Síld kemur að vestan

SíldBirtingur NK er á leið til Neskaupstaðar með rúmlega 500 tonn af síld sem fékkst fyrir vestan land. Er skipið væntanlegt snemma í fyrramálið og hefst þá þegar vinnsla aflans. Sigurður Jóhannesson stýrimaður segir að um sé að ræða fallega síld en veiðin hafi gengið misjafnlega. „Aflinn fékkst í fimm holum en veiðarnar ganga upp og niður. Það finnast blettir en þeir eru fljótir að splundrast þannig að þetta er hittingur. Það er mikil ferð á síldinni og hún fer í ýmsar áttir. Eins og oft áður er snúið að eiga við hana. Það er hins vegar bót í máli að veðrið hefur verið fínt,“ sagði Sigurður.
 
Börkur NK er einnig að síldveiðum fyrir vestan. Að sögn Hjörvars Hjálmarssonar skipstjóra eru 740 tonn komin þar um borð í fimm holum. Segist Hjörvar reikna með að halda áfram veiðum í dag en leggja af stað austur í kvöld.

Átak í öryggismálum

Ásgrímur Ásgrímsson öryggisstjóri og Sigurður Ólafsson ráðgjafi. Ljósm. Hákon ErnusonÁsgrímur Ásgrímsson öryggisstjóri og Sigurður Ólafsson ráðgjafi. Ljósm. Hákon ErnusonNú stendur fyrir dyrum átak i öryggismálum hjá Síldarvinnslunni. Slysatíðni í fiskvinnslu á Íslandi er áhyggjuefni og vill Síldarvinnslan bretta upp ermar og tryggja að öryggi starfsmanna fyrirtækisins fái aukna vikt. Vinnan mun hefjast í fiskiðjuverinu í Neskaupstað, en svo fylgja aðrar starfsstöðvar í kjölfarið. Gerðar verðar nýjar áhættugreiningar og öll vinnubrögð á sviði öryggismála verða endurskoðuð frá grunni. Tveir sérfræðingar munu aðstoða við þessa vinnu: Sigurður Ólafsson, ráðgjafi hjá Gagnráðum ehf. og fyrrverandi fræðslustjóri Fjarðaáls og Ásgrímur Ásgrímsson, öryggisstjóri hjá Launafli. Báðir hafa þeir mikla reynslu og þekkingu á sviði öryggisstjórnunar í iðnaði. Í þeirri vinnu sem framundan er mun þátttaka starfsmanna og stjórnenda verða algert lykilatriði og eru starfsmenn hvattir til að taka þátt í vinnunni með opnum huga. 
 
Mikilvægt er að allir starfsmenn tileinki sér þær öryggisreglur sem fara á eftir og þær verði eðlilegur og sjálfsagður hluti af hinu daglega starfi. Umræddu átaksverkefni er meðal annars ætlað að efla hugsun um öryggismál og skerpa á þeim reglum sem gilda eiga á sviði málaflokksins frá degi til dags. 
 

Kolmunni og síld

Bjarni Ólafsson AK kemur til löndunar sl. vetur. Ljósm: Hákon ErnusonBjarni Ólafsson AK kemur til löndunar sl. vetur. Ljósm: Hákon ErnusonBjarni Ólafsson AK landaði 1250 tonnum af kolmunna í Neskaupstað aðfaranótt laugardags. Í kjölfar hans kom síðan Börkur NK og landaði 1000 tonnum. Aflinn fékkst í Rósagarðinum og segir Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri á Berki að veiðin hafi verið orðin þokkaleg undir lok veiðiferðarinnar. Að lokinni löndun hélt Bjarni Ólafsson til kolmunnaveiða á ný en Börkur sigldi vestur fyrir land til síldveiða. Hjörvar segir að þeir hafi komið á miðin í Jökuldýpinu í nótt og geri ráð fyrir að byrja að toga fljótlega. „Það var rólegt á miðunum í gær og enn rólegra í nótt en ágætis afli fékkst fyrir tveimur – þremur dögum. Þetta hlýtur að lagast á ný,“ sagði Hjörvar. „Birtingur var að kasta hér í Jökuldýpinu og við erum að nálgast hann. Þeir fengu 170 tonn í gær en það var lítið að hafa í nótt hjá þeim,“ sagði Hjörvar að lokum.
 

Polar Amaroq finnur loðnu víða en ís og bræla til vandræða

 Mynd tekin í síðustu veiðferð Polar Amaroq. Ís og veður hafa truflað loðnuveiðarnar. Ljósm.  Geir Zoёga Mynd tekin í síðustu veiðferð Polar Amaroq. Ís og veður hafa truflað loðnuveiðarnar. Ljósm. Geir ZoёgaGrænlenska uppsjávarskipið Polar Amaroq landaði fullfermi eða 640 tonnum af frosinni loðnu í Hafnarfirði sl. mánudag. Þeirri loðnu sem flokkaðist frá við vinnsluna var síðan landað í Helguvík. Aflinn fékkst í grænlensku lögsögunni norðvestur úr Straumnesi en undir lok veiðiferðarinnar lagðist ís yfir veiðisvæðið þar og þá fékkst ágætur afli á svæði sem var um 80 mílum norðaustar. Heimasíðan hafði samband við Geir Zoëga skipstjóra í morgun en þá var skipið í vari inni á Ísafjarðardjúpi á „Hótel Grænuhlíð.“ Í gær leitaði skipið loðnu djúpt út af Hornbjargi, um 30 mílur inn í grænlensku lögsöguna. „Þar var brjálað veður og hafís og það spáir brælu fram á sunnudag, þannig að við fórum bara á Hótel Grænuhlíð og höfum það huggulegt,“ sagði Geir. „Við fengum ágætan afla í síðasta túr og það var töluvert að sjá af loðnu en nú er svæðið sem við veiddum helst á komið undir ís og ég tel að loðnan sem var þar sé komin inn í íslenska lögsögu. Loðnan sem fékkst var ágæt, ekki síst sú loðna sem við fengum undir lok túrsins, en þá höfðum við fært okkur um 80 mílur vegna hafíssins. Í gær fórum við á svæði sem við höfum veitt á síðustu ár og þar vorum við komnir í lóð þegar við þurftum frá að hverfa vegna veðursins. Annars rákumst við á fínustu loðnutorfur inni í íslensku lögsögunni á útleiðinni í gær og eins þegar við sigldum í var. Það var verulega mikla loðnu að sjá í kantinum djúpt norður af Straumnesi í bakaleiðinni og í sannleika sagt virðist vera loðna mjög víða. Ég er býsna bjartsýnn eftir síðasta túr og þetta sem við sáum í gær. Þá virðist loðnan vera vel á sig komin. Það er helst að veðrið og ísinn séu að stríða okkur og koma í veg fyrir nótaveiðar, en það er ekkert nýtt.“ sagði Geir að lokum.