Að slá í gegn

Flutningabílar koma út úr Oddsskarðsgöngum. Ljósm. Rúnar GunnarssonFlutningabílar koma út úr Oddsskarðsgöngum. Ljósm. Rúnar GunnarssonKlukkan 10 að morgni sl. fimmtudags var slegið í gegn í Norðfjarðargöngum en tæplega tvö ár eru liðin frá upphafi gangaframkvæmdanna. Gert er ráð fyrir að ráðherra komi austur hinn 25. þessa mánaðar og sprengi síðasta haftið við hátíðlega athöfn. Það verða gleðileg tímamót í sögu þessara framkvæmda. Þó svo að lokið verði við að opna leiðina í gegnum fjallið gera áætlanir ekki ráð fyrir að  göngin verði tekin í notkun fyrir almenna umferð fyrr en á árinu 2017.
 
Ný  Norðfjarðargöng munu valda byltingarkenndum breytingum í samgöngum á Austurlandi en með tilkomu þeirra þarf ekki lengur að fara yfir Oddsskarð og í gegnum Oddsskarðsgöng sem eru í yfir 600 metra hæð yfir sjávarmáli. Þeir sem sækja atvinnu eða þjónustu yfir Oddsskarð munu svo sannarlega upplifa þær framfarir sem nýju göngin munu hafa í för með sér.
 
Fyrir Síldarvinnsluna mun tilkoma nýju ganganna valda heilmiklum þáttaskilum. Þó svo að langmest af afurðum fyrirtækisins sé flutt á brott með skipum þá er töluverðum hluta þeirra ekið í gámum til útflutnings frá öðrum höfnum. Að undanförnu hafa oft um 1000 gámar á ári verið fluttir landleiðis yfir Oddsskarð frá Neskaupstað en það eru um 20 gámar á viku að jafnaði. Bílarnir sem annast gámaflutningana þurfa að nota sérbúna vagna til að komast í gegnum Oddsskarðsgöng auk þess sem aksturinn yfir fjallveginn er bæði erfiður og áhættusamur, ekki síst yfir vetrartímann. Þá er slit á flutningabílunum sem aka þessa leið afar mikið.
 
Hin nýju Norðfjarðargöng munu gjörbreyta allri aðstöðu til landflutninga á afurðum Síldarvinnslunnar frá Neskaupstað auk þess sem tilkoma ganganna mun draga úr kostnaði og áhættu vegna þeirra. Þessi nýju göng eru svo sannarlega þjóðþrifaframkvæmd og fagnaðarefni. 

Stór og góð eðalsíld

Stór og falleg norsk-íslensk eðalsíld. Ljósm. Hákon ErnusonStór og falleg norsk-íslensk eðalsíld. Ljósm. Hákon ErnusonVinnsla á norsk-íslenskri síld hófst í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað sl. mánudag. Þá kom Beitir NK með 700 tonn og í kjölfar hans kom Birtingur NK með 650 tonn. Beitir kom síðan á ný til löndunar í morgun með 700 tonn. Jón Gunnar Sigurjónsson yfirverkstjóri í fiskiðjuverinu segir að síldin sé afar stór og góð, sannkölluð eðalsíld, og vinnslan gangi vel. „Við framleiðum allan sólarhringinn á þrískiptum vöktum og hráefnið er afar gott. Síldin er stór og falleg og ekkert af smásíld í aflanum. Þetta er norsk-íslensk síld eins og hún gerist best og hentar vel bæði til flökunar og heilfrystingar. Þetta er í reynd allt eins og best verður á kosið. Nú skiptir bara öllu máli að vel gangi að selja þessa gæðavöru,“ sagði Jón Gunnar.

Bjartur og Gullver landa á Seyðisfirði

Verið að ísa Bjart NK á Seyðisfirði að lokinni löndun. Ljósm. Ómar BogasonVerið að ísa Bjart NK á Seyðisfirði að lokinni löndun. Ljósm. Ómar BogasonÞað sem af er september hafa ísfisktogararnir Bjartur NK og Gullver NS landað samtals fimm sinnum á Seyðisfirði. Bjartur hefur landað þrisvar samtals 243 tonnum og Gullver tvisvar samtals 186 tonnum. Uppistaða aflans hefur verið þorskur, karfi og ufsi. Hluti aflans hefur verið unnin í fiskvinnslustöðinni á Seyðisfirði og segir Ómar Bogason vinnsluna ganga vel. „Hér fellur ekki úr klukkutími. Það er unnið á fullum afköstum hvern dag og rúmlega það. Vinnslan er jöfn og góð og stöðin er ágætlega mönnuð. Við höfum lagt sérstaka áherslu á vinnslu á ufsa og það hefur gengið vel. Menn eru mjög ánægðir með gang mála hérna,“ sagði Ómar.
 
Gullver landaði síðast 94 tonnum sl. mánudag og Bjartur landaði 89 tonnum í gær.
 
Þegar þetta er ritað er frystitogarinn Barði NK að veiðum úti fyrir Norðurlandi en Blængur NK er í slipp á Akureyri. Vestmannaeyjatogararnir Vestmannaey VE og Bergey VE hafa verið að veiðum úti fyrir Suðaustur- og Suðurlandi að undanförnu.
 

Fyrstu síldinni landað til vinnslu

DSC03234A

Beitir NK að landa stórri og fallegri síld í Neskaupstað. Ljósm: Hákon Ernuson

Í fyrrinótt kom Beitir NK með fyrsta farminn af norsk-íslenskri síld til vinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað á þessari vertíð. Afli skipsins var 700 tonn sem fékkst í þremur holum.  Tómas Kárason skipstjóri var ánægður með túrinn. „Við fórum út á laugardag og byrjuðum að toga innarlega í Norðfjarðardýpinu. Að loknu því holi færðum við okkur yfir í Seyðisfjarðardýpið en síðan aftur yfir í Norðfjarðardýpið þar sem við tókum þriðja og síðasta holið. Þetta gekk vel og síldin er stór og falleg eða um 390 grömm að meðaltali. Það var nóg að sjá á þessum slóðum. Þetta voru blettir, ekki mjög stórir. Síldin hélt sig niðri við botn yfir daginn í þéttum torfum en kom upp þegar skyggði og þá var hún heldur dreifðari. Það mun líka vera mikið að sjá af síld austar en við vorum eða austur úr Seyðisfjarðardýpinu. Þetta lítur allt saman vel út hvað veiðarnar áhrærir og það mun örugglega ganga vel að vinna þessa fínu síld, það eru einungis markaðirnar sem eru áhyggjuefnið um þessar mundir,“ sagði Tómas.

Birtingur NK hefur einnig hafið síldveiðar þannig að gera má ráð fyrir samfelldri vinnslu á næstunni.

Vinnsla á síld hefst eftir helgina

Vinnsla á síld mun hefjast eftir helgi. Ljósm. Hákon ErnusonVinnsla á síld mun hefjast eftir helgi. Ljósm. Hákon ErnusonGert er ráð fyrir að vinnsla á norsk-íslenskri síld hefjist í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í næstu viku. Beitir NK mun væntanlega halda til síldveiða fyrir helgina og ef allt fer samkvæmt áætlun mun hann ekki verða lengi að innbyrða hæfilegan afla fyrir vinnsluna.
 
Hálfdan Hálfdanarson, skipstjóri á Beiti, segir að makrílskipin hafi að undanförnu orðið vör við mikla síld út af Austfjörðum þannig að full ástæða sé til að ætla að veiðarnar muni ganga vel. „Við höfum séð mikla síld út af Héraðsflóa og á grunnunum hér fyrir austan. Þetta er meiri síld á þessum slóðum en oftast áður. Við munum sennilega byrja að kanna svæðið hérna beint úti enda hafa einhver skip verið að veiðum síðustu daga í Norðfjarðar- og Reyðarfjarðardýpi. Ef ástæða er til munum við síðan leita austar. Við stefnum að því að koma með góðan afla til vinnslu á mánudagsmorgun. Það ætti að geta gengið,“ sagði Hálfdan.

Yfir 30.000 tonnum af makríl landað í Neskaupstað á vertíðinni

Beitir NK kemur að landi með markrílfarm. Ljósm. Sylvía Kolbrá HákonardóttirBeitir NK kemur að landi með markrílfarm. Ljósm. Sylvía Kolbrá HákonardóttirÍ dag er verið að landa 650 tonnum af frystum makríl úr Hákoni EA og er gert ráð fyrir að það sé á meðal síðustu farmanna sem landað verður á vertíðinni. Alls hafa yfir 30.000 tonn af makríl borist til Neskaupstaðar á vertíðinni enda gengu veiðarnar yfirleitt mjög vel. Rúmlega 19.200 tonnum var landað til vinnslu í fiskiðjuverinu en engum makríl var landað beint til mjöl- og lýsisvinnslu. Allur aflinn sem unnin var í fiskiðjuverinu kom frá fjórum skipum: Beitir NK landaði 7.194 tonnum, Börkur NK 5.913 tonnum, Bjarni Ólafsson AK 5.117 tonnum og Margrét EA 985 tonnum. Vinnslan á makrílnum gekk vel og að sögn Jón Gunnars Sigurjónssonar, yfirverkstjóra í fiskiðjuverinu, var fiskurinn betri en á undanförnum vertíðum. „Fiskurinn var mjög stór og góður alla vertíðina, sérstaklega var hráefnið gott í ágústmánuði. Segja má að allt hafi gengið eins og í sögu á vertíðinni að sölumálunum undanskildum eins og menn vita,“ sagði Jón Gunnar.
 
Fyrir utan makrílaflann sem barst til vinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar lönduðu vinnsluskip 12.800 tonnum í frystigeymslur Síldarvinnslunnar á vertíðinni. Dálítill hluti af því sem landað var er síld sem fékkst sem meðafli. Vinnsluskipin sem færðu þennan afla að landi voru þrjú: Kristina EA, Vilhelm Þorsteinsson EA og Hákon EA.

Nánast fullar frystigeymslur

Frystri síld landað í Neskaupstað sl. helgi. Ljósm. Hákon ErnusonFrystri síld landað í Neskaupstað sl. helgi. Ljósm. Hákon ErnusonNú er góðri makrílvertíð um það bil að ljúka hjá Síldarvinnslunni. Í dag er þó verið að landa 650 tonnum af frystum makríl úr Hákoni EA en varla er gert ráð fyrir að miklum makrílafla verði landað til viðbótar á vertíðinni. Löndun á síld er hins vegar hafin af krafti í Neskaupstað og í gærkvöldi var lokið við að landa frystri síld úr grænlensku skipunum Polar Amaroq og Polar Princess. Fór afli þeirra, samtals um 1800 tonn, beint um borð í flutningaskip í höfninni.
 
Heimir Ásgeirsson, yfirverkstjóri í frystigeymslum Síldarvinnslunnar, segir að mikill munur sé á þessari vertíð og fyrri vertíðum hvað varðar útskipun á afurðum. Nú séu frystigeymslurnar nánast fullar en á síðustu árum hafi afurðirnar farið jafnt og þétt. „Lokun Rússlandsmarkaðar og Nígeríumarkaðar hafa alvarleg áhrif á okkar starfsemi,“ sagði Heimir. „Frá okkur hafa þó farið um 11.000 tonn í ágústmánuði sl. en til samanburðar fóru 14.000 tonn seinni tvær vikurnar í ágústmánuði í fyrra. Þetta gengur afar hægt fyrir sig um þessar mundir. Við erum að senda frá okkur um 1000 tonn í gámum sem fara til Hollands og þaðan til Tyrklands og Egyptalands og í dag er að koma skip sem tekur 500 tonn til Póllands. Þetta eru mikil viðbrigði frá síðustu árum þegar útflutningurinn gekk hratt og vel fyrir sig og unnt var að framleiða af fullum krafti því ávallt var geymslurými fyrir frystar afurðir,“ sagði Heimir að lokum.

Mikið um að vera í Norðfjarðarhöfn

Sannkölluð örtröð skipa er í Norðfjarðarhöfn þessa dagana. Ljósm. Hákon ErnusonSannkölluð örtröð skipa er í Norðfjarðarhöfn þessa dagana. Ljósm. Hákon ErnusonNú um helgina hefur svo sannarlega verið líflegt í Norðfjarðarhöfn. Segja má að þar hafi verið örtröð skipa og þau skip sem ekki hafa komist að hafa legið úti á firði. Síldarvinnsluskipin Börkur og Beitir liggja í höfninni að afloknum makrílveiðum og þar um borð er eðlilegu viðhaldi sinnt. Grænlensku skipin Polar Amaroq og Polar Princess hafa verið að landa frystri síld beint um borð í flutningaskip og Hákon EA kom með fullfermi af frystum makríl. Þá var verið að gera frystitogarann Barða kláran til veiðiferðar. Til viðbótar við þessi skip komu smærri bátar til löndunar og hvert sem litið var á  hafnarsvæðinu voru menn í önnum.
 
Grænlensku skipin Polar Amaroq og Polar Princess hafa verið að síldveiðum austur af Grænlandi þar sem þau hafa partrollað. Í upphafi veiðiferðarinnar lögðu skipin stund á makrílveiðar en fljótlega sneru þau sér að síldinni. Mikið af síld var að sjá á þeim slóðum sem skipin toguðu og komu þau bæði með fullfermi til löndunar. Afli Polar Princess var um 1100 tonn og Polar Amaroq 650 tonn.

Viðbygging rís við fiskiðjuver Síldarvinnslunnar

viðbygging

Framkvæmdir við stækkun fiskiðjuversins. Ljósm: Smári Geirsson

Stefnt er að því að auka afköst fiskiðjuvers Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og eru yfirstandandi byggingaframkvæmdir norðan við verið liður í þeim áformum. Viðbyggingin sem nú er að rísa er um 1000 fermetrar að stærð. Með tilkomu hennar mun vinnslurými versins stækka en í tengslum við framkvæmdirnar mun eldra húsnæði verða breytt þannig að rými eykst fyrir frystipressur. Þessi nýja bygging er með svipuðu sniði og og pökkunarstöðin sem byggð var við fiskiðjuverið í fyrra en hún er einnig 1000 fermetrar að stærð.

Það er Mannvit sem hefur hannað viðbygginguna og annast eftirlit með framkvæmdum. Aðalverktaki er Nestak hf. en Haki ehf. annaðist jarðvegsframkvæmdir og Fjarðalagnir sjá um lagnavinnuna.

Framkvæmdir við viðbygginguna hófust um mánaðamótin maí-júní og er áformað að þeim ljúki seint á haustmánuðum.

 

Togararnir landa á síðasta degi fiskveiðiársins

Löndun úr Barða NK. Ljósm. Hákon ErnusonLöndun úr Barða NK. Ljósm. Hákon ErnusonTogararnir Blængur NK, Barði NK, Bergey VE og Gullver NS eru allir að landa í dag en Bjartur NK landaði í gær. Blængur er að landa á Akureyri, Gullver á Seyðisfirði, Bergey í Vestmannaeyjum, Barði í Neskaupstað og Bjartur landaði í Neskaupstað í gærdag.
 
Afli frystitogarans Blængs er 425 tonn upp úr sjó og er uppistaða aflans ufsi, þorskur og karfi. Frystitogarinn Barði kom með fullfermi að landi og er aflinn að meginhluta til grálúða og þorskur. Ísfisktogarinn Bergey er að landa um 60 tonnum og Gullver 70 tonnum. Afli ísfisktogarans Bjarts var síðan um 80 tonn.
 
Gert er ráð fyrir að ísfisktogararnir haldi til veiða á ný um miðja vikuna og Barði í vikulokin. 
 

Framlag Síldarvinnslusamstæðunnar til samfélagsins var 9,8 milljarðar á árunum 2013-2014 – þar af voru veiðigjöld tæplega 1,9 milljarðar

Endurskoðunarfyrirtækið Deloitte hefur reiknað út svonefnt skattaspor Síldarvinnslusamstæðunnar fyrir árin 2013 og 2014. Skattaspor er tiltekin aðferðafræði sem notuð er til að greina heildarframlag fyrirtækja til samfélagsins í formi skatta og opinberra gjalda. Til Síldarvinnslusamstæðunnar  teljast auk móðurfélagsins Síldarvinnslunnar hf., Gullberg ehf., Bergur-Huginn ehf., Fóðurmjölsverksmiðjan Laxá og SVN-eignafélag ehf.  

Hér á eftir verða birtar nokkrar athyglisverðar niðurstöður skattasporsins:

 • Verðmætasköpun Síldarvinnslusamstæðunnar nam rúmum 23 milljörðum króna árið 2014 og fjöldi ársverka var 288.

 • Rekstrarkostnaður fyrir utan laun og skatta á árinu 2014 nam tæpum 10 milljörðum króna og er stór hluti kostnaðarins vegna kaupa á vörum og þjónustu frá öðrum innlendum fyrirtækjum.

 • Launagreiðslur námu 14,3% af verðmætasköpun ársins 2014.

 • Meðaltal heildarlauna starfsmanna á árinu 2014 var 12 milljónir króna.

 • Skattaspor samstæðunnar var 1,6 milljón krónur á mánuði fyrir hvern starfsmann árið 2014 og 1,9 milljón krónur á mánuði 2013. Skattasporið nam því samanlagt 42 milljónum króna fyrir hvern starfsmann á árunum 2014 og 2013.

 • Skattasporið nam 104 krónum fyrir hvert þorskígildiskg. af veiðiheimildum ársins 2014 og 154 krónum fyrir hvert þorskígildiskg. ársins 2013.

 • Veiðigjöld námu 909 milljónum króna árið 2014 og 954 milljónum árið 2013.

 • Veiðigjöldin sem hlutfall af heildarskattaspori námu tæplega 20% árið 2014 og um 18% árið 2013.

 • Samanlagt námu greiddir og innheimtir skattar ásamt opinberum gjöldum samstæðunnar 4,6 milljörðum króna árið 2014 og 5,2 milljörðum króna árið 2013. Samanlagt nam því framlag samstæðunnar til samfélagsins 9,8 milljörðum króna í formi skatta og opinberra gjalda á árunum 2013 og 2014.

  2014

 2013

Umhverfishópur Síldarvinnslunnar stóð sig vel

Umhverfishopur

Hluti umhverfishóps Síldarvinnslunnar í vettvangsheimsókn við munna Norðfjarðarganga í Fannardal

Umhverfishópur Síldarvinnslunnar lauk störfum nýverið og hefur skilað góðu verki. Hópurinn hóf að sinna verkefnum sínum um mánaðamótin maí-júní og hefur unnið kappsamlega í sumar. Í fyrstu voru 10 ungmenni í hópnum en þegar hópurinn var fjölmennastur taldi hann 15 ungmenni af báðum kynjum. Sigfús Sigfússon stýrði starfsemi hópsins eins og hann hefur reyndar gert síðustu sumur.

Að sögn Sigfúsar eru ávallt næg verkefni fyrir umhverfishópinn. Hann sinnti tiltekt á athafnasvæði Síldarvinnslunnar auk þess sem hann fékkst við hreinsun og snyrtingu af öllu tagi. Það var rakað, sópað, blettað, málað, slegið og unnið í lóðum svo eitthvað sé nefnt. Að sögn Sigfúsar voru ungmennin í hópnum einstaklega dugleg, áhugasöm og sinntu öllum verkum af metnaði. „Það ríkti góður andi innan hópsins og samviskusemi einkenndi hann. Krakkarnir voru jákvæðir og vinnusamir og allt gekk eins og í sögu,“ segir Sigfús.

Árangurinn af störfum umhverfishópsins er mjög sýnilegur og er vitnisburður um þá auknu áherslu sem Síldarvinnslan leggur á umhverfismál. „Staða umhverfismála á athafnasvæði fyrirtækisins hefur aldrei verið betri, en auðvitað má alltaf finna ný verkefni sem þyrfti að sinna,“ segir Sigfús.

Veiðar og vinnsla á makríl hefur gengið vel – mikil síld úti fyrir Austfjörðum

               Beitir kolmunna april 2015 HE

Beitir NK kemur til löndunar. Ljósm: Hákon Ernuson

Makrílvertíðin hefur gengið vel til þessa. Skipstjórarnir á Beiti og Berki eru sammála um að mikið hafi verið af makríl á þeim miðum sem þeir hafa helst sótt á og almennt hafi veiði gengið vel þó einstaka sinnum hafi hún dottið niður tímabundið. Beitir NK kom til Neskaupstaðar sl. föstudag og landaði 880 tonnum í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar. Tómas Kárason skipstjóri á Beiti sagði að túrinn hefði gengið einstaklega vel: „Við fengum þessi 880 tonn í tveimur holum og drógum einungis í fjóra tíma í hvort sinn. Þetta var hreinn makríll og stór og fallegur fiskur, 470 grömm að meðaltali. Við höfum að undanförnu verið að veiða norðaustur úr Hvalbak og það hefur oftast verið mikið að sjá þó komi daprir dagar af og til. Vertíðin hefur gengið býsna vel hjá okkur og öðrum skipum sem landa í Neskaupstað. Löndunarbið er algeng og og einnig er algengt að skipin haldi ekki strax til veiða að löndun lokinni. Þegar við komum í land var verið að landa úr Bjarna Ólafssyni AK og Margrét EA var komin til löndunar áður en lokið var við að landa úr Beiti,“ sagði Tómas.

               Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri á Berki tekur undir með Tómasi og segir makrílvertíðina hafa verið góða hvað veiðarnar varðar. Börkur kom til Neskaupstaðr í nótt með 680 tonn sem fengust í fimm holum austur úr Hvalbak. „Það er nægur makríll á þessum miðum og alls ekki minna en í fyrra, hins vegar er svolítið annað munstur á þessu til dæmis vegna þess að hitaskilin liggja öðruvísi. Í túrnum byrjuðum við að taka tvö hol og gerðum síðan hlé á veiðum en tókum svo þrjú hol til viðbótar áður en haldið var í land. Veiðarnar taka mið af afköstum vinnslunnar,“ sagði Hjörvar.

 Bæði Tómas og Hjörvar gátu þess að mikla síld hefði verið að sjá út af Austfjörðum að undanförnu. „Við höfum séð mikla síld í Norðfjarðar- og Seyðisfjarðardýpi og reyndar víðar, „ sagði Tómas. „Athyglisvert er að makrílaflinn er ekki eins síldarblandaður eins og oft hefur verið og afli okkar á Beiti á vertíðinni er 90% makríll,“ bætti Tómas við.

 Hjörvar sagði að síldin hefði eitthvað verið að hreyfa sig að undanförnu og færa sig í austur, fjær landinu.

Stórn Síldarvinnslunnar endurkjörin

Stjorn 2015 agust HEÁ aðalfundi Síldarvinnslunnar hf., sem haldinn var 19. agúst sl., var stjórn 
félagsins endurkjörin. Í stjórinni sitja eftirtalin:
        
   Anna Guðmundsdóttir
   Björk Þórarinsdóttir
   Freysteinn Bjarnason
   Ingi Jóhann Guðmundsson
   Þorsteinn Már Baldvinsson
Varamenn:
   Arna Bryndís Baldvins McClure
   Halldór Jónasson
 
Þorsteinn Már Baldvinsson var kjörinn stjórnarformaður á fyrsta fundi nýkjörinnar stjórnar.
 
Nýkjörin stjórn Síldarvinnslunnar ásamt framkvæmdastjóra. Talið frá vinstri: Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri, Ingi Jóhann Guðmundsson, Anna Guðmundsdóttir, Halldór Jónasson, Arna Bryndís Baldvins McClure, Freysteinn Bjarnason, Björk Þórarinsdóttir og Þorsteinn Már Baldvinsson.
Ljósm.: Hákon Ernuson.

Reyndi á skilning bandalagsþjóða Íslendinga?

Frá aðalfundi Síldarvinnslunnar í gær. Þorsteinn Már Baldvinsson í ræðustóli. Ljósm. Smári Geirsson.Frá aðalfundi Síldarvinnslunnar í gær. Þorsteinn Már Baldvinsson í ræðustóli. Ljósm. Smári Geirsson.Aðalfundur Síldarvinnslunnar vegna ársins 2014 fór fram í Neskaupstað í gær. Hér að neðan er birtur hluti úr ræðu stjórnarformanns fyrirtækisins, Þorsteins Más Baldvinssonar, sem hann flutti á fundinum.
 
„Síldarvinnslan hefur í hartnær sex áratugi selt afurðir sínar út um allan heim og þurft í gegnum tíðina að bregðast við breytingum á innri og ytri aðstæðum. Viðskiptasambönd byggjast upp á löngum tíma og byggjast á gagnkvæmu trausti. Í traustum viðskiptasamböndum ganga menn saman í gegnum sveiflur. Rússar fóru með okkur í gegnum niðursveifluna á Íslandi. Á sama hátt höfum við farið með Rússum í gegnum þeirra niðursveiflu síðastliðið ár. 
 
Afurðir eru ekki alltaf seldar á þann markað sem gefur hæsta verð á hverjum tíma en hærra verð getur stundum átt sér skýringar í skammtíma breytingum á borð við innbyrðis breytingar á gjaldmiðlum. Heldur er horft til sögunnar og langtíma hagsmunir metnir. 
 
Sterk alþjóðleg staða sjávarútvegsins
 
Staða íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja í alþjóðlegri samkeppni um sölu matvæla er ótrúlega sterk og það er ekkert það markaðssvæði í heiminum sem menn hafa látið afskipt. Fyrirtækin hafa sérhæft sig inn á ákveðna markaði og íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa notið trausts viðskiptavina vegna þess að langtíma hagsmunir í markaðsmálum hafa verið teknir fram yfir það sem menn hafa metið sem skammtíma hagsmuni eins og tímabundnar verðsveiflur. 
 
Þetta hafa fyrirtækin gert án fjárhagslegs stuðnings stjórnvalda. 
 
Umræðan og fullyrðingar einstakra stjórnmálamanna og fræðimanna undanfarna daga byggist annað hvort á vanþekkingu eða litlum skilningi. 
 
Saga Síldarvinnslunnar og saga viðskipta við Rússland er samofin. Innflutningsbann Rússa á sjávarafurðum til Rússlands er ákveðið áfall fyrir íslenskan sjávarútveg. Því miður gerðist það sem við höfðum óttast og varað við undanfarna mánuði. Við sem störfum í íslenskum sjávarútvegi erum sorgmædd yfir hversu afvegaleidd umræðan hefur verið. Fullyrðingar um að þeir sem starfa í greininni sjái ekki lengra en tvo mánuði fram í tímann, þ.e.a.s. meðan svokölluð makrílvertíð stendur yfir, eru með ólíkindum. 
 
Við skulum fara yfir um hvað málið snýst. 
 
Bannið ekki refsiaðgerð
 
Þvert á það sem ætla mætti af fjölmiðlaumfjöllun og yfirlýsingum ráðamanna þá snúast aðgerðir Evrópusambandsins ekki um refsingu. Þetta eru ekki refsiaðgerðir. Það kemur skýrt fram í tilkynningu Evrópusambandsins. Jafnframt kemur fram að þetta séu aðgerðir sem eiga ekki að hitta fyrir almenning, hvorki í Rússlandi né löndum Evrópusambandsins. Það kemur einnig skýrt fram. Í umræðunni er talað um viðskiptaþvinganir gegn Rússlandi. Er það rétt? Hverjar eru þær?
 
Helstu atriðin eru: 
 • Bann á inn- og útflutningi á vopnum og tengdum varningi.
 • Takmörkun á viðskiptum með tiltekna fjármálagerninga við örfá fyrirtæki.
 • Bann við að lána fimm bönkum fjármuni.
 • Frysting eigna og ferðabann nokkurra einstaklinga.
 Lítum nánar á þetta: 
 • Eldri samningar um vopnaviðskipti falla ekki undir bannið. 
 • Á Íslandi eru gjaldeyrishöft og því útilokað að íslensk fyrirtæki láni eða eigi í viðskiptum með fjármálagerninga.
 
Eftir stendur bann við kaupum og sölu hergagna. 
 
Áhrifin í Evrópu hverfandi
 
Rússar geta selt og keypt hvaða vöru sem er, fyrir utan hergögn, frá löndum Evrópusambandsins. Lítum til dæmis á áhrifin á Þýskaland. Þar gætti jafnaðarmaðurinn Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands, þess að aðgerðirnar hefðu hverfandi áhrif á fyrirtæki og einstaklinga bæði í Þýskalandi og Rússlandi. 
 
Stjórnmálamenn og aðrir hafa margir hverjir talað um að við þurfum að vera þátttakendur í viðskiptaþvingunum á Rússa vegna þess að við þurfum að treysta á aðrar þjóðir í alþjóðasamstarfi. Í huga fólks snúast viðskiptaþvinganir um að bannað sé að flytja inn eða selja vörur til ákveðins lands og hafi veruleg efnahagsleg áhrif á líf fólks. Þannig væri hægt að tala um viðskiptaþvinganir ef Þjóðverjar hefðu lokað á gasinnflutning frá Rússlandi. Það hefði haft skaðleg áhrif. Engar slíkar viðskiptahömlur eru í gangi. 
 
Eigum ekki viðskipti með hergögn
 
Það hefur legið ljóst fyrir mánuðum saman hvaða áhrif þátttaka Íslands í banni á inn- og útflutningi hergagna hefði fyrir útflutning Íslands. Hefði ekki verið möguleiki að fá skilning meðal Evrópusambandsþjóða og Bandaríkjamanna fyrir því að Ísland sé á móti aðgerðum Rússa í Úkraínu án þess að vera formlegur aðili að banninu, þar sem við hvorki framleiðum eða stundum viðskipti með hergögn?
 
Þetta snýst ekki um það hvort við viljum vera „þjóð meðal þjóða“ og alls ekki ef markmið Evrópusambandsins eru höfð í huga og lesin. Það er ómaklegt að ráðast á einstaka aðila og ásaka sjávarútveginn um að stjórnast af skammtímahagsmunum,vilja ráðskast með utanríkisstefnuna, sýna mannréttindum skeytingarleysi og hunsa samfélagslega ábyrgð. 
 
Hefur íslenskur sjávarútvegur gert athugasemdir við afstöðu íslenskra stjórnvalda gagnvart framferði Rússa í Úkraínu? Nei. Trúa menn því virkilega að þeir sem starfi í sjávarútvegi séu á móti vopnasölubanni á Rússland? Það getur ekki verið. 
 
Gagnrýni sjávarútvegsins snýr að því að tíminn var ekki nýttur til að ígrunda hvað væri í húfi, hvaða þýðingu Rússlandsmarkaður hefur fyrir Ísland og bera saman hvað þýðingu það hefði fyrir Ísland að vera aðili að vopnasölubanni á Rússland miðað við aðrar þjóðir. Hefðu Íslendingar ekki getað komið sjónarmiðum sínumvarðandiaðgerðir Rússa í Úkraínu með öðru móti á framfæri án þess að skaða eigin hagsmuni eða fólks í Rússlandiþar sem ekki er um refsiaðgerð að ræða af hálfu Evrópusambandsins? 
 
Reyndi á skilning bandamanna okkar?
 
Myndi það ekki njóta skilnings bandamanna okkar og vera í samræmi við áherslur Evrópusambandsins um að lágmarka tjón almennings og fyrirtækja, að nægjanlegt væri að Ísland lýsti yfir skýrri afstöðu þó svo ekki væri skrifað undir vopnasölubann sem vitað var að myndi leiða til innflutningsbanns á mikilvægar útflutningsvörur Íslands?“
 
Hluti af ræðu Þorsteins Más Baldvinssonar, stjórnarformanns Síldarvinnslunnar, á aðalfundi 2015.
 

Aðalfundur Síldarvinnslunnar hf. vegna ársins 2014

 • Aðalfundur Síldarvinnslunnar hf. vegna ársins 2014Hagnaður ársins nam 6 milljörðum króna.
 • Opinber gjöld fyrirtækisins og starfsmanna þess námu 4,6 milljörðum króna. 
 • Eiginfjárhlutfall er 55,7%.
 • Fiskimjölsverksmiðjur félagsins tóku á móti 162 þúsund tonnum af hráefni.
 • Fiskiðjuverið tók á móti 65 þúsund tonnum af hráefni.
 • Um frystigeymslur félagsins fóru 75 þúsund tonn af afurðum.
 • Framleiddar afurðir voru um 85 þúsund tonn.
 
Rekstur
Rekstrartekjur samstæðunnar á árinu 2014 voru alls 21,4 milljarðar króna og rekstrargjöld námu 14,1 milljarði króna.  EBITDA var 7,3 milljarðar króna.   Fjármagnsliðir voru jákvæðir um 820 milljónir króna. Hagnaður samstæðunnar fyrir reiknaða skatta nam 7,2 milljörðum króna. Reiknaður tekjuskattur nam 1.200 milljónum króna og var hagnaður ársins því 6 milljarðar króna.  
 
Gjöld til hins opinbera
Síldarvinnslan greiddi 3,1 milljarða til hins opinbera. Greiddur tekjuskattur á árinu var 1.200 milljónir króna en önnur opinber gjöld námu 1.000  milljónum. Veiðigjöld námu 900 milljónum á síðasta fiskveiðiári. 
 
Fjárfestingar
Fjárfest var í aflaheimildum frá Stálskipum í Hafnarfirði og keypt voru hlutabréf í Gullbergi ehf. á Seyðisfirði á árinu.  Keypt var nýtt uppsjávarveiðiskip frá Noregi, Börkur NK 122. Það var smíðað í Tyrklandi árið 2012 og ber 2.500 tonn.
 
Haldið var áfram á braut uppbyggingar í uppsjávarvinnslu félagsins. Reist var 1.000 fm bygging og er það liður í þeirri stefnu að auka og bæta vinnsluna.
 
Samtals námu fjárfestingar félagsins 10 milljörðum króna. 
 
Efnahagur
Heildareignir samstæðunnar í árslok 2014 voru bókfærðar á 52,9 milljarða króna. Veltufjármunir voru bókfærðir á 10,7 milljarða króna og skuldir og skuldbindingar samstæðunnar námu 23,4  milljörðum króna. Eigið fé samstæðunnar í árslok var 29,5 milljarðar króna.   Í árslok var eiginfjárhlutfall samstæðunnar 55,7%.
 
Starfsemi
Útgerð félagsins gekk vel á árinu. Afli bolfiskskipa samstæðunnar var 18.600 tonn að verðmæti 4.650 milljónir króna. Afli uppsjávarskipa var 97 þúsund tonn að verðmæti 3.500 milljónir. Heildaraflaverðmæti skipa var 8.200 milljónir króna og aflamagn 115.000 tonn á árinu. 
 
Fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar tóku á móti um 161 þúsund tonnum af hráefni á árinu 2014. Framleidd voru 34 þúsund tonn af mjöli og 10 þúsund tonn af lýsi. Samtals voru framleidd 44 þúsund tonn af mjöli og lýsi á árinu að verðmæti 9.000 milljónir króna.
 
Í uppsjávarvinnsluna var landað 65 þúsund tonnum af hráefni. Framleiddar afurðir voru 36.000 tonn. Þar vega makrílafurðir þyngst og síðan síldarafurðir og loks loðnuafurðir.  Verðmæti framleiðslunnar var 6.250 milljónir króna. 
 
Um frystigeymslurnar fóru 75 þúsund tonn af afurðum á árinu.
 
Samtals nam framleiðsla á afurðum 85.000 tonnum á árinu 2014 að verðmæti tæplega 16,5 milljarðar króna.
 
Starfsmenn
Hjá samstæðu Síldarvinnslunnar störfuðu 290 manns til sjós og lands um síðustu áramót. Launagreiðslur félagsins voru rúmar 3.300 milljónir króna á árinu 2014 en af þeim greiddu starfsmenn 1.120 milljónir í skatta.
 
Aðalfundur
Á fundinum var samþykkt að fresta afgreiðslu um ráðstöfun hagnaðar.  Ástæða þess er hætta á að innflutningsbann til Rússlands á afurðum félagsins muni hafa áhrif á fjárstreymi þess til skamms tíma.  Vegna verkfalls dýralækna í vor sem stöðvaði útflutning til Rússlands í 9 vikur og innflutningsbanns er birgðastaða félagsins óvenju há.  Óvissa er um útistandandi kröfur á stóra viðskiptavini í Rússlandi vegna innflutningsbannsins.  Rétt er að geta þess að 40% af framleiðslu uppsjávarvinnslunnar hafa farið inná Rússlandsmarkað.  Í ljósi þessa var tekin ákvörðun um að fresta ákvörðun um ráðstöfun hagnaðar vegna ársins 2014.
 
Fram kom í máli stjórnarformannsins að Síldarvinnslan mun ekki grípa til uppsagna vegna innflutningsbannsins.  Starfsfólk fyrirtækisins gerir sér hins vegar grein fyrir því að vinnan gæti dregist saman einkum vegna tapaðra loðnumarkaða. 
 
 
Aðalfundur Síldarvinnslunnar hf. var haldinn miðvikudaginn 19. ágúst.  
 
Fréttatilkynning frá Síldarvinnslunni hf.miðvikudaginn 19. ágúst 2015.
Nánari upplýsingar veitir Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri, í síma 896 4760.
 

Guðmundar Bjarnasonar minnst á aðalfundi Síldarvinnslunnar – Guðmundarsjóður stofnaður

Guðmundur BjarnasonGuðmundur BjarnasonÁ aðalfundi Síldarvinnslunnar sem haldinn var í dag minntist Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður félagsins, Guðmundar Bjarnasonar með eftirfarandi orðum:  
Vinur okkar og félagi, Guðmundur Bjarnason, lést hinn 11. júlí sl. Hans er sárt saknað. Guðmundur var Norðfirðingur, félagshyggjumaður og bjó yfir ótvíræðum forystuhæfileikum. Hann var Síldarvinnslumaður í húð og hár. Guðmundur gegndi starfi starfsmannastjóra Síldarvinnslunnar  á árunum 1977-1991 eða þar til hann settist í stól bæjarstjóra. Þá sat hann í stjórn Síldarvinnslunnar á árunum 1991-2005.
 
Guðmundur hafði mjög góðan skilning á mikilvægi atvinnulífsins fyrir samfélagið. Hann lagði áherslu á að velgengni atvinnulífsins væri forsenda þess að íbúarnir gætu búið við góðar aðstæður og hagsæld. Hann var sífellt í sambandi við forsvarsmenn Síldarvinnslunnar, spurði frétta og hvatti til uppbyggingar og góðra verka. Til hans var einnig leitað að hálfu fyrirtækisins því fáir þekktu betur nærsamfélagið og eðli þess og leitun var að mönnum sem bjuggu yfir meiri þekkingu á stjórnsýslu ríkisins. Ávallt var Guðmundur tilbúinn að leggja góðum málum lið og ávallt var hann jákvæður en jafnframt raunsær.  Samskipti okkar Guðmundar hófust árið 2001, þegar við sátum saman í stjórn Síldarvinnslunnar, og eftir það áttum við  tíð samtöl . Hann kom á framfæri viðhorfum sínum með ljúfum hætti og alltaf skein í gegn í hve ríkum mæli hann bar hag heimabyggðarinnar fyrir brjósti. Á þessum tíma voru að eiga sér stað miklar breytingar hjá Síldarvinnslunni og þá var ómetanlegt að eiga ráðgjafa eins og Guðmund.
 
Við sem höfðum samskipti við Guðmund höfum margs að sakna. Hann lagði mikið  af mörkum á sviði samfélagsmála en það sem ekki síst stendur upp úr er hve öll samskipti við hann voru skemmtileg. Guðmundur hafði einstaka kímnigáfu sem naut sín vel á mannamótum en ekki síður í hinu daglega lífi. Hann var mannvinur og vildi öllum vel. Sú félagshyggja sem hann stóð fyrir birtist með skýrum hætti í störfum Samvinnufélags útgerðarmanna en þar átti Guðmundur sæti í stjórn í 30 ár, þar af formaður síðustu 10 árin. Samvinnufélagið hefur notað stærstan hluta þess árlega arðs sem það hefur fengið vegna eignar sinnar í Síldarvinnslunni  til góðra málefna innan fjallahrings Norðfjarðar. Guðmundur átti stærstan hlut í að móta stefnuna um ráðstöfun arðsins og sú stefna á mikinn þátt í að móta það blómstrandi mannlíf sem hér þrífst.
 
Fyrir okkur sem fáumst við rekstur fyrirtækja er mikilvægt að í forystu þeirra sveitarfélaga sem fyrirtækin starfa í sé fólk sem sýnir rekstrinum áhuga og skilning. Guðmundur Bjarnason var slíkur forystumaður. Hann sagði stundum að velgengni atvinnulífsins væri forsenda fyrir velgengni sveitarfélagsins og ef atvinnulífið ætti í vanda þá birtist sá vandi innan tíðar á öllum þeim sviðum sem sveitarfélagið sinnti. Þess væri óskandi að flest sveitarfélög hefðu á að skipa manni eins og Guðmundi Bjarnasyni þar sem ríkur skilningur á tengslum atvinnulífs og opinberrar starfsemi er til staðar.
 
Þá tilkynnti Þorsteinn á aðalfundinum að stjórn Síldarvinnslunnar hefði ákveðið að koma á fót sjóði sem kenndur verður við Guðmund Bjarnason. Sjóðnum yrði ætlað að styrkja afreksfólk á sviði íþrótta í Neskaupstað en Guðmundur var mikill áhugamaður um íþróttir og formaður Íþróttafélagsins Þróttar á árunum 1984-1987. Verður þess farið á leit við Íþróttafélagið Þrótt að það taki að sér að annast sjóðinn en Síldarvinnslan mun árlega leggja eina milljón króna til hans.
 

Aðalfundur Síldarvinnslunnar hf. 2015

Aðalfundur Síldarvinnslunnar hf. 2015Verður haldinn miðvikudaginn 19. ágúst  2015 í Hótel Egilsbúð, Neskaupstað, kl. 13:00.
 
Dagskrá:
 
 1. Skýrsla stjórnar
 2. Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til staðfestingar
 3. Tekin ákvörðun um greiðslu arðs
 4. Tillaga stjórnar um starfskjarastefnu
 5. Breyting á samþykktum 
  1. tillaga um breytingu á ákvæði 4.02 í samþykktum félagsins er varðar tímasetningu og boðun til aðalfundar félagsins
 6. Ákveðin þóknun til stjórnar félagsins
 7. Kosin stjórn félagsins
 8. Kosnir endurskoðendur
 9. Önnur mál, löglega fram borin
Stjórn Síldarvinnslunnar hf.
 

Ný brettasmiðja Tandrabergs tekur til starfa um mánaðamótin

Nýja brettasmiðjan er risin á hafnarsvæðinu í Neskaupstað. Ljósm.: Smári GeirssonNýja brettasmiðjan er risin á hafnarsvæðinu í Neskaupstað. Ljósm.: Smári GeirssonTandraberg ehf. hefur að undanförnu verið að reisa nýja brettasmiðju á hafnarsvæðinu í Neskaupstað. Framkvæmdir við nýbygginguna hófust í febrúarmánuði, þegar grafið var fyrir húsinu, en síðan hófust eiginlegar byggingaframkvæmdir í aprílmánuði. Húsið er 600 fermetrar að stærð og er það nú risið. Um þessar mundir er síðan unnið að uppsetningu vélbúnaðar í brettasmiðjunni og er gert ráð fyrir að framleiðsla hefjist um næstu mánaðamót.
 
 
 
Unnið að uppsetningu véla í nýju brettasmiðjunni. Ljósm.: Smári Geirsson.Unnið að uppsetningu véla í nýju brettasmiðjunni. Ljósm.: Smári Geirsson.Að sögn Einars B. Kristjánssonar, framkvæmdastjóra Tandrabergs, er mikil þörf fyrir þessa nýju brettasmiðju. „Við höfum verið að framleiða 60.000 bretti á ári en með tilkomu brettasmiðjunnar verður sú framleiðsla vélvædd og auðveldari í alla staði. Í nýju smiðjunni munu að jafnaði starfa þrír menn og munu þeir geta framleitt 600 bretti á dag miðað við að einungis sé unnin dagvinna,“ sagði Einar. „Vélarnar sem notaðar verða við framleiðsluna eru ítalskar og er maður frá framleiðandanum staddur í Neskaupstað þessa dagana og stjórnar hann uppsetningu þeirra. Þessar vélar eru fullkomnar og verður auðvelt að auka framleiðsluna, jafnvel þrefalda hana, með einföldum aðgerðum. Það bendir allt til þess að í náinni framtíð muni eftirspurn eftir brettum aukast verulega. Við höfum verið að þjóna viðskiptavinum allt suður að Djúpavogi en Síldarvinnslan er langstærsti einstaki brettanotandinn og hefur keypt af okkur um 80% af framleiðslunni á undanförnum árum,“ sagði Einar að lokum.
 

Úr margmiðlun á sjóinn

               Vestmannaey

Vestmannaey VE 444. 

Veiðar skipa Bergs-Hugins hafa gengið vel það sem af er ári og er aflinn mun meiri en á sama tíma og í fyrra og einnig aflaverðmæti. Í ár hafa skipin tvö, Vestmannaey og Bergey, fiskað liðlega 5000 tonn en á sama tíma í fyrra var aflinn liðlega 4800 tonn. Meðalverð á kg. hefur einnig verið mun hærra í ár en var í fyrra.

                Heimasíðan sló á þráðinn til Héðins Karls Magnússonar skipstjóra á Vestmannaey og spurðist frétta. Héðinn Karl er fæddur árið 1980 og lauk námi í margmiðlunarfræðum áður en hann hóf nám í Stýrimannaskólanum. „Ég hef að mestu verið á sjó frá unglingsaldri en lauk margmiðlunarnáminu um 2000 rétt áður en netbólan sprakk. Stýrimannaskólanum lauk ég árið 2008 og hef síðan verið á Vestmannaey. Hér um borð hef ég verið netamaður, stýrimaður og leyst af sem skipstjóri af og til. Margmiðlunarnámið og tölvukunnáttan kemur að ágætu gagni á sjónum enda tölvuvæðingin mikil um borð í fiskiskipum,“sagði Héðinn Karl. „Við erum nú við veiðar á Látragrunni og höfum verið þar að mestu síðustu þrjár vikurnar. Það hefur gengið vel að fiska en uppistaða aflans er ýsa. Það er heldur rólegra yfir veiðunum nú en hefur verið, fiskurinn gefur sig mest á nóttunni þessa dagana þannig að það er ekki sólarhringsveiði eins og var. Við erum komnir með um 50 tonn og okkur vantar 20 tonn til að fylla. Hér um borð eru allir kátir og menn eru nokkurn veginn búnir að jafna sig eftir þjóðhátíð,“ sagði Héðinn Karl að lokum.

Undirflokkar