Bæjarstjórinn með viðtalstíma í fiskiðjuverinu

Þriðjudaginn 20. júní á milli kl. 10 og 12 verður Páll Björgvin Guðmundsson bæjarstjóri í Fjarðabyggð með viðtalstíma á setustofu fiskiðjuvers Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Er allt starfsfólk Síldarvinnslunnar sem telur sig eiga erindi við bæjarstjórann hvatt til að nota þetta tækifæri og ræða við hann. Hér er um að ræða ánægjulega nýjung þar sem bæjarstjórinn fer um bæjarkjarna sveitarfélagsins og býður starfsfólki stórra vinnustaða upp á samtal.

Bæjarstjórinn með viðtalstíma í fiskiðjuverinu

 

Stjórn Síldarvinnslunnar endurkjörin

DSC05074

Stjórn Síldarvinnslunnar ásamt Gunnþóri B. Ingvasyni framkvæmdastjóra. Ljósm: Smári Geirsson

Á aðalfundi Síldarvinnslunnar sl. föstudag var stjórn félagsins endurkjörin. Stjórnin er þannig skipuð:

Anna Guðmundsdóttir

Björk Þórarinsdóttir

Guðmundur Rafnkell Gíslason

Ingi Jóhann Guðmundsson

Þorsteinn Már Baldvinsson

Varamenn:

Arna Bryndís Baldvins McClure

Halldór Jónasson

Stjórnarformaður er Þorsteinn Már Baldvinsson en hann hefur gegnt formennskunni frá árinu 2003.

Sjómannadagurinn 2017

DSC05055

Aðalfundur Síldarvinnslunnar hf. vegna ársins 2016

SVN-LOGO2 Prent

Aðalfundur Síldarvinnslunnar hf. vegna ársins 2016 var haldinn í dag, föstudaginn 9. júní.

 • Hagnaður ársins nam 4.100 milljónum króna.
 • Opinber gjöld af starfsemi fyrirtækisins og starfsmanna þess námu 4.600 milljónum króna. 
 • Eiginfjárhlutfall er 63%.
 • Afli skipa samstæðunnar var 138 þúsund tonn.
 • Fiskimjölsverksmiðjur félagsins tóku á móti 124 þúsund tonnum af hráefni.
 • Fiskiðjuverið tók á móti 53 þúsund tonnum af hráefni til frystingar.
 • Um frystigeymslur félagsins fóru 74 þúsund tonn af afurðum.
 • Framleiddar afurðir voru 90 þúsund tonn.

Rekstur

Rekstrartekjur samstæðunnar á árinu 2016 voru alls 18,4 milljarðar króna og rekstrargjöld námu 13,0 milljörðum króna.  EBITDA var 5.400 milljónir króna.   Fjármagnsliðir voru jákvæðir um 580 milljónir króna. Hagnaður samstæðunnar fyrir reiknaða skatta nam 5.100 milljónum króna. Reiknaður tekjuskattur nam 1.000 milljónum króna og var hagnaður ársins því 4.100 milljónir króna.  

Gjöld til hins opinbera

Á árinu 2016 greiddi Síldarvinnslan og starfsmenn 4.600 milljónir króna  til hins opinbera. Greiddur tekjuskattur og veiðigjöld námu samtals 2.000 milljónum króna. Starfsmenn fyrirtækisins greiddu 1.300 milljónir í staðgreiðslu af launum.

Fjárfestingar

Samtals námu fjárfestingar félagsins 2.600 milljónum króna og voru þær þáttur í að auka verðmætasköpun félagsins. Stærsta einstaka fjárfesting ársins voru kaup félagsins á 37,2% hlut í Runólfi Hallfreðssyni ehf. sem gerir út uppsjávarskipið Bjarna Ólafsson AK. Eftir kaupin á Síldarvinnslan 75,2% hlut í félaginu. Helstu fjárfestingarnar í fastafjármunum voru áframhaldandi uppbygging á  uppsjávarvinnslu félagsins.

Efnahagur

Heildareignir samstæðunnar í árslok 2016 voru bókfærðar á 46,6 milljarða króna. Veltufjármunir voru bókfærðir á 9 milljarða króna og skuldir og skuldbindingar samstæðunnar námu 17,3  milljörðum króna. Eigið fé samstæðunnar í árslok var 29,3 milljarðar króna.   Í árslok var eiginfjárhlutfall samstæðunnar 63%.

Starfsemi

Útgerð félagsins gekk vel á árinu. Afli bolfiskskipa samstæðunnar var um 19.500 tonn að verðmæti 4.700 milljónir króna. Afli uppsjávarskipa var 118 þúsund tonn að verðmæti 4.500 milljónir. Heildaraflaverðmæti afla skipanna var 9.300 milljónir króna og aflamagn 138.000 tonn á árinu. 

Fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar tóku á móti um 124 þúsund tonnum af hráefni á árinu 2016. Framleidd voru 28 þúsund tonn af mjöli og 8 þúsund tonn af lýsi. Samtals voru framleidd 36 þúsund tonn af mjöli og lýsi á árinu að verðmæti 6.800 milljónir króna.

Í uppsjávarvinnsluna var landað 53 þúsund tonnum af hráefni. Framleiddar afurðir voru tæp 40 þúsund tonn. Þar vega makrílafurðir þyngst og síðan síldarafurðir og loks loðnuafurðir.  Verðmæti framleiðslunnar var 7.200 milljónir króna. 

Um frystigeymslurnar fóru 74 þúsund tonn af afurðum á árinu.

Samtals nam framleiðsla á afurðum rúmum 90 þúsund tonnum á árinu 2016 að verðmæti 18,2 milljarðar króna.

Starfsmenn

Hjá samstæðu Síldarvinnslunnar störfuðu 347 manns til sjós og lands um síðustu áramót. Launagreiðslur félagsins voru rúmar 3.800 milljónir króna á árinu 2016 en af þeim greiddu starfsmenn 1.300 milljónir í skatta.

Aðalfundur

Á fundinum var samþykkt að greiða 1.200 milljónir króna í arð til hluthafa fyrir rekstrarárið 2016. Þá var samþykkt að laun stjórnarmanna yrðu 165 þúsund kr. á mánuði.

Fréttatilkynning frá Síldarvinnslunni hf. föstudaginn 9. júní 2017.

Nánari upplýsingar veitir Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri, í síma 896 4760.

550 tonna kolmunnahol í Rósagarðinum

Beitir NK að dæla kolmunna í Rósagarðinum. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonBeitir NK að dæla kolmunna í Rósagarðinum. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonÍ fyrradag var hörkuveiði hjá kolmunnaskipunum í Rósagarðinum 65 mílur suðaustur af landinu. Beitir NK tók tvö hol þennan dag og fékk 550 tonn í öðru og 500 tonn í hinu. Bjarni Ólafsson AK fékk einnig góðan afla og fiskurinn þarna er „ofboðslega fallegur og stór“ að sögn Runólfs Runólfssonar skipstjóra. Bjarni landaði 1.300 tonnum á Seyðisfirði í gær.

Beitir er að landa 1.900 tonnum í Neskaupstað í dag og þar af fengust 1.700 tonn í Rósagarðinum. Sturla Þórðarson skipstjóri segir að veiðin hafi verið mjög góð í fyrradag en lítil í gær. „Það er mikil hreyfing á fiskinum þarna og veiðin er dálítið köflótt. Í fyrradag sást töluvert af fiski en minna í gær. Við fengum tvö yfir 500 tonna hol í fyrradag og það er ágætt. Vonandi verður áframhald á þessu,“ sagði Sturla.

Gert er ráð fyrir að kolmunnaskipin haldi á ný til veiða í Rósagarðinum eftir sjómannadagshelgina.

Blængur sneisafullur af úthafskarfa

Blængur NK. Ljósm. Hákon ErnusonBlængur NK. Ljósm. Hákon ErnusonFrystitogarinn Blængur NK kom til Neskaupstaðar í gærkvöldi með fullfermi af úthafskarfa. Veiðiferðin tók 21 dag en skipið var 16 daga að veiðum. Aflinn var 560 tonn upp úr sjó eða 15.600 kassar. Theodór Haraldsson skipstjóri segir að Blængur sé einstaklega heppilegt skip til veiða eins og þessara, það sé öflugt og kraftmikið í alla staði. „Veiðin gekk afar vel þarna á Reykjaneshryggnum. Við enduðum til dæmis á því að taka 35 tonna hol eftir tíu tíma. Og vinnslan er alltaf að ganga betur og betur þó enn megi bæta afköstin. Það er ávallt verið að sníða vankanta af vinnslulínunni og það tekur dálítinn tíma. Afköstin hjá okkur voru 700 kassar á sólarhring fyrst í túrnum en í lokin vorum við komnir í 1140 kassa. Veðrið var fínt megnið af túrnum. Það kom ein bræla og við þurftum þá að stoppa í 18 tíma. Það voru einungis fjögur íslensk skip að úthafskarfaveiðum að þessu sinni. Auk okkar voru það Vigri, Þerney og Arnar. Að auki var þarna fjöldi erlendra skipa. Síðustu dagana vorum við eina íslenska skipið að veiðum auk eins Spánverja og nokkurra Rússa. Skipin höfðu lokið úthafskarfaveiðum, voru búin með kvóta sína,“ sagði Theodór.

Löndun hefst úr Blængi í fyrramálið en áhöfnin mun njóta sjómannadagshelgarinnar að lokinni þessari vel heppnuðu veiðiferð.

Sjómannadagshelgin er framundan

Sigling 2015

               Hópsigling norðfirska flotans á sjómannadegi 2015. Ljósm: Guðlaugur B. Birgisson

Fyrst var haldið upp á sjómannadaginn hér á landi árið 1938. Í Neskaupstað var hins vegar dagurinn fyrst haldinn hátíðlegur árið 1942 og voru það ýmis félagasamtök í bænum sem stóðu fyrir hátíðarhöldunum. Dagskrá hátíðarhaldanna í Neskaupstað árið 1942 mörkuðu að miklu leyti þá megindrætti sem einkenndu hátíðarhöldin um árabil. Í fyrsta lagi var efnt til hópsiglingar norðfirska flotans. Í öðru lagi fór fram sýning björgunartækja og björgunar í stól. Í þriðja lagi var efnt til kappróðurs. Í fjórða lagi var samkoma í skrúðgarðinum með ræðuhöldum og fjölbreyttri dagskrá. Í fimmta lagi var minningarathöfn við leiði óþekkta sjómannsins í kirkjugarðinum. Í sjötta lagi íþróttakeppni á íþróttavellinum og í sjöunda lagi dansleikur um kvöldið. Strax á árinu 1943 var útisamkoman í skrúðgarðinum flutt að sundlauginni sem einmitt var tekin í notkun það ár. Við sundlaugina fóru fram ræðuhöld, tónlistarflutningur, koddaslagur, stakkasundskeppni og fleira. Síðar var reiptogið einnig flutt að sundlauginni.

Róður 2016

Kappróður 2016. Ljósm: Guðlaugur B. Birgisson            

    Dagskrá sjómannadagsins höfðaði vel til íbúa bæjarins, ekki síst barnanna. Það var ævintýri fyrir þau að sigla með bátunum í hópsiglingunni og það var svo sannarlega spennandi að fylgjast með kappróðrinum svo ekki sé talað um koddaslaginn og reiptogið.

                Á árinu 1945 var ákveðið að sjómannadagsráð Neskaupstaðar yrði einungis skipað fulltrúum sjómanna og útvegsmanna og var svo um langt skeið. Undanfarna áratugi hefur ráðið að mestu verið skipað áhugamönnum um hátíðarhöldin og í þeim hópi hafa verið starfsmenn sjávarútvegsfyrirtækja og fyrrverandi sjómenn. Hafa hátíðarhöldin vaxið að umfangi og undanfarna áratugi hafa þau gjarnan staðið yfir í fjóra daga. Hefur sjómannadagsráð oft fengið félagasamtök til liðs við sig svo hátíðarhöldin geti verið sem glæsilegust.

reipitog 2016

Reiptog við sundlaugina á sjómannadegi 2016. Ljósm: Guðlaugur B. Birgisson

                Hér fylgir dagskrá sjómannadagshátíðarhaldanna um komandi helgi og kennir þar ýmissa grasa:

Hátíðarhöld Sjómannadagsins í Neskaupstað

2017

 

Fimmtudagur 8.júní

kl. 18:30-              Pizzahlaðborð í Capitano

kl. 20:30-21:30     Happy Hour   á Kaupfélagsbarnum opið til 01:00

kl. 22:00-              Egilsbúð  Brján ROCKNES,aldurstakmark 18 ár. Verð 2.500

Föstudagur     9.júní

kl. 10:00               Miðbærinn skreyttur og fánar dregnir að húni.

kl. 20–23.00         Unglingaball í Atóm

kl. 22:00-             Egilsbúð, Steinar og Bjarni, aldurstakmark 18 ár. Verð 2.500

kl. 23:00-01:00     Kaupfélagsbarinn opin

           

Laugardagur  10.júní

kl. 10:00               Myndlistasýning í Nesbæ kaffihúsi

kl.10:00-12:00      Hópsigling Norðfirska flotans – allir velkomnir - talsamband á rás 12

                             Smábátaeigendur eru hvattir til þátttöku á bátum sínum. Börn skulu vera í fylgd fullorðinna.

kl. 11:30-13:30     „Bröns“ í Hotel Capitano

kl. 13:00               Sjóva Kvennahlaup ÍSÍ farið frá Nesbæ kaffihúsi

kl. 13:00-15:00     Hoppikastalar á bryggju neðan við kirkjuna , sjá nánar á  http://www.hopp.is

kl. 14:00               Kappróður

kl. 23:00-01:00     Kaupfélagsbarinn opin

kl. 23.00-03:00    Egilsbúð, Danshljómsveit Friðjóns Jóhannsonar  aldurstakmark 18 ár. Verð 2.500 kr

           

Sunnudagur    11.júní

kl. 09:00               Sjómannadagsmót GN og Gjögurs á Norðfjarðarvelli

kl. 09:30               Skip og bátar draga íslenska fánann að húni –bæjarbúar flaggi sem víðast.

kl. 11:00               Dorgveiðikeppni 12 ára og yngri – skráning við Jósafatsafn

    Allir þátttakendur skulu vera í björgunarvestum og mæta vel fyrir tímann.

kl. 12:00               Grillveisla að hætti Jóns Gunnars í boði SVN og Fellabakarís

kl. 11:30-14:00              3 rétta Sjómannadagsmatseðill á 6900 kr í tilefni dagsins á Hildibrand Hótel

kl. 14:00               Hátíðarmessa í Norðfjarðarkirkju.

Séra Sigurður Rúnar Ragnarsson. Kór Norðfjarðarkirkju syngur. Að messu lokinni verður lagður blómsveigur við minnisvarðann um óþekkta sjómanninn í kirkjugarðinum

kl. 14:30 -18:00             Kaffisala Gerpis að Nesi   Allur ágóði rennur til björgunarstarfa sveitarinnar.

kl. 15:00               Leikfélagið Djúpið með andlitsmálingu og fleira fyrir börnin á bílastæði við sundlaug

kl. 15:30               Hátíðardagskrá við sundlaugina: 

 •           Heiðrun.
 •           Björgunarbátasund áhafna.
 •           Reiptog, koddaslagur, skráning hjá Halla Egils. 6611790.
 •           Verðlaunaafhendingar.

kl. 18:00-              3 rétta Sjómannadagsmatseðill á 6900 kr í tilefni dagsins á Hildibrand Hótel             

                        Hvetjum alla sem hlotið hafa heiðursmerki Sjómannadagsins til þess að bera það.

 

Sjómannadagsráð Neskaupstaðar og samstarfsaðilar:

Bjsv Gerpir, Haki, Sún, SVN, G. Skúlason og Hafnarsjóður Fjarðabyggðar.                     

Allar fyrirspurnir vinsamlegast sendar á  This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Kaupið merki dagsins!

Kolmunnakropp í Rósagarðinum

Beitir NK. Ljósm. Hákon ErnusonBeitir NK. Ljósm. Hákon ErnusonNú hafa íslensku skipin hætt kolmunnaveiðum í færeysku lögsögunni og eru farin að reyna fyrir sér í Rósagarðinum. Í yfirstandandi veiðiferð tók Beitir NK eitt 290 tonna hol í færeysku lögsögunni en eftir að hafa leitað nokkuð þar var haldið í Rósagarðinn. Herbert Jónsson stýrimaður á Beiti segir að í Rósagarðinum hafi verið kropp í gær en lítið sé hins vegar að sjá í dag. „Við tókum eitt 290 tonna hol í gærkvöldi eftir að hafa togað í 14 tíma. Það voru einhverjir blettir hérna og þetta reyndist vera mun stærri og betri fiskur en var að fást í færeysku lögsögunni,“ sagði Herbert.

Runólfur Runólfsson skipstjóri á Bjarna Ólafssyni AK tók undir með Herbert og sagði að dálítið hefði verið að sjá í Rósagarðinum í gær en lítið í dag. „Ég held að þetta sé búið við Færeyjar. Við tókum þar eitt hol og fengum 200 tonn. Síðan héldum við í Rósagarðinn og erum búnir að taka þar eitt hol; 270 tonn eftir 15 tíma. Það væri afar gott ef kolmunninn gæfi sig hér í íslensku lögsögunni, það er býsna langt að þurfa að sækja hann í færeysku lögsöguna,“ sagði Runólfur.

Auk Beitis og Bjarna Ólafssonar voru Víkingur og Hoffell að veiðum í Rósagarðinum í morgun en Venus er nýlega lagður af stað í land.

Nú stefna kolmunnaskipin í Rósagarðinn

Bjarni Ólafsson AK landaði 1.800 tonnum af kolmunna í Neskaupstað í gær. Ljósm. Smári GeirssonBjarni Ólafsson AK landaði 1.800 tonnum af kolmunna í Neskaupstað í gær.
Ljósm. Smári Geirsson
Heldur hefur hægst á kolmunnaveiðinni í færeysku lögsögunni að undanförnu en þó koma skip enn til löndunar með góðan afla. Margrét EA landaði 1.700 tonnum í Neskaupstað í fyrradag og í gær landaði Hákon EA 1.650 tonnum á Seyðisfirði. Þá kom Bjarni Ólafsson AK með tæplega 1.800 tonn til Neskaupstaðar í gær. Íslensku skipunum á kolmunnamiðunum hefur farið fækkandi að undanförnu.

Heimasíðan hitti Runólf Runólfsson, skipstjóra á Bjarna Ólafssyni, að máli í gær og spurði hann hvernig veiðarnar á Færeyjamiðum gengju. „Það hefur heldur hægst á kolmunnaveiðinni í færeysku lögsögunni en þó eru dagarnir misjafnir. Fiskurinn gengur í norður og um þessar mundir er veitt í svokölluðu Ræsi rétt norðan við Færeyjabanka. Þessi túr hjá okkur tók viku að meðtalinni siglingu en við vorum fimm daga á veiðum. Aflinn fékkst í sex holum og var togað frá 10 og upp í 23 tíma. Já, lengsta holið var 23 tímar og það er lengsta hol sem ég hef nokkru sinni tekið. Aflinn í hverju holi var í kringum 300 tonn. Við erum nýbúnir að fá þær gleðifréttir að Aðalsteinn Jónsson SU hafi tekið eitt hol í Rósagarðinum og fengið 200 tonn af góðum kolmunna. Það er afar mikilvægt að kolmunni veiðist í íslensku lögsögunni og því eru þetta frábær tíðindi,“ sagði Runólfur.

Ljóst er að fréttin um kolmunna í Rósagarðinum leiðir til þess að íslensk kolmunnaskip munu reyna fyrir sér þar. Í morgun stefndu bæði Bjarni Ólafsson og Beitir NK þangað. Það verður spennandi að fylgjast með því hvort verulegt magn af kolmunna hafi gengið inn í íslenska lögsögu.

Konur í sjávarútvegi eru þörf og mikilvæg félagasamtök

Konur í sjávarútvegi heimsóttu Austfirði fyrr í þessum mánuði. Myndin er tekin um borð í Beiti NK í Norðfjarðarhöfn. Ljósm. Smári GeirssonKonur í sjávarútvegi heimsóttu Austfirði fyrr í þessum mánuði. Myndin er tekin um borð í Beiti NK í Norðfjarðarhöfn. Ljósm. Smári GeirssonFélagið Konur í sjávarútvegi efndi til ferðar um Austfirði fyrir félagskonur fyrr í þessum mánuði. Um 30 konur víðs vegar að af landinu tóku þátt í ferðinni og fræddust um austfirskan sjávarútveg. Þá efndi félagið til funda um starfsemi sína á Fáskrúðsfirði og í Neskaupstað og þóttu þeir vel heppnaðir. Í tilefni af heimsókninni austur hafði heimasíðan samband við formann félagsins, Freyju Önundardóttur útgerðarstjóra, og spurði hana um starfsemi félagsins og árangur umræddrar kynnisferðar. „Heimsóknin austur var sérlega vel heppnuð. Móttökurnar voru frábærar og það var einstaklega fræðandi að fá að skoða fyrirtækin og heyra um sögu þeirra og hlutverk. Fyrir okkur sem þátt tóku í ferðinni var þetta frábær upplifun í alla staði. Þá var einnig mikilvægt fyrir félagið að fá tækifæri til að kynna starfsemi sína og tilgang í ferðinni,“ sagði Freyja. „Félagið Konur í sjávarútvegi var formlega stofnað árið 2014 en unnið hafði verið að undirbúningi stofnunar þess um tíma. Á stofnfundinn í Reykjavík mættu um 100 konur þannig að þörf fyrir félag af þessu tagi var til staðar. Þegar við héldum í ferðina austur voru félagskonur 210 talsins en þeim hefur fjölgað síðan og það er gaman að segja frá því að nú hafa austfirskar konur gengið til liðs við okkur. Það er draumur okkar að félagið starfi um allt land. Rætt hefur verið um að stofna sérstaka félagsdeild fyrir norðan og það væri virkilega gaman að geta einnig stofnað Austurlandsdeild. Við erum að vinna í því að færa okkur út um allt land og verða sýnilegar sem víðast. Ég vil bara hvetja allar konur sem starfa í sjávarútvegi og haftengdum fyrirtækjum að ganga til liðs við okkur. Staðreyndin er sú að félagskonur koma víða að, meðal annars frá sjávarútvegsfyrirtækjum, markaðs- og sölufyrirtækjum, fiskeldisfyrirtækjum, viðskiptabönkum, tæknifyrirtækjum, flutningafyrirtækjum og rannsóknastofum. Það er staðreynd að sjávarútvegurinn teygir anga sína svo ótrúlega víða. Tilgangur félagsins er að styrkja og efla konur sem starfa í sjávarútvegi og tengdum greinum, búa til sterkt tengslanet félagskvenna og kynna sjávarútvegsstarfsemi á jákvæðan og uppbyggilegan hátt. Þetta er göfugur og góður tilgangur,“ sagði Freyja að lokum.

Að undanförnu hefur félagið staðið að viðamikilli rannsókn á stöðu kvenna í sjávarútvegi í samstarfi við Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri og Gallup. Rannsóknin er í reynd frumkvöðlaverkefni sem snýst um að afla upplýsinga um þátttöku kvenna í sjávarútvegi og leita svara við hvers vegna konur eru ekki fjölmennari í jafn fjölbreyttri og áhugaverðri atvinnugrein. Tilgangurinn er að kortleggja tækifæri til vaxtar fyrir sjávarútveg með aukinni þátttöku kvenna innan greinarinnar. Niðurstöður úr fyrsta áfanga rannsóknarinnar liggja fyrir og verða þær væntanlega kynntar á næstu vikum.

 Freyja Önundardóttir, formaður félagsins Konur í sjávarútvegi. Ljósm. Smári Geirsson Freyja Önundardóttir, formaður félagsins Konur í sjávarútvegi. Ljósm. Smári GeirssonÞess skal getið að félagið Konur í sjávarútvegi hlaut Hvatningarverðlaun sjávarútvegsins tveimur dögum eftir að kynningarferðinni um Austfirði lauk. Verðlaunin voru afhent á ársfundi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, en þau eru veitt einstaklingi eða félagasamtökum sem hafa lagt sitt af mörkum til að bæta og efla íslenskan sjávarútveg.

Þeir sem vilja afla sér frekari upplýsinga um félagið Konur í sjávarútvegi er bent á heimasíðuna http://kis.is og fésbókarsíðuna Konur í sjávarútvegi.

 

 

 

Góð veiði í úthafskarfanum

Blængur NK. Ljósm. Hákon ErnusonBlængur NK. Ljósm. Hákon ErnusonBlængur NK er að úthafskarfaveiðum á Reykjaneshrygg og hefur aflað vel. Hann hóf veiðarnar 17. maí og er kominn með um 400 tonn upp úr sjó. Kvóti skipsins er rúm 500 tonn þannig að eftir er að fiska rúmlega 100 tonn. Skipum hefur fækkað mjög á úthafskarfamiðunum að undanförnu. Blængur er eina íslenska skipið á miðunum um þessar mundir en auk hans eru tveir spænskir togarar þar að veiðum auk rússneskra skipa. Heimasíðan heyrði hljóðið í Theodór Haraldssyni skipstjóra í morgun og spurði hann frétta. „Það má segja að hér hafi verið veisla hvað veiðarnar varðar. Í upphafi túrsins vorum við að fá um 1 ½ tonn á togtíma og vorum þá að taka um 25 tonn í holi en síðan fór aflinn vaxandi. Mestur var aflinn í fyrradag en þá fengum við um 13 tonn á togtíma. Þegar svona vel veiðist þá takmarkar vinnslan veiðina og þá verður að hægja á henni. Karfinn sem fæst er afar fallegur og við erum með trollið á 400-450 faðma dýpi en þar fæst betri fiskur en þegar veitt er ofar í sjónum. Þegar við komum á miðin var kaldi en nú hefur verið logn, blíða og rennisléttur sjór í heila viku. Hann spáir hins vegar brælu annað kvöld. Við stefnum að því að klára kvótann okkar og koma heim fyrir sjómannadag með góðan afla,“ sagði Theodór.

Með fullfermi í fyrsta túr

Barði NK. Ljóm. Hákon ErnusonBarði NK. Ljóm. Hákon ErnusonÍsfisktogarinn Barði NK kom til Neskaupstaðar í nótt. Skipið var kjaftfullt, með 112 tonn, og var uppistaða aflans stór og fallegur þorskur. Skipstjóri í veiðiferðinni var Bjarni Már Hafsteinsson og var þetta fyrsta veiðiferð hans í skipstjórastólnum á Barða. Í samtali við heimasíðuna sagði Bjarni að nú væri loksins genginn stór fiskur á hefðbundin austfirsk togaramið en að undanförnu hefur þar einungis fengist smár fiskur. Þá sagði Bjarni að í veiðiferðinni hefði orðið vart við makríl á Fætinum. „Þessi veiðiferð gekk ágætlega rétt eins og fyrsta veiðiferðin mín sem skipstjóri á Bjarti NK á sínum tíma og það er alltaf gott að byrja vel. Við hófum veiðar á Lónsbugtinni og vorum þar í ýsu en afli var heldur tregur. Þá var haldið á Lúlla og Lovísu og reyndar þaðan upp undir Borgarstjórann og var aflinn þar sæmilegur. Næst lá leiðin á Undirbyrðarhrygg og þaðan út á Þórsbanka í karfa og ufsa. Síðan veiddum við í Vonarbrekku og norður undir Herðablað og þar fékkst stór og góður þorskur. Í reyndinni var þar aðgæsluveiði,“ sagði Bjarni.

Gert er ráð fyrir að Barði haldi á ný til veiða á morgun.

Aðalfundur Síldarvinnslunnar verður 9. júní

Aðalfundur Síldarvinnslunnar verður 9. júníAðalfundur Síldarvinnslunnar hf. verður haldinn föstudaginn 9. júní nk. á Hótel Hildibrand í Neskaupstað og hefst kl. 11.00

Dagskrá:

 1. Skýrsla stjórnar
 2. Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til staðfestingar
 3. Tekin ákvörðun um greiðslu arðs
 4. Tillaga stjórnar um starfskjarastefnu
 5. Ákvörðun tekin um þóknun stjórnar félagsins
 6. Stjórn félagsins kjörin
 7. Kosning endurskoðenda
 8. Önnur mál, löglega fram borin

Síldarvinnslan festi kaup á stóru loðnu- og kolmunnaveiðiskipi árið 1973

Síldarvinnslan festi kaup á stóru loðnu- og kolmunnaveiðiskipi árið 1973Í tilefni þess að Síldarvinnslan verður 60 ára hinn 11. desember nk. munu birtast pistlar um sögu fyrirtækisins á heimasíðunni af og til út árið. Hér verður fjallað um kaupin á Berki NK árið 1973 og útgerð skipsins.

Síldarvinnslan hóf útgerð árið 1965 með tveimur bátum sem smíðaðir voru einkum með síldveiðar í huga. Árið 1967 voru Síldarvinnslubátarnir orðnir fjórir talsins og enn snerist allt um blessaða síldina. En þá dundu ósköpin yfir; síldin hvarf og nauðsynlegt var að aðlaga skipaflotann nýjum aðstæðum. Á árunum 1970 – 1973 var floti fyrirtækisins algerlega endurnýjaður. Skuttogarinn Barði var keyptur 1970 og árið 1973 kom Japanstogarinn Bjartur í fyrsta sinn til heimahafnar í Neskaupstað. Þá festi Síldarvinnslan einnig kaup á stóru uppsjávarveiðiskipi árið 1973 og fékk það nafnið Börkur. Þetta uppsjávarveiðiskip var 1.000 lestir að stærð og voru margir til að efast um þessi skipakaup, en Jóhann K. Sigurðsson þáverandi framkvæmdastjóri útgerðar Síldarvinnslunnar skýrði þau með greinargóðum hætti. Hann sagði að nauðsynlegt væri fyrir fyrirtækið að eignast stórt loðnuskip því þegar loðnan veiddist langt í burtu væru eldri skip fyrirtækisins ekki nægilega stór til að stunda veiðarnar og sigla með aflann heim en það var oft 14-18 tíma sigling. Sigling með fullfermi svo langa leið væri illframkvæmanleg á litlum skipum í misjöfnum vetrarveðrum. Mikilvægt væri fyrir verksmiðju fyrirtækisins að fá meira hráefni til vinnslu og þetta stóra skip hentaði vel til að tryggja það. Þá benti hann á að menn væru fyrir alvöru farnir að hugsa til kolmunnaveiða og yrði skipið útbúið með flotvörpubúnað til slíkra veiða.

Börkur var fjögurra ára gamalt verksmiðjuskip smíðað í Noregi árið 1968. Það hafði verið í eigu norsks fyrirtækis en skráð með heimahöfn í Hamilton á Bermudaeyjum. Skipið hafði verið gert út til nótaveiða við strendur Afríku en útgerðin hafði gengið illa. Þegar Síldarvinnslan festi kaup á skipinu var fiskimjölsverksmiðja um borð en hún var tekin úr og seld.

Börkur kom í fyrsta sinn til heimahafnar í Neskaupstað 10. febrúar 1973 og vakti koma skipsins mikla athygli. Rætt var um stærð þess og hvort það hentaði til loðnuveiða vegna stærðarinnar. Þá voru deildar meiningar um það hvort raunhæft væri að gera skipið út til kolmunnaveiða.


Börkur NK kemur með 1.350 tonn af loðnu til löndunar á vertíðinni 1984. Ljósm. Guðjón B. MagnússonBörkur NK kemur með 1.350 tonn af loðnu til löndunar á vertíðinni 1984. Ljósm. Guðjón B. MagnússonFyrsti skipstjórinn á Berki var Sigurjón Valdimarsson og var hann með skipið allt til ársins 1981. Á árunum 1974-1976 var Hjörvar Valdimarsson einnig skipstjóri á móti Sigurjóni og á árunum 1976-1989 var Magni Kristjánsson með Börk, ásamt Sigurjóni framan af. Síðar áttu Jón Einar Jónsson, Helgi Valdimarsson, Sturla Þórðarson, Sigurbergur Hauksson og fleiri eftir að sitja í skipstjórastóli. Vel gekk frá upphafi að veiða loðnu á Börk og hentaði skipið vel til loðnuveiða. Veitt var með nót og óttinn við að kasthringur skipsins væri svo stór að það þyrfti að nota ógnarstórt veiðarfæri reyndist ástæðulaus. Í upphafi var farið varlega og voru einungis 750 tonn af loðnu sett í skipið en brátt færðu menn sig upp á skaftið. Í febrúar 1974 kom Börkur með 900 tonna farm til Neskaupstaðar og var það stærsti loðnufarmur sem íslenskt skip hafði komið með að landi. Og Börkur bætti um betur því í næstu veiðiferð sló hann fyrra met og kom með 950 tonn. Að því kom að farið var að setja ríflega 1.100 tonn í skipið og loks 1.350 tonn. Þetta þóttu gríðarlega stórir farmar.

Börkur hélt til kolmunnaveiða í fyrsta sinn 8. maí 1973. Ekki varð vart við mikinn kolmunna í veiðiferðinni og kom skipið til heimahafnar með 200 tonn 19. maí. Þetta var í fyrsta sinn sem kolmunna var landað í Neskaupstað og bundu menn miklar vonir við kolmunnaveiðarnar. Augljóst var að ef veiðarnar heppnuðust í framtíðinni myndi starfstími fiskimjölsverksmiðjunnar lengjast og það skipti miklu máli.

Staðreyndin er sú að kolmunnaveiðar Barkar á þessum árum ollu vonbrigðum. Hlé var gert á þeim eftir tilraunina 1973 og þær ekki reyndar á ný fyrr en árið 1976. Á árunum 1976-1982 var skipið sent til kolmunnaveiða á hverju ári að undanskildu árinu 1979. Auk þess sem afli var yfirleitt tregur var verðlagningin á kolmunnanum ekki til að hvetja til veiðanna. Kolmunnaveiðar íslenskra skipa hófust ekki af neinum krafti fyrr en löngu síðar.

Árum saman gekk erfiðlega að finna Berki nægjanleg verkefni og stóð reyndar til að selja skipið árið 1976 en ekki kom þó til þess. Eilíft var verið að leita að verkefnum sem hentaði og lagði Börkur meðal annars stund á síld- og makrílveiðar í Norðursjó fyrstu fjögur sumrin sem Síldarvinnslan átti hann. Síðla sumars 1975 var Börkur sendur til loðnuveiða í Barentshafi en fyrr um árið hafði hann veitt hrossamakríl undan ströndum norðvestur Afríku. Þá má geta þess að um árabil var skipið nýtt til að sigla með ísaðan fisk frá Neskaupstað til Grimsby yfir sumarmánuðina og til baka flutti hann ódýra olíu sem Síldarvinnsluskipin nýttu. Með tímanum jukust verkefni Barkar og að því kom að unnt var að halda honum út til fiskjar á heimamiðum stærstan hluta hvers árs.

Ekki voru gerðar miklar breytingar á Berki fyrstu 25 árin sem hann var í eigu Síldarvinnslunnar ef undan eru skilin vélaskipti árið 1979 en þá fékk skipið öflugri vél. Í janúarmánuði 1998 kom Börkur hins vegar til heimahafnar frá Póllandi þar sem gerðar höfðu verið gagngerar breytingar á skipinu. Það var lengt um tæplega 15 metra, settur á það bakki, perustefni, ný brú og allar vistarverur skipverja endurnýjaðar. Eins var allur spilbúnaður endurnýjaður, skipið útbúið til flotvörpuveiða og kælikerfi sett í lestar. Burðargetan að afloknum breytingum var 1.800 tonn. Staðreyndin var sú að eftir breytingarnar var ekki mikið eftir af hinu upphaflega skipi. Árið 1999 hélt Börkur síðan í vélarskipti til Englands og var þá sett í hann 7.400 hestafla vél.

Börkur NK að lokinni stækkun og breytingum árið 1998. Ljósm. Snorri SnorrasonBörkur NK að lokinni stækkun og breytingum árið 1998.
Ljósm. Snorri Snorrason
Árið 2012 festi Síldarvinnslan kaup á nýjum Berki og fékk gamli Börkur þá nafnið Birtingur. Bar hann það nafn þar til hann var seldur úr landi árið 2016. Kaupandi skipsins var pólskt fyrirtæki og var því gefið nafnið Janus. Janus hefur landað kolmunna á Íslandi á þessu ári og hefur Norðfirðingum þótt vænt um að sjá skipið þegar það hefur komið til löndunar í Neskaupstað.

Afli Barkar (síðar Birtings) á þeim 43 árum sem hann var í eigu Síldarvinnslunnar nam 1.546.235 tonnum og eru líkur á að ekkert íslenskt fiskiskip hafi borið jafn mikinn afla að landi. Því má segja að kaup Síldarvinnslunnar á „stóru“ loðnu- og kolmunnaveiðiskipi árið 1973 hafi reynst vera gæfuspor fyrir fyrirtækið.

 

 

Njósnakapall og hattar fyrir góðbændur og heldrimenn

Njósnakapall og hattar fyrir góðbændur og heldrimennÍ tilefni þess að Síldarvinnslan verður 60 ára hinn 11. desember nk. munu birtast pistlar um sögu fyrirtækisins á heimasíðunni af og til út árið. Hér verður fjallað um tvö tilvik þar sem áhugaverðir hlutir komu upp með veiðarfærum togara fyrirtækisins og sanna enn og aftur að margt býr í djúpinu.


Njósnakapall út af Stokksnesi

Bjartur NK. Ljósm. Jóhann ZoёgaBjartur NK. Ljósm. Jóhann ZoёgaHinn 14. júní árið 1975 festi skuttogarinn Bjartur NK vörpuna í botni á stað sem var 12 sjómílur réttvísandi 103ᵒ frá Stokksnesi. Trollið reyndist afar fast en við illan leik tókst að ná upp hlerunum. Kom þá í ljós að í öðrum hleranum var fastur einhvers konar kapall sem var um það bil 6-7 tommur í þvermál. Ekki reyndist unnt að losa kapalinn þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og að því kom að ákvörðun var tekin um að höggva á hann. Þegar kapallinn fór í sundur kom í ljós að rafstraumur var á honum. Þeir Bjartsmenn tóku bút af kaplinum og var hann lagður fram við sjópróf sem fóru fram í Neskaupstað þegar í land var komið.


Nokkrum dögum áður en kapallinn festist í veiðarfærum Bjarts höfðu skipverjar orðið varir við torkennilegt skip á þeim slóðum sem togarinn var að veiða á. Þoka var þennan dag og sást skipið ógreinilega en þarna virtist vera um einhvers konar rannsóknaskip eða kapallagningarskip að ræða. Magni Kristjánsson, skipstjóri á Bjarti, upplýsti að kapallinn sem festist í toghleranum væri augljóslega nýkominn í sjó og því var talið líklegt að umrætt skip hefði verið að leggja hann. Þá kom fram að kapallinn hefði verið lagður á fiskisælli slóð og því væri hætta á að hann myndi valda fleiri veiðiskipum tjóni.

Töluverð umræða skapaðist um umræddan kapal og var fljótlega byrjað að tengja hann herstöðinni sem þá var á Stokksnesi. Talið var líklegt að hér væri um njósnakapal að ræða og hefði hann átt að gegna því hlutverki að afla upplýsinga um ferðir kafbáta við landið. Dagblaðið Þjóðviljinn tók málið til umfjöllunar og var þar greint frá því að NATO hefði lagt njósnakapal frá Stokksnesi til Noregs og reyndar einnig frá Reykjanesi til Ameríku. Blaðið fór þess á leit við íslenskar stofnanir að þær gæfu upplýsingar um kapalinn sem Bjartur hafði fest veiðarfærin í en fátt var um svör. Siglingamálastofnun gaf engin svör, Sjómælingar Íslands gáfu engin svör og reyndar ekki Landhelgisgæslan heldur. Þjóðviljinn taldi allt þetta mál hið dularfyllsta en annars einkenndist umræðan um kapalinn af þeirri kaldastríðshugsun sem þá réði ríkjum.

Hattar, vínkútar og fleira góss úr fornu kaupfari

Barði NK. Ljósm. Kristinn BenediktssonBarði NK. Ljósm. Kristinn BenediktssonEitt sinn þegar skuttogarinn Barði NK hífði vörpuna utarlega á Digranesflaki um 20. nóvember 1977 komu ýmsir hlutir upp með henni ásamt fiskaflanum. Í vörpunni reyndust vera brunnir trébjálkar með koparnöglum og benti allt til þess að um væri að ræða hluta af gömlu skipi. Auk trébjálkanna fylgdi ýmislegt áhugavert með. Þarna voru taustrangar, nautshorn, uppvafið leður, vínkútar og – pelar og síðast en ekki síst flókahattar sem án efa voru ætlaðir á höfuð þeirra tíma góðbænda og heldrimanna. Mikið af þessum varningi var meira og minna skemmt af bruna.

Jón Hlífar Aðalsteinsson var skipstjóri á Barða í þessari veiðiferð en þetta var í fyrsta sinn sem hann sat í skipstjórastóli á Barða. Segist hann muna vel eftir þessum óvænta afla sem fékkst í fyrsta holi veiðiferðarinnar. Sérstaklega sé eftirminnilegt að hattarnir sem komu upp í vörpunni voru fjölmargir og í stöflum. Tók Jón Hlífar nokkra hatta með sér í land og færði Skjala- og myndasafni Norðfjarðar þrjá þeirra að gjöf. Guðmundur Sveinsson forstöðumaður safnsins lét hreinsa höfuðfötin en þau voru útötuð í aur. Síðan hafa þessir áhugaverðu flókahattar verið varðveittir á safninu.

Nokkuð ljóst er að hlutirnir sem komu upp með trollinu hjá Barða voru úr fornu kaupfari sem sennilega hefur brunnið og síðan sokkið á þessum slóðum. Þór Magnússon, þáverandi þjóðminjavörður, fékk fregnir af þessum hlutum og hafði samband við skipstjórann símleiðis hinn 24. nóvember 1977. Þór skráði eftirfarandi minnispunkta hjá sér að loknu samtalinu:

Ég talaði við skipstjórann, Jón Hlífar Aðalsteinsson, og hann sagði, að þeir hefðu fengið leifar af skipi, bönd og tré, allmjög brunnið, og í þessu hefðu verið nokkrir brennivínskútar, brennivínspelar, taustrangar, um 60 sm breiðir, mikið af hornum af nautpeningi, karlmannahattar í ströngum, hver settur í annan, leður uppvafið og fleira og fleira. Þeir tóku tappana úr kútunum og hafði verið glögg brennivínslykt úr einum. Þetta var hálf varpa af þessu, en því miður var því nær öllu mokað í sjóinn. Skipstjórinn kvaðst hafa einn kút og einn brennivínspela, í skipi nú væri kannske eitthvað af höttum og öðru dóti og skipverjar myndu hafa eitthvað hjá sér smávegis.


Einn af höttunum sem Barði NK fékk í vörpuna. Hann er varðveittur á Skjala- og myndasafni Norðfjarðar. Ljósm. Guðmundur SveinssonEinn af höttunum sem Barði NK fékk í vörpuna. Hann er varðveittur á Skjala- og myndasafni Norðfjarðar. Ljósm. Guðmundur SveinssonTaldi þjóðminjavörður að þarna hefði togarinn fengið einstæða hluti í vörpuna og fróðlegt hefði verið að rannsaka þá ítarlega.

Þór Magnússyni voru sendar myndir af höttunum sem varðveittir eru á Skjala- og myndasafni Norðfjarðar og telur hann að þeir séu líklega ekki mjög gamlir, gætu verið frá 19. öld. Fróðlegt væri að kanna hvort einhverjar heimildir greini frá því að kaupfar hafi farist út af Austurlandi á þeim tíma.

 

 

 

 

 

 

Þokkalegasta kolmunnaveiði síðustu dagana

Bjarni Ólafsson AK. Ljósm. Smári GeirssonBjarni Ólafsson AK. Ljósm. Smári GeirssonAð undanförnu hefur verið heldur tregt í kolmunnanum, en síðustu daga hefur þó verið þokkalegasta veiði. Runólfur Runólfsson, skipstjóri á Bjarna Ólafssyni AK, segir að síðustu dagarnir á miðunum við Færeyjar hafi verið ágætir. „Við erum á leiðinni til Seyðisfjarðar með 1.750 tonn og gerum ráð fyrir að verða þar kl. 4 í nótt. Við fengum þennan afla í fjórum holum, sem er býsna gott miðað við veiðina að undanförnu. Í fyrsta holi fengum við 550 tonn eftir að hafa togað í 18 tíma. Í hinum holunum þremur fengum við 300-450 tonn og toguðum í 8-12 tíma. Nú er bara að vona að frmhald verði á þessari veiði,“ sagði Runólfur.

Pólska kolmunnaskipið Janus er einnig á leið til Seyðisfjarðar með um 850 tonn. Það er væntanlegt síðar í dag.

Margrét EA landaði kolmunna í Neskaupstað í nótt. Afli skipsins var tæplega 2.200 tonn.

 

 

Heldur farið að hægja á kolmunnaveiðinni

Beitir NK kom með 2.800 tonn af kolmunna til Neskaupstaðar í gærkvöldi. Ljósm. Smári GeirssonBeitir NK kom með 2.800 tonn af kolmunna til Neskaupstaðar í gærkvöldi. Ljósm. Smári GeirssonÍ gærkvöldi kom Beitir NK til Neskaupstaðar með 2.800 tonn af kolmunna og Hákon EA kom til Seyðisfjarðar með rúmlega 1.600 tonn. Nokkurra daga vinnsluhlé hafði verið hjá verksmiðjunum á báðum stöðum vegna skorts á hráefni. Tómas Kárason, skipstjóri á Beiti, segir að nú sé farið að hægja heldur á veiðinni í færeysku lögsögunni. „Það er þó þannig að stundum reka menn í góð hol. Kolmunninn dreifir sér þegar hann kemur upp í kantana suður af Færeyjum og austan og vestan við eyjarnar og þá fer að hægjast á veiði,“ segir Tómas.

Beitir mun halda á ný til kolmunnaveiða að löndun lokinni.

Börkur NK er á landleið með 2.250 tonn af kolmunna og einnig Bjarni Ólafsson AK með 1.750 tonn. Börkur mun væntanlega landa á Seyðisfirði en Bjarni Ólafsson í Neskaupstað.

Það er eitthvað að lifna yfir togaramiðunum eystra

Barði NK. Ljósm. Hákon ErnusonBarði NK. Ljósm. Hákon ErnusonÍsfisktogarinn Barði NK kom til löndunar í Neskaupstað í gær eftir stutta veiðiferð. Aflinn var 80 tonn og uppistaða hans var ufsi og karfi. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri segir að vel hafi veiðst. „Þetta var örstuttur túr hjá okkur, einungis þrír dagar frá höfn í höfn. Við vorum að veiðum í Berufjarðarál og aflinn bendir til þess að það sé að lifna yfir miðunum hér fyrir austan, en á þeim hefur verið nánast ördeyða að undanförnu. Ufsinn sem við fengum hefði hins vegar mátt vera stærri,“ sagði Steinþór.

Barði mun halda til veiða á ný í kvöld.

 

 

Magnús Kristinsson lætur af störfum framkvæmdastjóra útgerðarfélagsins Bergur-Huginn ehf

Bergey VE og Vestmannaey VE í höfn í Vestmannaeyjum. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonBergey VE og Vestmannaey VE í höfn í Vestmannaeyjum.
Ljósm. Guðmundur Alfreðsson
Um miðjan júní nk. mun Magnús Kristinsson láta af störfum framkvæmdastjóra útgerðarfélagsins Bergur-Huginn ehf. í Vestmannaeyjum. Frá sama tíma mun Arnar Richardsson taka við starfi rekstrarstjóra félagsins. Bergur-Huginn er dótturfélag Síldarvinnslunnar hf.

Útgerðarfélagið Bergur-Huginn (BH) var stofnað í árslok 1972 í þeim tilgangi að láta smíða togara í Japan og gera hann síðan út. Togarinn kom til landsins árið 1973 og bar nafnið Vestmannaey. BH gerði Japanstogarann út til ársins 2005 ásamt fleiri skipum. Nú gerir félagið út tvo 29 metra togara, svonefnda þriggja mílna báta, og bera þeir nöfnin Vestmannaey og Bergey.

Magnús Kristinsson hefur starfað hjá BH í um 45 ár en starfi framkvæmdastjóra hefur hann gegnt frá árinu 1978 eða í tæp 40 ár. Hann hefur stýrt félaginu með afar farsælum hætti og skilar af sér stöndugu og traustu fyrirtæki. Hinn nýráðni rekstrarstjóri, Arnar Richardsson, er rekstrarfræðingur að mennt og hefur haldgóða reynslu af störfum í sjávarútvegi. Arnar starfaði meðal annars hjá BH á árunum 2006-2009 og einnig á árunum 2010-2015 en frá þeim tíma hefur hann verið framkvæmdastjóri Hafnareyrar ehf. sem er dótturfélag Vinnslustöðvarinnar.

Síldarvinnslan vill á þessum tímamótum þakka Magnúsi Kristinssyni fyrir einstaklega góð störf í þágu útgerðarfélagsins og bjóða Arnar Richardsson velkominn til starfa. Mun Magnús taka sæti í stjórn BH á næsta aðalfundi félagsins þannig að reynsla hans og þekking mun nýtast því áfram.

Konur í sjávarútvegi heimsækja Austfirði

Konur í sjávarútvegiKonur í sjávarútvegiDagana 15.-17. maí nk. mun félagið Konur í sjávarútvegi efna til kynnisferðar um Austfirði. Um 30 konur víðs vegar að af landinu munu taka þátt í ferðinni. Meðal annars er ráðgert að heimsækja sjávarútvegsfyrirtæki á Fáskrúðsfirði, Eskifirði, í Neskaupstað og á Seyðisfirði.

Félagið Konur í sjávarútvegi var stofnað árið 2013 og er félaginu ætlað að vera vettvangur fyrir konur sem starfa í sjávarútvegi og tengdum greinum. Markmið félagsins er að búa til tengslanet fyrir konur sem starfa á þessu sviði, koma á samvinnu á milli þeirra og sinna kynningu á greininni. Tilgangurinn með starfinu er að efla konur sem starfa í sjávarútvegi og gera þær sýnilegar jafnt innan greinarinnar sem utan.

Mun félagið standa fyrir kynningu á starfsemi sinni í Norðurljósasetrinu á Fáskrúðsfirði mánudaginn 15. maí kl. 17.30 og í Safnahúsinu í Neskaupstað þriðjudaginn 16. maí kl. 17.30 og eru allir velkomnir á kynningarfundina, jafnt karlar sem konur.

Undirflokkar