Nægur fiskur á Seyðisfirði

Bjartur NK og Vestmannaey VE landa afla sínum á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar Bogason.Bjartur NK og Vestmannaey VE landa afla sínum á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar Bogason.Löndun úr ísfisktogaranum Bjarti NK hófst á Seyðisfirði kl. 4 sl. nótt og lauk í dag. Afli skipsins var 83 tonn, mest þorskur og ufsi. Bjartur hélt til veiða strax að löndun lokinni og er ráðgert að hann komi á ný til löndunar nk. fimmtudag. Þegar löndun lauk úr Bjarti var Vestmannaey VE komin til hafnar á Seyðisfirði. Þar verður landað um 20 tonnum af þorski úr skipinu en síðan mun það halda á ný til veiða og væntanlega landa í Vestmannaeyjum fyrir komandi helgi. Landanir þessara skipa tryggja að unnið er á fullum afköstum í fiskvinnslustöð Gullbergs á Seyðisfirði. Ómar Bogason hjá Gullbergi segir að nóg sé að gera og ekki skorti hráefni þó svo að Seyðisfjarðartogarinn Gullver NS sé í slipp um þessar mundir. „Hér dettur ekki úr klukkustund í vinnslunni en við erum mest í að vinna þorsk og ufsa,“ sagði Ómar. „Þetta eru mikil viðbrigði fyrir okkur því venjulega höfum við þurft að loka fiskvinnslunni þegar Gullver hefur farið í slipp, en nú er öldin önnur sem betur fer,“ sagði Ómar að lokum.

Börkur með súpersíld

Börkur NK kemur til löndunar. Ljósm. Hákon Ernuson.Börkur NK kemur til löndunar. Ljósm. Hákon Ernuson.Börkur NK hélt til síldveiða eftir nokkurt hlé sl. þriðjudag. Veiðar gengu vel og kom hann til löndunar í Neskaupstað með 950 tonn sl. fimmtudag. Að löndun lokinni var haldið á miðin á ný og kom skipið með 1050 tonn í gærkvöldi. Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri segir að auðvelt hafi verið að fá þennan afla. „Í fyrri túrnum fengum við síldina í Norðfjarðardýpi í fjórum holum en í seinni túrnum var togað við Glettinganesflak og norður í Héraðsflóa. Í seinni túrnum voru einnig tekin fjögur hol. Þetta er algjör súpersíld sem hlýtur að henta vel í alla vinnslu,“ sagði Hjörvar.

Jólasíld – ljósmyndasamkeppni

Fötur með jólasíld Síldarvinnslunnar 2014Fötur með jólasíld Síldarvinnslunnar 2014Jólasíld Síldarvinnslunnar er ómissandi hluti jólahátíðarinnar hjá starfsmönnum  fyrirtækisins. Engin önnur síld kemst í háfkvisti við hana og ef hún er nefnd á nafn kemur vatn í munn flestra sem hafa neytt hennar og notið. Aðferðirnar sem notaðar eru við framleiðslu síldarinnar eru að sjálfsögðu leyndarmál en þær hafa verið þróaðar af kunnáttumönnum á löngum tíma.
 
Að undanförnu hefur verið lögð áhersla á að merkimiðinn á síldarfötunum sé með jólalegri mynd af athafnasvæði eða skipum Síldarvinnslunnar. Nú hefur verið ákveðið að efna til ljósmyndasamkeppni á meðal þeirra sem kunna að eiga myndir sem koma til greina á slíkan merkimiða. Myndirnar skulu þátttakendur senda til Jóns Gunnars Sigurjónssonar yfirverkstjóra í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar fyrir 15. október (This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.). Vegleg verðlaun verða veitt þeim sem á myndina sem verður fyrir valinu.

Börkur NK heldur til síldveiða

Börkur NK. Ljósm. Geir ZoëgaBörkur NK. Ljósm. Geir ZoëgaHjá Síldarvinnslunni var gert nokkuð hlé á síldveiðum og síldarvinnslu í síðustu viku. Beitir NK og Birtingur NK höfðu lagt stund á veiðarnar á meðan viðhaldsverkefnum var sinnt um borð í Berki NK. Nú er Börkur tilbúinn að hefja veiðar og hélt hann út á miðin í gær. Áður en siglt var úr höfn var Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri tekinn tali og sagði hann að bræla hefði verið á miðunum út af Austfjörðum en  veðrið væri að ganga niður. „Við munum byrja á því að leita hérna uppi á landgrunninu en það hefur fengist góð síld að undanförnu frá Reyðarfjarðardýpi og allt norður á Glettinganesgrunn. Síðan hafa einhver skip reynt fyrir sér austur af landgrunninu og fengið þar einhvern afla. Það eru fá skip að síldveiðum þessa stundina og því nauðsynlegt að byrja á að leita,“ sagði Hjörvar.