Annir við löndun á frystri loðnu og síld í Neskaupstað

utskipun 2013 frysting

           Miklar annir eru hjá starfsmönnum frystigeymslanna þessa dagana.

Það er mikið að gera við löndun á frystri loðnu og síld í Neskaupstað þessa dagana og starfsmenn frystigeymsla Síldarvinnslunnar hafa í nógu að snúast. Loðnuskipin Vilhelm Þorsteinsson EA og Polar Amaroq koma til löndunar á fjögurra til fimm daga fresti og Hákon EA var að koma úr sínum síðasta síldartúr að sinni. Landað var 580 tonnum af frystri loðnu úr Vilhelm Þorsteinssyni í gær og í dag er verið að landa 640 tonnum af síld úr Hákoni. Á morgun mun síðan verða landað 650 tonnum af loðnu úr Polar Amaroq.

Rok og stórsjór á kolmunnamiðunum við Færeyjar

Bjarni Ólafsson AK að landa kolmunna í Neskaupstað sl. miðvikudag. Ljósm. Hákon ErnusonBjarni Ólafsson AK að landa kolmunna í Neskaupstað sl. miðvikudag. Ljósm. Hákon ErnusonHeimasíðan sló á þráðinn til Tómasar Kárasonar skipstjóra á Beiti NK og innti hann frétta af kolmunnamiðunum við Færeyjar. „Við erum á leiðinni austur fyrir Akraberg, syðsta odda Færeyja, og gerum ráð fyrir að liggja þar í vari til fyrramáls,“ sagði Tómas. „Hér er bölvað rok, 30 metrar, og stórsjór og í reynd er ekki hundi út sigandi. En það fer vel um okkur um borð, enda skipið frábært í alla staði. Það liggja þarna allmörg kolmunnaskip í vari en önnur hafa leitað hafnar í Færeyjum. Það er óhætt að segja að tíðin hér sé ansi rysjótt og oft er það þannig að við þurfum að leita færis og hífa þegar dúrar. Kolmunnaveiðin að undanförnu telst vera ágætis kropp, við höfum gjarnan verið að fá um 400 tonn á sólarhring en fengum reyndar 550 tonn í tveimur holum í gær. Það eru núna komin 1650 tonn um borð hjá okkur,“ sagði Tómas að lokum.
 
Börkur NK er einnig á kolmunnaveiðum við Færeyjar en hann landaði  tæplega 2100 tonnum í Neskaupstað sl. mánudag og Bjarni Ólafsson landaði þar tæplega 1600 tonnum sl. miðvikudag 

Hvað þýða 100 þúsund tonn af loðnu?

        

IMG 9926

Gunnþór Ingvason

        Eins og kunnugt er koma um 100 þúsund tonn af loðnu í hlut íslenskra skipa af þeim 173 þúsund tonna kvóta sem gefinn hefur verið út. Við skulum skoða hvað 100 þúsund tonna loðnukvóti þýðir í tölum fyrir fyrirtæki, starfsfólk og ríkissjóð.

                Áætluð vinnsluverðmæti úr 100 þúsund tonnum af loðnu eru 11,6 milljarðar króna. Það eru 13 fyrirtæki í 10 sveitarfélögum í landinu sem koma að veiðum og vinnslu loðnunnar. Loðnan vegur misjafnlega mikið í heildarveltu fyrirtækjanna og fer það eftir því hve loðnuveiðar og – vinnsla vegur þungt í starfsemi þeirra. Sum fyrirtækin eru blönduð og byggja bæði á bolfiski og uppsjávarfiski en önnur fást einungis við útgerð uppsjávarskipa.

                Áætla má að launagreiðslur í tengslum við veiðar og vinnslu á 100 þúsund tonnum af loðnu nemi um 2,8 milljörðum króna. Það eru 17 skip sem koma að veiðunum, 4 vinnsluskip og 13 skip sem landa aflanum til vinnslu. Á þessum skipum má reikna með að séu 260 sjómenn í það minnsta og hafa þeir lifibrauð sitt af veiðunum. Í landi má reikna með að starfi um 600 manns við loðnuvinnsluna. Hafa tekjur á loðnuvertíð jafnan vegið þungt í árstekjum sjómanna á loðnuskipunum og starfsmanna þeirra fyrirtækja sem annast vinnsluna.

                Ekki hefur verið lagt mat á margfeldisáhrif þeirra fjármuna sem starfsfólk fyrirtækjanna aflar á loðnuvertíð og samfélagsleg áhrif tekna á loðnuvertíð í loðnubæjunum hafa heldur ekki verið metin.

                Áætla má að skatttekjur ríkisins af 100 þúsund tonnum af loðnu nemi tæplega 2,8 milljörðum króna.

 

Capture

                 Hagsmunir sem tengjast loðnuveiðum og – vinnslu eru afar miklir og í ljósi þeirra eru menn almennt sammála um að nýta loðnustofninn með sjálfbærum hætti hér eftir sem hingað til. Aldrei má falla í þá gryfju að láta krónur og aura ákveða nýtingu úr fiskistofnum. Í því sambandi þarf ávallt að byggja á eins góðum rannsóknagögnum og unnt er að nálgast hverju sinni.

                Loðnan drepst eftir hrygningu og því er mikilvægt að góð gögn liggi að hverju sinni á bak við ákvörðun um nýtingu hennar. Það hlýtur að vera mikilvægt að skoða áhrif sístækkandi hvalastofna á loðnustofninn. Og eins þarf að meta áhrif stærðar loðnustofnsins á aðrar tegundir en loðnan er mikilvæg fæða hvala og ýmissa annarra nytjastofna við Ísland.

                Það hlýtur að vera óeðlilegt í ljósi þess sem að framan er sagt að hafrannsóknaskip okkar liggi bundin við bryggju. Það er öllum ljóst sem að loðnuveiðum hafa komið að loðnan getur verið brellin og erfitt að ná utan um stofninn með mælingum. Þannig hafa komið ár þar sem búið er að leita og leita að loðnu án mikils árangurs en síðan hefur hún skyndilega birst í miklu magni einhversstaðar við landið án þess að menn hafi áttað sig á hvernig hún hafi gengið. Það er því grundvallaratriði að leggja áherslu á að rannsaka loðnuna sem best því það eru svo gríðarlegir hagsmunir í húfi fyrir fyrirtækin, loðnubæina, starfsfólk og ríkissjóð. Það hefur ríkt gott samstarf á milli Hafrannsóknastofnunar og loðnuútgerðanna þegar þurft hefur að mæla loðnustofninn. Skoða þyrfti hvort ekki mætti auka það samstarf enn frekar og nýta tækjabúnað fiskiskipanna til upplýsingaöflunar. Slíkt samstarf gæti reyndar verið skynsamlegt við mælingar á fleiri stofnum en loðnustofninum. Tækni nútímans býður upp á fjartengingar og stöðug samskipti þannig að slík söfnun gagna þyrfti ekki að vera erfitt mál og auðvelt ætti að vera að útbúa veiðiskipin öllum þeim búnaði sem nauðsynlegur væri.

                                                                           Gunnþór Ingvason

                                                               framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar 

 

 

Vinnsluskipin frysta loðnu á Norðfirði

DSC03792

Tveir þriðju loðnuflotans frysta nú loðnu á Norðfirði. Ljósm: Hákon Ernuson

Vinnsluskipin Polar Amaroq og Vilhelm Þorsteinsson EA liggja nú inni á Norðfirði og frysta loðnu. Bæði skipin eru að fylla frystilestarnar og mun verða byrjað að landa úr Vilhelm Þorsteinssyni í kvöld og Polar Amaroq á morgun. Þessi tvö skip mynda meirihluta loðnuflotans sem veiðir nú við landið en norska skipið Fiskebas er við veiðar á miðunum. Geir Zoëga skipstjóri á Polar Amaroq sagði að það hefði þurft að hafa lítið fyrir því að ná í aflann í veiðiferðinni. „Við vorum norðnorðaustur úr Langanesi, um 20 mílum vestar en áður, og þetta gekk eins og í sögu. Við tókum bara tvö hol og drógum samtals í fimm klukkutíma. Það voru 400 tonn sem fengust í fyrra holinu og 270 í því seinna. Það er ekki hægt að hugsa sér þetta mikið betra,“ sagði Geir.

Öryggisstjóri ráðinn til starfa

Guðjón B. Magnússon. Ljósm. Hákon ErnusonGuðjón B. Magnússon. Ljósm. Hákon ErnusonGuðjón B. Magnússon hefur verið ráðinn í starf öryggisstjóra Síldarvinnslunnar. Síldarvinnslan mun leggja aukna áherslu á öryggi á vinnustöðum fyrirtækisins og er ráðning öryggiststjóra liður í framkvæmd nýrrar öryggisstefnu.
 
Samkvæmt nýrri starfsmannastefnu fyrirtækisins, sem mun fljótlega taka gildi, verða öryggisnefndir starfandi á hverri starfsstöð og síðan verði skipað öryggisráð sem hafi yfirumsjón með öryggismálum og framkvæmd öryggisstefnunnar. Öryggisstjóri mun starfa með öryggisráðinu og verða öryggisnefndunum til halds og trausts. Markmiðið með starfi öryggisstjórans er í reynd að útrýma vinnuslysum, bæta starfsumhverfi og auka vellíðan starfsmanna.
 
Guðjón B. Magnússon hefur verið vinnslustjóri fiskimjölsverksmiðjunnar í Neskaupstað og mun fyrst um sinn gegna því starfi áfram til hliðar við starf öryggisstjóra. Stefnt er að því að umfang öryggisstjórastarfsins muni aukast verulega á komandi tímum og það verði fullt starf.

Síldarvinnsluskipin hefja ekki loðnuveiðar strax

Börkur NK að loðnuveiðum. Ljósm. Geir ZoёgaBörkur NK að loðnuveiðum. Ljósm. Geir ZoёgaEins og flestum lesendum heimasíðunnar er fullkunnugt um er útgefinn loðnukvóti einungis 173 þúsund tonn og koma rétt liðlega 100 þúsund tonn í hlut íslenskra skipa. Kvóti Síldarvinnsluskipanna gæti orðið um 16 þúsund tonn. Þessi niðurstaða veldur miklum vonbrigðum en veiðistofninn að afloknum rannsóknum var metinn 675 þúsund tonn. Kvótinn er ákveðinn í samræmi við nýja aflareglu og er ljóst að hún leiðir til minni kvóta en sú eldri. Ef eldri reglan hefði verið í gildi má gera ráð fyrir að útgefinn kvóti væri um 250 þúsund tonn.
 
Fyrir Síldarvinnsluna leiðir þessi takmarkaði kvóti til þess að Síldarvinnsluskipin munu ekki hefja loðnuveiðar strax. Langmestu verðmætin liggja í Japansfrystingu og frystingu á loðnuhrognum og slík framleiðsla getur ekki hafist fyrr en loðnan er komin að hrygningu. Markaðir fyrir þessar afurðir eru þokkalegir og eðlilegt er að nýta þá sem best. Þá eru einnig einhverjir markaðir fyrir frysta loðnu í Úkraínu og Austur- Evrópu en kvótinn er það lítill að gera má ráð fyrir takmarkaðri framleiðslu inn á þá. Eins og staðan er í dag borgar sig að bíða með veiðar þar til framleiðsla verðmætustu afurðanna getur átt sér stað. Uppsjávarskip Síldarvinnslunnar, Beitir og Börkur, eru að kolmunnaveiðum í færeysku lögsögunni og munu fást við þær þar til skynsamlegt verður að hefja veiðar á loðnu.

Polar Amaroq með fyrstu loðnu ársins

Polar Amaroq landaði fyrstu loðnu ársins. Ljósm. Hákon ErnusonPolar Amaroq landaði fyrstu loðnu ársins. Ljósm. Hákon ErnusonGrænlenska uppsjávarskipið Polar Amaroq landaði fyrstu loðnu ársins í Neskaupstað sl. laugardag. Afli skipsins var 710 tonn af frosinni loðnu og um 30 tonn af fráflokkaðri sem fór í mjöl- og lýsisvinnslu. Aflinn fékkst í trollhólfinu norðaustur af Langanesi og gekk veiðiferðin vel að sögn Halldórs Jónassonar skipstjóra. 
     
Að löndun lokinni hélt Polar Amaroq á ný til veiða sl. laugardagskvöld. Haft var samband við Geir Zoëga skipstjóra í dag og lét hann vel af sér. „Siglt var á sömu slóðir og í fyrri túrnum og við tókum eitt tveggja tíma hol í gær og fengum um 400 tonn. Síðan hafa menn verið að frysta og það hefur gengið vel. Þetta er góð loðna og það flokkast sáralítið frá. Þegar við komum á miðin var mikið af loðnu að sjá og allt morandi í hval. Það er mjög líflegt um að litast,“ sagði Geir að lokum.

Hafin vinnsla á ufsa í fiskiðjuverinu í Neskaupstað

Vinnsla á ufsa í fiskiðjuverinu í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonVinnsla á ufsa í fiskiðjuverinu í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonÍ fyrradag hófst vinnsla á ufsa í fiskiðjuverinu í Neskaupstað. Togarinn Kaldbakur kom til Neskaupstaðar í fyrradag og landaði 115 tonnum af blönduðum afla, þar af fóru 20 tonn af ufsa til vinnslu í fiskiðjuverinu. Jón Gunnar Sigurjónsson yfirverkstjóri segir að ufsavinnslan sé hugsuð til að brúa bil á milli vertíða í uppsjávarfiski. „Við byrjuðum á ufsavinnslunni á fimmtudaginn og hún gengur samkvæmt áætlun. Við unnum ufsa í tvo daga fyrir áramót en þar áður fór slík  vinnsla fram árið 2014. Vonandi fer fljótlega að veiðast loðna af krafti og þá hefst vinnsla á henni. Við leggjum alla áherslu á að vinna uppsjávarfisk en þegar göt koma í uppsjávarvinnsluna er gott að geta gripið til annarrar vinnslu. Ufsinn er flakaður, snyrtur og frystur og það eru um 25 manns sem starfa við vinnsluna,“ sagði Jón Gunnar.

Beitir NK með 2.850 tonn í fyrstu veiðiferðinni

Beitir NK kemur til löndunar að lokinni fyrstu veiðiferð með 2.850 tonn af kolmunna. Ljósm. Guðlaugur B. BirgissonBeitir NK kemur til löndunar að lokinni fyrstu veiðiferð með 2.850 tonn af kolmunna. Ljósm. Guðlaugur B. BirgissonBeitir NK kom til Neskaupstaðar úr sinni fyrstu veiðiferð síðdegis í gær. Aflinn var 2.850 tonn af kolmunna sem fékkst í færeysku lögsögunni. Löndun hófst strax og skipið kom til hafnar en þegar lokið var við að landa tæplega 400 tonnum bilaði spennir í fiskimjölsverksmiðjunni og því þurfti það að halda til Seyðisfjarðar og ljúka löndun þar. Það mun taka einn til tvo daga að skipta um spenni.
 
Sturla Þórðarson, skipstjóri á Beiti, sagði að veiðiferðin hefði gengið vel í alla staði. „Auðvitað tekur alltaf tíma að venjast nýju skipi en þetta gekk allt eins og best verður á kosið. Það aflaðist þokkalega en að meðaltali fengum við um 300 tonn í holi,“ sagði Sturla.
 
Börkur NK kom með um 2.000 tonn af kolmunna til Neskaupstaðar sl. laugardag og Bjarni Ólafsson AK landaði 1.500 tonnum á Seyðisfirði sl. sunnudag. Gunnar Sverrisson, rekstrarstjóri fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar, segir að kolmunninn sem nú berst að landi sé úrvalshráefni enda komi skipin með allan afla vel kældan.
 
Börkur NK var í morgun kominn með 650 tonn af kolmunna og var að toga. Létu þeir Barkarmenn þokkalega af sér. Bjarni Ólafsson AK hafði fengið 350 tonn í fyrsta holi sl. nótt. 

Fundir um starfsmannastefnu og öryggismál

Starfsmenn fiskiðjuvers á fundi. Ljósm. Hákon ErnusonStarfsmenn fiskiðjuvers á fundi. Ljósm. Hákon ErnusonÍ þessum mánuði hafa verið haldnir fundir með starfsmönnum Síldarvinnslunnar um drög að nýrri starfsmannastefnu fyrirtækisins og öryggismál. Alls hafa verið haldnir fimm fundir og verður sá sjötti og síðasti væntanlega haldinn á næstu dögum.
 
Á fundunum var fjallað um stefnudrögin og á þeim var starfsmönnum gefið tækifæri til að tjá sig um þau. Hin nýju drög byggja að verulegu leyti á starfsmannaviðtölum sem tekin voru sl. sumar og starfsánægjukönnun sem gerð var sl. haust. Í drögunum er lögð aukin áhersla á heilsu og öryggi og því var sérstaklega fjallað um þann þátt á kynningarfundunum. Nýja stefnan gerir ráð fyrir heildstæðu öryggiskerfi innan fyrirtækisins og er þar lögð áhersla á skipan öryggisnefnda í öllum deildum, öryggisráð sem hefur yfirumsjón með málaflokknum og síðan ráðningu öryggisstjóra.
 
Að sögn Sigurðar Ólafssonar, sem unnið hefur að gerð stefnunnar, og Hákonar Ernusonar starfsmannastjóra sköpuðust góðar umræður á fundunum og komu þar fram gagnlegar ábendingar og athugasemdir sem leitast verður við að taka tillit til. Eftir er að kynna stefnudrögin fyrir skipverjum frystitogarans Barða NK en að þeirri kynningu lokinni mun stjórn Síldarvinnslunnar taka þau til umfjöllunar og afgreiðslu. Gera má ráð fyrir að ný starfsmannastefna geti tekið gildi í næsta mánuði.

Útflutningsbann snertir ekki einungis útgerðirnar

Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri SíldarvinnslunnarGunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri SíldarvinnslunnarMarkaðir fyrir íslenskar sjávarafurðir eru ekki einkamál sjávarútvegsfyrirtækja heldur skipta þeir samfélagið sannarlega miklu máli og hafa lengi gert. Þar nægir að nefna afkomu fjölda heimila vegna starfa bæði á sjó og í landi, svo ekki sé minnst á hagræn áhrif greinarinnar og mikilvægar útsvarstekjur sveitarfélaga vítt og breitt um landið.
 
Bann við sölu íslenskra sjávarafurða á markað í Rússlandi hefur mikil áhrif á sjávarútveginn og þá um leið á samfélagið í heild. Sérstaklega á sjávarpláss og íbúa þeirra. 
 
Tap útgerðarfyrirtækjanna er hlutfallslega mun minna en starfsmanna þeirra og samfélaganna sem þau starfa í.  Þjóðin verður af gjaldeyristekjum vegna minni verðmætasköpunar úr auðlindinni.  
 
Hvað snertir uppsjávarfiskinn þá er ljóst að þar standa á bak við vel stæð fyrirtæki, sem eiga að vera tilbúin að mæta sveiflum í rekstri hvort sem er í aflabresti eða erfiðum markaðsaðstæðum.  Afkoma versnar hjá þessum fyrirtækjum vegna bannsins, sem mun þá bitna á starfsmönnum, eigendum og samfélögunum sem þau starfa í.  Fjárfestingar munu dragast saman.
 
Útflutningsbannið hefur lokað fyrir sölu á frosnum sjávarafurðum til Rússlands, einhvers mikilvægasta markaðar okkar. Síldarvinnslan í Neskaupstað (SVN), það fyrirtæki sem ég þekki best, hefur unnið að því undanfarin ár að auka framleiðslu og um leið verðmæti uppsjávartegunda með því að þróa og auka framleiðslu á afurðum til manneldis úr uppsjávarstofnunum. Þær afurðir hafa verið seldar að stórum hluta til Rússlands og hafa aukið mikilvægi markaðarins verulega í veltu SVN.
 
 
 
Aðgangur að fleiri mörkuðum
 
Rússland hefur í áratugi verið einn mikilvægasti markaðurinn fyrir síldarafurðir frá Íslandi, auk þess sem markaðurinn hefur tekið á móti verulegu hlutfalli makrílsins sem Íslendingar hafa veitt og unnið síðustu árin. 
 
Þegar útflutningsbannið var samþykkt var ljóst að Íslendingar hefðu aðgang að fleiri mörkuðum en þeim rússneska fyrir síldar- og makrílafurðir. En það var líka ljóst að þeir markaðir greiða langt í frá sama verð og í Rússlandi. Það hefur tekist þokkalega að selja þessar afurðir á aðra markaði en á umtalsvert lægra verði en Rússar hefðu greitt. Verðlækkunin á síldar- og makrílafurðum nam um 35%.
 
Loðnan er sú fisktegund sem ég tel að mesta höggið verði í vegna bannsins.  Þá er ég að tala um bæði til lengri og skemmri tíma.   Þar er um að ræða mismunandi afurð eftir því á hvaða tíma loðnan er unnin.  Í upphafi vertíðar frystum við hænginn og hrygnuna á Rússlandsmarkað og Austur-Evrópu, aðrir markaðir hafa ekki viljað taka við slíkri loðnu enn sem komið er.  Þegar hrognafylling hrygnunnar hækkar er hængurinn flokkaður frá og hrygnan fryst fyrir Asíumarkað.  Síðan eru það loðnuhrognin sem við tökum í lok vertíðar og skiptast í tvo flokka eftir þroska. Svokölluð iðnaðarhrogn hafa eingöngu farið inná Rússland og Austur-Evrópu.
 
Þannig að það er auðveldara um að tala en í að komast að finna nýja markaði. Auðvitað eru fyrirtækin stöðugt að vinna með sínu markaðsfólki að samskiptum út um allan heim og leita að mörkuðum og tækifærum fyrir sínar afurðir með það huga að hámarka verðmæti þeirra.  Hvað loðnuna snertir þá höfum við alltaf þann möguleika að framleiða mjöl og lýsi.
 
Sjófrystur karfi hefur í vaxandi mæli farið til Rússlands og ljóst að fyrirtækin þurfa að leita nýrra markaða fyrir þær afurðir og breyta nýtingarstefnu fyrir fisktegundina.  Þar hljóta menn að horfa til þess að draga úr sjófrystingu og nýta karfann með öðrum hætti inná aðra markaði.  Það eykur líkur á verðlækkunum þar sem verð er háð framboði.
 
 
 Viðskiptasambönd rofna
 
Markaðir fyrir sjávarafurðir eru mjög sérhæfðir og yfirleitt tekur langan tíma að byggja upp traust viðskiptasambönd sem grundvallast meðal annars á reglubundinni vöruafhendingu og mætir bæði þörfum kaupenda og neytenda.  Alls er óvíst að það takist að viðhalda mörkuðum ef viðskipti falla niður til lengri tíma. 
 
Markaðurinn hefur sínar þarfir og uppfyllir þær eftir öðrum leiðum og inn koma nýjar vörur.  Það getur tekið langan tíma og felur í sér mikinn kostnað að vinna tapaða markaði aftur auk þess sem neyslumynstur þjóða breytist mjög hratt.
 
Útflutningsbannið á eftir að hafa víðtæk áhrif á íslenskt samfélag. Nú er loðnuvertíðin í uppnámi en markaðurinn fyrir loðnuafurðir, sérstaklega loðnuhrogn, hefur vaxið mikið í Rússlandi á undanförnum árum og keyptu Rússar um 50% hrognaframleiðslu SVN á síðasta ári. Við sjáum því fram á umtalsverðan samdrátt í sölunni sem leiðir af sér aukið framboð á aðra markaði. Það leiðir aftur til verulegrar verðlækkunar.  Verð á þessum mörkuðum er mjög viðkvæmt fyrir framboði.
 
Áhrifin viðtæk
 
Afleiðingar útflutningsbannsins hafa þegar haft mikil áhrif á íslenskt samfélag og áhrifin munu aukast á komandi mánuðum og ekki er sjálfgefið að markaðir í Rússlandi opnist aftur ef bannið dregst á langinn, svo mikið er víst.
 
Við óbreytt ástand stöndum við hjá SVN einfaldlega frammi fyrir því að draga verulega úr framleiðslu loðnuafurða til manneldis á komandi vertíð.  Stór hluti af þeirri verðmætasköpun fer í laun og meðhöndlun vörunnar, þannig að margfeldisáhrifin af þessum samdrætti eru mikil.
 
Þetta mun hitta samfélagið og starfsfólk okkar illa. Tekjur munu dragast töluvert saman hjá 80 starfsmönnum í landi og 40 sjómönnum. Lítið samfélag á borð við Neskaupstað mun finna fyrir þessum samdrætti því margfeldisáhrif launaveltunnar eru mikil og samdrátturinn snertir mun fleiri en þá sem starfa beint við sjávarútveginn.  Áhrifin teygja sig um allt samfélagið og hafa strax áhrif á þjónustufyrirtæki, verktaka og verslun á svæðinu, auk þess sem sveitarfélögin sjálf verða fyrir umtalsverðum tekjumissi.
 
Rekstur uppsjávarfyrirtækja er sveiflukenndur óháð Rússabanninu.  Við sjáum það vel í sveiflum á loðnukvóta á milli ára.  Á síðasta ári var kvótinn 360 þúsund tonn og í ár er ekki búið að úthluta neinum kvóta, árið 2008 var norsk íslenski síldarkvótinn um 240 þúsund tonn en í ár verður hann 42 þúsund tonn.  Hjá Síldarvinnslunni bíða 180 manns eftir að loðnukvóta verði úthlutað og eiga þeir mikið undir að svo verði ásamt fyrirtækinu.  Það er alveg ljóst að þessar sveiflur hafa leitt til meiri samþjöppunar aflaheimilda í uppsjávartegundum en öðrum tegundum.   Þannig eru mun færri og öflugri fyrirtæki að veiða og vinna uppsjávarfisk nú en áður.
 
Auðvitað er misjafnt hvernig þetta leggst á samfélög og starfsmenn fyrirtækjanna.  Þannig hittir þetta Fjarðabyggð, Vestmannaeyjar, Vopnafjörð, Hornafjörð, Langanesbyggð, Akranes og Reykjanesbæ hvað verst.  En ég vara menn við því að ætla að færa aflaheimildir af einum stað á annan með sértækum aðgerðum, til að minnka áfallið í einstökum byggðarlögum.  Það gerir ekkert annað en að færa vandamálið til og flytja vinnu frá einum stað á þann næsta.
 
Stöðugleiki
Það er mikilvægt að stöðugleiki ríki í kringum starfsumhverfi sjávarútvegsins.  Það er sjálfsögð krafa okkar sem vinnum við greinina að ákvarðanir sem snerta hana  séu teknar að vel ígrunduðu máli, þær fái málefnalega umræðu og hagsmunaðilum sé haldið upplýstum.  Ég tel að það hafi verið mikill skortur á því í yfirstandandi Rússamáli.
                                                                             
Gunnþór Ingvason
framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar

Fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar tóku á móti rúmlega 263 þúsund tonnum af hráefni árið 2015

Fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði. Ljósm. Hákon ErnusonFiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði. Ljósm. Hákon ErnusonÁrið 2015 var hagstætt fyrir fiskimjölsiðnaðinn og tóku fiskimjölsverksmiðjurnar þrjár sem Síldarvinnslan á og rekur á móti rúmlega 263 þúsund tonnum af hráefni. Á árinu 2014 var móttekið hráefni þeirra tæplega 162 þúsund tonn. Helsta ástæða aukningarinnar er sú að loðnuveiðin var mun meiri árið 2015 en 2014. Hér verða birtar upplýsingar um móttekið hráefni hverrar verksmiðju á árinu 2015 og einnig upplýsingar um framleiðslu þeirra á mjöli og lýsi: 

  Móttekið magn hráefnis Framleitt mjöl  Framleitt lýsi 
Neskaupstaður  145.911  28.674  8.821 
Seyðisfjörður  73.928  15.216  2.400 
Helguvík  43.656 

8.414 

3.398 
Samtals 263.495

52.294

14.619
 
Til samanburðar má geta þess að á árinu 2014 tók verksmiðjan í Neskaupstað á móti 110.215 tonnum af hráefni, verksmiðjan á Seyðisfirði 24.283 tonnum og verksmiðjan í Helguvík 27.273 tonnum. 
 

Árið fer vel af stað hjá togurunum

Trollið tekið á Bjarti NK. Ljósm. Þorgeir BaldurssonTrollið tekið á Bjarti NK. Ljósm. Þorgeir BaldurssonÍsfisktogararnir Gullver NS, Bergey VE og Vestmannaey VE héldu til veiða 2. janúar en ísfisktogarinn Bjartur NK og frystitogarinn Barði NK 5. janúar. Nú eru ísfisktogararnir komnir í sína þriðju veiðiferð á árinu eða eru að hefja hana. Allir hafa ísfisktogararnir veitt á Austfjarðamiðum það sem af er árinu. Bergey og Vestmannaey hafa lagt áherslu á ýsuveiðar en Gullver og Bjartur á þorsk- og karfaveiðar.
 
Gullver landaði að morgni 5. janúar á Seyðisfirði um 35 tonnum af þorski og 20 tonnum af karfa. Hann kon aftur inn 11. janúar og landaði þá 40 tonnum af þorski, 20 tonnum af karfa og einnig nokkuð af ýsu og ufsa. Gullver hélt í sína þriðju veiðiferð á árinu um hádegi í gær.
 
Vestmannaey og Bergey lönduðu samtals 70 tonnum af ýsu, 50 tonnum af þorski ásamt nokkuð af ufsa og karfa á Eskifirði hinn 7. janúar. Vestmannaey landaði á ný í Vestmannaeyjum í gær og var aflinn að uppistöðu til ýsa og karfi, 25 tonn af ýsu og 20 tonn af karfa. Í dag landar Bergey í Vestmannaeyjum svipuðum afla og Vestmannaey landaði í gær, en þó er heldur meira af ufsa í afla Bergeyjar.
 
Fyrsti túr Bjarts á árinu stóð einungis í tvo daga og í lok hans landaði hann 35 tonnum af þorski og 8 tonnum af ýsu. Sl. þriðjudag kom hann á ný til löndunar með um 70 tonn af þorski og 10 tonn af karfa. Bjartur hélt í sína þriðju veiðiferð á árinu fyrr í dag.
 
Frystitogarinn Barði hélt til veiða 5. janúar eins og fyrr segir og hóf veiðar á Austfjarðamiðum. Um helgina færði hann sig suður fyrir land og hyggst reyna fyrir sér í karfa og gulllaxi.

Börkur og Beitir að kolmunnaveiðum

Hinn nýji Beitir NK heldur til veiða í fyrsta sinn sl. laugardag. Ljósm. Kristinn Agnar EiríkssonHinn nýji Beitir NK heldur til veiða í fyrsta sinn sl. laugardag. Ljósm. Kristinn Agnar EiríkssonBörkur NK hélt til kolmunnaveiða í færeysku lögsögunni 4. janúar. Ótíð hefur verið á miðunum og síðan hann fór hafa verið 4-5 bræludagar og þá ekki verið unnt að stunda veiðar. Heimasíðan sló á þráðinn til Hálfdanar Hálfdanarsonar skipstjóra og innt hann frétta. „Við erum búnir að fá 700 tonn í þremur stuttum holum en á laugardag skall á bölvuð bræla þannig að við leituðum vars. Við byrjuðum á að fara til Fuglafjarðar þar sem gert var við trollið en síðan var legið í Klakksvík þar sem ekki var bryggjupláss í Fuglafirði. Síðan var haldið á miðin á ný í gærkvöldi og nú er verið að leita þannig að veiðar eru ekki hafnar á ný. Það er ekki hægt að segja að tíðarfarið sé skemmtilegt hér um þessar mundir en svona er þetta bara á þessum árstíma,“ sagði Hálfdan.
 
Hinn nýi Beitir NK hélt til veiða í fyrsta sinn sl. laugardag en hjá honum eru kolmunnaveiðar einnig á dagskrá. Hann byrjaði á að fara til Fuglafjarðar að sækja troll en síðan fór hann í var við Suðurey. Beitir hélt einnig á miðin að lokinni brælu í gærkvöldi.
 
Að sögn Hálfdanar eru 7-8 íslensk skip að kolmunnaveiðum við Færeyjar þessa dagana.

Gott ár hjá Bergi-Hugin

Bergey VE og Vestmannaey VE í höfn í Vestmanneyjum. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonBergey VE og Vestmannaey VE í höfn í Vestmanneyjum. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonÁrið 2015 reyndist Bergi-Hugin, dótturfyrirtæki Síldarvinnslunnar í Vestmannaeyjum, afar hagstætt. Skip félagsins, Vestmannaey og Bergey, öfluðu vel og afkoman var góð. Afli Vestmannaeyjar á árinu var 3.864 tonn og Bergeyjar 3.665 tonn. Aflaverðmæti skipanna reyndist 2.285 milljónir króna. Um er að ræða hæsta aflaverðmæti í sögu félagsins. Útgerðarfélagið Bergur- Huginn var stofnað árið 1972 um smíði á Japanstogaranum Vestmannaey sem var systurskip Bjarts NK. Lengi vel gerði félagið út þrjú skip en frá árinu 2012 hafa skipin verið tvö.

Aflaverðmæti skipa Síldarvinnslunnar og dótturfélaga jókst um tæplega 24% á milli ára

Borkur ad veidum feb 2015 IFS

Börkur NK að loðnuveiðum. Ljósm: Ísak Fannar 

Aflaverðmæti skipa Síldarvinnslunnar og dótturfélaga hennar jókst um 23,8% á milli áranna 2014 og 2015 en aflinn jókst um 35% í tonnum talið og ræður þar aflaaukning uppsjávarskipa langmestu. Heildaraflaverðmætið var 8.523 milljónir króna á árinu 2014 en 10.548 milljónir króna á árinu 2015. Dótturfélög Síldarvinnslunnar eru Gullberg á Seyðisfirði sem gerir út togarann Gullver NS og Bergur-Huginn í Vestmannaeyjum sem gerir út togarana Bergey VE og Vestmannaey VE. Í töflunni hér fyrir neðan má sjá afla og aflaverðmæti hvers skips á árunum 2014 og 2015.

 

2015

 

2014

 

Afli (tonn)

Verðmæti FOB (milljónir)

 

Afli (tonn)

Verðmæti FOB (milljónir)

Ísfisktogarar

         

Bjartur NK

4.133

951

 

4.389

908

Gullver NS

3.877

974

 

3.002

789

Bergey VE

3.665

1.106 (CIF)

 

3.319

909 (CIF)

Vestmannaey VE

3.864

1.179 (CIF)

 

3.439

973 (CIF)

 

15.539

4.210

 

14.149

3.579

Frystitogarar

         

Barði NK

4.533

1.726

 

4.597

1.307

Blængur NK

726

256

 

0

0

 

5.259

1.982

 

4.597

1.307

Uppsjávarskip

         

Börkur NK

62.166

2.034

 

46.011

1.824

Beitir NK

45.281

1.462

 

37.812

1.470

Birtingur NK

27.360

860

 

12.672

343

 

134.807

4.356

 

96.495

3.637

Síldarvinnslan og dótturfélög

155.605

10.548

 

115.241

8.523

83% aukning á hráefni til vinnslu á Seyðisfirði

               DSC 2938 a

Miklar annir hafa ríkt í fiskvinnslustöð Gullbergs á Seyðisfirði á árinu 2015. Ljósm: Ómar Bogason

Síldarvinnslan hf. festi kaup á fiskvinnslustöðinni á Seyðisfirði og togaranum Gullver í lok árs 2014 og dótturfélagið Gullberg hefur síðan annast reksturinn. Mikill vöxtur hefur verið í starfsemi fiskvinnslustöðvarinnar frá eigendaskiptunum og jókst móttekið hráefni á árinu 2015 um 83,2% frá árinu áður. Á árinu 2015 tók stöðin á móti 3.384 tonnum til vinnslu á meðan móttekið hráefni nam 1.847 tonnum á árinu 2014.

                Aflinn sem barst til fiskvinnslustöðvarinnar á síðasta ári kom frá Gullver NS (um 1.800 tonn), frá Bjarti NK (um 750 tonn), frá skipum Samherja (um 500 tonn) og frá skipum Bergs-Hugins (um 300 tonn).

                Adolf Guðmundsson rekstrarstjóri Gullbergs segir að árið 2015 hafi gengið afar vel bæði hvað varðar veiðar og vinnslu.  „Frá því að Síldarvinnslan kom að þessu verkefni hefur allt gengið eins og í sögu og reyndar betur en ég reiknaði með,“ sagði Adolf. „ Væntingarnar í upphafi hafa nánast allar gengið eftir. Það hefur orðið gjörbreyting á rekstrinum og ekki fallið úr vinnsludagur frá eigendaskiptunum. Menn geta ekki verið annað en sáttir við gang þessara mála hér á Seyðisfirði,“ sagði Adolf að lokum.

                Rétt er að geta þess að vegna aukningar á afla til vinnslu á Seyðisfirði hefur úthlutun á byggðakvóta til staðarins nánast fallið niður. Byggðakvóti til Seyðisfjarðar á árinu 2014 nam 134 tonnum og má gera ráð fyrir að slíkur kvóti skapi um það bil tvö og hálft ársverk. Byggðakvótinn á árinu 2015 nam hins vegar einungis 15 tonnum. Enn og aftur má spyrja hvort þær reglur sem gilda um úthlutun byggðakvóta séu eðlilegar og réttlátar, en hér er um að ræða alvarlegri áhrif á atvinnulíf Seyðisfjarðar en samdráttaraðgerðir Landsbankans á staðnum fyrir skömmu.

Alls tóku frystigeymslur Síldarvinnslunnar á móti tæplega 55 þúsund tonnum af frystum afurðum á árinu 2015

Frosnum afurðum skipað út í tvö skip samtímis í Norðfjarðarhöfn   Ljósm. Hákon ErnusonFrosnum afurðum skipað út í tvö skip samtímis í Norðfjarðarhöfn Ljósm. Hákon ErnusonÁ árinu 2015 tóku frystigeymslur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað á móti tæplega 55 þúsund tonnum af frystum afurðum. Um 22.300 tonn komu frá vinnsluskipum en um 32. 300 tonn komu frá fiskiðjuverinu. Eftirtalin skip lönduðu frosnum afurðum í frystigeymslurnar á árinu:
 
Vilhelm Þorsteinsson EA 3.302 tonn
Kristina EA 7.580 tonn
Hákon EA 7.579 tonn
Barði NK 2.983 tonn
Blængur NK 166 tonn
Polar Amaroq 653 tonn
                                                
Tæplega 65 þúsund tonnum af afurðum sem geymdar voru í frystigeymslunum var skipað út á árinu. Þar af fóru 49.899 tonn beint í skip í Norðfjarðarhöfn en 14. 856 tonn voru flutt í gámum eða með bílum til útskipunar í öðrum höfnum. Þannig hafa flutningabílar farið rúmlega 600 ferðir yfir Oddsskarð hlaðnir afurðum úr frystigeymslunum.
 

Veiðar að hefjast á nýju ári

Gullver NS. Ljósm. Ómar BogasonGullver NS. Ljósm. Ómar BogasonÍsfisktogararnir Gullver NS, Bergey VE og Vestmannaey VE héldu allir til veiða  2. janúar og er ráðgert að Gullver komi til löndunar á Seyðisfirði í fyrramálið. Ísfisktogarinn Bjartur NK heldur til veiða á miðnætti og frystitogarinn Barði NK á morgun. Börkur NK heldur til kolmunnaveiða í færeysku lögsögunni á miðnætti en færeysk skip hafa verið að fá þar þokkalegan afla um áramótin. Stefnt er að því að Beitir NK haldi til kolmunnaveiða um næstu helgi.  
 
Grænlenska skipið Polar Amaroq mun væntanlega halda til loðnuveiða í íslensku lögsögunni á miðvikudag en skipið hefur legið við bryggju á Reyðarfirði yfir hátíðarnar.

Áramótakveðja

Sildarvinnslan 00 00 12 05 Still005


Síldarvinnslan hf. óskar starfsmönnum sínum og landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs og þakkar fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða.

Undirflokkar