Bjartur með 200 tonn á einni viku

Bjartur NK. Ljósm. Hákon ErnusonBjartur NK. Ljósm. Hákon ErnusonÍsfisktogarinn Bjartur NK hélt til veiða á annan í páskum. Vegna dræmrar veiði á Austfjarðamiðum hélt hann á Selvogsbanka og fékk þar góðan þorskafla ásamt því að veiða vænan karfa á Melsekk. Eftir tvo daga á veiðum var haldið til Hafnarfjarðar og landað fullfermi eða 100 tonnum. Í Hafnarfirði biðu Bjartsmenn af sér veður en héldu til veiða á ný á föstudagsmorgun og var veitt á svipuðum slóðum og áður. Góð karfaveiði var á Tánni og í Grindavíkurdýpi en yfir nóttina fékkst þorskur, ýsa og ufsi í bland á Selvogsbankanum. Nú er Bjartur á landleið til Neskaupstaðar með fullfermi eftir þrjá daga á veiðum.
 
Skipstjóri á Bjarti er Bjarni Már Hafsteinsson.

Birtingur NK (áður Börkur) á Kanarí

Birtingur NK við bryggju í Las Palmas. Ljósm. Hjörvar M. SigurjónssonBirtingur NK við bryggju í Las Palmas. Ljósm. Hjörvar M. SigurjónssonBirtingur NK kvaddi Neskaupstað hinn 15. mars og hélt áleiðis til Las Palmas á Kanaríeyjum þar sem hann hefur verið afhentur nýjum eigendum. Pólska fyrirtækið Atlantex hefur fest kaup á skipinu og fær það nafnið Janus og einkennisstafina GDY-57 þannig að ný heimahöfn verður Gdynia í Póllandi.
 
Skipstjóri í siglingunni til Kanaríeyja var Tómas Kárason og segir hann ferðina hafa gengið vel í alla staði. „Það var siglt beint í suður, 180 gráður, alla leiðina og tók siglingin sjö og hálfan sólarhring.  Við vorum sjö um borð og nutum ferðarinnar til hins ítrasta. Þegar við vorum út af Biskajaflóanum fengum við meðvind og það var siglt á 12 mílum það sem eftir var. Þegar til Las Palmas var komið var lagst að bryggju og síðan var skipið tekið í þurrdokk. Það virðist líta vel út í alla staði og skrokkurinn og skrúfan virtust í besta standi. Í reynd hafa menn formlega kvatt þetta merka aflaskip með söknuði og óskað því velfarnaðar í höndum nýrra eigenda. Það eru margir sem hugsa til skipsins með mikilli hlýju og eiga ljúfar minningar sem tengjast því. Einn okkar manna, Hjörvar Sigurjónsson, mun fara fyrsta túrinn á skipinu eftir eigendaskiptin og mun hann miðla nýrri áhöfn af reynslu sinni,“ sagði Tómas.Birtingur NK í þurrdokk í Las Palmas. Ljósm. Hjörvar M. SigurjónssonBirtingur NK í þurrdokk í Las Palmas. Ljósm. Hjörvar M. SigurjónssonÍ gær var unnið við að mála nýtt nafn og númer á skipið. Ljósm. Tómas KárasonÍ gær var unnið við að mála nýtt nafn og númer á skipið. Ljósm. Tómas Kárason
 

Grænlandsfálki í heimsókn um borð í Gullver

Grænlandsfálki í heimsókn um borð í GullverÁ föstudaginn langa gerði ungur fálki sig heimankominn um borð í Gullver NS en þá var skipið að veiðum á Hvalbakshallinu um 50 mílur frá landi. Þegar skipverjar urðu varir við fuglinn var hann að gæða sér á gulllaxi. Ólafur K. Nielsen fuglafræðingur fékk myndir af fuglinum og telur hann að hér sé um Grænlandsfálka að ræða sem einhverra hluta vegna hefur ferðast frá sínum hefðbundnu heimaslóðum.
 
Að kvöldi föstudagsins var fuglinn fram í stafni skipsins og hímdi þar. Einn Gullversmanna gekk þá aftan að honum og tók hann upp. Í fyrstu sýndi fálkinn dálítinn mótþróa en fljótlega róaðist hann. Útbúinn var kassi sem hann hafðist við í þar til í land var komið og þá fékk hann gæðaþorsk að borða. Haft var samband við Náttúrustofu Austurlands og skoðaði fulltrúi hennar fuglinn á Egilsstöðum og var hann merktur. Að því loknu  var fálkanum sleppt og virtist hann vera í besta formi þegar hann flaug á brott.
 
Gunnlaugur Hafsteinsson vélstjóri á Gullver tók meðfylgjandi myndir af fálkanum.Grænlandsfálki í heimsókn um borð í Gullver

Togararnir landa fyrir páskana

Togað í rökkrinu. Ljósm. Guðmundur AfreðssoTogað í rökkrinu. Ljósm. Guðmundur AfreðssonTogarar Síldarvinnslunnar og dótturfélaga koma allir inn og landa fyrir páskana. Öll skipin taka hlé frá veiðum yfir hátíðina að Gullver NS undanskildum.
 
Bjartur NK kom úr sinni fyrstu veiðiferð að afloknu togararalli sl. mánudag. Hann landaði 70 tonnum í Neskaupstað og var uppistaða aflans þorskur og karfi.
 
Gullver NS landaði einnig sl. mánudag á Seyðisfirði. Aflinn var 74 tonn og rétt eins og hjá Bjarti var þorskur og karfi uppistaða aflans. Gullver hélt á ný til veiða í gærkvöldi.
 
Vestmannaeyjaskipin Vestmannaey VE og Bergey VE eru bæði að landa fullfermi, 70 tonnum, í Vestmannaeyjum í dag. Hjá báðum skipum er aflinn að mestu þorskur, ufsi og karfi.
 
Frystitogarinn Barði NK hélt til veiða hinn 27. febrúar, millilandaði snemma í marsmánuði og lauk síðan veiðiferðinni þegar hann kom til Neskaupstaðar í gær. Afli skipsins í túrnum er 600 tonn upp úr sjó, þar af rúm 400 tonn af gullkarfa.

Hafþór Eiríksson nýr verksmiðjustjóri fiskimjölsverksmiðjunnar í Neskaupstað

Hafþór Eiríksson, verksmiðjustjóri. Ljósm. Hákon ErnusonHafþór Eiríksson, verksmiðjustjóri. Ljósm. Hákon ErnusonHafþór Eiríksson hóf störf hjá Síldarvinnslunni hinn 14. mars sl. en hann hefur verið ráðinn verksmiðjustjóri fiskimjölsverksmiðjunnar í Neskaupstað. 
 
Hafþór er borinn og barnfæddur Norðfirðingur, 36 ára að aldri. Hann er meistari í vélvirkjun og lauk námi í vél- og orkutæknifræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2008. Hafþór starfaði á vélaverkstæðinu G. Skúlason í Neskaupstað áður en hann hóf háskólanám en meðfram því námi starfaði hann hjá Marel. Á árunum 2009-2012 starfaði Hafþór hjá Launafli og á árunum 2012-2016 var hann viðhaldssérfræðingur hjá Alcoa-Fjarðaáli.
 
Aðspurður segir Hafþór að sér lítist vel á hið nýja starf. „Það er svo sannarlega mikið að læra til að byrja með. Í verksmiðjunni starfa reynslumiklir úrvalsmenn og þeir verða mér innan handar. Guðjón B. Magnússon, sem er að taka við starfi öryggisstjóra, mun starfa með mér fyrstu vikurnar og ég kem til með að njóta þekkingar hans. Mér finnst þetta vera virkilega spennandi starfsvettvangur og það er alltaf ögrandi og skemmtilegt að takast á við ný verkefni,“ sagði Hafþór.

Einelti skal tekið föstum tökum


Öryggistöflur hafa verið settar upp í fiskiðjuveri og fiskimjölsverksmiðjunni í Neskaupstað. Slíkum töflum verður einnig komið upp á öðrum starfsstöðvum og í skipum Síldarvinnslunnar. Ljósm. Hákon Ernuson Öryggistöflur hafa verið settar upp í fiskiðjuveri og fiskimjölsverksmiðjunni í Neskaupstað. Slíkum töflum verður einnig komið upp á öðrum starfsstöðvum og í skipum Síldarvinnslunnar. Ljósm. Hákon Ernuson
Síðustu vikuna hefur verið mikið fjallað um einelti og áreitni um borð í fiskiskipum  og í fiskvinnslufyrirtækjum. Sú umræða er þörf, enda er einelti og áreitni á vinnustað ólíðandi, auk þess að vera brot á vinnuverndarlöggjöf. Nýleg rannsókn Salóme Rutar Harðardóttur á lífsánægju og starfsumhverfi  íslenskra sjómanna bendir til þess að allt of margir sjómenn hafi orðið fyrir einelti eða orðið vitni að því síðustu sex mánuði, eða 39%. Nýleg starfsánægjukönnun sem Austurbrú framkvæmdi fyrir Síldarvinnsluna bendir til þess að um 5% sjómanna Síldarvinnslunnar hafi einhvern tímann upplifað einelti og að 25% þeirra hafi einhvern tímann orðið vitni að slíku. Það er lægra hlutfall en í könnun Salóme, en undirstrikar samt þörfina fyrir það að vinna markvisst að því að uppræta einelti. 
 
Síldarvinnslan hefur síðustu misseri lagt aukna áherslu á að einelti verði ekki liðið og að tilkynningar eða grunur um slíkt verði tekinn alvarlega og var til að mynda nýlega haldið vandað námskeið fyrir starfsmenn um einelti og viðbrögð við því. Jafnframt er skýrt tekið fram í starfsmannastefnu fyrirtækisins að einelti og áreitni af öllu tagi sé algerlega óheimil. Að auki verður gripið til eftirfarandi aðgerða:
 
 • Starfsmenn eru hvattir til að láta vita af því ef þeir hafa orðið fyrir einelti eða áreitni, eða orðið vitni að slíku. Tilkynna má slíkt með eftirfarandi hætti:
  • Fylla má út ábendingarform og skila í lokaðan póstkassa við öryggistöflu. Slíkar töflur eru komnar upp í fiskiðjuveri og í fiskimjölsverksmiðjunni í Neskaupstað og verða í kjölfarið settar upp á öðrum starfsstöðvum og í skipum fyrirtækisins. Ábendingin má vera nafnlaus
  • Tilkynna má einelti eða áreitni til viðkomandi skipstjóra, stýrimanns, verksmiðjustjóra eða verkstjóra. Þeim ber skylda til að tryggja að málið fái faglega meðferð 
  • Tilkynna má einelti eða áreitni beint til Hákonar Ernusonar starfsmannastjóra
 • •Starfsmenn munu fá frekari fræðslu og upplýsingar um einelti og áreitni
 • •Stjórnendur munu fá sérstaka þjálfun í meðhöndlun eineltis og áreitni
 • •Ásakanir um einelti og áreitni verða rannsakaðar með markvissari hætti og tekið verður fast á brotum
 
Einelti og áreitni geta haft alvarleg áhrif á líðan fólks og heilsu og er algerlega óboðlegt að fólk verði fyrir slíku í vinnunni. Það er algerlega skýrt af hálfu fyrirtækisins að samskipti starfsmanna skuli einkennast af kurteisi og virðingu og að einelti og áreitni séu ólíðandi.
 

Blængur NK til Póllands

 Blængur NK leggur af stað til Póllands. Ljósm.Hákon Ernuson Blængur NK leggur af stað til Póllands. Ljósm.Hákon ErnusonÍ gær sigldi Blængur NK áleiðis til Gdansk í Póllandi en þar er ráðgert að vinna að umtalsverðum       breytingum og endurbótum á skipinu. Helstu verkþættirnir eru eftirfarandi:
 
 • allar vistarverur skipverja verða endurnýjaðar og eins innviðir í brúnni
 • gerðar verða breytingar á frystilest og löndunarlúga færð út í stjórnborðssíðu
 • sett verður hliðarskrúfa (270 kw) í skipið til að auðvelda því að athafna sig í höfnum
 • skipið verður allt sandblásið og málað
 • unnin verða öll hefðbundin slippverk
 
Áætlaður verktími í Póllandi er 12 vikur en að lokinni Póllandsdvöl mun skipið sigla til Akureyrar þar sem starsmenn Slippsins ehf. munu koma endurnýjaðum vinnslubúnaði fyrir á millidekki skipsins.

Loðnuveiðum Síldarvinnsluskipanna er lokið

Vilhelm Þorsteinsson EA að landa hrognaloðnu í Neskaupstað. Ljósm.Hákon ErnusonVilhelm Þorsteinsson EA að landa hrognaloðnu í Neskaupstað. Ljósm.Hákon ErnusonÍ morgun var Börkur NK á loðnumiðunum út af Snæfellsnesi og var hann að taka síðasta kast Síldarvinnsluskipanna á þessari vertíð. Nú er verið að vinna hrogn úr loðnu sem Vilhelm Þorsteinsson EA kom með í nótt til Neskaupstaðar. Afli hans er um 950 tonn. Beitir NK er á austurleið með 2000 tonn og er hann væntanlegur um miðnætti. Í kjölfar hans kemur síðan Bjarni Ólafsson AK með um 700 tonn. Afli Barkar er um 1400 tonn og verður sá farmur lokafarmurinn á þessari vertíð hjá Síldarvinnslunni.
 
Hrognavinnslan í fiskiðjuverinu í Neskaupstað hefur gengið vel og skiptir hún miklu máli hvað varðar útkomu vertíðarinnar. Annars má segja að vertíðin hafi gengið þokkalega þrátt fyrir lítinn kvóta en þar skiptir sá afli sem norsk skip lönduðu í Neskaupstað snemma á vertíðinni afar miklu máli.

Birtingur NK (áður Börkur NK) seldur úr landi – skipið hefur veitt 1.546.235 tonn á meðan það hefur verið í eigu Síldarvinnslunnar

Börkur NK Mynd 2

Börkur NK kemur til heimahafnar eftir gagngerar breytingar í Póllandi 1998.

Í gærkvöldi hélt Birtingur NK (áður Börkur NK) frá Neskaupstað áleiðis til Las Palmas á Kanaríeyjum en þangað er um átta sólarhringa sigling. Skipið hefur verið selt pólsku fyrirtæki sem ber heitið Atlantex og mun skipið fá nafnið Janus þegar það verður formlega afhent hinum nýja eiganda í Las Palmas.

                Birtingur NK á sér svo sannarlega merka sögu. Skipið var smíðað í Þrándheimi í Noregi árið 1968 fyrir norskt fyrirtæki en átti heimahöfn í Hamilton á Bermudaeyjum. Fyrstu árin var það gert út til nótaveiða við strendur Afríku en útgerðin gekk afar illa. Árið 1973 festi Síldarvinnslan kaup á skipinu og kom það í fyrsta sinn til heimahafnar í Neskaupstað hinn 10. febrúar það ár. Skipinu var gefið nafnið Börkur og vegna stærðarinnar og mikillar burðargetu var það gjarnan nefnt „Stóri-Börkur“. Og nafn skipsins var Börkur allt til ársins 2012 en þá fékk það nafnið Birtingur. Í upphafi var skipið keypt með loðnuveiðar og kolmunnaveiðar í huga.

                Lengi vel gekk erfiðlega að finna skipinu nægjanleg verkefni eftir að það komst í eigu Síldarvinnslunnar og stóð reyndar til að selja það árið 1976 en aldrei kom þó til þess. Sem dæmi um verkefni sem Börkur fékk að sinna má nefna að hann lagði stund á síld- og makrílveiðar í Norðursjó fyrstu fjögur sumrin sem Síldarvinnslan átti hann. Síðsumars árið 1975 var hann sendur til loðnuveiða í Barentshafi en fyrr um árið hafði hann veitt hrossamakríl undan ströndum norðvestur Afríku. Þá má geta þess að um árabil var Börkur nýttur til að sigla með ísaðan fisk frá Neskaupstað til Grimsby yfir sumarmánuðina og til baka flutti hann ódýra olíu sem Síldarvinnsluskipin nýttu. Með tímanum jukust síðan verkefni skipsins og var unnt að halda því úti til fiskjar á heimamiðum stærstan hluta hvers árs.

Börkur NK Mynd 1

Börkur NK eins og hann leit út til ársins 1998.

Litlar breytingar voru gerðar á Berki fyrstu 25 árin sem hann var í eigu Síldarvinnslunnar ef undan eru skilin vélaskipti árið 1979 en þá fékk skipið öflugri vél. Í janúarmánuði 1998 kom Börkur hins vegar til heimahafnar frá Póllandi þar sem gerðar höfðu verið gagngerar breytingar á skipinu. Það var lengt um tæplega 15 metra, settur á það bakki, perustefni, ný brú og allar vistarverur skipverja endurnýjaðar. Eins var allur spilbúnaður endurnýjaður, skipið útbúið til flotvörpuveiða og kælikerfi sett í lestar. Burðargetan að afloknum breytingunum var 1.800 tonn. Segja má að eftir þessar breytingar hafi harla lítið verið eftir af hinu upphaflega skipi annað en vélin. Árið 1999 hélt Börkur síðan til vélaskipta í Englandi og var þá sett í hann 7.400 hestafla vél af gerðinni Caterpillar.

                Afli Barkar (síðar Birtings) á þeim 43 árum sem hann hefur verið í eigu Síldarvinnslunnar nemur 1.546.235 tonnum og eru líkur á að ekkert íslenskt fiskiskip hafi borið jafn mikinn afla að landi. Vissulega var aflinn misjafn á milli ára, minnstur var hann í loðnuveiðibanninu 1982-1983, en mestur á árunum 2002 og 2003. Á árinu 2002 var afli skipsins 82.317 tonn og á árinu 2003 83.825 tonn.

                Í gærkvöldi heyrðu Norðfirðingar Caterpillar-hljóðið í Birtingi í síðasta sinn og víst er að margir eiga eftir að sakna þess. Hressilega var blásið í skipsflautuna í kveðjuskyni þegar látið var úr höfninni og flautan á Blængi tók undir, en hann var eina Síldarvinnsluskipið í höfn þá stundina. Á siglingunni til Las Palmas eru sjö í áhöfn Birtings, þar af þrír sem þekkja vel til þar um borð; Tómas Kárason skipstjóri, Þorsteinn Björgvinsson yfirvélstjóri og Hjörvar Sigurjónsson Moritz matsveinn. 

Hér fyrir neðan má sjá myndband af því þegar Birtingur hélt frá Neskaupstað áleiðis til Las Palmas. Myndbandið tók Hlynur Sveinsson:

 

Bjartur NK hefur lokið sínu 26. ralli

Bjartur NK að landa að loknu ralli. Ljósm. Hákon ErnusonBjartur NK að landa að loknu ralli. Ljósm. Hákon ErnusonSl. nótt kom Bjartur NK til hafnar í Neskaupstað og hefur þá lokið hlutverki sínu í togararalli ársins. Rallið hjá Bjarti tók 20 daga en það hófst 25. febrúar. Verið er að landa úr skipinu og er þetta þriðja löndunin eftir að rallið hófst. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri var ánægður með hvernig rallið tókst. „Þetta gekk prýðisvel. Veðrið var gott fyrri hluta rallsins en rysjótt síðari hlutann, þó við þyrftum aldrei að gera hlé,“ sagði Steinþór. „Það var meiri afli í þessu ralli en fyrri röllum og það er auðvitað gleðilegt. Þetta var 26. rallið hjá Bjarti og flest bendir til að það sé hið síðasta hjá þessu ágæta skipi,“ sagði Steinþór að lokum.

Nær samfelld vinnsla á loðnuhrognum í Neskaupstað

Hrognavinnsla í fiskiðjuverinu í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonHrognavinnsla í fiskiðjuverinu í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonVinnsla á loðnuhrognum hefur verið nær samfelld í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað síðustu dagana. Löndun úr Beiti NK lauk í gær. Hann var með 1700 tonn og voru hrogn unnin úr öllum farminum. Vilhelm Þorsteinsson EA kom síðan í morgun með um 1200 tonn og er verið að vinna aflann úr honum. Þá eru Börkur NK og Hákon EA á austurleið með hrognaloðnu. Börkur er með 1500 tonn og Hákon með um 1200.
 
Slegið var á þráðinn til Hjörvars Hjálmarssonar skipstjóra á Berki í morgun en þá var skipið að nálgast Rauðanúp. „Við fengum þennan afla á Breiðafirðinum en það er sannast sagna ekki mikið af loðnu þarna á ferðinni. Við vorum á veiðum í þrjá daga og köstuðum 14 sinnum þannig að aflinn var 500 - 600 tonn á dag. Nú er bræla framundan og þá vonandi breytist eitthvað til hins betra,“ sagði Hjörvar. „Það er óhætt að segja að vertíðirnar í fyrra og í ár hafi verið hálfundarlegar. Hvað veldur því veit enginn með vissu. Kannski er hvalurinn að hafa mikil áhrif en það er allt morandi í hval á miðunum en áður hefur ekki verið mikið um hval í loðnugöngum fyrir sunnan og vestan land. Við fundum til dæmis tvær álitlegar torfur í gær en það var ekki nokkur leið að kasta vegna hvals. Annars virðist loðna vera víða. Það fékk bátur loðnu við Eyjar í gær og í morgun keyrðum við yfir ágætis torfu út af Húnaflóa. Þá hefur frést af loðnu við Grímsey. Beitir er nú á vesturleið og ætlar að kíkja á loðnuna út af Húnaflóanum. Við skulum vona að það rætist eitthvað úr þessu,“ sagði Hjörvar að lokum.
 

Síldarvinnslan styrkir Knattspyrnufélag Fjarðabyggðar

Ívar Sæmundsson formaður KFF og Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar. Ljósm. Hákon ErnusonÍvar Sæmundsson formaður KFF og Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar. Ljósm. Hákon ErnusonHinn 25. febrúar sl. var undirritaður nýr styrktar- og auglýsingasamningur á milli Síldarvinnslunnar og Knattspyrnufélags Fjarðabyggðar (KFF). Síldarvinnslan hefur lengi verið í hópi þeirra fyrirtækja sem helst hafa stutt við bakið á kraftmiklu starfi Knattspyrnufélagsins.
 
Það voru þeir Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar og Ívar Sæmundsson formaður Knattspyrnufélagsins sem undirrituðu samninginn. Ívar segir að samningur sem þessi sé afar mikilvægur fyrir Knattspyrnufélagið og það sé ómetanlegt að finna þann jákvæða hug sem forsvarsmenn Síldarvinnslunnar beri til íþróttastarfsins í byggðarlaginu. „Hjá okkur er eilíf barátta að halda starfseminni úti fyrst og fremst vegna gífurlegs ferðakostnaðar. Þó svo að ítrasta aðhalds sé gætt þá er kostnaðurinn við ferðalögin óheyrilegur fyrir félögin hér eystra en í ár hjálpar það til að þrjú þeirra eiga lið í 1. deild karla, en það hefur ekki gerst áður,“ sagði Ívar. „Fyrir okkur er afar mikilvægt að finna þá velvild sem ríkir í garð Knattspyrnufélagsins hjá fyrirtækjum í Fjarðabyggð og samningurinn við Síldarvinnsluna er einmitt vitnisburður um slíka velvild,“ sagði Ívar að lokum.

Vinnslan hjá Gullbergi ehf. á Seyðisfirði gengur vel

Starfsfólk fiskvinnslustöðvar Gullbergs ehf. á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar BorgasonStarfsfólk fiskvinnslustöðvar Gullbergs ehf. á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar BogasonÞað sem af er þessu ári hefur vinnslan í fiskvinnslustöð Gullbergs ehf. á Seyðisfirði gengið afar vel og hafa 725 tonn verið unnin til þessa. Í síðustu viku var unnið úr tæplega 100 tonnum af fiski sem komu frá Gullver NS, Vestmannaey VE, Bergey VE, Björgvin EA og Björgúlfi EA.
 
Á þessu ári hefur mest verið unnið af þorski í fiskvinnslustöðinni en nú fer að líða að því að áhersla á ufsavinnslu muni aukast. Ufsaveiði hefur verið að glæðast að undanförnu úti fyrir Suðurlandi.
  
Síldarvinnslan festi kaup á fiskvinnslustöðinni og togaranum Gullver NS í lok árs 2014 og síðan hafa umsvif starfseminnar aukist mikið. Á árinu 2015 tók fiskvinnslustöðin á móti tæplega 3.400 tonnum til vinnslu og var það aukning á mótteknu hráefni frá árinu áður um rúmlega 83%.

Hrognavinnsla hafin í Helguvík og í Neskaupstað

Hrognavinnsla hafin í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Karl Rúnar Róbertsson gæðastjóri hugar að framleiðslunni. Ljósm. Hákon ErnusonHrognavinnsla hafin í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Karl Rúnar Róbertsson gæðastjóri hugar að framleiðslunni. Ljósm. Hákon ErnusonFyrsta loðnan barst til fiskimjölsverksmiðjunnar í Helguvík hinn 3. mars sl. en þá kom vinnsluskipið Vilhelm Þorsteinsson EA með 300 tonn af fráflokkaðri loðnu. Daginn eftir hófst hrognataka í Helguvík en eins og undanfarin ár er hún framkvæmd í samvinnu við Saltver í Reykjanesbæ. Fyrst voru unnin hrogn úr Berki NK, síðan úr Vilhelm Þorsteinssyni EA, þá Beiti NK og loks aftur úr Vilhelm þorsteinssyni. Að sögn þeirra Gunnars Sverrissonar og Guðjóns Helga Þorsteinssonar gengur hrognavinnslan vel. Guðjón sagði að í upphafi hefðu hrognin ekki verið búin að ná Japansgæðum en í morgun var hins vegar byrjað að frysta á Japan.
 
Hákon EA kom í nótt til Neskaupstaðar með loðnu til hrognavinnslu og hófst vinnslan þá strax. Síðan er von á Bjarna Ólafssyni AK með hrognaloðnu í nótt. 
 
Beitir NK og Börkur NK eru á miðunum. Beitir er kominn með um 2000 tonn og Börkur með um 700.

Japansfrystingu að ljúka – hrognavinnsla á næsta leiti

FV Lilly feb 2015 HE

Jóna Járnbrá Jónsdóttir fylgist með gæðum loðnunnar. Ljósm: Hákon Ernuson

Bjarni Ólafsson AK kom til Neskaupstaðar í gær með 700 tonn af loðnu og í nótt kom Beitir NK með 1500 tonn. Fryst var á Japansmarkað úr Bjarna Ólafssyni og nú er verið að frysta úr Beiti. Japansfrystingunni er að ljúka og gert er ráð fyrir að hrognavinnsla hefjist þegar lokið verður við að frysta úr Beiti. Börkur NK er í höfn í Keflavík og er áfomað að hann hefji veiðar til hrognavinnslu á morgun. 

Rífandi gangur í rallinu hjá Bjarti

Capture

Togararall 2016. Staðan 3. mars. Ljósmynd af heimasíðu Hafrannsóknastofnunar.

                Bjartur NK hélt í sitt 26. rall hinn 25. febrúar sl. Fjögur skip sinna rallinu að Bjarti meðtöldum og er honum ætlað að toga á 183 fyrirfram ákveðnum togstöðvum á svæðinu frá Eyjafirði að Gerpistotu og síðan einnig á Þórsbanka. Heimasíðan sló á þráðinn til Steinþórs Hálfdanarsonar skipstjóra á Bjarti og spurðist fyrir um hvernig gengi. „Það er rífandi gangur í þessu hjá okkur og við erum nú að kasta í togstöð númer 72 af þessum 183. Við lönduðum 45 tonnum í gær á Dalvík en veiðin hefur verið óvenju mikil hingað til miðað við fyrri röll. Það er búið að vera blíðuveður allan tímann og það á sinn þátt í því hve vel gengur. Við reiknum með að landa á ný nk. sunnudag en þá áformum við að vera búnir að toga á 25 stöðvum til viðbótar og þá verðum við hálfnaðir. Það ætti að geta gengið því við höfum verið að ná allt upp í 12 stöðvum á dag. Það er alltaf ánægjulegt þegar aflast vel í röllunum og við sjáum að það er loðna í fiski út af Skjálfanda, við Kolbeinsey og á Sléttugrunni. Þá höfum við orðið varir við loðnupeðrur allvíða,“ sagði Steinþór.

                Fylgjast má með gangi rallsins hjá Bjarti og öðrum skipum sem taka þátt í rallinu á vefslóðinni http://www.hafro.is/skip/skip.html

„Vantar allan kraft í þetta“

Beitir NK að landa loðnu í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonBeitir NK að landa loðnu í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonHeimasíðan sló á þráðinn til Tómasar Kárasonar skipstjóra á Beiti í morgun. Skipið var þá á Herdísarvíkinni og var að bíða eftir að dálítill loðnublettur gæfi sig. Loðnuflotinn er nú mest að leita á öllu svæðinu frá Reykjanesi og austur að Vestmannaeyjum en eins fékkst loðna í Fjallasjónum í gær. „Í reyndinni var ágætt í gær og þá fengum við 600-700 tonn og erum komnir með 800 tonn um borð,“ sagði Tómas. „Það virðist vera mun minni áta í loðnunni sem fékkst í gær en hefur verið að undanförnu, en átan hefur auðvitað skapað mikil vandræði í vinnslunni. Vonandi rætist úr þessu þegar kemur fram á daginn en í sannleika sagt vantar allan kraft í þetta,“ sagði Tómas að lokum.

Síldarvinnslan styrkir Þrótt

DSC039611

Stefán Már og Gunnþór við undirritun samningsins. Ljósm: Smári Geirsson

                Miðvikudaginn 24. febrúar sl. var styrktar- og auglýsingasamningur á milli Síldarvinnslunnar hf. og Íþróttafélagsins Þróttar undirritaður á skrifstofum Síldarvinnslunnar.  Hér er um að ræða endurnýjun á samningi sem verið hefur í gildi undanfarin ár. Það voru þeir Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar og Stefán Már Guðmundsson formaður Þróttar sem undirrituðu samninginn.

                Gunnþór sagði í samtali við heimasíðuna að Síldarvinnslan væri stolt af því að vera einn af helstu styrktaraðilum Þróttar. „Starfsemi félagsins er fjölbreytt og kraftmikil og það gegnir mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Í reyndinni er heiður að fá að leggja sitt af mörkum til þess að starfsemi félagsins haldi áfram að vera jafn gróskumikil og hingað til,“ sagði Gunnþór.

                Stefán Már Guðmundsson formaður Þróttar sagði að samningurinn skipti félagið miklu máli. „Forsendan fyrir öflugri starfsemi Þróttar er sú velvild sem ríkir í garð félagsins í samfélaginu. Þróttur vill bjóða börnum og ungmennum upp á góða og faglega þjálfun í öllum þeim greinum sem félagið sinnir og það er í reynd samfélagsleg nauðsyn að halda úti metnaðarfullu íþróttastarfi. Fyrir Þrótt er algerlega ómetanlegt að eiga fyrirtæki á borð við Síldarvinnsluna sem sýna félaginu áhuga og skilning. Stuðningur eins og sá sem felst í samningnum við Síldarvinnsluna er stórkostlegur fyrir samfélagið allt og það er gleðilegt að heyra að forsvarsmenn Síldarvinnslunnar telja að þeim fjármunum sem ráðstafað er til að styrkja Þrótt sé vel og skynsamlega varið,“ sagði Stefán.

Bjartur heldur í togararall í 26. sinn

DSC039641

Bjartur NK undirbúinn fyrir sitt 26. togararall. Ljósm: Hákon Ernuson

                Bjartur NK er það skip sem oftast hefur tekið þátt í togararalli. Í dag er ráðgert að hann haldi í sitt 26. rall. Togararall hefur farið fram árlega frá 1985 og er það mikilvægur þáttur í árlegu mati á stofnstærð botnfiska við landið. Hafrannsóknastofnun leitaði eftir tilboðum til þátttöku skipa í rallinu og varð niðurstaðan sú að auk Bjarts mun Ljósafell SU annast rallið þetta árið ásamt hafrannsóknaskipunum  Árna Friðrikssyni og Bjarna Sæmundssyni.

                Í rallinu mun Bjartur toga á 183 fyrirfram ákveðnum togstöðvum á svæðinu frá Eyjafirði að Gerpistotu og síðan á Þórsbanka suður að miðlínu. Að sögn Steinþórs Hálfdanarsonar skipstjóra á Bjarti er gert ráð fyrir að rallið taki um tuttugu daga en landað verði einu sinni á meðan á rallinu stendur. Steinþór segir að það sé ágætis tilbreyting fyrir áhöfnina að taka þátt í rallinu og sá tími einkennist af öðrum þankagangi en þegar hefðbundnar veiðar séu stundaðar. Þá sé líka afar ánægjulegt að taka þátt í ralli sem skilar jákvæðri niðurstöðu og ávallt vonist menn eftir slíkri niðurstöðu.

Japansfrysting hafin og kolmunna landað

DSC03951

Norska skipið Norderveg að landa kolmunna í Neskaupstað. Ljósm: Hákon Ernuson

Japansfrysting er hafin í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Hrognafylling loðnunnar er nægjanleg til að unnt sé að frysta hana fyrir Japansmarkað. Beitir NK kom í gær með 820 tonn af loðnu og er verið að frysta úr honum núna. Vilhelm Þorsteinsson EA kom í morgun með fullfermi af frystri loðnu.

Í nótt kom norska skipið Norderveg til Neskaupstaðar með 2300 tonn af kolmunna og er verið að landa úr því.

 

Undirflokkar