskaupstað í dag, föstudaginn 6. júní.  Á fundinum fóru fram hefðbundin aðalfundarstörf. Sérstök fréttatilkynning verður gefin út með upplýsingum um starfsemi og afkomu Síldarvinnslusamstæðunnar á árinu 2013.

Á aðalfundinum var stjórn félagsins endurkjörin en hún er þannig skipuð:
     Anna Guðmundsdóttir
     Björk Þórarinsdóttir
     Freysteinn Bjarnason
     Ingi Jóhann Guðmundsson
     Þorsteinn Már Baldvinsson 

Varamenn:
     Arna Bryndís Baldvins McClure
     Halldór Jónasson

Verknámsvika hafin í Verkmenntaskóla Austurlands

Verknámsvika hafin í Verkmenntaskóla AusturlandsÍ dag hófst verknámsvika í Verkmenntaskóla Austurlands og mun henni ljúka 12. júní. Í verknámsvikunni fer fram kynning á iðnnámi og munu allir þeir sem luku námi í 9. bekk grunnskóla í Fjarðabyggð í vor og eru skráðir í Vinnuskóla Fjarðabyggðar hefja sumarstarfið með því að sækja kynninguna. Í verknámsvikunni eiga ungmennin kost á að kynnast námi og námsaðstöðu í fjórum deildum Verkmenntaskólans: málmdeild, trédeild, rafdeild og hárdeild. Mun hver nemandi eiga kost á að velja sér tvær deildir til að kynnast og vinna að ýmsum verkefnum í þeim undir traustri leiðsögn kennara Verkmenntaskólans. Verkefnunum verður sinnt í tvo daga í hvorri deild en á lokadegi verknámsvikunnar verður veitt almenn fræðsla um iðnnám auk þess sem haldin verður uppskeruhátíð þar sem foreldrum og velunnurum verður boðið að koma og skoða afrakstur nemendanna.

Verknámsvika hafin í Verkmenntaskóla AusturlandsÞetta kynningarstarf er samvinnuverkefni Verkmenntaskóla Austurlands og sveitarfélagsins Fjarðabyggðar og er það stutt af sjö fyrirtækjum sem starfa í Fjarðabyggð, þar á meðal Síldarvinnslunni. Verknámsvikan var haldin í fyrsta sinn í fyrra og þótti takast afar vel að mati allra hlutaðeigandi. Sérstaklega er fróðlegt að skoða ummæli ýmissa nemenda sem sóttu verknámsvikuna þá, en fram kom í þeim að kynningin hefði opnað augu þeirra fyrir nýjum og spennandi námsmöguleikum á framhaldsskólastigi. Alls munu 46 nemendur sækja kynninguna að þessu sinni og fást við spennandi verkefni  við góðar aðstæður undir faglegri leiðsögn.

Verknámsvika hafin í Verkmenntaskóla AusturlandsOft er rætt um mikilvægi þess að auka kynningu á iðn- og tækninámi og upplýsa börn og ungmenni um þá möguleika sem slíkt nám getur gefið. Á iðn- og tæknisviðinu liggja margvísleg tækifæri fyrir ungt fólk, ekki síst í Fjarðabyggð þar sem starfa öflug fyrirtæki á sviði iðnaðar og sjávarútvegs. Það er von allra þeirra sem standa að verknámsvikunni að hún efli áhuga nemenda á iðn- og tækninámi og leiði til þess að fleiri íhugi að afla sér menntunar á því sviði í framtíðinni.

Verknámsvikan hefur vakið töluverða athygli víða um land og var verkefnið meðal annars kynnt á skólaþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldið var í nóvember sl.
Verknámsvika hafin í Verkmenntaskóla Austurlands


 

Kolmunnaveiðin að glæðast

Kolmunnaveiðin er að glæðast. Ljósm. Tómas Kárason.Þegar kolmunnaveiðiskipin héldu út eftir sjómannadag hófu þau veiðar á Þórsbanka en hafa síðan fært sig austur úr Þórsbankanum og eru við veiðar út við miðlínu. Í fyrstu var aflinn heldur tregur en hann hefur verið að glæðast og seinni partinn í gær voru skipin gjarnan að hífa 300-500 tonn. Beitir hífði 350 tonn síðdegis í gær og Börkur um 400 tonn. Minni veiði var í nótt en þó var Börkur að hífa 320 tonn nú skömmu fyrir hádegi.

Ísfisktogarinn Bjartur hélt til veiða eftir sjómannadag og landaði um 40 tonnum af þorski á þriðjudagskvöld eftir rúman sólarhring að veiðum. Hann verður aftur í landi í dag með svipaðan afla. Frystitogarinn Barði er að hefja veiðar á úthafskarfa.