Kolmunnaskipin halda til veiða

Gott kolmunnahol. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonGott kolmunnahol. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonKolmunnaskipin sem legið hafa í Norðfjarðarhöfn að undanförnu halda nú til veiða í færeysku lögsöguna hvert af öðru. Polar Amaroq lét úr höfn um hádegi í gær og Beitir NK í morgun. Gert er ráð fyrir að Bjarni Ólafsson AK sigli í kjölfar þeirra á fimmtudag. Börkur NK er hins vegar í slipp á Akureyri og mun væntanlega ekki fara niður fyrr en á fimmtudag.
 
Samkvæmt nýjustu heimildum eru heldur litlar fréttir af veiði í færeysku lögsögunni. Þar eru rússnesk og færeysk skip að veiðum eins og er.
 
 
 
 

Örlagaríkt fótbrot

Börkur NK lætur úr höfn um mánaðamótin maí/júní 1976 áleiðis í Norðursjó. Norðfirðingar gerðu ekki ráð fyrir að sjá skipið á ný. Ljósm. Björn Björnsson yngriBörkur NK lætur úr höfn um mánaðamótin maí/júní 1976
áleiðis í Norðursjó. Norðfirðingar gerðu ekki ráð fyrir að
sjá skipið á ný. Ljósm. Björn Björnsson yngri
Síldarvinnslan festi kaup á stóru uppsjávarskipi árið 1973. Skipið fékk nafnið Börkur og var gjarnan nefnt Stóri-Börkur á sínum tíma. Gert var ráð fyrir að Börkur myndi henta vel til loðnuveiða og eins voru bundnar vonir við að skipið gæti veitt kolmunna. Kaupin á Berki vöktu nokkra athygli og þótti sumum að þau einkenndust af mikilli bjartsýni.
 
Erfiðlega gekk að finna næg verkefni fyrir Börk fyrstu árin eftir að skipið var keypt. Loðnuvertíðin var stutt og kolmunnaveiðarnar gengu ekki sem skyldi. Reynt var að finna ný verkefni fyrir skipið og haustið 1975 var það sent til loðnuveiða í Barentshafi ásamt fleiri íslenskum skipum og síðar þetta sama haust lagði það stund á makrílveiðar undan ströndum norðvestur Afríku.
 
Að því koma að stjórn Síldarvinnslunnar taldi óhjákvæmilegt að setja Börk á söluskrá vegna verkefnaskorts. Ekki var þess langt að bíða að fyrirspurnir bærust um kaup á skipinu og komu þær frá norskum útgerðarfyrirtækjum. Í maímánuði 1976 kom norskur útgerðarmaður til Neskaupstaðar í þeim tilgangi að skoða Börk með kaup í huga. Leiddi sú skoðun til þess að undirritaður var bráðabirgðasamningur um kaupin en í samningnum voru nokkrir fyrirvarar. Samkvæmt samningnum var gert ráð fyrir að Börkur yrði afhentur norska kaupandanum hinn 15. júlí og yrði skipið afhent með veiðarfærum. Í stað Barkar ráðgerði Síldarvinnslan að festa kaup á togara.
 
Ekki voru allir sáttir við þá ákvörðun að selja Börk og bentu á að nýlokið væri við byggingu nýrrar loðnuverksmiðju í Neskaupstað í stað þeirrar sem eyðilagðist í snjóflóði 1974 og því væri nauðsynlegt fyrir fyrirtækið að eiga öflugt loðnuskip.
 
Börkur NK tók kveðjuhring á Norðfirði áður en lagt var af stað í Norðursjóinn. Ljósm. Björn Björnsson yngriBörkur NK tók kveðjuhring á Norðfirði áður en lagt var af
stað í Norðursjóinn. Ljósm. Björn Björnsson yngri
Þegar þarna var komið sögu hafði Síldarvinnslunni verið úthlutað 340 tonna síldarkvóta í Norðursjó fyrir Börk og var ákveðið að skipið héldi þangað til síldveiða um mánaðamótin maí-júní. Áður en Börkur lagði af stað var gengið frá öllu um borð með það í huga að skipið yrði síðan afhent nýjum eiganda í Danmörku þegar síldveiðinni lyki. Börkur hafði verið tekinn vel í gegn og var nýmálaður og fínn. Síldarnótin var í nótakassanum og loðnunótin í lestinni enda áttu veiðarfærin að fylgja skipinu til nýs eiganda. Þegar Börkur lét úr höfn tók hann hring á firðinum og flautaði með skipsflautunni í kveðjuskyni. Norðfirðingar áttu ekki von á því að sjá Stóra-Börk á ný.
 
Á meðan Börkur var við síldveiðarnar í Norðursjó fóru Síldarvinnslumenn til Noregs og skoðuðu þar 400 tonna togara sem mögulegt var að kaupa þegar salan á Berki yrði að veruleika. Væntanlegur kaupandi Barkar ætlaði að koma til Danmerkur og skoða skipið enn frekar áður en af kaupunum yrði. Bið varð á því að kaupandinn skilaði sér og loks bárust þær fréttir að hann hefði fótbrotnað og væri ekki ferðafær eins og á stæði. 
 
Aflaskipið Börkur NK með fullfermi af loðnu, en alls fiskaði skipið yfir 1,5 milljón tonna á meðan það var í eigu SíldarvinnslunnarAflaskipið Börkur NK með fullfermi af loðnu,
en alls fiskaði skipið yfir 1,5 milljón tonna á meðan það var í eigu Síldarvinnslunnar
Einmitt á þeim tíma sem beðið var eftir norska kaupandanum í Norðursjó hófust sumarloðnuveiðar í fyrsta sinn við Ísland. Börkur var samstundis kallaður heim úr Norðursjónum og sendur til loðnuveiða fyrir norðan land. Tilkoma sumarloðnuveiðanna breytti miklu hvað söluáformin varðaði og brátt tók stjórn Síldarvinnslunnar ákvörðun um að taka Stóra-Börk af söluskrá.
 
Fótbrot norska útgerðarmannsins skipti miklu máli í þessari sögu. Ekki er ólíklegt að ef norski útgerðarmaðurinn hefði komið til Danmerkur á tilsettum tíma hefði skipið verið selt. Einn stjórnarmanna Síldarvinnslunnar hafði orð á því síðar að þarna hefðu örlögin gripið inn í og fótbrotið reynst gæfuríkt fyrir Síldarvinnsluna. Hér skal það rifjað upp að Stóri-Börkur var í eigu Síldarvinnslunnar allt til ársins 2016 og bar reyndar nafnið Birtingur á árunum 2012-2016. Afli skipsins á þeim 43 árum sem það var í eigu Síldarvinnslunnar nam 1.546.235 tonnum sem er með því almesta sem íslenskt skip hefur borið að landi.
 
 
 
 
 
 
 
 

Blængur með fullfermi

Landað úr Blængi NK. Ljósm. Smári GeirssonLandað úr Blængi NK. Ljósm. Smári GeirssonFrystitogarinn Blængur NK kom til Neskaupstaðar í morgun að afloknum tuttugu og fjögurra daga túr, en haldið var til veiða hinn 10. mars. Aflinn er rúmlega 600 tonn upp úr sjó og er frystilestin sneisafull. Uppistaða aflans er karfi og ýsa og er verðmæti hans 181 milljón króna. Í veiðiferðinni var gullkarfi veiddur á Melsekk, djúpkarfi í Skerjadýpinu og ýsa á Selvogsbanka. Theodór Haraldsson skipstjóri segir að þetta hafi verið fínasti túr hvað veiðina varðar en veðrið hafi verið djöfullegt nánast allan tímann. „ Í sannleika sagt var veðrið einungis skaplegt síðustu tvo dagana. Einu sinni fórum við í var við Garðskagann en þá var veðrið snarvitlaust og tíu metra ölduhæð. Í túrnum vorum við tvo sólarhringa frá veiðum vegna veðurs en annars var oft verið að veiða í vitlausu veðri. Manni fannst vera blíða þegar hann fór undir fimmtán metrana. Veðurfarslega var þetta fjarri því að vera skemmtileg veiðiferð en það var hins vegar ávallt góð veiði,“ segir Theodór.
 
Gert er ráð fyrir að Blængur haldi aftur til veiða á sunnudagskvöld.

Kolmunnaflotinn bíður átekta

Kolmunnaflotinn í Norðfjarðarhöfn. Frá vinstri: Bjarni Ólafsson AK, Börkur NK, Beitir NK og Polar Amaroq.  Ljósm. Smári GeirssonKolmunnaflotinn í Norðfjarðarhöfn. Frá vinstri: Bjarni
Ólafsson AK, Börkur NK, Beitir NK og Polar Amaroq.
Ljósm. Smári Geirsson
Í Norðfjarðarhöfn liggja kolmunnaskip og er þess beðið að kolmunninn gangi inn í færeyska lögsögu svo veiðar geti hafist þar. Skipin veiddu í alþjóðasjó vestur af Írlandi í febrúar- og marsmánuði en þegar kolmunninn gekk inn í Evrópusambandslögsögu var gert hlé á veiðunum. Í fyrra hófust veiðar í færeysku lögsögunni snemma í aprílmánuði og var kolmunna sem þar veiddist fyrst landað á Seyðisfirði og í Neskaupstað 12. og 13. apríl. Veiðarnar í færeysku lögsögunni í fyrra fóru afar vel af stað og var mikið af fiski að sjá. Nú er beðið kolmunnafrétta úr lögsögunni við Færeyjar og eru kolmunnaskipin í Norðfjarðarhöfn í startholunum.

Skipstjóri í 40 ár

Gísli Runólfsson skipstjóri. Ljósm. Smári GeirssonGísli Runólfsson skipstjóri. Ljósm. Smári GeirssonUm þessar mundir eru liðin 40 ár frá því að skipstjóraferill Gísla Runólfssonar hófst. Gísli er Skagamaður og öll skip sem hann hefur stýrt hafa borið sama nafnið; Bjarni Ólafsson. Bjarni Ólafsson AK  landaði kolmunnaafla á dögunum og að löndun lokinni settist tíðindamaður heimasíðunnar niður með Gísla í þeim tilgangi að spjalla um skipstjóraferilinn á þessum tímamótum.
 
Í fyrstu var spurt út í æskuna og fyrstu kynni af sjómennsku. „Ég er fæddur á Akranesi 1958. Foreldrar mínir voru Runólfur Hallfreðsson skipstjóri og síðar útgerðarmaður og Ragnheiður Gísladóttir kona hans. Ég ólst upp við sjóinn og það var alltaf gert ráð fyrir að ég færi á sjó – í reyndinni var ekkert val í þeim efnum. Ég fór í fyrsta sinn með pabba á sjóinn 10 ára gamall. Hann var þá með Jörund III og var að veiðum með ufsanót. Við veiddum eitthvað út af Garðskaga en meðan á veiðiferðinni stóð skall á verkfall og því var ekki unnt að landa hér á landi. Ákveðið var að sigla til Cuxhaven og selja aflann þar. Á leiðinni var komið við í Vestmanna í Færeyjum til að taka kost. Eftir löndun í Cuxhaven var kastað í síld við Shetlandseyjar. Þessi fyrsta sjóferð mín átti að taka eina helgi en við komum ekki heim fyrr en eftir þrjár vikur. Það má segja að þetta hafi verið góð eldskírn fyrir 10 ára strákpjakk. Oft eftir þetta fór ég með pabba á sjóinn og eftir að hann hóf útgerð byrjaði ég kornungur að vinna við bátinn.  Öll fjölskyldan tók þátt í að þrífa bátinn og mála hann á sumrin auk þess sem hún sinnti fleiri verkum. Þetta var sannkölluð fjölskylduútgerð. Ég á tvo bræður og tvær systur og báðir bræðurnir fóru á sjóinn rétt eins og ég. Sigurjón var lengi stýrimaður á Bjarna Ólafssyni og Runólfur hefur verið skipstjóri á móti mér í ein 20 ár og hafði verið stýrimaður í nokkur ár þar á undan.“
 
Gísli Runólfsson 10 ára gamal um borð í Jörundi IIIGísli Runólfsson 10 ára gamall um borð í Jörundi IIIEn hvenær hófst hinn eiginlegi sjómannsferill ? „Ég fór fyrst sem háseti árið 1975. Það var á fyrsta Bjarna Ólafssyni sem áður hafði borið nafnið Börkur, en útgerðarsaga föður míns hófst einmitt þegar sá bátur var keyptur árið 1972. Þarna var farið á síld í Norðursjóinn og auðvitað var það heilmikill skóli fyrir mig. Haustið 1974 fór ég síðan í Stýrimannaskólann og honum lauk ég 1978. Á meðan ég var í skólanum var ég öll sumur á sjónum og eins í öllum fríum. Pabbi hafði fest kaup á öðrum Bjarna Ólafssyni um áramótin 1977-1978 og þegar ég var kominn með stýrimannaprófið var ég ráðinn annar stýrimaður á hann. Ég fór austur til Neskaupstaðar þar sem báturinn lá í höfn og einmitt þegar ég var nýbyrjaður hætti fyrsti stýrimaðurinn þannig að ég færðist upp í hans stöðu. Þarna var semsagt pabbi skipstjóri á bátnum og ég fyrsti stýrimaður tvítugur að aldri en það þótti sumum dálítið ungt. Veturinn 1979 fórum við á loðnu en þá var pabbi orðinn veikur og þurfti fljótlega að fara í land. Fyrirvaralaust ákvað hann að láta mig taka kast út af Reykjanesi. Það drapst á vélinni í miðju kasti en allt fór samt vel. Hann hafði ekki minnst á það einu orði að hann væri að fara í land þegar hann lét mig kasta þarna en eftir kastið sagði hann mér frá því og hann hefði viljað sjá að ég réði við verkefnið áður en ég tæki við skipstjórninni.“
 
Hvernig gekk eftir að þú tókst við af föður þínum ? „Það gekk merkilega vel. Við urðum með aflahæstu skipum á þessari loðnuvertíð og ég var bara sáttur við árangurinn. Í áhöfninni voru menn sem höfðu verið lengi með pabba á sjónum en eftir vertíðina hættu þeir allir. Þeir þoldu ekki að vera undir svona strákpjakki. Eftir þetta varð til ný áhöfn og ég hef verið afskaplega heppinn með mannskap í gegnum tíðina. Það er ekki hægt að ná góðum árangri í veiðum nema vera með góðan mannskap.“
Feðgarnir Runólfur Hallfreðsson og Gísli Runólfsson um borð Í Bjarna Ólafssyni AK árið 1997Feðgarnir Runólfur Hallfreðsson og Gísli Runólfsson
um borð Í Bjarna Ólafssyni AK árið 1997
Hefur útgerðin ávallt lagt megináherslu á uppsjávarveiðar ? „ Já, uppsjávarveiðarnar hafa ávallt verið númer eitt, tvö og þrjú hjá okkur. Við vorum hins vegar lengi með skipið á rækjuveiðum á sumrin. Þegar loðnuveiðibannið reið yfir á árunum 1982-1983 var síðan farið á fiskitroll. Loðnuveiðar eru að mínu mati skemmtilegustu veiðarnar og reyndar hafa kolmunnaveiðar hin síðari ár verið býsna skemmtilegar. Annars er allt skemmtilegt þegar maður fær að fiska. Það er ágætt að veiða makrílinn og síldina en þær veiðar taka afar mikið tillit til vinnslunnar og oft erum við kallaðir í land með tiltölulega lítinn afla. Það fer svolítið í taugarnar á veiðimanninum en auðvitað er þetta skiljanlegt því öllu máli skiptir að fá sem mest verðmæti út úr aflanum.“
 
Nú stýrir þú fjórða bátnum sem ber nafnið Bjarni Ólafsson og guli liturinn á bátunum gerir það að verkum að það er tekið eftir þeim. Hefur nýr bátur alltaf þýtt framför ? „Það er ýmislegt sem hefur breyst hvað varðar okkar útgerð. Það er rétt, nú gerum við út fjórða bátinn sem ber nafnið Bjarni Ólafsson og allir þessar bátar hafa reynst afar vel. Reyndar hafa þessir bátar alltaf orðið betri og betri og núverandi bátur, sem keyptur var árið 2015, er afar gott veiðiskip. Bátar útgerðarinnar hafa skorið sig nokkuð úr því þeir hafa verið gulir á litinn, en gulur litur er ekki algengur á fiskiskipum og þykir víst vera dálítið ópraktískur. Pabbi velti fyrir sér litnum á bátnum á sínum tíma og hann ráðfærði sig við kunningja sinn sem var listmálari. Kunninginn hafði þau áhrif að guli liturinn varð ofan á og núna er Bjarni Ólafsson eini guli báturinn í uppsjávarflotanum en í sannleika sagt er hræðilegt verkefni að láta gulan bát líta þokkalega vel út.“
 
Bjarni Ólafsson AK að makrílveiðum árið 2018. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonBjarni Ólafsson AK að makrílveiðum árið 2018.
Ljósm. Helgi Freyr Ólason
Eignarhaldið á útgerðinni hefur tekið töluverðum breytingum. Er það ekki rétt ? „Jú, á sínum tíma eignaðist SR hlut í bátnum. Sá hlutur var líklega um 10%. Þegar SR var síðan sameinað Síldarvinnslunni árið 2003 hófust samskipti okkar við Síldarvinnslumenn. Árið 2016, þegar báðir foreldrar mínir voru fallnir frá, eignaðist Síldarvinnslan stóran hlut í útgerðinni eða um 75%. Nú eigum við skipstjórarnir um 25% í útgerðinni á móti Síldarvinnslunni og í einu orði sagt hefur öll samvinna gengið frábærlega vel. Síldarvinnslan er traust og gott fyrirtæki sem er vel stjórnað og það er mikið happ fyrir okkur að hafa tengst því. Það er líka frábært fyrir uppsjávarskip að hafa alla aðstöðu í Neskaupstað. Við höfum lengi haft tengsl við staðinn en þau hafa eðlilega aukist mjög nú síðustu árin.“
 
Það hefur ýmislegt breyst á þessum 40 árum, er ekki svo ? „Jú, það hefur margt breyst og yfirleitt í jákvæða átt. Skip, veiðarfæri og allur búnaður hefur þróast og allt orðið sífellt betra og fullkomnara. Þessi 40 ár hafa verið fljót að líða. Það hefur ekkert stórvægilegt neikvætt átt sér stað á skipstjórnarferlinum og fyrir það ber að þakka. Það hefur ekkert gerst sem ástæða er til að skammast sín mikið  fyrir. Ég er afskaplega sáttur við mitt hlutverk í lífinu og ég horfi bjartsýnn til framtíðar.“  
 

Adolf Guðmundsson lætur af störfum

Adolf Guðmundsson.  Ljósm. Ómar BogasonAdolf Guðmundsson. Ljósm. Ómar BogasonNú um mánaðamótin lét Adolf Guðmundsson af störfum sem rekstrarstjóri Síldarvinnslunnar hf. á Seyðisfirði. Í tilefni af því spjallaði heimasíðan við hann og fræddist um starfsferil hans. „Ég kom til Seyðisfjarðar 1973, 19 ára gamall. Þá hafði ég verið ráðinn til að þjálfa knattspyrnu og handknattleik hjá Hugin. Ég þjálfaði knattspyrnuna í tvö ár en handknattleikinn í 15 ár og lék með í allnokkurn tíma. Það var gaman að þjálfa og árangurinn hjá kvennaliði Hugins á þessum tíma er eftirminnilegur og eins hjá kvennaliði UÍA sem ég þjálfaði einnig. Ég byrjaði að starfa í frystihúsinu á Seyðisfirði árið 1974 og segja má að ég hafi verið viðloðandi húsið meira og minna frá þeim tíma. Á Seyðisfirði kynntist ég konunni minni, Theodóru Ólafsdóttur, en hún er dóttir Ólafs Ólafssonar útgerðarmanns. Þannig tengdist ég útgerðinni og fiskvinnslunni á staðnum órjúfanlegum böndum.“
 
En hvenær tókst þú við stjórnunarstörfum? „ Ég tók við sem framkvæmdastjóri útgerðarfélagsins Gullbergs síðla árs 1982 og var því framkvæmdastjóri félagsins í 32 ár, eða þar til Síldarvinnslan festi kaup á því árið 2015. Ég var jafnframt ráðinn framkvæmdastjóri Fiskvinnslunnar hf. árið 1985 og stýrði því fyrirtæki þar til það varð gjaldþrota árið 1989. Frá því að gjaldþrotið átti sér stað hafa nokkur fyrirtæki komið að rekstri frystihússins á Seyðisfirði. Fyrst var það Dvergasteinn, síðan Skagstrendingur, þá Útgerðarfélag Akureyringa og loks Brimberg. Brimberg var stofnað 2003 og varð ég strax stjórnarformaður fyrirtækisins og sá reyndar um allan daglegan rekstur síðustu tvö árin sem það starfaði. Síldarvinnslan festi kaup á Brimbergi um leið og hún keypti Gullberg og var þá útgerðin og fiskvinnslan sameinuð undir nafni Gullbergs. Á þessum tíma tók ég við starfi rekstrarstjóra Gullbergs og gegndi því þar til nú, en Gullberg var reyndar sameinað Síldarvinnslunni um áramótin 2016-2017.“
 
Hvernig hefur rekstur útgerðar og fiskvinnslu gengið eftir að þú hófst afskipti af rekstrinum.  „Í sannleika sagt hefur útgerðin yfirleitt gengið vel en rekstur frystihússins oft verið erfiður eins og sést á alltíðum eigendaskiptum. Það var til dæmis erfitt að upplifa gjaldþrot Fiskvinnslunnar árið 1989 en þá fór fyrirtækið afar illa á skreiðarævintýri sem orsakaði mikið tap.“
 
Er ekki söknuður af því að hverfa af vettvangi sjávarútvegsins? „ Jú, vissulega er það söknuður, en allt fær sinn enda. Ég hef starfað hér á Seyðisfirði en einnig tekið þátt í félagsstarfi innan greinarinnar. Ég hef átt sæti í stjórnum Útvegsmannafélags Austfjarða, Samtaka fiskvinnslustöðva, Landssambands íslenskra útvegsmanna og Samtaka atvinnulífsins og þessar stjórnarsetur hafa fært mér mikið og ég bý að þeirri reynslu. Sérstaklega er eftirminnilegt að hafa gegnt stjórnarformennsku í Landssambandi íslenskra útvegsmanna um fimm ára skeið. Þá hef ég einnig tekið að mér ýmis önnur verk sem verið hafa gefandi. Það er gott að hafa komið víða við og öll þessi störf auka víðsýni manns.“
 
Hvernig hefur starfsemin á Seyðisfirði gengið eftir að Síldarvinnslan kom að henni ? „Hún hefur gengið vel og allt samstarf við Síldarvinnsluna hefur verið eins og best verður á kosið.  Ég vil nota þetta tækifæri og senda kveðju til allra samstarfsmanna í gegnum tíðina og þakka fyrir liðin ár. Ég kveð sáttur og glaður og óska Síldarvinnslunni alls hins besta í framtíðinni.“

Smíðin á Vestmannaey og Bergey á áætlun

Smíðin á Vestmannaey gengur samkvæmt áætlun. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonSmíðin á Vestmannaey gengur samkvæmt áætlun.
Ljósm. Guðmundur Alfreðsson
Smíðin á Vestmannaeyjarskipunum Vestmannaey og Bergey í Aukra í Noregi gengur samkvæmt áætlun, en skipin eru hluti af sjö skipa raðsmíðaverkefni sem íslensk útgerðarfyrirtæki sömdu um við fyrirtækið Vard. Gert er ráð fyrir að Vestmannaey verði afhent útgerðarfélaginu Bergi-Hugin, dótturfélagi Síldarvinnslunnar, í júnímánuði nk. en Bergey nokkru síðar.
 
Í Vestmannaey er vinna í vélarúmi langt komin, byrjað að setja upp veggi í klefum áhafnar og langt komið með að klæða lestina. Í reynd er unnið alls staðar í skipinu og mikið um að vera á flestum stöðum. Í næstu viku mun suðuvinnu ljúka við skipið utanvert en föstudaginn 5. apríl er ráðgert að skipið verði dregið út úr húsi. Þegar út verður komið verður tjaldað yfir skipið og síðan unnið við sandblástur og þrif áður en kemur að málningarvinnunni. Sjósetning er síðan áformuð 26. apríl. Eftir sjósetningu verður síðan unnið við að ganga frá ýmsum búnaði og prófa hann.
 
Smíðin á Bergey er ekki eins langt komin enda á að afhenda skipið síðar eins og fyrr greinir.
 
Eftirlitsmaður með smíði skipanna hjá Vard er Baldur Kjartansson vélfræðingur og honum til aðstoðar er Marius Petcu.
Baldur Kjartansson og Marius Petcu hafa eftirlit með smíði skipanna. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonBaldur Kjartansson og Marius Petcu hafa eftirlit með smíði skipanna.
Ljósm. Guðmundur Alfreðsson
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

Veður truflar og oft landað

Peyjarnir á Vestmannaey VE í aðgerð. Ljósm. Valtýr AuðbergssonPeyjarnir á Vestmannaey VE í aðgerð.
Ljósm. Valtýr Auðbergsson
Veður hefur að undanförnu haft mikil áhrif á veiðar Vestmannaeyjaskipanna Vestmannaeyjar VE og Bergeyjar VE. Sannleikurinn er sá að þau hafa þurft að veiða í skjóli af Eyjunum og ekki komist á önnur mið vegna veðurs. Að sögn Arnars Richardssonar rekstrarstjóra eru skipstjórar skipanna enn ekki alveg sáttir við fiskiríið að undanförnu og telja að fiskgengd sé heldur minni en síðustu ár. Aflinn hefur að mestu verið þorskur en nú er beðið eftir að ýsa gangi á miðin. Bæði skipin leggja mikla áherslu á ýsuveiðar.
 
Arnar segir að skipin hafi gjarnan landað á tveggja daga fresti að undanförnu. Sem dæmi nefnir hann að Vestmannaey hafi haldið til veiða sl. fimmtudagsmorgun og landað síðla sama dag 20 tonnum. Farið var út að löndun lokinni og landað fullfermi eða um 70 tonnum á laugardag. Strax eftir löndun var farið út og komið að landi á sunnudagskvöld með 55 tonn. Landað var úr skipinu í gærmorgun og síðan var haldið til veiða á ný síðdegis í gær. Bergey hefur verið á svipuðu róli og Vestmannaey að undanförnu.

Kolmunna landað og síðan veiðihlé

Hákon EA að landa kolmunna í Neskaupstað sl. föstudag. Ljósm. Smári GeirssonHákon EA að landa kolmunna í Neskaupstað sl. föstudag.
Ljósm. Smári Geirsson
Fjögur skip lönduðu kolmunna í verksmiðjur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og á Seyðisfirði um og fyrir sl. helgi. Bjarni Ólafsson AK kom til Seyðisfjarðar á fimmtudagskvöld með rúmlega 1.600 tonn og í kjölfar hans kom Beitir NK aðfaranótt laugardagsins með rúmlega 2.000 tonn. Hákon EA kom til Neskaupstaðar aðfaranótt föstudagsins og landaði rúmlega 900 tonnum í verksmiðjuna ásamt því að landa um 230 tonnum af frystum afla. Á laugardag var síðan landað rúmlega 1.900 tonnum úr Berki NK í Neskaupstað.
 
Að loknum þessum löndunum verður gert hlé á kolmunnaveiðum að sinni enda heldur fiskurinn sig ekki lengur í alþjóðasjónum vestur af Írlandi. Áformað er að skipin haldi á ný til veiða eftir tíu daga eða svo þegar gera má ráð fyrir að kolmunninn hafi gengið inn í færeyska lögsögu.
 
Frá því að fyrsti kolmunnafarmurinn á árinu barst til Síldarvinnslunnar í janúar sl. hefur fyrirtækið tekið á móti 39.674 tonnum til vinnslu. Til Neskaupstaðar hafa borist 26.544 tonn og til Seyðisfjarðar 13.130 tonn.
 

Jafn og góður afli það sem af er ári

Gullver NS kemur til löndunar. Ljósm. Ómar Bogason.Gullver NS kemur til löndunar. Ljósm. Ómar Bogason.Ísfisktogarinn Gullver NS kom til Seyðisfjarðar í gærmorgun að lokinni veiðiferð og var aflinn rúmlega 82 tonn. Uppistaða aflans var þorskur og karfi. Þórhallur Jónsson skipstjóri segir að vel hafi gengið að veiða en veðrið hafi hins vegar verið leiðinlegt. „Þorskinn fengum við á Fætinum en karfann í Hornafjarðardýpi og Öræfagrunni. Það hefur verið góður afli það sem af er árinu en í febrúar og það sem af er marsmánuði hafa verið bölvaðar brælur. Menn eru orðnir hálfþreyttir á veðurlaginu. Það hefur verið meiri fiskur hérna fyrir austan en verið hefur á þessum árstíma síðustu tvö árin. Síðustu tvö ár þurftum við að fara vestur á Selvogsbanka til að fá þorsk í mars- og aprílmánuði en nú er staðan allt önnur,“ segir Þórhallur.
 
Til stóð að Gullver héldi til veiða á ný í gærkvöldi en vegna veðurs var brottför frestað. Gert er ráð fyrir að skipið leggi úr höfn í kvöld.

Þyrluæfing hjá Blængsmönnum

Þyrluæfing hjá BlængsmönnumÍ gærdag æfðu skipverjar á Blængi NK að taka á móti björgunarþyrlu Landhelgisgæslunnar út af Helguvík. Áður hafði áhöfnin æft notkun léttabátsins um borð við Hafnarfjörð. Blængur hafði verið að veiðum á Eldeyjarbanka en þurfti að sigla í var vegna veðurs og þá var tíminn nýttur til björgunaræfinga. Heimasíðan sló á þráðinn til Theodórs Haraldssonar skipstjóra og spurði hann sérstaklega út í þyrluæfinguna. „Ég hafði samband við þyrluna og því var vel tekið að nýta tímann til æfinga. Áhöfn þyrlunnar,TF SYN, æfði með áhöfnum þriggja skipa sem lágu þarna í vari, en auk okkar fengu áhafnir Björgvins EA og Tjalds SH æfingu í gær. Þegar æfingin fór fram var tiltölulega hvasst eða 18-20 metrar en hinsvegar sjólaust. Við æfinguna þarf að gæta að mörgu eins og til dæmis stefnu skipsins, hraða þess og síðan að hafa allt klárt á dekkinu. Það sigu tveir menn úr þyrlunni og eins voru sjúkrabörur sendar um borð og hífðar upp. Við tókum á móti mönnunum og börunum og æfðum allt sem gera þurfti. Það var mjög gott og gagnlegt að fá þessa þyrluæfingu en við höfum aldrei æft með þyrlunni áður. Eins var gott að nota tímann í brælunni til þessara æfinga því öryggismálin mega aldrei gleymast,“ segir Theodór. 
 
Að lokinni þyrluæfingunni hélt Blængur út á Eldeyjarbanka á ný en í morgun var hann að karfaveiðum á Melsekk.
 
Þyrluæfing hjá Blængsmönnum  Þyrluæfing hjá Blængsmönnum
 
 

Það mætti vera meiri kraftur

Vestmannaey VE. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonVestmannaey VE. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonBirgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey VE, segir að sér finnist vanta meiri kraft í vertíðina í Vestmannaeyjum og hann telur að fiskgengdin sé ekki jafn mikil við Eyjarnar og verið hefur síðustu ár. „Það hefur verið góð veiði en ekki aðgæsluveiði eins og undanfarin ár. Hins vegar er alltaf fiskur að bætast við það sem fyrir er. Ýsan er til dæmis ekki komin að neinu ráði en í fyrra hófst ýsuveiði fyrst í lok mars. Undanfarin ár hefur fiskurinn gengið á miðin mjög snemma en hins vegar var ekkert óalgengt hér áður að vertíð hæfist um miðjan mars. Við höfum gjarnan verið úti í um tvo sólarhringa að undanförnu en þrálátar brælur hafa truflað veiðarnar verulega. Við fórum til dæmis út um hádegi sl. sunnudag og komum inn um hádegi í gær. Aflinn var um 75 tonn sem er bara mjög gott. Almennt má því segja að vertíð sé í fullum gangi en miðað við síðustu ár mætti krafturinn í henni vera dálítið meiri,“ segir Birgir Þór.
 

Grálúðu- og karfavinnsla í loðnuleysinu

Grálúðuvinnsla

Grálúðuvinnsla í fiskiðjuverinu. Ljósm: Smári Geirsson

                Venjulega er þessi árstími einhver mesti annatími starfsfólksins í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Þetta er sá tími sem loðnuvertíð hefur gjarnan verið í hámarki. Nú er hins vegar rólegra andrúmsloftið í verinu; starfsfólkið sinnir vinnslu á grálúðu og karfa í dagvinnu í stað þess að vinna loðnu á vöktum allan sólarhringinn. Loðnuleysið hefur svo sannarlega mikil áhrif á starfsfólk fiskiðjuversins og þessi tími ársins, sem hefur verið sá tími sem skilað hefur einna mestu í launaumslagið, hefur yfir sér allt annað og dauflegra yfirbragð.

Capture

Karfi á leið yfir flokkara. Ljósm: Smári Geirsson

                Heimasíðan ræddi við Eyðun Simonsen verkstjóra og spurði hann út í grálúðu- og karfavinnsluna. „Karfinn kemur frá okkar eigin skipum og hann er einnig keyptur á markaði. Grálúðan kemur hins vegar frá Önnu EA. Nú er verið að vinna grálúðuafla úr annarri veiðiferð Önnu. Þessi vinnsla hentar okkur mjög vel. Loðnuleysið er þungt högg fyrir allt okkar fólk því er mikilvægt fyrir okkur að hafa þessi verkefni.“ segir Eyðun.

Barði í rússneskum búningi

Bardi i sidustu vf

               Barði NK í síðustu veiðiferðinni í eigu Síldarvinnslunnar. Ljósm: Þorgeir Baldursson

Síldarvinnslan seldi togarann Barða til fyrirtækis í Murmansk í Rússlandi í júlímánuði 2017 en fyrirtækið hóf að gera skipið út árið 2002. Togarinn var smíðaður í Flekkefjord í Noregi fyrir Skipaklett hf. á Reyðarfirði árið 1989 og bar upphaflega nafnið Snæfugl. Skipaklettur og Síldarvinnslan sameinuðust árið 2001 og eftir það var skipið leigt skosku útgerðarfyrirtæki um tíma og bar á þeim tíma nafnið Norma Mary.

                Í upphafi gerði Síldarvinnslan Barða út sem frysti-  og ísfiskskip en síðar var megináhersla lögð á að frysta aflann um borð. Árið 2016 var síðan allur vinnslubúnaður tekinn úr skipinu og var hann rekinn sem ísfisktogari eftir það allt þar til hann var seldur til Rússlands.

1976 NORD WEST EX 1976 BARÐI NK 120 EX SNÆFUGL SU 20 I MURMANSK RUSSLANDI MYND GLIMYAROW ENENYSHIPSPOTTING 30. JAN. 2018

Hinn rússneski Nord West kemur til hafnar nýlega

                Fyrri myndin sem fylgir fréttinni er tekin í síðustu veiðiferð skipsins í eigu Síldarvinnslunnar en seinni myndin, sem tekin var nýlega,  sýnir skipið í rússneskum búningi koma til hafnar. Nafn skipsins eftir að það var selt til Rússlands er Nord West.

Bölvað óveður truflar veiðar

Bergey VE kemur til hafnar í Vestmannaeyjum í brælunni í gær. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonBergey VE kemur til hafnar í Vestmannaeyjum í brælunni í gær. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonSegja má að dagróðrafyrirkomulag ríki hjá skipum Bergs-Hugins í Vestmannaeyjum um þessar mundir. Veður hefur truflað veiðarnar að undanförnu og er lægðagangurinn býsna þrálátur. Afli hefur hins vegar verið góður þegar viðrað hefur til veiða. Sem dæmi hélt Bergey til veiða á laugardagsmorgun og landaði seinni partinn á sunnudag 54 tonnum, fór á ný út á miðnætti og kom inn í gær vegna bölvaðrar brælu og hélt til veiða á ný í morgun. Aflinn sem skipið kom með að landi í gær var 35 tonn sem er góð sólarhrings veiði. Þó svo að vel hafi fiskast tala sjómennirnir um að enn vanti vertíðarbraginn við Eyjar.

Bergey VE hélt til veiða í morgun. Ljósm: Guðmundur AlfreðssonBergey VE hélt til veiða í morgun.
Ljósm. Guðmundur Alfreðsson

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Kolmunnalandanir í Neskaupstað og á Seyðisfirði

Gott kolmunnahol vestur af Írlandi. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonGott kolmunnahol vestur af Írlandi.
Ljósm. Helgi Freyr Ólason
Áfram berst kolmunni til vinnslu hjá fiskimjölsverksmiðjum Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og á Seyðisfirði. Til verksmiðanna hafa nú borist tæplega 34.000 tonn frá því að veiðar vestur af Írlandi hófust snemma í febrúarmánuði. Verksmiðjustjórarnir, Hafþór Eiríksson í Neskaupstað og Gunnar Sverrisson á Seyðisfirði, segja að kolmunninn sé úrvalshráefni til vinnslu. Togtími hjá skipunum sé stuttur og aflinn vel kældur þannig að áhersla á gæði hráefnisins sé í hávegum höfð.
 
Margrét EA kom til Seyðisfjarðar í gær með 2.000 tonn og í gær landaði Hákon EA rúmlega 1.600 tonnum í fiskimjölsverksmiðjuna í Neskaupstað auk þess að landa 370 tonnum af frystum fiski. Bjarni Ólafsson AK kom síðan til Neskaupstaðar í nótt með 1.450 tonn.
 
Vegna veðurs er ljóst að hlé verður á vinnslu í verksmiðjunum þegar lokið verður við að vinna þennan afla, en kolmunnaskipin liggja nú í vari við Írland.

Legið í vari á Donegalflóa

Kolmunnaskip í vari á Donegalflóa á Írlandi í morgun. Ljósm. Tómas KárasonÁ Donegalflóa var sunnan gola í morgun og sveitabæir
allt um kring. Ljósm. Tómas Kárason
Það er slæmt veður á kolmunnamiðunum við Írland og spáin fyrir næstu daga er ljót. Ekki er gert ráð fyrir að fari að lægja fyrr en undir helgi eða á fimmtudag eða föstudag. Heimasíðan sló á þráðinn til Hálfdans Hálfdanarsonar skipstjóra á Berki og spurðist frétta. „Nú er ekki mikið að frétta af veiðiskap. Við komum á miðin og tókum tvö hol og þurftum þá að sigla í var. Aflinn í þessum tveimur holum var samtals um 380 tonn. Við liggjum nú í vari á Donegalflóa sem er mikill flói norðarlega á Írlandi. Á bak við næsta nes er bærinn Kyllibegs en það er sjávarútvegsbær og þar er eina stóra fiskimjölsverksmiðjan á Írlandi eftir því sem ég veit best. Hér á Donegalflóa liggja einnig Beitir, Sigurður og Grandaskipin Víkingur og Venus ásamt einum Færeyingi og einum Norðmanni. Aðalsteinn Jónsson er einnig að koma hingað þannig að segja má að það sé traffík á bleyðunni. Höfnin í Kyllibegs er síðan full af Norðmönnum. Það er ekkert útlit fyrir veiðiveður næstu daga og því er tíminn hér um borð nýttur til að lagfæra ýmislegt og þrífa. Það er alltaf nóg að gera. Hér á flóanum er bara sunnan gola og sveitabæir allt um kring þannig að við höfum ekki yfir neinu að kvarta. Í talstöðinni hljóma hins vegar sífelldar stormviðvaranir,“ segir Hálfdan.

Á Donegalflóa var sunnan gola í morgun og sveitabæir allt um kring. Ljósm. Tómas KárasonKolmunnaskip í vari á Donegalflóa á Írlandi í morgun.
Ljósm. Tómas Kárason

Blængur með góðan afla

Landað úr Blængi NK. Ljósm. Smári GeirssonLandað úr Blængi NK. Ljósm. Smári GeirssonFrystitogarinn Blængur NK er að landa í Neskaupstað að lokinni 24 daga veiðiferð. Aflinn var 536 tonn upp úr sjó að verðmæti 160 milljónir króna. Bjarni Ólafur Hjálmarsson skipstjóri segir að aflinn sé mjög blandaður en þó mest af karfa. „Við byrjuðum veiðiferðina fyrir suðaustan land en héldum síðan á Vestfjarðamið þar sem við vorum lengst af. Síðustu vikuna vorum við þó á Melsekk og Selvogsbanka í leit að karfa. Fyrsta hálfa mánuðinn voru nánast samfelldar brælur en síðasta vikan var aftur á móti góð veðurfarslega. Það hefur gengið vel að vinna fiskinn um borð og ekki undan neinu að kvarta hvað það varðar,“ segir Bjarni Ólafur.
 
Gert er ráð fyrir að Blængur haldi til veiða á ný á sunnudagskvöld.

Loðnunótin tekin um borð

Loðnunótin tekin um borð í Polar Amaroq í gær. Ljósm. Smári GeirssonLoðnunótin tekin um borð í Polar Amaroq
í gær. Ljósm. Smári Geirsson
Grænlenska uppsjávarskipið Polar Amaroq kom til Neskaupstaðar í gær í þeim tilgangi að sækja loðnunót, en skipið hefur að undanförnu sinnt loðnuleit við landið í samstarfi við Hafrannsóknastofnun. Heimasíðan ræddi við Geir Zoëga skipstjóra og spurði hann hvers vegna veiðarfærið væri sótt. „Við höfum verið að sinna loðnuleit fyrir sunnan land síðustu daga. Þar er loðna á ferðinni og ég trúi því að ef finnst meiri loðna fyrir norðan og út af Vestfjörðum þá verði gefinn út einhver kvóti. Við erum einmitt núna að halda norður fyrir land í frekari leit. Ef eitthvað finnst fyrir norðan og vestan og kvóti verður gefinn út þá mega menn engan tíma missa. Þess vegna tökum við nótina um borð. Við ætlum að vera tilbúnir að hefja veiðar strax og við ætlum að verða fyrstir til að kasta. Ég er mjög bjartsýnn á að finnist meiri loðna. Það hafa borist einhverjar fréttir frá skipum fyir norðan þannig að bjartsýni mín er rökstudd. Sannleikurinn er sá að það þýðir ekkert að vera svartsýnn og sjá allt dökkt framundan. Það hafa engir verið jafn iðnir við loðnuleit að undanförnu og við á Polar Amaroq og ég trúi því að það eigi eftir að finnast meiri loðna og sú trú er nokkuð sterk. Það var unaðslegt að taka nótina um borð. Ég fyllist alltaf ákveðinni vellíðunartilfinningu þegar nótaveiðar eru að hefjast og það þýðir ekkert annað en að trúa því að það sé að fara að gerast,“ segir Geir.

Öskudagsheimsóknir

ÖskudagsheimsóknirÍ dag er öskudagur og hver krakkahópurinn á fætur öðrum hefur heimsótt skrifstofur Síldarvinnslunnar og sungið fyrir starfsfólkið. Gjarnan eru krakkarnir klæddir í hina skrautlegustu búninga og söngurinn virðist vera þaulæfður. Kennarar og starfsfólk Nesskóla fylgja hópunum og allir voru brosandi og glaðir og virtust njóta dagsins til hins ítrasta. Fyrir heimsóknina og sönginn þáði unga fólkið harðfiskpoka að gjöf enda mjög viðeigandi að sjávarútvegsfyrirtæki gefi sælgæti úr hafinu.
 
Það er alltaf upplífgandi að fá heimsóknir sem þessar og meðfylgjandi eru nokkrar myndir sem Hákon Ernuson tók af syngjandi krakkahópum í dag.
 
Öskudagsheimsóknir
Öskudagsheimsóknir
Öskudagsheimsóknir
Öskudagsheimsóknir
Öskudagsheimsóknir
 

Undirflokkar