Makrílvinnsla hafin í fiskiðjuverinu

DSC04346

Beitir NK landar fyrsta makrílfarmi vertíðarinnar í fiskiðjuverið í Neskaupstað. Ljósm: Hákon Ernuson

                Í gær kom Beitir NK með fyrsta makrílfarminn á vertíðinni til vinnslu í fiskiðjuverinu í Neskaupstað. Afli skipsins var 370 tonn og var hann nokkuð síldarblandaður. Vinnsla á fiskinum hófst strax með hefðbundnum hætti.

                Bjarni Ólafsson AK er að veiðum og er væntanlegur með makrílfarm til vinnslu í kvöld.

Beitir NK hefur makrílveiðar og allt klárt til að hefja vinnslu

DSC04337 3

Beitir NK tekur veiðarfærin áður en haldið var til makrílveiða. Ljósm: Smári Geirsson

                Beitir NK hélt til makrílveiða í gærkvöldi. Hann hóf síðan veiðar vestan við Þórsbankann í morgun. „Við erum dálítið sunnar og austar en bátarnir sem hafa verið á þessum slóðum. Hér eru smá lóðningar en við eigum eftir að sjá hvað kemur út úr þessu,“ sagði Tómas Kárason skipstjóri á Beiti skömmu fyrir hádegi. Að sögn Tómasar er hálfgerð bræla á miðunum og spáð leiðinda kalda í dag.

                Jón Gunnar Sigurjónsson yfirverkstjóri í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað segir að þar sé allt klárt til að hefja vinnslu en ráðnir hafa verið um 50 starfsmenn á vaktir á vertíðinni. „Hér bíða menn spenntir eftir að fá fyrsta farminn til vinnslu og við vonumst til að Beitir komi með hann á sunnudag. Það er mikið um að vera í fiskiðjuverinu en unnið er að því að koma upp búnaði til að auka afköst þess mikið og sú vinna mun halda áfram þrátt fyrir að vinnsla hefjist fyrir fullri alvöru,“ sagði Jón Gunnar.

Fyrsti makríllinn til Neskaupstaðar á vertíðinni

DSC04341 2

Löndun á frystum makríl úr Vilhelm Þorsteinssyni EA í dag. Ljósm: Smári Geirsson

                Vilhelm Þorsteinsson EA kom með fyrsta makrílinn á vertíðinni til Neskaupstaðar í nótt og hófst löndun úr skipinu í morgun. Afli skipsins er rúmlega 480 tonn af frystum makríl og um 200 tonn af afskurði sem fer til framleiðslu á fiskimjöli og lýsi.

                Skipið var að veiðum frá Stokksnesgrunni og vestur undir Öræfagrunn og tók veiðiferðin rúmlega fimm sólarhringa. Birkir Hreinsson skipstjóri sagði að veiðin hefði verið róleg og það væri ekki mikið af makríl á miðunum. Fiskurinn sem fékkst er 360-380 grömm og dálítil áta í honum. Það var ávallt einhver síld í hverju holi. „Makríllinn virðist vera heldur seinna á ferðinni en síðustu ár og því fer vertíðin hægar af stað. En það er engin ástæða til annars en að vera bjartsýnn á vertíðina og við munum halda á ný til veiða strax að löndun lokinni,“ sagði Birkir að lokum. 

Starfsemi Sjávarútvegsskólans gengur vel

IMG 2024

Norðfirskir nemendur Sjávarútvegsskólans skoða karfa hátt og lágt.

      Kennslu í Sjávarútvegsskólanum lauk í Neskaupstað sl. föstudag. Alls útskrifuðust 16 nemendur þar, en skólinn hefur verið vel sóttur það sem af er sumri. Kennsla í skólanum hófst á Höfn í Hornafirði hinn 13. júní sl. og síðan lá leiðin til Vopnafjarðar og þaðan til Seyðisfjarðar. Neskaupstaður var næstur í röðinni og að kennslu þar lokinni kemur röðin að Eskifirði og loks Fáskrúðsfirði.

                Það var Síldarvinnslan sem hafði frumkvæði að stofnun skólans árið 2013 en síðan færði hann út kvíarnar og var þá kennt í Fjarðabyggð og einnig á Seyðisfirði. Nú í sumar leiðir Háskólinn á Akureyri skólastarfið í samvinnu við Síldarvinnsluna og er kennt á sex stöðum eystra eins og fram kom hér að framan. Sjávarútvegsskólinn er samvinnuverkefni Háskólans á Akureyri og sex sjávarútvegsfyrirtækja á Austurlandi: Síldarvinnslunnar, Eskju, Loðnuvinnslunnar, Gullbergs, HB-Granda og Skinneyjar-Þinganess. Þá eru vinnuskólar sveitarfélaganna þátttakendur í samstarfinu þar sem nemendur þeirra sækja Sjávarútvegsskólann í eina viku á launum í stað þess að sinna hefðbundnum störfum í vinnuskólunum.

IMG 2066

Vettvangsheimsókn í Matís í Neskaupstað

                Sjávarútvegsskólanum er ætlað að veita nemendum úr sjávarbyggðum og nágrannabyggðum þeirra, sem eru að hefja nám í 9. bekk grunnskóla á næsta skólaári, fjölbreytta fræðslu um þessa grunnatvinnugrein þjóðarinnar. Lögð er áhersla á fjölbreytni starfa í greininni og tengdum greinum svo og menntunarmöguleika. Aðalkennarar í skólanum í sumar eru Kristófer Leó Ómarsson og Unnur Inga Kristinsdóttir en þau eru bæði nemar í sjávarútvegsfræðum við Háskólann á Akureyri. Þá sinna heimamenn á hverjum stað einnig kennslu.

IMG 2123

Frá heimsókn í netagerð Egersunds á Eskifirði

                Þau Kristófer og Unnur eru ánægð með skólastarfið hingað til. Þau segja að nemendur séu áhugasamir og að fullyrða megi að mikil þörf sé á fræðslu á þessu sviði. Vettvangsheimsóknir séu mikilvægur hluti skólastarfsins og þær veiti nemendum innsýn í allan þann fjölbreytileika sem einkennir sjávarútveginn.  Farið sé í heimsóknir í bolfiskvinnslu, uppsjávarvinnslu, fiskimjölsverksmiðju, netagerð, fiskiskip, fiskmarkaði og á rannsóknastofu Matís svo eitthvað sé nefnt. Eins er farið vandlega yfir gæðamál, öryggismál og markaðsmál.

                Að sögn Kristófers og Unnar er gert ráð fyrir að víkka út skólastarfið á næsta ári og hefja þá einnig kennslu í sjávarbyggðum á Norðausturlandi.

Haldið á miðin í kvöldroðanum

Bergey VE heldur á miðin frá Vestmannaeyjum í gærkvöldi. Ljósm. Egill EgilssonBergey VE heldur á miðin frá Vestmannaeyjum í gærkvöldi. Ljósm. Egill EgilssonMyndin sem fylgir þessari frétt var tekin í gærkvöldi þegar Bergey VE sigldi út frá Vestmannaeyjum að aflokinni löndun. Vart er hægt að hugsa sér meiri fegurð en þegar kvöldhimininn skartar slíkum roða. Bergur-Huginn ehf. gerir út tvö skip, Bergey og Vestmannaey, og hafa þau aflað afar vel að undanförnu. Uppistaða aflans hefur verið ýsa en verð á henni og öðrum ferskum fiski hefur farið lækkandi að undanförnu og skyggir það á hin góðu aflabrögð. Fall pundsins hefur þar haft mikil áhrif en Bretland er mikilvægasti markaðurinn fyrir ferskan íslenskan fisk.
 

Frystihúsið verður til sóma

Framkvæmdir við frystihús Gullbergs ehf. á Seyðisfirði  Ljósm. Ómar BogasonFramkvæmdir við frystihús Gullbergs ehf. á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar BogasonUm þessar mundir er unnið að því að endurnýja klæðningu og þakplötur á frystihúsi Gullbergs ehf. á Seyðisfirði en húsið var verulega farið að láta á sjá. Lokið er við að rífa gömlu klæðninguna af að mestu og nú er verið að setja upp leiðarakerfi fyrir nýja klæðningu sem verður í Síldarvinnslulitunum. Það er fyrirtækið Og synir-ofurtólið ehf. sem sinnir verkinu undir stjórn Þorsteins Erlingssonar framkvæmdastjóra og húsasmíðameistara. Þessa dagana starfa sex menn við framkvæmdirnar en það er Mannvit hf. sem sér um hönnun og eftirlit.
 
Hafist var handa við verkið um miðjan júnímánuð og gert er ráð fyrir að því ljúki í september. Það er ljóst að húsið verður glæsilegt að verki loknu, öllum til sóma og sannkölluð bæjarprýði.

Þorskurinn mættur í makrílveislu

DSC04080

Landað úr Bjarti NK. Ljósm: Hákon Ernuson

Að undanförnu hefur verið heldur tregt á Austfjarðamiðum hjá togurunum en nú er að rætast úr því. Ísfisktogarinn Bjartur NK kom til löndunar í Neskaupstað í gær með 60 tonna afla eftir að hafa verið þrjá daga á veiðum hér eystra og var þá Steinþór Hálfdanarson skipstjóri tekinn tali. „Það er að rætast úr veiðinni hér eystra en aflinn í þessari veiðiferð var að uppistöðu til þorskur og karfi. Við vorum að reyna við ufsa eins og nánast allur íslenski togaraflotinn en það reyndist vera lítið af honum. Að undanförnu hefur verið tregt hér eystra og því höfum við veitt á Vestfjarðamiðum síðustu þrjár vikur eða svo. En nú er að rætast úr þessu hérna fyrir austan; það hefur orðið vart við makríl og þá er sá guli fljótur að láta sjá sig. Hann er mættur í makrílveislu,“ sagði Steinþór. „Við erum að njóta síðustu túranna á Bjarti en eins og kunnugt er hefur hann verið seldur til Írans og verður afhentur nýjum eigendum í ágúst. Bjartur er mikið gæðaskip og hefur staðið sig einstaklega vel frá því að Síldarvinnslan hóf að gera hann út árið 1973. Það eiga margir ljúfar og góðar minningar af verunni á Bjarti en nú er hann orðinn gamall blessaður og hans bíða ný verkefni á framandi slóðum,“sagði Steinþór að lokum.

DSC 0577 a

Gullver NS er kominn í frí og unnið er við að gera hann fínan. Ljósm: Ómar Bogason

                Ísfisktogarinn Gullver NS kom til löndunar á Seyðisfirði sl. laugardag með um 90 tonna afla. Uppistaða aflans var þorskur og karfi. Nú er áhöfn Gullvers komin í sumarfrí en í dag er síðasti vinnsludagurinn í fiskvinnslustöð Gullbergs fyrir sumarlokun. Byrjað er að sinna ýmissi vinnu um borð í Gullver og er þar helst verið að skrapa, mála og gera fínt. 

 

 

Framlag Síldarvinnslusamstæðunnar til samfélagsins nam 9,7 milljörðum króna á árunum 2014-2015 – þar af voru veiðigjöld 1,8 milljarðar

Capture

            Endurskoðunarfyrirtækið Deloitte hefur reiknað út svonefnt samfélagsspor Síldarvinnslusamstæðunnar fyrir árin 2014 og 2015. Samfélagsspor er tiltekin aðferðafræði sem notuð er til að greina heildarframlag fyrirtækja til samfélagsins í formi skatta og opinberra gjalda. Til Síldarvinnslusamstæðunnar teljast, auk móðurfélagsins Síldarvinnslunnar hf., Gullberg ehf., Bergur-Huginn ehf., Fóðurmjölsverksmiðjan Laxá hf. og SVN-eignafélag ehf.

       Hér skal getið um nokkrar athyglisverðar niðurstöður samfélagssporsins:

 • Rekstrartekjur samstæðunnar námu 27 milljörðum króna árið 2015 og fjöldi ársverka var 334.

 • Rekstrarkostnaður fyrir utan laun og skatta á árinu 2015 nam 10,5 milljörðum króna og er stór hluti kostnaðarins vegna kaupa á vörum og þjónustu frá öðrum innlendum fyrirtækjum.

 • Launagreiðslur námu 15% af verðmætasköpun ársins 2015.

 • Meðaltal heildarlauna starfsmanna á árinu 2015 var 12,3 milljónir króna.

 • Samfélagssporið nam 15,3 milljónum fyrir hvern starfsmann á árinu 2015.

 • Veiðigjöld námu 909 milljónum króna á árinu 2014 og 872 milljónum á árinu 2015.

 • Veiðigjöld sem hlutfall af samfélagsspori námu tæplega 20% árið 2014 og 17% árið 2015.

 • Á árinu 2015 greiddi samstæðan 100 milljónir króna í kolefnis- og raforkugjald.

 • Alls greiddi samstæðan 94 milljónir króna í stimpilgjöld á árinu 2015, þar af voru greiddar 82 milljónir í stimpilgjöld vegna kaupa á uppsjávarskipinu Beiti NK.

 • Samanlagt námu greiddir og innheimtir skattar ásamt opinberum gjöldum samstæðunnar 4,6 milljörðum króna árið 2014 og 5,1 milljarði árið 2015. Samanlagt nam því framlag samstæðunnar til samfélagsins 9,7 milljörðum króna í formi skatta og gjalda á árunum 2014 og 2015. Ekki eru metin margfeldisáhrif vegna kaupa á innlendum vörum og þjónustu.

  Hér fyrir neðan má sjá nánari upplýsingar um samfélagssporið

16-06-22_Samfélagsspor_SVN_glærur.pdf

Síldarvinnslan fyrir 50 árum

Börkur NK kom nýr til Neskaupstaðar í nóvembermánuði árið 1966. Ljósm. Guðmundur SveinssonBörkur NK kom nýr til Neskaupstaðar í nóvembermánuði árið 1966. Ljósm. Guðmundur SveinssonÁrið 1966 er áhugavert ár þegar saga Síldarvinnslunnar er skoðuð. Þetta var fyrsta heila árið sem Síldarvinnslan rak fiskvinnslustöð og síldarsöltunarstöð og jafnframt var þetta fyrsta heila ár útgerðar Síldarvinnslunnar. Fest voru kaup á eignum Samvinnufélags útgerðarmanna snemma árs 1965 og voru fiskvinnslustöðin og síldarsöltunarstöðin á meðal þeirra. Fyrstu fiskiskipin í eigu Síldarvinnslunnar, Barði og Bjartur, hófu veiðar á árinu 1965 þannig að árið 1966 var fyrsta heila rekstrarár útgerðarinnar. Hér á eftir verður getið um nokkrar athyglisverðar staðreyndir hvað varðar starfsemi  Síldarvinnslunnar á árinu 1966.
 
 • Síldveiðarnar á árinu 1966 slógu öll fyrri met.  Framan af vertíð þurftu veiðiskipin að sækja síldina langt norður í höf en þegar hausta tók þétti síldin sig á Rauða torginu og var veiðin þar ævintýraleg. Á vertíðinni veiddu íslensku veiðiskipin rúmlega 770 þúsund tonn af stórri og fallegri norsk-íslenskri síld.
 • Síldveiðarnar hjá Síldarvinnsluskipunum Barða og Bjarti gengu afar vel á vertíðinni. Barði landaði alls 7531 tonni og Bjartur 8318 tonnum.
 • Í nóvembermánuði þetta ár bættist þriðja síldveiðiskipið í flota Síldarvinnslunnar. Það fékk nafnið Börkur. Börkur hóf síldveiðar strax og landaði 2782 tonnum á vertíðinni.
 • Alls tók síldarverksmiðja Síldarvinnslunnar í Neskaupstað á móti 107.533 tonnum af síld á vertíðinni 1966. Það var langmesta magn sem borist hafði til verksmiðjunnar, en árið áður hafði hún tekið á móti 70.200 tonnum og var það fyrra met.
 • Unnið á síldarsöltunnarstöð Síldarvinnslunnar. Fiskvinnslustöðin í baksýn. Ljósm. v.LindenUnnið á síldarsöltunnarstöð Síldarvinnslunnar. Fiskvinnslustöðin í baksýn. Ljósm. v.Linden
 • Mjög miklar umbætur voru gerðar á síldarverksmiðjunni á þessu ári. Verksmiðjuhúsið var stækkað, komið fyrir nýjum sjóðara, nýrri pressu og þremur skilvindum bætt við þær sem fyrir voru. Jafnframt var nýr ketill settur upp og komið fyrir soðeimingartækjum. Þegar þessum framkvæmdum var lokið höfðu afköst verksmiðjunnar aukist og gat hún unnið úr 700 tonnum á sólarhring en meðalafköst voru 600 tonn.
 •  Alls voru saltaðar 11.431 tunna af norsk-íslenskri síld hjá síldarsöltunarstöð Síldarvinnslunnar árið 1966. Heildarsöltunin hjá sex síldarsöltunarstöðvum í Neskaupstað á vertíðinni var 52.925 tunnur og var það næst mesta söltun á einni vertíð hjá söltunarstöðvum bæjarins á árum hins svonefnda síldarævintýris. Mest var saltað árið 1963 en þá fór síld ofan í 56.375 tunnur í Neskaupstað.
 • Í fiskvinnslustöð Síldarvinnslunnar var mikil áhersla lögð á síldarfrystingu á árinu 1966. Alls voru þar fryst 992 tonn af síld en einungis 346 tonn af bolfiski.
 • Síldarvinnslan festi kaup á síldarflökunarvélum árið 1966 og hóf tilraunir með síldarflökun.
 • Snemma árs 1966 héldu skip Síldarvinnslunnar, Barði og Bjartur, til loðnuveiða. Loðnuveiðar voru þá eingöngu stundaðar úti fyrir suður- og suðvesturströnd landsins og var engri loðnu landað í Neskaupstað. Loðna barst fyrst til vinnslu í Neskaupstað tveimur árum síðar.
 
Eins og sést á staðreyndaupptalningunni hér að framan tengdust umsvif Síldarvinnslunnar á árinu 1966 fyrst og fremst veiðum og vinnslu á norsk-íslenskri síld. Það átti eftir að breytast mikið á næstu árum, en það er önnur saga.Síldarverksmiðja Síldarvinnslunnar tók á móti 107.533 tonnum af síld á vertíðinni 1966. Ljósm. Hjörleifur GuttormssonSíldarverksmiðja Síldarvinnslunnar tók á móti 107.533 tonnum af síld á vertíðinni 1966. Ljósm. Hjörleifur Guttormsson

Samningur um fræðsluáætlun

Hákon Ernuson, starfsmannastjóri Síldarvinnslunnar og Jóna Árný Þórðardóttir undirrita samning um greiningu og vinnslu fræðsluáætlunar. Einnig á mynd: Verkefnisstjórarnir Haraldur Gísli Eðvaldsson, Hulda Guðnadóttir og Tinna Kristbjörg Halldórsdóttir. Ljósm. Sigurður Ólafsson Hákon Ernuson, starfsmannastjóri Síldarvinnslunnar og Jóna Árný Þórðardóttir undirrita samning um greiningu og vinnslu fræðsluáætlunar. Einnig á mynd: Verkefnisstjórarnir Haraldur Gísli Eðvaldsson, Hulda Guðnadóttir og Tinna Kristbjörg Halldórsdóttir. Ljósm. Sigurður Ólafsson Síldarvinnslan og Austurbrú hafa gengið frá samningi um gerð nýrrar fræðsluáætlunar fyrir starfsmenn Síldarvinnslunnar. Ný starfsmannastefna Síldarvinnslunnar gerir ráð fyrir eflingu fræðslustarfs innan fyrirtækisins og er því mikilvægt að greina fræðsluþarfir og gera nýja áætlun um hvernig skal uppfylla þær. Verkefnið er styrkt af fræðslusjóðum fagfélaga, en Landsmennt, Sjómennt, Starfsafl og Menntasjóður VSSÍ koma að fjármögnun verkefnisins. Ráðgjafar Austurbrúar munu vinna greiningu og nýja fræðsluáætlun og styðjast við aðferðafræði sem nefnist „Markviss“. Aðferðafræðin byggir á ríku samráði vinnuveitanda og starfsmanna um samsetningu fræðsluáætlunar og verður skipaður sjö manna stýrihópur sem í sitja fulltrúar starfsmanna og stjórnenda. Tekin verða viðtöl og gerð viðhorfskönnun meðal starfsmanna til að tryggja að áætlunin verði sem nákvæmust. Fyrsti fundur stýrihópsins verður haldinn 15. ágúst og verður ný fræðsluáætlun tilbúin fyrir árslok.

Barði NK landar að afloknum grálúðutúr

Barði NK nýkominn úr grálúðutúr. Ljósm. Hákon ErnusonBarði NK nýkominn úr grálúðutúr. Ljósm. Hákon ErnusonBarði NK kom til hafnar í Neskaupstað í morgun að aflokinni veiðiferð sem hófst 6. júní sl. Aflinn var 150 tonn af grálúðu upp úr sjó að verðmæti 125 milljónir króna. Theodór Haraldsson skipstjóri sagði að túrinn hefði einkennst af heldur lítilli veiði, blíðviðri og þoku. „Við vorum á lúðuslóðinni hér fyrir austan allan tímann og það reyndist vera þolinmæðisvinna að ná þessum afla. Það er mun minna af lúðunni en verið hefur síðustu ár. Við vonuðumst eftir meiri afla, en þetta var svo sem ekki alslæmt,“ sagði Theodór.
 
Gert er ráð fyrir að Barði haldi til veiða á ný um hádegi á mánudag.

Góður gangur í vinnslunni - sumarleyfistími framundan

Úr vinnslusal frystihúss Gullbergs ehf. á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar BogasonÚr vinnslusal frystihúss Gullbergs ehf. á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar BogasonÍ frystihúsi Gullbergs ehf. á Seyðisfirði hefur vinnslan gengið vel það sem af er ári. Byggir það á nægu hráefni og úrvals starfsfólki. Ýmist er unninn þorskur eða ufsi í húsinu. Í þessari viku er gert ráð fyrir að tæplega 100 tonn fari í gegnum vinnsluna.
 
Hinn 8. júlí mun verða gert hlé á starfseminni vegna sumarleyfa starfsmanna og mun vinnsla ekki hefjast á ný fyrr en 3. ágúst. 

Saltfiskskemman í sparifötin

 Framkvæmdir hafnar við saltfiskskemmuna. Spariklædd skreiðarskemman í baksýn. Ljósm. Hákon Ernuson Framkvæmdir hafnar við saltfiskskemmuna. Spariklædd skreiðarskemman í baksýn. Ljósm. Hákon ErnusonNú eru hafnar framkvæmdir við að skipta um klæðningu á svonefndri saltfiskskemmu í Neskaupstað. Klæðningin verður að sjálfsögðu í Síldarvinnslulitunum og að framkvæmdum loknum mun saltfiskskemman hafa fengið sambærilegt útlit og skreiðarskemman sem skipt var um klæðningu á fyrir nokkru. Útlit húsanna breytist gríðarlega við nýja klæðningu og er engu líkara en að þau séu klædd í spariföt. Það er Nestak hf. sem annast framkvæmdirnar og gert er ráð fyrir að þeim verði lokið í haust.
 
Saltfiskskemman á sér merka sögu en húsið var byggt sem síldarverksmiðja á árunum 1966-1967. Það var hlutafélagið Rauðubjörg sem byggði verksmiðjuna. Síldarvinnslan festi kaup á húsinu árið 1973 og hóf þar saltfiskverkun árið eftir. Saltfiskverkunin var fjölmennur vinnustaður og störfuðu þar allt að 120 manns yfir sumartímann í nokkur ár. Saltfiskur var verkaður í skemmunni til ársins 1997 og í henni var einnig söltuð síld á árunum 1986-1997 eða þangað til sú starfsemi var flutt í fiskiðjuverið.
 

Umhverfishópurinn stendur fyrir sínu

Naglhreinsað í skreiðarskemmunni. Ljósm. Smári GeirssonNaglhreinsað í skreiðarskemmunni. Ljósm. Smári GeirssonUndanfarin ár hefur Síldarvinnslan ávallt ráðið hóp ungmenna til sumarstarfa í Neskaupstað. Hópnum er ætlað að sinna ýmsum umhverfisverkefnum auk þess sem hann sinnir tilfallandi öðrum verkefnum. Í sumar skipa 10 ungmenni þennan hóp og hefur hann notið verkstjórnar Konráðs Sveinssonar, Sigfúsar Sigfússonar og Sigurjóns Jónusonar. Í samtali við verkstjórana kom fram að hópurinn hefur staðið sig vel og sinnt sínum störfum af samviskusemi. „Hópurinn fæst við ótrúlega fjölbreytt verkefni en megintilgangurinn með störfum hans er að gera fínt; þrífa, mála og taka til,“ sagði Sigfús.
 
Umhverfishópurinn hóf störf um mánaðamótin maí-júní og mun væntanlega starfa fram í ágústmánuð. Þegar tíðindamaður heimasíðunnar fór inn á athafnasvæði Síldarvinnslunnar í morgun hafði hópnum verið skipt upp; nokkrir úr hópnum voru að naglhreinsa í svonefndri skreiðarskemmu, aðrir voru að hreinsa til í svonefndri saltfiskskemmu og enn aðrir aðstoðuðu við matseld um borð í Beiti NK en þar er hópur iðnaðarmanna að störfum. Þá lá fyrir að hópurinn myndi skipta um merkingar á brettum með frystum afurðum síðar í dag. Á þessu sést að ungmennin í umhverfishópnum kynnast fjölþættum störfum og ef marka má orð verkstjóranna stendur hann fullkomlega fyrir sínu.
 
 Tekið til í saltfiskskemmunni. Ljósm. Smári Geirsson Tekið til í saltfiskskemmunni. Ljósm. Smári Geirsson
 
Aðstoðað við matseld um borð í Beiti NK. Ljósm. Smári GeirssonAðstoðað við matseld um borð í Beiti NK. Ljósm. Smári Geirsson

Makríl- og síldarvertíð undirbúin – afköst fiskiðjuversins aukin

Unnið er að innanhússfrágangi í nýjustu viðbyggingu fiskiðjuversins. Ljósm. Smári GeirssonUnnið er að innanhússfrágangi í nýjustu viðbyggingu fiskiðjuversins. Ljósm. Smári GeirssonUm þessar mundir er unnið hörðum höndum í fiskiðjuverinu í Neskaupstað. Í fyrsta lagi er verið að vinna að innanhússfrágangi við eitt þúsund fermetra viðbyggingu og í öðru lagi er undirbúningur að uppsetningu nýrra frystiskápa hafin en þeir verða settir upp í ágústmánuði. Jafnframt þessu er fjölmörgum viðhaldsverkefnum sinnt og unnið að endurbótum á tækjabúnaði. Umrædd viðbygging reis í fyrrasumar en sumarið 2014 var reist önnur þúsund fermetra viðbygging sem hýsir búnað til brettunar og pökkunar á afurðum. Viðbyggingarnar og nýr og aukinn tækjabúnaður eru liðir í því að auka afköst fiskiðjuversins. Frystiafköst versins í loðnu eru nú um 600 tonn á sólarhring en stefnt er að því að þau verði 1000 tonn í framtíðinni.
 
Lögð er áhersla á að nauðsynlegustu framkvæmdum í verinu verði lokið áður en vinnsla á makríl og síld hefst um miðjan júlímánuð.

Maímánuður var góður hjá togurunum

Löndun úr Bjarti NK. Ljósm. Hákon ErnusonLöndun úr Bjarti NK. Ljósm. Hákon ErnusonAlmennt má segja að vel hafi fiskast hjá togurum Síldarvinnslunnar og dótturfélaga hennar í maímánuði síðastliðnum. Annan mánuðinn í röð slógu ísfisktogarar Bergs-Hugins met hvað aflaverðmæti varðar. Aflinn var tæplega 1100 tonn hjá Bergey og Vestmannaey þó svo að Vestmannaey hafi verið í slipp hluta af mánuðinum. Aflaverðmæti skipanna tveggja í maímánuði var 278 milljónir króna eða litlu meira en var í aprílmánuði síðastliðnum.
 
Ísfisktogarinn Bjartur NK aflaði 561 tonn í mánuðinum. Var hann mest við veiðar á Vestfjarðamiðum og landaði sex sinnum. Þorskafli Bjarts var 319 tonn en annars var ufsi og karfi uppistaða aflans. Ísfisktogarinn Gullver NS var að veiðum fyrir austan í mánuðinum og var afli hans 478 tonn, þar af 241 tonn þorskur.
 
Frystitogarinn Barði NK landaði hinn 10. maí. Aflinn var 400 tonn upp úr sjó og var hann blandaður; ufsi, karfi, þorskur og gulllax. Skipið landaði á ný 2. júní og aftur var aflinn 400 tonn upp úr sjó. Í þeirri veiðiferð var karfi og ufsi uppistaða aflans.

Blængur verður glæsilegur

20160608 085915

                Frystitogarinn Blængur NK 125 hefur að undanförnu verið í Gdansk í Póllandi þar sem unnið hefur verið að umfangsmiklum endurbótum á skipinu. Nú eru framkvæmdir komnar vel á veg og verið er að ljúka við að mála skipið í nýjum Síldarvinnslulitum. Liturinn á skrokknum er mun dekkri en sá sem hefur lengi verið notaður, en í reynd ekki ósvipaður litnum á fyrstu bátunum sem Síldarvinnslan eignaðist árið 1965. Freysteinn Bjarnason hefur verið eftirlitsmaður með framkvæmdunum ytra og bað heimasíðan hann að senda huggulegt sendibréf heim þar sem lýst er öllum þeim endurbótum sem unnið er að. Bréf Freysteins fylgir hér:

Góðan og blessaðan daginn.

                Héðan frá Póllandi er allt gott að frétta og allt á réttri leið. Framkvæmdir ganga vel um þessar mundir og unnið af krafti á mörgum vígstöðvum, skipið fer væntanlega úr flotdokkinni á morgun, fimmtudag. Búið er að þjónusta skrokkinn afar vel, komin ný bógskrúfa, sett tvö ný botnstykki fyrir dýptarmæli og straumlogg, skipið öxuldregið og skrúfan tekin í sundur til viðhalds og sömuleiðis stýrið. Þá er búið að mála skrokkinn í nýjum litum Síldarvinnslunnar og skreyta á ýmsan hátt. Áður hafði skipið verið sandblásið frá toppi til táar.

20160608 085647

                Svo maður hverfi til upphafsins fóru fyrstu vikurnar í að „rífa, tæta og skemmileggja“ eins og sagt er á kjarngóðu máli. Allt var hreinsað út úr íbúðum og brú alveg inn að stáli. Það var heilmikið verk og heldur sóðalegt. Skera þurfti burt þil og styrkingar vegna allra breytinganna. Allt var sandblásið og ryðvarið. Öllum innréttingum verður umbylt og gjörbreytt. Töluverðar skemmdir voru í stálverki, sérstaklega í brúargólfi og rennusteinum, eðli máls samkvæmt eftir öll þessi ár. Allur vinnslubúnaður var fjarlægður af vinnsludekki, fjarlægt kvartsefni af gólfi og það síðan allt sandblásið. Brotin öll steypa af lestargólfi, settar stoðir fram með lestarveggjum beggja vegna til að halda við pallettur eða fiskikör, síðan verður steypt í gólfið á ný og lestin verður eins og annað; betra en nýtt.

                Aftur til dagsins í dag. Búið er að stilla upp nýjum stjórn- og tækjapúltum í brúnni og byrjað að leggja einhverja kílómetra af rafmagnsköplum. Lokið er öllum lögnum á íbúðahæðum ss. ferskvatn, ofnalagnir, niðurföll, klóak, loftræsting og allt það sem nauðsynlegt er. Búið er að undirbúa komu heita pottsins og klæðning á veggþiljum hefst á morgun. Verið er að byrja á að koma fyrir nýrri löndunarlúgu sem er sett út við lunningu stb. megin.

                Ljóst er að verkinu hefur seinkað nokkuð frá upphaflegri áætlun en nú er miðað við að verklok verði 20. júlí nk.

               Ég lofa því að glæsilegt skip siglir til Íslands fyrir verslunarmannahelgi.

                                                                    Bestu kveðjur, ég sakna ykkar allra.

                                                                                         Freysteinn

Bjartur NK seldur til Íran

Bjartur NK er á leiðinni til Íran í ágústmánuði. Ljósm. Sigurður Steinn EinarssonBjartur NK er á leiðinni til Íran í ágústmánuði. Ljósm. Sigurður Steinn EinarssonÍsfisktogarinn Bjartur NK hefur verið seldur til Íran en ráðgert er að afhenda skipið nýjum eigendum í  ágústmánuði næstkomandi.
 
Bjartur var smíðaður í Japan og hefur alla tíð verið í eigu Síldarvinnslunnar. Honum var hleypt af stokkunum í skipasmíðastöð í Niigata hinn 25. október árið 1972 og afhentur Síldarvinnslunni 12. janúar árið 1973. Siglingin frá Niigata til Neskaupstaðar tók 49 sólarhringa og var vegalengdin 13.150 sjómílur. Á siglingunni heim var komið við í Honolulu á Hawaii og Balboa við Panamaskurðinn.
 
Bjartur sigldi í fyrsta sinn inn Norðfjörð klukkan 8.30 að morgni föstudagsins 2. mars 1973. Skipið þótti afar vel búið og hið glæsilegasta í alla staði. Stærð skipsins er 461 tonn og var það í upphafi búið 2000 hestafla aðalvél. Allur tækjabúnaður í skipinu var japanskur  ef undan er skilin talstöðin sem var af danskri gerð.
 
Útgerð Bjarts hefur gengið vel frá upphafi og hefur ekki þótt vera ástæða til að gera miklar breytingar á skipinu. Árið 1984 var þó ný 2.413 hestafla aðalvél sett í það og árið 2004 hélt Bjartur til Póllands þar sem meiriháttar viðhaldi var sinnt. Heildarafli Bjarts frá því að hann hóf veiðar árið 1973 er rúmlega 140 þúsund tonn. Miðað við núverandi fiskverð má gera ráð fyrir að aflaverðmæti skipsins á þessum tíma nemi hátt í 30 milljörðum króna.
 
Bjartur hefur tekið þátt í togararalli Hafrannsóknastofnunar og hefur ekkert annað skip jafn oft tekið þátt í því. Í marsmánuði sl. lauk Bjartur þátttöku í sínu 26. ralli.  
 
Nánar verður fjallað um sögu Bjarts hér á heimasíðunni þegar kemur að því að hann hverfur á braut til fjarlægra slóða. 
 

Fjórðungssjúkrahúsinu færð þvottavél fyrir speglunarbúnað að gjöf

Elín Hjaltalín Jóhannesdóttir hjúkrunarfræðingur og Jón Sen yfirlæknir við ristilspeglunartækið. Ljósm. Smári GeirssonElín Hjaltalín Jóhannesdóttir hjúkrunarfræðingur og Jón Sen yfirlæknir við ristilspeglunartækið. Ljósm. Smári Geirsson
Á aðalfundi Síldarvinnslunnar sem haldinn var sl. fimmtudag var samþykkt að færa Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað þvottavél fyrir speglunarbúnað að gjöf en vélin kostar 3,4 milljónir króna. Á starfsmannafundi fyrirtækisins sem haldinn var í gær afhenti Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Jóni Sen yfirlækni gjöfina. Jón þakkaði fyrir þessa höfðinglegu gjöf og sagði að hin nýja þvottavél væri bæði einföld í notkun og fljótvirk og hún myndi gera það að verkum að speglunartæki sjúkrahússins myndu nýtast mun betur en hingað til.
 
Eins og áður hefur verið fjallað um hér á heimasíðunni var í lok árs 2014 undirritaður samningur á milli Síldarvinnslunnar og Heilbrigðisstofnunar Austurlands um að starfsmönnum Síldarvinnslunnar sem náð hafa 50 ára aldri gefist kostur á ristilspeglun á Fjórðungssjúkrahúsinu þeim að kostnaðarlausu. Við undirritun samningsins færði Síldarvinnslan sjúkrahúsinu ristilspeglunartæki að gjöf og hafði sjúkrahúsið þá yfir tveimur slíkum tækjum að ráða. Þessi tæki nýttust ekki eins vel og æskilegt hefði verið því langan tíma tók að þvo búnaðinn á milli speglana. Hin nýja þvottavél mun bæta þarna úr og munu afköst við ristilspeglanir geta aukist verulega með tilkomu hennar.
 

Fjölmennasti starfsmannafundur í sögu Síldarvinnslunnar

DSC04259 

Um 200 manns sóttu starfsmannafund Síldarvinnslunnar fyrr í dag. Ljósm: Sigurður Steinn Einarsson

Um 200 manns sóttu starfsmannafund Síldarvinnslunnar sem haldinn var í dag í Egilsbúð í Neskaupstað. Fundinn sóttu sjómenn og starfsmenn landvinnslu í Neskaupstað og Seyðisfirði ásamt starfsmönnum Gullbergs ehf. á Seyðisfirði en í þeim hópi voru einnig skipverjar á Gullver NS. Þá sátu fundinn gestir frá Loðnuvinnslunni á Fáskrúðsfirði. Fundurinn bar yfirskriftina Hvernig á að byggja upp heilbrigðan vinnustað ?

Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar setti fundinn og fjallaði um mikilvægi þess að starfsfólki liði vel á vinnustað og þar byggi það við öruggt og jákvætt umhverfi. Salóme Rut Harðardóttir, íþrótta- og heilsufræðingur,  gerði síðan grein fyrir niðurstöðum rannsóknar sem hún gerði á lífsánægju og starfsumhverfi sjómanna en rannsóknin hefur vakið verulega athygli og töluvert verið um hana fjallað í fjölmiðlum að undanförnu. Þá flutti Jóhann Ingi Gunnarsson, sálfræðingur, erindi um starfsanda og liðsheild og Edda Björgvins gerði mikilvægi jákvæðra samskipta og gleði á vinnustað góð skil. Í lokin fjallaði Hákon Ernuson, starfsmannastjóri Síldarvinnslunnar, um helstu áherslur í nýrri starfsmannastefnu fyrirtækisins.

DSC04244

Edda Björgvins leikkona fjallaði um gleði á vinnustað. Ljósm: Sigurður Steinn Einarsson

 

                Í lok fundar var brugðið á leik og stofnuð í skyndi hljómsveit þar sem framkvæmdastjórinn sýndi snilldartakta á bassa og Helga Ingibjargardóttir, starfsmaður í fiskvinnslustöð Gullbergs sá um að slá taktinn. Gítarspil annaðist síðan Jón Hilmar Kárason og sá til þess að útkoman var glæsileg.

                Að fundi loknum var öllum gestum boðið upp á góðar veitingar og kvöddu þeir Egilsbúð saddir og glaðir.

DSC04256 2

               Nýjasta hljómsveit landsins. Ljósm: Sigurður Steinn Einarsson

Undirflokkar