Gómsæt jólasíld – niðurstaða ljósmyndasamkeppni

Jólasíldin komin í föturnar. Ljósm. Hákon ErnusonJólasíldin komin í föturnar. Ljósm. Hákon ErnusonEnn og aftur er jólasíld Síldarvinnslunnar komin í fötur og tilbúin á veisluborð. Mörgum finnst hún ómissandi hluti jólahátíðarinnar en eins og áður eru þær aðferðir sem notaðar eru við framleiðslu síldarinnar vel varðveitt leyndarmál.
 
Efnt var til samkeppni um mynd á merkimiðann á síldarföturnar en þetta er annað árið sem slík samkeppni fer fram. Að þessu sinni sendu einungis þrír einstaklingar myndir til þátttöku í samkeppninni og fékk sérstök dómnefnd það hlutverk að meta þær. Þegar upp var staðið var dómnefndin sammála um að mynd sem Guðlaugur B. Birgisson tók uppfyllti allar þær kröfur sem gerðar voru. Myndin er af Beiti NK þar sem hann liggur jólaljósum prýddur í Norðfjarðarhöfn og hún sómir sér svo sannarlega vel á síldarfötunum. Tekið skal fram að Guðlaugur bar einnig sigur úr býtum í samkeppninni í fyrra.
 
Á það skal bent að þeir sem vilja taka þátt í áðurnefndri samkeppni í framtíðinni þurfa helst að taka myndir um jólahátíðina því ætlast er til að myndirnar tengist Síldarvinnslunni og umsvifum hennar með einhverjum hætti og séu auk þess jólalegar.

Til starfsmanna Síldarvinnslunnar: Hafið þið mætt í heilsufarsskoðun?

Til starfsmanna Síldarvinnslunnar: Hafið þið mætt í heilsufarsskoðun?Heilsufarsskoðun starfsmanna Síldarvinnslunnar hófst í október. Nú liggur fyrir að nokkur hluti starfsmannanna hefur ekki mætt í slíka skoðun. Afar mikilvægt er að allir notfæri sér þetta tækifæri til að láta skoða heilsufarið og enn er tækifæri til þess. Þeir sem ekki hafa þegar farið í skoðun geta pantað tíma hjá heilsugæslunni í Neskaupstað (sími 470-1450) og mun skoðun fara fram dagana 8., 9. og 15. desember.
 
  • Starfsmenn á aldrinum 30-39 ára hringja og panta skoðunartíma á áðurnefndum dögum.

  • Starfsmenn 40 ára og eldri panta einnig tíma, en þeir þurfa að mæta í blóðprufu einum til þremur dögum fyrir skoðunina. Blóðprufur eru teknar alla virka daga á milli kl 8 og 10.

                             
SINNUM HEILSUNNI OG MÆTUM Í SKOÐUN !

Bjarni Ólafsson með fyrsta kolmunnafarm vetrarins

 Bjarni Ólafsson AK siglir inn Norðfjörð með fyrsta kolmunnafarm vetrarins. Ljósm. Smári Geirsson Bjarni Ólafsson AK siglir inn Norðfjörð með fyrsta kolmunnafarm vetrarins.
Ljósm. Smári Geirsson
Bjarni Ólafsson AK kom til Neskaupstaðar skömmu fyrir hádegi í dag með fyrsta kolmunnafarminn sem þangað berst í vetur. Afli skipsins er 1700 tonn og fékkst hann í fimm holum í færeysku lögsögunni. Gísli Runólfsson skipstjóri segir að veiðin hafi verið góð í byrjun veiðiferðarinar en síðan hafi brælt og að brælu lokinni hafi þurft að leita í töluverðan tíma. „Það virðist vera töluvert af fiski á þessum slóðum og full ástæða til bjartsýni hvað varðar framhaldið,“ sagði Gísli.
 
Að sögn Gísla var Jón Kjartansson SU kominn til Eskifjarðar af kolmunnamiðunum með góðan afla og þá var Venus NS kominn á miðin. Fyrir utan þessi þrjú íslensku skip voru færeysk skip einnig að veiðum. 

Það vantar allan kraft í síldveiðarnar

Börkur NK. Ljósm. Hákon ErnusonBörkur NK. Ljósm. Hákon ErnusonBeitir NK kom með 800 tonn af íslenskri sumargotssíld til Neskaupstaðar sl. fimmtudagsmorgun. Síldin fór öll til manneldisvinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Börkur NK kom síðan með álíka afla á föstudagsmorgun.
 
Þeir Tómas Kárason skipstjóri á Beiti og Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri á Berki tjáðu heimasíðunni að sama ástand og verið hefur ríkti á síldarmiðunum vestur af landinu. „Þetta er ekkert sérstakt, góðir blettir á einstaka stað en lítið þar á milli. Síldin er býsna dreifð,“ sagði Tómas. Undir þetta tók Hjörvar og sagði að allan kraft vantaði í veiðarnar.
 
Bæði skipin héldu til síldveiða á ný að lokinni löndun.
 

Tíðar togaralandanir á Seyðisfirði

 Bergey VE kemur til löndunar á Seyðisfirði í dag. Ljósm. Ómar Bogason. Bergey VE kemur til löndunar á Seyðisfirði í dag. Ljósm. Ómar Bogason.Það er mikið um togaralandanir á Seyðisfirði þessa dagana en afli skipanna fer ýmist til vinnslu hjá frystihúsi Gullbergs ehf. eða í gáma sem fluttir eru út með ferjunni Norrænu. Síðustu daga hefur Gullver NS landað tvisvar eftir stuttar veiðiferðir. Hann landaði um 50 tonnum 18. nóvember og um 40 tonnum 21. nóvember. Barði NK kom til löndunar 22. nóvember með liðlega 108 tonn en veiðiferð hans tók fjóra daga höfn í höfn. Í dag kom Bergey VE  til löndunar og Vestmannaey VE mun landa næstkomandi mánudag. Síðan er ráðgert að Gullver landi enn á ný á þriðjudaginn kemur.
 
Elstu menn muna ekki jafn mikla togaratraffík á Seyðisfirði og er um þessar mundir og það er svo sannarlega líflegt í höfninni þar.  
 

Fínasta kolmunnaveiði

Bjarni Ólafsson AK. Ljósm. Smári GeirssonBjarni Ólafsson AK. Ljósm. Smári GeirssonBjarni Ólafsson AK hélt til kolmunnaveiða í færeysku lögsögunni í fyrradag. Heimasíðan hafði samband við Gísla Runólfsson skipstjóra til að forvitnast um hvernig veiðin gengi. „Hér er fínasta veiði. Við hífðum tæp 1000 tonn í gær. Fengum 600 tonn í fyrra holinu og um 380 í því síðara. Síðan erum við að fara að hífa núna eftir hádegið. Við erum norðaustur af eyjunum og það er um sólarhrings sigling til Neskaupstaðar. Hér um borð eru menn býsna kátir og það er miklu bjartara yfir þessu en við reiknuðum með,“ sagði Gísli. 
 
Að sögn Gísla var heldur leiðinlegt veður á miðunum en þar voru fjögur skip að veiðum auk Bjarna Ólafssonar; þrír Færeyingar og Jón Kjartansson SU. „Það virðast allir vera að fá góðan afla hérna um þessar mundir,“ sagði Gísli að lokum.
 

Öryggi í öndvegi

Síldarvinnslan leggur aukna áherslu á öryggi á vinnustað.Síldarvinnslan leggur aukna áherslu á öryggi á vinnustað. Ljósm. Þórhildur Eir SigurgeirsdóttirÍ marsmánuði á þessu ári hóf Guðjón B. Magnússon að gegna starfi öryggisstjóra Síldarvinnslunnar. Þarna er um nýtt starf að ræða og ber vitni um aukna áherslu fyrirtækisins á öryggismál. Drjúgur hluti starfs öryggisstjórans hefur farið í mótun nýrrar öryggisstefnu sem er einn meginþáttur nýrrar starfsmannastefnu Síldarvinnslunnar.
 
Samkvæmt hinni nýju öryggisstefnu mun öryggisfulltrúi og öryggisnefndir starfa á hverri starfsstöð fyrirtækisins og síðan verður skipað öryggisráð sem ætlað er að hafa umsjón með öryggismálum almennt og framkvæmd öryggisstefnunnar. Öryggisstjórinn mun starfa með öryggisráðinu og verða öryggisnefndunum til halds og trausts. Markmiðið með starfi öryggisstjóra er í reynd að fækka eða útrýma vinnuslysum, bæta starfsumhverfi og auka vellíðan starfsmanna.
 
Guðjón B. Magnússon segir að þegar hann hóf störf hafi góður grunnur verið til staðar en aukin áhersla á öryggismálin feli í sér að mikil vinna sé framundan á því sviði. „Ég hef kynnt mér stöðu öryggismála á flestum starfsstöðvum fyrirtækisins, bæði í vinnslustöðvum og skipum, en ákveðið var að leggja í upphafi áherslu á öryggismálin í fiskiðjuverinu í Neskaupstað. Ætlunin er síðan að yfirfæra reynsluna frá fiskiðjuverinu á aðrar starfsstöðvar eftir því sem við á. Mikilvægt er að fram komi að tilkoma starfs öryggisstjóra breytir ekki þeirri ábyrgð sem verkstjórar bera á hverjum vinnustað. Verkstjórarnir gegna lykilhlutverki hvað varðar öryggi í hinum daglegu störfum og þeir þurfa að gæta þess dags daglega að öryggiskröfum sé fylgt,“ segir Guðjón. „Í fiskiðjuverinu hafa verið gerðar nýjar áhættugreiningar og lokið er við að kortleggja öryggisumbætur þar. Þá hefur ýmsum umbótum verið hrint í framkvæmd og byggðu þær á úttekt Vinnueftirlitsins. Í kjölfar þessara umbóta þarf að efla aðhald og eftirfylgni. Í fiskiðjuverinu og reyndar einnig í fiskimjölsverksmiðjunni í Neskaupstað hefur verið komið upp sérstökum öryggistöflum í tilraunaskyni þar sem birtar eru allskonar tilkynningar og reglur á sviði öryggismála. Það skiptir svo miklu máli að allir starfsmenn séu meðvitaðir um mikilvægi öryggismálanna og þekki þær öryggisreglur sem ætlast er til að fylgt sé. Þá er einnig mikilvægt að hvert einasta óhapp eða slys sé rannsakað og gripið til viðeigandi ráðstafana. Það sama gildir um næstum því slys. Það leynast hættur víða á vinnustöðunum og því þarf að þjálfa rétt vinnubrögð og í því sambandi er nýliðafræðsla einkar mikilvæg,“ sagði Guðjón að lokum. 

Bridds í fiskiðjuverinu

Frá briddsmótinu í fiskiðjuverinu. Ljósm. Ína D. GísladóttirFrá briddsmótinu í fiskiðjuverinu. Ljósm. Ína D. GísladóttirÁ föstudag og laugardag fór fram briddsmót í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Um var að ræða svonefnt Síldarvinnslumót en það er Austurlandsmót í tvímenningi. Alls tóku 14 pör þátt í mótinu og komu þau víðs vegar að af Austurlandi. Þarna voru spilarar frá Reyðarfirði, Eskifirði, Fáskrúðsfirði, Stöðvarfirði, Seyðisfirði, Borgarfirði og Héraði auk Norðfirðinga. Síldarvinnslan styrkti mótið með ýmsum hætti og auk hefðbundinna verðlauna fengu þátttakendur jólasíld frá fyrirtækinu til að gæða sér á.
 
Í fyrsta sæti á mótinu voru þeir Guttormur Kristmannsson og Magnús Ásgrímsson, þeir Bjarni Sveinsson og Eyþór Stefánsson höfnuðu í öðru sæti og í þriðja sæti voru Jón Halldór Guðmundsson og Sigurður Valdimarsson.
 
Mótið þótti afar vel heppnað og héldu spilarar glaðir og ánægðir heim á leið að því loknu.

Fyrsta síldin til Neskaupstaðar eftir verkfall

Bjarni Ólafsson AK landar síld í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar í dag. Ljósm. Hákon ErnusonBjarni Ólafsson AK landar síld í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar í dag. Ljósm. Hákon ErnusonBjarni Ólafsson AK kom með 700 tonn af síld til Neskaupstaðar í morgun og hófst strax vinnsla á henni í fiskiðjuverinu. Þetta er fyrsta síldin sem berst til Neskaupstaðar eftir verkfall sjómanna. Gísli Runólfsson, skipstjóri á Bjarna Ólafssyni, sagði að þessi 700 tonn hefðu fengist á einum sólarhring vestur af Reykjanesi, á sömu slóðum og veitt var á fyrir verkfall. „Við fengum þennan afla í þremur holum en 400 tonn fengust í einu þeirra. Það vantar í reyndinni allan kraft í veiðarnar þó menn fái góð hol af og til. Einhvern veginn virðist þetta vera seinna á ferðinni en oft áður og svo er kvótinn ósköp takmarkaður,“ sagði Gísli.
 
Beitir NK hélt til síldveiða frá Neskaupstað sl. föstudag og Börkur NK í gær.
 

Ný og glæsileg netagerð Fjarðanets í Neskaupstað

Netagerð Nesk Samsett-ÚTLIT

Tölvuteiknuð mynd sem sýnir landfyllinguna og nýju netagerðina.

                Nú er lokið við að gera landfyllingu austan við fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Á þessari landfyllingu mun Fjarðanet hf. reisa nýja netagerð og er gert ráð fyrir að byggingarframkvæmdir geti hafist í vor og þeim verði lokið í árslok 2017. Næsta verkefni á svæðinu verður að reka niður stálþil og ganga frá viðlegukanti fyrir skip sem nýta munu þjónustuna sem netagerðin ætlar að bjóða upp á. Tekið skal fram að þessi landfylling er fyrsti áfangi landfyllingar á þessu svæði en ráðgert er að hún teygi sig lengra í átt til fiskimjölsverskmiðjunnar.

                Húsið sem rísa mun á landfyllingunni sem gerð hefur verið verður 85 metra langt og 26 metra breitt eða um 2200 fermetrar. Það mun hýsa netaverkstæði, gúmmíbátaþjónustu og veiðarfærageymslu. Húsnæðinu verður skipt í tvennt eftir endilöngu; öðru megin í því verður netaverkstæðið og hinum megin veiðarfærageymsla fyrir nætur og troll. Í öðrum enda hússins verður síðan rými fyrir víraverkstæði, gúmmíbátaþjónustuna og skrifstofur auk starfsmannaaðstöðu.

                Öll starfsemi Fjarðanets í Neskaupstað mun flytjast úr gamla netagerðarhúsinu í þetta nýja hús. Gamla húsið var byggt árið 1965 og er orðið of lítið auk þess sem aðstaðan í því svarar ekki kröfum tímans. Skip og veiðarfæri hafa stækkað mikið á seinni tímum og með tilkomu nýja hússins verður í alla staði betra og þægilegra að vinna við stór veiðarfæri. Til dæmis hefur vinna við flottroll að mestu leyti farið fram utanhúss en með tilkomu nýja hússins færist sú vinna inn þar sem henni verður sinnt við kjöraðstæður. Öll aðstaða í nýja húsinu verður hin fullkomnasta og framleiðslugeta fyrirtækisins í Neskaupstað mun aukast töluvert. Í ljósi þessa er horft fram á verulega aukningu í starfsemi Fjarðanets í Neskaupstað á komandi árum.

                Veiðarfærageymslan í húsinu veldur einnig byltingu en nætur hafa verið geymdar utan dyra til þessa með öllum þeim ókostum sem því fylgir.

                Jón Einar Marteinsson, framkvæmdastjóri Fjarðanets, segir að gríðarleg þörf sé fyrir þetta nýja hús. „Aðstaðan hefur ekki verið nægilega góð hjá okkur en með tilkomu nýja hússins verður hún til fyrirmyndar. Við ætlum okkur að bjóða upp á góða þjónustu í framtíðinni og þessi nýja bygging er forsenda þess að það sé hægt,“ sagði Jón Einar.

Fjarðanet - mynd

Norðfjarðarhöfn. Nýja netagerðin mun rísa á landfyllingunni sem er næst á myndinni. Ljósm: Haraldur Egilsson 

Verkfalli frestað og veiðar hefjast á ný

Togararnir hafa hafið veiðar eftir verkfall.Togararnir hafa hafið veiðar eftir verkfall. Ljósm. Þorgeir BaldurssonVerkfall sjómanna hófst sl. fimmtudagskvöld og héldu þá öll veiðiskip til hafnar. Í gær var síðan verkfalli frestað en þá náðust samningar á milli Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur annars vegar og Sjómannafélags Íslands hins vegar. Áður höfðu verið undirritaðir samningar á milli Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Sjómannasambands Íslands. Verkföllum sjómanna hefur því verið frestað til 14. desember og nú fer í hönd kynning á samningunum og síðan atkvæðagreiðsla. 
 
Strax í gærkvöldi hófu veiðiskipin að streyma á miðin. Vestmannaey og Bergey héldu til veiða frá Vestmannaeyjum klukkan átta í gærkvöldi og um líkt leyti lét Gullver úr höfn á Seyðisfirði. Barði NK sigldi út Norðfjörð klukkan tíu. Síldarskipin bíða átekta en óhagstætt veður er á síldarmiðunum fyrir vestan land. Börkur og Beitir eru því enn í höfn í Neskaupstað og Bjarni Ólafsson á Akranesi. Gert er ráð fyrir að Bjarni Ólafsson haldi fyrstur til veiða og gæti það gerst á morgun.

Kynning á nýju starfsmannastefnunni

Plaköt með lykilþáttum starfsmannastefnunnar. Ljósm. Hákon ErnusonPlaköt með lykilþáttum starfsmannastefnunnar. Ljósm. Hákon ErnusonKynning á nýrri starfsmannastefnu Síldarvinnslunnar er hafin fyrir nokkru en hún verður kynnt á fundum í hverri deild fyrirtækisins. Þegar hafa fundir verið haldnir í fiskiðjuverinu og fiskimjölsverksmiðjunni í Neskaupstað, fiskimjölsverksmiðjunni á Seyðisfirði og með áhöfn Barða NK. Í kjölfar hvers fundar eru hengd upp plaköt á hverjum vinnustað þar sem gerð er grein fyrir lykilþáttum stefnunnar. Plakötin eru á þremur tungumálum; íslensku, ensku og pólsku. Hákon Ernuson starfsmannastjóri segir að kynningarferlið gangi vel en það taki nokkurn tíma. „Það er mjög mikilvægt að fara yfir stefnuna með starfsfólki á hverjum vinnustað. Fólkið er mjög meðvitað um þá vinnu sem farið hefur fram við mótun stefnunnar enda er hún að hluta til byggð á starfsánægjukönnun og viðtölum sem tekin voru við starfsmenn í öllum deildum fyrirtækisins. Við innleiðingu nýju stefnunnar verður mikil áhersla lögð á öryggismál og heilsufar, enda eru þau málefni í forgangi. Þá er hafin vinna við gerð nýrrar fræðsluáætlunar, en í tengslum við mótun hennar hefur starfsmönnum verið send könnun sem þeir eru hvattir til að svara.  Það er ærið verkefni að kynna þessa nýju stefnu og hrinda henni í framkvæmd, en allt snýst þetta um að gera Síldarvinnsluna að eftirsóknarverðu fyrirtæki að starfa hjá,“sagði Hákon.
 
Nýju starfsmannastefnuna má finna á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Síðasti síldarfarmurinn í bili

Beitir NK að landa í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonBeitir NK að landa í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonBeitir NK kom til Neskaupstaðar í morgun með tæplega 900 tonn af íslenskri sumargotssíld. Er þetta síðasti síldarfarmurinn sem unninn verður í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í bili eða þar til afli berst að landi  á ný að loknu verkfalli. Börkur NK landaði 880 tonnum af síld til vinnslu fyrr í vikunni og á undan honum landaði Bjarni Ólafsson AK 670 tonnum.
 
Tómas Kárason, skipstjóri á Beiti, sagði af aflinn hefði fengist í fimm holum. „Þetta voru fimm hol og þau voru afar misjöfn að stærð. Það stærsta var 330 tonn en hið minnsta um 90 tonn. Veiðin er mjög breytileg en það eru blettir sem gefa góðan afla. Vandinn er að hitta á blettina. Almennt verður þó að segjast að það er ekki mikið að sjá af síld. Í túrnum byrjuðum við veiðar um 70 mílur vestur af Reykjanestá en enduðum um 115 mílur norðvestur af tánni. Þarna var bræla um tíma og við héldum bara sjó í eina 12 tíma. Eftir svona brælu tekur alltaf tíma að finna fiskinn á ný,“ sagði Tómas.
 

Hörkuoktóber hjá Gullver – mannabreytingar

Gullver NS heldur til veiða. Ljósm. Ómar BogasonGullver NS heldur til veiða. Ljósm. Ómar BogasonAfli Gullvers NS í októbermánuði var góður. Skipið kom með 524 tonn að landi í mánuðinum, þar af var 284 tonn þorskur og 115 tonn karfi. Drjúgur hluti aflans fór til vinnslu hjá frystihúsi Gullbergs á Seyðisfirði og þar hefur verið nægt hráefni.
 
Um þessar mundir lætur Rúnar Gunnarsson af störfum sem skipstjóri á Gullver en hann hefur fengið ársleyfi og mun taka við störfum hafnarvarðar á Seyðisfirði. Í stað Rúnars mun Þórhallur Jónsson gegna starfi skipstjóra ásamt Jónasi P. Jónssyni. Þórhallur hefur verið 1. stýrimaður á skipinu undanfarin ár.
 
Það eru ákveðin tímamót fólgin í því að Rúnar skuli láta af störfum eftir farsælan feril á skipinu. Þeir Rúnar og Jónas hafa verið á Gullver frá því að skipið kom nýtt til Seyðisfjarðar í júlímánuði 1983, fyrst sem stýrimenn og síðan sem skipstjórar. Nú er það bara spurningin hvort Rúnar snúi aftur á sjóinn að loknu ársleyfinu eða hvort hann festir rætur í hafnarvarðarstarfinu.
 
Að sögn Jónasar P. Jónssonar eru þeir Rúnar ekki þeir einu sem hafa verið í áhöfn Gullvers frá því að skipið hóf veiðar. Magnús Stefánsson bátsmaður hefur einnig fylgt Gullver frá fyrstu tíð.
 
 Jónas P. Jónsson skipstjóri er ánægður með aflabrögðin í októbermánuði. „Það er búin að vera góð veiði á okkar hefðbundnu miðum. Við erum venjulega fjóra daga í viku á sjó en liggjum í landi í tvo til þrjá daga. Það er því ljóst að unnt væri að fiska enn meira á skipið. Hver veiðiferð hjá okkur er annarri lík. Við byrjum á því að veiða karfa í Berufjarðarál og Lónsdýpi en síðan er farið í þorsk og ufsa í Hvalbakshallinu eða norður á Fæti. Reyndar fórum við alla leið á Tangaflakið í síðasta túr. Í lok hvers túrs nú í haust hefur venjulega verið lögð áhersla á að ná í 10-15 tonn af ýsu. Almennt má segja að þetta fyrirkomulag hafi gengið vel,“ sagði Jónas.
 

Blængur frá veiðum – tíminn nýttur til námskeiðahalds

Hluti Blængsmanna og starfsfólks fiskiðjuvers á lyftara- og krananámskeiði. Ljósm. Hákon ErnusonHluti Blængsmanna og starfsfólks fiskiðjuvers á lyftara- og krananámskeiði. Ljósm. Hákon ErnusonFrystitogarinn Blængur NK hefur verið á Akureyri frá því í byrjun ágúst en þar vinna starfsmenn Slippsins að því að koma fyrir nýjum búnaði á vinnsludekki skipsins. Að framkvæmdum loknum mun Blængur geta lagt stund á ísfiskveiðar ásamt því að geta fryst aflann. Skipið verður útbúið til að geyma frystar afurðir í lest á brettum en slíkt fyrirkomulag leiðir til mikillar vinnuhagræðingar og flýtir fyrir löndun. Fiskikössunum er raðað á brettin á vinnsludekkinu og er brettunum síðan staflað í lestinni með lyftara.
 
Framkvæmdir við Blæng hafa nokkuð dregist á langinn og er nú gert ráð fyrir að skipið geti hafið veiðar snemma í desembermánuði.
 
Á meðan framkvæmdirnar við Blæng hafa staðið yfir hefur tíminn verið nýttur til námskeiðahalds fyrir áhöfnina ásamt því að hún hefur sótt fræðslufundi um ýmis málefni. Í síðustu viku fór til dæmis  fram námskeið fyrir minni vinnuvélar (lyftara- og krananámskeið) í umsjá Vinnueftirlitsins. Auk Blængsmanna sótti starfsfólk fiskiðjuvers og fiskimjölsverksmiðju í Neskaupstað námskeiðið og útskrifuðust um 20 manns. Áður hafði áhöfnin á Blængi sótt kynningarfundi um nýja starfsmannastefnu Síldarvinnslunnar og öryggisnámskeið. Boðið verður upp á svonefnt sápunámskeið fyrir áhöfnina en þá mun fulltrúi frá OLÍS fara yfir notkun á þeim hreinsiefnum sem notuð eru um borð í skipinu og eins hefur verið kannað að bjóða upp á námskeið í vírasplæsningum í samvinnu við Fjarðanet.

Tæplega 69 þúsund tonn af makríl og síld til Neskaupstaðar á nýliðinni vertíð

Frá Norðfjarðarhöfn á nýliðinni makríl- og síldarvertíð. Ljósm. Smári GeirssonFrá Norðfjarðarhöfn á nýliðinni makríl- og síldarvertíð. Ljósm. Smári GeirssonHjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað hófust veiðar og vinnsla á makríl og norsk-íslenskri síld í júlímánuði sl. Fyrsta frysta makrílnum var landað 14. júlí en fyrsta makrílnum til vinnslu var landað 17. sama mánaðar. Framan af var áhersla lögð á makrílveiðarnar og síld barst þá að landi sem meðafli en undir lok vertíðarinnar hófust hreinar síldveiðar. Síðasta löndun var 28. október en þá var landað frystri síld. Hér á eftir verður gefið yfirlit um þessar veiðar og vinnslu aflans.
 
Sá afli sem kom til vinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað á veiðitímabilinu nam 38.262 tonnum. Tekið var á móti 23.076 tonnum af makríl, 11.930 tonnum af norsk-íslenskri síld og 3.256 tonnum af íslenskri sumargotssíld en drjúgur hluti af sumargotssíldinni var meðafli undir lok vertíðarinnar. Þessi afli kom frá þremur skipum, Berki NK, Beiti NK og Bjarna Ólafssyni AK. Aflinn skiptist á skipin sem hér segir:
 
  Makríll Norsk-íslensk síld Íslensk sumargotssíld Samtals
Börkur NK 8.550 5.236 1.452 15.238
Beitir NK 8.734 4.886 1.682 15.302
Bjarni Ólafsson AK 5.792 1.808 122 7.722
 
Fyrir utan þann makríl- og síldarafla sem landað var til vinnslu í fiskiðjuverinu lönduðu fjögur vinnsluskip frystum makríl og síld í frystigeymslur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Frystar afurðir þeirra námu 22.678 tonnum. Skipin sem hér um ræðir eru Vilhelm Þorsteinsson EA, Hákon EA, Kristina EA og grænlenska skipið Polar Amaroq. Þá lönduðu  vinnsluskipin samtals 7.970 tonnum af afskurði og fráflokkuðum fiski í fiskimjölsverksmiðjuna í Neskaupstað.
 
Á framansögðu má sjá að á nýliðinni makríl- og síldarvertíð bárust samtals 68.910 tonn af makríl og síld til Neskaupstaðar.
 

Tíminn hefur verið ótrúlega fljótur að líða

Jóhannes Sveinbjörnsson um borð í Bjarti NK. Ljósm. Guðjón B. MagnússonJóhannes Sveinbjörnsson um borð í Bjarti NK. Ljósm. Guðjón B. MagnússonJóhannes Sveinbjörnsson lét af störfum hjá Síldarvinnslunni hinn 31. október sl. en þá varð hann 70 ára. Jóhannes hóf störf hjá fyrirtækinu haustið 1971 þannig að starfstími hans hjá því voru 45 ár. Hann segir að þessi ár hafi verið ótrúlega fljót að líða og margir starfsfélaganna séu eftirminnilegir. Þá hafi breytingarnar á starfsumhverfinu verið hálfbyltingarkenndar. Hér skal Jóhannesi gefið orðið:   
 
Á sjó og í síld
 
Ég er fæddur hér í Neskaupstað en fjölskyldan bjó reyndar í Sandvík fyrsta æviárið mitt. Eins og aðrir strákar byrjaði ég að vinna snemma. Fjórtán ára að aldri var ég til dæmis með Guðmundi Bjarnasyni á Ver á handfæraveiðum við Langanes. Ég starfaði í frystihúsi og mikið á síldarplönunum hérna í bænum. Ég var á Sæsilfri, Mána og Ás og árið 1965 tók ég þátt í að koma síldarplani Naustavers á laggirnar og þar varð ég verkstjóri 18 ára gamall. Naustaver starfaði í fjögur ár. Á þessum árum fór ég tvær vertíðir til Hornafjarðar á vélbátnum Þorsteini. Þar vorum við á handfærum og það var eftirminnilegur tími. Um borð í Þorsteini voru bæði Siggi Jóns og Siggi Nobb og það var sko aldrei leiðinlegt að vera samskipa þessum mönnum.
 
Árið 1968 fór ég einn túr á Árna Magnússyni frá Sandgerði á miðin við Svalbarða. Þar var veidd síld og söltuð um borð en söltunarstöðin Sæsilfur tók síðan á móti síldinni. Eftir þennan túr var ég ráðinn til Sæsilfurs og var verkstjóri við verkun síldarinnar. Þegar síldarævintýrinu lauk endanlega réðst ég sem háseti á Svein Sveinbjörnsson NK sem ýmist var á útilegu á netum eða á síld í Norðursjó.
 
Ráðinn til Síldarvinnslunnar
 
Haustið 1971 var ég ráðinn til Síldarvinnslunnar. Í upphafi vann ég með Guðjóni heitnum Marteinssyni í saltfiskinum og sá um landanir úr skuttogaranum Barða, fyrsta eiginlega skuttogara landsmanna. Fyrir utan þetta hóf ég fljótlega að sinna ýmsum störfum sem tengdust skipum fyrirtækisins.
 
Árið 1973 bættist skuttogarinn Bjartur í flota Síldarvinnslunnar og þá voru togararnir orðnir tveir. Þá var ég ráðinn til að sjá um landanir úr togurunum og öðrum bátum sem lögðu upp afla hjá fyrirtækinu. Í mínum verkahring var einnig að sjá um allar útskipanir á freðfiski.
 
Framan af voru engir fastráðnir í landanirnar og ég þurfti því eilíflega að leita að mönnum til að sinna þeim. Fljótlega varð mönnum ljóst að nauðsynlegt væri að ráða fasta starfsmenn og þá varð til hið svonefnda löndunargengi sem margir muna eflaust eftir.
 
Löndun á fiski úr togurunum var mannaflsfrekt verkefni framan af. Það þurfti 10-12 manns í hverja löndun auk kranamanna. Útskipun á freðfiski krafðist síðan enn fleiri manna; það þurfti marga til að ná fiskinum úr frystiklefunum og stafla honum á bíla sem síðan óku með hann út á höfn. Þar var fiskurinn síðan hífður um borð í flutningaskipið og honum staflað í lestar.
 
Þegar löndunargengið var ekki að landa fiski eða skipa út fiski fékkst það við ýmis störf sem tengdust skipum fyrirtækisins. Einkum var unnið við veiðarfæri.
 
Það voru margir sem unnu mjög lengi í löndunargenginu og segja má að það hafi verið samheldinn og góður hópur. Enginn vann þó lengur í genginu en Víglundur Gunnarsson kranamaður. Hann vann ekki bara á krananum heldur sá til þess að hann væri í fullkomnu lagi og það var lengi ærið verk því það verður að segjast eins og er að kranarnir sem áður voru notaðir voru engin nýtískutæki.
 
Jóhannes Sveinbjörnsson á 70 ára afmælisdaginn. Ljósm. Guðjón B. MagnússonJóhannes Sveinbjörnsson á 70 ára afmælisdaginn. Ljósm. Guðjón B. MagnússonTækniþróunin hefur haft sín áhrif á störf við fisklandanir eins og svo mörg önnur. Allur búnaður hefur breyst og batnað, vinnan er léttari en áður og starfsmönnum hefur fækkað. Í dag eru 5-6 menn að landa úr togara og þar af einungis 1-2 niðri í lest skipsins en í lestinni voru gjarnan 8 á fyrri tíð. Kör hafa leyst kassa af hólmi og afköst við löndunina hafa margfaldast. 
 
Ráðinn reddari
 
Það var líklega árið 1999 sem ég var síðan ráðinn starfsmaður útgerðar Síldarvinnslunnar. Halldór Hinriksson hafði áður verið í því starfi en var að hætta fyrir aldurs sakir. Þetta starf er ótrúlega fjölbreytt og í því fólst allskonar reddingar, enda menn sem gegna slíkum störfum gjarnan kenndir við reddingarnar. Ég sinnti öllu sem tilheyrði útgerðinni að undanskildum vélbúnaði. Það þurfti að sjá til þess að allt væri klárt þegar skip létu úr höfn, allar skoðanir á skipunum væru í lagi og undirbúa komur skipanna úr veiðiferðum. Þessu starfi sinnti ég í 17 ár og hef notið mín vel í því. Tíminn hefur í reynd verið ótrúlega fljótur að líða – hann hefur þotið áfram.
 
Lengst af var ég einn í að starfa fyrir útgerðina í landi, en síðustu tvö árin hefur Sæmundur Sigurjónsson verið með mér. Vissulega er skemmtilegra að eiga starfsfélaga en að vera einn að bauka.
 
Starf reddarans felur í sér að það þarf að hafa samkipti við marga. Ég þurfti að vera í tengslum við umbúðafyrirtæki vegna frystiskipanna, skoðunarstofnanir vegna skoðana á skipunum, yfirmenn skipanna og að sjálfsögðu stjórnendur fyrirtækisins. Allt þetta samstarf hefur verið afar farsælt og ég man í reynd aldrei eftir því að komið hafi til einhverra árekstra. Ég hef verið ánægður í mínu starfi og á þessari stundu vil ég þakka öllu því góða fólki sem ég hef unnið með hjá Síldarvinnslunni. 
 

Beitir með 950 tonn af síld að vestan

Beitir NK. Ljósm. Hákon ErnusonBeitir NK. Ljósm. Hákon ErnusonBeitir NK kom til Neskaupstaðar í gærkvöldi með 950 tonn af íslenskri sumargotssíld sem fékkst fyrir vestan land. Sturla Þórðarson skipstjóri segir að um fallega demantssíld sé að ræða og hafi vinnsla á henni hafist strax í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. „Við fengum þennan afla 100 mílur vestur og vestnorðvestur af Garðskaga. Holin voru afar misjöfn; í sumum var sáralítið en mest fengum við 230-240 tonn í holi. Það er alls ekki mikla síld að sjá þarna en við fengum þó einn ágætan sólarhring,“ sagði Sturla.

Þokkalegur afli og góður fiskur

Barði NK. Ljósm. Hákon ErnusonBarði NK. Ljósm. Hákon ErnusonÍsfisktogarinn Barði NK kom til hafnar í Neskaupstað í gærkvöldi og var afli skipsins 94 tonn. Skipið hélt til veiða sl. fimmtudag. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri var ánægður með túrinn. „Við byrjuðum að veiða í Berufjarðarálnum en vorum síðan mest utan Fótar og upp á Fætinum. Það aflaðist þokkalega og fiskurinn sem fékkst er mjög góður. Leitað var að ufsa og karfa en lítið fannst. Veður í túrnum var heldur leiðinlegt, það brældi af og til,“ sagði Steinþór.
 
Áhöfnin á Barða var áður á Bjarti og segir Steinþór að hún sé óðum að venjast skipinu. „Þetta er allt að slípast til en það tekur ávallt einhvern tíma,“ sagði Steinþór.
 
Gert er ráð fyrir að Barði haldi til veiða á ný um hádegisbil á morgun og verður það væntanlega síðasti túr fyrir sjómannaverkfall ef af því verður.

Fyrsta sumargotssíldin að vestan til Neskaupstaðar

 Börkur NK að landa í Neskaupstað. Ljósm. Smári Geirsson Börkur NK að landa í Neskaupstað. Ljósm. Smári GeirssonBörkur NK kom til Neskaupstaðar í morgun með fyrstu sumargotssíldina sem þangað berst á vertíðinni af miðum fyrir vestan land. Afli skipsins var rúmlega 300 tonn og fer hann allur til vinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Að sögn Hálfdanar Hálfdanarsonar skipstjóra er þarna um þokkalegustu síld að ræða en hún fékkst í fimm holum djúpt út af Faxaflóa. „Það virðist vera lítið af síld þarna á ferðinni þó svo að einn og einn bátur fái eitt og eitt gott hol. Flest hol skipanna eru léleg og stærsta holið okkar var innan við 100 tonn,“ sagði Hálfdan. „Það er ekkert annað að gera en að halda áfram að leita. Eins og er snýst þetta mikið um að vera á réttum stað á réttum tíma. Hafa ber í huga að í fyrra var veiðin einnig afar skrykkjótt framan af en lagaðist svo þegar á leið. Ég trúi því að þetta eigi allt eftir að koma,“ sagði Hálfdan að lokum.
 

Undirflokkar