Starfsmannahátíð SVN verður 17. október

Gott stuð á síðustu starfsmannahátíð   Ljósm: Guðlaugur BirgissonGott stuð á síðustu starfsmannahátíð. Ljósm. Guðlaugur BirgissonStarfsmannahátíð Síldarvinnslunnar verður haldin í íþróttahúsinu í Neskaupstað hinn 17. október næstkomandi. Að vanda verður hátíðin hin glæsilegasta. Boðið verður upp á kræsingar eins og þær gerast bestar og mikið verður lagt í skemmtiatriði. Að lokum verður dansað fram á rauðanótt.
 
Veislustjórar verða leikararnir Jóhannes Haukur Jóhannesson og Rúnar Freyr Gíslason og á meðal skemmtiatriða verður tónlist úr bestu sýningum Rigg-viðburða. Hljómsveit Rigg-viðburða mun síðan leika fyrir dansi ásamt söngvurunum Stefáni Hilmarssyni, Sigríði Beinteinsdóttur og Friðriki Ómari Hjörleifssyni. Allir ættu að geta skemmt sér konunglega á hátíðinni.
 
Gert er ráð fyrir að gestir á hátíðinni verði um 500 talsins.

Að slá í gegn

Flutningabílar koma út úr Oddsskarðsgöngum. Ljósm. Rúnar GunnarssonFlutningabílar koma út úr Oddsskarðsgöngum. Ljósm. Rúnar GunnarssonKlukkan 10 að morgni sl. fimmtudags var slegið í gegn í Norðfjarðargöngum en tæplega tvö ár eru liðin frá upphafi gangaframkvæmdanna. Gert er ráð fyrir að ráðherra komi austur hinn 25. þessa mánaðar og sprengi síðasta haftið við hátíðlega athöfn. Það verða gleðileg tímamót í sögu þessara framkvæmda. Þó svo að lokið verði við að opna leiðina í gegnum fjallið gera áætlanir ekki ráð fyrir að  göngin verði tekin í notkun fyrir almenna umferð fyrr en á árinu 2017.
 
Ný  Norðfjarðargöng munu valda byltingarkenndum breytingum í samgöngum á Austurlandi en með tilkomu þeirra þarf ekki lengur að fara yfir Oddsskarð og í gegnum Oddsskarðsgöng sem eru í yfir 600 metra hæð yfir sjávarmáli. Þeir sem sækja atvinnu eða þjónustu yfir Oddsskarð munu svo sannarlega upplifa þær framfarir sem nýju göngin munu hafa í för með sér.
 
Fyrir Síldarvinnsluna mun tilkoma nýju ganganna valda heilmiklum þáttaskilum. Þó svo að langmest af afurðum fyrirtækisins sé flutt á brott með skipum þá er töluverðum hluta þeirra ekið í gámum til útflutnings frá öðrum höfnum. Að undanförnu hafa oft um 1000 gámar á ári verið fluttir landleiðis yfir Oddsskarð frá Neskaupstað en það eru um 20 gámar á viku að jafnaði. Bílarnir sem annast gámaflutningana þurfa að nota sérbúna vagna til að komast í gegnum Oddsskarðsgöng auk þess sem aksturinn yfir fjallveginn er bæði erfiður og áhættusamur, ekki síst yfir vetrartímann. Þá er slit á flutningabílunum sem aka þessa leið afar mikið.
 
Hin nýju Norðfjarðargöng munu gjörbreyta allri aðstöðu til landflutninga á afurðum Síldarvinnslunnar frá Neskaupstað auk þess sem tilkoma ganganna mun draga úr kostnaði og áhættu vegna þeirra. Þessi nýju göng eru svo sannarlega þjóðþrifaframkvæmd og fagnaðarefni. 

Stór og góð eðalsíld

Stór og falleg norsk-íslensk eðalsíld. Ljósm. Hákon ErnusonStór og falleg norsk-íslensk eðalsíld. Ljósm. Hákon ErnusonVinnsla á norsk-íslenskri síld hófst í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað sl. mánudag. Þá kom Beitir NK með 700 tonn og í kjölfar hans kom Birtingur NK með 650 tonn. Beitir kom síðan á ný til löndunar í morgun með 700 tonn. Jón Gunnar Sigurjónsson yfirverkstjóri í fiskiðjuverinu segir að síldin sé afar stór og góð, sannkölluð eðalsíld, og vinnslan gangi vel. „Við framleiðum allan sólarhringinn á þrískiptum vöktum og hráefnið er afar gott. Síldin er stór og falleg og ekkert af smásíld í aflanum. Þetta er norsk-íslensk síld eins og hún gerist best og hentar vel bæði til flökunar og heilfrystingar. Þetta er í reynd allt eins og best verður á kosið. Nú skiptir bara öllu máli að vel gangi að selja þessa gæðavöru,“ sagði Jón Gunnar.

Bjartur og Gullver landa á Seyðisfirði

Verið að ísa Bjart NK á Seyðisfirði að lokinni löndun. Ljósm. Ómar BogasonVerið að ísa Bjart NK á Seyðisfirði að lokinni löndun. Ljósm. Ómar BogasonÞað sem af er september hafa ísfisktogararnir Bjartur NK og Gullver NS landað samtals fimm sinnum á Seyðisfirði. Bjartur hefur landað þrisvar samtals 243 tonnum og Gullver tvisvar samtals 186 tonnum. Uppistaða aflans hefur verið þorskur, karfi og ufsi. Hluti aflans hefur verið unnin í fiskvinnslustöðinni á Seyðisfirði og segir Ómar Bogason vinnsluna ganga vel. „Hér fellur ekki úr klukkutími. Það er unnið á fullum afköstum hvern dag og rúmlega það. Vinnslan er jöfn og góð og stöðin er ágætlega mönnuð. Við höfum lagt sérstaka áherslu á vinnslu á ufsa og það hefur gengið vel. Menn eru mjög ánægðir með gang mála hérna,“ sagði Ómar.
 
Gullver landaði síðast 94 tonnum sl. mánudag og Bjartur landaði 89 tonnum í gær.
 
Þegar þetta er ritað er frystitogarinn Barði NK að veiðum úti fyrir Norðurlandi en Blængur NK er í slipp á Akureyri. Vestmannaeyjatogararnir Vestmannaey VE og Bergey VE hafa verið að veiðum úti fyrir Suðaustur- og Suðurlandi að undanförnu.