Pylsupartí í blíðunni

Grillað í blíðunni hjá Gullveri. Ljósm. Ómar BogasonGrillað í blíðunni hjá Gullberg Ljósm. Ómar BogasonSumarið er svo sannarlega komið á Austfjörðum. Það er blíða dag eftir dag og allir brosa út að eyrum. Í gær efndi starfsfólk fiskvinnslustöðvar Gullbergs á Seyðisfirði til pylsupartís í hádeginu en þá var yfir 20 stiga hiti. Sömu hlýindi voru í Neskaupstað þar sem skrifstofufólk Síldarvinnslunnar tók íspásu um miðjan dag. Myndin sem fylgir er af starfsmönnum Gullbergs í pylsupartíinu og er hún tekin við rauðmálaðan gafl frystigeymslunnar. Brátt mun rauði liturinn hverfa því nú eru að hefjast miklar endurbætur á fiskvinnslustöðinni og blár Síldarvinnslulitur mun leysa þann rauða af hólmi.
 

Starfsmannafundur

 

Hvernig á að byggja upp heilbrigðan vinnustað ?

Fiskidjuverid juli 2014 HV

Síldarvinnslan heldur starfsmannafund í Egilsbúð í Neskaupstað mánudaginn 6. júní og hefst hann kl. 10. Fundurinn er haldinn í tengslum við endurskoðun starfsmannastefnu fyrirtækisins en Síldarvinnslan hefur það markmið að vinnustaðir fyrirtækisins einkennist af vellíðan starfsfólks og öryggi. Jafnframt er það ótvírætt markmið að útrýma öllum neikvæðum þáttum á borð við einelti.

                Dagskrá fundarins er eftirfarandi:

 • Starfsánægja og velferð. Af hverju þarf að ræða það ? Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri
 • Lífsánægja og starfsumhverfi sjómanna. Salóme Rut Harðardóttir íþrótta- og heilsufræðingur
 • Starfsandi og liðsheild. Jóhann Ingi Gunnarsson sálfræðingur
 • Jákvæð samskipti á vinnustað, gleði og húmor. Edda Björgvins leikkona
 • Starfsmannastefna Síldarvinnslunnar. Hvað ætlar Síldarvinnslan að gera til að byggja upp heilbrigðan vinnustað? Hákon Ernuson starfsmannastjóri
 • Tónlist.

                               Boðið verður upp á veitingar á fundinum

Afreksmannasjóður Guðmundar Bjarnasonar

Gunnþór Ingvason og Stefán Már Guðmundsson við undirritun reglugerðar um Afreksmannasjóð Guðmundar Bjarnasonar. Ljósm: Smári GeirssonGunnþór Ingvason og Stefán Már Guðmundsson við undirritun reglugerðar um Afreksmannasjóð Guðmundar Bjarnasonar. Ljósm: Smári GeirssonÍ dag undirrituðu Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar og Stefán Már Guðmundsson formaður Íþróttafélagsins Þróttar reglugerð fyrir Afreksmannasjóð Guðmundar Bjarnasonar. Á aðalfundi Síldarvinnslunnar í fyrra var samþykkt að stofna sjóðinn og skyldi Síldarvinnslan árlega veita honum eina milljón króna til ráðstöfunar. Sjóðurinn er stofnaður í minningu Guðmundar Bjarnasonar sem lést á síðasta ári. Guðmundur var formaður Þróttar á árunum 1984 til 1987 og formaður knattspyrnudeildar félagsins á árunum 1976-1985. Þá sat Guðmundur í stjórn Knattspyrnusambands Íslands á árunum 1978-1991. Sæti í stjórn Síldarvinnslunnar átti Guðmundur á árunum 1991-2005 auk þess sem hann sat í stjórn Samvinnufélags útgerðarmanna frá 1984 til dauðadags en stjórnarformaður félagsins var hann frá 2005. Guðmundur gegndi starfi bæjarstjóra, fyrst í Neskaupstað og síðan í Fjarðabyggð, á árunum 1991-2006.
 
Tilgangur sjóðsins er að styrkja einstaklinga innan Þróttar sem náð hafa framúrskarandi árangri í íþrótt sinni. Á það við þegar viðkomandi hefur öðlast rétt til keppni á fjölþjóðlegum mótum, verið valinn í landslið, unnið Íslandsmeistaratitil, sett Íslandsmet eða skarað fram úr með eftirtektarverðum hætti. Sækja þarf um styrk úr sjóðnum og er gert ráð fyrir að styrkjum verði úthlutað tvisvar á ári. Stjórn Íþróttafélagsins Þróttar ásamt einum fulltrúa frá Síldarvinnslunni skipa sjóðsstjórnina.
 

Nýtt öryggiskerfi: Hvað er að frétta?

DSC03722

Guðjón B. Magnússon öryggisstjóri Síldarvinnslunnar. Ljósm: Hákon Ernuson

 

 Nú stendur yfir innleiðing á nýju öryggiskerfi Síldarvinnslunnar undir stjórn Guðjóns B. Magnússonar, nýs öryggisstjóra fyrirtækisins. Sigurður Ólafsson, ráðgjafi, hefur aðstoðað Guðjón við innleiðinguna, ásamt Ásgrími Ásgrímssyni, öryggisstjóra Launafls. Markmið þessarar vinnu er að byggja upp öryggismenningu hjá fyrirtækinu þar sem hættur eru stöðugt greindar, lausnir fundnar, innleiddar, mældar og endurbættar eftir því sem tækni, veiðum og vinnslu fleygir fram. „Þetta er langtímaverkefni sem stendur og fellur með þátttöku starfsmanna og stjórnenda á hverjum vinnustað“, segir Guðjón. „Þetta snýst um að nýta þekkingu starfsmanna til að greina hættur, hanna og innleiða lausnir sem virka. Í þessu sambandi skiptir breytt hugarfar og ekki síður breytt hegðun miklu máli – markmiðið er að byggja upp öryggisvenjur sem skila árangri. Það er ljóst að það tekur tíma og orku að byggja upp öryggismenningu, en bæði rannsóknir og reynsla sýna hvað það skilar miklum árangri. Til dæmis sést mjög skýrt á slysa- og dánartíðni sjómanna hverskonar árangur næst þegar menn ganga skipulega í að auka öryggi og öryggisvitund. Fyrir örfáum áratugum fórust fjölmargir sjómenn á hverju ári. Ákvörðun var tekin um að gera ráðstafanir til að bæta öryggi sjómanna og nú eru alvarlega slys á sjó mjög fátíð miðað við það sem áður var. Slysatíðni í fiskiðnaði er hins vegar enn allt of há og ljóst að það þarf að huga betur að öryggismálunum, enda sést að flest stóru sjávarútvegs- og fiskvinnslufyrirtækin hafa ráðið öryggisstjóra til starfa og eru að stórauka áherslu á öryggismál. Það eru sífellt fleiri að átta sig á því að það þarf að ráðstafa tíma og fjármunum í öryggismálin ef árangur á að nást, en ég held líka að menn séu að þessu vegna þess að það borgar sig og skilar sér í snarlækkaðri tíðni slysa. Það er ekki  ásættanlegt að það verði slys í sjávarútvegi sem hefði mátt fyrirbyggja með réttum búnaði eða vinnubrögðum. Við stefnum því gallhörð að því að útrýma slysum hjá Síldarvinnslunni og mér finnst sérlega spennandi og gefandi að taka þátt í þeirri vinnu ásamt þeim sem hafa veitt okkur ráðgjöf á sviði öryggismálanna“, segir Guðjón að lokum.

Staðan á innleiðingu öryggiskerfis Síldarvinnslunnar er sú að búið er að gera drög að nýjum áhættugreiningum í fiskiðjuverinu í Neskaupstað og er nú komið að lokarýni og undirbúningi innleiðingar. „Við munum leggja mikla áherslu á nýliðafræðslu núna fyrir komandi síldar- og makrílvertíð og þá ekki síst með öryggismálin í huga. Við viljum að öryggismálin njóti athygli hvern einasta vinnudag og mikilvægi þeirra má aldrei gleymast“, segir Guðjón. Talsverðar breytingar verða gerðar á búnaði og vinnuaðstöðu til að auka öryggið fyrir síldar- og makrílvertíðina og fyrirhugað er yfirfara allt fiskiðjuverið og síðan aðra vinnustaði út frá öryggissjónarmiðum.

Reynslan úr fiskiðjuverinu verður síðan nýtt við innleiðingu kerfisins í öðrum starfsstöðvum og skipum fyrirtækisins, en meira verður að frétta af því innan skamms.

Tæplega 65.000 tonn af kolmunna til Neskaupstaðar og Seyðisfjarðar

DSC04141 2

Beitir NK siglir inn Norðfjarðarflóa með kolmunnafarm. Ljósm: Smári Geirsson                

Kolmunnavertíðinni hjá Síldarvinnslunni lauk í síðustu viku en Beitir NK var síðasta skipið til að koma með afla til löndunar. Alls hefur rúmlega 25.000 tonnum af kolmunna verið landað á Seyðisfirði frá áramótum og tæplega 40.000 tonnum í Neskaupstað. Gunnar Sverrisson rekstrarstjóri fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar segir að kolmunninn á vertíðinni hafi verið ágætt hráefni. „Megnið af aflanum hefur verið vel kælt um borð í skipunum og það eykur gæði hráefnisins og auðveldar vinnsluna,“ segir Gunnar.

                Síldarvinnsluskipin, Beitir og Börkur, hafa aflað vel á vertíðinni en veiðin hefur farið fram í færeysku lögsögunni. Sömu sögu er að segja af öðrum skipum sem landað hafa kolmunnaafla í fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og á Seyðisfirði. Eftirtalin skip lönduðu kolmunnaafla í fiskimjölsverksmiðjurnar á vertíðinni:

Beitir NK 18.749 tonn

Börkur NK 18.818 tonn

Bjarni Ólafsson AK 7.945 tonn

Vilhelm Þorsteinsson EA 7.735 tonn

Hákon EA 7.662 tonn

Norderveg (norskt skip) 2.405 tonn

                Að sögn Hjörvars Hjálmarssonar skipstjóra á Berki var nýliðin kolmunnavertíð afar góð. „Þessi vertíð var til dæmis mun betri en vertíðir síðustu ára. Segja má að vertíðin hafi gengið vel  frá því að veiðar hófust í apríl og þar til þeim lauk í síðustu viku. Dálítið var þó farið að tregast þegar við vorum í síðasta túr. Ég held að allir séu afar sáttir við þessa vertíð, hún var í raun hin fínasta,“ sagði Hjörvar.

Met í aprílmánuði hjá Bergi – Hugin

Slippur Vestmannaey 18 5 2016 07-35-37 002

Vestmannaey VE í slipp hjá Skipalyftunni. Ljósm: Guðmundur Alfreðsson

                Aflinn í aprílmánuði hjá skipum Bergs – Hugins, Vestmannaey VE og Bergey VE, sló fyrri met. Alls var hann 1280 tonn upp úr sjó og námu verðmæti aflans um 275 milljónum króna. Fullyrt er að þetta sé besti mánuður í sögu fyrirtækisins og almennt eru menn sammála um að vart sé unnt að gera betur.

                Vestmannaey var tekin í slipp hjá Skipalyftunni á þriðjudag í síðustu viku og hafa framkvæmdir við skipið gengið einstaklega vel. Það hefur verið málað hátt og lágt, öxuldregið, skipt um skrúfublöð og  sett tvö ný botnstykki ásamt annarri slippvinnu. Skipið verður væntanlega sjósett í dag og mun halda til veiða í nótt eða í fyrramálið.

                Á meðan Vestmannaey hefur verið í slippnum hefur Bergey rótfiskað. Skipið er að landa fullfermi (70 tonnum) af ufsa í dag eftir tveggja daga veiðiferð og landaði áður fullfermi af ýsu einnig eftir tveggja daga veiðiferð.

                

Aðalfundur Síldarvinnslunnar hf.

logo

 

Aðalfundur Síldarvinnslunnar hf.

Verður haldinn fimmtudaginn 2. júní  2016 á Hótel Hildibrand, Neskaupstað,

kl. 14:00.

 

Dagskrá:

 1. Skýrsla stjórnar
 2. Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til staðfestingar
 3. Tekin ákvörðun um greiðslu arðs
 4. Tillaga stjórnar um starfskjarastefnu
 5. Ákveðin þóknun til stjórnar félagsins
 6. Kosin stjórn félagsins
 7. Kosnir endurskoðendur
 8. Önnur mál, löglega fram borin

Stjórn Síldarvinnslunnar hf.

Land gert fyrir nýja netagerð

DSC04154

Unnið að gerð uppfyllingar fyrir netagerð Fjarðanets. Ljósm: Smári Geirsson

Um þessar mundir er unnið að því að gera land þar sem ný netagerð Fjarðanets hf. í Neskaupstað mun rísa. Landfyllingin er austan við fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar og þessa dagana er sanddæluskipið Dísa að flytja efni á svæðið. Hið nýja hús netagerðarinnar verður 85 metra langt og 26 metra breitt eða 2200 fermetrar. Framan við húsið verður stálþil þannig að skip sem þurfa þjónustu netagerðarinnar munu leggjast þar að. Öll starfsemi Fjarðanets mun fá inni í nýbyggingunni; netaverkstæðið, gúmmíbátaþjónustan og að auki verður þar aðstaða til að geyma veiðarfæri innan dyra. Ekkert fer á milli mála að mikil þörf er fyrir nýja netagerð ekki síst vegna þess að bæði skip og veiðarfæri fara sífellt stækkandi og það útheimtir stærri og betri aðstöðu.

Að sögn Jóns Einars Marteinssonar framkvæmdastjóra er ætlunin að bjóða upp á toppaðstöðu í framtíðinni og hin nýja bygging er lykilþáttur í því sambandi. Jón Einar sagði að upphaflega hefði verið gert ráð fyrir að byggingaframkvæmdir hæfust í haust en framkvæmdir við uppfyllingu hefðu tafist og því væri nú gert ráð fyrir að þær hæfust ekki fyrr en næsta vor. „Framkvæmdir við uppfyllinguna hafa tafist um 5-6 mánuði í fyrsta lagi vegna þess að dýpkunarskipið Perla sökk í Reykjavíkurhöfn, en það átti að sinna dælingu á efni og í öðru lagi vegna þess að heldur meira efni þurfti í uppfyllinguna en gert hafði verið ráð fyrir. Nú er áætlað að stálþilið verði rekið niður síðar á þessu ári og síðan þarf landið að síga áður en byggingaframkvæmdir hefjast,“ sagði Jón Einar. „Þetta er allt komið á beinu brautina núna eftir óvæntar tafir og vonandi eiga allar framkvæmdir eftir að ganga vel,“ sagði Jón Einar að lokum.

 

Kolmunnaveiðarnar ganga eins og í sögu

Beitir NK kemur með 3.053 tonn af kolmunna til löndunar í Neskaupstað. Ljósm. Smári GeirssonBeitir NK kemur með 3.053 tonn af kolmunna til löndunar í Neskaupstað. Ljósm. Smári GeirssonKolmunnaveiðarnar í færeysku lögsögunni hafa gengið afar vel til þessa. Skipin ná fullfermi á skömmum tíma og framleiðsla úr hráefninu hefur gengið vel hjá fiskimjölsverksmiðjunum. Síldarvinnsluskipin, Börkur og Beitir, hafa hvort um sig fiskað um 17.000 tonn og eiga bæði eftir að landa einu sinni enn þegar þetta er skrifað. Önnur skip sem landað hafa í verksmiðjur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og á Seyðisfirði hafa einnig gert það gott á kolmunnanum en það eru Vilhelm Þorsteinsson EA, Hákon EA og Bjarni Ólafsson AK.
 
Beitir kom til Neskaupstaðar í gær með 3053 tonn og Hákon landaði þar 1300 tonnum sl. mánudag og Vilhelm Þorsteinsson tæplega 1900 tonnum sl. þriðjudag. Börkur landaði síðan 2380 tonnum á Seyðisfirði sl. þriðjudag.

Karfavinnsla hafin

Karfavinnsla hafin í fiskiðjuverinu. Ljósm. Hákon ErnusonKarfavinnsla hafin í fiskiðjuverinu. Ljósm. Hákon ErnusonKarfavinnsla hófst í fiskiðjuverinu í Neskaupstað í gær. Frá því að loðnuvertíð lauk hefur verið unninn ufsi í fiskiðjuverinu en nú bætist karfavinnslan við. Að undanförnu hefur verið unnið að því að setja upp vélbúnað vegna karfavinnslunnar og verður karfinn ýmist lausfrystur eða seldur ferskur á markað.
 
Vinnslan í fiskiðjuverinu mun stöðvast í þrjár vikur í lok maímánuðar og fyrri hluta júnímánaðar vegna framkvæmda í fiskiðjuverinu. Verður það hlé nýtt til að fara í starfsmannaferð til Ítalíu. Vinnsla á ufsa og karfa mun síðan hefjast á ný þar til makríl- og síldarvertíð hefst um miðjan júlímánuð.
 
Um þessar mundir standa yfir ráðningar á sumarstarfsmönnum í fiskiðjuverið.

Barði með ágætan túr

Barði NK kominn til löndunar í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonBarði NK kominn til löndunar í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonFrystitogarinn Barði NK kom til Neskaupstaðar í morgun með nánast fullfermi eftir 18 daga veiðiferð. Aflinn er 360 tonn upp úr sjó að verðmæti 96 milljónir króna og er uppistaða hans gulllax og ufsi. Theodór Haraldsson skipstjóri sagðist vera ágætlega sáttur við túrinn. „Veiðiferðin hófst á Austfjarðamiðum þar sem reynt var við ufsa en síðan lá leiðin allt að Vestmannaeyjum þar sem áhersla var lögð á að veiða karfa og gulllax. Fyrir austan var alltof mikill þorskur fyrir okkur sem leggjum áherslu á að veiða aðrar tegundir. Þar gekk erfiðlega að finna ufsann framan af en okkur gekk betur að finna hann hér eystra undir lok túrsins. Annars ber að nefna að veðrið var gott allan túrinn og það er mikils virði,“ sagði Theodór.
 
Barði mun halda til veiða á ný nk. fimmtudag.
 

Metfarmar í kolmunnanum

Beitir NK að landa kolmunna á Seyðisfirði. Ljósm. Eyrún GuðmundsdóttirBeitir NK að landa kolmunna á Seyðisfirði. Ljósm. Eyrún GuðmundsdóttirBeitir NK kom til Seyðisfjarðar í morgun með um 3000 tonn af kolmunna sem fékkst í færeysku lögsögunni. Beitir landaði einnig síðasta túr á Seyðisfirði og þá komu 3047 tonn upp úr skipinu. Þetta eru án efa stærstu farmar sem íslenskt fiskiskip hefur komið með að landi. Heimasíðan sló á þráðinn til Tómasar Kárasonar skipstjóra og var hann býsna ánægður með kolmunnaveiðina að undanförnu. „Veiðin hefur gengið mjög vel upp á síðkastið og höfum við verið að fá 600-700 tonn á sólarhring. Aflinn í þessum túr fékkst til dæmis í sex holum. Við vorum nú að veiðum um 60 sjómílur suðaustur úr Akrabergi en svo heitir syðsti oddi Færeyja,“ sagði Tómas.
 
Sömu sögu er að segja af Berki NK. Veiðarnar hjá honum hafa gengið afar vel og er hann nú á leið til Neskaupstaðar með 2200 tonn. Hálfdan Hálfdanarson skipstjóri segir að aflinn hafi fengist í sex holum suðaustur af Færeyjum.
 
Hákon EA landaði 1360 tonnum af kolmunna í Neskaupstað í gær en Bjarni Ólafsson AK er hættur kolmunnaveiðum að sinni.

Lítið um ufsa fyrir austan

Bjartur NK. Myndin er tekin á Breiðdalsgrunni. Ljósm. Þór JónssonBjartur NK. Myndin er tekin á Breiðdalsgrunni. Ljósm. Þór JónssonBjartur NK kom til löndunar í Neskaupstað í morgun eftir þrjá daga á veiðum. Aflinn var um 70 tonn, að uppistöðu þorskur, ufsi og karfi. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri segir að enginn vandi sé að fá þorsk og hafi hann fengist í þremur holum. Allt aðra sögu sé hins vegar að segja af ufsanum. „Við vorum í Berufjarðarál og Hvalbakshalli með stuttri viðkomu í Lónsdýpinu og leituðum að ufsa og reyndar einnig karfa. Ufsinn vill bara alls ekki sýna sig almennilega. Hann birtist einn og einn dag hingað og þangað í kringum landið en hann hefur varla sýnt sig hér eystra þó hans tími eigi að vera kominn. En það er með þetta eins og annað; það er ekkert annað hægt en bíða og vona,“ sagði Steinþór.
 
Jónas P. Jónsson, skipstjóri á Gullver NS, tók undir með Steinþóri en Gullver er á veiðum í Berufjarðarál. „Við fórum út á þriðjudagskvöld og komum til með að landa á mánudag. Hér er nóg af þorski og karfinn nuddast, en það vantar ufsann,“ sagði Jónas. „Staðreyndin er sú að það er miklu minna af ufsa í kringum landið en verið hefur. Það koma þó ufsaskot hér og hvar en yfirleitt vara þau í stuttan tíma,“ sagði Jónas að lokum.

Ótrúlega þakklátur fyrir ristilspeglunarátak Síldarvinnslunnar

Egill Birkir Stefánsson. Ljósm. Hákon ErnusonEgill Birkir Stefánsson. Ljósm. Hákon ErnusonEins og fram kom í viðtali við Jón Sen yfirlækni á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað hér á heimasíðunni  er ristilspeglunarátak Síldarvinnslunnar nú um það bil hálfnað og gert ráð fyrir að því ljúki um næstu áramót. Í átakinu er öllum starfsmönnum Síldarvinnslunnar sem náð hafa 50 ára aldri gefinn kostur á ristilspeglun þeim að kostnaðarlausu. Egill Birkir Stefánsson, starfsmaður við löndun á uppsjávarfiski, var kallaður í speglun í marsmánuði sl.  og niðurstaða hennar var svo sannarlega athyglisverð. Egill Birkir segir svo frá: „Það hafði aldrei hvarflað að mér að fara í ristilspeglun, slíkt var fjarri mér. En þegar ég var boðaður í speglun sem starfsmaður Síldarvinnslunnar ákvað ég að láta verða af því og ég mun aldrei sjá eftir þeirri ákvörðun. Fjarlægðir voru úr ristlinum tveir separ. Annar þeirra var það stór að hann hefði að öllum líkindum þróast yfir í illkynja æxli eða krabbamein með tímanum. Þessi ristilspeglun reyndist því vera alger lottóvinningur fyrir mig og ég er ótrúlega þakklátur fyrirtækinu að það skuli bjóða okkur starfsmönnunum upp á svona rannsókn. Ég vil ráðleggja öllum starfsmönnum Síldarvinnslunnar sem boðið er upp á speglun að fara í hana. Í fyrsta lagi er þetta ekkert mál og í öðru lagi verða menn að hafa í huga hvað getur komið út úr þessu. Fyrir mig reyndist þetta vera spurning um heilsufar til langs tíma og jafnvel spurning um líf eða dauða. Þessi speglun veitti mér nýtt tækifæri í lífinu og ég verð ávallt þakklátur fyrir það,“ sagði Egill Birkir.

Ristilspeglun starfsmanna hefur líklega komið í veg fyrir krabbamein

Jón Sen yfirlæknir. Ljósm. Hákon ErnusonJón Sen yfirlæknir. Ljósm. Hákon ErnusonÁ gamlársdag árið 2014 var undirritaður samningur á milli Síldarvinnslunnar og Heilbrigðisstofnunar Austurlands um að starfsmönnum Síldarvinnslunnar sem náð hafa 50 ára aldri gefist kostur á ristilspeglun á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað þeim að kostnaðarlausu. Í samningnum felst að Síldarvinnslan greiði allan kostnað vegna speglananna og að auki færi sjúkrahúsinu nýtt speglunartæki að gjöf. Umræddur samningur er í reynd viðbót við samning um heilsufarsskoðun starfsmanna Síldarvinnslunnar sem hefur verið í gildi frá árinu 2010. Samkvæmt þeim samningi sér Fjórðungssjúkrahúsið um að boða starfsmenn fyrirtækisins til almennrar heilsufarsskoðunar þriðja hvert ár en þeir starfsmenn sem náð hafa 60 ára aldri eða eru skilgreindir í áhættuhópi eru kallaðir til skoðunar árlega.
 
Ristilkrabbamein er á meðal algengustu krabbameina á Íslandi og töldu forsvarsmenn Síldarvinnslunnar fulla þörf á að efla forvarnir gegn þessum vágesti og það er best gert með fullkominni ristilspeglun.
 
Heimasíðan hafði samband við Jón Sen yfirlækni og spurði hann hvernig gengi að framkvæma ristilspeglunina á starfsmönnunum. „Þetta verkefni hefur gengið vel. Nú er búið að spegla um 45 einstaklinga úr starfsmannahópnum þannig að segja má að verkefnið sé hálfnað. Gert er ráð fyrir að verkefninu muni ljúka um næstu áramót,“ sagði Jón. „Mér finnst þetta verkefni vera til hreinustu fyrirmyndar og það skiptir okkur máli að vera með tvö tæki til að spegla. Á meðan annað er í þvotti er hitt í fullri notkun og það kemur öllum vel, líka þeim sem njóta hinnar almennu þjónustu á sjúkrahúsinu. Það hefur verið ánægjulegt að sinna þessu verkefni með starfsmönnum Síldarvinnslunnar. Starfsfólkið hefur verið afar jákvætt og þegið speglunina með þökkum. Sárafáir hafa afþakkað. Og hafa verður í huga að verkefnið hefur skilað árangri. Búið er að fjarlægja mikinn fjölda svonefndra sepa úr ristlum starfsmanna, en separnir geta verið forstig krabbameins. Í tveimur tilvikum voru separnir sem fjarlægðir voru það stórir að þeir hefðu orðið að krabbameini með tímanum. Svo er alls ekki ólíklegt að einhverjir af litlu sepunum sem hafa verið fjarlægðir hefðu stækkað og umbreyst á næstu árum. Þannig að unnt er að segja að þetta átak Síldarvinnslunnar hafi að öllum líkindum beinlínis komið í veg fyrir krabbamein og það er svo sannarlega hægt að gleðjast yfir því,“ sagði Jón Sen að lokum.

Góður gangur hjá skipum Síldarvinnslunnar

20160423 143338 2

Trollið tekið um borð í Barða NK. Ljósm: Snorri Gunnarsson

Góð veiði hefur verið undanfarna daga hjá skipum Síldarvinnslunnar og dótturfélaga bæði á botnfiskveiðum sem og uppsjávarveiðum.

Kolmunnaveiðar hafa gengið vel og var floti Síldarvinnslunnar ýmist á landleið eða að landa um helgina. Beitir NK landaði í gær á Seyðisfirði um 3000 tonnum af kolmunna og Bjarni Ólafsson AK landaði fullfermi í Neskaupstað. Þá landaði Vilhelm Þorsteinsson EA fullfermi í Neskaupstað og Hákon EA er nú að landa fullfermi á Seyðisfirði. Börkur NK er að landa um 2200 tonnum í Neskaupstað. Öll þessi skip halda aftur til veiða í færeysku lögsögunni að löndun lokinni.

Gullver NS kom í land í gær á Seyðisfirði og hófst löndun í morgun. Uppistaðan er þorskur og ufsi sem fer til vinnslu á Seyðisfirði og karfi sem fer í útflutning með Norrænu.
Bjartur NK kom í land í morgun í Neskaupstað og er uppistaðan líkt og hjá Gullver þorskur, ufsi og karfi. Ufsinn úr Bjarti NK er nú unninn í fiskiðjuverinu í Neskaupstað.
Barði NK hefur verið við veiðar við suðurlandið í mikilli blíðu og sendu skipverjar heimasíðunni þessa skemmtulegu mynd af því þegar trollið var tekið í gær, var aflinn um 3,5 tonn af fallegri ýsu.
Af Vestmannaeyjaskipunum er það að frétta að bæði Bergey og Vestmannaey lönduðu fullfermi á laugardag eftir aðeins 2 og hálfan dag á veiðum. Héldu þau strax aftur til veiða að löndun lokinni. 

 

Sérkennileg loðnuvertíð

Beitir NK, hið nýja skip Síldarvinnslunnar á loðnumiðunum. Skipið reyndist frábærlega vel á vertíðinni. Ljósm: Hilmar KárasonBeitir NK, hið nýja skip Síldarvinnslunnar á loðnumiðunum. Skipið reyndist frábærlega vel á vertíðinni. Ljósm: Hilmar KárasonSegja má að nýliðin loðnuvertíð hafi verið sérkennileg að ýmsu leyti. Einungis um 100 þúsund tonn komu í hlut íslenskra skipa á vertíðinni af þeim 173 þúsund tonna kvóta sem gefinn var út. Vegna hins takmarkaða kvóta hófu íslensk skip veiðar seint eða um það leyti sem Japansfrysting og hrognavinnsla gat hafist. Það voru erlend skip sem lögðu stund á veiðarnar á fyrri hluta vertíðarinnar en mörg þeirra lönduðu afla sínum hér á landi og var það svo sannarlega mikilvægt fyrir vinnslufyrirtækin.
 
Reikna má með að nýafstaðin loðnuvertíð gæti skilað um 19 milljörðum króna í útflutningsvermæti og eru það mun minni verðmæti en loðnuvertíðin í fyrra skilaði. Alls var úthlutað 390 þúsund tonnum til íslenskra skipa á vertíðinni 2015 og var gert ráð fyrir að verðmæti loðnunnar á þeirri vertíð næmu 27 milljörðum króna. Hafa ber í huga að á vertíðinni 2014 var einungis úthlutað rúmlega 127 þúsund tonnum til íslenskra loðnuskipa og sést glöggt á þessu hve sveiflukenndar loðnuvertíðir síðustu ára hafa verið.
 
Á nýliðinni vertíð veiddi Beitir NK 6.348 tonn af loðnu og Börkur NK 6.587 tonn. Þriðja skipið sem landaði öllum sínum afla til vinnslu hjá Síldarvinnslunni, Bjarni Ólafsson AK, aflaði 3.701 tonn. Erlend skip (norsk og eitt færeyskt) lönduðu síðan 8.622 tonnum til vinnslu hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað.
 
Í Neskaupstað lönduðu Hákon EA, Vilhelm Þorsteinsson EA og grænlenska skipið Polar Amaroq sjófrystri loðnu, samtals 8.491 tonni.
 
Alls tók Síldarvinnslan á móti 43.368 tonnum af loðnu á vertíðinni sem var að ljúka þegar sjófryst loðna er meðtalin. Eru það mikil viðbrigði frá vertíðinni 2015 þegar fyrirtækið tók á móti 138.230 tonnum, en á vertíðinni 2014 var móttekið hráefni hins vegar um 45.000 tonn. 
 
Alls voru fryst 15.287 tonn af loðnu og loðnuhrognum fyrir ýmsa markaði hjá Síldarvinnslunni. Öll frystingin fór fram í fiskiðjuveri fyrirtækisins í Neskaupstað ef undan er skilinn hluti hrognanna sem unnin var í Helguvík í samvinnu við Saltver ehf. í Reykjanesbæ. Athygli vekur að hér er um að ræða meiri frystingu en á vertíðinni í fyrra en þá nam heildarfrystingin 12.105 tonnum hjá Síldarvinnslunni. Fyrir utan eigin framleiðslu annaðist Síldarvinnslan frystingu á loðnuhrognum sem unnin voru hjá Eskju á Eskifirði eins og hún hefur gert undanfarnar vertíðir.
 
Fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og í Helguvík tóku á móti loðnu til vinnslu á nýliðinni vertíð en engri loðnu var landað í verksmiðjuna á Seyðisfirði.  Verksmiðjan í Neskaupstað tók á móti 16.371 tonnum en verksmiðjan í Helguvík á móti 3.219 tonnum. Öll loðna var veidd til manneldisvinnslu á vertíðinni og því var hráefni verksmiðjanna einkum það sem flokkaðist frá við þá vinnslu. Þetta er mikil breyting frá því sem áður var þegar fiskimjölsverksmiðjurnar voru í aðalhlutverki á hverri loðnuvertíð. Nútíma fiskiðjuver sem framleiða frysta loðnu og loðnuhrogn til manneldis, eins og fiskiðjuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, afkasta álíka miklu og öflugar fiskimjölsverksmiðjur gerðu fyrir nokkrum árum og er þessi breyting á nýtingu loðnunnar gott dæmi um þá framþróun sem átt hefur sér stað í íslenskum sjávarútvegi.

Háskólinn á Akureyri tekur að sér umsjón Sjávarútvegsskólans

radstefna8

Við undirritun samningsins um Sjávarútvegsskólann. Á myndinni eru (talið frá vinstri): Eyjólfur Guðmundsson rektor Háskólans á Akureyri, Guðmundur H. Gunnarsson nýsköpunarstjóri Skinneyjar-Þinganess, Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, Friðrik Már Guðmundsson framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar, Benedikt Jóhannsson útgerðarstjóri Eskju og Magnús Róbertsson vinnslustjóri HB Granda á Vopnafirði. Ljósm: Jóhann Ólafur Halldórsson

Hinn 15. apríl sl. var undirritaður samningur á milli sjávarútvegsfyrirtækja á Austurlandi og Háskólans á Akureyri um að Háskólinn taki að sér að hafa umsjón með starfi Sjávarútvegsskólans. Skólinn er ætlaður nemendum sem nýlokið hafa 9. bekk grunnskóla og er markmið hans að miðla þekkingu í sjávarútvegi til nemenda í sjávarbyggðum og á nærliggjandi svæðum.  Fyrir hönd Háskólans mun Sjávarútvegsmiðstöð hans annast skólahaldið og verður Sigmar Örn Hilmarsson, sjávarútvegsfræðingur, skólastjóri. Auk hans verða tveir starfsmenn ráðnir til að sinna verkefninu. Á þessu ári verður kennt á sex stöðum á Austurlandi en stefnt er að því að kenna víðar á komandi árum. Kennslustaðir á sumri komandi verða Neskaupstaður, Seyðisfjörður, Fáskrúðsfjörður, Eskifjörður, Vopnafjörður og Höfn. Mun kennslan fara fram í náinni samvinnu við sjávarútvegsfyrirtæki á stöðunum.

Sjávarútvegsskóli Síldarvinnslunnar var stofnaður árið 2013 og var þá einungis kennt í Neskaupstað. Árið 2014 fór kennsla fram í allri Fjarðabyggð og var nafni skólans þá breytt í Sjávarútvegsskóli Fjarðabyggðar. Árið 2015 færði skólinn enn út kvíarnar og til samræmis við það var nafni hans breytt í Sjávarútvegsskóli Austurlands. Þess skal getið að Síldarvinnslan hlaut viðurkenninguna menntasproti atvinnulífsins árið 2015 fyrir frumkvæði að stofnun Sjávarútvegsskólans.

Kolmunnafarmarnir berast til verksmiðjanna

600 tonna kolmunnahol hjá Berki NK. Ljósm. Atli Rúnar Eysteinsson600 tonna kolmunnahol hjá Berki NK. Ljósm. Atli Rúnar EysteinssonSegja má að fínasta kolmunnaveiði hafi verið í færeysku lögsögunni síðustu dagana og hefur mikill afli borist til fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og á Seyðisfirði. Að vísu er núna bræla á miðunum og skipin ekki að veiðum.
 
Beitir NK landaði rúmlega 2900 tonnum í Neskaupstað aðfaranótt föstudags og hélt til veiða strax að löndun lokinni. Skipið kom á miðin seint á laugardag og fékk strax 600 tonna hol eftir að hafa togað í 18 tíma. Í kjölfarið fengust síðan 240 tonn eftir 5 tíma en þá skall brælan á.
 
Börkur NK kom til Neskaupstaðar í morgun með um 2300 tonn sem fengust í fimm holum.
 
Bjarni Ólafsson AK landaði 1600 tonnum á Seyðisfirði sl. föstudag og í nótt landaði Vilhelm Þorsteinsson EA rúmlega 2100 tonnum þar. Í kjölfar Vilhelms kom Hákon EA og er hann að landa um 1300 tonnum.
 
Það eru annir hjá starfsmönnum fiskimjölsverksmiðjanna í Neskaupstað og á Seyðisfirði um þessar mundir. Gunnar Sverrisson, rekstrarstjóri fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar, segir að kolmunninn sem nú berst að landi sé hið þokkalegasta hráefni og vinnsla á honum gangi mjög vel.

Kolmunni á leið til Seyðisfjarðar

Fiskimjölsverksmiðjan á Seyðisfirði. Ljósm. Hákon ErnusonFiskimjölsverksmiðjan á Seyðisfirði. Ljósm. Hákon ErnusonBjarni Ólafsson AK er væntanlegur til Seyðisfjarðar í fyrramálið með 1600 tonn af kolmunna sem fékkst í færeysku lögsögunni. Gunnar Sverrisson verksmiðjustjóri fiskimjölsverksmiðjunnar á Seyðisfirði segir að það sé ávallt fagnaðarefni þegar hráefni berst til verksmiðjunnar. Í janúarmánuði bárust tæplega 4000 tonn af kolmunna en hins vegar kom engin loðna til Seyðisfjarðar enda allri loðnu á vertíðinni landað til manneldisvinnslu. „Við erum alltaf bjartsýnir hérna og eigum von á góðri kolmunnaveiði á næstunni og þá berst hráefni til okkar. Við erum alltaf tilbúnir að taka á móti hráefni og hefja vinnslu,“ sagði Gunnar.
 
Beitir NK er á leiðinni til Neskaupstaðar með 2900 tonn af kolmunna og er væntanlegur í kvöld.

Undirflokkar