Sumarfríi á Seyðisfirði lokið og allt komið í fullan gang

Gullver NS heldur til veiða. Ljósm. Ómar BogasonGullver NS heldur til veiða. Ljósm. Ómar BogasonÍsfisktogarinn Gullver NS hélt til veiða að afloknu sumarfríi skipshafnar hinn 26. júlí sl. Skipið kom síðan til löndunar á Seyðisfirði 31. júlí. Strax eftir verslunarmannahelgina hófst vinnsla í frystihúsi Gullbergs ehf. að afloknu sumarfríi starfsfólksins þar. Gullver hélt til veiða á ný sl. þriðjudag og kom inn í gær með liðlega 100 tonna afla. Uppistaða aflans var þorskur, ufsi og karfi.

Bjartur annar aflahæsti togarinn á landinu í júlímánuði

Bjartur NK kemur til löndunar. Ljósm: Hákon ErnusonBjartur NK kemur til löndunar. Ljósm. Hákon ErnusonSegja má að Bjartur NK hafi tekið síðasta heila mánuðinn sem hann verður gerður út hér við land með sannkölluðum stæl, en eins og kunnugt er hefur skipið verið selt til Íran og verður afhent nýjum eigendum síðar í þessum mánuði. Afli Bjarts í júlí var 634,2 tonn og var hann annar aflahæsti togarinn á landinu í mánuðinum samkvæmt aflafrettum.is. Vestmannaeyjaskipin Bergey og Vestmannaey voru í þrettánda og fjórtánda sæti yfir aflahæstu skip í mánuðinum en Gullver var að mestu í fríi þennan mánuð.
 
Steinþór Hálfdanarson skipstjóri á Bjarti segir að júlímánuður hafi verið afar góður. „Við fengum allan þennan afla á okkar hefðbundnu miðum hér fyrir austan og það var rennandi blíða allan mánuðinn. Það er ánægjulegt að síðustu vikurnar á Bjarti skuli vera svona góðar,“ sagði Steinþór. 
 

Nýi liturinn á skipunum

Blængur NK í nýju litunum til vinstri og Barði NK til hægri. Ljósm. Smári GeirssoBlængur NK í nýju litunum til vinstri og Barði NK til hægri. Ljósm. Smári GeirssonHér á heimasíðunni hefur verið gerð grein fyrir því að einkennislitum á skipum Síldarvinnslunnar hefur verið breytt. Dökkblár litur hefur leyst ljósari bláan lit af hólmi og hvíti liturinn er ekki eins skjannahvítur og áður. Auðvitað eru skoðanir skiptar þegar breytingar af þessu tagi eiga sér stað en sannleikurinn er sá að ákveðin rök liggja á bak við þær. Í fyrsta lagi er hagkvæmara að hafa skipin dökkmáluð því þá ber minna á ryði og ýmsu hnjaski sem skrokkurinn verður fyrir. Í öðru lagi finnst mörgum hinn dökkblái litur fara skipunum einkar vel og í þriðja lagi er liturinn nær þeim lit sem var á fyrstu skipum Síldarvinnslunnar þegar fyrirtækið hóf útgerð árið 1965. Hvað varðar hvíta litinn þá hefur reynslan sýnt að skjannahvítur litur endurkastar sólarljósi og gerir vinnuaðstæður stundum erfiðar. Nýi liturinn mildar verulega þetta endurkast.
 
Þessari frétt fylgir mynd af togurunum Blængi og Barða í höfn í Neskaupstað. Blængur er málaður hinum nýju litum en Barði er enn í gömlu litunum. Ekkert fer á milli mála að breytingin er töluverð.

Verslunarmannahelgarfríi lokið

Borkur maBörkur NK að landa makríl í dag. Ljósm. Smári Geirssonkrill agust 2016 SGBörkur NK að landa makríl í dag. Ljósm. Smári GeirssonBörkur NK kom með 800 tonn af makríl til Neskaupstaðar í gærkvöldi og þá þegar hófst vinnsla í fiskiðjuverinu. Þar með er verslunarmannahelgarfríinu lokið og allt komið í fullan gang á ný á sviði veiða og vinnslu. Hálfdan Hálfdanarson skipstjóri á Berki sagði að aflinn hefði fengist vestur af Garðskaga, í Faxaflóanum. „Við leituðum austar en fundum nánast ekkert. Þessa dagana virðist makríllinn halda sig vestar en hann hefur gert síðustu ár en það getur verið fljótt að breystast. Makríllinn syndir hratt og hann er þar sem ætið er hverju sinni. Við fengum þennan afla í þremur holum á 16-18 tímum og þetta er ágætur fiskur og lítil áta í honum,“ sagði Hálfdan.

Sannkallað hörkuskip

DJI 0304 2

Blængur NK við heimkomuna í gær.Ljósm: Hlynur Sveinsson

 

              Blængur NK kom til Neskaupstaðar í gær eftir gagngerar endurbætur í Póllandi. Skipið lítur afar vel út og fer á næstu dögum til Akureyrar þar sem unnið verður við að koma upp búnaði á vinnsludekki. Á heimsiglingunni frá Gdansk var Theodór Haraldsson skipstjóri og Geir Stefánsson fyrsti stýrimaður. Tíðindamaður heimasíðunnar hitti þá um borð í Blængi í morgun. Báðir töldu þeir að endurbæturnar á skipinu væru afar vel heppnaðar og það væri svo sannarlega tilhlökkunarefni að hefja veiðar á því. Þá sögðu þeir að hér væri um afar gott sjóskip að ræða. „Þetta er sannkallað hörkuskip að öllu leyti“, sagði Theodór. „Það var allt endurnýjað í brúnni og vinnuumhverfið þar er eins og í nýjustu skipum. Þá voru íbúðirnar endurnýjaðar og eru þær orðnar nútímalegar og vistlegar. Einnig var sett hliðarskrúfa í skipið og það allt sandblásið og málað hátt og lágt auk fleiri umbóta sem unnið var að. Í skipinu er líkamsræktaraðstaða og komið var fyrir heitum stórum nuddpotti sem verður örugglega vel nýttur. Á heimleiðinni var gangur skipsins kannaður og það fór í 16,7 mílur. Það verður gaman að veiða á þetta skip,“ sagði Theodór að lokum. 

Hér fyrir neðan má sjá myndir sem teknar voru um borð í Blængi NK að loknum endurbótum á skipinu:

brú blængur

Allt var endurnýjað í brú skipsins. Ljósm: Hákon Ernuson

klefi

Íbúðir skipverja voru allar endurnýjaðar. Ljósm: Hákon Ernuson

pottur

 

Heiti nuddpotturinn verður vel nýttur í framtíðinni. Ljósm: Hákon Ernuson

Blængur kemur til Neskaupstaðar í dag eftir gagngerar endurbætur í Póllandi

                

Um kl. 16 í dag kemur Blængur NK til heimahafnar í Neskaupstað eftir gagngerar endurbætur í Póllandi. Myndin sem fylgir er tekin í Seyðisfjarðardýpinu skömmu fyrir hádegi þegar Blængur mætti þar Barða NK. Eins og sést á myndinni er Blængur orðinn hinn glæsilegasti.

Makríllinn berst að landi en Neistaflugsfrí framundan

Bjarni Ólafsson AK siglir inn Norðfjörð með makrílfarm, fjær er frystiskipið Hákon EA. Ljósm. Hákon ErnusonBjarni Ólafsson AK siglir inn Norðfjörð með makrílfarm, fjær er frystiskipið Hákon EA. Ljósm. Hákon Ernuson
Í gærmorgun var lokið við að landa 800 tonnum af makríl úr Berki NK í fiskiðjuverið í Neskaupstað. Beitir NK kom síðan í gær með 580 tonn sem nú er verið að vinna. Þá mun Bjarni Ólafsson AK vera væntanlegur í dag með 300 tonn. Þegar vinnslu á aflanum úr Bjarna Ólafssyni lýkur á morgun verður gefið frí í fiskiðjuverinu yfir verslunarmannahelgina og mun starfsfólkið fá tækifæri til að njóta veglegrar Neistaflugshátíðar.
 
Frystiskipin Vilhelm Þorsteinsson EA og Hákon EA hafa að undanförnu landað frystum makríl í frystigeymslur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Vilhelm hefur landað tvisvar, samtals tæplega 1000 tonnum og Hákon landaði sl. laugardag og sunnudag rúmlega 700 tonnum.

Veikt pund en kærkomið þjóðhátíðarfrí hjá Bergey VE og Vestmannaey VE

Fisk

Frá fiskmarkaðnum í Grimsby. Ljósm: Guðmundur Alfreðsson

Vel hefur gengið hjá skipunum Bergey VE og Vestmannaey VE það sem af er sumri en gengissveiflur breska pundsins hefur haft áhrif á verðmæti aflans. Vestmanney VE kom í land á sunnudagskvöld og Bergey VE eftir hádegi í gær og eru áhafnirnar nú komnar í kærkomið þjóðhátíðarfrí eftir mikið úthald í júlí.  

Bretlandsmarkaður er lang mikilvægasti markaður fyrir afla Bergeyjar og Vestmannaeyjar og hefur veiking pundsins um 23% á einu ári haft mikil áhrif á tekjur félagsins og sjómanna þess. Ofan á lækkun pundsins virðist fiskverð almennt vera að gefa eftir, t.d. er ýsuverð í Bretlandi nú um 30% lægra í pundum talið samanborið við sumarið árið áður.

Góð makrílveiði – fiskurinn fínn til vinnslu

Heilfrysting á fallegum og ferskum makríl í fiskiðjuverinu. Ljósm. Hákon ErnusonHeilfrysting á fallegum og ferskum makríl í fiskiðjuverinu. Ljósm. Hákon ErnusonBeitir NK kom til Neskaupstaðar í gær með 840 tonn af makríl sem fékkst að mestu fyrir vestan Vestmannaeyjar. Að sögn Jóns Más Jónssonar framkvæmdastjóra landvinnslu hjá Síldarvinnslunni er fiskurinn sem Beitir kom með fínn til vinnslu miðað við árstíma. Þá sagði Jón að það væri fagnaðaefni að fá svona góða veiði og nú væri vonandi ekkert því til fyrirstöðu að vertíðin færi af stað af alvöru. „Svona á þetta að vera- góð veiði og fínt hráefni,“ sagði Jón.
 
Bjarni Ólafsson AK er á landleið til Neskaupstaðar með 640 tonn en aflann fékk hann í þremur holum vestan við Eyjar. Runólfur Runólfsson skipstjóri sagði að veiðin þarna hefði verið mjög góð fram að hádegi í gær en þá hefði heldur dregið úr henni, mikil hreyfing væri á fiskinum. Bjarni Ólafsson mun koma til Neskaupstaðar í fyrramálið og löndun úr honum hefjast strax og lokið verður við að vinna úr Beiti.
 
Börkur NK hélt til makrílveiða í nótt. 

Börkur í nýju Síldarvinnslulitunum

BÖ

Börkur NK í nýju Síldarvinnslulitunum. Ljósm: Hákon Ernuson

                Börkur NK sigldi inn Norðfjörð í dag nýmálaður og fínn. Síldarvinnslan festi kaup á skipinu frá Noregi árið 2014 og þá var skipið rautt að lit og það hefur verið rautt þar til nú. Að undanförnu hefur Börkur verið í slipp á Akureyri og þar hefur verið sinnt ýmsum verkefnum um borð ásamt því að skipið hefur verið málað hátt og lágt.

                Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni er Síldarvinnslan að skipta um einkennislit á skipum sínum. Nýi liturinn er dökkblár og ekki ósvipaður þeim lit sem var á fyrstu skipunum sem voru í eigu fyrirtækisins.

Árin þrjú sem urðu að þrjátíu

DSC04352

 Freysteinn Bjarnason framan við fiskimjölsverksmiðjuna í Neskaupstað. Ljósm: Hákon Ernuson

Freysteinn Bjarnason og fjölskylda hans fluttist frá Akureyri austur til Neskaupstaðar hinn 10. júlí árið 1986. Hinn 15. júlí hóf Freysteinn síðan störf sem verksmiðjustjóri í fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar þar. Í upphafi réð Freysteinn sig til starfa í þrjú ár en árin fyrir austan urðu þrjátíu. Nú hefur Freysteinn kvatt Síldarvinnsluna og í tilefni af því ákvað heimasíðan að ræða við hann. Viðtalið var tekið 15. júlí sl. en þá voru liðin þrjátíu ár upp á dag síðan Freysteinn hóf störf hjá fyrirtækinu. Hér skal Freysteini gefið orðið:

Óvænt atvinnutilboð

                Ég var búinn að starfa hjá Útgerðarfélagi Akureyringa í fjölda ára. Hafði verið vélstjóri á togurum fyrirtækisins og í átta ár hafði ég starfað við viðhaldsverkefni í landi. Að því kom að ég vildi breyta til og sótti um starf hjá fóðurverksmiðjunni Laxá. Finnbogi Jónsson var iðnráðgjafi Eyjafjarðar á þessum tíma og hann hafði samband við mig og sagðist geta boðið mér meira spennandi starf; það reyndist vera starf verksmiðjustjóra í fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað en Finnbogi sagði mér að hann hefði ráðið sig sem framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar og væri á austurleið.

                Eftir mikla umhugsun og umræður innan fjölskyldunnar var ákveðið að ég réði mig til þriggja ára í verksmiðjustjórastarfið. Ég þekkti Neskaupstað frá því að ég var á síld fyrir austan en fjölskyldan hafði  haft lítil kynni af staðnum. Undirbúningur fyrir starfið hófst strax; ég heimsótti allar fiskimjölsverksmiðjur á Norðurlandi, allt austur til Raufarhafnar, og ég varð mér úti um lesefni sem gæti gagnast. Tímanum sem fór í þetta var vel varið og ég stóð fyrir vikið betur að vígi þegar ég hóf störfin fyrir austan.

Verksmiðjustjóri í níu ár

                Þegar ég hóf störf í verksmiðjunni  var byrjað á stóru verkefni sem fól í sér endurbætur á henni. Verksmiðjan þurfti mikilla umbóta við enda hafði hún að miklu leyti verið byggð með þeim búnaði sem tilheyrt hafði eldri verksmiðju sem eyðilagðist í snjóflóðunum hörmulegu árið 1974. Umbæturnar héldu síðan áfram nánast allan þann tíma sem ég var verksmiðjustjóri og hvert framfaraskrefið af öðru var stigið. Undir lok míns starfstíma var hafinn lokaáfanginn sem var að skipta út þurrkurum. Síðan hefur verksmiðjan verið þróuð áfram og er í dag stærsta fiskimjölsverksmiðja landsins.

Capture

Myndin er tekin 4. júlí 1996 þegar mikilvægum áfanga við endurbætur á fiskimjölsverksmiðjunni í Neskaupstað var lokið. Talið frá vinstri: Finnbogi Jónsson framkvæmdastjóri, Freysteinn Bjarnason útgerðarstjóri og Jón Már Jónsson verksmiðjustjóri.

                Þegar ég kom austur má segja að Síldarvinnslan hafi tæknilega séð verið gjaldþrota fyrirtæki. Á fyrstu árum mínum í verksmiðjunni varð ég svo sannarlega var við veika stöðu fyrirtækisins. Ég man að þegar ég var að byrja reyndi ég til dæmis að semja um afslætti á vörum og varahlutum sem þurfti að kaupa til verksmiðjunnar. Þá fékk ég venjulega að heyra að afsláttur kæmi ekki til greina og spurning væri hvort viðskipti við fyrirtækið ættu að eiga sér stað. En það var fyrir einstakan dugnað manna eins og Finnboga sem tókst að snúa þessu við. Fyrirtækið var eflt stig af stigi og afkoma þess fór sífellt batnandi.

                Á þessum tíma var sjávarútvegurinn í hinum mestu kröggum og mörg fyrirtæki áttu við svipaða erfiðleika að stríða og Síldarvinnslan. Í umræðu nútímans gleymist það gjarnan að rekstur sjávarútvegsfyrirtækja hefur ekki alltaf verið dans á rósum.

Útgerðarstjóri í áratug

                Í árslok 1995 var Jóhann K. Sigurðsson að láta af störfum útgerðarstjóra hjá Síldarvinnslunni fyrir aldurs sakir og mér bauðst að taka við starfi hans. Ég þáði starfið með þökkum. Þrátt fyrir að ég kynni vel við mig í verksmiðjustjórastarfinu fannst mér ég þarna kominn á minn heimavöll enda tengdur sjómennsku frá blautu barnsbeini.

Kafli 41 01

Útgerðarstjóraskipti 1. desember 1995. Freysteinn Bjarnason tekur við af Jóhanni K. Sigurðssyni sem verið hafði útgerðarstjóri frá því að Síldarvinnslan hóf útgerð. Ljósm: Elma Guðmundsdóttir

                Þegar ég tók við starfi útgerðarstjóra var margt breytt hjá Síldarvinnslunni; fyrirtækið var komið á markað, fjárhagurinn farinn að styrkjast og það var orðið mögulegt að hefja viðamiklar endurbætur á skipastólnum. Börkur var endurbyggður nánast frá grunni og frystitogarinn Barði (áður Snæfugl) var keyptur. Ég fann mig afar vel í þessu starfi og almennt má segja að útgerðin hafi gengið vel og áfallalaust  

Framkvæmdastjóri Sún og stjórnarmaður í Síldarvinnslunni

                Árið 2005 lét Kristinn V. Jóhannsson af starfi framkvæmdastjóra Samvinnufélags útgerðarmanna (Sún) og var mér boðið að taka við því starfi. Ég þurfti að hugsa mig alllengi um því ég átti verulega erfitt með að slíta Síldarvinnslustrenginn. Mér fannst að vísu kominn tími til að hægja á og gegna rólegra starfi en áður og ég hélt að starfið hjá Sún fæli það í sér, sem reyndist síðan mesti misskilningur. En það sem skipti sköpum og leiddi til þess að ég sagði á endanum óhikað já við Sún var að starfið fól í sér stjórnarsetu í Síldarvinnslunni enda Sún stærsti heimahluthafinn í fyrirtækinu.

                Enginn efast um hvað stofnun Sún var mikilvæg árið 1932 og síðar var félagið stærsti atvinnurekandinn í Neskaupstað ásamt því að eiga meirihluta í Síldarvinnslunni þegar það fyrirtæki var stofnað. Hin síðari ár hefur norðfirskt samfélag heldur betur notið Sún þar sem félagið lætur mikinn hluta þess arðs sem fæst af eignarhlutnum í Síldarvinnslunni renna til samfélagsverkefna innan fjallahringsins. Það er svo sannarlega gefandi að starfa fyrir félag eins og Sún og ég naut þess til hins ítrasta en af því starfi lét ég seint á síðasta ári.

Kafli 49 05

Framkvæmdastjóri og stjórn Síldarvinnslunnar vorið 2007. Talið frá vinstri: Aðalsteinn Helgason framkvæmdastjóri, Ingi Jóhann Guðmundsson, Þorsteinn Már Baldvinsson stjórnarformaður og Freysteinn Bjarnason. Ljósm: Jóhannes Pálsson

                Þau tíu ár sem ég hef setið í stjórn Síldarvinnslunnar hafa í reynd verið stórkostleg upplifun. Að fá að taka þátt í ótrúlegri uppbyggingu fyrirtækisins og sjá það verða eitt af stærstu og öflugustu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins hafa verið hreinustu forréttindi. Ég vil meina að það hafi verið gæfa Síldarvinnslunnar að góðir menn komu að fyrirtækinu þegar það fór á markað á sínum tíma og í því sambandi ber helst að nefna þá Samherjamenn. Þorsteinn Már Baldvinsson og félagar hans hafa svo sannarlega staðið sig hvað varðar uppbyggingu Síldarvinnslunnar. Þekking og útsjónarsemi Samherjamanna er alveg einstök og hvað eftir annað hafa verið teknar réttar ákvarðanir á réttum tíma.

                Ég hvarf úr stjórn Síldarvinnslunnar á aðalfundi sem haldinn var í júní síðastliðnum en þar með er ekki öll sagan sögð. Ég var fengin til að hafa umsjón með framkvæmdum við frystitogarann Blæng úti í Póllandi í sumar og þar steig ég síðustu Síldarvinnsluskrefin. Ég var afar glaður og þakklátur að fá að sinna þessu lokaverkefni fyrir fyrirtækið.

Þakklæti og söknuður

                Um þessar mundir eru ég og konan mín að pakka niður og flytja á okkar gömlu slóðir á Akureyri. Árin þrjú sem við ætluðum að eiga hér fyrir austan eru orðin þrjátíu. Í stað okkar tveggja flytur sex manna fjölskylda frá Akureyri í húsið sem við höfum átt heima í alla okkar tíð hér eystra og það verða að teljast góð skipti fyrir sveitarfélagið.

                Á þessum þrjátíu árum hefur fyrirtækið verið undir stjórn fjögurra framkvæmdastjóra sem hafa reynst hver öðrum öflugri. Ég er afar þakklátur fyrir að hafa fengið að starfa með þessum mönnum. Þetta eru Finnbogi Jónsson, Björgólfur Jóhannsson, Aðalsteinn Helgason og Gunnþór Ingvason. Auðvitað hafa þessir menn lagt grunninn að því fyrirtæki sem Síldarvinnslan er í dag. Ég er líka afar þakklátur eiginkonu minni, Ingibjörgu Árnadóttur, en hún átti í upphafi erfitt með að sætta sig við flutninginn austur. Hún var heima með ungan son okkar fyrstu árin en eftir að hún fór út á vinnumarkaðinn breyttist allt og hún tók samfélagið fullkomlega í sátt.

                Mér hefur líkað vel í Neskaupstað frá fyrsta degi og nú þegar við kveðjum er efst í huga þakklæti og söknuður. Þrjátíu ár eru drjúgur hluti starfsævinnar og þessi þrjátíu ár í Neskaupstað verða mér algerlega ógleymanleg.

Makrílvinnsla hafin í fiskiðjuverinu

DSC04346

Beitir NK landar fyrsta makrílfarmi vertíðarinnar í fiskiðjuverið í Neskaupstað. Ljósm: Hákon Ernuson

                Í gær kom Beitir NK með fyrsta makrílfarminn á vertíðinni til vinnslu í fiskiðjuverinu í Neskaupstað. Afli skipsins var 370 tonn og var hann nokkuð síldarblandaður. Vinnsla á fiskinum hófst strax með hefðbundnum hætti.

                Bjarni Ólafsson AK er að veiðum og er væntanlegur með makrílfarm til vinnslu í kvöld.

Beitir NK hefur makrílveiðar og allt klárt til að hefja vinnslu

DSC04337 3

Beitir NK tekur veiðarfærin áður en haldið var til makrílveiða. Ljósm: Smári Geirsson

                Beitir NK hélt til makrílveiða í gærkvöldi. Hann hóf síðan veiðar vestan við Þórsbankann í morgun. „Við erum dálítið sunnar og austar en bátarnir sem hafa verið á þessum slóðum. Hér eru smá lóðningar en við eigum eftir að sjá hvað kemur út úr þessu,“ sagði Tómas Kárason skipstjóri á Beiti skömmu fyrir hádegi. Að sögn Tómasar er hálfgerð bræla á miðunum og spáð leiðinda kalda í dag.

                Jón Gunnar Sigurjónsson yfirverkstjóri í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað segir að þar sé allt klárt til að hefja vinnslu en ráðnir hafa verið um 50 starfsmenn á vaktir á vertíðinni. „Hér bíða menn spenntir eftir að fá fyrsta farminn til vinnslu og við vonumst til að Beitir komi með hann á sunnudag. Það er mikið um að vera í fiskiðjuverinu en unnið er að því að koma upp búnaði til að auka afköst þess mikið og sú vinna mun halda áfram þrátt fyrir að vinnsla hefjist fyrir fullri alvöru,“ sagði Jón Gunnar.

Fyrsti makríllinn til Neskaupstaðar á vertíðinni

DSC04341 2

Löndun á frystum makríl úr Vilhelm Þorsteinssyni EA í dag. Ljósm: Smári Geirsson

                Vilhelm Þorsteinsson EA kom með fyrsta makrílinn á vertíðinni til Neskaupstaðar í nótt og hófst löndun úr skipinu í morgun. Afli skipsins er rúmlega 480 tonn af frystum makríl og um 200 tonn af afskurði sem fer til framleiðslu á fiskimjöli og lýsi.

                Skipið var að veiðum frá Stokksnesgrunni og vestur undir Öræfagrunn og tók veiðiferðin rúmlega fimm sólarhringa. Birkir Hreinsson skipstjóri sagði að veiðin hefði verið róleg og það væri ekki mikið af makríl á miðunum. Fiskurinn sem fékkst er 360-380 grömm og dálítil áta í honum. Það var ávallt einhver síld í hverju holi. „Makríllinn virðist vera heldur seinna á ferðinni en síðustu ár og því fer vertíðin hægar af stað. En það er engin ástæða til annars en að vera bjartsýnn á vertíðina og við munum halda á ný til veiða strax að löndun lokinni,“ sagði Birkir að lokum. 

Starfsemi Sjávarútvegsskólans gengur vel

IMG 2024

Norðfirskir nemendur Sjávarútvegsskólans skoða karfa hátt og lágt.

      Kennslu í Sjávarútvegsskólanum lauk í Neskaupstað sl. föstudag. Alls útskrifuðust 16 nemendur þar, en skólinn hefur verið vel sóttur það sem af er sumri. Kennsla í skólanum hófst á Höfn í Hornafirði hinn 13. júní sl. og síðan lá leiðin til Vopnafjarðar og þaðan til Seyðisfjarðar. Neskaupstaður var næstur í röðinni og að kennslu þar lokinni kemur röðin að Eskifirði og loks Fáskrúðsfirði.

                Það var Síldarvinnslan sem hafði frumkvæði að stofnun skólans árið 2013 en síðan færði hann út kvíarnar og var þá kennt í Fjarðabyggð og einnig á Seyðisfirði. Nú í sumar leiðir Háskólinn á Akureyri skólastarfið í samvinnu við Síldarvinnsluna og er kennt á sex stöðum eystra eins og fram kom hér að framan. Sjávarútvegsskólinn er samvinnuverkefni Háskólans á Akureyri og sex sjávarútvegsfyrirtækja á Austurlandi: Síldarvinnslunnar, Eskju, Loðnuvinnslunnar, Gullbergs, HB-Granda og Skinneyjar-Þinganess. Þá eru vinnuskólar sveitarfélaganna þátttakendur í samstarfinu þar sem nemendur þeirra sækja Sjávarútvegsskólann í eina viku á launum í stað þess að sinna hefðbundnum störfum í vinnuskólunum.

IMG 2066

Vettvangsheimsókn í Matís í Neskaupstað

                Sjávarútvegsskólanum er ætlað að veita nemendum úr sjávarbyggðum og nágrannabyggðum þeirra, sem eru að hefja nám í 9. bekk grunnskóla á næsta skólaári, fjölbreytta fræðslu um þessa grunnatvinnugrein þjóðarinnar. Lögð er áhersla á fjölbreytni starfa í greininni og tengdum greinum svo og menntunarmöguleika. Aðalkennarar í skólanum í sumar eru Kristófer Leó Ómarsson og Unnur Inga Kristinsdóttir en þau eru bæði nemar í sjávarútvegsfræðum við Háskólann á Akureyri. Þá sinna heimamenn á hverjum stað einnig kennslu.

IMG 2123

Frá heimsókn í netagerð Egersunds á Eskifirði

                Þau Kristófer og Unnur eru ánægð með skólastarfið hingað til. Þau segja að nemendur séu áhugasamir og að fullyrða megi að mikil þörf sé á fræðslu á þessu sviði. Vettvangsheimsóknir séu mikilvægur hluti skólastarfsins og þær veiti nemendum innsýn í allan þann fjölbreytileika sem einkennir sjávarútveginn.  Farið sé í heimsóknir í bolfiskvinnslu, uppsjávarvinnslu, fiskimjölsverksmiðju, netagerð, fiskiskip, fiskmarkaði og á rannsóknastofu Matís svo eitthvað sé nefnt. Eins er farið vandlega yfir gæðamál, öryggismál og markaðsmál.

                Að sögn Kristófers og Unnar er gert ráð fyrir að víkka út skólastarfið á næsta ári og hefja þá einnig kennslu í sjávarbyggðum á Norðausturlandi.

Haldið á miðin í kvöldroðanum

Bergey VE heldur á miðin frá Vestmannaeyjum í gærkvöldi. Ljósm. Egill EgilssonBergey VE heldur á miðin frá Vestmannaeyjum í gærkvöldi. Ljósm. Egill EgilssonMyndin sem fylgir þessari frétt var tekin í gærkvöldi þegar Bergey VE sigldi út frá Vestmannaeyjum að aflokinni löndun. Vart er hægt að hugsa sér meiri fegurð en þegar kvöldhimininn skartar slíkum roða. Bergur-Huginn ehf. gerir út tvö skip, Bergey og Vestmannaey, og hafa þau aflað afar vel að undanförnu. Uppistaða aflans hefur verið ýsa en verð á henni og öðrum ferskum fiski hefur farið lækkandi að undanförnu og skyggir það á hin góðu aflabrögð. Fall pundsins hefur þar haft mikil áhrif en Bretland er mikilvægasti markaðurinn fyrir ferskan íslenskan fisk.
 

Frystihúsið verður til sóma

Framkvæmdir við frystihús Gullbergs ehf. á Seyðisfirði  Ljósm. Ómar BogasonFramkvæmdir við frystihús Gullbergs ehf. á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar BogasonUm þessar mundir er unnið að því að endurnýja klæðningu og þakplötur á frystihúsi Gullbergs ehf. á Seyðisfirði en húsið var verulega farið að láta á sjá. Lokið er við að rífa gömlu klæðninguna af að mestu og nú er verið að setja upp leiðarakerfi fyrir nýja klæðningu sem verður í Síldarvinnslulitunum. Það er fyrirtækið Og synir-ofurtólið ehf. sem sinnir verkinu undir stjórn Þorsteins Erlingssonar framkvæmdastjóra og húsasmíðameistara. Þessa dagana starfa sex menn við framkvæmdirnar en það er Mannvit hf. sem sér um hönnun og eftirlit.
 
Hafist var handa við verkið um miðjan júnímánuð og gert er ráð fyrir að því ljúki í september. Það er ljóst að húsið verður glæsilegt að verki loknu, öllum til sóma og sannkölluð bæjarprýði.

Þorskurinn mættur í makrílveislu

DSC04080

Landað úr Bjarti NK. Ljósm: Hákon Ernuson

Að undanförnu hefur verið heldur tregt á Austfjarðamiðum hjá togurunum en nú er að rætast úr því. Ísfisktogarinn Bjartur NK kom til löndunar í Neskaupstað í gær með 60 tonna afla eftir að hafa verið þrjá daga á veiðum hér eystra og var þá Steinþór Hálfdanarson skipstjóri tekinn tali. „Það er að rætast úr veiðinni hér eystra en aflinn í þessari veiðiferð var að uppistöðu til þorskur og karfi. Við vorum að reyna við ufsa eins og nánast allur íslenski togaraflotinn en það reyndist vera lítið af honum. Að undanförnu hefur verið tregt hér eystra og því höfum við veitt á Vestfjarðamiðum síðustu þrjár vikur eða svo. En nú er að rætast úr þessu hérna fyrir austan; það hefur orðið vart við makríl og þá er sá guli fljótur að láta sjá sig. Hann er mættur í makrílveislu,“ sagði Steinþór. „Við erum að njóta síðustu túranna á Bjarti en eins og kunnugt er hefur hann verið seldur til Írans og verður afhentur nýjum eigendum í ágúst. Bjartur er mikið gæðaskip og hefur staðið sig einstaklega vel frá því að Síldarvinnslan hóf að gera hann út árið 1973. Það eiga margir ljúfar og góðar minningar af verunni á Bjarti en nú er hann orðinn gamall blessaður og hans bíða ný verkefni á framandi slóðum,“sagði Steinþór að lokum.

DSC 0577 a

Gullver NS er kominn í frí og unnið er við að gera hann fínan. Ljósm: Ómar Bogason

                Ísfisktogarinn Gullver NS kom til löndunar á Seyðisfirði sl. laugardag með um 90 tonna afla. Uppistaða aflans var þorskur og karfi. Nú er áhöfn Gullvers komin í sumarfrí en í dag er síðasti vinnsludagurinn í fiskvinnslustöð Gullbergs fyrir sumarlokun. Byrjað er að sinna ýmissi vinnu um borð í Gullver og er þar helst verið að skrapa, mála og gera fínt. 

 

 

Framlag Síldarvinnslusamstæðunnar til samfélagsins nam 9,7 milljörðum króna á árunum 2014-2015 – þar af voru veiðigjöld 1,8 milljarðar

Capture

            Endurskoðunarfyrirtækið Deloitte hefur reiknað út svonefnt samfélagsspor Síldarvinnslusamstæðunnar fyrir árin 2014 og 2015. Samfélagsspor er tiltekin aðferðafræði sem notuð er til að greina heildarframlag fyrirtækja til samfélagsins í formi skatta og opinberra gjalda. Til Síldarvinnslusamstæðunnar teljast, auk móðurfélagsins Síldarvinnslunnar hf., Gullberg ehf., Bergur-Huginn ehf., Fóðurmjölsverksmiðjan Laxá hf. og SVN-eignafélag ehf.

       Hér skal getið um nokkrar athyglisverðar niðurstöður samfélagssporsins:

 • Rekstrartekjur samstæðunnar námu 27 milljörðum króna árið 2015 og fjöldi ársverka var 334.

 • Rekstrarkostnaður fyrir utan laun og skatta á árinu 2015 nam 10,5 milljörðum króna og er stór hluti kostnaðarins vegna kaupa á vörum og þjónustu frá öðrum innlendum fyrirtækjum.

 • Launagreiðslur námu 15% af verðmætasköpun ársins 2015.

 • Meðaltal heildarlauna starfsmanna á árinu 2015 var 12,3 milljónir króna.

 • Samfélagssporið nam 15,3 milljónum fyrir hvern starfsmann á árinu 2015.

 • Veiðigjöld námu 909 milljónum króna á árinu 2014 og 872 milljónum á árinu 2015.

 • Veiðigjöld sem hlutfall af samfélagsspori námu tæplega 20% árið 2014 og 17% árið 2015.

 • Á árinu 2015 greiddi samstæðan 100 milljónir króna í kolefnis- og raforkugjald.

 • Alls greiddi samstæðan 94 milljónir króna í stimpilgjöld á árinu 2015, þar af voru greiddar 82 milljónir í stimpilgjöld vegna kaupa á uppsjávarskipinu Beiti NK.

 • Samanlagt námu greiddir og innheimtir skattar ásamt opinberum gjöldum samstæðunnar 4,6 milljörðum króna árið 2014 og 5,1 milljarði árið 2015. Samanlagt nam því framlag samstæðunnar til samfélagsins 9,7 milljörðum króna í formi skatta og gjalda á árunum 2014 og 2015. Ekki eru metin margfeldisáhrif vegna kaupa á innlendum vörum og þjónustu.

  Hér fyrir neðan má sjá nánari upplýsingar um samfélagssporið

16-06-22_Samfélagsspor_SVN_glærur.pdf

Síldarvinnslan fyrir 50 árum

Börkur NK kom nýr til Neskaupstaðar í nóvembermánuði árið 1966. Ljósm. Guðmundur SveinssonBörkur NK kom nýr til Neskaupstaðar í nóvembermánuði árið 1966. Ljósm. Guðmundur SveinssonÁrið 1966 er áhugavert ár þegar saga Síldarvinnslunnar er skoðuð. Þetta var fyrsta heila árið sem Síldarvinnslan rak fiskvinnslustöð og síldarsöltunarstöð og jafnframt var þetta fyrsta heila ár útgerðar Síldarvinnslunnar. Fest voru kaup á eignum Samvinnufélags útgerðarmanna snemma árs 1965 og voru fiskvinnslustöðin og síldarsöltunarstöðin á meðal þeirra. Fyrstu fiskiskipin í eigu Síldarvinnslunnar, Barði og Bjartur, hófu veiðar á árinu 1965 þannig að árið 1966 var fyrsta heila rekstrarár útgerðarinnar. Hér á eftir verður getið um nokkrar athyglisverðar staðreyndir hvað varðar starfsemi  Síldarvinnslunnar á árinu 1966.
 
 • Síldveiðarnar á árinu 1966 slógu öll fyrri met.  Framan af vertíð þurftu veiðiskipin að sækja síldina langt norður í höf en þegar hausta tók þétti síldin sig á Rauða torginu og var veiðin þar ævintýraleg. Á vertíðinni veiddu íslensku veiðiskipin rúmlega 770 þúsund tonn af stórri og fallegri norsk-íslenskri síld.
 • Síldveiðarnar hjá Síldarvinnsluskipunum Barða og Bjarti gengu afar vel á vertíðinni. Barði landaði alls 7531 tonni og Bjartur 8318 tonnum.
 • Í nóvembermánuði þetta ár bættist þriðja síldveiðiskipið í flota Síldarvinnslunnar. Það fékk nafnið Börkur. Börkur hóf síldveiðar strax og landaði 2782 tonnum á vertíðinni.
 • Alls tók síldarverksmiðja Síldarvinnslunnar í Neskaupstað á móti 107.533 tonnum af síld á vertíðinni 1966. Það var langmesta magn sem borist hafði til verksmiðjunnar, en árið áður hafði hún tekið á móti 70.200 tonnum og var það fyrra met.
 • Unnið á síldarsöltunnarstöð Síldarvinnslunnar. Fiskvinnslustöðin í baksýn. Ljósm. v.LindenUnnið á síldarsöltunnarstöð Síldarvinnslunnar. Fiskvinnslustöðin í baksýn. Ljósm. v.Linden
 • Mjög miklar umbætur voru gerðar á síldarverksmiðjunni á þessu ári. Verksmiðjuhúsið var stækkað, komið fyrir nýjum sjóðara, nýrri pressu og þremur skilvindum bætt við þær sem fyrir voru. Jafnframt var nýr ketill settur upp og komið fyrir soðeimingartækjum. Þegar þessum framkvæmdum var lokið höfðu afköst verksmiðjunnar aukist og gat hún unnið úr 700 tonnum á sólarhring en meðalafköst voru 600 tonn.
 •  Alls voru saltaðar 11.431 tunna af norsk-íslenskri síld hjá síldarsöltunarstöð Síldarvinnslunnar árið 1966. Heildarsöltunin hjá sex síldarsöltunarstöðvum í Neskaupstað á vertíðinni var 52.925 tunnur og var það næst mesta söltun á einni vertíð hjá söltunarstöðvum bæjarins á árum hins svonefnda síldarævintýris. Mest var saltað árið 1963 en þá fór síld ofan í 56.375 tunnur í Neskaupstað.
 • Í fiskvinnslustöð Síldarvinnslunnar var mikil áhersla lögð á síldarfrystingu á árinu 1966. Alls voru þar fryst 992 tonn af síld en einungis 346 tonn af bolfiski.
 • Síldarvinnslan festi kaup á síldarflökunarvélum árið 1966 og hóf tilraunir með síldarflökun.
 • Snemma árs 1966 héldu skip Síldarvinnslunnar, Barði og Bjartur, til loðnuveiða. Loðnuveiðar voru þá eingöngu stundaðar úti fyrir suður- og suðvesturströnd landsins og var engri loðnu landað í Neskaupstað. Loðna barst fyrst til vinnslu í Neskaupstað tveimur árum síðar.
 
Eins og sést á staðreyndaupptalningunni hér að framan tengdust umsvif Síldarvinnslunnar á árinu 1966 fyrst og fremst veiðum og vinnslu á norsk-íslenskri síld. Það átti eftir að breytast mikið á næstu árum, en það er önnur saga.Síldarverksmiðja Síldarvinnslunnar tók á móti 107.533 tonnum af síld á vertíðinni 1966. Ljósm. Hjörleifur GuttormssonSíldarverksmiðja Síldarvinnslunnar tók á móti 107.533 tonnum af síld á vertíðinni 1966. Ljósm. Hjörleifur Guttormsson

Undirflokkar