Afar góð makrílveiði

Borkur og Bjarni

Fjær liggur Bjarni Ólafsson AK sem verið er að landa úr. Börkur NK bíður löndunar. Ljósm: Smári Geirsson

                Lokið var við að landa 500 tonnum af makríl úr Beiti NK í Neskaupstað í gær. Allur aflinn fór til vinnslu í fiskiðjuverinu en makrílinn var töluvert síldarblandaður. Í kjölfar Beitis hófst löndun úr Bjarna Ólafssyni AK en hann er með 600 tonn. Börkur NK kom síðan til hafnar í nótt með 840 tonn. Heimasíðan ræddi við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra á Berki og spurði hvar aflinn hefði fengist. „Við fengum aflann í fjórum holum í kantinum utan við Gerpistotu, um 50 mílur út af Gerpi. Þetta er góður makríll og það var mikið að sjá í gær. Fiskurinn er um 460 gr. að meðaltali. Makríllinn gengur í norður og fer hratt. Öll skip á miðunum fengu góðan afla í gær en fyrir þessa hrotu hafði ekki verið mikið að hafa um tíma. Aflinn hjá okkur er ekkert síldarblandaður enda toguðum við yfir daginn og þá heldur síldin sig niðri,“ sagði Hjörvar.

Tveir „Big Mama“ – frystiskápar settir upp í fiskiðjuverinu í Neskaupstað

Unnið að uppsetningu „Big Mama“ – frystiskápanna í  fiskiðjuverinu. Ljósm: Hákon ErnusonUnnið að uppsetningu „Big Mama“ – frystiskápanna í fiskiðjuverinu. Ljósm: Hákon ErnusonÞessa dagana eru unnið hörðum höndum við að setja upp tvo stóra frystiskápa í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Er tilkoma skápanna liður í því að auka afköst fiskiðjuversins. Hér er um að ræða svonefnda kassafrysta en þeir eru stærri en þeir fjórir kassafrystar sem fyrir eru í verinu. Skáparnir eru hannaðir og smíðaðir hjá Þorgeir & Ellert hf. og Skaganum hf. á Akranesi . Að sögn Ingólfs Árnasonar, framkvæmdastjóra Skagans, hefur uppsetning skápanna gengið vel og hugsanlegt er að hefja notkun þeirra í næstu viku. Segir Ingólfur að þessir skápar séu hinir fyrstu sinnar tegundar og afkastageta þeirra sé mun meiri en eldri skápanna. „Það er ekki vitað til þess að stærri skápar séu til í heiminum, enda köllum við þá „Big Mama“. Okkur þykir vel viðeigandi að fyrstu stóru skáparnir séu settir upp í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar en fyrsti skápurinn af minni gerðinni var einmitt settur þar upp árið 2010“, sagði Ingólfur.
 
Nýju skáparnir eru 4,6 m á breidd, 5,4 m á dýpt og 6,1 m á hæð. Hver frystiplata í þeim er 13 fermetrar á meðan hún er 6,5 fermetrar í eldri skápunum. Afkastageta nýju skápanna er 60 tonn á sólarhring á meðan hún er rúmlega 30 tonn í þeim eldri.
 
Kassafrystar hafa ýmsa kosti fram yfir hefðbundna blástursfrysta. Þeir gefa kost á jafnri vinnslu allan sólarhringinn, eru ekki eins orkufrekir og blástursfrystar og orkunotkun þeirra er jafnari. Frystitími í kassafrystunum er styttri og þeir henta mun betur til heilfrystingar á stærri uppsjávarfiski.

Börkur NK á síld

Börkur NK að landa afla til vinnslu í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar. Ljósm: Smári GeirssonBörkur NK að landa afla til vinnslu í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar. Ljósm: Smári GeirssonVegna óhagstæðs veðurs á makrílslóðinni hélt Börkur NK til síldveiða í gærmorgun. Vaktavinnufólk í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað fékk frí í gær og í dag en ráðgert er að vinnsla hefjist á ný í fyrramálið. Heimasíðan hafði samband við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra á Berki í morgun og spurði frétta. „Við erum að dæla og höldum í land að því loknu. Þetta er líklega um 300 tonna hol og við verðum komnir með um 900 tonn að dælingu lokinni. Aflinn fékkst í þremur holum í Holunni í Reyðarfjarðardýpi. Það er dálítið af síld að sjá. Það er ekki mjög mikið lóð en þetta gefur mjög vel. Síldin er hin fallegasta – 360-370 gr síld sem hentar örugglega vel til vinnslu. Það var bræla þegar við komum út í gær en veðrið í nótt var hið fínasta. Nú er hins vegar veðrið að versna. Ég reikna með að farið verði á ný á makríl þegar veðrið batnar seinna í vikunni,“ sagði Hjörvar.

23.500 tonn af makríl og síld til Neskaupstaðar

Nær samfelld vinnsla hefur verið í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar frá verslunarmannahelgi. Ljósm. Hákon ErnusonNær samfelld vinnsla hefur verið í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar
frá verslunarmannahelgi. Ljósm. Hákon Ernuson
Nú er verið að landa makríl úr Beiti NK í Neskaupstað og eins og áður fer  allur aflinn til vinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Alls hafa borist 23.500 tonn af makríl og síld til vinnslu í fiskiðjuverinu á yfirstandandi vertíð og er makríllinn í miklum meirihluta. Í fiskiðjuverinu hefur verið svo til samfelld vinnsla frá verslunarmannahelgi en nk. sunnudag og mánudag verður vaktavinnufólkinu gefið frí.
 
Nú líður að lokum makrílveiðanna og þá munu veiðiskipin snúa sér að norsk-íslensku síldinni.
 

Makríl skipað út af krafti

Frystum makríl skipað út í Norðfjarðarhöfn í morgun. Ljósm. Smári GeirssonFrystum makríl skipað út í Norðfjarðarhöfn í morgun. Ljósm. Smári GeirssonÍ Norðfjarðarhöfn liggja nú tvö flutningaskip og lesta frystan makríl. Annað þeirra, Green Brazil, tekur 4000 tonn og hitt, Green Explorer, tekur 1000 tonn. Á sama tíma er Börkur NK að landa tæplega 1000 tonnum til vinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Heimir Ásgeirsson, yfirverkstjóri í frystigeymslum Síldarvinnslunnar, segir að mikilvægt sé að losa úr geymslunum enda sé sífellt streymi á frystum fiski inn í þær. „Við erum alltaf að taka á móti frystum afurðum til geymslu. Vilhelm Þorsteinsson EA landaði um 500 tonnum sl. nótt og Hákon EA mun landa 650 tonnum á laugardag. Þá framleiðir fiskiðjuverið af fullum krafti allan sólarhringinn. Það er því mikilvægt að afurðirnar fari frá okkur jafnt og þétt,“ sagði Heimir.

Góður afli hjá Gullver

Nóg að gera hjá starfsfólki Gullbergs á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar BogasonNóg að gera hjá starfsfólki Gullbergs á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar BogasonÍsfisktogarinn Gullver NS hefur aflað vel að undanförnu og í frystihúsi Gullbergs ehf. á Seyðisfirði hafa ríkt annir. Alls færði Gullver 598 tonn að landi í ágústmánuði í sex veiðiferðum. Hann landaði síðan 102 tonnum sl. mánudag og var uppistaða aflans þorskur, karfi og ufsi. Gullver heldur aftur á veiðar í kvöld. „Það hefur verið mikið að gera hjá okkur að undanförnu og í reyndinni vantar fólk til starfa,“ sagði Ómar Bogason hjá Gullbergi í viðtali við heimasíðuna.
 

Frystum afurðum landað nánast daglega

 Frystum makríl landað úr Hákoni EA í frystigeymslur Síldarvinnslunnar í gær. Ljósm. Smári Geirsson. Frystum makríl landað úr Hákoni EA í frystigeymslur Síldarvinnslunnar í gær. Ljósm. Smári Geirsson.Um þessar mundir koma vinnsluskip nánast daglega til Neskaupstaðar og landa frystum afurðum í frystigeymslur Síldarvinnslunnar. Sl. miðvikudag var lokið við að landa 645 tonnum af síldarflökum úr grænlenska skipinu Polar Amaroq en aflinn fékkst í grænlensku lögsögunni  beint norður af landinu. Halldór Jónasson skipstjóri segir að á þessum slóðum séu litlar síldarlóðningar en þrátt fyrir það kroppi menn þokkalega í partroll. Polar Amaroq er á partrollsveiðum með Polar Princess, sem landaði 900 tonnum í Hafnarfirði á sama tíma og Polar Amaroq landaði í Neskaupstað, en þetta er önnur veiðiferð skipanna á síldveiðum. „Það gefur miklu betri árangur við þær aðstæður sem þarna ríkja að nota partrollið og síldin sem við fáum er stór og falleg. Þetta er 410 gramma síld,“ sagði Halldór.
 
Í kjölfar Polar Amaroq lönduðu Vilhelm Þorsteinsson EA og Hákon EA í frystigeymslurnar í gær og var uppistaða aflans makríll. Hákon landaði 635 tonnum og Vilhelm um 500. Síðan er von á Kristinu EA í fyrramálið og mun hún landa rúmlega 2000 tonnum af frystum makríl.
 
Þegar heimasíðan hafði samband við Heimi Ásgeirsson yfirverkstjóra í frystigeymslunum sagðist hann varla geta gefið sér tíma til að ræða þessi mál. „Hér eru miklar annir. Fyrir utan landanir fara reglulega frá okkur gámar með frystum afurðum og síðan koma skip sem lesta hér í höfninni. Við erum búnir að skipa út á þriðja þúsund tonnum í þessari viku og í morgun kom skip sem mun taka á fjórða þúsund tonn. Gámunum er skipað út á Reyðarfirði þannig að þetta þýðir mikla flutninga yfir Oddsskarð. Við eigum síðan von á öðru skipi á sunnudag og því þriðja á mánudag. Svona gengur þetta fyrir sig á vertíðinni, það er ekki hægt að kvarta undan verkefnaskorti,“ sagði Heimir.
 

Makrílvertíðin virðist ætla að teygja sig lengra fram á haustið

Bjarni Ólafsson AK landar makríl til vinnslu í fiskiðjuverinu. Ljósm. Smári GeirssonBjarni Ólafsson AK landar makríl til vinnslu í fiskiðjuverinu. Ljósm. Smári GeirssonNú er verið að landa 520 tonnum af makríl í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað úr Bjarna Ólafssyni AK. Reiknað er með að löndun úr honum ljúki um hádegisbil og þá kemst Börkur NK að, en hann bíður löndunar með 650 tonn. Heimasíðan ræddi stöðu veiðanna við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra á Berki. „Aflinn í þessum túr fékkst í þremur holum austan við Hvalbak. Það er að ganga fiskur frá landinu þarna út og þarna er hann í æti og virðist ekki vera á förum. Annars er makríllinn þannig að stundum sést mikið af honum og stundum lítið eða ekkert. Þetta er fiskur sem syndir hratt og ýmist hverfur eða blossar upp. Það var mikið líf á veiðisvæðinu seinni partinn í gær og allt leit vel út. Þessi makrílvertíð virðist ætla að teygja sig lengra fram á haustið en vertíðir síðustu ára hafa gert. Á þessum tíma í fyrra voru skipin að veiða langt austur í hafi. Annars hefur veiðst vel að undanförnu, þrátt fyrir dagamun. Þá hefur tíðin verið einstaklega góð og það skiptir svo sannarlega miklu máli,“ sagði Hjörvar.

Bjartur kvaddur – hefur fiskað 142.730 tonn að verðmæti 29 milljarðar króna miðað við núverandi fiskverð

DSC04636 2

Bjartur NK siglir um Norðfjörð áður en hann sigldi endanlega á brott í gærkvöldi. Ljósm: Sigurður Steinn Einarsson

Ísfisktogarinn Bjartur NK kom úr sinni síðustu veiðiferð hér við land sl. sunnudag. Afli skipsins var 101 tonn og var þorskur uppistaðan. Í gærkvöldi sigldi Bjartur síðan út Norðfjörð í hinsta sinn. Hann hefur verið í eigu Síldarvinnslunnar í liðlega fjörutíu og þrjú ár en verður afhentur írönskum kaupanda í Reykjavík nk. mánudag.

                Skuttogarinn Bjartur NK kom nýr til Neskaupstaðar 2. mars 1973. Þá hafði hann lokið lengstu samfelldu siglingu norðfirsks skips fyrr og síðar. Bjartur var smíðaður í Niigata í Japan og tók siglingin þaðan til heimahafnar í Neskaupstað 49 sólarhringa en vegalengdin var um 13.150 sjómílur. Á leiðinni kom Bjartur við í Honolulu á Hawaii-eyjum og Balboa við Panamaskurðinn.

bjartur i skipasmidastodinni

Bjartur NK í smíðum í Niigata-skipasmíðastöðinni. Ljósm: Magni Kristjánsson

                Stjórn Síldarvinnslunnar tók ákvörðun um að láta smíða Bjart seint á árinu 1971 en þá hafði fengist nokkur reynsla af útgerð skuttogarans Barða NK sem fyrirtækið festi kaup á árið 1970. Í upphafi var Bjarti ætlað að leysa Barða af hólmi en eftir að smíði togarans hófst var ákveðið að gera báða togarana út og reyndar urðu togararnir í eigu fyrirtækisins þrír þegar Birtingur NK bættist í flotann árið 1977.

                Alvöru skuttogaravæðing á Íslandi hófst árið 1971 og var þá ákveðið að láta smíða tíu togara í Japan. Síldarvinnslan festi kaup á einu þessara skipa og var það smíðað í Niigata ásamt þremur öðrum en sex skipanna voru smíðuð í Muroran.

                Hinn 25. október árið 1972 var togara Síldarvinnslunnar hleypt af stokkunum í Niigata-skipasmíðastöðinni og var honum þá gefið nafnið Bjartur. Síldarvinnslan fékk skipið afhent 12. janúar 1973 og daginn eftir var lagt af stað í hina löngu siglingu til Íslands. Klukkan 8.30 að morgni föstudagsins 2. mars sigldi Bjartur fánum prýddur inn Norðfjörð og var honum vel fagnað.

bjartur kemur heim 1973

Bjartur NK kemur nýr til Neskaupstaðar 2. mars 1973. Ljósm: Guðmundur Sveinsson

                Bjartur þótti afar vel búið skip og voru miklar vonir við það bundnar. Stærð skipsins var 461 brúttótonn og aðalvélin var 2000 hestöfl. Allar vélar og tækjabúnaður um borð var japanskrar gerðar ef undan er skilin talstöðin sem var dönsk smíð.

                Útgerð Bjarts hefur gengið vel frá upphafi og ekki hefur þótt brýn ástæða til að gera miklar breytingar á skipinu. Aðalvélin var endurnýjuð árið 1984 og árið 2004 hélt Bjartur til Póllands þar sem meiriháttar viðhaldi var sinnt. Þá var skipt um hluta spilbúnaðar, plötur í skutrennu og víðar endurnýjaðar og unnið að ýmsum öðrum lagfæringum. Að öðru leyti hefur reglubundið viðhald verið látið nægja.

                Afli Bjarts á þeim rúmlega fjörutíu og þremur árum sem hann hefur verið í eigu Síldarvinnslunnar er 142.730 tonn. Ársafli skipsins var mestur árið 1981 eða 4.568 tonn en alls hefur ársaflinn sjö sinnum farið yfir 4.000 tonn. Minnstur var ársafli skipsins árið 2001, 1.953 tonn, en verulegan hluta þess árs var Bjartur í slipp á Akureyri í kjölfar eldsvoða um borð. Miðað við núverandi fiskverð má áætla að aflaverðmæti Bjarts á þessu liðlega fjörutíu og þriggja ára tímabili nemi um 29 milljörðum króna.

Capture 2

                Ekkert skip hefur tekið jafn oft þátt í togararalli Hafrannsóknastofnunar og Bjartur. Í marsmánuði sl. lauk hann sínu 26. ralli.

                Magni Kristjánsson var fyrsti skipstjórinn á Bjarti og sigldi hann skipinu heim frá Japan. Magni var á Bjarti á árunum 1973-1976. Þegar Bjartur hafði verið gerður út í fjörutíu ár sagði Magni eftirfarandi: „Það fiskaðist strax vel á Bjart  og hann hefur ávallt verið hagkvæmt skip. Það var vandað til smíði hans og því entist allt ákaflega vel um borð. Það fer ekkert á milli mála að þessi japanski togari hefur verið einstaklega farsælt skip.“

                Sveinn Benediktsson tók við skipstjórn á Bjarti árið 1976 og gegndi starfinu til ársins 1991. Að mati Sveins er Bjartur mikið gæðaskip. „Bjartur er traust og gott skip. Ég var óskaplega ánægður með Bjart. Japanska vélin sem upphaflega var í honum var að vísu heldur lítil og það var til bóta að fá nýja vél  árið 1984. Þetta var afar gott skip að vera á,“ segir Sveinn.

                Eftirmaður Sveins í skipstjórastóli var Birgir Sigurjónsson og stýrði hann skipinu til ársins 2006. Birgir segist bera hlýjar tilfinningar til skipsins. „Bjartur er frábært skip í alla staði. Ég var á Bjarti í 33 ár sem stýrimaður og skipstjóri og mér þykir vænt um þetta skip. Mér leið afar vel þarna um borð. Það er eftirsjá að Bjarti en tíminn líður og endurnýjunar er þörf. Við það þurfa allir að sætta sig,“ segir Birgir.

                Jón Hlífar Aðalsteinsson var skipstjóri á Bjarti á árunum 2006-2011. Hann á ljúfar minningar frá veru sinni á skipinu. „Það var mjög fínt að vera á Bjarti. Skipið fór svo vel með mann. Bjartur er gott skip og jafnan aflaðist vel á það. Segja má að Bjartur hafi fyllilega staðið yngri skipum snúning og endurminningarnar frá Bjartsárunum eru svo sannarlega góðar,“ sagði Jón Hlífar.

                Steinþór Hálfdanarson tók við skipstjórn á Bjarti þegar Jón Hlífar lét af störfum og er hann síðasti skipstjórinn á skipinu áður en það hverfur af landi brott. Það er Steinþór sem siglir skipinu til Reykjavíkur þar sem nýr eigandi tekur við því. „Bjartur er afar gott sjóskip og fer vel með áhöfn. Miðað við stærð er hann sjóborg. Það hefur fiskast vel á skipið alla tíð og mönnum hefur líkað vel að vera á því. Margir hafa verið í áhöfninni um áratuga skeið og ekki virst hafa haft nokkurn áhuga á að skipta um pláss. Auðvitað er Bjartur barn síns tíma en hann skilaði sínu fram í síðasta túr. Vissulega er endurnýjunar þörf en margir muna sakna Bjarts því hann hefur þjónað okkur einstaklega vel,“ segir Steinþór.

Unnið í Barða og Blængi

Blaengur og Bardi agust 2016 SG

Blængur NK og Barði NK í Norðfjarðarhöfn: Ljósm: Smári Geirsson

                Togarinn Barði NK hélt til Akureyrar sl. sunnudag en þar verður frystibúnaður á vinnsludekki tekinn úr skipinu að stærstum hluta og fluttur yfir í Blæng NK sem hefur verið fyrir norðan um tíma. Í stað frystibúnaðarins verður búnaði til meðhöndlunar á ísfiski komið fyrir í Barða. Ráðgert er að þessum framkvæmdum í Barða verði lokið seint í septembermánuði og þá haldi hann til ísfiskveiða.

                Forsmíði  á þeim hluta vinnslubúnaðarins sem fer í Blæng og kemur ekki úr Barða er að mestu lokið. Vinnslubúnaðinum verður síðan öllum komið fyrir á vinnsludekki en Blængur verður einnig útbúinn á ísfiskveiðar. Þá verður Blængur útbúinn til að geyma frystar afurðir í lest á brettum en slíkt fyrirkomulag leiðir til vinnuhagræðingar og flýtir fyrir löndun. Kössunum er raðað á brettin á vinnsludekki og brettunum er staflað í lestinni með lyftara.

                Blængur ætti að geta hafið veiðar að þessum framkvæmdum loknum í lok októbermánaðar.

                Eins og greint hefur verið frá er verið að selja togarann Bjart NK til Írans. Mun áhöfnin á honum flytjast yfir á Barða en áhöfnin sem verið hefur á Barða flytjast yfir á Blæng.

                Það er Slippurinn á Akureyri sem sér um ofangreindar framkvæmdir í skipunum.

Bjartur NK í sinni síðustu veiðiferð áður en hann verður afhentur írönskum kaupanda

Joi

Jóhannes Sveinbjörnsson verkstjóri búinn að gera Bjart kláran í síðustu veiðiferðina hér við land. Ljósm: Guðjón B. Magnússon

                Bjartur NK hélt til veiða í gærmorgun. Er þetta síðasta veiðiferðin sem skipið heldur í hér við land, en ráðgert er að afhenda hann írönskum kaupanda í Reykjavík um næstu mánaðamót. Það ríkti sérstök stemmning þegar skipið var búið í veiðiferðina en Bjartur hefur verið gerður farsællega út frá Neskaupstað frá árinu 1973. Bjartur er einn af hinum svonefndu Japanstogurum og var hann smíðaður fyrir Síldarvinnsluna í Niigata, hleypt af stokkunum þar hinn 25. október 1972 og afhentur Síldarvinnslunni 12. janúar 1973. Til heimahafnar í Neskaupstað kom hann í fyrsta sinn 2. mars 1973 eða fyrir liðlega fjörutíu og þremur árum.

Steini á Mel

Steinþór Hálfdanarson skipstjóri í brúnni á Bjarti fyrir síðustu veiðiferðina. Ljósm: Guðjón B. Magnússon

                Skipstjóri á Bjarti í þessari síðustu veiðiferð er  Steinþór Hálfdanarson. Heimasíðan hafði samband við hann í morgun en þá var verið að toga í Berufjarðarál. „Hér er blessuð blíðan og algert stafalogn. Það er virkilega gott að taka síðasta túrinn á Bjarti í svona veðri. Við áætlum að koma í land um hádegi á sunnudag og þá kveðja menn um borð skipið með söknuði,“ sagði Steinþór.

Bjartur 28.8.16

Bjartur siglir út Norðfjörð í sína síðustu veiðiferð hér við land. Ljósm: Guðbjón B. Magnússon

                Sérstaklega verður fjallað um útgerðarsögu Bjarts hér á heimasíðunni þegar hann siglir út Norðfjörð í hinsta sinn á vit nýrra ævintýra. 

Vinnsluskip hafa landað rúmlega 6.000 tonnum í frystigeymslurnar á makríl- og síldarvertíðinni

Frá Norðfjarðarhöfn sl. mánudag. Lengst til vinstri er Vilhelm Þorsteinsson EA að landa frosnum afurðum. Næst honum er flutningaskipið Green Explorer sem er að lesta frystan makríl og síld. Þá er Beitir NK að landa til vinnslu í fiskiðjuverinu. Fjærst er Hákon EA að landa afskurði í fiskimjölsverksmiðjuna. Ljósm. Smári GeirssonFrá Norðfjarðarhöfn sl. mánudag. Lengst til vinstri er Vilhelm Þorsteinsson EA að landa frosnum afurðum. Næst honum er flutningaskipið Green Explorer sem er að lesta frystan makríl og síld. Þá er Beitir NK að landa til vinnslu í fiskiðjuverinu. Fjærst er Hákon EA að landa afskurði í fiskimjölsverksmiðjuna. Ljósm. Smári GeirssonHeimir Ásgeirsson yfirverkstjóri í frystigeymslum Síldarvinnslunnar í Neskaupstað segir að um þessar mundir séu miklar annir hjá starfsmönnunum. „Það er hrikalega mikið að gera og skortur á fólki,“ sagði Heimir. „Það er búið að landa úr vinnsluskipum í frystigeymslurnar rúmlega 6000 tonnum af makríl og síld það sem af er vertíðinni. Uppistaðan í þessu er makríll. Það eru vinnsluskipin Hákon EA og Vilhelm Þorsteinsson EA sem hafa landað mestu en nú er Kristina EA að landa 2000 tonnum. Fyrir utan þetta fara í geymslurnar makríllinn og síldin frá fiskiðjuverinu hérna við hliðina. Það sem af er vertíð er búið að skipa út í flutningaskip um 9000 tonnum. Það var hér skip í byrjun vikunnar sem tók 2600 tonn. Von er á öðru skipi á morgun og því þriðja eftir helgi. Síðan fer mikið af makrílnum og síldinni í gáma sem skipað er út á Reyðarfirði. Það veitir ekki af að útskipanir séu tíðar því framleiðslan er mikil,“ sagði Heimir að lokum.

Samfelld makríl- og síldarvinnsla

Ungir starfsmenn fiskiðjuversins í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonUngir starfsmenn fiskiðjuversins í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonSíðustu tvær vikurnar hefur verið nær samfelld vinnsla á makríl og síld í fiskiðjuverinu í Neskaupstað. Jón Gunnar Sigurjónsson yfirverkstjóri í fiskiðjuverinu segir að vinnslan hafi gengið vel en bagalegt sé hve mikið af síld sé stundum í aflanum. „Skipin reyna að forðast síldina eins og unnt er en engu að síður eru þau alloft að taka hol með háu síldarhlutfalli. Þessi blandaði afli dregur töluvert úr afköstum í fiskiðjuverinu því það tekur ávallt tíma að skipta úr makrílvinnslu yfir í síldarvinnslu og öfugt. Fyrir utan þetta er engin ástæða til að kvarta,“ sagði Jón Gunnar.
 
Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri á Berki sagði í samtali við heimasíðuna að oft væri erfitt að ná hreinum makrílholum um þessar mundir. „Við erum að toga og erum komnir með um 470 tonn. Það er líklega um helmingur aflans síld þrátt fyrir að við reynum að forðast hana sem best við getum. Skipin hafa ekkert verið að toga á nóttunni því þá kemur síldin upp í miklu magni og blandast makrílnum en samt erum við að fá of mikla síld. Kvótinn af síld er lítill og því skiptir svo miklu máli að ná sem hreinustum makrílholum en það er erfitt. Það virðist vera mikið magn af síld hér á ferðinni. Ég reikna með að við komum inn til löndunar í kvöld,“ sagði Hjörvar.
 
Börkur landaði síðast 755 tonnum al. laugardag og sunnudag, þá kom Beitir með 800 tonn og lauk löndun í gær. Nú er verið að landa úr Bjarna Ólafssyni tæpum 500 tonnum.
 

Norðfjarðarflugvöllur verður heilsárs öryggisflugvöllur

                DSC04614 2

Fulltrúar heimamanna undirrita samning. Sitjandi við borðið frá vinstri: Guðmundur R. Gíslason framkvæmdastjóri SÚN, Páll Björgvin Guðmundsson bæjarstjóri Fjarðabyggðar og Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar. Á bakvið þá standa frá vinstri: Valdimar Hermannsson bæjarfulltrúi, Jón Björn Hákonarson forseti bæjarstjórnar og Eydís Ásbjörnsdóttir bæjarfulltrúi. Ljósm: Smári Geirsson

Í morgun voru undirritaðir samningar um endurbætur á Norðfjarðarflugvelli en sveitarfélagið Fjarðabyggð, Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað og Síldarvinnslan hf. koma að framkvæmdunum með myndarlegum fjárframlögum. Framkvæmdirnar fela í sér að skipt verður um burðarlag vallarins og síðan sett á hann klæðning. Markmiðið með þessum framkvæmdum er að bæta flugvöllinn þannig að hann geti allt árið gegnt hlutverki sjúkraflugvallar fyrir Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað og aukið þannig öryggi íbúanna eystra og allra þeirra sjómanna sem leggja stund á veiðar á Austfjarðamiðum.

                Samningur Innanríkisráðuneytisins og Fjarðabyggðar gerir ráð fyrir að framkvæmdirnar kosti 158 milljónir króna. Á fjárlögum ríkisins er varið 82 milljónum til verksins en heimamenn leggja fram 76 milljónir; sveitarfélagið Fjarðabyggð 26 milljónir og Samvinnufélag útgerðarmanna og Síldarvinnslan samtals 50 milljónir.

DSC04617 2

Innanríkisráðherra og bæjarstjóri Fjarðabyggðar undirrita samning um endurbyggingu Norðfjarðarflugvallar. Ljósm: Smári Geirsson

                Undirritun samninganna fór fram í flugstöðinni á Norðfjarðarflugvelli og sagði Ólöf Nordal innanríkisráðherra við það tilefni að þetta verkefni væri óvenjulegt hvað varðaði þátttöku heimamanna í fjármögnun þess. Þá benti ráðherrann á að með auknum ferðamannastraumi gæti öryggisflugvöllur eins og Norðfjarðarflugvöllur gegnt sífellt mikilvægara hlutverki.  Jón Karl Ólafsson framkvæmdastjóri Isavia tók undir orð ráðherra og taldi að þeir samningar sem undirritaðir voru í morgun gætu orðið fyrirmynd annarra samninga og eins benti hann á að í framtíðinni lægju margvísleg tækifæri í góðum flugvelli.

                Páll Björgvin Guðmundsson bæjarstjóri og Jón Björn Hákonarson forseti bæjarstjórnar  fögnuðu mjög undirritun samninganna ásamt fulltrúum Heilbrigðisstofnunar Austurlands. Lesin var upp bókun bæjarstjórnar Fjarðabyggðar þar sem fram kom að það skyti skökku við að á sama tíma og verið væri að tryggja heilsárs öryggisflugvöll á Austurlandi væri öryggisflugbraut lokað á flugvellinum í Reykjavík.

                Héraðsverk mun vinna að framkvæmdunum við flugvöllinn en þær voru boðnar út og mun Isavia annast umsjón með þeim. Munu undirbúningsframkvæmdir hefjast í vetur en ráðgert er að framkvæmdum ljúki í júlí á næsta ári.

Sjókæling á karfa könnuð um borð í Bjarti NK

karfi 2

Unnur Inga við sjókælda karið um borð í Bjarti NK.

Í sumar hefur Síldarvinnslan unnið í samstarfi við Nýsköpunarsjóð námsmanna, Matís og IceFresh GMBH að rannsóknarverkefni sem snýr að sjókælingu á gullkarfa. Verkefnið er unnið af tveimur háskólanemum þeim Hafrúnu Hálfdanardóttur sem stundar nám í Lífefna- og sameindalíffræði við Háskóla Íslands og Unni Ingu Kristinsdóttur sem stundar nám í sjávarútvegsfræði við Háskólann á Akureyri.

Verkefnið fer fram um borð í togaranum Bjarti NK, í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar og í fiskvinnslu IceFresh í Frankfurt. Um borð í Bjarti er búið að koma upp tankalíki ásamt kælipressu sem kælir sjó til að viðhalda gæðum karfans. Við löndun er karfinn ýmist fluttur flakaður eða heill til Þýskalands þar sem karfinn er skoðaður og metinn.

karfi

Kælipressan um borð í Bjarti NK.

Unnur Inga hefur farið síðustu tvær veiðiferðir á Bjart NK til að fylgjast með aflanum og ganga úr skugga um að kælingin sé í lagi og taka samanburðarsýni. Aðspurð segir Unnur að verkefnið hafi gengið áfallalaust fyrir sig fyrir utan brælu sem skipið lenti í á Austfjarðamiðum fyrr í mánuðinum. Unnur stefnir á að skrifa lokaritgerð sína í sjávarútvegsfræði útfrá niðurstöðum þessa verkefnis.

Karfa verkefni

Hafrún og Unnur að fara í gegnum karfann í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. 

Hafrún Hálfdánardóttir sinnir þeim atriðum verkefnisins sem vinna þarf í landi og í samstarfi við Matís í Neskaupstað hefur hún unnið að því að greina örveruvöxt, seltu og fleira sem kanna þarf við kælingu hráefnis í sjó í stað hefðbundinnar aðferðar.  

Nú er yfirstandandi síðasta veiðiferð Bjarts á Íslandsmiðum og er Unnur Inga háseti í þeim túr. Strákarnir á Bjarti eru hæstánægðir með veru Unnar um borð í ágúst og segir sagan að umgengni um borð í skipinu hafi aldrei verið jafn mikið til fyrirmyndar. 

Góð makrílveiði í fyrrinótt og í gær

Makrílvinnsla í fiskiðjuverinu í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonMakrílvinnsla í fiskiðjuverinu í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonAllt í einu fór að fiskast makríll úti fyrir suðausturlandi í fyrrinótt eftir dapra veiði að undanförnu. Bjarni Ólafsson AK kom með 500 tonn til Neskaupstaðar í gær og í nótt kom Börkur NK með 900 tonn. Heimasíðan hafði samband við Hálfdan Hálfdanarson skipstjóra á Berki og spurði hvernig veiðiferðin hefði gengið: „Hún gekk vel. Í fyrrinótt og í gær var fínasta makrílveiði á þeim slóðum sem við höfum mest verið á síðustu árin; suður af Hvalbak og í Berufjarðarálnum. Við fengum þennan afla í fimm holum og það var töluvert að sjá. Í gær var vaðandi fiskur á stóru svæði á þessum slóðum. Þetta er ágætur makríll og það er lítið af síld í aflanum,“ sagði Hálfdan.

Makríllinn erfiður – Beitir að landa síld

Beitir NK að landa í fiskiðjver Síldarvinnslunnar. Ljósm. Hákon ErnusonBeitir NK að landa í fiskiðjver Síldarvinnslunnar. Ljósm. Hákon ErnusonBeitir NK kom til Neskaupstaðar í gærkvöldi og er að landa til vinnslu í fiskiðjuverinu. Aflinn er 560 tonn, þar af tæp 500 tonn síld. Heimasíðan ræddi við Sturlu Þórðarson skipstjóra og sagði hann að mun erfiðara væri að eiga við makrílinn en undanfarin ár. „Makríllinn hefur verið erfiður viðureignar núna. Hann gefur sig stundum hér og stundum þar og þá yfirleitt í stuttan tíma og stundum gefur hann sig hvergi. Vegna erfiðleika við að ná makríl var ákveðið að fara í síld í þessum túr til að halda uppi vinnslu í fiskiðjuverinu. Síldin er þokkalega góð og við fengum hana djúpt út í Norðfjarðardýpi, um 50 mílur frá bryggjunni hérna beint í austur. Nú er eitthvað að rætast úr makrílveiðinni og skipin hér eystra hafa fengið afla í nótt og í morgun. Það er vonandi góðs viti,“ sagði Sturla.
 
Gera má ráð fyrir að löndun úr Beiti ljúki í kvöld.

Úthlutað úr Afreksmannasjóði Guðmundar Bjarnasonar í fyrsta sinn

Fyrstu styrkþegarnir úr Afreksmannasjóði Guðmundar Bjarnasonar. Talið frá vinstri: María Rún Karlsdóttir, Særún Birta Eiríksdóttir og Þórarinn Örn Jónsson. Ljósm. Smári GeirssonFyrstu styrkþegarnir úr Afreksmannasjóði Guðmundar Bjarnasonar. Talið frá vinstri: María Rún Karlsdóttir, Særún Birta Eiríksdóttir og Þórarinn Örn Jónsson. Ljósm. Smári Geirsson
 
Í gær var íþróttafólki í fyrsta sinn úthlutað styrkjum úr Afreksmannasjóði Guðmundar Bjarnasonar. Samþykkt var að stofna sjóðinn á aðalfundi Síldarvinnslunnar árið 2015 og skyldi fyrirtækið árlega veita honum eina milljón króna til ráðstöfunar. Sjóðurinn var stofnaður í minningu Guðmundar Bjarnasonar sem þá var nýlátinn en Guðmundur var lengi virkur í íþróttastarfi auk þess að sitja í stjórn Síldarvinnslunnar og gegna starfi bæjarstjóra í Neskaupstað og síðar í Fjarðabyggð á árunum 1991-2006. Reglugerð fyrir sjóðinn var undirrituð í lok maímánaðar og er stjórn hans skipuð aðalstjórn Þróttar og einum fulltrúa frá Síldarvinnslunni. Í stjórn sjóðsins sitja nú Stefán Már Guðmundsson, Eysteinn Kristinsson og Guðlaug Ragnarsdóttir frá Þrótti og Guðný Bjarkadóttir frá Síldarvinnslunni. 
 
Tilgangur sjóðsins er að styrkja einstaklinga innan Þróttar sem náð hafa framúrskarandi árangri í íþrótt sinni. Á það við þegar viðkomandi hefur öðlast rétt til keppni á fjölþjóðlegum mótum, verið valinn í landslið, unnið Íslandsmeistaratitil, sett Íslandsmet eða skarað fram úr með eftirtektarverðum hætti. Sækja þarf um styrk úr sjóðnum og er ráðgert að styrkjum verði úthlutað tvisvar á ári. Næst verður úthlutað seint á þessu ári.
 
Þrír íþróttamenn sóttu um styrk úr sjóðnum fyrir fyrstu úthlutun og fengu umsóknir þeirra jákvæða umfjöllun. Veittu þeir styrkjum sínum móttöku í gær. Styrkþegarnir leggja allir stund á blak og hafa náð mjög góðum árangri í íþróttinni. Styrkþegarnir eru eftirtaldir: María Rún Karlsdóttir, Særún Birta Eiríksdóttir og Þórarinn Örn Jónsson. María Rún hefur leikið með A-landsliði Íslands að undanförnu en þau Særún Birta og Þórarinn með unglingalandsliðum.
 
Við afhendingu styrkjanna sagði Stefán Már Guðmundsson formaður Þróttar að sjóður eins og Afreksmannasjóðurinn væri gríðarlega mikilvægur fyrir norðfirskt íþróttafólk. Oft þyrftu þeir sem næðu góðum árangri í íþróttum að borga háar fjárhæðir vegna æfinga og keppnisferða og myndu styrkir úr sjóðnum létta verulega undir með iðkendunum. Gjarnan leitaði íþróttafólkið eftir styrkjum frá fyrirtækjum með góðum árangri en beiðnir um slíka styrki yrðu erfiðari eftir því sem þær yrðu fleiri. Hann taldi að Afreksmannasjóðurinn muni virka hvetjandi fyrir norðfirskt íþróttafólk og stuðla að því að allir sem næðu framúrskarandi árangri á íþróttasviðinu gætu notið þess án þess að hafa miklar fjárhagsáhyggjur. Vildi hann hvetja íþróttafólk innan Þróttar til að sækja um styrki úr sjóðnum ef það ætti möguleika á að fá úthlutað úr honum. 

Sumarfríi á Seyðisfirði lokið og allt komið í fullan gang

Gullver NS heldur til veiða. Ljósm. Ómar BogasonGullver NS heldur til veiða. Ljósm. Ómar BogasonÍsfisktogarinn Gullver NS hélt til veiða að afloknu sumarfríi skipshafnar hinn 26. júlí sl. Skipið kom síðan til löndunar á Seyðisfirði 31. júlí. Strax eftir verslunarmannahelgina hófst vinnsla í frystihúsi Gullbergs ehf. að afloknu sumarfríi starfsfólksins þar. Gullver hélt til veiða á ný sl. þriðjudag og kom inn í gær með liðlega 100 tonna afla. Uppistaða aflans var þorskur, ufsi og karfi.

Bjartur annar aflahæsti togarinn á landinu í júlímánuði

Bjartur NK kemur til löndunar. Ljósm: Hákon ErnusonBjartur NK kemur til löndunar. Ljósm. Hákon ErnusonSegja má að Bjartur NK hafi tekið síðasta heila mánuðinn sem hann verður gerður út hér við land með sannkölluðum stæl, en eins og kunnugt er hefur skipið verið selt til Íran og verður afhent nýjum eigendum síðar í þessum mánuði. Afli Bjarts í júlí var 634,2 tonn og var hann annar aflahæsti togarinn á landinu í mánuðinum samkvæmt aflafrettum.is. Vestmannaeyjaskipin Bergey og Vestmannaey voru í þrettánda og fjórtánda sæti yfir aflahæstu skip í mánuðinum en Gullver var að mestu í fríi þennan mánuð.
 
Steinþór Hálfdanarson skipstjóri á Bjarti segir að júlímánuður hafi verið afar góður. „Við fengum allan þennan afla á okkar hefðbundnu miðum hér fyrir austan og það var rennandi blíða allan mánuðinn. Það er ánægjulegt að síðustu vikurnar á Bjarti skuli vera svona góðar,“ sagði Steinþór. 
 

Undirflokkar