Léleg veiði eystra hjá togurunum

Gullver NS. Ljósm. Ómar Bogason.Gullver NS. Ljósm. Ómar Bogason.Að undanförnu hefur verið afar léleg veiði á hefðbundnum miðum Austfjarðatogaranna. Gullver NS kom til Seyðisfjarðar aðfaranótt þriðjudags með tæplega 85 tonn, en aflinn fékkst á Selvogsbanka. Barði NK var einnig að veiðum á Selvogsbanka og kom til Neskaupstaðar á þriðjudagsmorgun með rúmlega 100 tonn.

Skipstjóri á Gullver í veiðiferðinni var Þórhallur Jónsson og sló heimasíðan á þráðinn til hans. Sagði Þórhallur að ástandið á Austfjarðamiðum væri mjög dapurt og því þyrftu togararnir að leita á fjarlægari mið. „Það er nánast enginn þorskur hér fyrir austan og það litla sem fæst er lélegur fiskur. Fyrir um það bil mánuði kom þó dálítið skot í Litladýpi en það varaði afar stutt. Þar fékkst þó góður þorskur. Við á Gullver og Barði NK og Ljósafell SU höfum reynt fyrir okkur á hefðbundnum Austfjarðamiðum að undanförnu en afar lítið hefur fengist. Þess vegna hafa allir þessir togarar veitt á Selvogsbankanum. Það er í reyndinni bölvað að þurfa að sækja svona langt – við erum hátt í 60 tíma á stími í hverjum túr og höfum þá einungis tvo og hálfan sólarhring til að veiða. Á Selvogsbanka hafa komið góð veiðiskot og þar hefur fengist bæði góður þorskur og ufsi. Við trúum því að ástandið á Austfjarðamiðum sé tímabundið og hljóti að fara að breytast til batnaðar. Þorskurinn þarf að fara að sýna sig á okkar hefðbundnu miðum,“ sagði Þórhallur.

Kolmunnaskipin á leið í færeysku lögsöguna

Haldið til kolmunnaveiða í færeysku lögsögunni. Ljósm. Tómas KárasonHaldið til kolmunnaveiða í færeysku lögsögunni. Ljósm. Tómas KárasonBeitir NK og grænlenska skipið Polar Amaroq létu úr höfn í Neskaupstað í gærkvöldi og héldu til kolmunnaveiða í færeysku lögsögunni. Bjarni Ólafsson AK hefur legið á Seyðisfirði undanfarna daga og hann mun sigla í kjölfar fyrrnefndu skipanna í dag.

Börkur NK var í slipp í Færeyjum en fór niður úr slippnum sl. mánudag og hefur síðan legið í Runavík. Heimasíðan sló á þráðinn til Hjörvars Hjálmarssonar skipstjóra á Berki. „Við erum farnir að hugsa okkur til hreyfings en í sannleika sagt er ekki spáð mjög góðu veðri næstu daga. Færeysku skipin liggja öll í landi og Færeyingarnir eru hinir rólegustu ennþá. Miðað við síðustu ár ætti kolmunninn að fara að ganga inn í færeyska lögsögu. Í fyrra hófust veiðar 8. apríl en oft hafa þær ekki byrjað fyrr en um miðjan mánuð. En þetta er örugglega alveg að fara að koma. Við liggjum hér í Runavík og erum að dytta að ýmsu um borð; hér er málað og snyrt,“ sagði Hjörvar.

 

Hvar voru hvalirnir á loðnuvertíðinni?

Hnúfubakar sáust vart á nýliðinni loðnuvertíð og er það mikil breyting frá síðustu vertíðum. Ljósm. VísindavefurinnHnúfubakar sáust vart á nýliðinni loðnuvertíð og er það mikil breyting frá síðustu vertíðum. Ljósm. VísindavefurinnÁ loðnuvertíðum síðustu ára hafa hvalir valdið veiðiskipunum miklum vandræðum. Hvalamergð hefur fylgt loðnugöngunum og hvað eftir annað hafa skipin lent í veiðarfæratjóni vegna hvala. Á nýliðinni vertíð var hins vegar annað uppi á tengingnum; hvalir voru sjaldséðir og úti fyrir suðurströndinni og fyrir vestan land sáust nánast engir hvalir. Undir lok vertíðar fréttist eitthvað af hvölum úti fyrir Húnaflóa og Vestfjörðum en fjöldi þeirra var hverfandi miðað við síðustu ár. Heimasíðan sló á þráðinn til Geirs Zoёga skipstjóra á Polar Amaroq og spurði hann hvort þeir á Polar hefðu veitt þessari breytingu athygli, en Polar Amaroq var við loðnuleit í janúar sl. og í byrjun febrúar auk þess að stunda veiðar á vertíðinni. Geir sagði að breytingin hvað þetta varðar hefði verið sláandi. „Þegar við vorum að leita fyrir norðan land núna í byrjun árs sáum við einn og einn hval en á undanförnum vertíðum hefur hvalafjöldinn á þeim slóðum verið ótrúlega mikill. Þegar komið var suður fyrir Langanes sást varla nokkur hvalur núna á vertíðinni. Ég man að við sáum hvali við Skrúð og síðan aftur við Stokksnes en þeir voru sárafáir. Það voru hnúfubakar sem þarna sáust. Eftir það sáum við engan hval, sem er mikil breyting frá síðustu vertíðum en þá hefur hvalurinn fylgt loðnunni alveg inn í Faxaflóa. Á síðustu vertíðum hefur verið gnótt hvala og menn hafa fundið loðnu með því að fylgjast með hvalagegnd. Hvalafjöldinn var stundum ótrúlegur – menn hafa geta talið hundruð hvala samtímis og hafflöturinn hefur verið eins og gríðarstórt hverasvæði vegna hvalablástursins. Á næturna höfum við síðan heyrt í þeim. Það heyrast drunur þegar þeir blása sem enda síðan í einskonar hvissi. Á undanförnum vertíðum hafa menn þurft að gæta sín mjög þegar kastað er á loðnuna því það er grafalvarlegt að fá hnúfubak í nótina. Og ég man eftir því að á vertíðinni 2013 fengum við einu sinni hvorki fleiri né færri en fimm hnúfubaka í nótina. Það var svo sannarlega slæmt mál. Núna velta menn því fyrir sér hvað hefur breyst. Hvar hélt hvalurinn sig á nýliðinni loðnuvertíð ? Er unnt að finna einhverjar skynsamlegar skýringar á því hvers vegna hann fylgdi ekki meginloðnugöngunni eins og hann hefur gert í svo ríkum mæli síðustu ár ?,“spurði Geir Zoёga að lokum.

Heimasíðan hafði samband við Dr. Gísla Víkingsson hvalasérfræðing á Hafrannsóknastofnun og bað hann að svara þeim spurningum sem Geir Zoёga varpaði fram hér að framan. Gísli sagði mjög athyglisvert hve breytingin væri mikil hvað varðaði fjölda hvala á loðnumiðunum. Miðað við lýsingar væri breytingin mjög afgerandi. „Það er erfitt að segja til um hvað gæti valdið þessu. Haustið 2015 fór fram hvalatalning á loðnumiðum samhliða mælingum á stærð loðnustofnsins. Niðurstöður hennar voru að á svæðinu hefðu verið um 7 þúsund hnúfubakar auk um 5 þúsund langreyða. Í sambærilegum talningum haustið 2016 fannst mun minni loðna, og veður hamlaði mjög hvalatalningum. Þar sem loðnu var að finna virtist þó þéttleiki hvala vera svipaður og haustið áður. Hvalurinn var í stærri hópum og ekki eins dreifður og 2015. Ekki voru taldir hvalir í loðnuleiðöngrum í janúar og febrúar 2017, en starfsmenn Hafrannsóknastofnunar höfðu þó heyrt frá loðnusjómönnum að minni hvalur væri á loðnumiðunum en undanfarin ár. Hugsanlega hefur hnúfubakurinn fundið loðnu eða aðra fæðu utan hefðbundinna svæða en án frekari upplýsinga er einungis hægt að geta sér til um ástæðurnar. Hvalatalningar að vetrarlagi eru erfiðar vegna myrkurs og veðurlags, en gervitunglamerkingar gætu varpað ljósi á ferðir hvalanna á þessum árstíma,“ sagði Gísli.

Síldarvinnslan færir LungA - skólanum gamla netagerðarhúsið að gjöf

Frá afhendingu gömlu netagerðarinnar. Talið frá vinstri: Gunnar Sverrisson verksmiðjustjóri, Lasse Høgenhof skólastjóri, Gunnþór B. Ingvason framkvæmdastjóri og Snorri Jónsson framleiðslu- og yfirverkstjóri. Ljósm. Hákon ErnusonFrá afhendingu gömlu netagerðarinnar. Talið frá vinstri: Gunnar Sverrisson verksmiðjustjóri, Lasse Høgenhof skólastjóri, Gunnþór B. Ingvason framkvæmdastjóri og Snorri Jónsson framleiðslu- og yfirverkstjóri. Ljósm. Hákon ErnusonMánudaginn 27. mars afhenti Síldarvinnslan LungA – skólanum á Seyðisfirði gamla netagerðarhúsið á staðnum að gjöf. Húsið er stórt en gamalt og þarfnast verulegs viðhalds. LungA- skólinn er alþjóðlegur listaskóli sem hefur fest rætur og setur mikinn svip á bæjarlífið á Seyðisfirði yfir vetrarmánuðina. Lasse Høgenhof skólastjóri sagði í samtali við heimasíðuna að það væri ómetanlegt fyrir skólann að eignast gamla netagerðarhúsið. „Það er draumur að rætast með því að skólinn eignist þetta hús og við erum Síldarvinnslunni afar þakklát fyrir gjöfina. LungA – skólinn hefur starfað í þrjú ár og hefur vaxið og dafnað. Innan skólans er sinnt alls konar list og eitt af því sem skólinn þarf er mikið rými og það fáum við í gamla netagerðarhúsinu. Í húsinu verður komið upp fjölbreyttum vinnustofum sem munu nýtast skólanum afar vel. Auðvitað er húsið gamalt og það þarf að bæta útlit þess en það er verkefni sem þarf að fást við síðar. Það er í einu orði sagt frábært fyrir skólann að fá þessa gjöf,“ sagði Lasse Høgenhof.

Gunnþór B. Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar sagði að það væri ánægjulegt að gamla netagerðarhúsið gæti komið að gagni. „Við höfum fylgst með starfi Lunga – skólans og það er einstaklega metnaðarfullt. Síldarvinnslan vill styðja við bakið á skólanum og hvetja hann til góðra verka og það er frábært að geta orðið að liði og stuðlað að eflingu hans. Það er okkar von að skólinn dafni og honum nýtist þetta húsnæði til kennslu og listsköpunar,“ sagði Gunnþór.

Afar góð loðnuvertíð – Síldarvinnslan tók á móti 81 þúsund tonnum

Börkur NK á loðnuveiðum á nýliðinni vertíð. Ljósm. Sigurjón M. JónusonBörkur NK á loðnuveiðum á nýliðinni vertíð. Ljósm. Sigurjón M. JónusonSegja má að nýliðin loðnuvertíð hafi verið afar góð og komið þægilega á óvart miðað við spár. Í hlut íslenskra skipa komu 193 þúsund tonn og hófust veiðar þeirra seint vegna sjómannaverkfalls. Erlend skip, einkum norsk, lögðu stund á loðnuveiðar hér við land áður en íslenski flotinn gat hafið veiðar og lönduðu þau 58.000 tonnum í íslenskum höfnum. Þannig að samtals voru unnin um 254.000 tonn á vertíðinni.

Reikna má með að framleidd hafi verið um 39.000 tonn til manneldis á vertíðinni, hrogn og heilfryst loðna, mest fyrir Asíumarkað. Áætluð verðmæti þeirrar framleiðslu eru 136 milljónir dollara og verðmæti mjöls og lýsis 75 milljónir dollara. Þannig að verðmæti vertíðarinnar í heild er 212 milljónir dollara eða rúmlega 23 milljarðar íslenskra króna samkvæmt gengi 15. mars sl. Ef hér væri miðað við gengið 15. mars 2016 hefði verðmæti vertíðarinnar verið 27 milljarðar króna.

Veiðar gengu mjög vel hjá Síldarvinnsluskipunum á nýliðinni vertíð enda mikið af loðnu í sjónum og einmuna veðurblíða allan vertíðartímann. Að auki var loðnan óvenju stór og vel á sig komin. Beitir NK veiddi 13.286 tonn á vertíðinni, Börkur NK 13.464 tonn og Bjarni Ólafsson AK 8.688 tonn. Norsk skip lönduðu alls 6.500 tonnum til vinnslu í fiskiðjuverinu í Neskaupstað á tímabilinu 5. – 17. febrúar.

Í Neskaupstað lönduðu Vilhelm Þorsteinsson EA og grænlenska skipið Polar Amaroq sjófrystri loðnu, alls 1.750 tonnum. Vilhelm landaði 388 tonnum og Polar 1.362 tonnum.

Alls tók Síldarvinnslan á móti 81.020 tonnum af loðnu á vertíðinni sem var að ljúka þegar sjófryst loðna er meðtalin. Til samanburðar má geta þess að fyrirtækið tók á móti 43.368 tonnum á vertíðinni í fyrra og 138.230 tonnum á vertíðinni 2015.

Hjá Síldarvinnslunni voru fryst 11.400 tonn af loðnu og loðnuhrognum fyrir ýmsa markaði, en mun meira hefði verið fryst ef Rússlandsmarkaður væri opinn. Öll frystingin fór fram í fiskiðjuverinu í Neskaupstað ef undan er skilinn hluti hrognanna sem unnin var í Helguvík í samvinnu við Saltver ehf. í Reykjanesbæ. Á vertíðinni í fyrra frysti Síldarvinnslan 15.287 tonn af loðnu og loðnuhrognum og 12.105 tonn á vertíðinni 2015.

Fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar tóku á móti 67.870 tonnum á vertíðinni. Verksmiðjan í Neskaupstað tók á móti 33.180 tonnum, verksmiðjan á Seyðisfirði 18.630 tonnum og verksmiðjan í Helguvík 16.060 tonnum.

Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar segir að menn geti verið býsna ánægðir með vertíðina. „Það spilaðist vel úr þessu. Veiðar gengu einstaklega vel enda veður hagstætt alla vertíðina. En við aðstæður eins og þessar reyndi á sterk fyrirtæki, öfluga sjómenn og góða starfsmenn í landi. Það reynir mjög á þolrifin hjá öllum sem koma að svona vertíð, þetta er mikil törn. Árið hófst með erfiðu verkfalli sem reyndi mjög á starfsmenn Síldarvinnslunnar, bæði til sjós og lands. Ég tel að það hafi verið mikil gæfa fyrir greinina að samningar skyldu nást án aðkomu þriðja aðila. Það hjálpaði okkur klárlega við að ljúka þessari loðnuvertíð með þeim hætti sem gert var. Það þurfa allir að róa í sömu áttina ef vertíð eins og þessi á að takast vel, samtakamátturinn skiptir þar öllu máli. Ég ætla ekki að gagnrýna fiskifræðingana okkar, enda held ég að þeir hafi fullan hug á að komast að því hvar blessuð loðnan heldur sig og hvaðan hún kom upp að landinu. Við hófum árið þannig að varla var gert ráð fyrir að nokkur loðnuvertíð yrði í ár. Það er okkar allra hagur að rannsóknir á loðnustofninum verði efldar mikið og við skulum vera minnug þess að það munaði minnstu að nýliðin loðnuvertíð færi hjá garði. Okkur ber að haga rannsóknum á sjávarauðlindinni þannig að öruggt sé að hún sé nýtt með sjálfbærum hætti en ef við vannýtum fiskistofnana vegna skorts á rannsóknum þýðir það lakari lífskjör í landinu,“ sagði Gunnþór.

Vestmannaey hefur aflað rúmlega 33 þúsund tonn á 10 árum

 Vestmannaey VE-444. Ljósm. Guðmundur Alfreðsson Vestmannaey VE-444. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonUm þessar mundir eru liðin 10 ár frá því að Vestmannaey VE 444 landaði sínum fyrsta farmi í Vestmannaeyjum. Eigandi skipsins er útgerðarfélagið Bergur – Huginn ehf. sem er dótturfyrirtæki Síldarvinnslunnar hf. Vestmannaey var smíðuð í Póllandi árið 2007 og er svonefndur þriggja mílna bátur, 291 tonn að stærð og 29 metrar að lengd. Systurskip Vestmannaeyjar, Bergey VE 544, kom síðan nýtt til landsins í ágústmánuði sama ár. Bæði Vestmannaey og Bergey hafa reynst mikil happaskip og alla tíð aflað einstaklega vel.

Útgerðarfélagið Bergur – Huginn ehf. var stofnað í árslok 1972 í þeim tilgangi að láta smíða skuttogara í Japan og gera hann síðan út. Þessi togari kom til landsins snemma árs 1973 og bar nafnið Vestmannaey. Bergur – Huginn gerði Japanstogarann út allt til ársins 2005 ásamt fleiri skipum. Þegar Vestmannaey og Bergey komu til landsins árið 2007 urðu skipin í flota fyrirtækisins þrjú, en fyrir var Smáey VE 144. Smáey var síðan seld árið 2012 enda var kvóti félagsins ekki nægur til að unnt væri að fullnýta öll skipin.

Afli Vestmannaeyjar á þessum 10 árum er rúmlega 33.000 tonn og aflaverðmætið rúmlega 8,5 milljarðar króna. Skipstjóri frá upphafi hefur verið Birgir Þór Sverrisson. Heimasíðan sló á þráðinn um borð og ræddi við Birgi þar sem skipið var á ýsuveiðum á Síðugrunni. „ Já við erum að eltast við ýsu núna og það hefur gengið ágætlega. Annars hafa aflabrögðin verið ævintýralega góð frá því að verkfallinu lauk. Hjá okkur hafa veiðiferðirnar gjarnan verið einn og hálfur til tveir sólarhringar og sá tími hefur dugað okkur til að fá 60-90 tonn. Við höfum komið með fullan bát aftur og aftur. Hjá okkur er aflinn blandaður, en oft er uppistaðan þorskur. Það virðist vera nóg af fiski og vertíðarþorskurinn gekk á sín helstu svæði fyrr en oftast áður. Frá verkfalli höfum við fiskað tæplega 900 tonn og aflaverðmætið er um 175 milljónir króna. Þetta hefur verið veisla,“ sagði Birgir.

Birgir Þór Sverrisson skipstjóri. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonBirgir Þór Sverrisson skipstjóri. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonÞegar Birgir er spurður út í skipið og þann ágæta árangur sem náðst hefur á því á sl. 10 árum segir hann Vestmannaey hafi reynst afurða vel frá upphafi. „Skipið er frábært og það hefur fiskast vel á það frá fyrsta degi. Þetta er gott sjóskip, vinnuaðstaða um borð er góð og lestarrýmið gott. Þá er skipið afar hagstætt í rekstri. Í stuttu máli sagt þá er þetta vel lukkað skip í alla staði,“ sagði Birgir að lokum.

Systurskip Vestmannaeyjar, Bergey, hóf veiðar um fimm mánuðum á eftir Vestmannaey. Útgerð þess skips hefur verið svipuð og systurskipsins og á það hefur ávallt aflast vel. Um þessar mundir er afli Bergeyjar frá upphafi um 30.000 tonn og aflaverðmæti tæplega 8 milljarðar króna. Skipstjóri á Bergey sex fyrstu árin var Sigurður Guðbjörn Sigurjónsson en þegar hann fór í land tók Jón Valgeirsson við en Jón hafði áður verið stýrimaður á skipinu. Nánar verður fjallað um útgerð Bergeyjar þegar liðinn verður áratugur frá því hún hóf veiðar.

 

 

Viljayfirlýsing sem stuðlar að aukinni notkun endurnýjanlegrar orku í fiskimjölsiðnaði

Jón Már Jónsson formaður Félags íslenskra fiskmjölsframleiðenda og Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar undirrita viljayfirlýsingunaJón Már Jónsson formaður Félags íslenskra fiskmjölsframleiðenda og Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar undirrita viljayfirlýsingunaÍ gær var undirrituð viljayfirlýsing Landsvirkjunar og Félags íslenskra fiskmjölsframleiðenda sem felur í sér aukna möguleika fiskimjölsverksmiðja til að nýta endurnýjanlega orku í stað olíu. Á undanförnum árum hefur verið unnið að rafvæðingu fiskimjölsverksmiðja og hafa þær keypt skerðanlegt rafmagn frá raforkusölum sem Landsvirkjun hefur selt á heildsölumarkaði. Framboð á slíku rafmagni hefur oft verið takmarkað og eins hefur eftirspurn eftir því verið sveiflukennd. Því hefur oft reynst nauðsynlegt að nýta olíu sem aflgjafa í verksmiðjunum.
 
Það voru Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar og Jón Már Jónsson formaður Félags íslenskra fiskmjölsframleiðenda sem undirrituðu viljayfirlýsinguna í nýuppgerðu Marshallhúsi í Reykjavík. Með henni er mörkuð sú skýra stefna að nýta raforku í auknum mæli í fiskimjölsiðnaðinum og gera hann umhverfisvænni. Með aukinni notkun rafmagns og minni notkun á olíu í verksmiðjunum er dregið úr losun koltvísýrings og þar með stuðlað að því að skuldbindingar Íslands á sviði loftslagsmála náist.
 
Í viljayfirlýsingunni lýsir Landsvirkjun því yfir að fyrirtækið muni á næstu árum stuðla að auknu framboði á skerðanlegu rafmagni á heildsölumarkaði og það rafmagn mun þá standa fiskimjölsframleiðendum til boða. Tekið er fram að framboð á slíku rafmagni muni þó ráðast af aðstæðum í vatnsbúskap hverju sinni og getur því sætt takmörkunum. Olía þarf því áfram að vera varaaflgjafi í fiskimjölsverksmiðjunum. Um leið og Landsvirkjun hyggst bjóða upp á aukið skerðanlegt rafmagn lýsir Félag íslenskra fiskmjölsframleiðenda því yfir að það ætlar að stuðla að því að starfsemi verksmiðjanna verði gerð eins umhverfisvæn og kostur er og skerðanlegt rafmagn verði notað í eins ríkum mæli og unnt er í stað olíu.
 
Nú mun um 75% af orkuþörf fiskimjölsverksmiðja vera rafvædd og er álitið raunhæft að það hlutfall geti farið upp í 85%. Til þess að ná fullri rafvæðingu þarf hins vegar að koma til verulegra fjárfestinga í flutningskerfi raforku í landinu.
 
Jón Már Jónsson, formaður Félags íslenskra fiskmjölsframleiðenda, segir að þessi viljayfirlýsing sé stórt skref í þá átt að takast megi að fullnýta þá fjárfestingu í rafvæðingu verksmiðjanna sem þegar hefur verið ráðist í. Yfirlýsingin gerir það að verkum að hans mati að félagið getur með góðri samvisku hvatt félagsmenn sína til að nota umhverfisvænt skerðanlegt rafmagn umfram olíu. Þá vildi Jón Már þakka Landsvirkjun góða samvinnu við gerð yfirlýsingarinnar og sagðist vona að andinn sem ríkti við gerð hennar næði til allra þeirra aðila sem kæmu að sölu á rafmagni til verksmiðjanna. Benti Jón Már á að verksmiðjurnar hefðu náð miklum árangri á þessu sviði á undanförnum árum. „Sem dæmi má nefna að á árinu 2007 tóku verksmiðjurnar á móti 755 þúsund tonnum af hráefni og notuðu 28 milljónir lítra af olíu. Á árinu 2015 tóku þær á móti 780 þúsund tonnum af hráefni en þá voru einungis notaðir 11,5 milljón lítrar af olíu en þeim mun meira af endurnýjanlegri og umhverfisvænni orku,“ sagði Jón Már að lokum.  
 

Hlé á kolmunnaveiðum

Kolmunnaskipin sem landa hjá Síldarvinnslunni hafa nú gert hlé á veiðum. Á myndinni eru Polar Amaroq og Beitir NK á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar Bogason.Kolmunnaskipin sem landa hjá Síldarvinnslunni hafa nú gert hlé á veiðum. Á myndinni eru Polar Amaroq og Beitir NK á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar Bogason.Kolmunnaveiðar íslenskra skipa hófust að lokinni loðnuvertíð. Veiðisvæðið var vestur af Írlandi í um það bil 650 mílna fjarlægð frá austfirskum höfnum. Í fyrstu gengu veiðarnar sæmilega og landaði Vilhelm Þorsteinsson EA 1.760 tonnum í Neskaupstað sl. þriðjudag. Seinni hluta síðustu viku dró mikið úr veiðinni og var kolmunninn þá að ganga inn í írska lögsögu þar sem íslensku skipin hafa ekki heimild til veiða. Skipin sem landa afla sínum hjá Síldarvinnslunni hættu veiðum undir lok vikunnar og komu til löndunar um nýliðna helgi. Börkur NK landaði 1.830 tonnum í Neskaupstað og Margrét EA er að landa þar 800 tonnum. Beitir NK landaði 1.320 tonnum á Seyðisfirði og þar er nú verið að landa 1.250 tonnum úr Bjarna Ólafssyni AK.

Hjá þessum skipum verður nú gert hlé á kolmunnaveiðum og þess beðið að fiskurinn gangi inn í færeyska lögsögu. Það gæti gerst snemma í aprílmánuði ef miðað er við reynslu fyrri ára.

Polar Amaroq var aflahæsta skipið á loðnuvertíðinni en þátttaka í loðnuleit stendur þó uppúr

Polar Amaroq. Ljósm. Hákon ErnusonPolar Amaroq. Ljósm. Hákon ErnusonGrænlenska skipið Polar Amaroq var aflahæsta skipið á nýliðinni loðnuvertíð. Aflinn var 16.179 tonn. Geir Zoёga skipstjóri segir að vertíðin hafi verið draumi líkust og þeir á Polar hafi ávallt aðeins þurft að taka 2-4 köst til að fylla skipið sem lestar 2.500 tonn. Þá segir hann að veðrið hafi ekki skemmt fyrir – það hafi nánast verið samfelld blíða alla vertíðina. Geir segist hafa verið á loðnu í 15 vertíðir en hann hafi aldrei séð annað eins magn af loðnu á ferðinni og á þessari vertíð. „Þetta var í reyndinni frábær vertíð frá A til Z og nánast ekki hægt að finna á henni neina galla. Mér fannst þó ekki veiðarnar standa upp úr heldur loðnuleitin, en við á Polar tókum þátt í báðum loðnuleitarleiðöngrunum sem Hafrannsóknastofnun efndi til eftir áramótin. Sérstaklega er leiðangurinn frá því í febrúar eftirminnilegur en þá mældist loks veruleg loðna og við mældum mestan hluta hennar. Samstarfið við Hafró í þessum leiðöngrum var hreint út sagt frábært og ég held að nú sé öllum ljóst að það er unnt að nota veiðiskip til loðnuleitar. Athyglisvert var einnig að við urðum nánast ekkert varir við hval á vertíðinni. Það sást aðeins hvalur við Stokksnes en svo hvarf hann gjörsamlega,“ sagði Geir.
 
Geir segir að kolmunnaveiðar séu næst á dagskrá hjá Polar Amaroq en skipið eigi 14.000 tonna kolmunnakvóta. „Svo erum við auðvitað farnir að hugsa um síld- og makrílveiðarnar í sumar og þær verða spennandi,“ sagði Geir að lokum.  

Tímamótaárið 1965

Tímamótaárið 1965Í tilefni þess að Síldarvinnslan verður 60 ára hinn 11. desember nk. munu birtast pistlar um sögu fyrirtækisins á heimasíðunni af og til út árið. Hér verður fjallað um árið 1965 en þá urðu grundvallarbreytingar á starfsemi Síldarvinnslunnar.

Á fyrstu starfsárum Síldarvinnslunnar var öll áhersla lögð á rekstur síldarverksmiðjunnar sem tók til starfa árið 1958 en á því varð grundvallarbreyting á árinu 1965. Segja má að á því ári hafi orðið skýr þáttaskil í starfsemi fyrirtækisins en þá hóf Síldarvinnslan útgerð eigin skipa auk þess að festa kaup á framleiðslutækjum Samvinnufélags útgerðarmanna og hefja rekstur þeirra. Segja má að á þessu ári hafi Síldarvinnslan breyst og orðið að fjölþættu útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki.

Barði NK-120, fyrsta skipið í eigu Síldarvinnslunnar. Ljósm. Guðmundur SveinssonBarði NK-120, fyrsta skipið í eigu Síldarvinnslunnar. Ljósm. Guðmundur SveinssonStjórn Síldarvinnslunnar ákvað í árslok 1963 að hefja útgerð og var þá samþykkt að festa kaup á 264 tonna fiskiskipi sem smíðað var í Austur Þýskalandi. Ráðgert var að afhenda skipið eigandanum í nóvember 1964. Um leið og ákveðið var að festa kaup á skipinu var samþykkti stjórnin að Síldarvinnslan tæki Gullfaxa NK á leigu frá áramótum til vors í þeim tilgangi að aðstoða við öflun hráefnis fyrir fiskvinnslustöð Samvinnufélags útgerðarmanna. Hið nýja skip Síldarvinnslunnar fékk nafnið Barði og þegar það var í reynslusiglingu á Elbufljóti 20. desember 1964 henti það óhapp að flutningaskip sigldi á það. Skemmdist Barði mikið við ásiglinguna en engin alvarleg meiðsl urðu á mönnum. Verulegan tíma tók að lagfæra skemmdirnar og því kom Barði ekki til heimahafnar í Neskaupstað í fyrsta sinn fyrr en 5. mars 1965. Í októbermánuði 1964 hafði stjórn Síldarvinnslunnar ákveðið að láta smíða annað skip fyrir fyrirtækið. Um var að ræða systurskip Barða sem hlaut nafnið Bjartur. Bjartur kom nýr til Neskaupstaðar 14. maí 1965. Bæði skipin voru sérstaklega smíðuð með síldveiðar í huga enda síldarævintýri í hámarki á Austfjörðum.

Í marsmánuði 1965 var formlega gengið frá kaupum Síldarvinnslunnar á framleiðslustækjum Samvinnufélags útgerðarmanna. Um var að ræða hraðfrystihús, fiskimjölsverksmiðju, aðstöðu til söltunar á fiski, fiskhjalla og ýmsar aðrar eignir ásamt helmingshlut í síldarsöltunarstöðinni Ás. Samvinnufélag útgerðarmanna átti meirihluta í Síldarvinnslunni en þegar þarna var komið sögu gekk starfsemi félagsins erfiðlega og því varð niðurstaðan sú að Síldarvinnslan festi kaup á framleiðslustækjum þess og hæfi rekstur þeirra. Með kaupunum hóf Síldarvinnslan að sinna bolfiskvinnslu af ýmsu tagi og einnig síldarsöltun. Eftir kaupin var söltunarstöðin nefnd síldarsöltunarstöð SVN. 

Fiskvinnslustöðin og síldarsöltunnarstöðin sem Síldarvinnslan festi kaup á árið 1965. Ljósm. v.LindenFiskvinnslustöðin og síldarsöltunnarstöðin sem Síldarvinnslan festi kaup á árið 1965.
Ljósm. v.Linden
Árið 1965 voru einungis fryst 175 tonn af bolfiski í fiskvinnslustöðinni en hins vegar 1.679 tonn af síld. Bolfiskframleiðslan var óvenju lítil en síldarfrysting hafði aldrei verið meiri í Neskaupstað. Á síldarvertíðinni þetta ár voru saltaðar 11.514 tunnur á síldarsöltunarstöð SVN.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Blængur NK úr fyrsta túr að loknum endurbótum

Löndun úr Blængi NK á Akureyri í gær. Ljósm. Bjarni Ólafur HjálmarssonLöndun úr Blængi NK á Akureyri í gær. Ljósm. Bjarni Ólafur HjálmarssonFrystitogarinn Blængur NK landaði í gær 10.000 kössum af frystum fiski á Akureyri en áður hafði skipið millilandað 1.100 kössum hinn 6. mars. Veiðiferðin hófst 22. febrúar og var hin fyrsta eftir gagngerar endurbætur á skipinu. Heimasíðan ræddi við Bjarna Ólaf Hjálmarsson skipstjóra og Theodór Haraldsson stýrimann og spurði hvernig túrinn hefði gengið. Þeir sögðu að hann hefði gengið vel og fyrir lægi unnt væri að ná afbragðs árangri á skipinu hvað varðaði veiði. Byrjað var að fiska á Austfjarðamiðum og síðan haldið norður fyrir land og þaðan vestur á Hala. Á Halanum var fín ufsaveiði. Þaðan var haldið suður fyrir land í karfa og þar fékkst góður afli á tveimur sólarhringum. Aflinn í veiðiferðinni var um 450 tonn upp úr sjó og var uppistaða hans ufsi og karfi. Sögðu þeir Bjarni Ólafur og Theodór að unnt hefði verið að fiska mun meira, en eðlilega hefði þurft að lagfæra ýmislegt á vinnsludekkinu og afköstin þar ekki alltaf verið upp á það besta. Nánast hvern einasta dag hafi skipið verið látið reka á meðan aflinn var unninn.

Sögðu þeir félagar að vandamálunum á millidekkinu hefði stórlega fækkað í veiðiferðinni. Fyrst var farið inn til Neskaupstaðar og nokkrar lagfæringar gerðar og eins var ýmislegt lagfært á Akureyri þegar þar var millilandað. Á millidekkinu er mikill og flókinn búnaður sem tekur tíma til að fá að virka eins og menn vilja. Þessa dagana eru starfsmenn Slippsins á Akureyri að sníða síðustu vankantana af búnaðinum og eins er þar Norðmaður sem vinnur við að forrita nýja plastbrettavefju sem er um borð. Þegar vefjan verður komin í gagnið verður hvert bretti plastað á millidekkinu áður en það fer niður í frystilestina.

Þeir Bjarni Ólafur og Theodór sögðu að áhöfninni litist mjög vel á vinnsludekkið og menn hefðu tröllatrú á því að afköst yrðu þar góð í framtíðinni þegar reynslu hefði verið aflað og einstaka agnúar sniðnir af. Þá sögðu þeir einnig að skipið væri afar gott eftir endurbæturnar. Það væri öflugt til veiða og mjög gott sjóskip auk þess sem allur aðbúnaður um borð væri hinn ágætasti.

Rallinu lokið hjá Barða

Barði NK hefur lokið rallinu í ár. Ljósm. Smári GeirssonBarði NK hefur lokið rallinu í ár. Ljósm. Smári GeirssonBarði NK kom til hafnar í Neskaupstað aðfaranótt sunnudags og hafði þá lokið sínu hlutverki í hinu árlega ralli Hafrannsóknastofnunar. Barði hélt í rallið 28. febrúar og má segja að verkefni hans hafi gengið samkvæmt áætlun. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri segir að fyrri hluti rallsins hafi gengið einstaklega vel enda menn heppnir með veður. „Seinni hlutinn var heldur erfiðari en þá var veðrið óhagstæðara,“sagði Steinþór. „Þetta var fyrsta rallið á Barða en í áhöfninni eru þrælvanir rallkarlar því þeir voru áður á Bjarti NK sem fór í hvorki fleiri né færri en 26 röll,“ sagði Steinþór að lokum.

Barði mun halda til veiða á morgun. Í dag verða rallveiðarfærin frá Hafrannsóknastofnun tekin í land og síðan verða veiðarfæri skipsins sett um borð.

Fiskvinnslustöðin á Seyðisfirði að klæðast nýjum búningi

Fiskvinnslustöðin á Seyðisfirði í Síldarvinnslulitunum. Gullver NS liggur við bryggju. Ljósm. Ómar BogasonFiskvinnslustöðin á Seyðisfirði í Síldarvinnslulitunum. Gullver NS liggur við bryggju.
Ljósm. Ómar Bogason
Fiskvinnslustöðin á Seyðisfirði er að stórum hluta komin í Síldarvinnslulitina. Húsið var rautt að lit og farið að láta á sjá en nú er langt komið með að endurnýja klæðningu þess og þak auk þess sem unnið hefur verið að öðrum umbótum. Stöðin er að taka miklum stakkaskiptum, verður hin glæsilegasta og bæjarprýði. Framkvæmdir við húsið hófust síðastliðið sumar og eru nú langt komnar. Adolf Guðmundsson, rekstrarstjóri á Seyðisfirði, segir að það sé afar ánægjulegt að fiskvinnslustöðin sé að fá nýtt og betra útlit. Hún sé áberandi hús í bænum og útlit þess skipti miklu máli.
 
Myndina sem fylgir tók Ómar Bogason og sést blá fiskvinnslustöðin en framan við hana liggur togarinn Gullver sem hefur haldið sínum rauða lit.

Kolmunnaveiðar íslenskra skipa að hefjast

BO mars 2017 HEBjarni Ólafsson AK hélt til kolmunnaveiða í gær. Ljósm. Hákon ErnusonBjarni Ólafsson AK hélt til kolmunnaveiða frá Neskaupstað í gær og Börkur í nótt. Heimasíðan ræddi við Runólf Runólfsson skipstjóra á Bjarna Ólafssyni að því tilefni. „Jú, við erum að byrja á kolmunnanum og það verður ærið verkefni fyrir íslensk skip því kvótinn er stór. Það er æðislegt að hafa svona verkefni að lokinni góðri loðnuvertíð. Við munum koma við í Færeyjum og taka troll en síðan verður haldið á miðin vestur af Írlandi. Það er tveggja og hálfs sólahrings sigling á miðin, þetta eru 650 mílur. Íslensku skipin eru gjarnan að búa sig á þessar veiðar eða leggja af stað en Vilhelm Þorsteinsson EA er kominn á miðin. Þarna eru helst færeysk og rússnesk skip að veiðum núna. Mér skilst að veiðin hafi verið ágæt að undanförnu, dálítið köflótt en heilt yfir ágæt,“ sagði Runólfur.

Gert er ráð fyrir að Beitir NK haldi til kolmunnaveiða í kvöld.

Starfsmenn fiskvinnslustöðvarinnar á Seyðisfirði á íslenskunámskeiði

Nemendur og kennari íslenskunámskeiðsins á Seyðisfirði. Ólafía Þ. Stefánsdóttir kennari er fremst fyrir miðju.   Ljósm. Ómar BogasonNemendur og kennari íslenskunámskeiðsins á Seyðisfirði. Ólafía Þ. Stefánsdóttir kennari er fremst fyrir miðju. Ljósm. Ómar BogasonUm þessar mundir er erlendum starfsmönnum fiskvinnslustöðvar Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði boðið upp á íslenskunámskeið. Alls sækir 21 starfsmaður námskeiðið og eru þeir frá níu þjóðlöndum. Kennari á námskeiðinu er Ólafía Þ. Stefánsdóttir. Ólafía segir að hún hafi aldrei haft svona fjölbreyttan nemendahóp á námskeiði fyrr en námskeiðið lofi hins vegar góðu. „Nemendurnir eru hreint frábærir í alla staði og afar áhugasamir um að ná tökum á íslenskunni,“ sagði Ólafía. „Við förum hægt yfir námsefnið og notum tímann einnig til að fara í leiki og æfa nemendurna í að tala saman á íslensku. Þetta hristir hópinn saman og gerir allt námið skemmtilegra. Mér þætti tilhlýðilegt að nýta fjölbreytileikann í hópnum og efna til einhvers konar þjóðahátíðar í lok námskeiðsins og þá myndu nemendurnir kynna sitt heimaland. Við eigum nefnilega að nýta okkur þennan fjölbreytileika og fræðast líka af þeim. Ég hlakka svo sannarlega til að vinna áfram með hópnum og vona innilega að þau læri að bjarga sér á íslensku,“ sagði Ólafía að lokum.

Námskeiðið er alls 20 kennslustundir og mun því ljúka um mánaðamótin mars-apríl.

Lok loðnuvertíðar hjá Síldarvinnsluskipunum

Börkur NK að loðnuveiðum út af Skagafirði í gær. Ljósm. Sigurjón M. JónusonBörkur NK að loðnuveiðum út af Skagafirði í gær. Ljósm. Sigurjón M. JónusonSíldarvinnsluskipin hafa lokið veiðum á þessari loðnuvertíð og eru þau ýmist að landa, bíða löndunar eða á landleið úr síðasta túr. Beitir er að landa hrognaloðnu í Neskaupstað og Börkur býður þar löndunar með 1.800 tonn. Bjarni Ólafsson er á austurleið með hrognaloðnu af miðunum fyrir vestan.

Börkur lauk vertíðinni út af Skagafirði þar sem góður afli fékkst í gær. Haft var samband við Hálfdan Hálfdanarson skipstjóra og hann spurður hvort ekki væri óvenjulegt að ljúka veiðum á loðnuvertíð á þessum slóðum. „Jú, það má segja að það hafi komið á óvart. Þarna var mokveiði í gær. Við köstuðum sex eða sjö sinnum og fengum upp í 800 tonn í kasti. Beitir var á austurleið og átti þarna leið hjá og þá vorum við akkúrat að dæla. Við notuðum tækifærið og gáfum honum 200 tonn. Þetta er smærri loðna en fyrir vestan og hrognaþroskinn er ekki eins langt kominn. Þroskinn er kannski 18-20% og þessi loðna á talsvert eftir í hrygningu. Annars hefur vertíðin gengið vel – góð veður og góð veiði. Það var ekkert sjálfgefið að ná þessum kvóta á svona stuttum tíma en það tókst og allir eru ánægðir,“ sagði Hálfdan.

Beitir NK dælir loðnu úr nót Barkar NK í gær. Ljósm. Sigurjón M. JónusonBeitir NK dælir loðnu úr nót Barkar NK í gær. Ljósm. Sigurjón M. Jónuson

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Loðnusjómenn alsælir með vertíðina

 Börkur NK. Ljósm. Hákon Ernuson Börkur NK. Ljósm. Hákon ErnusonNú er farið að sjá fyrir endann á yfirstandandi loðnuvertíð og í tilefni af því hafði heimasíðan samband við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra á Berki NK og spurði hvað hann vildi segja um vertíðina. Börkur NK er væntanlegur til Neskaupstaðar með fullfermi af hrognaloðnu í dag og er þetta fyrsti túrinn á vertíðinni sem Hjörvar er ekki með skipið. Hjörvar er afar ánægður með vertíðina og segir að loðnusjómenn séu almennt alsælir með hana. „Á vertíðinni hefur verið mikið af loðnu og einstök veðurblíða og er óvenjulegt að veður haldist svona gott á þessum árstíma. Alla vertíðina hafa menn helst þurft að passa sig á að fá ekki of mikinn afla í kasti. Það hefur gengið misjafnlega og hafa mörg skip lent í veiðarfæratjóni. Segja má að þetta sé lúxusvandamál og mörg dæmi eru um gríðarstór köst á vertíðinni, jafnvel stærri köst en áður hefur heyrst um. Elstu menn í flotanum telja þessa vertíð vera á borð við þær bestu hvað loðnumagnið varðar,“ sagði Hjörvar.

Þegar Hjörvar er spurður að því hvort ekki hafi komið á óvart hve mikið hafi verið af loðnu segir hann að ýmsar fréttir hafi bent til mikillar loðnugengdar þó fræðimenn hafi verið svartsýnir. „Ég held að fræðimennirnir viti afskaplega lítið um loðnuna og auðvitað háir það þeim hve litlu fjármagni er varið til rannsókna. Við höfðum heyrt frá togurum að mjög mikið væri af loðnu sunnarlega í Grænlandskantinum en þar var ekkert leitað. Það var einungis leitað norðar. Og blessaðir fræðimennirnir tala ávallt þannig að þegar þeir hafa farið yfir takmarkað hafsvæði þá hafi þeir séð alla fiska í sjónum. Þetta er ekki svona. Stundum sést mikið af fiski á tilteknu svæði en næsta dag sést ekki neitt. Það þýðir ekki að allur fiskurinn sem sást þarna í gær sé dauður. Menn verða að taka rannsóknir af þessu tagi til alvarlegrar endurskoðunar og það er dapurlegt að útgerðin hafi þurft að kosta rannsóknaleiðangurinn í febrúar sem leiddi til þeirrar glæsivertíðar sem nú er langt komin,“ sagði Hjörvar að lokum.

Barði NK hálfnaður í rallinu

Barði NK er hálfnaður í rallinu. Ljósm. Hákon ErnusonBarði NK er hálfnaður í rallinu. Ljósm. Hákon ErnusonBarði NK kom til Neskaupstaðar í dag en skipið er nú hálfnað í ralli Hafrannsóknastofnunar. Haldið var í rallið hinn 28. febrúar sl. og er Barða ætlað að toga á 182 fyrirfram ákveðnum togstöðvum á svonefndu norðaustursvæði. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri segir að rallið hafi gengið einstaklega vel til þessa. „Það er búin að vera rennandi blíða allan tímann og ekkert sem hefur tafið okkur. Þetta hefur því gengið eins og best er á kosið. Nú munum við landa í Neskaupstað og fara síðan út aftur annað kvöld og taka seinni hluta rallsins. Við erum búnir fyrir norðan land en eigum eftir Digranesflakið og suður að Gerpistotu og þaðan höldum við síðan á Þórsbanka og Verkamannabanka og út að miðlínu,“ sagði Steinþór.

Fyrsta veiðiferð Blængs NK eftir endurbætur og breytingar

Blængur NK. Ljósm. Hákon ErnusonBlængur NK. Ljósm. Hákon ErnusonBlængur NK hefur verið um 12 daga að veiðum í fyrstu veiðiferð eftir gagngerar breytingar á skipinu í Póllandi og á Akureyri. Skipið kom til Akureyrar í gærmorgun og landaði einum gámi af þorski auk þess sem þar var unnið að nokkrum lagfæringum og breytingum á vinnsludekki. Haft var samband við Bjarna Ólaf Hjálmarsson skipstjóra og hann spurður hvernig veiðiferðin hefði gengið. „Þessi veiðiferð er fyrst og fremst hugsuð til að prófa allan búnað um borð. Veiðarfæri og veiðibúnaður allur hefur reynst vel og skipið einnig, en það hefur þurft að vinna að ýmsum breytingum á vinnsludekkinu eins og reyndar allir áttu von á. Sérhver lagfæring á búnaði á vinnsludekki hefur skilað sér og þar hefur allt gengið betur dag frá degi. Við höfum að undanförnu verið að veiðum úti fyrir Norðurlandi og þar hefur mokveiðst af ufsa og þorski. Við höfum togað stutt á hverjum sólarhring og síðan látið reka á meðan aflinn er unninn. Ég reikna með að við verðum viku til viðbótar í þessum fyrsta túr eftir breytingar á skipinu,“ sagði Bjarni Ólafur.

Samfelld vinnsla á loðnuhrognum í Neskaupstað og Helguvík

Það er mikið að gera í hrognavinnslu hjá Síldarvinnslunni þessa dagana. Ljósm. Hákon ErnusonÞað er mikið að gera í hrognavinnslu hjá Síldarvinnslunni þessa dagana. Ljósm. Hákon ErnusonÞessa dagana er samfelld hrognavinnsla í Neskaupstað og Helguvík. Í Neskaupstað var lokið við að kreista hrogn úr Berki NK í gær og nú er verið að kreista úr Margréti EA. Síðar í dag hefst löndun úr Hákoni EA og á eftir honum kemur Beitir NK sem nú er á austurleið með 2.600 tonn. Í Helguvík var klárað að kreista úr Vilhelm Þorsteinssyni EA í nótt og nú er Polar Amaroq að landa þar hrognaloðnu.

Öll áhersla er lögð á hrognavinnsluna um þessar mundir og því hefur engri loðnu verið landað í fiskimjölsverksmiðjuna á Seyðisfirði síðustu daga. Alls hafa um 13.560 tonn borist til verksmiðjunnar og er lokið við að vinna hráefnið.

Áframhaldandi mokveiði er á loðnumiðunum en nú eru skipin að veiðum norðan við Snæfellsnes.

 

Undirflokkar