Börkur NK heldur til kolmunnaveiða í færeysku lögsögunni

Börkur NK að landa í Neskaupstað. Ljósm. Kristinn Agnar EiríkssonBörkur NK að landa í Neskaupstað. Ljósm. Kristinn Agnar EiríkssonSíðdegis í gær hélt Börkur NK til kolmunnaveiða í færeysku lögsögunni og verður hann kominn á miðin austur af Færeyjum í nótt. Heimasíðan ræddi við Hálfdan Hálfdanarson skipstjóra í morgun og sagði hann að spáð væri góðu veðri á miðunum næstu daga og full ástæða væri til að notfæra sér það. „Það hafa nokkrir færeyskir og íslenskir bátar verið að veiðum þarna síðasta mánuðinn eða svo. Þarna hefur ekki verið nein kraftveiði en þokkalegt nudd þegar viðrar. Það er um að gera að nota tækifærið þegar veðurútlit er jafn gott fyrir næstu daga og nú er. Í kolmunnanum er oft mikill dagamunur á veiði en almennt má gera ráð fyrir að það verði togað lengi og einungis eitt hol tekið á sólarhring,“ sagði Hálfdan.

Ný starfsmannastefna - könnun á starfsánægju

FV des 2015 HVÍ októbermánuði fór fram könnun á starfsánægju meðal starfsmanna Síldarvinnslunnar. Könnunin var liður í undirbúningi fyrir endurskoðun starfsmannastefnu fyrirtækisins. Þátttaka var góð eða um 70% og sá Austurbrú um framkvæmd könnunarinnar.
 
Niðurstöður könnunarinnar benda til þess að starfsmenn séu heilt yfir ánægðir í starfi, sáttir við yfirmenn sína, komi vel saman við vinnufélagana og geti mælt með Síldarvinnslunni sem góðum vinnustað. Þá leiða niðurstöðurnar einnig í ljós að starfsmenn séu almennt fremur sáttir við kaup og kjör, vinnuaðstöðu og aðbúnað. 
 
Þó eru niðurstöðurnar ekki að öllu leyti nægilega jákvæðar, því einnig kemur fram að of fáir starfsmenn fái hrós eða jákvæða endurgjöf á störf sín, of fáum finnst þeir hafa tækifæri til að læra og þróast í starfi og starfsmönnum finnst að upplýsingagjöf til starfsmanna mætti vera betri. Að auki kom fram að 10% starfsmanna töldu sig einhvern tímann hafa orðið fyrir einelti í starfi sínu og fleiri töldu sig hafa orðið vitni að slíku á vinnustað. 
 
Niðurstöðurnar verða notaðar við mótun nýrrar starfsmannastefnu sem mun miða að því að halda í styrkleika Síldarvinnslunnar sem vinnuveitanda og vinna í að laga veikleikana. Farið verður yfir niðurstöður könnunarinnar með starfsmönnum þegar ný starfsmannastefna verður kynnt, en stefnt er að því að hún verði tilbúin fyrir áramót og svo kynnt starfsmönnum í upphafi nýs árs. 
 
Hákon Ernuson starfsmannastjóri  segir að niðurstöður könnunarinnar séu almennt mjög jákvæðar en þær sýni einnig að þörf sé á umbótum á nokkrum sviðum. „Við munum fara vandlega yfir niðurstöðurnar og skoða með hvaða hætti megi bæta þá þætti sem starfsmönnum þykja að einhverju leyti aðfinnsluverðir. Einnig munu niðurstöðurnar nýtast vel við lokafrágang nýrrar starfsmannastefnu. Þá ber að hafa í huga að tekið hefur verið á ýmsum málum að undanförnu og má nefna í því sambandi eineltisfyrirlestra sem haldnir voru fyrir starfsfólk í október síðastliðnum,“ segir Hákon. 

Börkur á landleið úr síðasta síldartúr ársins

Börkur NK. Ljósm. Hákon ErnusonBörkur NK. Ljósm. Hákon ErnusonBörkur NK mun koma til Neskaupstaðar síðdegis í dag með 600 tonn af síld sem fékkst fyrir vestan land. Þar með er síldveiðum Síldarvinnsluskipanna lokið í ár. Haft var samband við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra í morgun þegar skipið var statt við Stokksnes. Hjörvar sagði að aflinn hefði fengist í útkanti Látragrunns en frekar lítið hafi sést af síld á þeim slóðum. „Við fengum þessi 600 tonn í þremur holum en einungis var unnt að vera að veiðum í sólarhring því þá skall á óveðrið margumrædda. Vegna veðursins var ákveðið að hætta veiðum og sigla heim með aflann til vinnslu. Þar með er síldveiðum hjá okkur lokið í ár og ekki er ósennilegt að kolmunni verði næst á dagskrá,“ sagði Hjörvar.

Þórður M. Þórðarson níræður

Þórður M. Þórðarson á skrifstofu Síldarvinnslunnar árið 1983. Ljósm.: Vilberg Guðnason.Þórður M. Þórðarson á skrifstofu Síldarvinnslunnar árið 1983. Ljósm. Vilberg Guðnason.Fimmtudaginn 10. desember nk. verður Þórður M. Þórðarson fyrrverandi skrifstofustjóri Síldarvinnslunnar níræður. Þrátt fyrir að Þórður sé ekki hrifinn af sviðsljósi áforma ættingjar, vinir og félagar að koma saman í Egilsbúð í tilefni tímamótanna og eiga þar góða stund með honum. Verður opið hús í Egilsbúð á afmælisdaginn frá klukkan 16 til 18.
 
Þórður M. Þórðarson fæddist á Krossi á Berufjarðarströnd hinn 10. desember 1925, sonur hjónanna Matthildar Bjarnadóttur og Þórðar Bergsveinssonar útvegsbónda. Þórður var yngstur fimm systkina og ber nafn föður síns sem drukknaði tæpum þremur mánuðum áður en hann kom í heiminn. Matthildur fluttist með börn sín til Neskaupstaðar árið 1930 og festi þar rætur. Þórður, eða Lilli eins og hann var oftast kallaður, var eðlilega kenndur við móður sína og nafnið Lilli Matt festist rækilega við hann.
 
Þegar Matthildur kom með börnin sín til Neskaupstaðar var heimskreppan mikla að ganga í garð með tilheyrandi atvinnuleysi og fátækt. Fjölskyldan var samhent, gerði litlar kröfur og þraukaði kreppuárin en án efa hafa kjörin sem þá buðust mótað lífsskoðanir Þórðar; hann gerðist róttækur verkalýðssinni og skipaði sér ávallt eftir það í fylkingu með þeim sem lengst stóðu til vinstri á vettvangi stjórnmálanna.
 
Lilli hóf snemma að stunda launavinnu eins og strákar gerðu á þeim tíma. Fyrstu störf hans fólust í að stokka upp og beita og síðan lá leiðin til Hornafjarðar á vertíð. Þegar Lilli var liðlega tvítugur hóf hann að starfa hjá Pöntunarfélagi alþýðu í Neskaupstað og þá fólust verkefni hans meðal annars í því að hugsa um bókhald og fjárreiður. Bókahald varð síðan lífsstarf hans. Þegar hann starfaði hjá Pöntunarfélaginu kynntist hann verðandi eiginkonu sinni, Ingibjörgu Finnsdóttur og eignuðust þau fjóra syni.
 
Lilli Matt réðst til starfa á skrifstofu Samvinnufélags útgerðarmanna árið 1951 og sinnti þar bókhaldi til ársins 1955 en hóf þá störf á skrifstofu togaraútgerðanna í bænum. Á togaraskrifstofunni starfaði hann í tvö ár en þá lá leiðin á ný til Samvinnufélagsins þar sem hann sinnti verkum til 1968. Skrifstofa Samvinnufélagsins sá um bókhald Síldarvinnslunnar á árunum 1957-1960 og þegar Síldarvinnslan festi kaup á fiskvinnslustöð og síldarsöltunarstöð Samvinnufélagsins árið 1965 annaðist skrifstofa þess allt bókhald fyrir þá starfsemi um þriggja ára skeið. Árið 1968 hóf Lilli síðan störf sem skrifstofustjóri Síldarvinnslunnar og gegndi því um þrjátíu ára skeið. Hann kvaddi starf sitt í árslok 1998. Fyrir utan sitt fasta starf sinnti Lilli bókhaldi fyrir helstu útgerðirnar í bænum um langt skeið. 
 
Lilli Matt hefur alla tíð borið hag bæjarins fyrir brjósti og sinnt margvíslegum félagsstörfum. Hann var til dæmis gjaldkeri Íþróttafélagsins Þróttar í hálfan annan áratug og bæjarfulltrúi var hann á árunum 1978-1990.
 
Síldarvinnslan vill færa Lilla innilegar árnaðaróskir á níræðisafmælinu og þakkar honum ómetanleg störf í þágu félagsins.  

Það er ekki lengur hallærislegt að vera edrú

Frá afhendingu edrúverðlaunanna. Talið frá vinstri: Birkir Dan Ólafsson, Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar og Enóla Ósk Gunnarsdóttir. Ljósm. Hákon ErnusonFrá afhendingu edrúverðlaunanna. Talið frá vinstri: Birkir Dan Ólafsson, Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar og Enóla Ósk Gunnarsdóttir. Ljósm. Hákon ErnusonÍ Verkmenntaskóla Austurlands er lögð mikil áhersla á heilbrigða lífshætti og þar er rekin virk forvarnarstefna sem hefur mótandi áhrif á skólalífið. Í stefnunni er kveðið á um að félagslíf nemenda og viðburðir á vegum skólans skuli taka mið af heilbrigði og sama skuli gilda um ferðalög á vegum skólans. Að sjálfsögðu er síðan meðferð áfengis og annarra vímuefna stranglega bönnuð í skólanum og á lóð hans.
 
Árið 2010 færði Síldarvinnslan skólanum áfengismæli að gjöf. Þegar var tekin ákvörðun um að nota mælinn með jákvæðum hætti og verðlauna þá nemendur sem fylgdu skólareglum og skemmtu sér án þess að neyta áfengra drykkja. Í tengslum við notkun áfengismælisins var ákveðið að á dansleikjum og ferðalögum á vegum skólans yrði nemendum gefinn kostur á að blása í mælinn og fá nafn sitt í svonefndan edrúpott. Síðar eru svo nöfn nemenda dregin úr pottinum og fá hinir heppnu vegleg verðlaun. Foreldrafélag skólans hefur stutt þetta forvarnarverkefni dyggilega og þá hafa fyrirtæki lagt til verðlaun fyrir þá sem dregnir eru úr pottinum. Edrúpotturinn er því hugsaður til að hvetja nemendur til að fylgja skólareglum og skemmta sér án áfengis.
 
Haustið 2014 var síðan stofnað Edrúfélag í skólanum og eru félagsmenn um 40 talsins um þessar mundir. Er félagsmönnum hyglað með því að draga sérstaklega úr nöfnum þeirra þegar dráttur úr edrúpotti fer fram.
 
Helgina 30. október – 1. nóvember fóru 60 nemendur Verkmenntaskólans í menningarferð norður í land og fengu þeir allir nöfn sín í edrúpottinn þannig að þar var ekkert áfengi með í för. Að ferð lokinni var nafn dregið úr hinum svonefnda stóra potti og eins úr pottinum sem hafði að geyma nöfn félaga í Edrúfélaginu.  Úr stóra pottinum var dregið nafn Enólu Óskar Gunnarsdóttur og upp úr Edrúfélagspottinum kom nafn Birkis Dans Ólafssonar. Þessir nemendur fengu síðan afhent verðlaun sín í gær. Enóla fékk Sennheiser heyrnartól af bestu gerð sem Síldarvinnslan gaf en Birkir fékk heilsuúr (Fitbit) sem Síminn gaf. Það var Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar sem afhenti verðlaunin.
 
Gunnþór sagði við þetta tækifæri að það væri einkar ánægjulegt fyrir fyrirtækið að taka þátt í að stuðla að heilbrigðu félagslífi nemenda skólans og það væri ekki síður ánægjulegt hve skólinn væri að ná frábærum árangri á þessu sviði með samstilltu átaki starfsmanna, nemenda og Foreldrafélags. Salóme Harðardóttir forvarnarfulltrúi skólans segir afar gleðilegt hve forvarnarvinnan gengur vel. Hún segir að nemendur sækist eftir því að afloknum samkomum eða ferðalögum á vegum skólans að vera í edrúpottinum. „Það er sem betur fer liðin tíð að það sé hallærislegt að vera edrú,“ sagði Salóme.

Barði NK með ýsuafla

Barði NK kemur til hafnar í óveðrinu í gær. Ljósm. Hákon ErnusonBarði NK kemur til hafnar í óveðrinu í gær. Ljósm. Hákon ErnusonFrystitogarinn Barði NK kom til Neskaupstaðar í gær að aflokinni hálfsmánaðar veiðiferð. Aflinn var um 180 tonn upp úr sjó, uppistaðan ýsa. Verðmæti aflans er um 90 milljónir króna. Bjarni Ólafur Hjálmarsson skipstjóri segir að fiskað hafi verið á Austfjarðamiðum allan túrinn og hann hafi einkennst af þokkalegu ýsukroppi. Komið var í land sólarhring áður en áformað var vegna veðurs og í rokinu í gær lá Barði úti á Norðfirði þar sem meðal annars var unnið við að þrífa skipið.
 
Barði heldur í síðustu veiðiferð fyrir jól nk. sunnudag.

Ísfisktogararnir koma til löndunar – veður truflar veiðar

Gullver NS kemur til löndunar. Ljósm. Ómar BogasonGullver NS kemur til löndunar. Ljósm. Ómar BogasonGullver NS kom til löndunar á Seyðisfirði á mánudagsmorgun. Skipið var með fullfermi eða 105 tonn og var uppistaða aflans þorskur, karfi og ufsi. Jónas Jónsson skipstjóri segir að veiðin í túrnum hafi verið jöfn og góð allan tímann. „Við byrjuðum í Lónsdýpinu og fiskuðum þar karfa og ufsa en síðan var farið í Hvalbakshall og norður á Fótinn til að veiða þorsk,“ sagði Jónas. Gert er ráð fyrir að Gullver haldi á ný til veiða um hádegisbil á morgun.
 
Bjartur NK kom til Neskaupstaðar seint í gærkvöldi með 80 tonn. Uppistaða aflans var þorskur. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri segir að veiðin hafi verið sæmileg en veitt hafi verið á þeirra hefðbundnu veiðislóð. „Við vorum að veiðum frá Lónsdýpi og austur í Seyðisfjarðardýpið,“sagði Steinþór.
 
Vestmannaey VE er á leið til Seyðisfjarðar með um 50 tonn af þorski en skipið hefur verið að veiðum á Austfjarðamiðum. Versnandi veður gerir það að verkum að stefnan er sett á Seyðisfjörð núna.
 
Þegar þetta er ritað er Bergey VE að ýsuveiðum á Tangaflaki. Skipið er komið með 52 tonn og er aflinn blandaður; þorskur, ufsi og ýsa.

Börkur með rúmlega 1400 tonn af góðri síld

Börkur NK landar síld í Neskaupstað. Ljósm. Kristinn Agnar EiríkssonBörkur NK landar síld í Neskaupstað. Ljósm. Kristinn Agnar EiríkssonBörkur NK kom til Neskaupstaðar um klukkan fjögur í nótt með um 1430 tonn af síld að vestan. Þessi afli fékkst á réttum sólarhring á Wilson‘s Corner sem er suðvesturhorn Látragrunns. Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri var ánægður með vel heppnaða veiðiferð. „Aflinn fékkst í fimm holum og þetta er betri afli en fengist hefur hingað til á þessari vertíð. Þá er síldin einnig í stærra lagi, þannig að þetta er eins gott og það getur verið,“ sagði Hjörvar.
 
Gert er ráð fyrir að Börkur haldi í síðasta síldartúr vertíðarinnar að löndun lokinni.

Foreldrafélagi Seyðisfjarðarskóla færð endurskinsvesti að gjöf

Hákon Ernuson starfsmannastjóri afhendir Vilborgu Diljá Jónsdóttur formanni foreldrafélagsins endurskinsvestinHákon Ernuson starfsmannastjóri afhendir Vilborgu Diljá Jónsdóttur formanni foreldrafélagsins endurskinsvestinÍ gær heimsótti Hákon Ernuson starfsmannastjóri Síldarvinnslunnar Seyðisfjarðarskóla og færði Foreldrafélagi skólans gul öryggisvesti að gjöf frá Síldarvinnslunni en vestin eru ætluð nemendum í 1.- 3. bekk. Það er síðan Foreldrafélagið sem mun afhenda börnunum vestin. Vestin eru með endurskini og þjóna fyrst og fremst þeim tilgangi að gera börnin sýnilegri þegar þau eru á ferð í vetrarskammdeginu og auka þannig öryggi þeirra. Það er ekki síst mikilvægt að börnin sjáist vel á leið í og úr skóla. Vilborg Diljá Jónsdóttir, formaður Foreldrafélagsins, veitti vestunum móttöku að börnunum viðstöddum.

Jólasíld - niðurstaða ljósmyndasamkeppni

Verðlaunamyndin á jólasíldarfötunni. Ljósm. Hákon ErnusonVerðlaunamyndin á jólasíldarfötunni. Ljósm. Hákon ErnusonÍ byrjun október sl. var tilkynnt um að efnt yrði til ljósmyndasamkeppni um mynd á merkimiða sem notaður yrði á síldarföturnar undir jólasíld Síldarvinnslunnar í ár. Myndin þurfti að vera jólaleg og sýna skip eða athafnasvæði Síldarvinnslunnar.
 
Alls voru sendar inn á milli 50 og 60 myndir sem dómnefnd þurfti að vega og meta. Margar myndanna voru mjög góðar og uppfylltu fullkomlega þær kröfur sem gerðar voru. Þegar upp var staðið voru dómnefndarmenn sammála um að mynd sem Guðlaugur B. Birgisson tók væri best og bar hún sigur úr býtum í keppninni. Mynd Guðlaugs sýnir Börk NK ljósum prýddan í Norðfjarðarhöfn. 
 
Nú er jólasíldin fullverkuð og tilbúin og reyndar þegar farið að setja hana í föturnar. Víst er að vatn kemur í munn margra þegar minnst er á jólasíldina og ekki skemmir myndin á loki fötunnar fyrir þetta árið.Jón Gunnar Sigurjónsson verksmiðjustjóri fiskiðjuversins t.h. afhendir Guðlaugi B. Birgissyni verðlaunin. Ljósm. Hákon ViðarssonJón Gunnar Sigurjónsson verksmiðjustjóri fiskiðjuversins t.h. afhendir Guðlaugi B. Birgissyni verðlaunin. Ljósm. Hákon Ernuson

Polar Amaroq landaði á ný fullfermi af loðnu

Polar Amoraq í höfn í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonPolar Amoraq í höfn í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonGrænlenska uppsjávarskipið Polar Amaroq landaði fullfermi af frystri loðnu eða 640 tonnum í Hafnarfirði þriðjudaginn 17. nóvember. Þeirri loðnu sem flokkaðist frá í vinnslunni var landað í Helguvík. Þetta er annar fullfermistúr skipsins í þessum mánuði. Í veiðiferðinni var ágæt loðnuveiði Grænlandsmegin á Dohrnbankanum og var loðnan heppileg til vinnslu. Að löndun lokinni hélt Polar Amaroq aftur á sömu mið en þá var ís lagstur yfir veiðisvæðið. Halldór Jónasson skipstjóri sagði að nú væri loðnan af þessu svæði án efa gengin inn í íslenska lögsögu.
 
Polar Amaroq kom til Neskaupstaðar sl. mánudag og þá var Halldór skipstjóri tekinn tali. „ Þetta var fínasta loðna sem við vorum að vinna í síðasta túr og við fengum aflann í fjórum holum. Þegar við komum út á ný var kominn ís yfir veiðisvæðið. Við byrjuðum þá að leita innan grænlensku lögsögunnar þar sem íslaust var en þar fundum við ekkert. Síðan leituðum við út af Vestfjörðum í íslensku lögsögunni og þar mátti sjá fínar lóðningar á köflum í kantinum við Halann. Það má hins vegar ekki veiða loðnu í troll innan íslenskrar lögsögu og því var lítið aðhafst. Við köstuðum nótinni að vísu tvisvar en loðnan gefur sig ekki í nótina ennþá. Þá sigldum við og leituðum austur með Norðurlandi en þar var lítið að sjá þó dálítið ryk kæmi í ljós vestan við Kolbeinseyjarhrygg. Í ljósi þess að brælur eru í kortunum var ákveðið að sigla til Neskaupstaðar og þangað var komið sl. mánudag. Við gerum jafnvel ráð fyrir að fara út á ný eftir helgi og taka lokastöðu á þessu fyrir jólin,“ sagði Halldór. Loðnulóðning á kantinum við Halann sl. laugardag. Ljósm. Halldór JónasonLoðnulóðning á kantinum við Halann sl. laugardag. Ljósm. Halldór Jónason

Birtingur og Börkur með síldarafla á austurleið

20151112 104613

Birtingur NK landar síld til vinnslu. Ljósm: Kristinn Agnar Eiríksson

                Bæði Birtingur og Börkur eru á leið til Neskaupstaðar með síldarafla. Birtingur er með 750 tonn og væntanlegur síðdegis í dag og í kjölfar hans kemur Börkur með liðlega 1300 tonn. Tómas Kárason skipstjóri á Birtingi segir að aflinn hafi fengist í fimm holum. „Við byrjuðum í Jökuldýpinu og enduðum utan við Látragrunn. Undir lok túrsins var töluverða síld að sjá en aflinn hefur verið misjafn. Holin hjá okkur í þessum túr voru frá 50 tonnum og upp í 400 tonn. Það var bölvuð bræla megnið af túrnum, 18-20 metrar og haugasjór. Það er býsna leiðinlegt sjólag á þessum slóðum. Síldin sem fæst er hins vegar ágæt,“ sagði Tómas.

                Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri á Berki segir að þeir verði komnir til Neskaupstaðar í fyrramálið. „Við fengum þennan afla í sjö holum um 90 mílur vestur úr Snæfellsnesi. Nú undir lokin virtist vera að koma fiskur utan úr hafi og það var mun meira en sjá en áður. Veðrið í túrnum hefur verið hundleiðinlegt og það er svo sannarlega gott að vera á stóru og öflugu skipi við svona aðstæður. Síldin er stór og góð og hlýtur að henta afar vel til vinnslu,“sagði Hjörvar.

Togararnir landa

 Landað úr Barða NK sl. laugardag og fiski skipað um borð í flutningaskipið Scombrus. Ljóm. Kristinn Agnar Eiríksson Landað úr Barða NK sl. laugardag og fiski skipað um borð í flutningaskipið Scombrus. Ljóm. Kristinn Agnar EiríkssonTogararnir hafa komið til löndunar hver á fætur öðrum síðustu daga. Frystitogarinn Barði NK landaði í Neskaupstað sl. laugardag. Afli hans var um 360 tonn upp úr sjó og var uppistaðan ufsi, karfi og þorskur. Verðmæti aflans var um 130 milljónir króna. Theodór Haraldsson skipstjóri segir að farið hafi verið í kringum landið í veiðiferðinni. „Við byrjuðum fyrir austan í grálúðu en veiðin var dræm og við fengum of mikið af þorski. Síðan var siglt vestur í Reykjafjarðarál í ýsuleit en þar var frekar rólegt. Þá var haldið á Halann og helst reynt við ufsa. Þar vorum við megnið af túrnum en flúðum aftur í Reykjafjarðarálinn um tíma vegna veðurs. Það var þokkalegt nudd þarna fyrir vestan en undir lok túrsins héldum við suður fyrir land í djúpkarfa- og gulllaxleit. Síðan toguðum við á nokkrum stöðum á leiðinni austur og lokuðum hringnum þannig,“ sagði Theodór.
 
Ísfisktogarinn Bjartur NK landaði 100 tonnum í Neskaupstað í gær og var þorskur uppistaða aflans. Gullver NS landaði á Seyðisfirði í gær samtals 90 tonnum. Afli hans var blandaður en mest var af þorski og karfa.  Vestmannaey VE landaði 65 tonnum á Eskifirði sl. fimmtudag og sama dag landaði Bergey VE 50 tonnum í Vestmannaeyjum.
 
Steinþór Hálfdanarson skipstjóri á Bjarti segir að þokkaleg þorskveiði hafi verið að undanförnu en heldur lélegt hafi verið í öðrum tegundum, þó hafi ýsuafli heldur verið að glæðast . „Í túrnum núna fengum við til dæmis mjög góðan þorskafla síðasta sólarhringinn. Það var mjög mikið af honum á litlum bletti í Seyðisfjarðardýpinu. Við fengum líka dálítinn ufsa í Berufjarðarál. Í síðasta túr fengum við ágætt af ýsu hér við bæjardyrnar. Þetta gengur svona og veðrið setur alloft strik í reikninginn. Það var til dæmis bölvuð bræla í þessum túr,“ sagði Steinþór.

Síldarvinnslan færir 1. bekkingum í Nesskóla öryggisvesti að gjöf

Hákon starfsmannastjóri ásamt glöðum 1.bekkingum í öryggisvestunum. Ljósm. Guðlaug RagnarsdóttirHákon starfsmannastjóri ásamt glöðum 1.bekkingum í öryggisvestunum. Ljósm. Guðlaug RagnarsdóttirHinn 11. nóvember sl. færði Hákon Ernuson starfsmannastjóri Síldarvinnslunnar 1. bekkingum í Nesskóla gul öryggisvesti með endurskini að gjöf frá fyrirtækinu. Börnin í 1. bekk eru 25 að tölu og ríkti svo sannarlega mikil gleði þegar vestin voru afhent. Einar Már Sigurðarson skólastjóri segir að allir séu þakklátir fyrir þá umhyggju sem börnunum er sýnd með gjöfinni. „Það er svo mikilvægt að auka öryggi barnanna í skammdeginu, ekki síst þegar þau eru á leið í og úr skóla. Vestin gera það að verkum að börnin sjást vel þegar þau eru úti við gangandi eða hjólandi og óneitanlega eru menn rólegri þegar þau eru svona áberandi. Þessi gjöf er lofsvert framtak og vonandi nota börnin vestin sem mest,“ sagði Einar.
 

Hálf öld liðin frá því að Síldarvinnslan hóf útgerð

Börkur NK (núverandi Birtingur NK) að síldveiðum við Grundarfjörð. Ljósm. Kristófer Helgason Börkur NK (núverandi Birtingur NK) að síldveiðum við Grundarfjörð. Ljósm. Kristófer Helgason Á árinu 1963 tók stjórn Síldarvinnslunnar ákvörðun um að fyrirtækið skyldi hefja útgerð. Samþykkt var að festa kaup á 264 tonna fiskiskipi sem smíða átti í Austur-Þýskalandi og var gert ráð fyrir að það yrði afhent í nóvember 1964. Fékk skipið nafnið Barði en afhending þess dróst vegna þess að flutningaskip sigldi á það þegar farið var í reynslusiglingu á Elbufljóti og skemmdi mikið. Barði kom því ekki í fyrsta sinn til heimahafnar í Neskaupstað fyrr en 5. mars 1965. Áður en útgerð Barða hófst hafði Síldarvinnslan tekið Gullfaxa á leigu og gert hann út frá áramótum og fram á vor 1964 í þeim tilgangi að afla hráefnis fyrir fiskvinnslustöð Samvinnufélags útgerðarmanna.
 
Haustið 1964 samþykkti stjórn Síldarvinnslunnar að festa kaup á öðru skipi sem smíðað yrði í Austur-Þýskalandi. Þar var um að ræða systurskip Barða og hlaut það nafnið Bjartur. Bjartur kom í fyrsta sinn til heimahafnar í Neskaupstað rúmlega tveimur mánuðum eftir að Barði sigldi inn Norðfjörð í fyrsta sinn.
 
Börkur NK að loðnuveiðum 2015. Ljósm. Ísak Fannar SigurðssonBörkur NK að loðnuveiðum 2015. Ljósm. Ísak Fannar SigurðssonBarði og Bjartur voru smíðaðir sérstaklega með síldveiðar í huga enda var upphaflegur tilgangur með útgerð fyrirtækisins að afla síldarverksmiðju þess hráefnis. Útgerð bátanna gekk vel og á árunum 1966 og 1967 bættust tvö ný síldveiðiskip í flota Síldarvinnslunnar en þau voru smíðuð í Noregi. Þetta voru Börkur og Birtingur.
 
Fyrstu skipin í eigu Síldarvinnslunnar, Bjartur NK og Barði NK, að veiðum norður við Jan Mayen 1967. Ljósm. Kristinn V. Jóhannsson Fyrstu skipin í eigu Síldarvinnslunnar, Bjartur NK og Barði NK, að veiðum norður við Jan Mayen 1967. Ljósm. Kristinn V. Jóhannsson Hér verður útgerðarsaga fyrirtækisins ekki rakin en almennt má segja að rekstur skipa þess hafi gengið vel. Þá hefur Síldarvinnslan alloft fitjað upp á nýjungum á sviði útgerðar og stuðlað að ýmiss konar framförum. Að sjálfsögðu hefur skipastóll fyrirtækisins tekið breytingum og hefur oft þurft að aðlaga hann þeim sviptingum sem átt hafa sér stað á sviði veiða og vinnslu. Nú eru sex skip í flota Síldarvinnslunnar: Uppsjávarskipin Börkur, Beitir og Birtingur, ísfisktogarinn Bjartur og frystitogararnir Barði og Blængur. Þá gerir dótturfyrirtæki Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði, Gullberg, út ísfisktogarann Gullver og dótturfyrirtæki í Vestmannaeyjum, Bergur-Huginn, gerir út ísfisktogarana Vestmannaey og Bergey. Þá á Síldarvinnslan hlutdeild í uppsjávarskipinu Bjarna Ólafssyni og eins í grænlenska uppsjávarskipinu Polar Amaroq.
 
Frá því að útgerð Síldarvinnslunnar hófst hafa fimm skip borið nafnið Barði, tvö hafa borið nafnið Bjartur, fjögur Börkur, fjögur Birtingur, þrjú Beitir og tvö Blængur. Segja má að flotinn sé sífellt að taka breytingum og í desembermánuði er nýr Beitir væntanlegur í flotann og er það fjórða skipið sem ber það nafn. Þar er um að ræða stærsta uppsjávarskip sem Íslendingar hafa eignast, 4.138 tonn að stærð og er burðargeta þess liðlega 3.200 tonn.
Ísfisktogarinn Bjartur NK hefur verið í eigu Síldarvinnslunnar frá árinu 1973. Ljósm. Snorri SnorrasonÍsfisktogarinn Bjartur NK hefur verið í flota Síldarvinnslunnar frá árinu 1973. Ljósm. Snorri Snorrason

Endurskoðun starfsmannastefnu

 Endurskoðuð starfsmannastefna verður kynnt eftir áramót. Ljósm. Hákon Ernuson Endurskoðuð starfsmannastefna verður kynnt eftir áramót. Ljósm. Hákon ErnusonSíðustu mánuði hefur staðið yfir vinna við endurskoðun á starfsmannastefnu Síldarvinnslunnar. Nokkuð langt er um liðið frá því stefnan var endurskoðuð síðast og því orðið tímabært að dusta af henni rykið. „Markmiðið með endurskoðun starfsmannastefnunnar er að tryggja að við séum í takt við tímann“, segir Hákon Ernuson starfsmannastjóri. „Það skiptir fyrirtækið miklu máli að hafa á að skipa góðu fólki sem líður sem best í starfi og er hvatt til að gera sitt besta. Nýja stefnan á að skerpa fókusinn hvað það varðar,“ segir Hákon. Sigurður Ólafsson, ráðgjafi hjá Gagnráðum ehf, hefur unnið að endurskoðun stefnunnar í samstarfi við Hákon og hefur hann meðal annars tekið viðtöl við tugi starfsmanna víðsvegar um fyrirtækið. Nú stendur einnig yfir skoðanakönnun sem á að veita frekari upplýsingar um starfsánægju og álit starfsmanna á starfi sínu og munu þau gögn einnig nýtast við endurskoðunina. Mikilvægt er að sem flestir starfsmenn taki þátt í könnuninni, en allir starfsmenn hafa fengið sendan hlekk á könnunina í tölvupósti. Þátttakendur njóta nafnleyndar þegar þeir svara könnuninni og eru starfsmenn hvattir til að vera hreinskilnir í svörum sínum. 

Síld kemur að vestan

SíldBirtingur NK er á leið til Neskaupstaðar með rúmlega 500 tonn af síld sem fékkst fyrir vestan land. Er skipið væntanlegt snemma í fyrramálið og hefst þá þegar vinnsla aflans. Sigurður Jóhannesson stýrimaður segir að um sé að ræða fallega síld en veiðin hafi gengið misjafnlega. „Aflinn fékkst í fimm holum en veiðarnar ganga upp og niður. Það finnast blettir en þeir eru fljótir að splundrast þannig að þetta er hittingur. Það er mikil ferð á síldinni og hún fer í ýmsar áttir. Eins og oft áður er snúið að eiga við hana. Það er hins vegar bót í máli að veðrið hefur verið fínt,“ sagði Sigurður.
 
Börkur NK er einnig að síldveiðum fyrir vestan. Að sögn Hjörvars Hjálmarssonar skipstjóra eru 740 tonn komin þar um borð í fimm holum. Segist Hjörvar reikna með að halda áfram veiðum í dag en leggja af stað austur í kvöld.

Átak í öryggismálum

Ásgrímur Ásgrímsson öryggisstjóri og Sigurður Ólafsson ráðgjafi. Ljósm. Hákon ErnusonÁsgrímur Ásgrímsson öryggisstjóri og Sigurður Ólafsson ráðgjafi. Ljósm. Hákon ErnusonNú stendur fyrir dyrum átak i öryggismálum hjá Síldarvinnslunni. Slysatíðni í fiskvinnslu á Íslandi er áhyggjuefni og vill Síldarvinnslan bretta upp ermar og tryggja að öryggi starfsmanna fyrirtækisins fái aukna vikt. Vinnan mun hefjast í fiskiðjuverinu í Neskaupstað, en svo fylgja aðrar starfsstöðvar í kjölfarið. Gerðar verðar nýjar áhættugreiningar og öll vinnubrögð á sviði öryggismála verða endurskoðuð frá grunni. Tveir sérfræðingar munu aðstoða við þessa vinnu: Sigurður Ólafsson, ráðgjafi hjá Gagnráðum ehf. og fyrrverandi fræðslustjóri Fjarðaáls og Ásgrímur Ásgrímsson, öryggisstjóri hjá Launafli. Báðir hafa þeir mikla reynslu og þekkingu á sviði öryggisstjórnunar í iðnaði. Í þeirri vinnu sem framundan er mun þátttaka starfsmanna og stjórnenda verða algert lykilatriði og eru starfsmenn hvattir til að taka þátt í vinnunni með opnum huga. 
 
Mikilvægt er að allir starfsmenn tileinki sér þær öryggisreglur sem fara á eftir og þær verði eðlilegur og sjálfsagður hluti af hinu daglega starfi. Umræddu átaksverkefni er meðal annars ætlað að efla hugsun um öryggismál og skerpa á þeim reglum sem gilda eiga á sviði málaflokksins frá degi til dags. 
 

Kolmunni og síld

Bjarni Ólafsson AK kemur til löndunar sl. vetur. Ljósm: Hákon ErnusonBjarni Ólafsson AK kemur til löndunar sl. vetur. Ljósm: Hákon ErnusonBjarni Ólafsson AK landaði 1250 tonnum af kolmunna í Neskaupstað aðfaranótt laugardags. Í kjölfar hans kom síðan Börkur NK og landaði 1000 tonnum. Aflinn fékkst í Rósagarðinum og segir Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri á Berki að veiðin hafi verið orðin þokkaleg undir lok veiðiferðarinnar. Að lokinni löndun hélt Bjarni Ólafsson til kolmunnaveiða á ný en Börkur sigldi vestur fyrir land til síldveiða. Hjörvar segir að þeir hafi komið á miðin í Jökuldýpinu í nótt og geri ráð fyrir að byrja að toga fljótlega. „Það var rólegt á miðunum í gær og enn rólegra í nótt en ágætis afli fékkst fyrir tveimur – þremur dögum. Þetta hlýtur að lagast á ný,“ sagði Hjörvar. „Birtingur var að kasta hér í Jökuldýpinu og við erum að nálgast hann. Þeir fengu 170 tonn í gær en það var lítið að hafa í nótt hjá þeim,“ sagði Hjörvar að lokum.
 

Polar Amaroq finnur loðnu víða en ís og bræla til vandræða

 Mynd tekin í síðustu veiðferð Polar Amaroq. Ís og veður hafa truflað loðnuveiðarnar. Ljósm.  Geir Zoёga Mynd tekin í síðustu veiðferð Polar Amaroq. Ís og veður hafa truflað loðnuveiðarnar. Ljósm. Geir ZoёgaGrænlenska uppsjávarskipið Polar Amaroq landaði fullfermi eða 640 tonnum af frosinni loðnu í Hafnarfirði sl. mánudag. Þeirri loðnu sem flokkaðist frá við vinnsluna var síðan landað í Helguvík. Aflinn fékkst í grænlensku lögsögunni norðvestur úr Straumnesi en undir lok veiðiferðarinnar lagðist ís yfir veiðisvæðið þar og þá fékkst ágætur afli á svæði sem var um 80 mílum norðaustar. Heimasíðan hafði samband við Geir Zoëga skipstjóra í morgun en þá var skipið í vari inni á Ísafjarðardjúpi á „Hótel Grænuhlíð.“ Í gær leitaði skipið loðnu djúpt út af Hornbjargi, um 30 mílur inn í grænlensku lögsöguna. „Þar var brjálað veður og hafís og það spáir brælu fram á sunnudag, þannig að við fórum bara á Hótel Grænuhlíð og höfum það huggulegt,“ sagði Geir. „Við fengum ágætan afla í síðasta túr og það var töluvert að sjá af loðnu en nú er svæðið sem við veiddum helst á komið undir ís og ég tel að loðnan sem var þar sé komin inn í íslenska lögsögu. Loðnan sem fékkst var ágæt, ekki síst sú loðna sem við fengum undir lok túrsins, en þá höfðum við fært okkur um 80 mílur vegna hafíssins. Í gær fórum við á svæði sem við höfum veitt á síðustu ár og þar vorum við komnir í lóð þegar við þurftum frá að hverfa vegna veðursins. Annars rákumst við á fínustu loðnutorfur inni í íslensku lögsögunni á útleiðinni í gær og eins þegar við sigldum í var. Það var verulega mikla loðnu að sjá í kantinum djúpt norður af Straumnesi í bakaleiðinni og í sannleika sagt virðist vera loðna mjög víða. Ég er býsna bjartsýnn eftir síðasta túr og þetta sem við sáum í gær. Þá virðist loðnan vera vel á sig komin. Það er helst að veðrið og ísinn séu að stríða okkur og koma í veg fyrir nótaveiðar, en það er ekkert nýtt.“ sagði Geir að lokum.

Undirflokkar