Beitir NK kominn með 9.300 tonn af kolmunna

Beitir NK að dæla kolmunna. Þetta var 650 tonna hol.   Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonBeitir NK að dæla kolmunna. Þetta var 650 tonna hol. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonBeitir NK kom til Neskaupstaðar í morgun með 2.200 tonn af kolmunna sem fékkst í færeysku lögsögunni. Þar með er Beitir kominn með 9.300 tonn en hann hóf veiðarnar upp úr miðjum marsmánuði. Tómas Kárason skipstjóri segir að hingað til hafi kolmunnaveiðarnar gengið vel en vissulega veiðist mismikið frá einum tíma til annars. „Við vorum kallaðir inn með þessi 2.200 tonn því auðvitað þarf að hugsa um að verksmiðjurnar hafi hráefni til að vinna úr og einnig að of mikill afli berist ekki að landi á sama tíma. Þessi túr byrjaði afar vel. Við fengum 650 tonn í fyrsta holi, en síðan dofnaði verulega yfir veiðinni. Fiskurinn var dreifður og skipin þurftu að toga lengi. Við toguðum lengst í 18 tíma en sum skipin toguðu vel yfir 20 tíma. Þegar við fórum í land var treg veiði, en þetta á eftir að lagast. Kolmunnaveiðin er gjarnan svona; stundum gengur vel en svo koma tímabil þar sem lítið fiskast. Það var hins vegar kostur við þennan túr að veðrið var afar gott allan tímann sem við vorum á veiðum, en það var hins vegar haugabræla á leiðinni á miðin,“ sagði Tómas.

Vilhelm Þorsteinsson EA er að landa 1.700 tonnum af kolmunna á Seyðisfirði í dag.

Gullver NS fær ný rauð fiskikör

ný gullverskör

Nýju Gullverskörin komin til Seyðisfjarðar. Ljósm: Daði Sigfússon

                Nýlega komu til Seyðisfjarðar ný fiskikör sem Sæplast framleiddi fyrir ísfisktogarann Gullver. Körin er rauð að lit rétt eins og skipið en engin önnur sambærileg kör eru þannig á litinn. Hingað til hefur Gullver notað hefðbundin kör sem hafa verið sérmerkt skipinu en eins og hjá fleirum hafa þau kör horfið í verulegu magni. Víða má sjá kör merkt Gullver sem menn hafa tekið traustataki og notað með ýmsum hætti og þá ekki síst undir alls konar rusl. Gera menn sér vonir um að rauði liturinn á körunum minnki líkurnar á að þeim verði stolið.

                Þetta er ekki í fyrsta sinn sem útgerð lætur framleiða fiskikör í sérstökum lit í þeirri von að það komi í veg fyrir að menn slái eign sinni á þau. Útgerðarfélagið Bergur-Huginn í Vestmannaeyjum lét sérframleiða fyrir sig græn kör þegar forsvarsmenn félagsins voru orðnir langþreyttir á karaþjófnaði. Rétt eins og hjá Gullver voru kör félagsins merkt félaginu auk hins sérstaka litar og var þess vænst að nú héldist því betur á þeim.

Gullverskar á víðavangi

             Fiskikar frá Gullver NS við ónefnda byggingavöruverslun.

 Bergur-Huginn hafði lengi glímt við það vandamál að körum félagsins var stolið og hefur Magnús Kristinsson framkvæmdastjóri látið hafa eftir sér að í reynd sé ótrúlegt hvernig menn umgangist fiskikör. Segir hann að menn sem almennt virði eignarrétt annarra virði alls ekki eignarrétt á fiskikörum og þeim þyki sjálfsagt að taka kör, jafnvel í nokkru magni, til að nota í eigin atvinnurekstri. Fullyrðir hann að stundum sé haft fyrir því að slípa merkinguna af körunum en oft sé það ekki einu sinni gert. Það að láta sérframleiða kör í ákveðnum lit sé tilraun til að koma í veg fyrir karaþjófnað en reynslan sýni að það dugi jafnvel ekki. Fiskikaraþjófar séu nefnilega einkar bíræfnir.  

       

 

Misjafn afli hjá kolmunnaskipunum

Börkur NK og Bjarni Ólafsson AK í höfn í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonBörkur NK og Bjarni Ólafsson AK í höfn í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonKolmunnaveiðin í færeysku lögsögunni gengur misjafnlega hjá íslensku skipunum. Þau toga gjarnan lengi eða allt upp í 18 tíma en afar misjafnt er hverju togin skila. Börkur NK hóf veiðar í gær eftir að hafa landað fullfermi á Seyðisfirði og byrjaði veiðiferðin vel. Í fyrsta holi fékk hann 500 tonn eftir að hafa einungis togað í 8 tíma og er það meiri afli en almennt gerist hjá skipunum undanfarna daga.
 
Síðustu skipin sem komu til löndunar hjá verksmiðjum Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og á Seyðisfirði lönduðu í gær og í fyrradag. Bjarni Ólafsson AK landaði 1.750 tonnum í Neskaupstað í fyrradag og pólska skipið Janus landaði 1.650 tonnum á Seyðisfirði í gær.

Skuttogarar koma til sögunnar

Skuttogarar koma til sögunnarÍ tilefni þess að Síldarvinnslan verður 60 ára hinn 11. desember nk. munu birtast pistlar um sögu fyrirtækisins á heimasíðunni af og til út árið. Hér verður fjallað um upphaf skuttogaraútgerðar fyrirtækisins og um leið upphaf skuttogaraútgerðar landsmanna.

Þegar Síldarvinnslan hóf útgerð árið 1965 stóð síldarævintýrið hvað hæst. Allt snerist um síldina. Í fullu samræmi við þetta voru fjórir fyrstu bátarnir í eigu Síldarvinnslunnar sérstaklega smíðaðir með síldveiðar í huga. En sagan segir okkur að erfitt sé að treysta á silfur hafsins til langframa – síldin kemur og síldin fer. Og síldarævintýrið tók enda og þá þurfti Síldarvinnslan rétt eins og mörg önnur sjávarútvegsfyrirtæki að bregðast við því. Síldarbátarnir hentuðu ekki vel til bolfiskveiða og flestum varð ljóst að breytingar á skipastól fyrirtækisins voru nauðsynlegar.

Á árunum 1970-1972 voru allir fjórir síldarbátar Síldarvinnslunnar seldir og í stað þeirra festi fyrirtækið kaup á skipum annarrar gerðar sem talin voru henta betur nýjum aðstæðum á sviði útgerðar. Skuttogari var keyptur árið 1970, stórt uppsjávarveiðiskip var keypt 1973 og sama ár fékk fyrirtækið nýjan skuttogara, Bjart NK, sem smíðaður var í Japan. Því var um algera endurnýjun á flota fyrirtækisins að ræða á árunum 1970-1973.

Barði NK, sem Síldarvinnslan festi kaup á árið 1970, var þriggja ára gamalt skip sem gert hafði verið út í Frakkalandi. Barði var í reyndinni fyrsti eiginlegi skuttogari landsmanna – hann hafði skutrennu, allan hefðbundinn skuttogarabúnað og ekki ætlaður til annarra veiða en togveiða. Barði var því tímamótaskip, en systurskip hans voru keypt til Eskifjarðar og Sauðárkróks um líkt leyti. Stóra uppsjávarveiðiskipið sem Síldarvinnslan festi kaup á árið 1973, Börkur NK, var einnig tímamótaskip og átti svo sannarlega eftir að reynast fyrirtækinu vel, en það er önnur saga.

Barði NK að toga innan um gamla síðutogara fljótlega eftir að hann hóf veiðar. Þarna mætast gamli og nýi tíminn. Ljósm. Ásgrímur ÁgústssonBarði NK að toga innan um gamla síðutogara fljótlega eftir að hann hóf veiðar. Þarna mætast gamli og nýi tíminn. Ljósm. Ásgrímur ÁgústssonBarði var 300 lesta togari og kom hann í fyrsta sinn til heimahafnar í Neskaupstað 14. desember 1970. Hann hélt síðan til veiða eftir gagngerar endurbætur 11. febrúar 1971 og þar með var skuttogaraútgerð Íslendinga hafin.

Ekki voru allir sannfærðir um að skynsamlegt væri fyrir Síldarvinnsluna að hefja togaraútgerð og rifjuðu menn upp útgerð nýsköpunartogara Norðfirðinga og togarans Gerpis en sú útgerð hafði ekki endað með neinum glæsibrag. Aðrir töldu hins vegar að skuttogaraútgerð ætti framtíð fyrir sér og fyrir gamlan síldarbæ eins og Neskaupstað væri brýnt að auka áherslu á bolfiskveiðar og þá með skipum sem hentuðu til slíkra veiða. Magni Kristjánsson, fyrsti skipstjórinn á Barða, hafði til dæmis tröllatrú á útgerð skuttogara og það hafði líka Birgir Sigurðsson, sem var fyrsti stýrimaður á togaranum í upphafi. Báðir höfðu þeir mikla reynslu af síðutogurum og töldu skuttogara hafa margt fram yfir þá þannig að hæpið væri að bera saman útgerð gömlu síðutogaranna og skuttogara.

Erfiðlega gekk að ráða áhöfn á Barða í upphafi enda margir fullir efasemda. Það fiskaðist strax vel á skipið og eftir fjóra mánuði var aflaverðmætið talið nema 15 milljónum króna sem var rúmlega fjórðungur af kostnaðarverði skipsins. Á fyrsta árinu bar Barði að landi liðlega 3.000 tonn og hásetahluturinn reyndist vera 790 þúsund krónur sem þótti skrambi gott. Fljótlega kom að því að pláss á Barða urðu eftirsótt og var unnt að velja úr umsækjendum. Það var svo sannarlega eitthvað annað en hafði verið á tímum norðfirsku síðutogaranna, en þeir höfðu löngum verið mannaðir Færeyingum að drjúgum hluta og jafnvel mönnum sem höfðu verið sjanghæaðir um borð í höfuðborginni.

Stjórn Síldarvinnslunnar tók ákvörðun um að láta smíða skuttogarann Bjart í Japan seint á árinu 1971 en þá hafði nokkur reynsla fengist af útgerð Barða. Í upphafi var Bjarti ætlað að leysa Barða af hólmi, en eftir að smíði togarans hófst var ákveðið að gera þá báða út. Reyndar urðu skuttogarar Síldarvinnslunnar þrír talsins árið 1977 þegar Birtingur NK bættist í flotann.

Barði NK, fyrsti skuttogari Síldarvinnslunnar, var í eigu fyrirtækisins til ársins 1979 en þá var hann seldur úr landi. Það var í októbermánuði 1979 sem Barði sigldi út Norðfjörð í síðasta sinn og það var engu líkara en skipið vildi ekki fara. Fjöldi fólks var saman kominn til að kveðja skipið og rétt í þann mund sem það var leyst kom upp bilun í stýrisbúnaði þess og tafðist brottförin því nokkuð. Árið 1980 hófst útgerð annars togara í stað Barða og bar hann sama nafn. Þessi nýi Barði var systurskip Birtings.

Hér verður skuttogarasaga Síldarvinnslunnar ekki rakin frekar, en vert er að minnast þess að árið 2014 var gefið út frímerki með mynd af Barða NK, fyrsta hefðbundna skuttogaranum sem gerður var út frá Íslandi.

Beitir á landleið með fullfermi af kolmunna– verksmiðjurnar hafa tekið á móti 18.000 tonnum frá páskum

Beitir NK að dæla 500 tonnum af kolmunna í upphafi brælunnar. Ljósm. Helgi Freyr Ólason.Beitir NK að dæla 500 tonnum af kolmunna í upphafi brælunnar. Ljósm. Helgi Freyr Ólason.Beitir NK fyllti sig á kolmunnamiðunum í færeysku lögsögunni sl. nótt og er væntanlegur til Neskaupstaðar með um 3.000 tonna afla um miðjan dag á morgun. Tómas Kárason skipstjóri á Beiti segir að veiðin hafi gengið þokkalega að undanförnu en bræla hafi þó haft truflandi áhrif. „Við vorum gjarnan að toga í 10-14 tíma og fá allt upp í 600 tonn í holi en eftir bræluna hefur þetta verið svolítið dreift. Annars fengum við 500 tonn í síðasta holinu í túrnum og það er bara býsna gott. Hérna rétt sunnan við línuna er mikið lóð og sá fiskur mun ganga inn í færeysku lögsöguna þannig að það er full ástæða til bjartsýni hvað varðar áframhaldandi veiðar. Það mega einungis 12 íslensk skip veiða samtímis í færeysku lögsögunni og meðal annars vegna brælunnar hafa nokkur skip beðið í höfn í Færeyjum eftir að komast að, en nú ætti biðin að taka enda þegar veðrið er gengið niður,“ sagði Tómas.

Fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og á Seyðisfirði hafa hvor um sig tekið á móti 9.000 tonnum af kolmunna frá páskum og vinnsla hefur gengið vel. Á Seyðisfirði var lokið við að bræða sl. nótt og að sögn Gunnars Sverrissonar verksmiðjustjóra er nú unnið við að hreinsa verksmiðjuna. „Við munum ljúka við að hreinsa og verða tilbúnir að taka á móti meiri kolmunna hið fyrsta,“ sagði Gunnar. Hafþór Eiríksson, verksmiðjustjóri í Neskaupstað, sagði að þar myndi fyrirliggjandi hráefni klárast í dag en unnið væri við að skipa út mjöli. „Það er síðan von á Beiti á morgun og þá verður sett í gang á ný,“ sagði Hafþór.

 

 

Mokveiði eftir hrygningarstopp

Bergey VE að veiðum í Háfadýpi. Vestmannaeyjar í baksýn. Ljósm. Birgir Þór SverrissonBergey VE að veiðum í Háfadýpi. Vestmannaeyjar í baksýn. Ljósm. Birgir Þór SverrissonVestmannaey VE og Bergey VE héldu til veiða að morgni föstudags að loknu hrygningarstoppi. Veiðin hófst strax af krafti og voru bæði skip komin til löndunar í Vestmannaeyjum daginn eftir með nánast fullfermi. Og áfram hélt veislan. Eyjarnar lönduðu fullfermi aftur í morgun og var uppistaða aflans ýsa og þorskur.

Á Austfjarðamiðum hafa verið léleg aflabrögð hjá togurunum að undanförnu og því hafa austfirsku togararnir leitað á fjarlægari mið. Gullver NS hefur verið að veiðum fyrir sunnan land og er nú á leið til Seyðisfjarðar með fullfermi. Barði NK hefur verið á Vestfjarðamiðum og landaði fullfermi á Dalvík í gærkvöldi. Uppistaða afla Barða var þorskur og ufsi. Blængur NK hefur að undanförnu veitt ufsa á Halamiðum og hafa aflabrögðin verið góð.

Janus í gömlu heimahöfninni

Pólska uppsjávarveiðiskipið Janus (áður Birtingur/Börkur) í Norðfjarðarhöfn. Ljósm. Hákon ErnusonPólska uppsjávarveiðiskipið Janus (áður Birtingur/Börkur) í Norðfjarðarhöfn.
Ljósm. Hákon Ernuson
Í gær kom pólska uppsjávarveiðiskipið Janus til Neskaupstaðar með 1.350 tonn af kolmunna. Janus var áður í eigu Síldarvinnslunnar og bar þá lengst af nafnið Börkur og síðan Birtingur. Síldarvinnslan festi kaup á skipinu árið 1973 og gerði það út til ársins 2016 eða þangað til það var selt núverandi eiganda. Afli skipsins á þeim 43 árum sem það var í eigu Síldarvinnslunnar nam 1.546.235 tonnum og eru líkur á að ekkert íslenskt fiskiskip hafi borið jafn mikinn afla að landi.
 
Mörgum Norðfirðingum þótti vænt um að heyra á ný Caterpillar-hljóðið í skipinu þegar það sigldi inn Norðfjörð í gær. Tilfinningin var eins og að hitta gamlan vin á ný eftir nokkurn aðskilnað. Skipið lítur nákvæmlega eins út og þegar það var selt úr landi, meira að segja má sjá Síldarvinnslumerkið á stefni þess og skorsteini. Það eina sem breyst hefur er nafnið og einkennisstafirnir.
 
Skipstjóri á Janusi er Atli Rúnar Eysteinsson, ungur Norðfirðingur sem verið hefur 2. stýrimaður á Berki NK. Atli tók við skipstjórninni hinn 4. apríl og segir að kolmunnaveiðarnar hafi gengið vel frá þeim tíma. „Við megum veiða í írskri lögsögu en hins vegar takmarkað í þeirri færeysku. Frá því að ég kom um borð höfum við farið þrjá túra og fiskað um 4.000 tonn. Fyrir mig er það skemmtileg og dýrmæt reynsla að fást við þetta verkefni. Á Janusi er fínasta áhöfn. Uppistaðan í áhöfninni eru Rússar en við erum fjórir Íslendingar hér um borð. Auk mín er íslenskur vélstjóri og síðan Norðfirðingarnir Hjörvar Sigurjónsson Móritz og Örn Rósmann Kristjánsson sem gjörþekkja skipið frá þeim tíma þegar Síldarvinnslan átti það. Auðvitað er gaman að koma með farm hingað heim til Neskaupstaðar en áður hefur skipið landað kolmunnanum í Færeyjum, á Írlandi og reyndar einu sinni á Seyðisfirði,“ sgaði Atli Rúnar.

Kolmunnavertíð hafin af krafti

Beitir NK kom með um 3.000 tonn af kolmunna til Seyðisfjarðar í nótt. Ljósm. Hákon ErnusonBeitir NK kom með um 3.000 tonn af kolmunna til Seyðisfjarðar í nótt.
Ljósm. Hákon Ernuson
Kolmunnaveiðin í færeysku lögsögunni hófst almennt hjá íslensku skipunum um miðja síðustu viku. Kolmunninn var þá að byrja að skríða inn í lögsöguna en fyrstu dagana eftir að veiðar hófust var ekki mikið að sjá. Hægt og bítandi jókst þó það sem sást og að því kom að alvöru lóð voru sjáanleg. Börkur NK kom með 2.250 tonn til Neskaupstaðar í gær og hélt hann strax til veiða á ný að löndun lokinni. Heimasíðan ræddi við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra í morgun en þá var Börkur staddur í brælu um 80 mílur norðvestur úr Mykinesi. „Þegar við héldum í land með þennan afla var þetta farið að líta vel út á miðunum og við höfðum fréttir af því að mikið af fiski væri sunnan línunnar. Þessi fiskur á eftir að koma inn í færeysku lögsöguna og vonandi er hörkuvertíð að hefjast,“ sagði Hjörvar.
 
Bjarni Ólafsson AK kom í gær með tæplega 1.700 tonn til löndunar á Seyðisfirði og í nótt kom Beitir NK þangað með um 3.000 tonn. Að sögn Gunnars Sverrissonar verksmiðjustjóra hófst vinnsla strax í fiskimjölsverksmiðjunni og sagði Gunnar að hér væri um fínasta hráefni að ræða. „Vonandi eiga veiðarnar eftir að ganga eins og í sögu, það er alla vega nægur kvóti,“ sagði Gunnar.
 
Pólska skipið Janus (áður Birtingur/Börkur) er væntanlegt til Neskaupstaðar í dag með 1.350 tonn af kolmunna og í kjölfar hans kemur Hákon EA með 1.650 tonn.
 
Eins og sést á framansögðu má segja að kolmunnavertíð sé hafin af fullum krafti.
 
 

Enn einn metmánuðurinn hjá Vestmannaey og Bergey

IMG 3525

Aflabrögð hjá Vestmannaey VE og Bergey VE hafa verð einstaklega góð

                Útgerðarfélagið Bergur-Huginn ehf., dótturfyrirtæki Síldarvinnslunnar, gerir út togarana Vestmannaey VE og Bergey VE.  Vestmannaey og Bergey eru systurskip, svonefndir þriggja mílna bátar, 291 tonn að stærð og 29 metrar að lengd. Nýliðinn marsmánuður var metmánuður hjá skipunum, en þau hafa aldrei fiskað jafn mikið í einum mánuði. Afli Vestmannaeyjar í mánuðinum var rúmlega 699 tonn og afli Bergeyjar rétt tæp 699 tonn. Samtals báru því „Eyjarnar“ um 1.400 tonn af aðgerðum fiski að landi í þessum eina mánuði en það mun samsvara um 1.570 tonnum af óaðgerðum fiski.

                Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergey, segir að fiskiríið hafi verið einstaklega gott að undanförnu. „Það hafa verið megagóð aflabrögð. Við höfum mest verið í Háfadýpinu en þar fæst mest þorskur og dálítið bland með. Þegar við veiðum þarna erum við um hálftíma á miðin frá Vestmannaeyjum. Þarna hefur verið gríðarlegt magn af þorski og við höfum fyllt á skömmum tíma. Þetta er aðgæsluveiði – við þurfum sífellt að passa okkur á að fá ekki of mikið. Við höfum einnig farið austur á Síðugrunn og Öræfagrunn til að ná í ýsu og það hefur gengið vel. Það eina sem skyggir á þetta góða fiskirí eru verðin á fiskinum. Verðin eru gjarnan 20% lægri en á sama tíma í fyrra. Nú er komið að hrygningarstoppi og við ætlum að taka gott páskafrí. Ráðgert er að halda til veiða á ný á annan í páskum,“ sagði Jón.

Ráðningar í fiskiðjuverið

Störf í boði í fiskiðjuverinu í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonStörf í boði í fiskiðjuverinu í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonUm þessar mundir er verið að fara yfir umsóknir um störf í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Um er að ræða sumarstörf og eins ráðningar fyrir makríl- og síldarvertíð sem mun væntanlega hefjast í byrjun júlímánaðar og standa fram í desember. Í fiskiðjuverinu er unnið á vöktum meðan vertíðir standa yfir og eru tekjumöguleikar góðir.

Ennþá er unnt er að sækja um starf á heimasíðu Síldarvinnslunnar (www.svn.is).

 

 

 

 

Síldarvinnslan hf. styrkir Þrótt

Talið frá vinstri: Guðlaug Ragnarsdóttir, Gunnþór B. Ingvason framkvæmdastjóri  og Eysteinn Þór Kristinsson. Ljósm. Karl Jóhann BirgissonTalið frá vinstri: Guðlaug Ragnarsdóttir, Gunnþór B. Ingvason framkvæmdastjóri og Eysteinn Þór Kristinsson. Ljósm. Karl Jóhann BirgissonÍ síðustu viku var undirritaður styrktar- og auglýsingasamningur á milli Síldarvinnslunnar hf. og Íþróttafélagsins Þróttar. Hér er um að ræða endurnýjun á samningi sem hefur verið í gildi undanfarin ár en nýi samningurinn mun gilda til tveggja ára. Gunnþór B. Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar undirritaði samninginn fyrir hönd fyrirtækisins og Guðlaug Ragnarsdóttir fyrir hönd Þróttar. Eysteinn Þór Kristinsson gjaldkeri Þróttar var viðstaddur undirritunina

Í samtali við heimasíðuna sagði Gunnþór að Síldarvinnslan væri stolt af því að geta lagt Þrótti lið enda væri starf félagsins til fyrirmyndar. „Þróttur gegnir afar mikilvægu hlutverki í samfélaginu og Síldarvinnslan vill leggja sitt af mörkum til að starf félagsins megi halda áfram að blómstra,“ sagði Gunnþór.

Þau Guðlaug og Eysteinn sögðu að samningurinn væri gríðarlega mikilvægur fyrir Þrótt og það væri mikill styrkur fyrir félagið að eiga jafn sterkan bakhjarl og Síldarvinnsluna. Við undirritun samningsins sagði Gunnþór að hann saknaði Stefáns Más Guðmundssonar formanns Þróttar sem lést í síðasta mánuði og tóku þau Guðlaug og Eysteinn undir það. Í kjölfarið féllu mörg fögur orð um Stefán og hans störf á íþróttasviðinu í bænum.

Blængur NK millilandar í Hafnarfirði

Blængur NK.Blængur NK.Blængur NK er að millilanda í Hafnarfirði í dag. Hann er búinn að vera 11 daga á veiðum og er aflinn um 400 tonn uppúr sjó. Uppistaða aflans er karfi og ufsi. Heimasíðan sló á þráðinn til Theodórs Haraldssonar skipstjóra og spurði hvernig veiðiferðin hefði gengið. „Jú, segja má að hún hafi gengið mjög vel. Við héldum til veiða frá Akureyri og byrjuðum að veiða á Tungunni út af Húnaflóa. Þar vorum við í ufsa í tvo daga. Þá lá leiðin í Víkurálinn og þar vorum við í karfa í tvo daga. Síðan lá leiðin á Melsekk og þar höfum við verið í afar góðri veiði. Við höfum yfirleitt einungis verið að draga í 3-4 tíma á sólarhring til að hafa fyrir vinnsluna. Það er staðreynd að Blængur er afar skemmtilegt veiðiskip og okkur hefur gengið sérlega vel að fiska. Það er síðan alltaf verið að fínstilla búnaðinn á vinnsludekkinu og þar eru afköstin að aukast hægt og bítandi. Við höfum að undanförnu verið að fara í rúmlega 1.200 kassa á dag. Nú erum við að landa 11.000 kössum í Hafnarfirði og síðan verður haldið aftur á miðin síðdegis. Það er vika eftir af þessari veiðiferð og við gerum ráð fyrir að fiska karfa næstu daga og landa síðan í heimahöfn í Neskaupstað 15. apríl næstkomandi,“ sagði Theodór.

Léleg veiði eystra hjá togurunum

Gullver NS. Ljósm. Ómar Bogason.Gullver NS. Ljósm. Ómar Bogason.Að undanförnu hefur verið afar léleg veiði á hefðbundnum miðum Austfjarðatogaranna. Gullver NS kom til Seyðisfjarðar aðfaranótt þriðjudags með tæplega 85 tonn, en aflinn fékkst á Selvogsbanka. Barði NK var einnig að veiðum á Selvogsbanka og kom til Neskaupstaðar á þriðjudagsmorgun með rúmlega 100 tonn.

Skipstjóri á Gullver í veiðiferðinni var Þórhallur Jónsson og sló heimasíðan á þráðinn til hans. Sagði Þórhallur að ástandið á Austfjarðamiðum væri mjög dapurt og því þyrftu togararnir að leita á fjarlægari mið. „Það er nánast enginn þorskur hér fyrir austan og það litla sem fæst er lélegur fiskur. Fyrir um það bil mánuði kom þó dálítið skot í Litladýpi en það varaði afar stutt. Þar fékkst þó góður þorskur. Við á Gullver og Barði NK og Ljósafell SU höfum reynt fyrir okkur á hefðbundnum Austfjarðamiðum að undanförnu en afar lítið hefur fengist. Þess vegna hafa allir þessir togarar veitt á Selvogsbankanum. Það er í reyndinni bölvað að þurfa að sækja svona langt – við erum hátt í 60 tíma á stími í hverjum túr og höfum þá einungis tvo og hálfan sólarhring til að veiða. Á Selvogsbanka hafa komið góð veiðiskot og þar hefur fengist bæði góður þorskur og ufsi. Við trúum því að ástandið á Austfjarðamiðum sé tímabundið og hljóti að fara að breytast til batnaðar. Þorskurinn þarf að fara að sýna sig á okkar hefðbundnu miðum,“ sagði Þórhallur.

Kolmunnaskipin á leið í færeysku lögsöguna

Haldið til kolmunnaveiða í færeysku lögsögunni. Ljósm. Tómas KárasonHaldið til kolmunnaveiða í færeysku lögsögunni. Ljósm. Tómas KárasonBeitir NK og grænlenska skipið Polar Amaroq létu úr höfn í Neskaupstað í gærkvöldi og héldu til kolmunnaveiða í færeysku lögsögunni. Bjarni Ólafsson AK hefur legið á Seyðisfirði undanfarna daga og hann mun sigla í kjölfar fyrrnefndu skipanna í dag.

Börkur NK var í slipp í Færeyjum en fór niður úr slippnum sl. mánudag og hefur síðan legið í Runavík. Heimasíðan sló á þráðinn til Hjörvars Hjálmarssonar skipstjóra á Berki. „Við erum farnir að hugsa okkur til hreyfings en í sannleika sagt er ekki spáð mjög góðu veðri næstu daga. Færeysku skipin liggja öll í landi og Færeyingarnir eru hinir rólegustu ennþá. Miðað við síðustu ár ætti kolmunninn að fara að ganga inn í færeyska lögsögu. Í fyrra hófust veiðar 8. apríl en oft hafa þær ekki byrjað fyrr en um miðjan mánuð. En þetta er örugglega alveg að fara að koma. Við liggjum hér í Runavík og erum að dytta að ýmsu um borð; hér er málað og snyrt,“ sagði Hjörvar.

 

Hvar voru hvalirnir á loðnuvertíðinni?

Hnúfubakar sáust vart á nýliðinni loðnuvertíð og er það mikil breyting frá síðustu vertíðum. Ljósm. VísindavefurinnHnúfubakar sáust vart á nýliðinni loðnuvertíð og er það mikil breyting frá síðustu vertíðum. Ljósm. VísindavefurinnÁ loðnuvertíðum síðustu ára hafa hvalir valdið veiðiskipunum miklum vandræðum. Hvalamergð hefur fylgt loðnugöngunum og hvað eftir annað hafa skipin lent í veiðarfæratjóni vegna hvala. Á nýliðinni vertíð var hins vegar annað uppi á tengingnum; hvalir voru sjaldséðir og úti fyrir suðurströndinni og fyrir vestan land sáust nánast engir hvalir. Undir lok vertíðar fréttist eitthvað af hvölum úti fyrir Húnaflóa og Vestfjörðum en fjöldi þeirra var hverfandi miðað við síðustu ár. Heimasíðan sló á þráðinn til Geirs Zoёga skipstjóra á Polar Amaroq og spurði hann hvort þeir á Polar hefðu veitt þessari breytingu athygli, en Polar Amaroq var við loðnuleit í janúar sl. og í byrjun febrúar auk þess að stunda veiðar á vertíðinni. Geir sagði að breytingin hvað þetta varðar hefði verið sláandi. „Þegar við vorum að leita fyrir norðan land núna í byrjun árs sáum við einn og einn hval en á undanförnum vertíðum hefur hvalafjöldinn á þeim slóðum verið ótrúlega mikill. Þegar komið var suður fyrir Langanes sást varla nokkur hvalur núna á vertíðinni. Ég man að við sáum hvali við Skrúð og síðan aftur við Stokksnes en þeir voru sárafáir. Það voru hnúfubakar sem þarna sáust. Eftir það sáum við engan hval, sem er mikil breyting frá síðustu vertíðum en þá hefur hvalurinn fylgt loðnunni alveg inn í Faxaflóa. Á síðustu vertíðum hefur verið gnótt hvala og menn hafa fundið loðnu með því að fylgjast með hvalagegnd. Hvalafjöldinn var stundum ótrúlegur – menn hafa geta talið hundruð hvala samtímis og hafflöturinn hefur verið eins og gríðarstórt hverasvæði vegna hvalablástursins. Á næturna höfum við síðan heyrt í þeim. Það heyrast drunur þegar þeir blása sem enda síðan í einskonar hvissi. Á undanförnum vertíðum hafa menn þurft að gæta sín mjög þegar kastað er á loðnuna því það er grafalvarlegt að fá hnúfubak í nótina. Og ég man eftir því að á vertíðinni 2013 fengum við einu sinni hvorki fleiri né færri en fimm hnúfubaka í nótina. Það var svo sannarlega slæmt mál. Núna velta menn því fyrir sér hvað hefur breyst. Hvar hélt hvalurinn sig á nýliðinni loðnuvertíð ? Er unnt að finna einhverjar skynsamlegar skýringar á því hvers vegna hann fylgdi ekki meginloðnugöngunni eins og hann hefur gert í svo ríkum mæli síðustu ár ?,“spurði Geir Zoёga að lokum.

Heimasíðan hafði samband við Dr. Gísla Víkingsson hvalasérfræðing á Hafrannsóknastofnun og bað hann að svara þeim spurningum sem Geir Zoёga varpaði fram hér að framan. Gísli sagði mjög athyglisvert hve breytingin væri mikil hvað varðaði fjölda hvala á loðnumiðunum. Miðað við lýsingar væri breytingin mjög afgerandi. „Það er erfitt að segja til um hvað gæti valdið þessu. Haustið 2015 fór fram hvalatalning á loðnumiðum samhliða mælingum á stærð loðnustofnsins. Niðurstöður hennar voru að á svæðinu hefðu verið um 7 þúsund hnúfubakar auk um 5 þúsund langreyða. Í sambærilegum talningum haustið 2016 fannst mun minni loðna, og veður hamlaði mjög hvalatalningum. Þar sem loðnu var að finna virtist þó þéttleiki hvala vera svipaður og haustið áður. Hvalurinn var í stærri hópum og ekki eins dreifður og 2015. Ekki voru taldir hvalir í loðnuleiðöngrum í janúar og febrúar 2017, en starfsmenn Hafrannsóknastofnunar höfðu þó heyrt frá loðnusjómönnum að minni hvalur væri á loðnumiðunum en undanfarin ár. Hugsanlega hefur hnúfubakurinn fundið loðnu eða aðra fæðu utan hefðbundinna svæða en án frekari upplýsinga er einungis hægt að geta sér til um ástæðurnar. Hvalatalningar að vetrarlagi eru erfiðar vegna myrkurs og veðurlags, en gervitunglamerkingar gætu varpað ljósi á ferðir hvalanna á þessum árstíma,“ sagði Gísli.

Síldarvinnslan færir LungA - skólanum gamla netagerðarhúsið að gjöf

Frá afhendingu gömlu netagerðarinnar. Talið frá vinstri: Gunnar Sverrisson verksmiðjustjóri, Lasse Høgenhof skólastjóri, Gunnþór B. Ingvason framkvæmdastjóri og Snorri Jónsson framleiðslu- og yfirverkstjóri. Ljósm. Hákon ErnusonFrá afhendingu gömlu netagerðarinnar. Talið frá vinstri: Gunnar Sverrisson verksmiðjustjóri, Lasse Høgenhof skólastjóri, Gunnþór B. Ingvason framkvæmdastjóri og Snorri Jónsson framleiðslu- og yfirverkstjóri. Ljósm. Hákon ErnusonMánudaginn 27. mars afhenti Síldarvinnslan LungA – skólanum á Seyðisfirði gamla netagerðarhúsið á staðnum að gjöf. Húsið er stórt en gamalt og þarfnast verulegs viðhalds. LungA- skólinn er alþjóðlegur listaskóli sem hefur fest rætur og setur mikinn svip á bæjarlífið á Seyðisfirði yfir vetrarmánuðina. Lasse Høgenhof skólastjóri sagði í samtali við heimasíðuna að það væri ómetanlegt fyrir skólann að eignast gamla netagerðarhúsið. „Það er draumur að rætast með því að skólinn eignist þetta hús og við erum Síldarvinnslunni afar þakklát fyrir gjöfina. LungA – skólinn hefur starfað í þrjú ár og hefur vaxið og dafnað. Innan skólans er sinnt alls konar list og eitt af því sem skólinn þarf er mikið rými og það fáum við í gamla netagerðarhúsinu. Í húsinu verður komið upp fjölbreyttum vinnustofum sem munu nýtast skólanum afar vel. Auðvitað er húsið gamalt og það þarf að bæta útlit þess en það er verkefni sem þarf að fást við síðar. Það er í einu orði sagt frábært fyrir skólann að fá þessa gjöf,“ sagði Lasse Høgenhof.

Gunnþór B. Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar sagði að það væri ánægjulegt að gamla netagerðarhúsið gæti komið að gagni. „Við höfum fylgst með starfi Lunga – skólans og það er einstaklega metnaðarfullt. Síldarvinnslan vill styðja við bakið á skólanum og hvetja hann til góðra verka og það er frábært að geta orðið að liði og stuðlað að eflingu hans. Það er okkar von að skólinn dafni og honum nýtist þetta húsnæði til kennslu og listsköpunar,“ sagði Gunnþór.

Afar góð loðnuvertíð – Síldarvinnslan tók á móti 81 þúsund tonnum

Börkur NK á loðnuveiðum á nýliðinni vertíð. Ljósm. Sigurjón M. JónusonBörkur NK á loðnuveiðum á nýliðinni vertíð. Ljósm. Sigurjón M. JónusonSegja má að nýliðin loðnuvertíð hafi verið afar góð og komið þægilega á óvart miðað við spár. Í hlut íslenskra skipa komu 193 þúsund tonn og hófust veiðar þeirra seint vegna sjómannaverkfalls. Erlend skip, einkum norsk, lögðu stund á loðnuveiðar hér við land áður en íslenski flotinn gat hafið veiðar og lönduðu þau 58.000 tonnum í íslenskum höfnum. Þannig að samtals voru unnin um 254.000 tonn á vertíðinni.

Reikna má með að framleidd hafi verið um 39.000 tonn til manneldis á vertíðinni, hrogn og heilfryst loðna, mest fyrir Asíumarkað. Áætluð verðmæti þeirrar framleiðslu eru 136 milljónir dollara og verðmæti mjöls og lýsis 75 milljónir dollara. Þannig að verðmæti vertíðarinnar í heild er 212 milljónir dollara eða rúmlega 23 milljarðar íslenskra króna samkvæmt gengi 15. mars sl. Ef hér væri miðað við gengið 15. mars 2016 hefði verðmæti vertíðarinnar verið 27 milljarðar króna.

Veiðar gengu mjög vel hjá Síldarvinnsluskipunum á nýliðinni vertíð enda mikið af loðnu í sjónum og einmuna veðurblíða allan vertíðartímann. Að auki var loðnan óvenju stór og vel á sig komin. Beitir NK veiddi 13.286 tonn á vertíðinni, Börkur NK 13.464 tonn og Bjarni Ólafsson AK 8.688 tonn. Norsk skip lönduðu alls 6.500 tonnum til vinnslu í fiskiðjuverinu í Neskaupstað á tímabilinu 5. – 17. febrúar.

Í Neskaupstað lönduðu Vilhelm Þorsteinsson EA og grænlenska skipið Polar Amaroq sjófrystri loðnu, alls 1.750 tonnum. Vilhelm landaði 388 tonnum og Polar 1.362 tonnum.

Alls tók Síldarvinnslan á móti 81.020 tonnum af loðnu á vertíðinni sem var að ljúka þegar sjófryst loðna er meðtalin. Til samanburðar má geta þess að fyrirtækið tók á móti 43.368 tonnum á vertíðinni í fyrra og 138.230 tonnum á vertíðinni 2015.

Hjá Síldarvinnslunni voru fryst 11.400 tonn af loðnu og loðnuhrognum fyrir ýmsa markaði, en mun meira hefði verið fryst ef Rússlandsmarkaður væri opinn. Öll frystingin fór fram í fiskiðjuverinu í Neskaupstað ef undan er skilinn hluti hrognanna sem unnin var í Helguvík í samvinnu við Saltver ehf. í Reykjanesbæ. Á vertíðinni í fyrra frysti Síldarvinnslan 15.287 tonn af loðnu og loðnuhrognum og 12.105 tonn á vertíðinni 2015.

Fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar tóku á móti 67.870 tonnum á vertíðinni. Verksmiðjan í Neskaupstað tók á móti 33.180 tonnum, verksmiðjan á Seyðisfirði 18.630 tonnum og verksmiðjan í Helguvík 16.060 tonnum.

Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar segir að menn geti verið býsna ánægðir með vertíðina. „Það spilaðist vel úr þessu. Veiðar gengu einstaklega vel enda veður hagstætt alla vertíðina. En við aðstæður eins og þessar reyndi á sterk fyrirtæki, öfluga sjómenn og góða starfsmenn í landi. Það reynir mjög á þolrifin hjá öllum sem koma að svona vertíð, þetta er mikil törn. Árið hófst með erfiðu verkfalli sem reyndi mjög á starfsmenn Síldarvinnslunnar, bæði til sjós og lands. Ég tel að það hafi verið mikil gæfa fyrir greinina að samningar skyldu nást án aðkomu þriðja aðila. Það hjálpaði okkur klárlega við að ljúka þessari loðnuvertíð með þeim hætti sem gert var. Það þurfa allir að róa í sömu áttina ef vertíð eins og þessi á að takast vel, samtakamátturinn skiptir þar öllu máli. Ég ætla ekki að gagnrýna fiskifræðingana okkar, enda held ég að þeir hafi fullan hug á að komast að því hvar blessuð loðnan heldur sig og hvaðan hún kom upp að landinu. Við hófum árið þannig að varla var gert ráð fyrir að nokkur loðnuvertíð yrði í ár. Það er okkar allra hagur að rannsóknir á loðnustofninum verði efldar mikið og við skulum vera minnug þess að það munaði minnstu að nýliðin loðnuvertíð færi hjá garði. Okkur ber að haga rannsóknum á sjávarauðlindinni þannig að öruggt sé að hún sé nýtt með sjálfbærum hætti en ef við vannýtum fiskistofnana vegna skorts á rannsóknum þýðir það lakari lífskjör í landinu,“ sagði Gunnþór.

Vestmannaey hefur aflað rúmlega 33 þúsund tonn á 10 árum

 Vestmannaey VE-444. Ljósm. Guðmundur Alfreðsson Vestmannaey VE-444. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonUm þessar mundir eru liðin 10 ár frá því að Vestmannaey VE 444 landaði sínum fyrsta farmi í Vestmannaeyjum. Eigandi skipsins er útgerðarfélagið Bergur – Huginn ehf. sem er dótturfyrirtæki Síldarvinnslunnar hf. Vestmannaey var smíðuð í Póllandi árið 2007 og er svonefndur þriggja mílna bátur, 291 tonn að stærð og 29 metrar að lengd. Systurskip Vestmannaeyjar, Bergey VE 544, kom síðan nýtt til landsins í ágústmánuði sama ár. Bæði Vestmannaey og Bergey hafa reynst mikil happaskip og alla tíð aflað einstaklega vel.

Útgerðarfélagið Bergur – Huginn ehf. var stofnað í árslok 1972 í þeim tilgangi að láta smíða skuttogara í Japan og gera hann síðan út. Þessi togari kom til landsins snemma árs 1973 og bar nafnið Vestmannaey. Bergur – Huginn gerði Japanstogarann út allt til ársins 2005 ásamt fleiri skipum. Þegar Vestmannaey og Bergey komu til landsins árið 2007 urðu skipin í flota fyrirtækisins þrjú, en fyrir var Smáey VE 144. Smáey var síðan seld árið 2012 enda var kvóti félagsins ekki nægur til að unnt væri að fullnýta öll skipin.

Afli Vestmannaeyjar á þessum 10 árum er rúmlega 33.000 tonn og aflaverðmætið rúmlega 8,5 milljarðar króna. Skipstjóri frá upphafi hefur verið Birgir Þór Sverrisson. Heimasíðan sló á þráðinn um borð og ræddi við Birgi þar sem skipið var á ýsuveiðum á Síðugrunni. „ Já við erum að eltast við ýsu núna og það hefur gengið ágætlega. Annars hafa aflabrögðin verið ævintýralega góð frá því að verkfallinu lauk. Hjá okkur hafa veiðiferðirnar gjarnan verið einn og hálfur til tveir sólarhringar og sá tími hefur dugað okkur til að fá 60-90 tonn. Við höfum komið með fullan bát aftur og aftur. Hjá okkur er aflinn blandaður, en oft er uppistaðan þorskur. Það virðist vera nóg af fiski og vertíðarþorskurinn gekk á sín helstu svæði fyrr en oftast áður. Frá verkfalli höfum við fiskað tæplega 900 tonn og aflaverðmætið er um 175 milljónir króna. Þetta hefur verið veisla,“ sagði Birgir.

Birgir Þór Sverrisson skipstjóri. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonBirgir Þór Sverrisson skipstjóri. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonÞegar Birgir er spurður út í skipið og þann ágæta árangur sem náðst hefur á því á sl. 10 árum segir hann Vestmannaey hafi reynst afurða vel frá upphafi. „Skipið er frábært og það hefur fiskast vel á það frá fyrsta degi. Þetta er gott sjóskip, vinnuaðstaða um borð er góð og lestarrýmið gott. Þá er skipið afar hagstætt í rekstri. Í stuttu máli sagt þá er þetta vel lukkað skip í alla staði,“ sagði Birgir að lokum.

Systurskip Vestmannaeyjar, Bergey, hóf veiðar um fimm mánuðum á eftir Vestmannaey. Útgerð þess skips hefur verið svipuð og systurskipsins og á það hefur ávallt aflast vel. Um þessar mundir er afli Bergeyjar frá upphafi um 30.000 tonn og aflaverðmæti tæplega 8 milljarðar króna. Skipstjóri á Bergey sex fyrstu árin var Sigurður Guðbjörn Sigurjónsson en þegar hann fór í land tók Jón Valgeirsson við en Jón hafði áður verið stýrimaður á skipinu. Nánar verður fjallað um útgerð Bergeyjar þegar liðinn verður áratugur frá því hún hóf veiðar.

 

 

Viljayfirlýsing sem stuðlar að aukinni notkun endurnýjanlegrar orku í fiskimjölsiðnaði

Jón Már Jónsson formaður Félags íslenskra fiskmjölsframleiðenda og Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar undirrita viljayfirlýsingunaJón Már Jónsson formaður Félags íslenskra fiskmjölsframleiðenda og Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar undirrita viljayfirlýsingunaÍ gær var undirrituð viljayfirlýsing Landsvirkjunar og Félags íslenskra fiskmjölsframleiðenda sem felur í sér aukna möguleika fiskimjölsverksmiðja til að nýta endurnýjanlega orku í stað olíu. Á undanförnum árum hefur verið unnið að rafvæðingu fiskimjölsverksmiðja og hafa þær keypt skerðanlegt rafmagn frá raforkusölum sem Landsvirkjun hefur selt á heildsölumarkaði. Framboð á slíku rafmagni hefur oft verið takmarkað og eins hefur eftirspurn eftir því verið sveiflukennd. Því hefur oft reynst nauðsynlegt að nýta olíu sem aflgjafa í verksmiðjunum.
 
Það voru Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar og Jón Már Jónsson formaður Félags íslenskra fiskmjölsframleiðenda sem undirrituðu viljayfirlýsinguna í nýuppgerðu Marshallhúsi í Reykjavík. Með henni er mörkuð sú skýra stefna að nýta raforku í auknum mæli í fiskimjölsiðnaðinum og gera hann umhverfisvænni. Með aukinni notkun rafmagns og minni notkun á olíu í verksmiðjunum er dregið úr losun koltvísýrings og þar með stuðlað að því að skuldbindingar Íslands á sviði loftslagsmála náist.
 
Í viljayfirlýsingunni lýsir Landsvirkjun því yfir að fyrirtækið muni á næstu árum stuðla að auknu framboði á skerðanlegu rafmagni á heildsölumarkaði og það rafmagn mun þá standa fiskimjölsframleiðendum til boða. Tekið er fram að framboð á slíku rafmagni muni þó ráðast af aðstæðum í vatnsbúskap hverju sinni og getur því sætt takmörkunum. Olía þarf því áfram að vera varaaflgjafi í fiskimjölsverksmiðjunum. Um leið og Landsvirkjun hyggst bjóða upp á aukið skerðanlegt rafmagn lýsir Félag íslenskra fiskmjölsframleiðenda því yfir að það ætlar að stuðla að því að starfsemi verksmiðjanna verði gerð eins umhverfisvæn og kostur er og skerðanlegt rafmagn verði notað í eins ríkum mæli og unnt er í stað olíu.
 
Nú mun um 75% af orkuþörf fiskimjölsverksmiðja vera rafvædd og er álitið raunhæft að það hlutfall geti farið upp í 85%. Til þess að ná fullri rafvæðingu þarf hins vegar að koma til verulegra fjárfestinga í flutningskerfi raforku í landinu.
 
Jón Már Jónsson, formaður Félags íslenskra fiskmjölsframleiðenda, segir að þessi viljayfirlýsing sé stórt skref í þá átt að takast megi að fullnýta þá fjárfestingu í rafvæðingu verksmiðjanna sem þegar hefur verið ráðist í. Yfirlýsingin gerir það að verkum að hans mati að félagið getur með góðri samvisku hvatt félagsmenn sína til að nota umhverfisvænt skerðanlegt rafmagn umfram olíu. Þá vildi Jón Már þakka Landsvirkjun góða samvinnu við gerð yfirlýsingarinnar og sagðist vona að andinn sem ríkti við gerð hennar næði til allra þeirra aðila sem kæmu að sölu á rafmagni til verksmiðjanna. Benti Jón Már á að verksmiðjurnar hefðu náð miklum árangri á þessu sviði á undanförnum árum. „Sem dæmi má nefna að á árinu 2007 tóku verksmiðjurnar á móti 755 þúsund tonnum af hráefni og notuðu 28 milljónir lítra af olíu. Á árinu 2015 tóku þær á móti 780 þúsund tonnum af hráefni en þá voru einungis notaðir 11,5 milljón lítrar af olíu en þeim mun meira af endurnýjanlegri og umhverfisvænni orku,“ sagði Jón Már að lokum.  
 

Hlé á kolmunnaveiðum

Kolmunnaskipin sem landa hjá Síldarvinnslunni hafa nú gert hlé á veiðum. Á myndinni eru Polar Amaroq og Beitir NK á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar Bogason.Kolmunnaskipin sem landa hjá Síldarvinnslunni hafa nú gert hlé á veiðum. Á myndinni eru Polar Amaroq og Beitir NK á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar Bogason.Kolmunnaveiðar íslenskra skipa hófust að lokinni loðnuvertíð. Veiðisvæðið var vestur af Írlandi í um það bil 650 mílna fjarlægð frá austfirskum höfnum. Í fyrstu gengu veiðarnar sæmilega og landaði Vilhelm Þorsteinsson EA 1.760 tonnum í Neskaupstað sl. þriðjudag. Seinni hluta síðustu viku dró mikið úr veiðinni og var kolmunninn þá að ganga inn í írska lögsögu þar sem íslensku skipin hafa ekki heimild til veiða. Skipin sem landa afla sínum hjá Síldarvinnslunni hættu veiðum undir lok vikunnar og komu til löndunar um nýliðna helgi. Börkur NK landaði 1.830 tonnum í Neskaupstað og Margrét EA er að landa þar 800 tonnum. Beitir NK landaði 1.320 tonnum á Seyðisfirði og þar er nú verið að landa 1.250 tonnum úr Bjarna Ólafssyni AK.

Hjá þessum skipum verður nú gert hlé á kolmunnaveiðum og þess beðið að fiskurinn gangi inn í færeyska lögsögu. Það gæti gerst snemma í aprílmánuði ef miðað er við reynslu fyrri ára.

Undirflokkar