Barði NK með góðan túr

Barði NK. Ljósm. Hákon ErnusonBarði NK. Ljósm. Hákon ErnusonFrystitogarinn Barði NK kom til heimahafnar í Neskaupstað sl. laugardag að lokinni góðri veiðiferð, en skipið millilandaði hinn 19. september. Heildaraflinn í veiðiferðinni var 310 tonn upp úr sjó að verðmæti 130 milljónir króna. Theodór Haraldsson skipstjóri segir að meginhluti aflans hafi verið karfi og grálúða. Þá hafi töluvert verið reynt að veiða ufsa en það hafi gengið heldur erfiðlega.“Við byrjuðum í grálúðu hér fyrir austan en síðan var haldið vestur í ufsaleit. Okkur eins og fleirum reyndist erfitt að finna hreinan ufsa – hann var þorsk- eða karfablandaður í alltof ríkum mæli og alls ekki eins mikið af honum og hefur verið síðustu 3-4 árin. Við héldum í Víkurálinn eftir að hafa reynt við ufsann og þar var fínasta karfaveiði. Undir lok túrsins fórum við aftur í grálúðuna hér eystra,“ sagði Theodór.
 
Gert er ráð fyrir að Barði haldi á ný til veiða í kvöld.

Beitir til Póllands

Beitir NK. Ljósm. Þorgeir BaldurssonBeitir NK. Ljósm. Þorgeir BaldurssonBeitir NK hélt áleiðis til Gdansk í Póllandi sl. laugardagskvöld og er áætlað að hann komi þar til hafnar hinn 1. október. Skipið mun síðan fara í dokk hinn 5. október en á því verða gerðar ýmsar umbætur auk þess sem hefðbundnu viðhaldi verður sinnt. Áætlaður verktími er um tíu vikur þannig að skipið gæti komið til heimahafnar á ný um miðjan desember. 
 
Skipt verður um RSW-kælikerfi í skipinu; núverandi kerfi er freon-kerfi en hið nýja verður ammonia-kerfi. Þá verður nýr andveltitankur settur í skipið og afköst vacuum-kerfisins (löndunarkerfisins) aukin. Skipið verður síðan snurfusað og málað hátt og lágt.

Fréttir af ísfisktogurum

Bjartur NK. Ljósm. Hákon ErnusonBjartur NK. Ljósm. Hákon ErnusonBjartur NK kom til löndunar í Neskaupstað í gær að afloknum stuttum túr. Aflinn var 65 tonn, helmingurinn þorskur en einnig ufsi, karfi og ýsa. Gullver NS landaði sl. mánudag á Seyðisfirði 85 tonnum. Um 40 tonn var þorskur, 20 karfi, 15 ufsi og 8 tonn var ýsa. Gullver hélt á ný til veiða á þriðjudagskvöld og að lokinni yfirstandandi veiðiferð mun hann fara til Akureyrar í slipp.
 
Vestmannaeyjatogararnir Vestmanney VE og Bergey VE hafa lagt áherslu á ýsuveiðar að undanförnu. Vestmannaey kom til löndunar í Eyjum í gær með 60 tonna afla og Bergey landar 50 tonnum í dag. Uppistaða aflans er ýsa og þorskur en einnig hafa togararnir verið að fá dálítinn karfa. 

Sama stóra og góða síldin

Birtingur NK kemur með síld til löndunar. Ljósm. Hákon ErnusonBirtingur NK kemur með síld til löndunar. Ljósm. Hákon ErnusonSíðustu dagana hefur síld verið unnin allan sólarhringinn í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Beitir NK og Birtingur NK hafa verið að veiðum og aflað vel. Í gærkvöldi kom Birtingur að landi með 900 tonn og þegar vinnslu á þeirri síld lýkur verður fiskiðjuverið þrifið hátt og lágt og síðan gefið helgarfrí. Beitir hefur nú hætt veiðum en hann er á leið til Póllands í slipp. Eins mun Birtingur ekki veiða meira af norsk-íslenskri síld á þessari vertíð. Í stað þessara tveggja skipa mun Börkur NK halda til síldveiða um komandi helgi en unnið hefur verið að viðhaldi þar um borð að undanförnu. Gert er ráð fyrir að Börkur ljúki við að veiða síldarkvóta fyrirtækisins. Að sögn Jóns Gunnars Sigurjónssonar yfirverkstjóra eru bátarnir ávallt að koma með sömu stóru og góðu síldina enda hefur vinnslan gengið afar vel.