Úr margmiðlun á sjóinn

               Vestmannaey

Vestmannaey VE 444. 

Veiðar skipa Bergs-Hugins hafa gengið vel það sem af er ári og er aflinn mun meiri en á sama tíma og í fyrra og einnig aflaverðmæti. Í ár hafa skipin tvö, Vestmannaey og Bergey, fiskað liðlega 5000 tonn en á sama tíma í fyrra var aflinn liðlega 4800 tonn. Meðalverð á kg. hefur einnig verið mun hærra í ár en var í fyrra.

                Heimasíðan sló á þráðinn til Héðins Karls Magnússonar skipstjóra á Vestmannaey og spurðist frétta. Héðinn Karl er fæddur árið 1980 og lauk námi í margmiðlunarfræðum áður en hann hóf nám í Stýrimannaskólanum. „Ég hef að mestu verið á sjó frá unglingsaldri en lauk margmiðlunarnáminu um 2000 rétt áður en netbólan sprakk. Stýrimannaskólanum lauk ég árið 2008 og hef síðan verið á Vestmannaey. Hér um borð hef ég verið netamaður, stýrimaður og leyst af sem skipstjóri af og til. Margmiðlunarnámið og tölvukunnáttan kemur að ágætu gagni á sjónum enda tölvuvæðingin mikil um borð í fiskiskipum,“sagði Héðinn Karl. „Við erum nú við veiðar á Látragrunni og höfum verið þar að mestu síðustu þrjár vikurnar. Það hefur gengið vel að fiska en uppistaða aflans er ýsa. Það er heldur rólegra yfir veiðunum nú en hefur verið, fiskurinn gefur sig mest á nóttunni þessa dagana þannig að það er ekki sólarhringsveiði eins og var. Við erum komnir með um 50 tonn og okkur vantar 20 tonn til að fylla. Hér um borð eru allir kátir og menn eru nokkurn veginn búnir að jafna sig eftir þjóðhátíð,“ sagði Héðinn Karl að lokum.

Vanhugsuð þátttaka í viðskiptabanni gegn Rússum

GI i turninum

Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar.

Engin efnisleg umræða hefur farið fram um þátttöku íslenskra stjórnvalda í að framlengja viðskiptabann gegn Rússum 30. júlí sl. vegna málefna Úkraínu. Samt eru gríðarlegir hagsmunir þjóðarbúsins lagðir að veði með þessari ákvörðun.  Íslenskir útflytjendur fengu fyrst að vita af ákvörðuninni frá viðskiptavinum sínum í Rússlandi.

Lýsa yfir hlutleysi

Undirritaður átti fundi bæði með ráðherra og formanni utanríkismálanefndar eftir að í ljós kom að Ísland studdi upphaflegar þvingunaraðgerðir gegn Rússum þar sem þeim var fyllilega gerð grein fyrir þeim afleiðingum sem þetta gæti haft ef viðskiptabann gegn Íslandi kæmi til framkvæmda.  Samt sér Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar, enga ástæðu til að staldra við þótt gríðarlegir hagsmunir séu í húfi fyrir íslenskt efnahagslíf.

Hlutverk stjórnvalda er að skapa umgjörð um starfsskilyrði fyrirtækja og styðja við þann farveg sem alþjóðleg viðskipti fara um. Sé raunverulegur vilji til að aðstoða íslensk fyrirtæki og gæta að hagsmunum þjóðarinnar getur ráðherra lýst yfir hlutleysi stjórnvalda og reynt að vinda ofan af stuðningi Íslands í aðgerðum gegn Rússum. Á þann hátt er sjálfstæði Íslendinga í utanríkismálum undirstrikað.

Viðskiptaþvinganir hafa takmörkuð áhrif og bitna helst á þeim sem síst skyldi, það er almennum borgurum viðkomandi ríkja. Hlutverk utanríkisráðuneytisins er að framfylgja utanríkisstefnu ríkisstjórnarinnar eftir diplómatískum leiðum en ekki að beita þjóðir viðskiptaþvingunum án umræðu. Það á að rækta viðskiptin við Rússa á þessum erfiðu tímum og er full ástæða að viðhalda áratuga góðum viðskiptasamböndum við Rússa.

Mikilvægur markaður

Afleiðingar af þessari þátttöku Íslendinga eru að öllum líkindum að steypast yfir okkur á næstu dögum í formi innflutningsbanns á einn af okkar mikilvægustu mörkuðum fyrir frystan uppsjávarfisk; loðnu-, síldar- og makrílafurðir. Auk þess hefur markaður fyrir bolfiskafurðir okkar verið vaxandi í Rússlandi. Viðskiptaaðilar okkar þar í landi hafa verið duglegir að upplýsa okkur um fréttaflutning af þessu máli sl. viku og hefur verið alveg skýrt í þeirra huga hvert málið stefnir. Samt virðast þessar fréttir koma utanríkisráðherra á óvart í Morgunblaðinu og hann segir óljóst hvað Medvedev forsætisráðherra sé að segja. Hér eru miklir hagsmunir í húfi og ráðherra lætur málið koma sér í opna skjöldu!

Við Íslendingar höfum síðustu áratugina átt í farsælum og góðum viðskiptum við Rússland og stóðu þau viðskipti af sér kalda stríðið.   Eins og sést í samantekt hér að neðan, sem byggð er á gögnum frá Hagstofu Íslands, hafa viðskipti við Rússland með sjávarafurðir vaxið ár frá ári.

 graf2

Viðskipti með síldarafurðir eiga sér margra áratuga sögu; markaður fyrir frosna loðnu hefur vaxið síðustu áratugina og markaður fyrir loðnuhrogn er stækkandi.  Með tilkomu makrílsins nýttust viðskiptasamböndin strax til að byggja upp góða markaði fyrir makrílafurðir okkar. Hagsmunirþjóðarinnar eru hér miklir.

Öflugt sölunet

Sérþekking á erlendum mörkuðum hefur byggst upp á löngum tíma innan sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi og hefur bundið saman öflugt sölunet sem trosnar ekki auðveldlega. Þessi sambönd hafa haldið enda allt kapp lagt á að halda góðum tengslum við Rússa. Það eru pólitísku samböndin sem eru að rakna upp í höndunum á utanríkisráðherra. Þar ber hann einn ábyrgð.

Utanríkisráðherra nefnir að ráðuneytið sé alltaf reiðubúið að aðstoða útflytjendur. „Frá því að þvinganirnar tóku gildi gagnvart Rússum hefur enginn útflytjandi óskað aðstoðar ráðuneytisins, sendiráða eða Íslandstofu við að finna nýja markaði,“ segir Gunnar Bragi í Morgunblaðinu.

Íslensk útflutningsfyrirtæki eru með fulltrúa á sínum snærum út um allan heim að selja sjávarafurðir frá Íslandi, þau taka þátt í öllum helstu sölusýningum í heiminum til að kynna íslenskan fisk og kynnast fjarlægum mörkuðum og treysta ný sambönd.  Við tökum þátt í alþjóðlegu samstarfi og ráðstefnum þar sem farið er yfir alla markaði t.d. fyrir uppsjávarfisk. Ástæða þess að opinberir starfsmenn eru ekki beðnir um aðstoð við að selja fisk er einfaldlega sú að útflutningsfyrirtækin eru að vinna að því öllum stundum og tryggja þar með bestu hagsmuni Íslands á hverjum tíma. Það er í verkahring utanríkisráðherra að tryggja pólitíska hagsmuni Íslendinga erlendis.

Milli vonar og ótta

Nú sitja stjórnendur fyrirtækja milli vonar og ótta um það hvort stjórnvöld í Rússlandi láti okkur á listann yfir þjóðir sem beittar verða viðskiptaþvingunum.  Mikilvægar vertíðir eru framundan. Kraftar utanríkisráðherra og hans fólks eiga ekki að fara í það að selja sjávarafurðir. Athygli þeirra á að beinast að því að halda góðu sambandi við viðskiptaþjóðir okkar svo við getum flutt út sjávarafurðir og aflað þjóðarbúinu tekna.

Síldarvinnslan í Neskaupstað hefur flutt út síldarafurðir til Rússlands í meira en hálfa öld og hefur sá markaður ávallt skipt fyrirtækið og starfsfólk þess miklu máli.  Vonum við að svo verði áfram um ókomna tíð og að samskipti okkar og viðskiptavina okkar í Rússlandi haldi áfram að styrkjast.

Gunnþór Ingvason

Framkvæmdastjóri

Síldarvinnslunnar í Neskaupstað

 

Vinnsla hafin á Seyðisfirði að afloknu sumarfríi

Gullver NS landaði 90 tonnum í gær   Ljósm. Ómar BogasonGullver NS landaði 90 tonnum í gær Ljósm. Ómar BogasonVinnsla hófst í gærmorgun í fiskvinnslustöð Gullbergs á Seyðisfirði að afloknu fjögurra vikna sumarfríi. Ísfisktogarinn Gullver kom þá til löndunar og var afli hans um 90 tonn, mest þorskur og karfi.
 
Í fiskvinnslustöðinni er lögð áhersla á að vinna ferska þorskhnakka sem sendir eru á markað með ferjunni Norrænu. Bakflökin eru síðan fryst í blokk sem fer á Bandaríkjamarkað.
 
Gert er ráð fyrir að Gullver haldi á ný til veiða í dag.

Veiðar og vinnsla á makríl

Makrílvinnsla gengur vel. Ljósm. Sylvía Kolbrá HákonardóttirMakrílvinnsla gengur vel. Ljósm. Sylvía Kolbrá HákonardóttirMakrílvertíðin hófst hjá Síldarvinnslunni um 10. júlí. Um verslunarmannahelgina hafði 9.383 tonnum verið landað til vinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar og kemur sá afli af þremur skipum; Berki NK, Beiti NK og Bjarna Ólafssyni AK. Þá höfðu frystiskipin Kristina EA og Hákon EA landað um 3.500 tonnum í frystigeymslur Síldarvinnslunnar fyrir helgina.
 
Um helgina gengu veiðar vel og kom Börkur með 600 tonn til löndunar í gær. Beitir er að leggja af stað í land þegar þetta er ritað með 850 tonn. Bjarni Ólafsson er á miðunum. Frystiskipið Vilhelm Þorsteinsson landaði  500 tonnum í gær og Kristina er að landa  rúmlega 2.000 tonnum í dag.
 

Vaðandi makríll í stórum flekum á Papagrunni

                

Þegar Beitir NK var á landleið í gærmorgun með 500 tonn af makríl urðu skipverjar varir við vaðandi makríl í stórum flekum utarlega á Papagrunni. Tómas Kárason skipstjóri tók myndband af makríltorfunum og fylgir það hér með. Tómas sagðist varla hafa séð jafn mikið af vaðandi makríl og þarna. „Það var glæsilegt að fylgjast með þessu og það var erfitt að sigla framhjá öllum þessum fiski með einungis 500 tonn um borð. Það var svo sannarlega freistandi að hefja veiðar á ný, en það var ekki hægt vegna þess að hjá okkur snýst allt um vinnslugetuna og að skapa sem mest verðmæti úr þeim afla sem komið er með að landi,“ sagði Tómas. „Makríllinn virtist vera á hraðri leið í austur- og norðausturátt þegar við áttum leið þarna um. Það var svo sannarlega gaman að upplifa þetta,“ sagði Tómas að lokum.

Blængur kemur til heimahafnar í fyrsta sinn

Blængur NK siglir inn Norðfjörð í fyrsta sinn. Ljósm. Guðlaugur BirgissonBlængur NK siglir inn Norðfjörð í fyrsta sinn. Ljósm. Guðlaugur BirgissonÍ gær kom frystitogarinn Blængur NK (áður Freri RE) í fyrsta sinn til heimahafnar í Neskaupstað. Síldarvinnslan festi kaup á skipinu fyrr í sumar og hélt það til veiða frá Reykjavík hinn 10. júlí. Veitt var á Halanum og var aflinn í þessari fyrstu veiðiferð rúmlega 300 tonn upp úr sjó, en meginhluti aflans var ufsi. Skipstjóri í veiðiferðinni var Sigtryggur Gíslason en hann er skipstjóri á Kaldbak, sem er systurskip Blængs. Bjarni Ólafur Hjálmarsson var fyrsti stýrimaður í veiðiferðinni en hann tekur nú við sem skipstjóri á Blængi.
 
Heimasíðan ræddi við Bjarna Ólaf í morgun og sagði hann að Blængur væri afar gott sjóskip sem færi vel með áhöfnina. „Þá er hann einnig afar öflugt skip, en vélbúnaður allur er mjög góður og við notuðum einungis 50-60% af vélaraflinu þegar togað var í þessari fyrstu veiðiferð,“ sagði Bjarni Ólafur. „Þessi fyrsta veiðiferð veitti okkur dýrmæta reynslu en ljóst er að ýmislegt þarf að lagfæra um borð í skipinu og þá einkum á vinnsludekkinu. Það liggur skýrt fyrir að það er hægt að fiska mikið á þetta skip og þá skiptir máli að vinnslan um borð gangi vel,“ sagði Bjarni.
 
Blængur tekur drjúgt pláss í höfninni, enda skipið 79 metra langt. Skipið var lengt og vélbúnaður þess endurnýjaður árið 2000 auk þess frystilestin var endurnýjuð. Blængur er 1723 tonn að stærð og eru 26 menn í áhöfn skipsins.
 
Ráðgert er að Blængur haldi til veiða á ný nk. fimmtudagskvöld.

Dramatískur fréttaflutningur

Birtingur NK-119Birtingur NK-124Eins og komið hefur fram á heimasíðunni var ráðgert að Birtingur NK héldi til makrílrannsókna við Grænland og áttu rannsóknirnar að hefjast  hinn 28. júlí. Skipið hélt fyrst til Reykjavíkur en á leiðinni þaðan kom upp bilun í vél þess. Draga þurfti skipið til Reykjavíkur og þegar þangað var komið hófst strax viðgerð á vélinni. Í gær bárust síðan dramatískar fréttir um eld í skipinu og að það væri við það að sökkva í Reykjavíkurhöfn. Vegna þessara frétta vill Síldarvinnslan koma eftirfarandi á framfæri:
 
  • Á meðan unnið var að viðgerðinni var dælt sjó úr lestum skipsins í þeim tilgangi að halda því réttu við bryggjuna. Of mikill sjór varð hins vegar eftir stjórnborðsmegin og tók skipið að halla þegar fjaraði undan því. 
  • Þegar hallinn var orðinn töluverður átti að hefja dælingu til að rétta skipið en þá tóku dælurnar loft og virkuðu ekki. Vegna hallans tók ljósavélin að brenna smurolíu og reykti því mikið.
  • Haft var samband við hafnaryfirvöld og sendu þau hafnsögubát til að halda við skipið og einnig var komið með slöngur úr landi til að dæla vatni um borð.
  • Um það leyti sem dæling hefst kom lögregla og slökkvilið en einhver óviðkomandi hafði tilkynnt að eldur væri laus í Birtingi. Ástæða tilkynningarinnar er eflaust reykurinn sem kom frá ljósavélinni.
  • Þegar ljóst var að ekki var um eldsvoða að ræða bauð slökkviliðið fram aðstoð sína og hóf að dæla sjó í lestar skipsins í þeim tilgangi að rétta það sem fyrst. Fljótlega var síðan unnt að nota dælur skipsins.
  • Engin hætta var á ferðum þó svo að skipið hallaði verulega en beðið var um aðstoð hafnaryfirvalda í öryggisskyni.
  • Athyglisvert er að fjölmiðlar hafa verið duglegir að fjalla um þetta mál með dramatískum hætti en enginn þeirra hefur haft samband við skipstjórann á Birtingi né aðra úr áhöfn skipsins. Einungis einn fjölmiðill, Ríkisútvarpið, hafði samband við framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar vegna málsins.
 
Þegar óhöpp sem þessi eiga sér stað er mikilvægt að fréttaflutningur af þeim sé vandaður og yfirvegaður en ekki séu búnar til dramatískar fréttir að ástæðulausu. Þá er grundvallaratriði að fjölmiðlar afli sér haldgóðra upplýsinga áður en frétt er send út.
 
Síldarvinnslan vill þakka öllum þeim sem veittu Birtingsmönnum aðstoð í þessu óhappi í Reykjavíkurhöfn. Sérstaklega skal þökkum komið á framfæri við hafnaryfirvöld og slökkvilið.
 

Rauðátan til rannsóknar


Stefán Þór Eysteinsson leiðbeinir nemendum Sjávarútvegsskólans í Matís í Neskaupstað. Ljósm. Elvar Ingi ÞorsteinssonStefán Þór Eysteinsson leiðbeinir nemendum Sjávarútvegsskólans í Matís í Neskaupstað. Ljósm. Elvar Ingi Þorsteinsson
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
Stefán Þór Eysteinsson, sérfræðingur hjá Matís í Neskaupstað, er um þessar mundir að hefja rannsóknir á rauðátu. Rannsóknaverkefnið er jafnframt doktorsverkefni Stefáns. Tilgangur verkefnisins er margþættur; í fyrsta lagi verður skaðsemi rauðátu við manneldisvinnslu uppsjávartegunda metin og eins  verður kannað hvernig best er að stýra vinnslunni og geyma afurðirnar þegar áta er í fiskinum. Einnig verður lögð áhersla á að rannsaka áhrif rauðátu á mjöl- og lýsisvinnslu. Loks verða eiginleikar átunnar skoðaðir og kannað hvort og hvernig megi nýta hana. Norðmenn hafa verið að veiða rauðátu í tilraunaskyni og hafa þeir unnið úr henni olíu til manneldis. Olían hefur reynst hafa ýmsa jákvæða eiginleika, meðal annars er hún rík af omega 3 fitusýrum.
 
Að sögn Stefáns mun hráefni til verkefnisins fást í Neskaupstað og á Höfn en Síldarvinnslan og Skinney-Þinganes taka virkan þátt í því. Að auki munu Háskóli Íslands, Hafrannsóknastofnun, Matís og DTU-aqua eiga aðild að verkefninu, en DTU-aqua er danskur háskóli. Stefán upplýsir að gert sé ráð fyrir að verkefnið taki að lágmarki þrjú ár og kostnaðaráætlun fyrir það hljóði upp á 52 milljónir króna.
 
Stefán hefur fengið góða styrki til verkefnisins en stærsti styrkurinn er svonefndur Sigurjónsstyrkur úr Rannsóknasjóði síldarútvegsins. Sá styrkur er fimm milljónir króna á ári í þrjú ár eða samtals 15 milljónir. Þessi styrkur er kenndur við Norðfirðinginn Sigurjón Arason, prófessor og yfirverkfræðing hjá Matís, en Sigurjón hefur haft forystu um ýmsar rannsóknir og þróun á sviði vinnslu sjávarafurða sl. 30 ár, sem skilað hafa miklum ábata fyrir íslenskt samfélag.
 
Stefán segir að rauðáturannsóknirnar séu afar spennandi verkefni  og hann voni svo sannarlega að niðurstöðurnar hjálpi til við að ráða við þau vandamál sem átan hefur í för með sér við vinnslu á uppsjávarfiski.
 

Góður makrílafli fyrir austan

Börkur NK kemur til löndunar. Ljósm. Hákon ErnusonBörkur NK kemur til löndunar. Ljósm. Hákon ErnusonVeiðar makrílskipanna sem landa til vinnslu í Neskaupstað hafa gengið vel að undanförnu. Skipin eru að veiðum út af Austfjörðum en stundum er afli þeirra síldarblandaður. Á laugardag var lokið við að landa um 1000 tonnum úr Berki NK og í gær lauk löndun úr Bjarna Ólafssyni AK sem var með 800 tonn. Í kjölfar þeirra kom Beitir NK til löndunar  með 675 tonn. Vinnslan í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar hefur gengið afar vel eftir að makrílveiðar hófust og hefur starfsfólkið staðið sig með einstakri prýði. Ráðgert er að loka fiskiðjuverinu yfir verslunarmannahelgina og fær starfsfólkið þá vel þegið frí.
 
Börkur NK er nú að veiðum í Berufjarðarál og sagði Sturla Þórðarson skipstjóri að þessa stundina væri ekki mikið að sjá. „Þetta hefur verið heldur rólegt. Við erum að dæla núna og ég vonast til að við verðum komnir með 600 tonn þegar því er lokið. Þennan afla höfum við þá fengið í þremur holum. Við keyrðum í alla nótt og leituðum og köstuðum síðan í morgun. Við höfum frétt af smærri bátum sem hafa verið að fá makríl á Lónsbugtinni miklu nær landi eða á 12 mílunum. Það er víða makríll en stundum þarf að hafa fyrir því að finna hann í verulegu magni,“ sagði Sturla.

Nýtt „kalt kar“

Starfsmenn sundlaugarinnar, Martin Sindri Rosenthal og Bergvin Haraldsson, við nýja kaldavatnskarið. Ljósm. Hákon ErnusonStarfsmenn sundlaugarinnar, Martin Sindri Rosenthal og Bergvin Haraldsson, við nýja kaldavatnskarið. Ljósm. Hákon ErnusonSíldarvinnslan færði sundlauginni í Neskaupstað nýtt kaldavatnskar á dögunum. Gamla karið var farið að láta á sjá og þörf á endurnýjun. Nýja karið er rautt og flott og tóku starfsmenn sundlaugarinnar því fagnandi.
 
Að sögn Sigurjóns Egilssonar, forstöðumanns íþróttamannvirkja í Neskaupstað, eru kaldavatnskör á borð við þetta í mörgum sundlaugum á landinu. „Allir aldurshópar virðast nota kalda karið, einkum íþróttamenn en einnig aðrir,“ sagði Sigurjón. „Sú regla gildir þó hér að börn yngri en 14 ára fara ekki í kalda karið. Þegar slíkt kar er ekki til staðar er mikið um það spurt og það gera jafnt íþróttamenn sem  eldri borgarar þannig að þá sjáum við hve vinsæl þessi þjónusta er. Menn trúa því að það sé hollt og gott að fara í heitan pott og kalda karið til skiptis, en mælt er með að menn séu örstutt ofan í kalda karinu, kannski 20-40 sekúndur. Það er afar gott fyrir okkur að vera búin að fá nýtt kar fyrir kalda vatnið og við kunnum Síldarvinnslunni bestu þakkir fyrir gjöfina,“ sagði Sigurjón að lokum.

Sjávarútvegsskóli Austurlands á Seyðisfirði

SeydisEGS skoli

Nemendur Sjávarútvegsskólans á Seyðisfirði í vettvangsheimsókn um borð í Bjarna Ólafssyni AK. Ljósm: Sylvía Kolbrá Hákonardóttir

Kennslu í Sjávarútvegsskóla Austurlands á Seyðisfirði lauk í gær en þar sóttu skólann nemendur frá Fljótsdalshéraði auk Seyðfirðinga. Kennslan á Seyðisfirði er fjórða námslota skólans í sumar en áður hefur verið kennt í Neskaupstað, Eskifirði og Fáskrúðsfirði.

                  Að sögn kennara skólans gekk kennslan á Seyðisfirði vel og voru nemendur áhugasamir og duglegir. Á lokadegi kennslulotunnar var haldið með nemendur í vettvangsferð til til Neskaupstaðar og Eskifjarðar þar sem farið var í heimsókn í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar og netagerð Egersund. Áður höfðu nemendur kynnt sér starfsemi fiskvinnslu Gullbergs og fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði.

                  Áformað var að hefja næstu kennslulotu á Vopnafirði í næstu viku en henni hefur verið frestað fram í ágústmánuð og verður nánar auglýst síðar. Greint verður frá áframhaldi starfsemi Sjávarútvegsskólans á heimasíðu hans www.sjavarskoli.net. 

Birtingur NK til makrílrannsókna við Grænland

Birtingur survey

Þær stöðvar sem rannsóknirnar ná til. Birtingur NK mun taka stöð 13-29. Ljósm: Grønlands Naturinstitut 

Á morgun er ráðgert að Birtingur NK láti úr höfn í Neskaupstað en Grønlands Naturinstitut hefur tekið skipið á leigu til makrílrannsókna. Fyrst verður haldið til Reykjavíkur þar sem rannsóknaleiðangurinn verður undirbúinn en síðan er ráðgert að rannsóknirnar fari fram dagana 28. júlí til 9. ágúst. Hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson mun einnig taka þátt í rannsóknunum. Ákveðnar hafa verið 29 togstöðvar og mun Árni Friðriksson toga á stöðvum 1-12 en Birtingur á stöðvum 13-29. Á meðfylgjandi korti sjást togstöðvarnar merktar og á því sést að Birtingur mun sinna rannsóknum bæði austan og vestan við Hvarf.

Skipstjóri á Birtingi í rannsóknaleiðangrinum verður Steinþór Hálfdanarson en átta manns verða í áhöfn. Auk áhafnarinnar verða fimm vísindamenn frá Grønlands Naturinstitut um borð. Leiðangursstjóri verður dr. Anna Ólafsdóttir.

Mjög góð makrílveiði

DSC03108

Beitir NK kemur til löndunar. Ljósm: Sylvía Kolbrá Hákonardóttir

Eftir tvo daufa daga á makrílmiðunum hefur veiðin glæðst mikið. Í Neskaupstað er verið að landa úr Bjarna Ólafssyni AK og Beitir NK kom í hádeginu með 780 tonn. Tómas Kárason skipstjóri á Beiti segir að síðari hluti veiðiferðarinnar hafi gengið eins og í sögu. „Við byrjuðum á að taka tvö hol fyrir austan, þar var fiskur en hálfgerð bræla og auk þess var aflinn þar síldarblandaður. Þá færðum við okkur suður í Breiðamerkurdýpi og þar tókum við tvö tveggja tíma hol. Í fyrra holinu fengum við 400 tonn og 180 tonn í því síðara. Þarna var mikið að sjá og staðreyndin er sú að vart verður við makríl víða,“ sagði Tómas. Að sögn Tómasar höfðu bátar streymt á miðin í Breiðamerkurdýpinu og voru að gera það ágætt. Þarna var Börkur kominn og einnig Hákon, Lundey og Venus.

Nú veiðist makríllinn austar

Bjarni Ólafsson AK að landa makríl og Börkur NK að koma til löndunar. Ljósm. Hákon ErnusonBjarni Ólafsson AK að landa makríl og Börkur NK að koma til löndunar. Ljósm. Hákon ErnusonBjarni Ólafsson AK er að landa 440 tonnum af makríl í fiskiðjuverið í Neskaupstað en um hádegisbil kemur Beitir NK með 240 tonn. Börkur NK er einnig á landleið með 600 tonna afla. Skipin hafa til þessa helst verið að veiðum bæði vestan og austan við Vestmannaeyjar en Beitir fékk sinn afla mun austar. Heimasíðan hafði samband við Tómas Kárason skipstjóra á Beiti og spurði hann um veiðiferðina. „Við tókum eitt hol í Breiðamerkurdýpinu, toguðum í um tvo tíma og fengum 240 tonn“, sgaði Tómas. „Við vorum kallaðir inn með þennan afla, enda vilja menn gjarnan fá að skoða fiskinn sem fæst á þessum slóðum og það stóð líka vel á að fá okkur inn núna strax. Við fengum aflann 90 mílum austar en við höfum verið að veiða hingað til og það munar svo sannarlega um þá vegalengd. Það virðist vera mikið af makríl víða en menn vilja forðast það að fá síld sem meðafla og þess vegna er mest veitt þar sem unnt er að fá hreinan makríl eða því sem næst. Mér líst annars vel á vertíðina, hún fer ágætlega af stað“.
 
Vinnslan á makrílnum í fiskiðjuverinu í Neskaupstað hefur gengið vel til þessa.

Fjölskylda stýrimannsins hafði góð áhrif á fiskiríið

Alsæl fjöskylda að loknum makríltúr. Ljósm. Hákon ErnusonAlsæl fjöskylda að loknum makríltúr. Ljósm. Hákon ErnusonBörkur NK kom til hafnar í Neskaupstað í gærkvöldi með 735 tonn af makríl sem verið er að vinna í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Aflinn fékkst í fjórum holum á 15 klukkustundum þannig að aflabrögðin verða að teljast afar góð. Með í þessari veiðiferð var fjölskylda Atla Rúnars Eysteinssonar stýrimanns; Ingibjörg Ösp Jónasardóttir kona hans og synirnir Sölvi Þór sex ára og Sindri tveggja ára. 
 
Atli Rúnar var afskaplega ánægður með túrinn: „Það var ljúft og gott að hafa þau með og það er augljóst að þau eru engar fiskifælur,“ sagði Atli Rúnar. „Þau voru glöð og kát allan túrinn og hann var algjört ævintýri fyrir strákana.“  
 
Ingibjörg Ösp tók undir með manni sínum: „Þetta var rosalega skemmtilegt og það fór afar vel um okkur um borð. Skipið hreyfðist ekki og ekkert bar á sjóveiki. Ég hef einu sinni áður farið í sjóróður, en það var með pabba á dragnótabáti frá Þorlákshöfn og þá var ég sko sjóveik. Ég var feginn því að svona vel fiskaðist, en við hefðum örugglega fengið að heyra það ef illa hefði gengið. Meira að segja höfðu menn orð á því um borð að líklega væri best að setja Atla Rúnar í land og hafa okkur áfram um borð því við hefðum augljóslega góð áhrif á fiskiríið. Það var gaman að sjá hvernig þessar veiðar fara fram og litlu strákarnir skemmtu sér vel. Þeir fengu lifandi fiska, settu þá í fiskikar og fylgdust með þeim. Í karinu voru makríll, síld, nokkrir urrarar og síðan steinsuga sem vakti hvað mesta lukku. Strákunum var kennt að búa sig rétt og þeir voru með hjálma og í björgunarvestum ef farið var út á dekk. Á útstíminu og landstíminu sátum við mest í fína borðsalnum og þar var örugglega horft á tuttugu teiknimyndir. Í einu orði sagt var þessi túr frábær,“ sagði Ingibjörg Ösp að lokum. 
 

Sjávarútvegsskóli Austurlands á Fáskrúðsfirði

 Sjávarskóli

Sjávarútvegsskólinn í heimsókn í Neskaupstað. Ljósm: Sigurður Steinn Einarsson

Sl.  föstudag lauk kennslu í Sjávarútvegsskóla Austurlands á Fáskrúðsfirði en í nemendahópnum þar voru ungmenni frá Fáskrúðsfirði og Stöðvarfirði. Þar með er kennslu á vegum Sjávarútvegsskólans lokið í Fjarðabyggð þetta árið en áður hefur nemendahópum verið kennt í Neskaupstað og á Eskifirði.

                  Samkvæmt venju var nemendum á Fáskrúðsfirði boðið upp á fyrirlestra um sögu fiskveiða og fiskvinnslu og einnig um gæða- og markaðsmál. Nemendur fóru í vettvangsheimsóknir t.d. í bolfiskvinnslu Loðnuvinnslunnar og einnig um borð í skip fyrirtækisins. Þá var fiskimjölsverksmiðja Eskju heimsótt og einnig fiskiðjuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Í Neskaupstað var tekið á móti hópnum í Verkmenntaskóla Austurlands þar sem frætt var um hin fjölbreyttu störf í sjávarútvegi og hvaða menntunar störfin krefðust og eins var rannsóknastofa Matís heimsótt.

                  Að sögn kennaranna var Fáskrúðsfjarðarhópurinn einkar áhugasamur og stóð sig vel í náminu. Nú er hafinn undirbúningur fyrir næstu kennslulotu skólans en hún mun fara fram á Seyðisfirði í næstu viku. Nemendum frá Fljótsdalshéraði verður boðinn frír akstur til að sækja kennslu á Seyðisfirði. Enn er unnt að skrá sig á heimasíðu skólans, www.sjavarskoli.net.

Guðmundur Bjarnason er fallinn frá

1652

Guðmundur Bjarnason í brúnni á Berki NK í ágústmánuði sl. ljósm: Smári Geirsson

Guðmundur Bjarnason, fyrrverandi bæjarstjóri í Neskaupstað og síðar í Fjarðabyggð, lést á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað sl. laugardag eftir erfiða baráttu við illvígan sjúkdóm. Guðmundur var fæddur í Neskaupstað 17. júlí 1949 og var búsettur í fæðingarbænum allt sitt líf. Eftirlifandi eiginkona hans er Klara Ívarsdóttir og átti hann tvö stjúpbörn.

Guðmundur gegndi fjölþættum störfum um ævina og var kjörinn til setu í fjölmörgum stjórnum og ráðum. Árið 1977 hóf hann störf sem starfsmannastjóri Síldarvinnslunni og því starfi sinnti hann til ársins 1991, en þá settist hann í stól bæjarstjóra í Neskaupstað. Á árunum 1991-2005 sat hann síðan í stjórn Síldarvinnslunnar.

Ávallt fylgdist Guðmundur vel með því sem átti sér stað á vettvangi Síldarvinnslunnar og fagnaði innilega hverju framfaraskrefi sem tekið var. Forsvarsmenn fyrirtækisins leituðu einnig oft til hans og fengu hjá honum álit eða ráð þegar ástæða þótti til. Guðmundur gerði sér fullkomlega grein fyrir því að hagur sveitarfélagsins og íbúanna réðst af gengi atvinnulífsins og áhugi hans á málefnum Síldarvinnslunnar var svo sannarlega ótvíræður.

Síldarvinnslan vill þakka Guðmundi fyrir frábær störf og gott samstarf. Það er skarð fyrir skildi þegar hann er horfinn af vettvangi, en minningin um góðan dreng mun ávallt lifa.  

Makrílvertíðin hafin

Börkur NK kemur til löndunar í dag. Ljósm. Hákon ErnusonBörkur NK kemur til löndunar í dag. Ljósm. Hákon ErnusonBeitir NK kom með fyrsta makrílaflann á vertíðinni til vinnslu í fiskiðjuverinu í Neskaupstað sl. föstudag. Afli skipsins var 540 tonn sem fékkst í fjórum holum suðaustur af Vestmannaeyjum. Bjarni Ólafsson AK kom síðan með 300 tonn til vinnslu á sunnudagsmorgun.
 
Börkur NK er á landleið með 545 tonn og Beitir NK einnig, en afli hans er um 600 tonn. Skipin hafa verið að veiðum bæði  vestan og austan við Vestmannaeyjar.
 
Vinnslan í fiskiðjuverinu hefur farið vel af stað og mun væntanlega fljótlega komast góður taktur í vertíðina.

Makríl- og síldarvertíð Síldarvinnslunnar að hefjast

Beitir NK. Ljósm. Hákon ErnusonBeitir NK. Ljósm. Hákon ErnusonNú er unnið að því að undirbúa fiskiðjuver og fiskimjölsverksmiðjuna í Neskaupstað fyrir væntanlega síldar- og makrílvertíð. Fyrir komandi vertíð er búið að ráða hátt í 50 sumarstarfsmenn á vaktir í fiskiðjuverinu. 
 
Beitir NK lagði úr höfn á miðnætti í gær og hóf leit í Rósagarðinum og mun líklega hefja veiðar síðar í dag. Þá hafa heyrst fregnir af góðri makrílveiði austan og vestan við Vestmannaeyjar. 
Ráðgert er að Börkur NK fari út annað kvöld og að vaktir í fiskiðjuverinu gætu hafist um helgina.
 

Freri RE 73 verður Blængur NK 125

Hinn nýji Blængur NK-125. Ljósm. Árni SæbergHinn nýji Blængur NK-125. Ljósm. Árni SæbergSíldarvinnslan hf. hefur fest kaup á frystitogaranum Frera af Ögurvík hf.  Freri hét upphaflega Ingólfur Arnarsson og var smíðaður í skipasmíðastöðinni Astilleros Luzuriaga S.A. á Spáni. Skipið kom nýtt til landsins í janúarmánuði 1974. Það var í eigu Bæjarútgerðar Reykjavíkur til ársins 1985 en þá festi Ögurvík hf. kaup á því. Þegar Ögurvík eignaðist skipið var því breytt í frystiskip. Árið 2000 voru umfangsmiklar breytingar gerðar á skipinu en þá var það meðal annars lengt um 10 metra og aðalvél þess endurnýjuð ásamt öðrum vélbúnaði. Einnig var vinnslulínan og frystilest endurnýjuð. Skipið er 79 metra langt og búið 5000 hestafla aðalvél af gerðinni Wartsila. Það er 1723 tonn að stærð.
 
Hinn nýi Blængur mun halda til veiða í íslenskri lögsögu í næstu viku. Skipstjóri í fyrstu veiðiferðinni verður Sigtryggur Gíslason.

Undirflokkar