Tæknidagur fjölskyldunnar var afar vel heppnaður

Gestir á sýningarsvæði Síldarvinnslunnar á Tæknideginum gæða sér á masago. Ljósm. Smári GeirssonGestir á sýningarsvæði Síldarvinnslunnar á Tæknideginum gæða sér á masago. Ljósm. Smári GeirssonTæknidagur fjölskyldunnar var haldinn í Verkmenntaskóla Austurlands sl. laugardag. Dagurinn var fjölsóttur og skráðu 623 nöfn sín í gestabækur við innganga. Víst er að nöfn hluta gestanna voru aldrei skráð og telja þeir sem best til þekkja að gestir hafi verið á bilinu 800-900 og komu þeir víða að.
 
Dagurinn, sem Austurbrú stendur fyrir ásamt Verkmenntaskólanum, heppnaðist afar vel og var tilgangi hans náð fullkomlega. Markmið dagsins er að vekja athygli á fjölbreyttum og spennandi viðfangsefnum á sviði tækni, verkmennta og vísinda og um leið að öll fjölskyldan geti komið saman og fræðst. Fjöldi fyrirtækja og stofnana kynnti starfsemi sína á deginum. Þar var unnt að sjá landmótun í þrívídd í eins konar sandkassa, rafknúna kappakstursbíla, rafmagnseinhjól og upplifa reykköfun. Einnig var FABLAB-verkstæðið opið og unnt að reyna sig við málmsuðu. Gestir gátu fylgst með krufningu á dýrum og sýningu Sprengjugengisins frá Háskóla Íslands og meira að segja var farið í skoðunarferð í Norðfjarðargöng sem nýlega var lokið við að sprengja. Í reynd er hægt að telja lengi upp þau atriði sem hægt var að njóta á Tæknideginum.
 
Síldarvinnslan var með kynningarbás á deginum og var hann svo sannarlega fjölsóttur. Þar gátu gestir kynnst starfsemi fyrirtækisins, skoðað framleiðslu þess og fengið að bragða á völdum afurðum. Þarna var unnt að gæða sér á eðalsíld og reyktum makríl sem reyndist sælgæti. Þá var boðið upp á unnin og lituð loðnuhrogn með mismunandi bragði en þau eru nefnd masago á japönsku.

Er rafvæðing fiskimjölsverksmiðja unnin fyrir gíg ?

DSC03287

Fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar í Neskaupstað er ein þeirra verksmiðja sem hefur verið rafvædd. Ljósm. Hákon Ernuson

Fyrir rúmlega tuttugu árum hófu sumar fiskimjölsverksmiðjur landsins að fikra sig áfram í átt til rafvæðingar. Fyrstu skrefin fólust í því að settir voru upp rafskautakatlar til gufuframleiðslu. Hjá fyrirtækjunum sem áttu verksmiðjurnar vaknaði snemma áhugi fyrir því að rafvæða þær enn frekar enda fiskimjölsiðnaðurinn sá iðnaður á Íslandi sem notaði mesta olíu sem orkugjafa. Ýmis vandamál komu upp sem tengdust rafvæðingunni en árið 2010 urðu þáttaskil þegar sérfræðinganefnd stjórnvalda skilaði af sér skýrslu um möguleika til að draga úr nettóútstreymi gróðurhúsalofttegunda í landinu og gerðu stjórnvöld niðurstöður nefndarinnar í reynd að sinni stefnu. Hvöttu stjórnvöld til áframhaldandi framkvæmda við rafvæðingu verksmiðjanna og rafvæddust þær hver af annarri en fyrirtækin sömdu um nýtingu á ótryggri orku til framleiðslustarfseminnar. Helstu rökin fyrir rafvæðingunni voru eftirtalin:

- Rafvæðing fiskimjölsverksmiðjanna var án efa einhver umhverfisvænasta framkvæmd sem unnt var að ráðast í á landinu. Með rafvæðingunni leysti græn endurnýjanleg orka olíu af hólmi.

- Útblástur gróðurhúsalofttegunda frá verksmiðjunum myndi minnka mikið við rafvæðinguna.

- Rafvæðingin myndi stuðla að betri nýtingu á orku í landinu að því gefnu að unnt væri að flytja orkuna á milli landshluta

- Rafvæðingin yrði gjaldeyrissparandi þar sem innlend orka kæmi í stað innfluttrar.

Útblástur minnkað um 66%

                Fiskimjölsverksmiðjurnar voru rafvæddar með miklum tilkostnaði í góðri trú um að raforka yrði til staðar í verulegum mæli í framtíðinni og unnt yrði að draga úr olíunotkun. Og rafvæðingin skilaði svo sannarlega árangri. Árið 2003 blésu fiskimjölsverksmiðjurnar út í andrúmsloftið 116,3 kg. af koltvísýringi á hvert hráefnistonn en á árinu 2014 fór útblásturinn niður í 39,4 kg. Þarna var um að ræða 66,1% minnkun.

                Hinn góði árangur sem hefur náðst með rafvæðingu fiskimjölsverksmiðjanna virðist ætla að verða skammvinnur. Samningum sem höfðu verið í gildi um orkuverð og voru í reynd ein helsta forsendan fyrir rafvæðingu verksmiðjanna var sagt upp. Gerð var krafa um meira en tvöföldun á orkutaxtanum og að auki reyndist ekki unnt að bregðast við aukinni orkuþörf í landinu með framleiðsluaukningu á rafmagni þannig að sífellt minnkuðu möguleikar verksmiðjanna á að fá rafmagn til sinnar starfsemi.

Verksmiðjurnar afgangsstærð

Í lok ágústmánaðar tilkynnti Landsvirkjun síðan fyrirvaralaust að ótrygg orka til fiskimjölsverksmiðjanna yrði skert þar sem vatnsbúskapur virkjana væri erfiður og miðlunarlón ekki nánda nærri full. Á sama tíma var tilkynnt um hugsanlega skerðingu til annarra notenda ótryggrar orku og orku til stóriðju. Úr vatnsbúskapnum hefur ræst verulega og samkvæmt fréttum hefur almennt verið horfið frá skerðingu á ótryggri orku og orku til stóriðju en skerðingunni á orku til fiskimjölsverksmiðja hefur hins vegar ekki verið aflétt. Fiskimjölsverksmiðjurnar virðast vera afgangsstærð í þessu sambandi. Hvar eru nú stjórnvöld sem á sínum tíma hvöttu til rafvæðingar verksmiðjanna af umhverfisástæðum ? Er rafvæðing verksmiðjanna ef til vill unnin fyrir gíg ?

                Það er staðreynd að rafvæðing fiskimjölsverksmiðjanna er mikilvægt skref í þá átt að Ísland nái að uppfylla þær skuldbindingar sem það hefur gengist undir á sviði loftslagsmála. Eru þær skuldbindingar horfnar úr huga stjórnvalda ?

Veiðum á norsk-íslenskri síld er lokið

Birtingur NK kemur með síðasta farm vertíðarinnar í dag. Ljósm. Hákon ErnusonBirtingur NK kemur með síðasta farm vertíðarinnar í dag. Ljósm. Hákon ErnusonSkip Síldarvinnslunnar hafa lokið veiðum á norsk-íslenskri síld á þessari vertíð. Börkur NK kom úr sinni síðustu veiðiferð á þriðjudagskvöld. Afli skipsins var 660 tonn og fengust þau í tveimur stuttum holum á Glettinganesflaki. Birtingur NK kom síðan með síðasta farm vertíðarinnar til Neskaupstaðar í dag. Afli hans var 640 tonn sem fékkst í þremur holum í Norðfjarðar- og Seyðisfjarðardýpi. „Þetta er falleg síld eins og verið hefur alla vertíðina,“ sagði Hálfdan Hálfdanarson skipstjóri.
 
Næsta verkefni uppsjávarskipanna verður veiðar á íslenskri sumargotssíld. Nokkur skip hafa þegar hafið þær veiðar vestur af landinu.
 

Tæknidagur fjölskyldunnar haldinn í Verkmenntaskóla Austurlands í þriðja sinn

                2110

Starfsmenn Síldarvinnslunnar fræða unga og áhugasama gesti á tæknidegi fjölskyldunnar í fyrra. Ljósm: Smári Geirsson

Tæknidagur fjölskyldunnar verður haldinn í Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað laugardaginn 10. október næstkomandi. Auk Verkmenntaskólans stendur Austurbrú fyrir deginum og hefur undirbúningur staðið lengi yfir. Dagskráin hefst kl. 12.00 og lýkur kl. 16.00 og er aðgangur ókeypis.

                Eins og áður mun mikill fjöldi fyrirtækja og stofnana kynna starfsemi sína á deginum og verður kappkostað að höfða til allra aldurshópa. Með því að koma á tæknidaginn geta gestir aflað sér upplýsinga um ýmsar tækninýjungar og hlýtt á fróðlega fyrirlestra. Þá verður fjölbreytt námsframboð Verkmenntaskólans kynnt og allur sá kennslubúnaður sem skólinn nýtir. Á meðal þess búnaðar sem gestir geta fræðst um er FABLAB- smiðjan en það er stafræn smiðja með einföldum stýribúnaði sem tekin var í notkun á tæknideginum í fyrra. Lögð er áhersla á að öll fjölskyldan og ekki síst börnin geti notið tæknidagsins. Þar verður kynnt landmótun í þrívídd, reykköfun, rafknúnir kappakstursbílar, rafmagnseinhjól (Segway-hjól) svo eitthvað sé nefnt. Félagar í Sprengjugengi Háskóla Íslands með Sprengju-Kötu í fararbroddi mun heimsækja tæknidaginn og þá verður boðið upp á skoðunarferð í Norðfjarðargöng. Dagskráin er vægast sagt fjölbreytt og er listi þátttakenda og dagskráratriða langur og forvitnilegur.

                Tæknidagurinn hefur tekist einkar vel til þessa og gestir verið fjölmargir. Í fyrra voru gestir til dæmis um sjö hundruð og má fullyrða að allir hafi þar fundið eitthvað áhugavert fyrir sig.

                Síldarvinnslan mun að sjálfsögðu taka fullan þátt í tæknideginum sem fyrr. Mun starfsemi fyrirtækisins verða kynnt með ýmsum hætti og gestum boðið að gæða sér á nokkrum framleiðsluvörum.