Sjávarútvegsskóli Austurlands á Eskifirði

Nemendur Sjávarútvegsskólans í heimsókn í Egersund. Ljósm. Sylvía Kolbrá Hákonardóttir

         Nemendur Sjávarútvegsskólans í heimsókn í Egersund. Ljósm. Sylvía Kolbrá Hákonardóttir             

Kennsla í Sjávarútvegsskóla Austurlands hófst á Eskifirði sl. mánudag. Er það annar staðurinn sem kennt er á í sumar en kennslu í Neskaupstað lauk 12. júní sl. Níu nemendur frá Eskifirði og Reyðarfirði sækja skólann að þessu sinni og eru kennarar þau Sigurður Steinn Einarsson sjávarútvegsfræðingur, Sylvía Kolbrá Hákonardóttir nemi í sjávarútvegsfræðum og Páll Jónsson nemi í viðskiptatengdri ferðamálafræði.

                Á fyrsta kennsludegi hlýddu nemendur á fyrirlestra um sögu fiskveiða og einkenni íslensks sjávarútvegs og á öðrum degi var fjallað um þróun fiskvinnslu ásamt því að farið var í heimsóknir í fiskimjölsverksmiðju Eskju og netagerðina Egersund. Síðar verður fjallað um gæðamál og markaðsmál og farið í fleiri vettvangsheimsóknir, meðal annars um borð í fiskiskip.

                Að sögn kennaranna gengur starfsemi skólans vel og nemendahópurinn þykir góður og áhugasamur. Að lokinni kennslu á Eskifirði verður kennt á Fáskrúðsfirði, Seyðisfirði og Vopnafirði, en síðasti kennslustaðurinn er Höfn. Kennt er í eina viku á hverjum stað.

Umhverfishópur Síldarvinnslunnar sinnir þörfum verkefnum

11655330 10207595649555887 511002650 n

Glæsilegur umhverfishópur að störfum. Ljósm: Hákon Ernuson

Umhverfishópur Síldarvinnslunnar undir stjórn Sigfúsar Sigfússonar hóf störf í byrjun júnímánaðar. Hópurinn er skipaður 12 ungmennum á aldrinum 17-23 ára og sinnir hann fjölbreyttum verkefnum. Á meðal verkefna sem eru á dagskrá eru tiltekt, þrif, gróðursetningar og málningarvinna. Gert er ráð fyrir að drjúgur hluti hópsins hefji störf í fiskiðjuverinu þegar makrílvertíð hefst.

11356326 10207595666356307 1867582856 n

Þau eru ýmis verkefnin sem umhverfishópurinn þarf að leysa. Ljósm: Hákon Ernuson

Að sögn Sigfúsar Sigfússonar er árangur af starfi hópsins mjög góður enda sinnir hann þörfum og mikilvægum verkefnum. „Allir sem eiga leið um athafnasvæði Síldarvinnslunnar verða varir við árangurinn af starfinu og nú þegar er sýnt að hann er mjög góður,“ sagði Sigfús. „Þetta er dugnaðarfólk og mjög áhugasamt, enda ríkir fínn vinnuandi innan hópsins ,“ sagði Sigfús að lokum.

100 ára afmæli kosningaréttar kvenna

Anna og Barbara fá frí eftir hádegi í tilefni dagsins. Ljósm: Hákon ErnusonAnna og Barbara fá frí eftir hádegi í tilefni dagsins. Ljósm: Hákon ErnusonKvenréttindaárið mikla var 1911 en þá var lagt fyrir Alþingi stjórnarskrárfrumvarp sem fól í sér kosningarétt og kjörgengi kvenna. Lítið var um andstöðu kröfunnar og var frumvarpið því samþykkt.  Það hlaut þó ekki staðfestingu konungs og tafði einkum sambandsmál Íslands og Danmerkur fyrir því.  Nýtt stjórnskrárfrumvarp var svo samþykkt frá Alþingi árið 1913 um að konur og hjú skyldu hafa náð fertugsaldri þegar þau fengu kosningarétt og kjörgengi.  Þá var ákvæði í frumvarpinu um að kosningaaldurinn skyldi lækka um eitt ár árlega þar til hann yrði 25 ár líkt og hjá körlum. Kristján X konungur staðfesti svo stjórnarskrána 19. júní 1915 og þar með fengu íslenskar konur 40 ára og eldri langþráðan kosningarétt og kjörgengi til Alþingis
 
Í tilefni þess að á morgun, föstudaginn 19 júní, eru 100 ár liðin frá því að þessi viðburður átti sér stað veitir Síldarvinnslan hf. öllum konum er starfa hjá félaginu og tengdum félögum frí frá hádegi. Þá hvetur Síldarvinnslan hf. alla til að taka þátt í hátíðarhöldunum á morgun. 
 
Í tilefni dagsins er vert að vekja athygli á örþáttum um stórar og stefnumarkandi atburði sem tengjast sögu íslenskra kvenna og baráttu þeirra fyrir samfélagslegu jafnrétti. Örþættina má horfa á í Sarpi RÚV á slóðinni: http://www.ruv.is/sarpurinn/ruv/oldin-hennar/20150614 
 

Fer að líða að lokum kolmunnavertíðar

928 2

Beitir NK á sjómannadaginn í Neskaupstað. Ljósm: Hákon Ernuson

Kolmunnaveiðar hófust aftur eftir sjómannadag þegar Beitir og Börkur NK hófu leit að kolmunna úti við Austfirði á þriðjudeginum 9. júní. Hálfdan Hálfdanarson skipstjóri á Beiti NK sagði í samtali við heimasíðuna: „Við leituðum fyrstu dagana í Þórsbankanum og í Rósagarðinum en þar var ekkert magn til að hefja veiðar“. Því var ákveðið að halda á svipaðar veiðislóðir og skipin voru á fyrir sjómannadag eða við suður Færeyjar.

Þegar heimasíðan heyrði í þeim á Beiti NK í morgun voru þeir á heimleið með 1.500 tonn af kældum kolmunna sem fékkst í 6 holum. „Það er dregið lengi núna, allt að 20 tíma, en það er fínasta blíða á miðunum og vorum við að fá allt að 430 tonn í holi“ sagði Hálfdan. Að sögn Hálfdans voru 7-8 önnur íslensk skip á miðunum. Þá var Börkur NK kominn með 1.380 tonn í morgun og er enn við veiðar. Líklegt þykir að sjá má fyrir endan á kolmunnavertíðinni að þessu sinni.

Þegar löndun lýkur munu Síldarvinnsluskipin og Bjarni Ólafsson AK hafa veitt yfir 50.000 tonn á vertíðinni en landaður afli skiptist þannig:

Beitir NK: 16.905t

Börkur NK: 16.404t

Birtingur NK: 8.208t

Bjarni Ólafsson AK (nýi): 6.590t

Unnin yfir 100 tonn í fiskvinnslustöð Gullbergs á Seyðisfirði í þessari viku

DSC 2938 a

Frá fiskvinnslustöð Gullbergs á Seyðisfirði . Ljósm: Ómar Bogason

 

Fiskvinnsla í fiskvinnslustöð Gullbergs á Seyðisfirði hefur gengið vel að undanförnu og í þeirri viku sem nú er að líða hafa yfir 100 tonn verið unnin.

Sigfús Gunnarsson verkstjóri í móttökunni er mjög ánægður með það hvernig vinnslan gengur: „Við toppum okkur í þessari viku og förum yfir 100 tonn,“ sagði Sigfús. „Á miðvikudag fóru 28,7 tonn í gegnum húsið og það er stærsti dagur þessa frystihúss. Fyrir áratugum síðan gæti hafa verið unnið eitthvað meira á dag eða á viku hér á staðnum en þá var verið að frysta, vinna skreið og salta fisk allt í senn. Athyglisvert er að ekki hefur verið unnin yfirvinna í vikunni en sumarstarfsfólk hefur nú hafið vinnu og eykur það afköst. Hér eru menn afar ánægðir með þetta. Það er séð til þess að við fáum nægan fisk og menn hafa virkilega trú á okkur starfsfólkinu,“ sagði Sigfús að lokum.

Síldarvinnslan styrkir Golfklúbb Norðfjarðar

DSC02950 a

Við undirritun styrktarsamningsins. Talið frá vinstri: Eiríkur Þór Magnússon varaformaður G.N., Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar og Gunnar Ásgeir Kalrsson formaður G.N. Ljósm.: Hákon Ernuson.

                Í dag var undirritaður nýr styrktarsamningur á milli Síldarvinnslunnar og Golfklúbbs Norðfjarðar. Samningurinn er til þriggja ára og felur meðal annars í sér að Síldarvinnslan styrkir sérstaklega unglingastarf klúbbsins. Þá mun klúbburinn standa fyrir golfmóti um verslunarmannahelgina sem kennt verður við Neistaflug og Síldarvinnsluna.

                Samninginn undirrituðu Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar og Gunnar Ásgeir Karlsson formaður Golfklúbbs Norðfjarðar. Gunnþór sagði við það tækifæri að Síldarvinnslan væri stolt yfir því að styrkja starfsemi klúbbsins enda væri þar vel að öllum málum staðið. Gunnar Ásgeir Karlsson sagði að það væri ómetanlegt fyrir klúbbinn að eiga jafn sterka stuðningsaðila og Síldarvinnslan væri. „Stuðningur við unglingastarf klúbbsins er ómetanlegt og það er mikilvægt fyrir framtíð golfiðkunar á staðnum. Það hefur líka  skapast sú skemmtilega hefð á golfmótinu um verslunarmannahelgina að Síldarvinnslan býður þá upp á síldarhlaðborð fyrir keppendur og gesti. Þannig birtist samstarf Síldarvinnslunnar og klúbbsins í ýmsum myndum. Ég vil fyrir hönd klúbbsins koma á framfæri innilegum þökkum til Síldarvinnslunnar fyrir þann myndarlega styrk sem hún hefur veitt klúbbnum á undanförnum árum. Framlag fyrirtækisins er svo sannarlega höfðinglegt,“ sagði Gunnar Ásgeir að lokum.

Kennsla hafin í Sjávarútvegsskóla Austurlands

IMG 0982 3

Nemendur og kennarar Sjávarútvegsskóla Austurlands í Neskaupstað. Ljósm: Sigurjón Mikael Jónuson

Kennsla í Sjávarútvegsskóla Austurlands hófst í Neskaupstað sl. mánudag en kennsla á vegum skólans mun fara fram á sex stöðum á Austurlandi í sumar.

                Í Neskaupstað eru 17 nemendur í skólanum og eru þeir allir fæddir árið 2001. Í upphafi sóttu nemendur fyrirlestra um sögu útgerðar og fiskvinnslu ásamt því að fjallað var um núverandi stöðu sjávarútvegs og tækifæri greinarinnar í framtíðinni. Í kjölfarið var frætt um markaðs- og gæðamál og kynnt öll þau fjölbreytilegu störf sem unnin eru innan sjávarútvegsins. Til hliðar við fyrirlestrana hefur verið efnt til heimsókna um borð í fiskiskip og einnig í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar og frystigeymslur fyrirtækisins. Framundan er stíf dagskrá en kennslunni í Neskaupstað mun ljúka á föstudag.

                Heimasíðan hitti tvo nemendur skólans að máli í gær en það voru þau María Bóel Guðmundsdóttir og Andri Snær Sigurjónsson. Þau voru sammála um að skólinn væri bæði skemmtilegur og fróðlegur, einkum væri gaman að fara í heimsóknir um borð í skip og á vinnustaði. „Við fórum um borð í Börk og Birting og skoðuðum fiskiðjuverið og frystigeymslurnar. Síðan verður farið í heimsókn í Verkmenntaskóla Austurlands á morgun og fræðst um hvernig unnt er að mennta sig til starfa í sjávarútvegi. Það hefur komið okkur mjög á óvart hve störfin eru fjölbreytt og ólík. Á morgun heimsækjum við einnig Matís og fræðumst um rannsóknir á fiski og mjöli og fleiru. Á föstudag förum við síðan í ferðalag til Eskifjarðar og Fáskrúðsfjarðar og heimsækjum fiskimjölsverksmiðju Eskju og netagerðina Egersund á Eskifirði og hraðfrystihús Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði. Þetta verður örugglega skemmtileg ferð. Það er margt sem hefur verið fjallað um í skólanum og komið okkur á óvart. Til dæmis hve sjávarútvegur er  að skapa mikil verðmæti og hve markaðir fyrir vörurnar eru fjölbreytilegir. Það var mjög gaman að fá fyrirlestur um markaðsmál og fræðast um það hvernig fiskurinn er matreiddur með allt öðrum hætti en við eigum að venjast. Við viljum hvetja alla krakka á Austurlandi sem fæddir eru 2001 til að skrá sig í skólann. Það ætti enginn að sjá eftir því. Svo eru líka kennararnir nokkuð skemmtilegir og það skemmir ekki fyrir,“ sögðu þau María Bóel og Andri Snær.

                Að sögn forsvarsmanna skólans, þeirra Sigurðar Steins Einarssonar og Sylvíu Kolbrár Hákonardóttur, hefur skólinn farið frábærlega af stað og nemendur í Neskaupstað verið mjög áhugasamir. Segjast þau hlakka til að kenna á öðrum stöðum á Austurlandi og vilja skora á unglinga sem fæddir eru á árinu 2001 að skrá sig í skólann. Skráning fer fram á www.sjavarskoli.net.

Áhöfnin á Beiti NK styrkir Björgunarsveitina Gerpi

Áhöfn Beitis NK afhendir styrk til Björgunarsveitarinnar Gerpis. Ljósm. Hákon ErnusonÁhöfn Beitis NK afhendir styrk til Björgunarsveitarinnar Gerpis.Síldarvinnslan hefur um árabil lagt mikla áherslu á öryggismál starfsfólks og þá ekki síst öryggismál sjómanna. Sérhver starfseining fyrirtækisins sem hefur státað af slysalausu ári hefur síðan fengið ákveðna peningaupphæð afhenta sem viðurkenningu fyrir árangursríkt starf á sviði öryggismála. Árið 2014 var slysalaust ár hjá áhöfninni á Beiti NK og fékk hún 600 þúsund krónur frá fyrirtækinu í viðurkenningarskyni. Áhöfnin tók ákvörðun um að láta Björgunarsveitina Gerpi í Neskaupstað njóta þessarar peningaupphæðar og skyldi sjóbjörgunardeild sveitarinnar fá hana til ráðstöfunar. Áhöfnin á Beiti afhenti fulltrúa Björgunarsveitarinnar peningaupphæðina um borð í skipinu á sjómannadaginn.

Grafískur hönnuður á Barða gerir merki fyrir Sjávarútvegsskóla Austurlands

Jón Ingi Sigurðsson. Ljósm. Hákon ErnusonJón Ingi Sigurðsson. Ljósm. Hákon ErnusonNú á tímum þykir sjálfsagt að öll fyrirtæki og allar stofnanir eigi sitt eigið merki eða logo og merkið á gjarnan að gefa vísbendingu um eðli starfsemi viðkomandi fyrirtækis eða stofnunar. Sjálfsagt þótti að gert yrði merki af þessu tagi fyrir Sjávarútvegsskóla Austurlands og þá var ákveðið að leita ekki langt yfir skammt. Jón Ingi Sigurðsson háseti á Barða NK er menntaður grafískur hönnuður og var leitað til hans um að gera merki fyrir skólann. Jón Ingi tók erindinu fagnandi og lét hendur standa fram úr ermum. Niðurstaðan fylgir þessari frétt og þykir hún vel heppnuð. Jón Ingi lýsir merkinu sem fjörlegu og eigi litavalið og útfærslan að höfða til þess aldurshóps sem sækir skólann. Reynt var að hafa merkið einfalt með mjúkum línum og átti það að gefa skýra vísbendingu um hlutverk skólans. Letrið í merkinu er hins vegar sterkt og stöndugt.
 
Forsvarsmenn Sjávarútvegsskólans eru afar ánægðir með nýja merkið og mun það meðal annars prýða peysur sem allir væntanlegir nemendur skólans fá afhentar.
 
Hið nýja merki skólans.Hið nýja merki skólans.Jón Ingi Sigurðsson er Dalvíkingur að uppruna en bjó á Akureyri til skamms tíma. Á Akureyri starfaði hann við grafíska hönnun og auglýsingagerð í sjö ár en sjómennska togar ávallt í hann. Hann hefur verið á ýmsum fiskiskipum fyrir norðan en fór sinn fyrsta túr á Barða fyrir rúmlega ári síðan. Jón Ingi og fjölskylda hans er nýlega flutt búferlum til Neskaupstaðar. „Það var létt ákvörðun að flytja til Neskaupstaðar. Mér líkar afar vel á Barða og konan mín, Hugrún Ágústsdóttir, er hjúkrunarfræðingur og fólk með slíka menntun er eftirsótt hér. Við komum austur fyrir tæplega tveimur vikum þannig að börnin tvö fengu að kynnast jafnöldrum í skólanum og það gekk eins og í sögu. Það hefur verið frábærlega vel tekið á móti okkur og brátt mun þriðja barnið bætast í hópinn. Tvö elstu börnin okkar eru uppkomin og þau eru fyrir norðan. Okkur líst vel á framtíðina hér eystra,“ sagði Jón Ingi.

Sjómannadagurinn 2015 - dagskrá hátíðarhalda

 

Sjómannadagurinn 2015 A

 

 

Hátíðarhöld Sjómannadagsins í Neskaupstað 2015

Föstudagur  5.Júní

kl. 10:00             Miðbærinn skreyttur og fánar dregnir að húni.

kl. 20–23:00       Unglingaball í Atóm

kl. 23:00-           Egilsbúð, DJ París Austursins ,William & Höskuldur frítt inn, aldurstakmark 18 ár.

kl. 23:00-           Pizzafjörður, aldurstakmark 18 ár

Laugardagur  6.Júní

kl. 10:00            Myndlistasýning í Nesbæ kaffihúsi

kl  10-12:00                Hópsigling Norðfirska flotans – allir velkomnir - talsamband á rás 12-

Smábátaeigendur eru hvattir til þátttöku á bátum sínum. Börn skulu vera í fylgd fullorðinna.

kl 13-15:00        Hoppkastalar á bryggju neðan við kirkjuna , sjá nánar á  http://www.hopp.is 

kl 14:00            Kappróður – skráning hjá Pétri Kjartans. 825-7073.

kl 23:00-03:00  Hótel Egilsbúð, Skítamórall heldur uppi stuðinu, aldurstakmark 18 ár.

Sunnudagur 7.júní

kl 09:00             Sjómannadagsmót GN og Gjögurs á Norðfjarðarvelli

kl 09:30              Skip og bátar draga íslenska fánann að húni –bæjarbúar flaggi sem víðast.

kl 11:00             Dorgveiðikeppni 12 ára og yngri – skráning við Jósafatsafn

    Allir þátttakendur skulu vera í björgunarvestum og mæta vel fyrir tímann.

kl 12:00              Grillveisla að hætti Jóns Gunnars í boði Nesbakka, Fellabakarís, Kjarnafæðis, SVN og Samhentra        

kl 11-13:00                 Sjómannadagsmatseðill í tilefni dagsins á Hildibrand Hótel

kl 11-14:00                 Brunch og kræsingar  í  Egilsbúð (morgunverðarhlaðborð)

kl 14:00              Hátíðarmessa í Norðfjarðarkirkju.

Séra Sigurður Rúnar Ragnarsson.

Kór Norðfjarðarkirkju syngur, ræðumaður Jens Garðar Helgasson. Að messu lokinni verður lagður blómsveigur við minnisvarðann um óþekkta sjómanninn í kirkjugarðinum

kl 14:30 -18.00 Kaffisala Gerpis að Nesi       Allur ágóði rennur til björgunarstarfa sveitarinnar.

kl 15:00              Leikfélagið Djúpið með andlitsmálingu og fleira fyrir börnin á bílastæði við sundlaug

kl 15:00              Hoppkastalar við sundlaug fyrir yngri kynslóðina, sjá http://www.hopp.is  

kl 15:30              Hátíðardagskrá við sundlaugina: 

  •          Aldraðir sjómenn heiðraðir.
  •          Boðrennsli, reiptog, stakkasund
  •          Verðlaunaafhendingar.

 

  

Síldarvinnslan sýknuð af kröfu Vestmannaeyjabæjar

BH mai 2015 GA

Bergey VE 544 og Vestmannaey VE 444. Ljósm: Guðmundur Alfreðsson

Hæstiréttur sýknaði í dag Síldarvinnsluna hf. af kröfu Vestmannaeyjarbæjar um að ógilda kaup félagsins á öllum hlutabréfum í Bergur-Huginn ehf. Í dómnum er tekið undir sjónarmið Síldarvinnslunnar að forkaupsréttur sveitarfélagsins náði ekki til þessara viðskipta.

"Niðurstaða Hæstaréttar er mjög skýr og í fullu samræmi við afstöðu okkar frá fyrsta degi. Eftir þrjú ár er staðfest að þeir sem komu að þessum viðskiptum störfuðu innan ramma laganna. Kveðið er mjög skýrt á um það að forkaupsréttarákvæði sveitarfélaga snýr eingöngu að fiskiskipum en hvorki aflaheimildum né hlutabréfum. Þessi niðurstaða er góð fyrir Síldarvinnsluna,“ segir Gunnþór Ingvason

Kolmunnaskipin til hafnar fyrir sjómannadag

Birtingur NK í síðsta kolmunnatúrnum. Ljósm. Hákon ErnusonBirtingur NK í síðsta kolmunnatúrnum. Ljósm. Hákon ErnusonKolmunnaskipin hafa verið að tínast til hafnar fyrir sjómannadag. Síðasta skip til að landa í Neskaupstað fyrir sjómannadagshelgina er Margrét EA sem væntanleg er til hafnar í kvöld með 550 tonn. Beitir NK er að landa 1500 tonnum á Seyðisfirði og er það lokalöndun fyrir helgina.
 
Gert er ráð fyrir að fiskimjölsverksmiðjan í Neskaupstað ljúki vinnslu á föstudagskvöld og verksmiðjan á Seyðisfirði á laugardagsmorgun.
 
Eftir helgina verða ákvarðanir teknar um framhald kolmunnaveiðanna en mjög hefur hægst á veiðunum síðustu sólarhringa eins og gjarnan gerist á þessum árstíma.
 

Sjávarútvegsskóli Austurlands að hefja starfsemi

Ufsi flakaður í Sjávarútvegsskólanum. Ljósm. Margrét ÞórðardóttirUfsi flakaður í Sjávarútvegsskólanum. Ljósm. Margrét ÞórðardóttirKennsla í Sjávarútvegsskóla Austurlands mun hefjast strax eftir sjómannadag eða mánudaginn 8. júní. Alls verður kennt á vegum skólans á sex stöðum í landshlutanum en Neskaupstaður verður fyrsti kennslustaðurinn. Ákveðið hefur verið hvenær kennt verður á hverjum stað en dagsetningar kennsludaga á Höfn hafa ekki enn verið birtar enda mun ekki verða kennt þar fyrr en í ágústmánuði.
 
Kennslustaðir og dagsetningar kennsludaga eru sem hér segir:
                          
Neskaupstaður 8.-12. júní
Eskifjörður 22.-26. júní
Fáskrúðsfjörður 6.-10. júlí
Seyðisfjörður 20.-24. júlí
Vopnafjörður 27.-31. júlí
Höfn ( kennt verður í ágúst, dagsetningar auglýstar síðar)
 
Skólinn er hugsaður fyrir ungmenni sem fædd eru árið 2001 og verða greidd laun fyrir þá daga sem þau sækja skólann. Launin miðast við laun í vinnuskólum sveitarfélaganna. Allir af árgangi 2001 eiga kost á að sækja skólann en skráning fer fram á heimasíðunni www. sjavarskoli.net. Þá er einnig að finna ýmsar upplýsingar um námið í skólanum á síðunni. Að auki er unnt að afla upplýsinga um skólastarfið með því að hringja í Sigurð Stein (867-6858) eða Sylvíu Kolbrá (868-7077).
 
Sjávarútvegsskóli Austurlands er samstarfsverkefni sjávarútvegsfyrirtækja og sveitarfélaga í landshlutanum. Að skólanum standa Austurbrú, HB Grandi, Gullberg, Síldarvinnslan, Eskja, Loðnuvinnslan og Skinney-Þinganes.
 

Um 79 þúsund tonn af kolmunna komin á land

 Nýr Bjarni Ólafsson AK kemur að landi með fullfermi af kolmunna að morgni uppstigningardags. Ljósm. Smári Geirsson Nýr Bjarni Ólafsson AK kemur að landi með fullfermi af kolmunna að morgni uppstigningardags. Ljósm. Smári GeirssonFiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og á Seyðisfirði hafa tekið á móti um 79 þúsund tonnum af kolmunna það sem af er vertíðinni. Alls hafa 45 þúsund tonn komið að landi í Neskaupstað og 34 þúsund tonn á Seyðisfirði.
 
Gunnar Sverrisson, rekstrarstjóri fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar og verksmiðjustjóri á Seyðisfirði, segir að á Seyðisfirði hafi verið lokið við að vinna fyrirliggjandi hráefni í nótt. Segir hann að útlit sé fyrir ágætt ár hjá fiskimjölsverksmiðjunni á Seyðisfirði en hún hefur tekið á móti 70 þúsund tonnum af hráefni það sem af er ári, þar af 36 þúsund tonnum af loðnu.
 
Guðjón B. Magnússon, verksmiðjustjóri í Neskaupstað, upplýsir  að verksmiðjan þar hafi tekið á móti 103.500 tonnum af hráefni það sem af er árinu og þar vegi loðnan þyngst. Verksmiðjan í Neskaupstað er að ljúka við vinnslu á þeim kolmunna sem borist hefur til hennar þannig að eitthvað vinnsluhlé er framundan.
 
Dofnað hefur yfir kolmunnaveiðunum í færeysku lögsögunni nú síðustu dagana og eru skipin að leita mun norðar en áður. Fyrir liggur að Bjarni Ólafsson AK mun landa 1050 tonnum á Seyðisfirði í fyrramálið en önnur skip munu fljótlega hefja siglingu til heimahafnar svo þau verði komin tímanlega fyrir sjómannadagshelgina.
 

Miklar byggingaframkvæmdir á hafnarsvæðinu í Neskaupstað

Brettasmiðja Tandrabergs í byggingu. Ljósm. Hákon ErnusonBrettasmiðja Tandrabergs í byggingu. Ljósm. Hákon ErnusonMiklar byggingaframkvæmdir eru hafnar eða fyrirhugaðar á hafnarsvæðinu í Neskaupstað. Tandraberg ehf. er að reisa brettasmiðju, Vélaverkstæðið G. Skúlason er að byggja nýtt lager- og viðgerðahús, undirbúningsframkvæmdir við stækkun fiskiðjuvers Síldarvinnslunnar eru hafnar og Fjarðanet hf. áformar að reisa nýja netagerð á hafnarsvæðinu. Hér á eftir verður stuttlega gerð grein fyrir þessum framkvæmdum.
 
Brettasmiðja Tandrabergs. Framkvæmdir við brettasmiðjuna hófust í febrúar sl. en þá var grafið fyrir húsinu. Síðan var gert hlé á framkvæmdum en þær hófust á ný í aprílmánuði og segist Einar B. Kristjánsson framkvæmdastjóri gera ráð fyrir því að starfsemi geti hafist í húsinu í byrjun ágústmánaðar. Húsið er 600 fermetrar að stærð og er mikil þörf fyrir það að sögn Einars. Mun verða unnt að framleiða þar 600 bretti á dag miðað við að unnið sé einungis í dagvinnu. Tandraberg hefur á undanförnum árum smíðað um 60.000 bretti á ári og eru helstu viðskiptavinirnir Síldarvinnslan, Eskja og Loðnuvinnslan. Á milli 70 og 80% af framleiðslunni fer til notkunar hjá Síldarvinnslunni og er sýnt að það hlutfall mun hækka á næstu árum.
 
Nýtt lager- og viðgerðahús G. Skúlasonar. Ljósm. Hákon ErnusonNýtt lager- og viðgerðahús G. Skúlasonar. Ljósm. Hákon ErnusonLager- og viðgerðahús G. Skúlasonar. Vélaverkstæði G. Skúlasonar er að reisa 300 fermetra lager- og viðgerðahús á athafnasvæði sínu við Norðfjarðarhöfn. Guðmundur Skúlason framkvæmdastjóri segir að brýnt sé fyrir fyrirtækið að stækka við sig enda þurfi það sífellt að taka inn stærri búnað og tæki til viðgerða. Telur Guðmundur að jafnvel hefði verið þörf fyrir enn stærra hús en nú er í byggingu. Framkvæmdir við bygginguna hófust um miðjan desember og ráðgert er að þeim ljúki með haustinu. „Það eru miklar annir framundan hjá okkur og varla tími til að koma sér fyrir í nýju húsnæði fyrr en í haust,“ segir Guðmundur.
 
Framkvæmdir hafnar við nýja viðbyggingu við Fiskiðjuver SVN. Ljósm. Hákon ViðarssonFramkvæmdir hafnar við nýja viðbyggingu við Fiskiðjuver SVN. Ljósm. Hákon ErnusonViðbygging við fiskiðjuver Síldarvinnslunnar. Um þessar mundir er verið að hefja undirbúningsframkvæmdir við byggingu sem rísa á norðan við fiskiðjuver Síldarvinnslunnar. Byggingin mun verða um 1000 fermetrar að stærð og er hún reist til að stækka vinnslurými versins. Í tengslum við þessar byggingaframkvæmdir verður eldra húsnæði breytt þannig að rými aukist fyrir kælipressur. Þessi nýja bygging verður með svipuðu sniði og pökkunarstöðin sem byggð var við fiskiðjuverið í fyrra, en hún er einnig 1000 fermetrar að stærð. Báðar þessar byggingar eru liður í því að auka afköst fiskiðjuversins.
 
Þarna verður fyllt upp og síðan mun ný netagerð rísa á þessu svæði. Ljósm. Hákon ErnusonÞarna verður fyllt upp og síðan mun ný netagerð rísa á þessu svæði. Ljósm. Hákon ErnusonNý netagerð Fjarðanets hf. Fjarðanet hf. hefur sótt um lóð á væntanlegri uppfyllingu austan við fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunar. Þar er ráðgert að reisa nýja netagerð og verður húsið 85m langt og 26m breitt eða 2200 fermetrar. Framan við húsið verður stálþil þannig að þau skip sem þurfa þjónustu netagerðarinnar geta lagst þar upp að. Skipulagsferli vegna þessara framkvæmda mun væntanlega ljúka í ágústmánuði og þá verður hafist handa við að gera uppfyllinguna. Jón Einar Marteinsson framkvæmdastjóri Fjarðanets  vonast til að eiginlegar byggingaframkvæmdir geti síðan hafist um mitt næsta ár. Öll starfsemi Fjarðanets í Neskaupstað mun fá inni í nýju netagerðinni; netaverkstæðið, gúmmíbátaþjónustan og að auki verður aðstaða til að geyma nætur og önnur veiðarfæri innan dyra. „Það er gríðarleg þörf fyrir þetta nýja hús, ekki síst vegna þess að bæði skip og veiðarfæri fara sístækkandi og það útheimtir stærri og betri aðstöðu,“ segir Jón Einar. „Við ætlum okkur að bjóða upp á fyrirmyndaraðstöðu í framtíðinni og mikilvægur liður í því er þessi  væntanlega bygging,“sagði Jón Einar að lokum.

Ágætur gangur hjá togurunum

Löndun úr frystitogaranum Barða NK. Ljósm. Hákon ErnusonLöndun úr frystitogaranum Barða NK. Ljósm. Hákon ErnusonÍsfisktogararnir Bjartur NK og Gullver NS lönduðu góðum afla sl. mánudag. Bjartur landaði liðlega 100 tonnum í Neskaupstað og var uppistaða aflans ýsa. Gullver landaði á Seyðisfirði um 80 tonnum og var aflinn að mestu ufsi og karfi. Bjartur kemur á ný til löndunar í kvöld en heldur til veiða á ný strax að löndun lokinni.
 
Frystitogarinn Barði NK millilandaði í Neskaupstað í gær. Aflinn var blandaður, 260 tonn upp úr sjó að verðmæti 100 milljónir króna. Barði hélt á ný til veiða í gærkvöldi og verður í um það bil eina viku að veiðum. Gert er ráð fyrir að hann komi til hafnar vel fyrir sjómannadag.
 

Sjávarútvegsskóli Austurlands

DSC01102 2

Mynd tekin í Sjávarútvegsskóla Fjarðabyggðar árið 2014

Sumarið 2013 hóf Síldarvinnslan að starfrækja Sjávarútvegsskóla Síldarvinnslunnar. Skólastarfið stóð yfir í tvær vikur og fengu nemendur greidd námslaun sem voru sambærileg launum í Vinnuskóla Fjarðabyggðar. Mikill áhugi reyndist vera á skólastarfinu en lögð var áhersla á að fræða ungmennin um sögu sjávarútvegs og fiskvinnslu, gæða- og markaðsmál, starfsmannamál og menntun starfsfólks í sjávarútvegi og tengdum greinum. Þá var farið í vettvangsheimsóknir um borð í skip, fiskvinnslufyrirtæki og til fyrirtækja sem þjónusta sjávarútveginn. Meginástæða þess að efnt var til skólahalds sem þessa er sú að skólakerfið leggur litla áherslu á fræðslu um þessa undirstöðuatvinnugrein. Einnig hefur verið bent á að í sjávarplássum nútímans er hægt að alast upp án þess að sjá nokkurn tímann fisk. Áður fyrr var öll starfsemi tengd sjávarútvegi nálægt fólki; afla var landað á hverri bryggju, beitt í fjölda skúra og vinnsla á fiski fór jafnvel fram undir beru lofti. Nú er öldin önnur; veiðiskipin eru stærri og færri en áður, aflanum landað á lokuðum hafnarsvæðum og vinnslan fer fram innanhúss þar sem farið er eftir ströngum reglum um hreinlæti og gæði.

                Starfsemi Sjávarútvegsskóla Síldarvinnslunnar vakti athygli og önnur fyrirtæki í Fjarðabyggð sýndu því áhuga að taka þátt í skólastarfinu. Niðurstaðan varð sú að Sjávarútvegsskóli Fjarðabyggðar tók til starfa í fyrra og auk sjávarútvegsfyrirtækjanna Eskju og Loðnuvinnslunnar komu Vinnuskóli Fjarðabyggðar og Austurbrú til liðs við Síldarvinnsluna. Efnt var til skólahalds í allri Fjarðabyggð fyrir nemendur sem fæddir voru árið 2000 og var kennt á þremur stöðum í sveitarfélaginu.

                Enn mun Sjávarútvegsskólinn færa út kvíarnar og í ár verður starfssvæði hans allt Austurland, eða svæðið frá Vopnafirði til Hornafjarðar. Auk sveitarfélaga við sjávarsíðuna mun Fljótsdalshérað taka fullan þátt í skólahaldinu. Í samræmi við þetta hefur nafni skólans verið breytt og ber hann nú heitið Sjávarútvegsskóli Austurlands.

                Í ár gefst ungmennum sem fædd eru árið 2001 kostur á að sækja Sjávarútvegsskólann, en ráðgert er að kenna á sex stöðum. Kennsla mun fara fram í Neskaupstað, á Eskifirði, Fáskrúðsfirði, Vopnafirði , Höfn og Seyðisfirði. Nemendum frá þeim byggðarlögum, sem ekki verður kennt í , verður ekið til og frá kennslustað.

                Nánari upplýsingar um skólahaldið er að finna á www.sjavarskoli.net og þar verður unnt að skrá sig í skólann. Eins munu þar birtast upplýsingar um hvenær kennsla fer fram á hverjum stað. Í forsvari fyrir skólann eru þau Sylvía Kolbrá Hákonardóttir (gsm 868-7077) og Sigurður Steinn Einarsson (gsm 867-6858).

                Þess skal getið að Síldarvinnslan hlaut viðurkenningu Samtaka atvinnulífsins sem  menntasproti ársins í febrúar á þessu ári fyrir frumkvæði sitt við að koma Sjávarútvegsskólanum á fót.  

Síldarvinnslan hf. sýknuð af kröfum Hafnarfjarðarkaupstaðar

svn-logoHafnarfjörður höfðaði á síðasta ári dómsmál gegn Síldarvinnslunni hf. í tengslum við kaup félagsins á aflaheimildum af útgerðarfélaginu Stálskipum hf.  Taldi bæjarráð Hafnarfjarðar að rétt hefði verið að bjóða bænum forkaupsrétt vegna kaupanna þar sem verið væri að selja aflaheimildir úr bæjarfélaginu og var því krafist ógildingar á kaupunum.
 
Síldarvinnslan taldi engin rök fyrir slíkri kröfu enda væri einfaldlega ekki kveðið á um slíkan forkaupsrétt í lögum.
 
Í dómi héraðsdóms er tekið undir þetta sjónarmið Síldarvinnslunnar og er því þar slegið föstu að forkaupsréttur sveitarfélaga í samræmi við ákvæði laga um stjórn fiskveiða eigi ekki við þegar aflaheimildir séu seldar.
 
Var Síldarvinnslan því sýknuð af öllum kröfum Hafnarfjarðar auk þess sem bærinn var dæmdur til að greiða málskostnað.
 

Bergey VE í slipp – Vestmannaey VE aflar vel

Bergey VE í slipp í Vestmannaeyjum. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonBergey VE í slipp í Vestmannaeyjum. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonAf skipum Bergs-Hugins ehf. í  Vestmannaeyjum er það að frétta  að Bergey VE er þar í slipp þessa dagana. Verið er að setja tvö ný botnstykki undir skipið fyrir mæla frá Marport og síðan verður sinnt hefðbundnu viðhaldi. Treyst var á að maímánuður yrði frekar þurr þannig að vel gengi að mála skipið en það hefur ekki gengið eftir. Vonandi eiga þó eftir að koma þurrir og hagstæðir málningadagar á næstunni.
 
Á meðan Bergey er í slipp hefur Vestmannaey VE verið að fiska. Aflabrögð hafa verið þokkalega góð og kemur skipið til löndunar í dag. Þá hefur það landað þrisvar á um það bil einni viku og er heildaraflinn úr þessum þremur túrum tæp 400 kör, en um 400 kg. eru í hverju kari. Þessi afli samanstendur af ýmsum tegundum t.d. 55 körum af lýsu, 55 körum af löngu og 55 körum af sólkola auk þorsks, ýsu og karfa. Af þessum afla fara fimm gámar, eða tæplega helmingur aflans, á markað í Englandi og Þýskalandi en annað er unnið hjá Nöf í Vestmannaeyjum.

Gott fiskirí hjá ísfisktogurunum eystra

Gullver NS kemur til löndunar á Seyðisfirði. Ljósm.: Ómar Bogason.Gullver NS kemur til löndunar á Seyðisfirði. Ljósm.: Ómar Bogason.Ísfisktogararnir Bjartur NK og Gullver NS hafa fiskað vel að undanförnu og hafa þeir komið með góðan fisk að landi sem hentar vel til vinnslu. Bjartur landaði 85 tonnum í Neskaupstað sl. laugardag og var uppistaða aflans ufsi sem fékkst á Papagrunni. Að lokinni löndun var strax haldið til veiða og að loknum tveimur sólarhringum á miðunum var 60 tonnum landað í gær. Í það skiptið var uppistaða aflans þorskur sem fékkst á Breiðdalsgrunni og Litla dýpi. Bjarni Hafsteinsson skipstjóri á Bjarti segir að vel hafi gengið að fiska að undanförnu en einnig skipti miklu máli hve fiskurinn er stór og góður sem fæst um þessar mundir. Bjartur mun halda á ný til veiða kl. 10 í fyrramálið.
 
Gullver landaði á Seyðisfirði um 100 tonnum sl. mánudag og var uppistaða aflans þorskur og ufsi. Meirihluti aflans mun fara til vinnslu á Seyðisfirði. Að sögn Jónasar Jónssonar skipstjóra fékkst aflinn einkum í Hvalbakshalli og Lónsdýpi. „Þarna er um mjög fallegan fisk að ræða, einkum er fiskurinn sem fékkst í Hvalbakshallinu stór og góður,“ sagði Jónas. Gullver mun halda á ný til veiða í hádeginu í dag.

Undirflokkar