Allt í lagi nudd á kolmunnanum í Rósagarðinum

 Myndin er tekin í apríl s.l. þegar Börkur NK kom að landi með fullfermi af kolmuna. Ljósm. Hákon Ernuson Myndin er tekin í apríl s.l. þegar Börkur NK kom að landi með fullfermi af kolmuna. Ljósm. Hákon ErnusonBörkur NK kom til Neskaupstaðar með tæp 2000 tonn af kolmunna úr Rósagarðinum í fyrrinótt. Að sögn Sturlu Þórðarsonar skipstjóra var dálítið af kolmunna að sjá þarna. „Þetta var allt í lagi nudd hjá okkur. Við vorum að fá allt upp í 300 tonna hol en yfirleitt var dregið frá 12 og upp í 16 tíma,“ sagði Sturla.
 
Börkur hélt á ný til kolmunnaveiða í Rósagarðinum síðdegis í gær.

Síldveiðin að glæðast fyrir vestan

Birtingur NK kemur til löndunar. Ljósm. Hákon ErnusonBirtingur NK kemur til löndunar. Ljósm. Hákon ErnusonBirtingur NK kom til Neskaupstaðar í gær með 870 tonn af íslenskri sumargotssíld sem fékkst vestur af landinu. Þetta er þriðji síldarfarmurinn sem berst til Neskaupstaðar á vertíðinni en áður höfðu Bjarni Ólafsson AK og Börkur NK komið með síld til vinnslu. Að sögn Hálfdanar Hálfdanarsonar skipstjóra á Birtingi var aflinn tregur fyrstu daga veiðiferðarinnar en glæddist mjög undir lokin eða á fimmtudag og föstudag. „Það var eins og síldin væri að koma utan af hafi og það var miklu meira að sjá en áður þessa tvo síðustu daga sem við vorum á miðunum,“ sagði Hálfdan. „Líklega er hún bara seinna á ferðinni en undanfarin ár, ástandið í hafinu er þannig að allt virðist vera seinna á ferðinni. Við vorum að veiðum um 70 mílur vestur og vestnorðvestur af Reykjanesi og síldin sem fékkst var fín og átulaus. Hún ætti að henta vel til vinnslu. Fyrir okkur er 380 mílna stím heim af miðunum, það er dálítið langt, en svona er þetta bara,“ sagði Hálfdan að lokum.
 
Birtingur mun halda á ný til veiða strax að löndun lokinni í dag. 

Litadýrð hausthiminsins

Litadýrð hausthiminsins. Ljósm. Kristinn Agnar EiríkssonLitadýrð hausthiminsins. Ljósm. Kristinn Agnar EiríkssonVeðrið á Austurlandi í haust hefur verið afar gott og reyndar að verulegu leyti bætt upp kalt og heldur hryssingslegt sumar. Litadýrðin á himninum hefur oft verið einstök og unnt hefur verið að gleyma sér við að skoða roðann í austrinu á morgnana. Kristinn Agnar Eiríksson starfsmaður fiskimjölsverksmiðjunnar í Neskaupstað tók meðfylgjandi mynd sem sýnir dýrðina vel. Kristinn Agnar hefur starfað í fiskimjölsverksmiðjunni í 17 ár og gegnir þar mikilvægu hlutverki. Hann er áhugaljósmyndari og hefur næmt auga fyrir forvitnilegu myndefni.   
 

Bjarni Ólafsson AK með 1400-1500 tonn af kolmunna

Bjarni Ólafsson AK. Ljósm. Hákon ErnusonBjarni Ólafsson AK. Ljósm. Hákon ErnusonBjarni Ólafsson AK kemur til Neskaupstaðar í dag með 1400-1500 tonn af kolmunna. Að sögn Þorkels Péturssonar stýrimanns fékkst aflinn í sex holum í Rósagarðinum. „Við vorum fimm daga að veiðum en við fengum brælu í einn sólarhring og þá var ekki unnt að toga. Það er eitthvað að sjá þarna og gott að geta fiskað kolmunnann á þessum slóðum innan íslenskrar lögsögu,“ sagði Þorkell. 
 
Fleiri skip eru komin á kolmunnamiðin í Rósagarðinum, þar á meðal Börkur NK og Venus NS. Þegar haft var samband við Börk í morgun var skipið að toga í brælu. Að sögn Sturlu Þórðarsonar skipstjóra var aflinn orðinn 700 tonn og hafði hann fengist í þremur holum.