Síldarvinnslan festi kaup á stóru loðnu- og kolmunnaveiðiskipi árið 1973

Síldarvinnslan festi kaup á stóru loðnu- og kolmunnaveiðiskipi árið 1973Í tilefni þess að Síldarvinnslan verður 60 ára hinn 11. desember nk. munu birtast pistlar um sögu fyrirtækisins á heimasíðunni af og til út árið. Hér verður fjallað um kaupin á Berki NK árið 1973 og útgerð skipsins.

Síldarvinnslan hóf útgerð árið 1965 með tveimur bátum sem smíðaðir voru einkum með síldveiðar í huga. Árið 1967 voru Síldarvinnslubátarnir orðnir fjórir talsins og enn snerist allt um blessaða síldina. En þá dundu ósköpin yfir; síldin hvarf og nauðsynlegt var að aðlaga skipaflotann nýjum aðstæðum. Á árunum 1970 – 1973 var floti fyrirtækisins algerlega endurnýjaður. Skuttogarinn Barði var keyptur 1970 og árið 1973 kom Japanstogarinn Bjartur í fyrsta sinn til heimahafnar í Neskaupstað. Þá festi Síldarvinnslan einnig kaup á stóru uppsjávarveiðiskipi árið 1973 og fékk það nafnið Börkur. Þetta uppsjávarveiðiskip var 1.000 lestir að stærð og voru margir til að efast um þessi skipakaup, en Jóhann K. Sigurðsson þáverandi framkvæmdastjóri útgerðar Síldarvinnslunnar skýrði þau með greinargóðum hætti. Hann sagði að nauðsynlegt væri fyrir fyrirtækið að eignast stórt loðnuskip því þegar loðnan veiddist langt í burtu væru eldri skip fyrirtækisins ekki nægilega stór til að stunda veiðarnar og sigla með aflann heim en það var oft 14-18 tíma sigling. Sigling með fullfermi svo langa leið væri illframkvæmanleg á litlum skipum í misjöfnum vetrarveðrum. Mikilvægt væri fyrir verksmiðju fyrirtækisins að fá meira hráefni til vinnslu og þetta stóra skip hentaði vel til að tryggja það. Þá benti hann á að menn væru fyrir alvöru farnir að hugsa til kolmunnaveiða og yrði skipið útbúið með flotvörpubúnað til slíkra veiða.

Börkur var fjögurra ára gamalt verksmiðjuskip smíðað í Noregi árið 1968. Það hafði verið í eigu norsks fyrirtækis en skráð með heimahöfn í Hamilton á Bermudaeyjum. Skipið hafði verið gert út til nótaveiða við strendur Afríku en útgerðin hafði gengið illa. Þegar Síldarvinnslan festi kaup á skipinu var fiskimjölsverksmiðja um borð en hún var tekin úr og seld.

Börkur kom í fyrsta sinn til heimahafnar í Neskaupstað 10. febrúar 1973 og vakti koma skipsins mikla athygli. Rætt var um stærð þess og hvort það hentaði til loðnuveiða vegna stærðarinnar. Þá voru deildar meiningar um það hvort raunhæft væri að gera skipið út til kolmunnaveiða.


Börkur NK kemur með 1.350 tonn af loðnu til löndunar á vertíðinni 1984. Ljósm. Guðjón B. MagnússonBörkur NK kemur með 1.350 tonn af loðnu til löndunar á vertíðinni 1984. Ljósm. Guðjón B. MagnússonFyrsti skipstjórinn á Berki var Sigurjón Valdimarsson og var hann með skipið allt til ársins 1981. Á árunum 1974-1976 var Hjörvar Valdimarsson einnig skipstjóri á móti Sigurjóni og á árunum 1976-1989 var Magni Kristjánsson með Börk, ásamt Sigurjóni framan af. Síðar áttu Jón Einar Jónsson, Helgi Valdimarsson, Sturla Þórðarson, Sigurbergur Hauksson og fleiri eftir að sitja í skipstjórastóli. Vel gekk frá upphafi að veiða loðnu á Börk og hentaði skipið vel til loðnuveiða. Veitt var með nót og óttinn við að kasthringur skipsins væri svo stór að það þyrfti að nota ógnarstórt veiðarfæri reyndist ástæðulaus. Í upphafi var farið varlega og voru einungis 750 tonn af loðnu sett í skipið en brátt færðu menn sig upp á skaftið. Í febrúar 1974 kom Börkur með 900 tonna farm til Neskaupstaðar og var það stærsti loðnufarmur sem íslenskt skip hafði komið með að landi. Og Börkur bætti um betur því í næstu veiðiferð sló hann fyrra met og kom með 950 tonn. Að því kom að farið var að setja ríflega 1.100 tonn í skipið og loks 1.350 tonn. Þetta þóttu gríðarlega stórir farmar.

Börkur hélt til kolmunnaveiða í fyrsta sinn 8. maí 1973. Ekki varð vart við mikinn kolmunna í veiðiferðinni og kom skipið til heimahafnar með 200 tonn 19. maí. Þetta var í fyrsta sinn sem kolmunna var landað í Neskaupstað og bundu menn miklar vonir við kolmunnaveiðarnar. Augljóst var að ef veiðarnar heppnuðust í framtíðinni myndi starfstími fiskimjölsverksmiðjunnar lengjast og það skipti miklu máli.

Staðreyndin er sú að kolmunnaveiðar Barkar á þessum árum ollu vonbrigðum. Hlé var gert á þeim eftir tilraunina 1973 og þær ekki reyndar á ný fyrr en árið 1976. Á árunum 1976-1982 var skipið sent til kolmunnaveiða á hverju ári að undanskildu árinu 1979. Auk þess sem afli var yfirleitt tregur var verðlagningin á kolmunnanum ekki til að hvetja til veiðanna. Kolmunnaveiðar íslenskra skipa hófust ekki af neinum krafti fyrr en löngu síðar.

Árum saman gekk erfiðlega að finna Berki nægjanleg verkefni og stóð reyndar til að selja skipið árið 1976 en ekki kom þó til þess. Eilíft var verið að leita að verkefnum sem hentaði og lagði Börkur meðal annars stund á síld- og makrílveiðar í Norðursjó fyrstu fjögur sumrin sem Síldarvinnslan átti hann. Síðla sumars 1975 var Börkur sendur til loðnuveiða í Barentshafi en fyrr um árið hafði hann veitt hrossamakríl undan ströndum norðvestur Afríku. Þá má geta þess að um árabil var skipið nýtt til að sigla með ísaðan fisk frá Neskaupstað til Grimsby yfir sumarmánuðina og til baka flutti hann ódýra olíu sem Síldarvinnsluskipin nýttu. Með tímanum jukust verkefni Barkar og að því kom að unnt var að halda honum út til fiskjar á heimamiðum stærstan hluta hvers árs.

Ekki voru gerðar miklar breytingar á Berki fyrstu 25 árin sem hann var í eigu Síldarvinnslunnar ef undan eru skilin vélaskipti árið 1979 en þá fékk skipið öflugri vél. Í janúarmánuði 1998 kom Börkur hins vegar til heimahafnar frá Póllandi þar sem gerðar höfðu verið gagngerar breytingar á skipinu. Það var lengt um tæplega 15 metra, settur á það bakki, perustefni, ný brú og allar vistarverur skipverja endurnýjaðar. Eins var allur spilbúnaður endurnýjaður, skipið útbúið til flotvörpuveiða og kælikerfi sett í lestar. Burðargetan að afloknum breytingum var 1.800 tonn. Staðreyndin var sú að eftir breytingarnar var ekki mikið eftir af hinu upphaflega skipi. Árið 1999 hélt Börkur síðan í vélarskipti til Englands og var þá sett í hann 7.400 hestafla vél.

Börkur NK að lokinni stækkun og breytingum árið 1998. Ljósm. Snorri SnorrasonBörkur NK að lokinni stækkun og breytingum árið 1998.
Ljósm. Snorri Snorrason
Árið 2012 festi Síldarvinnslan kaup á nýjum Berki og fékk gamli Börkur þá nafnið Birtingur. Bar hann það nafn þar til hann var seldur úr landi árið 2016. Kaupandi skipsins var pólskt fyrirtæki og var því gefið nafnið Janus. Janus hefur landað kolmunna á Íslandi á þessu ári og hefur Norðfirðingum þótt vænt um að sjá skipið þegar það hefur komið til löndunar í Neskaupstað.

Afli Barkar (síðar Birtings) á þeim 43 árum sem hann var í eigu Síldarvinnslunnar nam 1.546.235 tonnum og eru líkur á að ekkert íslenskt fiskiskip hafi borið jafn mikinn afla að landi. Því má segja að kaup Síldarvinnslunnar á „stóru“ loðnu- og kolmunnaveiðiskipi árið 1973 hafi reynst vera gæfuspor fyrir fyrirtækið.

 

 

Njósnakapall og hattar fyrir góðbændur og heldrimenn

Njósnakapall og hattar fyrir góðbændur og heldrimennÍ tilefni þess að Síldarvinnslan verður 60 ára hinn 11. desember nk. munu birtast pistlar um sögu fyrirtækisins á heimasíðunni af og til út árið. Hér verður fjallað um tvö tilvik þar sem áhugaverðir hlutir komu upp með veiðarfærum togara fyrirtækisins og sanna enn og aftur að margt býr í djúpinu.


Njósnakapall út af Stokksnesi

Bjartur NK. Ljósm. Jóhann ZoёgaBjartur NK. Ljósm. Jóhann ZoёgaHinn 14. júní árið 1975 festi skuttogarinn Bjartur NK vörpuna í botni á stað sem var 12 sjómílur réttvísandi 103ᵒ frá Stokksnesi. Trollið reyndist afar fast en við illan leik tókst að ná upp hlerunum. Kom þá í ljós að í öðrum hleranum var fastur einhvers konar kapall sem var um það bil 6-7 tommur í þvermál. Ekki reyndist unnt að losa kapalinn þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og að því kom að ákvörðun var tekin um að höggva á hann. Þegar kapallinn fór í sundur kom í ljós að rafstraumur var á honum. Þeir Bjartsmenn tóku bút af kaplinum og var hann lagður fram við sjópróf sem fóru fram í Neskaupstað þegar í land var komið.


Nokkrum dögum áður en kapallinn festist í veiðarfærum Bjarts höfðu skipverjar orðið varir við torkennilegt skip á þeim slóðum sem togarinn var að veiða á. Þoka var þennan dag og sást skipið ógreinilega en þarna virtist vera um einhvers konar rannsóknaskip eða kapallagningarskip að ræða. Magni Kristjánsson, skipstjóri á Bjarti, upplýsti að kapallinn sem festist í toghleranum væri augljóslega nýkominn í sjó og því var talið líklegt að umrætt skip hefði verið að leggja hann. Þá kom fram að kapallinn hefði verið lagður á fiskisælli slóð og því væri hætta á að hann myndi valda fleiri veiðiskipum tjóni.

Töluverð umræða skapaðist um umræddan kapal og var fljótlega byrjað að tengja hann herstöðinni sem þá var á Stokksnesi. Talið var líklegt að hér væri um njósnakapal að ræða og hefði hann átt að gegna því hlutverki að afla upplýsinga um ferðir kafbáta við landið. Dagblaðið Þjóðviljinn tók málið til umfjöllunar og var þar greint frá því að NATO hefði lagt njósnakapal frá Stokksnesi til Noregs og reyndar einnig frá Reykjanesi til Ameríku. Blaðið fór þess á leit við íslenskar stofnanir að þær gæfu upplýsingar um kapalinn sem Bjartur hafði fest veiðarfærin í en fátt var um svör. Siglingamálastofnun gaf engin svör, Sjómælingar Íslands gáfu engin svör og reyndar ekki Landhelgisgæslan heldur. Þjóðviljinn taldi allt þetta mál hið dularfyllsta en annars einkenndist umræðan um kapalinn af þeirri kaldastríðshugsun sem þá réði ríkjum.

Hattar, vínkútar og fleira góss úr fornu kaupfari

Barði NK. Ljósm. Kristinn BenediktssonBarði NK. Ljósm. Kristinn BenediktssonEitt sinn þegar skuttogarinn Barði NK hífði vörpuna utarlega á Digranesflaki um 20. nóvember 1977 komu ýmsir hlutir upp með henni ásamt fiskaflanum. Í vörpunni reyndust vera brunnir trébjálkar með koparnöglum og benti allt til þess að um væri að ræða hluta af gömlu skipi. Auk trébjálkanna fylgdi ýmislegt áhugavert með. Þarna voru taustrangar, nautshorn, uppvafið leður, vínkútar og – pelar og síðast en ekki síst flókahattar sem án efa voru ætlaðir á höfuð þeirra tíma góðbænda og heldrimanna. Mikið af þessum varningi var meira og minna skemmt af bruna.

Jón Hlífar Aðalsteinsson var skipstjóri á Barða í þessari veiðiferð en þetta var í fyrsta sinn sem hann sat í skipstjórastóli á Barða. Segist hann muna vel eftir þessum óvænta afla sem fékkst í fyrsta holi veiðiferðarinnar. Sérstaklega sé eftirminnilegt að hattarnir sem komu upp í vörpunni voru fjölmargir og í stöflum. Tók Jón Hlífar nokkra hatta með sér í land og færði Skjala- og myndasafni Norðfjarðar þrjá þeirra að gjöf. Guðmundur Sveinsson forstöðumaður safnsins lét hreinsa höfuðfötin en þau voru útötuð í aur. Síðan hafa þessir áhugaverðu flókahattar verið varðveittir á safninu.

Nokkuð ljóst er að hlutirnir sem komu upp með trollinu hjá Barða voru úr fornu kaupfari sem sennilega hefur brunnið og síðan sokkið á þessum slóðum. Þór Magnússon, þáverandi þjóðminjavörður, fékk fregnir af þessum hlutum og hafði samband við skipstjórann símleiðis hinn 24. nóvember 1977. Þór skráði eftirfarandi minnispunkta hjá sér að loknu samtalinu:

Ég talaði við skipstjórann, Jón Hlífar Aðalsteinsson, og hann sagði, að þeir hefðu fengið leifar af skipi, bönd og tré, allmjög brunnið, og í þessu hefðu verið nokkrir brennivínskútar, brennivínspelar, taustrangar, um 60 sm breiðir, mikið af hornum af nautpeningi, karlmannahattar í ströngum, hver settur í annan, leður uppvafið og fleira og fleira. Þeir tóku tappana úr kútunum og hafði verið glögg brennivínslykt úr einum. Þetta var hálf varpa af þessu, en því miður var því nær öllu mokað í sjóinn. Skipstjórinn kvaðst hafa einn kút og einn brennivínspela, í skipi nú væri kannske eitthvað af höttum og öðru dóti og skipverjar myndu hafa eitthvað hjá sér smávegis.


Einn af höttunum sem Barði NK fékk í vörpuna.  Hann er varðveittur á Skjala- og myndasafni Norðfjarðar. Ljósm. Guðmundur SveinssonEinn af höttunum sem Barði NK fékk í vörpuna. Hann er varðveittur á Skjala- og myndasafni Norðfjarðar. Ljósm. Guðmundur SveinssonTaldi þjóðminjavörður að þarna hefði togarinn fengið einstæða hluti í vörpuna og fróðlegt hefði verið að rannsaka þá ítarlega.

Þór Magnússyni voru sendar myndir af höttunum sem varðveittir eru á Skjala- og myndasafni Norðfjarðar og telur hann að þeir séu líklega ekki mjög gamlir, gætu verið frá 19. öld. Fróðlegt væri að kanna hvort einhverjar heimildir greini frá því að kaupfar hafi farist út af Austurlandi á þeim tíma.

 

 

 

 

 

 

Þokkalegasta kolmunnaveiði síðustu dagana

Bjarni Ólafsson AK. Ljósm. Smári GeirssonBjarni Ólafsson AK. Ljósm. Smári GeirssonAð undanförnu hefur verið heldur tregt í kolmunnanum, en síðustu daga hefur þó verið þokkalegasta veiði. Runólfur Runólfsson, skipstjóri á Bjarna Ólafssyni AK, segir að síðustu dagarnir á miðunum við Færeyjar hafi verið ágætir. „Við erum á leiðinni til Seyðisfjarðar með 1.750 tonn og gerum ráð fyrir að verða þar kl. 4 í nótt. Við fengum þennan afla í fjórum holum, sem er býsna gott miðað við veiðina að undanförnu. Í fyrsta holi fengum við 550 tonn eftir að hafa togað í 18 tíma. Í hinum holunum þremur fengum við 300-450 tonn og toguðum í 8-12 tíma. Nú er bara að vona að frmhald verði á þessari veiði,“ sagði Runólfur.

Pólska kolmunnaskipið Janus er einnig á leið til Seyðisfjarðar með um 850 tonn. Það er væntanlegt síðar í dag.

Margrét EA landaði kolmunna í Neskaupstað í nótt. Afli skipsins var tæplega 2.200 tonn.

 

 

Heldur farið að hægja á kolmunnaveiðinni

Beitir NK kom með 2.800 tonn af kolmunna til Neskaupstaðar í gærkvöldi. Ljósm. Smári GeirssonBeitir NK kom með 2.800 tonn af kolmunna til Neskaupstaðar í gærkvöldi. Ljósm. Smári GeirssonÍ gærkvöldi kom Beitir NK til Neskaupstaðar með 2.800 tonn af kolmunna og Hákon EA kom til Seyðisfjarðar með rúmlega 1.600 tonn. Nokkurra daga vinnsluhlé hafði verið hjá verksmiðjunum á báðum stöðum vegna skorts á hráefni. Tómas Kárason, skipstjóri á Beiti, segir að nú sé farið að hægja heldur á veiðinni í færeysku lögsögunni. „Það er þó þannig að stundum reka menn í góð hol. Kolmunninn dreifir sér þegar hann kemur upp í kantana suður af Færeyjum og austan og vestan við eyjarnar og þá fer að hægjast á veiði,“ segir Tómas.

Beitir mun halda á ný til kolmunnaveiða að löndun lokinni.

Börkur NK er á landleið með 2.250 tonn af kolmunna og einnig Bjarni Ólafsson AK með 1.750 tonn. Börkur mun væntanlega landa á Seyðisfirði en Bjarni Ólafsson í Neskaupstað.

Það er eitthvað að lifna yfir togaramiðunum eystra

Barði NK. Ljósm. Hákon ErnusonBarði NK. Ljósm. Hákon ErnusonÍsfisktogarinn Barði NK kom til löndunar í Neskaupstað í gær eftir stutta veiðiferð. Aflinn var 80 tonn og uppistaða hans var ufsi og karfi. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri segir að vel hafi veiðst. „Þetta var örstuttur túr hjá okkur, einungis þrír dagar frá höfn í höfn. Við vorum að veiðum í Berufjarðarál og aflinn bendir til þess að það sé að lifna yfir miðunum hér fyrir austan, en á þeim hefur verið nánast ördeyða að undanförnu. Ufsinn sem við fengum hefði hins vegar mátt vera stærri,“ sagði Steinþór.

Barði mun halda til veiða á ný í kvöld.

 

 

Magnús Kristinsson lætur af störfum framkvæmdastjóra útgerðarfélagsins Bergur-Huginn ehf

Bergey VE og Vestmannaey VE í höfn í Vestmannaeyjum. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonBergey VE og Vestmannaey VE í höfn í Vestmannaeyjum.
Ljósm. Guðmundur Alfreðsson
Um miðjan júní nk. mun Magnús Kristinsson láta af störfum framkvæmdastjóra útgerðarfélagsins Bergur-Huginn ehf. í Vestmannaeyjum. Frá sama tíma mun Arnar Richardsson taka við starfi rekstrarstjóra félagsins. Bergur-Huginn er dótturfélag Síldarvinnslunnar hf.

Útgerðarfélagið Bergur-Huginn (BH) var stofnað í árslok 1972 í þeim tilgangi að láta smíða togara í Japan og gera hann síðan út. Togarinn kom til landsins árið 1973 og bar nafnið Vestmannaey. BH gerði Japanstogarann út til ársins 2005 ásamt fleiri skipum. Nú gerir félagið út tvo 29 metra togara, svonefnda þriggja mílna báta, og bera þeir nöfnin Vestmannaey og Bergey.

Magnús Kristinsson hefur starfað hjá BH í um 45 ár en starfi framkvæmdastjóra hefur hann gegnt frá árinu 1978 eða í tæp 40 ár. Hann hefur stýrt félaginu með afar farsælum hætti og skilar af sér stöndugu og traustu fyrirtæki. Hinn nýráðni rekstrarstjóri, Arnar Richardsson, er rekstrarfræðingur að mennt og hefur haldgóða reynslu af störfum í sjávarútvegi. Arnar starfaði meðal annars hjá BH á árunum 2006-2009 og einnig á árunum 2010-2015 en frá þeim tíma hefur hann verið framkvæmdastjóri Hafnareyrar ehf. sem er dótturfélag Vinnslustöðvarinnar.

Síldarvinnslan vill á þessum tímamótum þakka Magnúsi Kristinssyni fyrir einstaklega góð störf í þágu útgerðarfélagsins og bjóða Arnar Richardsson velkominn til starfa. Mun Magnús taka sæti í stjórn BH á næsta aðalfundi félagsins þannig að reynsla hans og þekking mun nýtast því áfram.

Konur í sjávarútvegi heimsækja Austfirði

Konur í sjávarútvegiKonur í sjávarútvegiDagana 15.-17. maí nk. mun félagið Konur í sjávarútvegi efna til kynnisferðar um Austfirði. Um 30 konur víðs vegar að af landinu munu taka þátt í ferðinni. Meðal annars er ráðgert að heimsækja sjávarútvegsfyrirtæki á Fáskrúðsfirði, Eskifirði, í Neskaupstað og á Seyðisfirði.

Félagið Konur í sjávarútvegi var stofnað árið 2013 og er félaginu ætlað að vera vettvangur fyrir konur sem starfa í sjávarútvegi og tengdum greinum. Markmið félagsins er að búa til tengslanet fyrir konur sem starfa á þessu sviði, koma á samvinnu á milli þeirra og sinna kynningu á greininni. Tilgangurinn með starfinu er að efla konur sem starfa í sjávarútvegi og gera þær sýnilegar jafnt innan greinarinnar sem utan.

Mun félagið standa fyrir kynningu á starfsemi sinni í Norðurljósasetrinu á Fáskrúðsfirði mánudaginn 15. maí kl. 17.30 og í Safnahúsinu í Neskaupstað þriðjudaginn 16. maí kl. 17.30 og eru allir velkomnir á kynningarfundina, jafnt karlar sem konur.

Togararnir afla vel

Blængur NK   Ljósm. Hákon ErnusonBlængur NK. Ljósm. Hákon ErnusonSegja má að togarar Síldarvinnslunnar hafi aflað vel að undanförnu. Að vísu hefur lítið aflast á Austfjarðamiðum en skipstjórarnir á Barða NK og Gullveri NS telja að nú sé fiskur að ganga á hefðbundin togaramið eystra.

Ísfisktogarinn Barði NK landar 110 tonnum í Neskaupstað í dag og er ýsa og þorskur uppistaða aflans. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri segir að aflinn hafi fengist í Lónsbugtinni og þar hafi verið jöfn og góð veiði allan túrinn. Barði mun halda á ný til veiða kl. 15 í dag.

Ísfisktogarinn Gullver NS var að taka síðasta hol veiðiferðarinnar á Papagrunni í morgun. Jónas P. Jónsson skipstjóri segir að aflinn sé um 106 tonn eða 350 kör. „Við byrjuðum á að fara vestur kanta í karfaleit en síðastu einn og hálfan eða tvo sólarhringana vorum við í Lónsbugtinni og fengum þar ýsu og þorsk. Við vorum að leggja af stað heim til Seyðisfjarðar með fullt skip,“ sagði Jónas.

Frystitogarinn Blængur NK kom til Akureyrar í morgun og mun landa þar. Bjarni Ólafur Hjálmarsson skipstjóri segir að aflinn sé 13.000 kassar eða um 530 tonn upp úr sjó. „Við vorum mest í Víkurálnum og uppistaða aflans er ufsi og karfi. Það gekk afar vel að veiða allan túrinn og það slitnaði aldrei hjá okkur í vinnslunni. Við munum stoppa á Akureyri þessa vikuna og það verður unnið að lagfæringum á millidekkinu. Það eru nokkrir hnökrar þar sem þarf að sníða af. Við höldum síðan til veiða á sunnudagskvöld og þá verður farið í úthafið – haldið til úthafskarfaveiða á Reykjaneshrygg,“ sagði Bjarni Ólafur.

Vestmannaeyjaskipin Vestmannaey VE og Bergey VE hafa fiskað afar vel að undanförnu og lönduðu bæði fullfermi í Vestmannaeyjum í gær. Bergey fer í slipp í dag til hefðbundins viðhalds en Vestmannaey hélt á ný til veiða síðdegis í gær og er nú að veiðum á Öræfagrunni.

Beitir NK kominn með 9.300 tonn af kolmunna

Beitir NK að dæla kolmunna. Þetta var 650 tonna hol.   Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonBeitir NK að dæla kolmunna. Þetta var 650 tonna hol. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonBeitir NK kom til Neskaupstaðar í morgun með 2.200 tonn af kolmunna sem fékkst í færeysku lögsögunni. Þar með er Beitir kominn með 9.300 tonn en hann hóf veiðarnar upp úr miðjum marsmánuði. Tómas Kárason skipstjóri segir að hingað til hafi kolmunnaveiðarnar gengið vel en vissulega veiðist mismikið frá einum tíma til annars. „Við vorum kallaðir inn með þessi 2.200 tonn því auðvitað þarf að hugsa um að verksmiðjurnar hafi hráefni til að vinna úr og einnig að of mikill afli berist ekki að landi á sama tíma. Þessi túr byrjaði afar vel. Við fengum 650 tonn í fyrsta holi, en síðan dofnaði verulega yfir veiðinni. Fiskurinn var dreifður og skipin þurftu að toga lengi. Við toguðum lengst í 18 tíma en sum skipin toguðu vel yfir 20 tíma. Þegar við fórum í land var treg veiði, en þetta á eftir að lagast. Kolmunnaveiðin er gjarnan svona; stundum gengur vel en svo koma tímabil þar sem lítið fiskast. Það var hins vegar kostur við þennan túr að veðrið var afar gott allan tímann sem við vorum á veiðum, en það var hins vegar haugabræla á leiðinni á miðin,“ sagði Tómas.

Vilhelm Þorsteinsson EA er að landa 1.700 tonnum af kolmunna á Seyðisfirði í dag.

Gullver NS fær ný rauð fiskikör

ný gullverskör

Nýju Gullverskörin komin til Seyðisfjarðar. Ljósm: Daði Sigfússon

                Nýlega komu til Seyðisfjarðar ný fiskikör sem Sæplast framleiddi fyrir ísfisktogarann Gullver. Körin er rauð að lit rétt eins og skipið en engin önnur sambærileg kör eru þannig á litinn. Hingað til hefur Gullver notað hefðbundin kör sem hafa verið sérmerkt skipinu en eins og hjá fleirum hafa þau kör horfið í verulegu magni. Víða má sjá kör merkt Gullver sem menn hafa tekið traustataki og notað með ýmsum hætti og þá ekki síst undir alls konar rusl. Gera menn sér vonir um að rauði liturinn á körunum minnki líkurnar á að þeim verði stolið.

                Þetta er ekki í fyrsta sinn sem útgerð lætur framleiða fiskikör í sérstökum lit í þeirri von að það komi í veg fyrir að menn slái eign sinni á þau. Útgerðarfélagið Bergur-Huginn í Vestmannaeyjum lét sérframleiða fyrir sig græn kör þegar forsvarsmenn félagsins voru orðnir langþreyttir á karaþjófnaði. Rétt eins og hjá Gullver voru kör félagsins merkt félaginu auk hins sérstaka litar og var þess vænst að nú héldist því betur á þeim.

Gullverskar á víðavangi

             Fiskikar frá Gullver NS við ónefnda byggingavöruverslun.

 Bergur-Huginn hafði lengi glímt við það vandamál að körum félagsins var stolið og hefur Magnús Kristinsson framkvæmdastjóri látið hafa eftir sér að í reynd sé ótrúlegt hvernig menn umgangist fiskikör. Segir hann að menn sem almennt virði eignarrétt annarra virði alls ekki eignarrétt á fiskikörum og þeim þyki sjálfsagt að taka kör, jafnvel í nokkru magni, til að nota í eigin atvinnurekstri. Fullyrðir hann að stundum sé haft fyrir því að slípa merkinguna af körunum en oft sé það ekki einu sinni gert. Það að láta sérframleiða kör í ákveðnum lit sé tilraun til að koma í veg fyrir karaþjófnað en reynslan sýni að það dugi jafnvel ekki. Fiskikaraþjófar séu nefnilega einkar bíræfnir.  

       

 

Misjafn afli hjá kolmunnaskipunum

Börkur NK og Bjarni Ólafsson AK í höfn í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonBörkur NK og Bjarni Ólafsson AK í höfn í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonKolmunnaveiðin í færeysku lögsögunni gengur misjafnlega hjá íslensku skipunum. Þau toga gjarnan lengi eða allt upp í 18 tíma en afar misjafnt er hverju togin skila. Börkur NK hóf veiðar í gær eftir að hafa landað fullfermi á Seyðisfirði og byrjaði veiðiferðin vel. Í fyrsta holi fékk hann 500 tonn eftir að hafa einungis togað í 8 tíma og er það meiri afli en almennt gerist hjá skipunum undanfarna daga.
 
Síðustu skipin sem komu til löndunar hjá verksmiðjum Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og á Seyðisfirði lönduðu í gær og í fyrradag. Bjarni Ólafsson AK landaði 1.750 tonnum í Neskaupstað í fyrradag og pólska skipið Janus landaði 1.650 tonnum á Seyðisfirði í gær.

Skuttogarar koma til sögunnar

Skuttogarar koma til sögunnarÍ tilefni þess að Síldarvinnslan verður 60 ára hinn 11. desember nk. munu birtast pistlar um sögu fyrirtækisins á heimasíðunni af og til út árið. Hér verður fjallað um upphaf skuttogaraútgerðar fyrirtækisins og um leið upphaf skuttogaraútgerðar landsmanna.

Þegar Síldarvinnslan hóf útgerð árið 1965 stóð síldarævintýrið hvað hæst. Allt snerist um síldina. Í fullu samræmi við þetta voru fjórir fyrstu bátarnir í eigu Síldarvinnslunnar sérstaklega smíðaðir með síldveiðar í huga. En sagan segir okkur að erfitt sé að treysta á silfur hafsins til langframa – síldin kemur og síldin fer. Og síldarævintýrið tók enda og þá þurfti Síldarvinnslan rétt eins og mörg önnur sjávarútvegsfyrirtæki að bregðast við því. Síldarbátarnir hentuðu ekki vel til bolfiskveiða og flestum varð ljóst að breytingar á skipastól fyrirtækisins voru nauðsynlegar.

Á árunum 1970-1972 voru allir fjórir síldarbátar Síldarvinnslunnar seldir og í stað þeirra festi fyrirtækið kaup á skipum annarrar gerðar sem talin voru henta betur nýjum aðstæðum á sviði útgerðar. Skuttogari var keyptur árið 1970, stórt uppsjávarveiðiskip var keypt 1973 og sama ár fékk fyrirtækið nýjan skuttogara, Bjart NK, sem smíðaður var í Japan. Því var um algera endurnýjun á flota fyrirtækisins að ræða á árunum 1970-1973.

Barði NK, sem Síldarvinnslan festi kaup á árið 1970, var þriggja ára gamalt skip sem gert hafði verið út í Frakkalandi. Barði var í reyndinni fyrsti eiginlegi skuttogari landsmanna – hann hafði skutrennu, allan hefðbundinn skuttogarabúnað og ekki ætlaður til annarra veiða en togveiða. Barði var því tímamótaskip, en systurskip hans voru keypt til Eskifjarðar og Sauðárkróks um líkt leyti. Stóra uppsjávarveiðiskipið sem Síldarvinnslan festi kaup á árið 1973, Börkur NK, var einnig tímamótaskip og átti svo sannarlega eftir að reynast fyrirtækinu vel, en það er önnur saga.

Barði NK að toga innan um gamla síðutogara fljótlega eftir að hann hóf veiðar. Þarna mætast gamli og nýi tíminn. Ljósm. Ásgrímur ÁgústssonBarði NK að toga innan um gamla síðutogara fljótlega eftir að hann hóf veiðar. Þarna mætast gamli og nýi tíminn. Ljósm. Ásgrímur ÁgústssonBarði var 300 lesta togari og kom hann í fyrsta sinn til heimahafnar í Neskaupstað 14. desember 1970. Hann hélt síðan til veiða eftir gagngerar endurbætur 11. febrúar 1971 og þar með var skuttogaraútgerð Íslendinga hafin.

Ekki voru allir sannfærðir um að skynsamlegt væri fyrir Síldarvinnsluna að hefja togaraútgerð og rifjuðu menn upp útgerð nýsköpunartogara Norðfirðinga og togarans Gerpis en sú útgerð hafði ekki endað með neinum glæsibrag. Aðrir töldu hins vegar að skuttogaraútgerð ætti framtíð fyrir sér og fyrir gamlan síldarbæ eins og Neskaupstað væri brýnt að auka áherslu á bolfiskveiðar og þá með skipum sem hentuðu til slíkra veiða. Magni Kristjánsson, fyrsti skipstjórinn á Barða, hafði til dæmis tröllatrú á útgerð skuttogara og það hafði líka Birgir Sigurðsson, sem var fyrsti stýrimaður á togaranum í upphafi. Báðir höfðu þeir mikla reynslu af síðutogurum og töldu skuttogara hafa margt fram yfir þá þannig að hæpið væri að bera saman útgerð gömlu síðutogaranna og skuttogara.

Erfiðlega gekk að ráða áhöfn á Barða í upphafi enda margir fullir efasemda. Það fiskaðist strax vel á skipið og eftir fjóra mánuði var aflaverðmætið talið nema 15 milljónum króna sem var rúmlega fjórðungur af kostnaðarverði skipsins. Á fyrsta árinu bar Barði að landi liðlega 3.000 tonn og hásetahluturinn reyndist vera 790 þúsund krónur sem þótti skrambi gott. Fljótlega kom að því að pláss á Barða urðu eftirsótt og var unnt að velja úr umsækjendum. Það var svo sannarlega eitthvað annað en hafði verið á tímum norðfirsku síðutogaranna, en þeir höfðu löngum verið mannaðir Færeyingum að drjúgum hluta og jafnvel mönnum sem höfðu verið sjanghæaðir um borð í höfuðborginni.

Stjórn Síldarvinnslunnar tók ákvörðun um að láta smíða skuttogarann Bjart í Japan seint á árinu 1971 en þá hafði nokkur reynsla fengist af útgerð Barða. Í upphafi var Bjarti ætlað að leysa Barða af hólmi, en eftir að smíði togarans hófst var ákveðið að gera þá báða út. Reyndar urðu skuttogarar Síldarvinnslunnar þrír talsins árið 1977 þegar Birtingur NK bættist í flotann.

Barði NK, fyrsti skuttogari Síldarvinnslunnar, var í eigu fyrirtækisins til ársins 1979 en þá var hann seldur úr landi. Það var í októbermánuði 1979 sem Barði sigldi út Norðfjörð í síðasta sinn og það var engu líkara en skipið vildi ekki fara. Fjöldi fólks var saman kominn til að kveðja skipið og rétt í þann mund sem það var leyst kom upp bilun í stýrisbúnaði þess og tafðist brottförin því nokkuð. Árið 1980 hófst útgerð annars togara í stað Barða og bar hann sama nafn. Þessi nýi Barði var systurskip Birtings.

Hér verður skuttogarasaga Síldarvinnslunnar ekki rakin frekar, en vert er að minnast þess að árið 2014 var gefið út frímerki með mynd af Barða NK, fyrsta hefðbundna skuttogaranum sem gerður var út frá Íslandi.

Beitir á landleið með fullfermi af kolmunna– verksmiðjurnar hafa tekið á móti 18.000 tonnum frá páskum

Beitir NK að dæla 500 tonnum af kolmunna í upphafi brælunnar. Ljósm. Helgi Freyr Ólason.Beitir NK að dæla 500 tonnum af kolmunna í upphafi brælunnar. Ljósm. Helgi Freyr Ólason.Beitir NK fyllti sig á kolmunnamiðunum í færeysku lögsögunni sl. nótt og er væntanlegur til Neskaupstaðar með um 3.000 tonna afla um miðjan dag á morgun. Tómas Kárason skipstjóri á Beiti segir að veiðin hafi gengið þokkalega að undanförnu en bræla hafi þó haft truflandi áhrif. „Við vorum gjarnan að toga í 10-14 tíma og fá allt upp í 600 tonn í holi en eftir bræluna hefur þetta verið svolítið dreift. Annars fengum við 500 tonn í síðasta holinu í túrnum og það er bara býsna gott. Hérna rétt sunnan við línuna er mikið lóð og sá fiskur mun ganga inn í færeysku lögsöguna þannig að það er full ástæða til bjartsýni hvað varðar áframhaldandi veiðar. Það mega einungis 12 íslensk skip veiða samtímis í færeysku lögsögunni og meðal annars vegna brælunnar hafa nokkur skip beðið í höfn í Færeyjum eftir að komast að, en nú ætti biðin að taka enda þegar veðrið er gengið niður,“ sagði Tómas.

Fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og á Seyðisfirði hafa hvor um sig tekið á móti 9.000 tonnum af kolmunna frá páskum og vinnsla hefur gengið vel. Á Seyðisfirði var lokið við að bræða sl. nótt og að sögn Gunnars Sverrissonar verksmiðjustjóra er nú unnið við að hreinsa verksmiðjuna. „Við munum ljúka við að hreinsa og verða tilbúnir að taka á móti meiri kolmunna hið fyrsta,“ sagði Gunnar. Hafþór Eiríksson, verksmiðjustjóri í Neskaupstað, sagði að þar myndi fyrirliggjandi hráefni klárast í dag en unnið væri við að skipa út mjöli. „Það er síðan von á Beiti á morgun og þá verður sett í gang á ný,“ sagði Hafþór.

 

 

Mokveiði eftir hrygningarstopp

Bergey VE að veiðum í Háfadýpi. Vestmannaeyjar í baksýn. Ljósm. Birgir Þór SverrissonBergey VE að veiðum í Háfadýpi. Vestmannaeyjar í baksýn. Ljósm. Birgir Þór SverrissonVestmannaey VE og Bergey VE héldu til veiða að morgni föstudags að loknu hrygningarstoppi. Veiðin hófst strax af krafti og voru bæði skip komin til löndunar í Vestmannaeyjum daginn eftir með nánast fullfermi. Og áfram hélt veislan. Eyjarnar lönduðu fullfermi aftur í morgun og var uppistaða aflans ýsa og þorskur.

Á Austfjarðamiðum hafa verið léleg aflabrögð hjá togurunum að undanförnu og því hafa austfirsku togararnir leitað á fjarlægari mið. Gullver NS hefur verið að veiðum fyrir sunnan land og er nú á leið til Seyðisfjarðar með fullfermi. Barði NK hefur verið á Vestfjarðamiðum og landaði fullfermi á Dalvík í gærkvöldi. Uppistaða afla Barða var þorskur og ufsi. Blængur NK hefur að undanförnu veitt ufsa á Halamiðum og hafa aflabrögðin verið góð.

Janus í gömlu heimahöfninni

Pólska uppsjávarveiðiskipið Janus (áður Birtingur/Börkur) í Norðfjarðarhöfn. Ljósm. Hákon ErnusonPólska uppsjávarveiðiskipið Janus (áður Birtingur/Börkur) í Norðfjarðarhöfn.
Ljósm. Hákon Ernuson
Í gær kom pólska uppsjávarveiðiskipið Janus til Neskaupstaðar með 1.350 tonn af kolmunna. Janus var áður í eigu Síldarvinnslunnar og bar þá lengst af nafnið Börkur og síðan Birtingur. Síldarvinnslan festi kaup á skipinu árið 1973 og gerði það út til ársins 2016 eða þangað til það var selt núverandi eiganda. Afli skipsins á þeim 43 árum sem það var í eigu Síldarvinnslunnar nam 1.546.235 tonnum og eru líkur á að ekkert íslenskt fiskiskip hafi borið jafn mikinn afla að landi.
 
Mörgum Norðfirðingum þótti vænt um að heyra á ný Caterpillar-hljóðið í skipinu þegar það sigldi inn Norðfjörð í gær. Tilfinningin var eins og að hitta gamlan vin á ný eftir nokkurn aðskilnað. Skipið lítur nákvæmlega eins út og þegar það var selt úr landi, meira að segja má sjá Síldarvinnslumerkið á stefni þess og skorsteini. Það eina sem breyst hefur er nafnið og einkennisstafirnir.
 
Skipstjóri á Janusi er Atli Rúnar Eysteinsson, ungur Norðfirðingur sem verið hefur 2. stýrimaður á Berki NK. Atli tók við skipstjórninni hinn 4. apríl og segir að kolmunnaveiðarnar hafi gengið vel frá þeim tíma. „Við megum veiða í írskri lögsögu en hins vegar takmarkað í þeirri færeysku. Frá því að ég kom um borð höfum við farið þrjá túra og fiskað um 4.000 tonn. Fyrir mig er það skemmtileg og dýrmæt reynsla að fást við þetta verkefni. Á Janusi er fínasta áhöfn. Uppistaðan í áhöfninni eru Rússar en við erum fjórir Íslendingar hér um borð. Auk mín er íslenskur vélstjóri og síðan Norðfirðingarnir Hjörvar Sigurjónsson Móritz og Örn Rósmann Kristjánsson sem gjörþekkja skipið frá þeim tíma þegar Síldarvinnslan átti það. Auðvitað er gaman að koma með farm hingað heim til Neskaupstaðar en áður hefur skipið landað kolmunnanum í Færeyjum, á Írlandi og reyndar einu sinni á Seyðisfirði,“ sgaði Atli Rúnar.

Kolmunnavertíð hafin af krafti

Beitir NK kom með um 3.000 tonn af kolmunna til Seyðisfjarðar í nótt. Ljósm. Hákon ErnusonBeitir NK kom með um 3.000 tonn af kolmunna til Seyðisfjarðar í nótt.
Ljósm. Hákon Ernuson
Kolmunnaveiðin í færeysku lögsögunni hófst almennt hjá íslensku skipunum um miðja síðustu viku. Kolmunninn var þá að byrja að skríða inn í lögsöguna en fyrstu dagana eftir að veiðar hófust var ekki mikið að sjá. Hægt og bítandi jókst þó það sem sást og að því kom að alvöru lóð voru sjáanleg. Börkur NK kom með 2.250 tonn til Neskaupstaðar í gær og hélt hann strax til veiða á ný að löndun lokinni. Heimasíðan ræddi við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra í morgun en þá var Börkur staddur í brælu um 80 mílur norðvestur úr Mykinesi. „Þegar við héldum í land með þennan afla var þetta farið að líta vel út á miðunum og við höfðum fréttir af því að mikið af fiski væri sunnan línunnar. Þessi fiskur á eftir að koma inn í færeysku lögsöguna og vonandi er hörkuvertíð að hefjast,“ sagði Hjörvar.
 
Bjarni Ólafsson AK kom í gær með tæplega 1.700 tonn til löndunar á Seyðisfirði og í nótt kom Beitir NK þangað með um 3.000 tonn. Að sögn Gunnars Sverrissonar verksmiðjustjóra hófst vinnsla strax í fiskimjölsverksmiðjunni og sagði Gunnar að hér væri um fínasta hráefni að ræða. „Vonandi eiga veiðarnar eftir að ganga eins og í sögu, það er alla vega nægur kvóti,“ sagði Gunnar.
 
Pólska skipið Janus (áður Birtingur/Börkur) er væntanlegt til Neskaupstaðar í dag með 1.350 tonn af kolmunna og í kjölfar hans kemur Hákon EA með 1.650 tonn.
 
Eins og sést á framansögðu má segja að kolmunnavertíð sé hafin af fullum krafti.
 
 

Enn einn metmánuðurinn hjá Vestmannaey og Bergey

IMG 3525

Aflabrögð hjá Vestmannaey VE og Bergey VE hafa verð einstaklega góð

                Útgerðarfélagið Bergur-Huginn ehf., dótturfyrirtæki Síldarvinnslunnar, gerir út togarana Vestmannaey VE og Bergey VE.  Vestmannaey og Bergey eru systurskip, svonefndir þriggja mílna bátar, 291 tonn að stærð og 29 metrar að lengd. Nýliðinn marsmánuður var metmánuður hjá skipunum, en þau hafa aldrei fiskað jafn mikið í einum mánuði. Afli Vestmannaeyjar í mánuðinum var rúmlega 699 tonn og afli Bergeyjar rétt tæp 699 tonn. Samtals báru því „Eyjarnar“ um 1.400 tonn af aðgerðum fiski að landi í þessum eina mánuði en það mun samsvara um 1.570 tonnum af óaðgerðum fiski.

                Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergey, segir að fiskiríið hafi verið einstaklega gott að undanförnu. „Það hafa verið megagóð aflabrögð. Við höfum mest verið í Háfadýpinu en þar fæst mest þorskur og dálítið bland með. Þegar við veiðum þarna erum við um hálftíma á miðin frá Vestmannaeyjum. Þarna hefur verið gríðarlegt magn af þorski og við höfum fyllt á skömmum tíma. Þetta er aðgæsluveiði – við þurfum sífellt að passa okkur á að fá ekki of mikið. Við höfum einnig farið austur á Síðugrunn og Öræfagrunn til að ná í ýsu og það hefur gengið vel. Það eina sem skyggir á þetta góða fiskirí eru verðin á fiskinum. Verðin eru gjarnan 20% lægri en á sama tíma í fyrra. Nú er komið að hrygningarstoppi og við ætlum að taka gott páskafrí. Ráðgert er að halda til veiða á ný á annan í páskum,“ sagði Jón.

Ráðningar í fiskiðjuverið

Störf í boði í fiskiðjuverinu í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonStörf í boði í fiskiðjuverinu í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonUm þessar mundir er verið að fara yfir umsóknir um störf í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Um er að ræða sumarstörf og eins ráðningar fyrir makríl- og síldarvertíð sem mun væntanlega hefjast í byrjun júlímánaðar og standa fram í desember. Í fiskiðjuverinu er unnið á vöktum meðan vertíðir standa yfir og eru tekjumöguleikar góðir.

Ennþá er unnt er að sækja um starf á heimasíðu Síldarvinnslunnar (www.svn.is).

 

 

 

 

Síldarvinnslan hf. styrkir Þrótt

Talið frá vinstri: Guðlaug Ragnarsdóttir, Gunnþór B. Ingvason framkvæmdastjóri  og Eysteinn Þór Kristinsson. Ljósm. Karl Jóhann BirgissonTalið frá vinstri: Guðlaug Ragnarsdóttir, Gunnþór B. Ingvason framkvæmdastjóri og Eysteinn Þór Kristinsson. Ljósm. Karl Jóhann BirgissonÍ síðustu viku var undirritaður styrktar- og auglýsingasamningur á milli Síldarvinnslunnar hf. og Íþróttafélagsins Þróttar. Hér er um að ræða endurnýjun á samningi sem hefur verið í gildi undanfarin ár en nýi samningurinn mun gilda til tveggja ára. Gunnþór B. Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar undirritaði samninginn fyrir hönd fyrirtækisins og Guðlaug Ragnarsdóttir fyrir hönd Þróttar. Eysteinn Þór Kristinsson gjaldkeri Þróttar var viðstaddur undirritunina

Í samtali við heimasíðuna sagði Gunnþór að Síldarvinnslan væri stolt af því að geta lagt Þrótti lið enda væri starf félagsins til fyrirmyndar. „Þróttur gegnir afar mikilvægu hlutverki í samfélaginu og Síldarvinnslan vill leggja sitt af mörkum til að starf félagsins megi halda áfram að blómstra,“ sagði Gunnþór.

Þau Guðlaug og Eysteinn sögðu að samningurinn væri gríðarlega mikilvægur fyrir Þrótt og það væri mikill styrkur fyrir félagið að eiga jafn sterkan bakhjarl og Síldarvinnsluna. Við undirritun samningsins sagði Gunnþór að hann saknaði Stefáns Más Guðmundssonar formanns Þróttar sem lést í síðasta mánuði og tóku þau Guðlaug og Eysteinn undir það. Í kjölfarið féllu mörg fögur orð um Stefán og hans störf á íþróttasviðinu í bænum.

Blængur NK millilandar í Hafnarfirði

Blængur NK.Blængur NK.Blængur NK er að millilanda í Hafnarfirði í dag. Hann er búinn að vera 11 daga á veiðum og er aflinn um 400 tonn uppúr sjó. Uppistaða aflans er karfi og ufsi. Heimasíðan sló á þráðinn til Theodórs Haraldssonar skipstjóra og spurði hvernig veiðiferðin hefði gengið. „Jú, segja má að hún hafi gengið mjög vel. Við héldum til veiða frá Akureyri og byrjuðum að veiða á Tungunni út af Húnaflóa. Þar vorum við í ufsa í tvo daga. Þá lá leiðin í Víkurálinn og þar vorum við í karfa í tvo daga. Síðan lá leiðin á Melsekk og þar höfum við verið í afar góðri veiði. Við höfum yfirleitt einungis verið að draga í 3-4 tíma á sólarhring til að hafa fyrir vinnsluna. Það er staðreynd að Blængur er afar skemmtilegt veiðiskip og okkur hefur gengið sérlega vel að fiska. Það er síðan alltaf verið að fínstilla búnaðinn á vinnsludekkinu og þar eru afköstin að aukast hægt og bítandi. Við höfum að undanförnu verið að fara í rúmlega 1.200 kassa á dag. Nú erum við að landa 11.000 kössum í Hafnarfirði og síðan verður haldið aftur á miðin síðdegis. Það er vika eftir af þessari veiðiferð og við gerum ráð fyrir að fiska karfa næstu daga og landa síðan í heimahöfn í Neskaupstað 15. apríl næstkomandi,“ sagði Theodór.

Undirflokkar