Togararnir landa

 Landað úr Barða NK sl. laugardag og fiski skipað um borð í flutningaskipið Scombrus. Ljóm. Kristinn Agnar Eiríksson Landað úr Barða NK sl. laugardag og fiski skipað um borð í flutningaskipið Scombrus. Ljóm. Kristinn Agnar EiríkssonTogararnir hafa komið til löndunar hver á fætur öðrum síðustu daga. Frystitogarinn Barði NK landaði í Neskaupstað sl. laugardag. Afli hans var um 360 tonn upp úr sjó og var uppistaðan ufsi, karfi og þorskur. Verðmæti aflans var um 130 milljónir króna. Theodór Haraldsson skipstjóri segir að farið hafi verið í kringum landið í veiðiferðinni. „Við byrjuðum fyrir austan í grálúðu en veiðin var dræm og við fengum of mikið af þorski. Síðan var siglt vestur í Reykjafjarðarál í ýsuleit en þar var frekar rólegt. Þá var haldið á Halann og helst reynt við ufsa. Þar vorum við megnið af túrnum en flúðum aftur í Reykjafjarðarálinn um tíma vegna veðurs. Það var þokkalegt nudd þarna fyrir vestan en undir lok túrsins héldum við suður fyrir land í djúpkarfa- og gulllaxleit. Síðan toguðum við á nokkrum stöðum á leiðinni austur og lokuðum hringnum þannig,“ sagði Theodór.
 
Ísfisktogarinn Bjartur NK landaði 100 tonnum í Neskaupstað í gær og var þorskur uppistaða aflans. Gullver NS landaði á Seyðisfirði í gær samtals 90 tonnum. Afli hans var blandaður en mest var af þorski og karfa.  Vestmannaey VE landaði 65 tonnum á Eskifirði sl. fimmtudag og sama dag landaði Bergey VE 50 tonnum í Vestmannaeyjum.
 
Steinþór Hálfdanarson skipstjóri á Bjarti segir að þokkaleg þorskveiði hafi verið að undanförnu en heldur lélegt hafi verið í öðrum tegundum, þó hafi ýsuafli heldur verið að glæðast . „Í túrnum núna fengum við til dæmis mjög góðan þorskafla síðasta sólarhringinn. Það var mjög mikið af honum á litlum bletti í Seyðisfjarðardýpinu. Við fengum líka dálítinn ufsa í Berufjarðarál. Í síðasta túr fengum við ágætt af ýsu hér við bæjardyrnar. Þetta gengur svona og veðrið setur alloft strik í reikninginn. Það var til dæmis bölvuð bræla í þessum túr,“ sagði Steinþór.

Síldarvinnslan færir 1. bekkingum í Nesskóla öryggisvesti að gjöf

Hákon starfsmannastjóri ásamt glöðum 1.bekkingum í öryggisvestunum. Ljósm. Guðlaug RagnarsdóttirHákon starfsmannastjóri ásamt glöðum 1.bekkingum í öryggisvestunum. Ljósm. Guðlaug RagnarsdóttirHinn 11. nóvember sl. færði Hákon Ernuson starfsmannastjóri Síldarvinnslunnar 1. bekkingum í Nesskóla gul öryggisvesti með endurskini að gjöf frá fyrirtækinu. Börnin í 1. bekk eru 25 að tölu og ríkti svo sannarlega mikil gleði þegar vestin voru afhent. Einar Már Sigurðarson skólastjóri segir að allir séu þakklátir fyrir þá umhyggju sem börnunum er sýnd með gjöfinni. „Það er svo mikilvægt að auka öryggi barnanna í skammdeginu, ekki síst þegar þau eru á leið í og úr skóla. Vestin gera það að verkum að börnin sjást vel þegar þau eru úti við gangandi eða hjólandi og óneitanlega eru menn rólegri þegar þau eru svona áberandi. Þessi gjöf er lofsvert framtak og vonandi nota börnin vestin sem mest,“ sagði Einar.
 

Hálf öld liðin frá því að Síldarvinnslan hóf útgerð

Börkur NK (núverandi Birtingur NK) að síldveiðum við Grundarfjörð. Ljósm. Kristófer Helgason Börkur NK (núverandi Birtingur NK) að síldveiðum við Grundarfjörð. Ljósm. Kristófer Helgason Á árinu 1963 tók stjórn Síldarvinnslunnar ákvörðun um að fyrirtækið skyldi hefja útgerð. Samþykkt var að festa kaup á 264 tonna fiskiskipi sem smíða átti í Austur-Þýskalandi og var gert ráð fyrir að það yrði afhent í nóvember 1964. Fékk skipið nafnið Barði en afhending þess dróst vegna þess að flutningaskip sigldi á það þegar farið var í reynslusiglingu á Elbufljóti og skemmdi mikið. Barði kom því ekki í fyrsta sinn til heimahafnar í Neskaupstað fyrr en 5. mars 1965. Áður en útgerð Barða hófst hafði Síldarvinnslan tekið Gullfaxa á leigu og gert hann út frá áramótum og fram á vor 1964 í þeim tilgangi að afla hráefnis fyrir fiskvinnslustöð Samvinnufélags útgerðarmanna.
 
Haustið 1964 samþykkti stjórn Síldarvinnslunnar að festa kaup á öðru skipi sem smíðað yrði í Austur-Þýskalandi. Þar var um að ræða systurskip Barða og hlaut það nafnið Bjartur. Bjartur kom í fyrsta sinn til heimahafnar í Neskaupstað rúmlega tveimur mánuðum eftir að Barði sigldi inn Norðfjörð í fyrsta sinn.
 
Börkur NK að loðnuveiðum 2015. Ljósm. Ísak Fannar SigurðssonBörkur NK að loðnuveiðum 2015. Ljósm. Ísak Fannar SigurðssonBarði og Bjartur voru smíðaðir sérstaklega með síldveiðar í huga enda var upphaflegur tilgangur með útgerð fyrirtækisins að afla síldarverksmiðju þess hráefnis. Útgerð bátanna gekk vel og á árunum 1966 og 1967 bættust tvö ný síldveiðiskip í flota Síldarvinnslunnar en þau voru smíðuð í Noregi. Þetta voru Börkur og Birtingur.
 
Fyrstu skipin í eigu Síldarvinnslunnar, Bjartur NK og Barði NK, að veiðum norður við Jan Mayen 1967. Ljósm. Kristinn V. Jóhannsson Fyrstu skipin í eigu Síldarvinnslunnar, Bjartur NK og Barði NK, að veiðum norður við Jan Mayen 1967. Ljósm. Kristinn V. Jóhannsson Hér verður útgerðarsaga fyrirtækisins ekki rakin en almennt má segja að rekstur skipa þess hafi gengið vel. Þá hefur Síldarvinnslan alloft fitjað upp á nýjungum á sviði útgerðar og stuðlað að ýmiss konar framförum. Að sjálfsögðu hefur skipastóll fyrirtækisins tekið breytingum og hefur oft þurft að aðlaga hann þeim sviptingum sem átt hafa sér stað á sviði veiða og vinnslu. Nú eru sex skip í flota Síldarvinnslunnar: Uppsjávarskipin Börkur, Beitir og Birtingur, ísfisktogarinn Bjartur og frystitogararnir Barði og Blængur. Þá gerir dótturfyrirtæki Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði, Gullberg, út ísfisktogarann Gullver og dótturfyrirtæki í Vestmannaeyjum, Bergur-Huginn, gerir út ísfisktogarana Vestmannaey og Bergey. Þá á Síldarvinnslan hlutdeild í uppsjávarskipinu Bjarna Ólafssyni og eins í grænlenska uppsjávarskipinu Polar Amaroq.
 
Frá því að útgerð Síldarvinnslunnar hófst hafa fimm skip borið nafnið Barði, tvö hafa borið nafnið Bjartur, fjögur Börkur, fjögur Birtingur, þrjú Beitir og tvö Blængur. Segja má að flotinn sé sífellt að taka breytingum og í desembermánuði er nýr Beitir væntanlegur í flotann og er það fjórða skipið sem ber það nafn. Þar er um að ræða stærsta uppsjávarskip sem Íslendingar hafa eignast, 4.138 tonn að stærð og er burðargeta þess liðlega 3.200 tonn.
Ísfisktogarinn Bjartur NK hefur verið í eigu Síldarvinnslunnar frá árinu 1973. Ljósm. Snorri SnorrasonÍsfisktogarinn Bjartur NK hefur verið í flota Síldarvinnslunnar frá árinu 1973. Ljósm. Snorri Snorrason

Endurskoðun starfsmannastefnu

 Endurskoðuð starfsmannastefna verður kynnt eftir áramót. Ljósm. Hákon Ernuson Endurskoðuð starfsmannastefna verður kynnt eftir áramót. Ljósm. Hákon ErnusonSíðustu mánuði hefur staðið yfir vinna við endurskoðun á starfsmannastefnu Síldarvinnslunnar. Nokkuð langt er um liðið frá því stefnan var endurskoðuð síðast og því orðið tímabært að dusta af henni rykið. „Markmiðið með endurskoðun starfsmannastefnunnar er að tryggja að við séum í takt við tímann“, segir Hákon Ernuson starfsmannastjóri. „Það skiptir fyrirtækið miklu máli að hafa á að skipa góðu fólki sem líður sem best í starfi og er hvatt til að gera sitt besta. Nýja stefnan á að skerpa fókusinn hvað það varðar,“ segir Hákon. Sigurður Ólafsson, ráðgjafi hjá Gagnráðum ehf, hefur unnið að endurskoðun stefnunnar í samstarfi við Hákon og hefur hann meðal annars tekið viðtöl við tugi starfsmanna víðsvegar um fyrirtækið. Nú stendur einnig yfir skoðanakönnun sem á að veita frekari upplýsingar um starfsánægju og álit starfsmanna á starfi sínu og munu þau gögn einnig nýtast við endurskoðunina. Mikilvægt er að sem flestir starfsmenn taki þátt í könnuninni, en allir starfsmenn hafa fengið sendan hlekk á könnunina í tölvupósti. Þátttakendur njóta nafnleyndar þegar þeir svara könnuninni og eru starfsmenn hvattir til að vera hreinskilnir í svörum sínum.