Loðnukvótinn

Myndin tekin um borð í Beiti NK á loðnumiðunum í dag. Ljósm. Sigurjón M. JónusonMyndin tekin um borð í Beiti NK á loðnumiðunum í dag. Ljósm. Sigurjón M. JónusonEins og flestum er kunnugt ríkti svartsýni hvað varðaði loðnuveiðar í janúar sl. Þá var gefinn út heildarkvóti upp á 57 þúsund tonn. Mælingin sem úthlutun kvótans byggði á var þó álitin óviss þar sem slæmt veður og hafís höfðu truflað loðnuleitina verulega. Ráðist var í nýja mælingu sem fram fór dagana 3. – 11. febrúar og var hún kostuð af útgerðum loðnuskipa. Skilaði hún miklu jákvæðari niðurstöðu og í kjölfar hennar var gefinn út heildarkvóti upp á 299 þúsund tonn. Þessar mælingar eru sögulegar að því leyti að veiðiskip var notað til þeirra með rannsóknamönnum frá Hafrannsóknastofnun  um borð. Árið 2008 voru gögn frá veiðiskipum að vísu notuð til að meta loðnustofninn, en skipin tóku þá ekki þátt í skipulegri leit ásamt skipum Hafrannsóknastofnunar eins og grænlenska skipið Polar Amaroq gerði í báðum leitunum á þessu ári. Þorsteinn Sigurðsson fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun segir að samstarfið við skipstjóra og áhöfn Polar Amaroq hafi verið hreint frábært. „Þeir Polarmenn sýndu verkefninu mikinn áhuga og allt samstarf við þá gekk eins og best verður á kosið. Skipið er vel búið tækjum til leitar, en er hins vegar ekki með fellikjöl eins og æskilegt er. Í stað fellikjalarins greip Geir Zoёga skipstjóri til þess ráðs að dæla einum 1200 tonnum af sjó í skipið til að lækka það í sjónum og kom það sér vel. Útgerðir loðnuskipanna eiga heiður skilinn fyrir að kosta síðari leitina, sem hefði sennilega aldrei verið farin ef þær hefðu ekki tekið ákvörðun um að greiða þær 25 milljónir sem þurfti. Síðari leitin leiddi til þess að nú fáum við loðnuvertíð sem skapar sennilega 16 milljarða í verðmæti í staðinn fyrir 1 milljarð eða tæplega það,“ sagði Þorsteinn Sigurðsson.
 
Þessi kvótaaukning skiptir miklu máli fyrir sjávarútvegsfyrirtækin og þjóðarbúið og nú er loðnuveiði íslenskra skipa hafin af fullum krafti að afloknu sjómannaverkfalli. Norsk skip, sem verið hafa að veiðum við landið, hafa landað töluverðri loðnu hér á landi og skipti það miklu máli á meðan á verkfallinu stóð.
 
Hlutur Síldarvinnsluskipanna og Bjarna Ólafssonar AK í loðnukvótanum er tæplega 18,5% eða 34.337 tonn, en Bjarni Ólafsson er í eigu dótturfélags Síldarvinnslunnar. Þá er hlutur viðskiptabáta Síldarvinnslunnar tæplega 12% af kvótanum, en þeir eru  Vilhelm Þorsteinsson EA, Hákon EA og grænlenska skipið Polar Amaroq. Hafa ber í huga að viðskiptabátarnir eru allir vinnsluskip. Samtals er kvóti Síldarvinnsluskipanna og viðskiptabátanna 71.731 tonn.
 
Aðstæður á mörkuðum fyrir loðnuafurðir eru misjafnar. Verð á mjöli og lýsi hefur farið lækkandi að undanförnu og enn gerir hið svonefnda Rússabann fyrirtækjunum erfitt fyrir, en sala á frystum hæng á Austur-Evrópu verður takmörkuð vegna þess. Japanir eru hins vegar áhugasamir um kaup á hrognafullri loðnu og loðnuhrognum . Fulltrúar japanskra kaupenda hafa verið í Neskaupstað að undanförnu og fylgst með framleiðslu á frystri loðnu úr norskum veiðiskipum. 

Hjólin fara að snúast á ný að loknu verkfalli

Skipverjar á Barða NK komnir með kostinn um borð áður en lagt var úr höfn í nótt. Ljósm.Hákon ErnusonSkipverjar á Barða NK komnir með kostinn um borð áður en lagt var úr höfn í nótt.
Ljósm.Hákon Ernuson
Þegar fyrir lá í gærkvöldi að sjómenn höfðu samþykkt kjarasamning og verkfalli væri lokið færðist svo sannarlega líf yfir hafnir landsins. Skipin héldu til veiða hvert af öðru og lá mörgum mikið á. Börkur og Beitir héldu til loðnuveiða strax upp úr klukkan 10 og um líkt leyti hélt Bjarni Ólafsson á loðnumiðin. Ísfisktogararnir Vestmannaey og Bergey losuðu landfestar upp úr klukkan 11, Gullver um miðnætti og Barði um klukkan eitt eftir miðnætti. Frystitogarinn Blængur mun leggja af stað frá Akureyri til Neskaupstaðar í kvöld en lokið er miklum endurbótum á skipinu sem hafa farið fram í Póllandi og á Akureyri.
 
Í morgun voru þegar farnir að berast aflafréttir af loðnuskipunum. Börkur fékk 600 tonn í fyrsta kasti og Beitir 1.000 tonn. Eru þeir að veiða mjög grunnt vestur af Hornafirði. Polar Amaroq er væntanlegur til Neskaupstaðar síðar í dag með 500 tonn af loðnu til manneldisvinnslu en einnig er fryst um borð í skipinu. Stefnt er að því að vinnsla í fiskvinnslunni á Seyðisfirði hefjist á miðvikudag og víst er að fiskimjölsverksmiðjan í Neskaupstað hefji vinnslu í dag og verksmiðjan á Seyðisfirði mjög fljótlega. 

Loðnuveiðar norsku skipanna skapa margvísleg verkefni hér á landi

Norska loðnuskipið Harvest kemur til Neskaupstaðar með nót til viðgerðar. Ljósm. Hákon ErnusonNorska loðnuskipið Harvest kemur til Neskaupstaðar með nót til viðgerðar.
Ljósm. Hákon Ernuson
Að undanförnu hafa tugir norskra skipa lagt stund á loðnuveiðar við landið á sama tíma og íslenski loðnuflotinn hefur verið bundinn við bryggju vegna verkfalls sjómanna. Mörg norsku skipanna hafa landað afla sínum hér á landi og því er loðna fryst til manneldis í ríkum mæli. Þannig hefur starfsfólk þeirra fyrirtækja sem frysta loðnu fengið verkefni en fólkið hefði annars verið verkefnalaust í verkfallinu. Þau fyrirtæki sem þjónusta loðnuflotann hafa einnig fengið verkefni vegna loðnuveiða Norðmanna. Í morgun kom til dæmis loðnuskipið Harvest til Neskaupstaðar með nót sem þurfti viðgerða við. Starfsmenn Fjarðanets tóku á móti skipinu og munu koma nótinni í lag á sem skemmstum tíma. Jón Einar Marteinsson, framkvæmdastjóri Fjarðanets, sagði að Harvest hefði fengið nótina í skrúfuna í öðru kasti hér við land og ekki hafi verið um annað að ræða en að koma í land og láta lagfæra skemmdirnar. „Það kemur sér svo sannarlega vel fyrir okkur að fá verkefni af þessu tagi í verkfallsástandinu, en annars hefur ekki verið mikið um veiðarfæratjón hjá Norðmönnunum vegna þess að tíðarfarið hefur verið svo einstaklega gott,“ sagði Jón. „Nú bregður hins vegar svo við að spáð er alvöru vetrarveðri eftir nokkra daga en hafa ber í huga að síðasti dagurinn sem Norðmenn mega veiða hér við land er 22. febrúar,“ sagði Jón að lokum.
 
Þegar þetta er skrifað hefur bjartsýni manna um lausn á kjaradeilu útvegsmanna og sjómanna aukist til muna. Samningur á milli deiluaðila liggur fyrir en beðið er eftir svörum ríkisvaldsins til lausnar deilunni.

Roaldsen fékk loðnu á Norðfjarðarflóa

Norski loðnubáturinn Roaldsen bíður löndunar. Ljósm. Hákon ErnusonNorski loðnubáturinn Roaldsen bíður löndunar. Ljósm. Hákon ErnusonNorski loðnubáturinn Roaldsen kom til Neskaupstaðar í gærkvöldi með 500 tonn af loðnu. Hann var á leið til löndunar með 430 tonn þegar hann rakst á loðnutorfu yst á Norðfjarðarflóa og kastaði á hana. Um 70 tonn af góðri loðnu fengust í kastinu. Erling Roaldsen, skipstjóri, segir að það hafi komið á óvart að rekast á loðnutorfu þarna, en aflinn hafði að öðru leyti fengist um 9 mílur frá landi norður af Glettinganesi. Erling sagði að Roaldsen hefði komið á miðin við Ísland 8. febrúar og þetta væri önnur veiðiferð skipsins. „Við lönduðum fyrst 400 tonnum á Fákrúðsfirði og erum því búnir að fá 900 tonn. Kvótinn okkar er 1200 tonn, en við sjáum um að veiða kvóta tveggja skipa,“ sagði Erling. „Við höfum séð töluvert af loðnu, einkum fyrst eftir að við komum á miðin. Og það er mjög mikið um hval á miðunum en hvalurinn fylgir loðnunni að venju. Norsku bátarnir hafa verið að fiska víða. Framan af veiddu þeir mest úti af Norðurlandi vegna þess að það var mikil áta í loðnunni sem veiddist fyrir austan. Meirihluti bátanna fara til Noregs með aflann en aðrir landa hér á landi og það höfum við gert. Við megum veiða loðnu hér við Ísland til og með 22. febrúar en við vonumst eftir að fá að veiða lengur. Nú eru norsku bátarnir búnir að veiða 37 þúsund tonn af 59 þúsund tonnum sem þeir hafa heimild til að veiða. Þeir eiga því eftir að veiða 22 þúsund tonn,“ sagði Erling að lokum.

Gert er ráð fyrir að byrjað verði að landa úr Roaldsen í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar síðdegis í dag eða þegar löndun úr Havfisk lýkur. Havfisk var með 500 tonn rétt eins og Roaldsen.

 Erling Roaldsen skipstjóri. Ljósm: Hákon Ernuson Erling Roaldsen skipstjóri. Ljósm: Hákon Ernuson

 

 

Storeknut með 1850 tonn af kolmunna til Neskaupstaðar

Storeknut siglir inn Norðfjörð í dag. Ljósm. Smári GeirssonStoreknut siglir inn Norðfjörð í dag. Ljósm. Smári GeirssonÍ dag kom norska skipið Storeknut með 1850 tonn af kolmunna til Neskaupstaðar. Aflinn fékkst í lögsögu Evrópusambandsins vestur af Írlandi. Tor Magne Drønen, skipstjóri, sagði að vel hefði gengið að veiða og hafi aflinn verið tekinn í fjórum holum. „Þarna var mikið að sjá, en það voru ekki margir bátar á miðunum. Við vorum til dæmis eini norski báturinn,“ sagði Tor Magne. Rúmlega þriggja sólarhringa sigling var af miðunum til Neskaupstaðar og eftir löndun verður strax haldið til kolmunnaveiða á ný. Kolmunnakvóti Storeknut mun nást í fjórum veiðiferðum, þannig að skipið á þrjá túra eftir.

LungA heimsækir fiskvinnsluna á Seyðisfirði

Gestirnir frá LungA-skólanum. Ljósm. Ómar BogasonGestirnir frá LungA-skólanum. Ljósm. Ómar BogasonSl. fimmtudag heimsóttu kennarar og nemendur LungA skólans á Seyðisfirði fiskvinnslu Síldarvinnslunnar þar. Hluti hópsins var í fyrsta skipti að stíga fæti inn í fiskvinnsluhús en kennarar og nemendur skólans koma víða að, t.d. frá Singapore, Hong Kong, Danmörku, Bandaríkjunum og Bretlandi.
 
LungA School er alþjóðleg menntastofnun á Seyðisfirði sem hefur fest rætur og setur mikinn svip á bæjarlífið yfir vetrarmánuðina. Í skólanum er sinnt list af öllu tagi. Þrátt fyrir að engin vinnsla sé í fiskvinnsluhúsinu þá var hópurinn áhugasamur og vildi fræðast um allt sem fyrir augu bar. Þau Ómar Bogason framleiðslustjóri og Árdís Sigurðardóttir yfirverkstjóri tóku á móti gestunum og buðu þeim upp á veitingar. Að sögn Ómars vöknuðu margar spurningar hjá þeim og var meðal annars mikið spurt um fyrirkomulag veiðanna, vinnsluaðferðir og sjálfbærni greinarinnar.

Áfram fryst úr norskum loðnubátum og frystri loðnu landað

Norðfjarðarhöfn í morgun. Norskir loðnubátar. Ljósm. Hákon ErnusonNorðfjarðarhöfn í morgun. Norskir loðnubátar. Ljósm. Hákon ErnusonSl. fimmtudag og föstudag komu fimm norskir loðnubátar með afla til Neskaupstaðar og var unnið á vöktum í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar alla helgina. Lokið var við að vinna aflann úr síðasta bátnum úr þessum hópi sl. nótt. Ekkert lát er á komu norskra báta og hafa fimm bátar til viðbótar tilkynnt komu sína og eru þeir samtals með um 1700 tonn. Fyrstu bátarnir úr þeim hópi eru þegar komnir til hafnar.  Bátarnir eru eftirtaldir: Havfisk með 460 tonn, Svanlaug Elise með 350 tonn, Havsnurp með 310 tonn, Rogne með 320 tonn og Smaragd með 250 tonn. Bátarnir hafa fengið aflann úti fyrir Norður- og Norðausturlandi.
 
Vel gengur að vinna loðnuna í fiskiðjuverinu og er hráefnið ágætt.
 
Polar Amaroq landaði fullfermi af frosinni loðnu, 610 tonnum, í frystigeymslur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað sl. laugardag en skipið hefur að undanförnu verið við loðnuleit ásamt því að leggja stund á veiðar.

Fimm norskir loðnubátar með liðlega 2.200 tonn til Neskaupstaðar

Fimm norskir loðnubátar með liðlega 2.200 tonn til Neskaupstaðar
Norðfjarðarhöfn í dag. Norsk loðnuskip með afla og heimaskipin bundin vegna verkfalls. Ljósm. Hákon Ernuson
Loðnuveiðar norskra báta hafa gengið vel að undanförnu og streyma bátarnir inn á Austfjarðahafnir til löndunar. Í gær og nótt komu fjórir bátar til Neskaupstaðar: Brennholm með 500 tonn, Haugagut með 420 tonn, Gardar með 400 tonn og Nordfisk með 400 tonn. Í dag er síðan Talbor væntanlegur með 500 tonn.
 
Öll loðnan fer til manneldisvinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar og að sögn Jóns Más Jónssonar, framkvæmdastjóra landvinnslu, er hráefnið miklu betra en það var fyrir nokkrum dögum þegar loðnan var full af átu. 

Barði NK í togararall

Barði NK er á leiðinni í sitt fyrsta rall. Ljósm. Hákon ErnusonBarði NK er á leiðinni í sitt fyrsta rall. Ljósm. Hákon ErnusonBarði NK mun taka þátt í togararalli Hafrannsóknastofnunar sem væntanlega mun hefjast síðar í þessum mánuði. Togararall hefur farið fram árlega frá 1985 og er það mikilvægur þáttur í árlegu mati á stofnstærð botnfiska við landið. Hafrannsóknastofnun leitaði eftir tilboðum til þátttöku skipa í rallinu og varð niðurstaðan sú að auk Barða mun Ljósafell SU annast rallið ásamt hafrannsóknaskipunum Bjarna Sæmundssyni og Árna Friðrikssyni.
 
Segja má að Barði sé arftaki Bjarts NK í rallinu en Bjartur tók samtals þátt í 26 röllum og hefur ekkert skip tekið oftar þátt í togararalli. Bjartur var seldur úr landi á síðasta ári og er því fjarri góðu gamni.
 
Í rallinu mun Barði toga á 182 fyrirfram ákveðnum togstöðvum á svonefndu norðaustursvæði en það er svæðið frá Kolbeinseyjarhrygg austur og suður um að Íslands-Færeyjahrygg. Gjarnan hefur verið gert ráð fyrir að rallið taki um tuttugu daga.

Fyrsta loðnan til Neskaupstaðar

Norsku loðnuskipin Gardar og Kings Bay í Norðfjarðarhöfn. Ljósm. Hákon ErnusonNorsku loðnuskipin Gardar og Kings Bay í Norðfjarðarhöfn. Ljósm. Hákon Ernuson

Ole Toft, skipstjóri á Gardar. Ljósm. Hákon ErnusonOle Toft, skipstjóri á Gardar. Ljósm. Hákon ErnusonÍ gær komu tveir norskir bátar með loðnu til Neskaupstaðar. Gardar (áður Beitir NK) kom með um 300 tonn og Kings Bay með 600 tonn. Af

linn fékkst í nót um 30 mílur norðaustur af Langanesi. Mikil áta reyndist í loðnunni og því fór einungis takmarkað magn af afla Kings Bay til manneldisvinnslu og ekkert af afla Gardar. Heimasíðan ræddi við Ole Toft, skipstjóra á Gardar, og spurði hann um veiðarnar hingað til. „Við fórum frá Bergen 31. janúar og komum á miðin sl. fimmtudag. Þá var slæmt veður og við byrjuðum ekki að fiska fyrr en á laugardag. Við fengum um 300 tonn og komum til Neskaupstaðar í gær. Það var mikil áta í loðnunni þannig að hún var ekki frystingarhæf svo við lönduðum í fiskimjölsverksmiðjuna. Það hefur gengið ágætlega að fiska hjá norsku bátunum. Loðnan er stór 

 

og falleg en átan skemmir fyrir. Við á Gardar megum veiða 620 tonn af loðnu á Íslandsmiðum og við verðum að fiska í nót. Okkur er óheimilt að fiska í troll. Það eru 10 menn í áhöfn á nótinni,“ sagði Ole Toft. „Það eru margir Íslendingar sem þekkja Gardar. Gardar hét áður Beitir og var frá Neskaupstað. Gamli Gardar heitir nú Polar Amaroq. Nú ætlum við að bíða hér í höfn í nokkra daga. Við vonumst síðan til að fá átulausa loðnu sem hæf verður til manneldisvinnslu, en fyrir slíkan afla ættum við að fá gott verð,“ sagði Ole Toft að lokum.

Polar Amaroq veiðir og leitar

Polar Amaroq GR 18-49 frá Tasiilaq í höfn í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonPolar Amaroq GR 18-49 frá Tasiilaq í höfn í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonÍ gær var greint frá því hér á heimasíðunni að grænlenska skipið Polar Amaroq hefði fengið 350-400 tonn af loðnu norðnorðaustur af Langanesi og væri hún fryst um borð í skipinu. Auk þess að veiða mun Polar Amaroq leita að loðnu og eru rannsóknamenn frá Hafrannsóknastofnun um borð. Í morgun ræddi heimasíðan við Guðmund Hallsson stýrimann og sagði hann að tekið hefði verið eitt hol fyrir vinnsluna í gærkvöldi og fengust þá 250 tonn. Verið væri að vinna þann afla um borð en skipið væri nú byrjað að sigla eftir leitarleggjunum. Sagði Guðmundur að það hefði verið „ágætt að sjá“ á blettinum sem skipið var á í gær og nú yrði spennandi að sjá hvað kæmi út úr leitinni.
 
Í morgun mátti sjá fréttir í norskum miðlum um að norska skipið Fiskebas hefði fengið 165 tonn af loðnu við Ísland og væri á leiðinni til Fáskrúðsfjarðar með aflann.

Polar Amaroq kominn með 350-400 tonn af stórri og fallegri loðnu

Polar Amaroq fékk fyrstu loðnuna á vertíðinni og frystir um borð. Ljósm. Hákon ErnusonPolar Amaroq fékk fyrstu loðnuna á vertíðinni og frystir um borð. Ljósm. Hákon ErnusonGrænlenska skipið Polar Amaroq hélt til loðnuveiða og -rannsókna á þriðjudagskvöld, en um borð í skipinu eru rannsóknamenn frá Hafrannsóknastofnun. Heimasíðan sló á þráðinn um hádegið í dag og spurði frétta. Bæði var rætt við Geir Zoёga skipstjóra og Guðmund Hallsson stýrimann. Þegar rætt var við þá félaga var skipið statt um 54 mílur norðnorðaustur af Langanesi á hefðbundinni loðnuslóð. Fram kom hjá þeim að í gær hefðu þeir orðið varir við töluvert af loðnu á þessum slóðum og kom það nokkuð á óvart ef tekið er tillit til þeirra mælinga sem áður hafa farið fram. Nokkuð erfitt hafi verið að meta magn en tekin voru tvö hol í gærkvöldi og nótt og fengust þá 350-400 tonn af stórri og fallegri loðnu og reyndist hrognafyllingin vera á bilinu 10-11%. Fyrra holið var mjög stutt en hið síðara um fjórir tímar. Vel gengur að frysta loðnuna um borð í Polar Amaroq en skipið getur fryst hátt í 200 tonn á sólarhring.
 
Gert er ráð fyrir að rannsóknaskip frá Hafrannsóknastofnun haldi til loðnuleitar á morgun en að sögn þeirra Polar-manna er veður heldur leiðinlegt á leitarsvæðinu um þessar mundir. Þá er von á norskum og færeyskum skipum á næstunni og þá fjölgar þeim sem svipast um eftir loðnunni.
 
Geir Zoёga sagði að menn hresstust alltaf þegar fyrsta loðnan kæmi um borð. „Maður verður glaður og bjartsýnn þegar loðnulyktin finnst og við höfum heyrt að skip hafi orðið vör við loðnu víðar fyrir norðan land. Vonandi verður loðnuvertíðin miklu betri en gert hefur verið ráð fyrir,“ sagði Geir að lokum.

Eignarréttur á fiskikörum er ekki virtur

Ýmis sjávarútvegsfyrirtæki hafa látið framleiða fyrir sig sérmerkt fiskikör en þrátt fyrir merkinguna er eignarréttur á körunum oft ekki virtur. Bergur-Huginn ehf. í Vestmannaeyjum er eitt þeirra fyrirtækja sem lengi hefur átt sérmerkt kör en haldist illa á þeim. Kör fyrirtækisins hurfu í verulegu magni og vitað er að þeir sem tóku þau létu oft slípa merki fyrirtækisins af þeim. Körin voru síðan notuð með ýmsum hætti, meðal annars undir alls konar rusl.
 
Að því kom að Magnús Kristinsson framkvæmdastjóri fékk nóg og var þá ákveðið að Bergur-Huginn léti Sæplast sérframleiða kör fyrir fyrirtækið. Nýju körin voru að sjálfsögðu með merki þess en þau voru einnig græn að lit, en ekkert annað fyrirtæki á kör í þessum lit. Þetta var gert til þess að körin væru auðþekkjanleg og það dygði ekki að slípa merkið af þeim eftir að þau höfðu verið tekin traustataki af einhverjum óvönduðum. 
 
Þannig auglýsti Bergur-Huginn ehf. fyrir jólin og vakti athygli á eignarrétti á fiskikörum.Þannig auglýsti Bergur-Huginn ehf. fyrir jólin og vakti athygli á eignarrétti á fiskikörum.Að sögn Magnúsar dugði þessi ráðstöfun ekki. Kör fyrirtækisins eru tekin þrátt fyrir græna litinn og enn er haft fyrir því að slípa merkið af þeim. Magnús segir að þetta sé áhugavert umhugsunarefni. „Í reynd er ótrúlegt hvernig menn umgangast fiskikör. Menn sem almennt virða eignarrétt annarra virða alls ekki eignarrétt á fiskikörum. Þeim þykir sjálfsagt að taka kör, jafnvel í nokkru magni, og nota þau í eigin atvinnurekstri. Þetta er hreint út sagt ótrúlegt, vegna þess að kör eru ekki ódýr og það skiptir miklu máli fyrir eiganda þeirra að þau séu til staðar. Körin eru gerð til að geyma í þeim fisk og þess vegna skiptir miklu máli hvernig þau eru notuð og hvernig um þau er hugsað. Það þarf til dæmis að þrífa þau vel reglulega og þess vegna skiptir máli hvað í þau er sett,“ sagði Magnús.
 
Nú fyrir jólin vakti Bergur-Huginn athygli á þessu máli með auglýsingu um leið og það sendi frá sér jólakveðju. Fyrirsögn auglýsingarinnar var Virðum eignarréttinn og henni fylgdi einnig mynd af vörubifreið sem hlaðin var grænum fiskikörum fyrirtækisins.
 

Gengishækkun og afurðaverðsbreytingar eru sjávarútvegsfyrirtækjum og sjómönnum erfiðar

Barði NK

               Barði NK. Ljósm: Hákon Ernuson

Í tengslum við yfirstandandi kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna hafa áhrif gengisbreytinga og lækkandi verðs á fiskmörkuðum gjarnan komið til umræðu. Gengi krónunnar hefur hækkað mikið síðustu mánuði og virðist enn ekkert lát vera á þeirri þróun. Auk hinna óhagstæðu gengisbreytinga hefur afurðaverð farið lækkandi á helstu mörkuðum. Þetta tvennt hefur valdið mörgum sjávarútvegsfyrirtækjum erfiðleikum og rýrt mjög kjör sjómanna. Til þess að útskýra hvað hér er um að ræða er birt meðfylgjandi tafla. Taflan sýnir framleiðslu og framleiðsluverðmæti frystitogarans Barða NK á árinu 2015 og til samanburðar framleiðsluverðmæti og afurðaverð á núverandi gengi og miðað við núverandi afurðaverð.

Barði2015 til 2017

                Fram kemur að framleiðsla skipsins á árinu 2015 hafi verið 2.957 tonn en afli upp úr sjó var tæplega 5.000 tonn. Framleiðsluverðmætið var 1.653 milljónir króna. Ef aðeins er horft er til núverandi gengis skilar sama framleiðsla einungis 1.336 milljónum króna sem er lækkun um 19,2%. Fram kemur í töflunni að lækkunin er breytileg eftir tegundum og þeim mörkuðum sem selt er á. Ef einnig er tekið tillit til afurðaverðslækkunar verður breytingin enn meira afgerandi. Þá nema heildarverðmætin einungis 1.209 milljónum króna sem er lækkun um heil 26,84%. Þetta þýðir í reynd að verð á afurðunum hefur lækkað um 26,84% í íslenskum krónum frá 2015.

                Að sjálfsögðu hefur þessi þróun neikvæð áhrif fyrir útgerð skipsins en hlutur skipverja lækkar einnig mikið. Sem dæmi má nefna að árshlutur háseta var 18,8 milljónir á árinu 2015 en verður einungis 13,8 milljónir miðað við núverandi gengi og afurðaverð. Árstekjur þeirra lækka því um 5 milljónir króna.  

 

Austfirskir útvegsmenn þinga um stöðu samningamála

DSC04845

Hluti fundarmanna á fundinum á Eskifirði í gærkvöldi. Ljósm: Smári Geirsson

                 Í gærkvöldi komu austfirskir útvegsmenn saman á fundi á Eskifirði en á fundinum kynnti samninganefnd útvegsmanna stöðu samningaviðræðna við samtök sjómanna. Nú eru liðnar rúmlega sex vikur frá því að verfall sjómannasamtakanna hófst og tæpar tvær vikur frá því að verkbann á vélstjóra tók gildi. Fundurinn á Eskifirði var fjórði kynningarfundurinn sem haldinn er á landinu.

                Á fundinum var farið ítarlega yfir kröfur bæði sjómannasamtakanna og útvegsmanna og gerð grein fyrir umfjöllun um þær, en sjómannasamtökin hafa í tvígang á undanförnum mánuðum fellt kjarasamninga sem gerðir höfðu verið. Skýrt kom fram að samningar við sjómenn eru flóknir og staða útgerða og útgerðaflokka afar misjöfn til að koma til móts við kröfur þeirra. Þá er ljóst að gengisþróunin að undanförnu hefur haft neikvæð áhrif á hag útgerða og sjómanna og litar sú þróun mjög kjaraviðræðurnar. Í janúarmánuði hefur gengisvísitalan til dæmis hækkað um tæp 4,5%.

                Boðað hefur verið til samningafundar nk. föstudag og skiptir miklu máli hvað kemur út úr þeim fundi. Sjávarútvegsráðherra hefur sagt að ekki standi til að setja lög á kjaradeiluna og vísa henni til gerðadóms en spurningin er hve lengi íslenskt efnahagslíf getur þolað það ástand sem nú ríkir. Hafa verður í huga að það er ekki einungis fiskiskipaflotinn sem hefur stöðvast heldur finna öll fyrirtæki sem þjóna sjávarútvegnum fyrir verkfallinu með skýrum hætti svo ekki sé minnst á fiskvinnslufólk um allt land.  

 

Síldarvinnslan framúrskarandi 2016

Samkvæmt mælingum Creditinfo töldust 624 fyrirtæki á Íslandi vera framúrskarandi á árinu 2016. Fyrirtækin þurfa að uppfylla skýr skilyrði til að komast á lista framúrskarandi fyrirtækja en alls kannaði Creditinfo stöðu þrjátíu og sex þúsund fyrirtækja við gerð hans. 
 

Það kemur fáum á óvart að Síldarvinnslan er á meðal hinna framúrskarandi fyrirtækja og reyndar er hún í áttunda sæti  á árinu 2016. Einnig hefur Creditinfo birt lista yfir þau fyrirtæki sem hafa verið í topp 10 á listanum síðastliðin fimm ár og þar er Síldarvinnslan í fjórða sæti. Þetta er árangur sem verður að teljast afar góður og geta starfsmenn Síldarvinnslunnar svo sannarlega verið stoltir af honum.

Eins og fyrr greinir er Síldarvinnslan í áttunda sæti á umræddum lista en á listanum  má einnig finna dóttur- og hlutdeildarfyrirtæki Síldarvinnslunnar eins og Fóðurverksmiðjuna Laxá hf. á Akureyri, Runólf Hallfreðsson ehf. á Akranesi, G. Skúlason vélaverkstæði ehf. í Neskaupstað og Fjarðanet hf. í Neskaupstað. 

Síldarvinnslan framúrskarandi 2016Síldarvinnslan framúrskarandi 2016

 

Fyrstu starfsár Síldarvinnslunnar

Fyrstu starfsár Síldarvinnslunnar Í tilefni þess að Síldarvinnslan verður 60 ára hinn 11.desember nk.  munu birtast pistlar um sögu fyrirtækisins á heimasíðunni af og til út árið. Hér verður fjallað um fyrstu starfsárin.
 
Síldarverksmiðja Síldarvinnslunnar sumarið 1961. Ljósm. Skjala- og myndasafn NorðfjarðarSíldarverksmiðja Síldarvinnslunnar sumarið 1961.
Ljósm. Skjala- og myndasafn Norðfjarðar
Eins og fram kom í fyrri pistli hófst móttaka síldar í síldarverksmiðju Síldarvinnslunnar hinn 17. júlí árið 1958. Fljótlega kom í ljós hve miklu máli tilkoma verksmiðjunnar skipti fyrir samfélagið. Í verksmiðjunni urðu til ný störf og bæjarsjóður og hafnarsjóður fengu auknar tekjur. Einnig gjörbreyttist aðstaða til síldarsöltunar í Neskaupstað og söltunarstöðvum fjölgaði. Þá jukust verkefni netagerðar og margra þjónustufyrirtækja. Verksmiðjan olli því að síldin setti í æ ríkari mæli mark sitt á  bæinn. Sumarið 1958 tók verksmiðjan á móti 4.075 tonnum af síld og þótti það verulegt magn. Þá var síld  söltuð í 2.519 tunnur í Neskaupstað þetta sumar.
 
Síldveiðarnar jukust næstu árin og móttaka og vinnsla síldar varð sífellt viðameiri þáttur norðfirsks atvinnulífs. Byggðir voru tveir hráefnistankar árið 1962 og aftur árið 1965 og mjölhús voru reist 1960, 1963 og 1965. Þá voru lýsistankar byggðir árið 1961 og 1965. Á þessum árum var sífellt verið að bæta búnað verksmiðjunnar og var svo komið árið 1966 að hún gat unnið úr 5.200 málum (700 tonnum ) á sólarhring. Segja má að afkastaaukningin og framkvæmdir við verksmiðjuna hafi verið í góðum takti við þróun síldveiðanna því þær gengu sífellt betur. Á árunum 1964-1967 veiddist síldin ekki einungis yfir sumartímann eins og verið hafði heldur langt fram á vetur. Áhersla á söltun síldar óx að sama skapi. Árið 1961 urðu síldarsöltunarstöðvarnar tvær og sumarið 1962 var saltað á fjórum stöðvum í Neskaupstað. Árið 1964 voru stöðvarnar orðnar fimm og ein bættist við árið 1965 en þá var saltað í yfir 50.000 tunnur í Neskaupstað.
 
Á fyrstu starfsárum verksmiðjunnar lönduðu bátarnir síldinni við bryggjuna framan við fiskvinnslustöð Samvinnufélags útgerðarmanna en þar var komið fyrir löndunarkrana sem fluttur var austur frá Dagverðareyri. Frá bryggjunni lágu færibönd sem flutti síldina í verksmiðjuþrærarnar. Sérstök löndunarbryggja fyrir verksmiðjuna var síðan byggð árið 1962 og eftir það var unnt að landa úr tveimur bátum samtímis.
 
Tíð skipti voru á verksmiðjustjórum fyrstu starfsárin. Sveinmar Jónsson var verksmiðjustjóri sumarið 1958 en við af honum tók Ingi Sæmundsson sem sinnti starfinu sumarið eftir. Hilmar Haraldsson var síðan verksmiðjustjóri á árunum 1960-1962. Í októbermánuði 1962 var Kristinn Sigurðsson ráðinn í starf verksmiðjustjóra og sinnti hann slíku starfi hjá Síldarvinnslunni til ársins 1986.
 

Síldarbátar landa í verksmiðju Síldarvinnslunnar sumarið 1963. Ljósm: Jón LundbergSíldarbátar landa í verksmiðju Síldarvinnslunnar sumarið 1963. Ljósm: Jón Lundberg

Eins og fyrr greinir jókst sífellt móttekið magn síldar hjá síldarverksmiðju Síldarvinnslunnar á árunum 1958-1966. Hér á eftir verður birt yfirlit um hið móttekna magn á umræddu tímabili:
 
 
Ár  Móttekið magn síldar (tonn) 
1958 4.075 
1959 10.258 
1960 13.245 
1961 17.341
1962 29.025
1963 34.220
1964 54.561
1965 70.200
1966 107.503
  
Árið 1967 urðu þáttaskil í síldveiðunum og þá bárust einungis rúmlega 33 þúsund tonn af síld til verksmiðjunnar í Neskaupstað. Á árinu 1968 má síðan segja að síldveiðarnar hafi endanlega hrunið og fékk verksmiðjan einungis tæp þrjú þúsund tonn til vinnslu. Fyrirtækið hafði verið stofnað sérstaklega með síldarvinnslu í huga en nú var síldarveislunni lokið að sinni og þörf á að beina sjónum í auknum mæli að öðrum þáttum veiða og vinnslu. 

Veruleg fækkun slysa á starfsstöðvum Síldarvinnslunnar – Beitir NK slysalaus í þrjú ár

Mikið er lagt upp úr öryggi á sjó og landi hjá starfsfólki Síldarvinnslunnar. Ljósm. Þorgeir BaldurssonMikið er lagt upp úr öryggi á sjó og landi hjá starfsfólki Síldarvinnslunnar.
Ljósm. Þorgeir Baldursson
Hjá Síldarvinnslunni hefur að undanförnu verið lögð mjög aukin áhersla á öryggismál og er árangurinn greinilegur á  öllum starfsstöðvum fyrirtækisins. Í ársbyrjun 2016 var Guðjón B. Magnússon ráðinn í starf öryggisstjóra og samkvæmt nýrri starfsmannastefnu fyrirtækisins, sem tók að fullu gildi um nýliðin áramót, verða öryggisnefndir starfandi á hverri starfsstöð og öryggisráð mun síðan hafa yfirumsjón með öryggismálunum og framkvæmd þeirrar öryggisstefnu sem mótuð hefur verið. Öryggisstjóri mun starfa með öryggisráðinu og verða öryggisnefndunum til halds og trausts. Auðvitað bera yfirmenn hverrar starfsstöðvar mikla ábyrgð í þessum efnum en einnig verður lagt allt kapp á að kynna öryggisreglur fyrir starfsmönnum og þar er nýliðafræðsla einkar mikilvæg.
 
Með því að gefa öryggismálunum aukinn gaum hefur tekist að fækka slysum til mikilla muna og að sjálfsögðu er stefnt að því að árið 2017 verði slysalaust ár á starfsstöðvunum. Í landvinnslunni (fiskiðjuveri og fiskimjölsverksmiðjum) hefur þróun slysatíðni verið í mjög rétta átt. Árið 2012 voru 18 vinnuslys á þessum starfsstöðvum, þau voru 13 á árinu 2014 en einungis 5 á árinu 2016. Sama er að segja um þróunina hjá skipum fyrirtækisins. Á árinu 2012 voru 4 vinnuslys á skipunum, þau voru 7 á árinu 2014 en einungis 3 á síðasta ári. Athygli vekur að mörg slysanna hafa átt sér stað þegar verið er að binda skipin eða þegar þau liggja í höfn. Athygli vekur einnig að á uppsjávarskipinu Beiti NK hefur ekkert vinnuslys orðið þrjú síðastliðin ár.
 
Ánægjulegt ar að sjá á gögnum frá Sjúkratryggingum Íslands að almennt virðist slysum um borð í skipum fara fækkandi á Íslandi.  Samkvæmt þessum gögnum frá árunum 1987 – 2015 voru fæst vinnuslys sjómanna tilkynnt á árinu 2014, 201 talsins, og næstfæst á árinu 2015 en þá voru þau 219.

Síldarvinnslan hf. á stórafmæli í ár

Hinn 11. desember á þessu ári verða liðin 60 ár frá stofnun Síldarvinnslunnar hf. en félagið var stofnað árið 1957. Í tilefni þessa tímamótaárs í sögu félagsins skal hér í stuttu máli rifjaður upp aðdragandinn að stofnun þess og upphaf starfseminnar.

Þannig auglýsti stjórn Samvinnufélags útgerðarmanna hlutafjársöfnun vegna stofnunar hlutafélags til byggingar síldarverksmiðju í Neskaupstað. Auglýsingin birtist í vikublaðinu Austurlandi 29. nóvember 1957.Þannig auglýsti stjórn Samvinnufélags útgerðarmanna hlutafjársöfnun vegna stofnunar hlutafélags til byggingar síldarverksmiðju í Neskaupstað. Auglýsingin birtist í vikublaðinu Austurlandi 29. nóvember 1957.


Á sjötta áratug tuttugustu aldarinnar jukust síldveiðar töluvert úti fyrir Austfjörðum og spáðu fiskifræðingar því að slíkar veiðar myndu halda áfram að aukast. Norðfirðingar höfðu eðlilega áhuga á því að hagnýta silfur hafsins í auknum mæli en aðstaða til móttöku síldar í Neskaupstað var heldur bágborin. Eina fiskimjölsverksmiðjan á staðnum var verksmiðja í eigu Samvinnufélags útgerðarmanna og afkastaði hún einungis 220 málum (30 tonnum) síldar á sólarhring og hafði þróarrými fyrir 50-60 tonn. Á árunum 1952 og 1953 voru stofnaðar tvær síldarsöltunarstöðvar í Neskaupstað en stærð verksmiðjunnar háði mjög allri starfsemi þeirra. Söltunarstöðvarnar þurftu að koma úrgangi í verksmiðjuna og eins þurftu síldarbátarnir að geta losað sig við síld sem ekki reyndist söltunarhæf.

Lesa meira...

Frystigeymslurnar í Neskaupstað tóku á móti tæplega 74 þúsund tonnum árið 2016

Útskipun á frystum fiski. Ljósm. Sigurður Steinn EinarssonÚtskipun á frystum fiski. Ljósm. Sigurður Steinn EinarssonAlls tóku frystigeymslur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað á móti 73.669 tonnum af frystum afurðum á árinu 2016. Vinnsluskip lönduðu 33.148 tonnum í geymslurnar en frá fiskiðjuverinu komu 40.192 tonn af uppsjávarfiski og tæplega 330 tonn af bolfiski. Eftirtalin skip lönduðu afurðum í frystigeymslurnar á árinu:
 
Vilhelm Þorsteinsson EA         12.030 tonn
Hákon EA  7.886 tonn
Kristina EA   7.818 tonn
Polar Amaroq 3.313 tonn
Barði NK 2.101 tonn
  
Öll þessi skip lönduðu uppsjávartegundum að Barða undanskildum, en hann landaði botnfisktegunum.
 
Alls var á árinu skipað út 65.176 tonnum af afurðum sem geymdar voru í frystigeymslunum. Þar af fóru 52.585 tonn beint um borð í skip í Norðfjarðarhöfn en 12.589 tonn voru flutt í gámum eða með bílum til útskipunar í öðrum höfnum. Flutningabílar munu á árinu hafa farið hátt í 600 ferðir yfir Oddsskarð með frystar afurðir úr frystigeymslunum. 
 

Undirflokkar