Ný starfsmannastefna Síldarvinnslunnar

Ný starfsmannastefna SíldarvinnslunnarÞessa dagana er verið að kynna nýja starfsmannastefnu Síldarvinnslunnar fyrir starfsmönnum fyrirtækisins. Nýja stefnan hefur verið í vinnslu síðasta árið. Við vinnslu stefnunnar var meðal annars höfð til hliðsjónar starfsánægjukönnun og viðtöl sem tekin voru við starfsmenn í öllum deildum fyrirtækisins. Helstu stefnumiðin eru svohljóðandi: 
 
Síldarvinnslan er hátæknivætt sjávarútvegsfyrirtæki í fremstu röð. Slíkur rekstur stendur og fellur með þekkingu og frammistöðu starfsmanna. Það skiptir Síldarvinnsluna því miklu máli að hafa á að skipa góðum og ánægðum starfsmönnum. Í því skyni stefnum við að því að bjóða upp á vinnuumhverfi sem einkennist af hvatningu, öryggi og góðum samskiptum. Við viljum bjóða okkar fólki upp á:
 
  • vinnuumhverfi þar sem stjórnendur og starfsmenn vinna að því í sameiningu að auka sífellt öryggi, velferð og árangur
  • trygga vinnu og góða afkomu
  • vinnu þar sem fólk er hvatt til að gera sitt besta og að efla stöðugt þekkingu sína og færni
  • sveigjanleika og jafnvægi vinnu og einkalífs, eins og frekast er unnt
  • samskipti sem einkennast af samráði og virðingu 
  • jafnrétti til launa og starfsþróunartækifæra
 
Stefnan inniheldur einnig fjölda markmiða og leiða sem miða að því að gera stefnuna að veruleika. 
 
„Þetta er allt hugsað til að gera Síldarvinnsluna að enn betri vinnustað“, segir Hákon Ernuson starfsmannastjóri. „Samhliða tæknivæðingu sjávarútvegsins mun skipta sífellt meira máli að fyrirtæki séu að hugsa vel um fólkið sitt. Samkeppni um gott fólk er hörð og hún mun bara fara harðnandi á næstu árum. Þau fyrirtæki sem vinna ekki skipulega í þessum málum verða að okkar mati mun líklegri til að lenda í vandræðum með mönnun og frammistöðu“, segir Hákon. „Við höfum þegar sett af stað mörg verkefni við innleiðingu stefnunnar og það er vinna sem allir starfsmenn eiga að verða varir við. Þessa dagana erum við aðallega að vinna í miklum breytingum í tengslum við öryggismál og skipuleggja heilsufarsskoðanir, sem eru í boði fyrir alla starfsmenn yfir þrítugu. Öryggi og heilsa verða í forgangi hjá okkur og þetta eru mjög umfangsmikil verkefni. Við höfum einnig hafið vinnslu nýrrar fræðsluáætlunar sem mun vonandi líta dagsins ljós fyrir áramót, þannig að það er allt komið á fullt í að gera stefnuna að veruleika“, segir Hákon að lokum. 
 
Hér verður nánar fjallað um einstaka þætti stefnunnar á næstu vikum, en hana má finna í heild sinni hér á heimasíðunni. Síðar verða veittar ítarlegri upplýsingar um ýmis framkvæmdaatriði tengd stefnunni.

Framkvæmdum við saltfiskskemmuna lokið

Fremst er saltfiskskemman, fjær má sjá skreiðarskemmuna í Síldarvinnslulitunum og fjærst sést gamla frystihúsið. Ljósm. Smári GeirssonFremst er saltfiskskemman, fjær má sjá skreiðarskemmuna í Síldarvinnslulitunum
og fjærst sést gamla frystihúsið. Ljósm. Smári Geirsson
Lokið er við að skipta um klæðningu á svonefndri saltfiskskemmu í Neskaupstað og er húsið nú orðið til fyrirmyndar. Klæðningin er að sjálfsögðu í Síldarvinnslulitunum og er útlit skemmunnar sambærilegt við útlit hinnar svonefndu skreiðarskemmu sem skipt var um klæðningu á fyrir nokkru. Þessi tvö hús voru svo sannarlega farin að láta á sjá en nú eru þau til prýði. Það var Nestak hf. sem annaðist framkvæmdirnar við saltfiskskemmuna.
 
Saga saltfiskskemmunnar er merk en hún var reist sem síldarverksmiðja á árunum 1966-1967. Það var hlutafélagið Rauðubjörg sem byggði verksmiðjuna. Síldarvinnslan festi kaup á byggingunni árið 1973 og hóf þar saltfiskverkun árið eftir. Saltfiskverkunin var fjölmennur vinnustaður og störfuðu þar allt að 120 manns yfir sumartímann í nokkur ár. Skemman hýsti saltfiskverkun til ársins 1997 og í henni var einnig söltuð síld á árunum 1986-1997. Hin síðari ár hefur saltfiskskemman verið nýtt sem geymsluhúsnæði rétt eins og skreiðarskemman. 

Dauft yfir síldveiðunum fyrir vestan

Börkur NK. Ljósm: Hákon ErnusonBörkur NK. Ljósm: Hákon ErnusonBörkur NK hélt vestur fyrir land á laugardagskvöld til veiða á íslenskri sumargotssíld. Heimasíðan sló á þráðinn í morgun og ræddi við Hálfdan Hálfdanarson skipstjóra. „Það er heldur lítið að frétta af okkur og hér er lítið að sjá,“ sagði Hálfdan. Við höfum verið djúpt út af Faxaflóa, um 100 mílur vestur af Garðskaga, og erum komnir með 200 tonn í þremur holum. Hér hafa skip verið að fá upp í 170 tonn í holi og það er það allra mesta. Hér er heldur dauft hljóð í mönnum sem stendur, það er enginn kraftur í þessu. Núna er hálfgerð bræla, en það ætti að verða í lagi með veðrið þegar líður á daginn,“ sagði Hálfdan að lokum.

Síldarvinnslan hlýtur umhverfisviðurkenningu Fjarðabyggðar

SVN Fulltrúar Síldarvinnslunnar sem veittu umhverfisviðkenningu Fjarðabyggðar móttöku. Ljósm. Smári GeirssonFulltrúar Síldarvinnslunnar sem veittu umhverfisviðurkenningu
Fjarðabyggðar móttöku. Ljósm. Smári Geirsson
Síldarvinnslan hlaut í dag umhverfisviðurkenningu Fjarðabyggðar 2016 en þetta er í fyrsta sinn sem sveitarfélagið veitir slíka viðurkenningu. Það var Páll Björgvin Guðmundsson bæjarstjóri sem veitti viðurkenninguna við athöfn sem fram fór í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði. Umhverfisviðurkenning var veitt í þremur flokkum og hlaut Síldarvinnslan hana í flokki fyrirtækja.
 
Auglýst var eftir tilnefningum til viðurkenninga í ágúst og september og var öllum sem áttu lögheimili í Fjarðabyggð heimilt að senda inn tilnefningar. Sérstök dómnefnd fékk það hlutverk að fjalla um tilnefningarnar og leggja mat á þær. Í dómnefndinni áttu sæti Freyr Ævarsson umhverfisfulltrúi Fljótsdalshéraðs, Sveinbjörn Hrafn Kristjánsson starfsmaður áhaldahúss Fljótsdalshéraðs og Anna Heiða Gunnarsdóttir garðyrkjufræðingur á Reyðarfirði. 
 
Í umsögn dómnefndarinnar segir eftirfarandi um umhverfi Síldarvinnslunnar: „Viðurkenningin er veitt fyrir sérlega snyrtilegt umhverfi. Ásýnd húss og vinnusvæðis er stílhreint og öll umgengni til fyrirmyndar.“ Þá segir einnig í umsögninni að blómaker séu skemmtileg í stíl við húsnæði fyrirtækisins og mikið lagt í að viðhalda svæðinu snyrtilegu, blómabeðum og grasfleti. Þá er það mat dómnefndarinnar að fyrirtækið leggi sjáanlega mikinn metnað í blómlega og fallega ásýnd á starfssvæði sínu. 
 
Stefnt er að því að Fjarðabyggð veiti umhverfisviðurkenningu árlega hér eftir. 
Athafnasvæði Síldarvinnslunnar við Norðfjarðarhöfn. Ljósm. Hlynur SveinssonAthafnasvæði Síldarvinnslunnar við Norðfjarðarhöfn. Ljósm. Hlynur Sveinsson

Síldveiði er enn fyrir austan

Síldveiði er enn fyrir austanSíldarvinnsluskipin Beitir og Börkur leggja enn stund á síldveiðar austur af landinu og allur aflinn fer til manneldisvinnslu í fiskiðjuverinu í Neskaupstað. Lokið var við að landa tæplega 1000 tonnum úr Berki í fyrradag og í gær kom Beitir með tæplega 900 tonn.
 
Afli skipanna er blanda af norsk-íslenskri síld og íslenskri sumargotssíld. Hlutfall sumargotssíldarinnar hefur farið vaxandi og um þessar mundir er hún um helmingur aflans.
 
Sturla Þórðarson, skipstjóri á Beiti, segir að um sé að ræða hina þokkalegustu síld. „Við fengum síldina núna í Reyðarfjarðardýpi og Seyðisfjarðardýpi. Við enduðum í Seyðisfjarðardýpinu um 60 mílur frá landi og þar var töluvert að sjá þegar farið var í land,“ sagði Sturla. 

Fleiri kíló, færri krónur

Gullver NS. Ljósm. Ómar BogasonGullver NS. Ljósm. Ómar BogasonVinnsla hjá Gullberg ehf. á Seyðisfirði hefur gengið vel það sem af er ári og nú annað árið í röð stefnir í metframleiðslu hjá starfsmönnum þar.  Á fyrstu 9 mánuðum ársins hafa verið unnin 2.700 tonn sem er aukning um 200 tonn  á milli ára. Til samanburðar þá var aðeins unnið úr 1.300 tonnum árið 2014 á Seyðisfirði og því er um að ræða rúmlega tvöföldun á magni frá þeim tíma.
 
Sömu sögu er að segja af togaranum Gullver NS en hann hefur veitt 3.250 tonn á fyrstu 9 mánuðum ársins til samanburðar við 3.000 tonn árið áður. Þrátt fyrir að meiri afli fari í gegnum húsið og togarinn fiski meira þá hafa tekjur fyrirtækisins minnkað á milli ára. Togarinn, sem fiskað hefur 250 tonnum meira á þessu ári en árið áður, er með 70 milljóna kr minna aflaverðmæti. Segja má að samdrátturinn í aflaverðmæti endurspegli í raun þá breytingu sem hefur verið að eiga sér stað í rekstrarumhverfi Gullbergs ehf. Þannig hefur afurðaverð bolfisks verið að gefa töluvert eftir í erlendri mynt og síðan bætist styrking krónunnar þar við. Þrátt fyrir aukningu á unnu magni þá hefur afkoman dregist saman. Þannig var rekstrarhagnaður fyrstu sex mánuði sl. árs 218 milljónir króna en í ár er hann einungis 120 milljónir.
 
Gullver NS hefur í áratugi skapað sér sérstöðu á karfamörkuðum í Þýskalandi fyrir afhendingaröryggi og gæði hráefnis. Við lokun Rússlandsmarkaðar, sem hafði tekið við 7.000 tonnum af karfa árið 2014, fór karfi að streyma í auknu magni til Þýskalands og annara landa. Nú á þessu ári hefur magnið aukist um 40% miðað við sama tíma í fyrra og verðið lækkað um 30% í krónum talið.  Einnig hefur Rússabannið breytt veiðistýringu flotans í karfa. Afli ísfisktogara hefur aukist um 20% en afli frystitogara aftur á móti dregist saman.

Jólasíldin – ljósmyndasamkeppni

Ljosmyndakeppni 2016Jólasíld Síldarvinnslunnar er fyrir marga starfsmenn fyrirtækisins ómissandi hluti jólahátíðarinnar. Engin síld er jafn bragðgóð og þegar minnst er á hana kemur vatn í munn manna. Aðferðirnar sem notaðar eru við framleiðslu síldarinnar eru vel geymt leyndarmál en þær hafa verið þróaðar af miklum kunnáttumönnum í áranna rás.
 
Lögð hefur verið áhersla á að merkimiðinn á síldarfötunum sé með jólalegri mynd af skipum eða athafnasvæði Síldarvinnslunnar. Í fyrra var efnt til samkeppni á meðal þeirra sem hafa tekið slíkar myndir og nú hefur verið ákveðið að endurtaka leikinn. Þeir sem vilja taka þátt í þessari ljósmyndasamkeppni sendi myndir til Jóns Gunnars Sigurjónssonar yfirverkstjóra í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar fyrir 2. nóvember nk. (This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.). Veitt verða vegleg verðlaun fyrir myndina sem verður fyrir valinu. 

Tæknidagur fjölskyldunnar var frábær

Á sýningarsvæði Síldarvinnslunnar á tæknideginum. Ljósm. Smári GeirssonÁ sýningarsvæði Síldarvinnslunnar á tæknideginum. Ljósm. Smári GeirssonHinn árlegi tæknidagur fjölskyldunnar var haldinn í Verkmenntaskóla Austurlands sl. laugardag. Í stuttu máli sagt tókst dagurinn frábærlega, hann var afar fjölsóttur og virtust gestir njóta dagsins til hins ítrasta. Alls skráðu 973 nöfn sín í gestabækur við innganga, en víst er að nöfn hluta gestanna voru aldrei skráð þannig að fullyrða má að gestir hafi verið vel á annað þúsund. Eru þetta mun fleiri gestir en í fyrra, en þá skráðu liðlega 300 færri nöfn sín í gestabækur.
 
Dagurinn, sem Austurbrú stendur fyrir ásamt Verkmenntaskólanum, á að höfða til allra aldurshópa og virðist það hafa tekist fullkomlega. Vakin var athygli á fjölbreyttum viðfangsefnum á sviði tækni, verkmennta og vísinda og þess vandlega gætt að börnum væri boðið upp á forvitnilegt efni. Fjöldi fyrirtækja og stofnana kynntu starfsemi sína og háskólastofnanir og fleiri veittu innsýn í vísindarannsóknir. Hægt var að fylgjast með krufningu á dýrum, skoða kappakstursbíl í raunstærð, sækja fyrirlestra um ýmis málefni, fara í skoðunarferð í Norðfjarðargöng og í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar, skoða björgunarbúnað af nýjustu gerð og þá var FABLAB- versktæðið opið svo eitthvað sé nefnt. Ævar vísindamaður bauð upp á dagskrá fyrir börnin og unnt var að kynna sér eldsmíði að fornum sið. Í reynd væri hægt að telja lengi upp allt það sem boðið var upp á á tæknideginum. Fyrir utan hina hefðbundnu dagskrá var 30 ára afmælis Verkmenntaskóla Austurlands minnst á þessum degi.
 
Síldarvinnslan var eins og áður með sýningarsvæði á tæknideginum og var það fjölsótt. Þar var unnt að kynnast starfsemi fyrirtækisins og hægt að fá að bragða á ýmsum sjávarafurðum. Þarna gæddi fólk sér á reyktri eðalsíld, niðursoðinni loðnu og lituðum loðnuhrognum sem Japanir nefna masago.
 
Elvar Jónsson skólameistari segir að mikil ánægja ríki með tæknidaginn og hann hafi í alla staði verið frábær. Aðsóknin fór fram úr björtustu vonum að hans sögn og gestirnir voru afar ánægðir með daginn. Þá segir hann að gestir komi sífellt lengra að til að njóta þess sem dagurinn býður upp á.

Tekið á móti gestum í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar

Tekið á móti gestum í fiskiðjuveri SíldarvinnslunnarÍ tengslum við tæknidag fjölskyldunnar næstkomandi laugardag verður tekið á móti gestum í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar frá  kl. 10.30-12.00. Engin vinnsla fer fram í verinu á þeim tíma en gestir munu geta skoðað allan tæknibúnað undir leiðsögn og horft á myndir sem sýna vinnsluferilinn.
 
Fiskiðjuverið er á meðal fullkomnustu verksmiðja sinnar tegundar og allir sem ekki þekkja starfsemi þess ættu að grípa tækifærið á laugardaginn og koma í heimsókn.

Tæknidagur fjölskyldunnar

Frá sýningarsvæði Síldarvinnslunnar á tæknideginum í fyrra. Ljósm. Smári Geirsson  Frá sýningarsvæði Síldarvinnslunnar á tæknideginum í fyrra. Ljósm. Smári Geirsson Tæknidagur fjölskyldunnar verður haldinn í Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað laugardaginn 15. október. Auk Verkmenntaskólans stendur Austurbrú fyrir deginum sem nú er haldinn í fjórða sinn. Dagskráin hefst kl. 12.00 og lýkur kl. 16.00 og er aðgangur ókeypis. Dagurinn er helgaður tækni, vísindum og nýsköpun og hefur verið afar vel sóttur frá upphafi.
 
Eins og áður mun mikill fjöldi fyrirtækja og stofnana kynna starfsemi sína á tæknideginum og verður kappkostað að höfða til allra aldurshópa. Síldarvinnslan mun að sjálfsögðu taka fullan þátt og leggja áherslu á að gestir geti fengið góða innsýn í starfsemi fyrirtækisins.
 
Boðið verður upp á margt forvitnilegt á tæknideginum að þessu sinni. Hægt verður að fá að kynnast þyrluflugi í gegnum sýndarveruleikagleraugu, rafmagnsframleiðslu með vindmyllum, hrálýsi úr loðnu, landmótun í sandkassa, eldsmíði að gömlum sið og mörgu fleiru. Ævar vísindamaður verður á staðnum og mun hann leiða börnin inn í töfraheim vísindanna. Þá mun verða gerð forvitnileg tilraun til að ganga á vatni svo eitthvað sé nefnt.
 
Verkmenntaskóli Austurlands mun einnig fagna þrjátíu ára afmæli sínu á tæknideginum en skólinn tók til starfa í ársbyrjun 1986. 
 
Það verður enginn svikinn af því að koma á tæknidaginn og njóta þess sem þar verður boðið upp á.

Barði NK úr fyrsta ísfisktúrnum

Barði NK  Ljósm. Hákon ErnusonBarði NK Ljósm. Hákon ErnusonBarði NK kom til Neskaupstaðar í morgun úr sínum fyrsta ísfisktúr, en áður hefur Síldarvinnslan gert hann út sem frystitogara. Áhöfnin á ísfisktogaranum Bjarti NK, sem nýlega var seldur, fór yfir á Barða en áhöfnin sem var á Barða fer yfir á frystitogarann Blæng.  Afli Barða í þessum fyrsta túr var 80 tonn og var uppistaða hans þorskur en dálítið var af ufsa og karfa. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri sagði að þessi veiðiferð hefði í reynd gengið vel. „Þarna var ný áhöfn á skipinu og hún þarf að sjálfsögðu að venjast því. Þá var verið að prufukeyra nýja ísfisklínu á millidekkinu og eins og vænta mátti kom ýmislegt í ljós sem þarf að lagfæra. Í þessum fyrsta túr vorum við mest á Fætinum og á Breiðdalsgrunni en lentum reyndar vestur í Lónsdýpi og í Berufjarðarál,“ sagði Steinþór.

Til þess eru vítin að varast þau

Myndatexti

Dæmi eru um stórskaðleg áhrif af úthlutun aflaheimilda með uppboðsleið án þess að sú reynsla skili sér í einlita umræðu um málið hér á landi. Tilraunir Rússa og Eista eru víti til varnaðar.

Hér hefur verið kallað eftir uppboðsleið til að auka hlut samfélagsins í svonefndri auðlindarentu. Vitnað er til tilrauna Færeyinga, sem boðið hafa upp lítinn hluta heimilda úr deilistofnum. Minna fer fyrir því að vitnað sé til skrifa fræðimanna og tilrauna annarra þjóða. Þá hefur samfélagslegum áhrifum uppboðsleiðar lítill gaumur verið gefinn. Sjávarútvegsfyrirtæki eru víða meginstoðir atvinnulífs og starfsmenn drjúgur hluti íbúa.

Horfið var frá uppboðsleið í Eistlandi og Rússlandi eftir tilraunir með slíkt 2001 til 2003. Í Eistlandi, þar sem boðin voru upp 10% heimilda, var kerfið talið hafa leitt til sóunar á auðlindinni, gjaldþrota smærri fyrirtækja og stórminnkandi starfs­öryggis sjómanna.

Rússar buðu upp aflaheimildir í Austur-Rússlandi og í Barentshafi og þótt ekki hafi allur kvóti selst fékkst fyrir hann mun hærra verð en ráð hafði verið fyrir gert. Ríkið fékk í sinn hlut sem svarar 20,3 milljörðum króna 2001, 29,6 milljörðum 2002 og 38,6 milljörðum 2003. Voru þá ekki allir sáttir ?

Sex milljarða króna hagnaður af sjávarútvegi í austurhluta Rússlands árið 2000 snerist í sex milljarða tap árið eftir. Fljótlega kom að því að 90% sjávarútvegsfyrirtækja á svæðinu voru sögð illa stödd fjárhagslega og tekjur sveitarfélaga skertust. Eftir upptöku uppboðsleiðarinnar runnu 96% af skatttekjum af sjávarútvegi til ríkisins en 4% til sveitarfélaga, í stað 34% áður.

Fyrirtækjunum reyndist erfitt að áætla kvótakaup vegna meðafla og keyptu sum kvóta sem ekki veiddist. Árið 2001 veiddust ekki 77 þúsund tonn af heimildum sem seldar voru á uppboði. Þá eru vísbendingar um stóraukið brottkast. Skyndilega veiddist nær enginn smáufsi, heldur bara af stærð sem best hentaði til vinnslu. Talið er að framhjáland­anir og ólöglegar veiðar í Austur-Rússlandi hafi numið um 120 milljörðum króna 2001 til 2003.

Sumarið 2003 hættu Rússar að bjóða upp aflaheimildir á svæðinu og hurfu aftur til kerfis sem byggði á veiðireynslu. Veiðigjöld runnu að 80% til ríkisins og 20% til sveitarfélaga.

Hér hlýtur reynsla Rússa og Eista að skipta máli. Vert er að hugleiða hvort ekki séu líkur á að í uppboðskerfi standi smærri og meðalstór sjávarútvegsfyrirtæki höllum fæti gagnvart þeim stærstu, hvort samkeppni um kvóta leiði ekki til skaðlegrar verðbólu og hvort ávinningur til lengri tíma verði hverfandi þótt tekjur ríkisins kunni að aukast í fyrstu. Eins þarf að hugleiða hvort starfsöryggi fólks í sjávarútvegi verði ógnað og hvort óvissa aukist um tekjur sveitarfélaga og hvort fyrirséð séu áhrif á langtímafjárfestingu og áætlanagerð í sjávarútvegi.

Sjávarbyggðir byggja tilveru sína á aflaheimildum. Spyrja má hvort rétt sé, sanngjarnt eða skynsamlegt að setja tilverugrundvöll byggðarlaga á uppboðsmarkað. Ef vilji er til að auka tekjur ríkisins af greininni eru til aðrar leiðir en uppboðsleiðin. Hætturnar sem henni fylgja virðast einfaldlega of margar og miklar.

 - Sigurður Steinn Einarsson

Til að lesa nánar um þetta efni er hægt að smella hér

 

 

Enn einn risamakríllinn og sá stærsti

Nýi risamakríllinn vigtaður í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Ljósm: Eyðun SímonsenNýi risamakríllinn vigtaður í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Ljósm: Eyðun SímonsenHinn 20. september sl. var greint frá því að í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað hafi komið makríll sem var óvenju stór og reyndar sá stærsti sem starfsfólk hafði augum litið. Þegar fiskurinn var vigtaður kom í ljós að hann var 1285 gr. Tíu dögum síðar bárust þær fréttir að Vilhelm Þorsteinsson EA hefði fengið makríl sem var enn stærri og þyngri. Reyndist hann vera 1302 gr.
 
Og enn er metið slegið. Þegar landað var úr Berki NK sl. föstudag kom á land makríll sem var hvorki meira né minna en 1370 gr. að þyngd og stærri og pattarlegri en fyrri metfiskar. Eyðun Simonsen verkstjóri í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar sagði að allir þessir fiskar þættu vera gríðarstórir af þessari tegund og hann hefði ekki heyrt um stærri fiska sem veiðst hefðu hér við land. „Þessi er sá stærsti sem ég hef séð en kannski eiga fleiri enn stærri eftir að koma í ljós síðar, hver veit ?,“ sagði Eyðun.

Gengur vel að veiða síldina

Vinnsla á síld í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Ljósm. Hákon ErnusonVinnsla á síld í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Ljósm. Hákon ErnusonStrax og Beitir NK lauk við að landa síðasta makrílfarminum í Neskaupstað hélt hann til síldveiða sl. föstudag og var kominn inn seint á laugardag með 1000 tonn af stórri og góðri síld. Tómas Kárason skipstjóri sagði í samtali við heimasíðuna að túrinn hefði gengið vel í alla staði. „Við fengum þessi 1000 tonn í fjórum holum og vorum að veiðum 20-30 mílur norðaustur af Norðfjarðarhorni. Það var nóg af síld að sjá á þessum slóðum og þannig er það oft um þetta leyti árs. Við héldum strax að löndun lokinni til veiða á ný en það virðist ætla að verða eitthvað rysjótt tíðin framundan. Vonandi verðum við þó búnir að ná góðum afla áður en brælir fyrir alvöru,“ sagði Tómas. 
 
Sömu sögu er að segja af Berki NK. Hann hélt til síldveiða að lokinni makríllöndun sl. laugardag og kom inn í gærkvöldi með um 1100 tonn af gæðasíld. Það er því unnið með fullum afköstum í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar og verður vonandi svo þar til þessum síldveiðum lýkur.

Síðasti makrílfarmur vertíðarinnar til vinnslu í fiskiðjuverinu

Börkur NK að landa makríl. Ljósm. Smári GeirssonBörkur NK að landa makríl. Ljósm. Smári GeirssonÍ gærkvöldi kom Börkur NK til Neskaupstaðar úr Smugunni með síðasta makrílfarminn sem unninn verður í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar á þessari vertíð. Afli skipsins var 915 tonn og segir Hálfdan Hálfdanarson skipstjóri að um sé að ræða ágætan fisk og sé meðalþyngd hans 400-430 grömm. Að auki sé fiskurinn átulaus og henti því afar vel til vinnslu. „Aflinn fékkst í fjórum holum austur undir norsku línunni og það var 400 mílna stím heim,“ sagði Hálfdan. Þegar Hálfdan var spurður út í vertíðina sagði hann: „Hún hefur að mestu gengið vel. Byrjunin var svolítið skrýtin en þá þurfti að sækja aflann vestur fyrir Vestmannaeyjar og í Faxaflóa en á móti kemur að fiskurinn virðist stoppa lengur við landið en áður og veiði hefur staðið yfir lengra fram á haustið. Í fyrra hófust veiðar fyrr og við á Síldarvinnsluskipunum vorum búnir með kvótann í byrjun september. Sjálfsagt eru göngur makrílsins að einhverju leyti breytilegar á milli ára en ljóst er að það var mikið magn af honum við landið í ár eins og mælingar sýndu,“ sagði Hálfdán að lokum.
 
Nú munu Síldarvinnsluskipin Börkur og Beitir snúa sér að veiðum á norsk-íslenskri síld.
 
Ekkert lát er á löndunum vinnsluskipa í Neskaupstað. Í dag er Hákon EA að landa 650 tonnum af frystum makríl og síld og síðastliðinn þriðjudag landaði Vilhelm Þorsteinsson EA 550 tonnum. Kristina EA landaði á laugardag og sunnudag 2340 tonnum og er það án efa stærsti farmur af frystum afurðum sem íslenskt fiskiskip hefur komið með að landi.

Barði NK á ísfisk

Barði NK. Ljósm. Hákon ErnusonBarði NK. Ljósm. Hákon ErnusonBarði NK hélt til Akureyrar í lok ágústmánaðar þar sem starfsmenn Slippsins hófu að fjarlægja úr honum vinnslubúnað á vinnsluþilfari og koma síðan fyrir búnaði til meðhöndlunar á ísfiski. Barða er ætlað að taka við hlutverki ísfisktogarans Bjarts sem seldur var til íransks fyrirtækis fyrir skömmu. Framkvæmdirnar um borð í Barða gengu samkvæmt áætlun og er hann væntanlegur til Neskaupstaðar í dag. Síðan er ráðgert að hann haldi til veiða á laugardaginn. Áhöfnin á Bjarti mun færast yfir á Barða en áhöfnin sem var á Barða mun færast yfir á frystitogarann Blæng. Blængur er nú á Akureyri þar sem starfsmenn Slippsins vinna við að koma fyrir í honum vinnslubúnaði á vinnsluþilfari.

Síldarvinnslan eykur eignarhlut sinn í Runólfi Hallfreðssyni ehf.

Bjarni Ólafsson AK. Ljósm. Smári GeirssonBjarni Ólafsson AK. Ljósm. Smári GeirssonSíldarvinnslan hefur aukið eignarhlut sinn í útgerðarfélaginu Runólfi Hallfreðssyni ehf. sem gerir út uppsjávarskipið Bjarna Ólafsson AK. Nú á Síldarvinnslan rúmlega 75% í félaginu en bræðurnir og skipstjórarnir Gísli og Runólfur Runólfssynir eiga tæplega 25%.
 
Stofnendur útgerðarfélagsins voru hjónin Runólfur Hallfreðsson og Ragnheiður Gísladóttir en þegar þau voru fallin frá áttu börn þeirra 62% í félaginu. Þrjú barnanna ákváðu að selja sína eignarhluta í félaginu nú í haust og festi Síldarvinnslan kaup á þeim, en Síldarvinnslan hefur átt 38% í félaginu frá árinu 2003 eða frá samrunanum við SR-mjöl. 
 
Gísli Runólfsson segir að ánægja ríki með þessi málalok. „Við höfum verið að vinna með Síldarvinnslunni um langt skeið og það samstarf hefur verið afar gott og farsælt. Við bræðurnir og áhöfnin á Bjarna Ólafssyni teljum að það hafi vart verið hægt að hugsa sér betri niðurstöðu. Þetta tryggir að Bjarni Ólafsson verði gerður út með líkum hætti og hefur verið og allt samstarf um útgerð hans hefur verið traust og til fyrirmyndar að mínu mati,“ sagði Gísli.

Beitir og Börkur ljúka makrílveiðum í Smugunni

Beitir NK. Ljósm. Hákon ErnusonBeitir NK. Ljósm. Hákon ErnusonBeitir NK hélt í Smuguna til makrílveiða sl. fimmtudagdag. Hann er væntanlegur til Neskaupstaðar í dag með 1200 tonn af makríl sem fengust í sex holum. Sturla Þórðarson skipstjóri sagði að lítið hefði fengist í tveimur fyrstu holunum en þá var keyrt 40 mílur í norður og þar reyndist vera gott lóð. Aflinn fékkst að mestu um 12 mílur frá norsku línunni og gekk makríllinn í norðaustur. Að sögn Sturlu er þetta þokkalegur fiskur, að meðaltali 420-430 grömm. Siglingin heim af miðunum er um 380 mílur.
Börkur NK lagði af stað í Smuguna í gær. Að loknum þessum veiðiferðum munu skipin snúa sér að síldveiðum.
 
Bjarni Ólafsson AK kom til Neskaupstaðar í morgun með 250 tonn af síld þannig að vinnsla er hafin í fiskiðjuverinu að loknu vel þegnu helgarfríi.

Risamakríll í Neskaupstað

Makríllinn stóri og myndalegiMakríllinn stóri og myndalegiÞegar verið var að landa síld og makríl í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar úr Beiti NK í gær kom á land makríll sem vakti óskipta athygli starfsfólksins. Makríllinn var sá stærsti sem það hafði augum litið og þegar hann var vigtaður reyndist hann 1285 grömm að þyngd. Jón Gunnar Sigurjónsson yfirverkstjóri í fiskiðjuverinu sagði að þessi makríll væri óvenju stór. „ Ég held að þetta sé stærsti makríll sem ég hef séð. Annað slagið koma fiskar sem vigta um 1000 grömm en það er mjög fátítt. Þessi fiskur sprengir með afgerandi hætti alla stærðarflokka. Stærsti flokkurinn er 600 grömm og stærri og á það venjulega við um 600-800 gramma fisk. Það má segja að þessi fiskur sé óvenju stór og myndarlegur,“ sagði Jón Gunnar.Vigtin sýndi 1.285 grVigtin sýndi 1.285 gr

Nú er síldin í aðalhlutverki

Norðfjarðarhöfn í morgun. Næst er Beitir NK að landa síld og makríl til vinnslu,þá sést flutningaskip sem er að lesta frystan makríl og fjærst er Hákon EA að landa frystum makríl. Ljósm. Hákon ErnusonNorðfjarðarhöfn í morgun. Næst er Beitir NK að landa síld og makríl til vinnslu,þá sést flutningaskip sem er að lesta
frystan makríl og fjærst er Hákon EA að landa frystum makríl. Ljósm. Hákon Ernuson
Síðustu dagana hafa makríl- og síldarskipin sem landa afla sínum í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar lagt meiri áherslu á síldveiðar en gert hefur verið fyrr á vertíðinni. Til þessa hefur yfirleitt öll áhersla verið lögð á að ná makrílkvótanum og síldin einungis verið meðafli. Beitir NK er nú að landa rúmlega 1100 tonnum til vinnslu í fiskiðjuverinu og þar af eru einungis 260 tonn makríll. Bjarni Ólafsson AK kom síðan til Neskaupstaðar í dag með 600 tonn og er ráðgert að hann hefji löndun í kvöld. Afli Bjarna er eingöngu síld. 
 
Gísli Runólfsson, skipstjóri á Bjarna Ólafssyni, sagði að aflinn hefði fengist í tveimur stuttum holum. „Við fengum þetta 15 mílur austur af Norðfjarðarhorni og þetta er falleg síld af stærstu gerð. Það var mikið af síld að sjá á þessu svæði og hún virðist reyndar vera alveg upp í landsteinum. Við fórum til dæmis yfir góða torfu þegar við áttum tvær mílur í Hornið. Það er víða líflegt og við fréttum í morgun að það væri mikil makrílveiði úti í Smugu,“ sagði Gísli.
 

Undirflokkar