Samningur um fræðsluáætlun

Hákon Ernuson, starfsmannastjóri Síldarvinnslunnar og Jóna Árný Þórðardóttir undirrita samning um greiningu og vinnslu fræðsluáætlunar. Einnig á mynd: Verkefnisstjórarnir Haraldur Gísli Eðvaldsson, Hulda Guðnadóttir og Tinna Kristbjörg Halldórsdóttir. Ljósm. Sigurður Ólafsson Hákon Ernuson, starfsmannastjóri Síldarvinnslunnar og Jóna Árný Þórðardóttir undirrita samning um greiningu og vinnslu fræðsluáætlunar. Einnig á mynd: Verkefnisstjórarnir Haraldur Gísli Eðvaldsson, Hulda Guðnadóttir og Tinna Kristbjörg Halldórsdóttir. Ljósm. Sigurður Ólafsson Síldarvinnslan og Austurbrú hafa gengið frá samningi um gerð nýrrar fræðsluáætlunar fyrir starfsmenn Síldarvinnslunnar. Ný starfsmannastefna Síldarvinnslunnar gerir ráð fyrir eflingu fræðslustarfs innan fyrirtækisins og er því mikilvægt að greina fræðsluþarfir og gera nýja áætlun um hvernig skal uppfylla þær. Verkefnið er styrkt af fræðslusjóðum fagfélaga, en Landsmennt, Sjómennt, Starfsafl og Menntasjóður VSSÍ koma að fjármögnun verkefnisins. Ráðgjafar Austurbrúar munu vinna greiningu og nýja fræðsluáætlun og styðjast við aðferðafræði sem nefnist „Markviss“. Aðferðafræðin byggir á ríku samráði vinnuveitanda og starfsmanna um samsetningu fræðsluáætlunar og verður skipaður sjö manna stýrihópur sem í sitja fulltrúar starfsmanna og stjórnenda. Tekin verða viðtöl og gerð viðhorfskönnun meðal starfsmanna til að tryggja að áætlunin verði sem nákvæmust. Fyrsti fundur stýrihópsins verður haldinn 15. ágúst og verður ný fræðsluáætlun tilbúin fyrir árslok.

Barði NK landar að afloknum grálúðutúr

Barði NK nýkominn úr grálúðutúr. Ljósm. Hákon ErnusonBarði NK nýkominn úr grálúðutúr. Ljósm. Hákon ErnusonBarði NK kom til hafnar í Neskaupstað í morgun að aflokinni veiðiferð sem hófst 6. júní sl. Aflinn var 150 tonn af grálúðu upp úr sjó að verðmæti 125 milljónir króna. Theodór Haraldsson skipstjóri sagði að túrinn hefði einkennst af heldur lítilli veiði, blíðviðri og þoku. „Við vorum á lúðuslóðinni hér fyrir austan allan tímann og það reyndist vera þolinmæðisvinna að ná þessum afla. Það er mun minna af lúðunni en verið hefur síðustu ár. Við vonuðumst eftir meiri afla, en þetta var svo sem ekki alslæmt,“ sagði Theodór.
 
Gert er ráð fyrir að Barði haldi til veiða á ný um hádegi á mánudag.

Góður gangur í vinnslunni - sumarleyfistími framundan

Úr vinnslusal frystihúss Gullbergs ehf. á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar BogasonÚr vinnslusal frystihúss Gullbergs ehf. á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar BogasonÍ frystihúsi Gullbergs ehf. á Seyðisfirði hefur vinnslan gengið vel það sem af er ári. Byggir það á nægu hráefni og úrvals starfsfólki. Ýmist er unninn þorskur eða ufsi í húsinu. Í þessari viku er gert ráð fyrir að tæplega 100 tonn fari í gegnum vinnsluna.
 
Hinn 8. júlí mun verða gert hlé á starfseminni vegna sumarleyfa starfsmanna og mun vinnsla ekki hefjast á ný fyrr en 3. ágúst. 

Saltfiskskemman í sparifötin

 Framkvæmdir hafnar við saltfiskskemmuna. Spariklædd skreiðarskemman í baksýn. Ljósm. Hákon Ernuson Framkvæmdir hafnar við saltfiskskemmuna. Spariklædd skreiðarskemman í baksýn. Ljósm. Hákon ErnusonNú eru hafnar framkvæmdir við að skipta um klæðningu á svonefndri saltfiskskemmu í Neskaupstað. Klæðningin verður að sjálfsögðu í Síldarvinnslulitunum og að framkvæmdum loknum mun saltfiskskemman hafa fengið sambærilegt útlit og skreiðarskemman sem skipt var um klæðningu á fyrir nokkru. Útlit húsanna breytist gríðarlega við nýja klæðningu og er engu líkara en að þau séu klædd í spariföt. Það er Nestak hf. sem annast framkvæmdirnar og gert er ráð fyrir að þeim verði lokið í haust.
 
Saltfiskskemman á sér merka sögu en húsið var byggt sem síldarverksmiðja á árunum 1966-1967. Það var hlutafélagið Rauðubjörg sem byggði verksmiðjuna. Síldarvinnslan festi kaup á húsinu árið 1973 og hóf þar saltfiskverkun árið eftir. Saltfiskverkunin var fjölmennur vinnustaður og störfuðu þar allt að 120 manns yfir sumartímann í nokkur ár. Saltfiskur var verkaður í skemmunni til ársins 1997 og í henni var einnig söltuð síld á árunum 1986-1997 eða þangað til sú starfsemi var flutt í fiskiðjuverið.
 

Umhverfishópurinn stendur fyrir sínu

Naglhreinsað í skreiðarskemmunni. Ljósm. Smári GeirssonNaglhreinsað í skreiðarskemmunni. Ljósm. Smári GeirssonUndanfarin ár hefur Síldarvinnslan ávallt ráðið hóp ungmenna til sumarstarfa í Neskaupstað. Hópnum er ætlað að sinna ýmsum umhverfisverkefnum auk þess sem hann sinnir tilfallandi öðrum verkefnum. Í sumar skipa 10 ungmenni þennan hóp og hefur hann notið verkstjórnar Konráðs Sveinssonar, Sigfúsar Sigfússonar og Sigurjóns Jónusonar. Í samtali við verkstjórana kom fram að hópurinn hefur staðið sig vel og sinnt sínum störfum af samviskusemi. „Hópurinn fæst við ótrúlega fjölbreytt verkefni en megintilgangurinn með störfum hans er að gera fínt; þrífa, mála og taka til,“ sagði Sigfús.
 
Umhverfishópurinn hóf störf um mánaðamótin maí-júní og mun væntanlega starfa fram í ágústmánuð. Þegar tíðindamaður heimasíðunnar fór inn á athafnasvæði Síldarvinnslunnar í morgun hafði hópnum verið skipt upp; nokkrir úr hópnum voru að naglhreinsa í svonefndri skreiðarskemmu, aðrir voru að hreinsa til í svonefndri saltfiskskemmu og enn aðrir aðstoðuðu við matseld um borð í Beiti NK en þar er hópur iðnaðarmanna að störfum. Þá lá fyrir að hópurinn myndi skipta um merkingar á brettum með frystum afurðum síðar í dag. Á þessu sést að ungmennin í umhverfishópnum kynnast fjölþættum störfum og ef marka má orð verkstjóranna stendur hann fullkomlega fyrir sínu.
 
 Tekið til í saltfiskskemmunni. Ljósm. Smári Geirsson Tekið til í saltfiskskemmunni. Ljósm. Smári Geirsson
 
Aðstoðað við matseld um borð í Beiti NK. Ljósm. Smári GeirssonAðstoðað við matseld um borð í Beiti NK. Ljósm. Smári Geirsson

Makríl- og síldarvertíð undirbúin – afköst fiskiðjuversins aukin

Unnið er að innanhússfrágangi í nýjustu viðbyggingu fiskiðjuversins. Ljósm. Smári GeirssonUnnið er að innanhússfrágangi í nýjustu viðbyggingu fiskiðjuversins. Ljósm. Smári GeirssonUm þessar mundir er unnið hörðum höndum í fiskiðjuverinu í Neskaupstað. Í fyrsta lagi er verið að vinna að innanhússfrágangi við eitt þúsund fermetra viðbyggingu og í öðru lagi er undirbúningur að uppsetningu nýrra frystiskápa hafin en þeir verða settir upp í ágústmánuði. Jafnframt þessu er fjölmörgum viðhaldsverkefnum sinnt og unnið að endurbótum á tækjabúnaði. Umrædd viðbygging reis í fyrrasumar en sumarið 2014 var reist önnur þúsund fermetra viðbygging sem hýsir búnað til brettunar og pökkunar á afurðum. Viðbyggingarnar og nýr og aukinn tækjabúnaður eru liðir í því að auka afköst fiskiðjuversins. Frystiafköst versins í loðnu eru nú um 600 tonn á sólarhring en stefnt er að því að þau verði 1000 tonn í framtíðinni.
 
Lögð er áhersla á að nauðsynlegustu framkvæmdum í verinu verði lokið áður en vinnsla á makríl og síld hefst um miðjan júlímánuð.

Maímánuður var góður hjá togurunum

Löndun úr Bjarti NK. Ljósm. Hákon ErnusonLöndun úr Bjarti NK. Ljósm. Hákon ErnusonAlmennt má segja að vel hafi fiskast hjá togurum Síldarvinnslunnar og dótturfélaga hennar í maímánuði síðastliðnum. Annan mánuðinn í röð slógu ísfisktogarar Bergs-Hugins met hvað aflaverðmæti varðar. Aflinn var tæplega 1100 tonn hjá Bergey og Vestmannaey þó svo að Vestmannaey hafi verið í slipp hluta af mánuðinum. Aflaverðmæti skipanna tveggja í maímánuði var 278 milljónir króna eða litlu meira en var í aprílmánuði síðastliðnum.
 
Ísfisktogarinn Bjartur NK aflaði 561 tonn í mánuðinum. Var hann mest við veiðar á Vestfjarðamiðum og landaði sex sinnum. Þorskafli Bjarts var 319 tonn en annars var ufsi og karfi uppistaða aflans. Ísfisktogarinn Gullver NS var að veiðum fyrir austan í mánuðinum og var afli hans 478 tonn, þar af 241 tonn þorskur.
 
Frystitogarinn Barði NK landaði hinn 10. maí. Aflinn var 400 tonn upp úr sjó og var hann blandaður; ufsi, karfi, þorskur og gulllax. Skipið landaði á ný 2. júní og aftur var aflinn 400 tonn upp úr sjó. Í þeirri veiðiferð var karfi og ufsi uppistaða aflans.

Blængur verður glæsilegur

20160608 085915

                Frystitogarinn Blængur NK 125 hefur að undanförnu verið í Gdansk í Póllandi þar sem unnið hefur verið að umfangsmiklum endurbótum á skipinu. Nú eru framkvæmdir komnar vel á veg og verið er að ljúka við að mála skipið í nýjum Síldarvinnslulitum. Liturinn á skrokknum er mun dekkri en sá sem hefur lengi verið notaður, en í reynd ekki ósvipaður litnum á fyrstu bátunum sem Síldarvinnslan eignaðist árið 1965. Freysteinn Bjarnason hefur verið eftirlitsmaður með framkvæmdunum ytra og bað heimasíðan hann að senda huggulegt sendibréf heim þar sem lýst er öllum þeim endurbótum sem unnið er að. Bréf Freysteins fylgir hér:

Góðan og blessaðan daginn.

                Héðan frá Póllandi er allt gott að frétta og allt á réttri leið. Framkvæmdir ganga vel um þessar mundir og unnið af krafti á mörgum vígstöðvum, skipið fer væntanlega úr flotdokkinni á morgun, fimmtudag. Búið er að þjónusta skrokkinn afar vel, komin ný bógskrúfa, sett tvö ný botnstykki fyrir dýptarmæli og straumlogg, skipið öxuldregið og skrúfan tekin í sundur til viðhalds og sömuleiðis stýrið. Þá er búið að mála skrokkinn í nýjum litum Síldarvinnslunnar og skreyta á ýmsan hátt. Áður hafði skipið verið sandblásið frá toppi til táar.

20160608 085647

                Svo maður hverfi til upphafsins fóru fyrstu vikurnar í að „rífa, tæta og skemmileggja“ eins og sagt er á kjarngóðu máli. Allt var hreinsað út úr íbúðum og brú alveg inn að stáli. Það var heilmikið verk og heldur sóðalegt. Skera þurfti burt þil og styrkingar vegna allra breytinganna. Allt var sandblásið og ryðvarið. Öllum innréttingum verður umbylt og gjörbreytt. Töluverðar skemmdir voru í stálverki, sérstaklega í brúargólfi og rennusteinum, eðli máls samkvæmt eftir öll þessi ár. Allur vinnslubúnaður var fjarlægður af vinnsludekki, fjarlægt kvartsefni af gólfi og það síðan allt sandblásið. Brotin öll steypa af lestargólfi, settar stoðir fram með lestarveggjum beggja vegna til að halda við pallettur eða fiskikör, síðan verður steypt í gólfið á ný og lestin verður eins og annað; betra en nýtt.

                Aftur til dagsins í dag. Búið er að stilla upp nýjum stjórn- og tækjapúltum í brúnni og byrjað að leggja einhverja kílómetra af rafmagnsköplum. Lokið er öllum lögnum á íbúðahæðum ss. ferskvatn, ofnalagnir, niðurföll, klóak, loftræsting og allt það sem nauðsynlegt er. Búið er að undirbúa komu heita pottsins og klæðning á veggþiljum hefst á morgun. Verið er að byrja á að koma fyrir nýrri löndunarlúgu sem er sett út við lunningu stb. megin.

                Ljóst er að verkinu hefur seinkað nokkuð frá upphaflegri áætlun en nú er miðað við að verklok verði 20. júlí nk.

               Ég lofa því að glæsilegt skip siglir til Íslands fyrir verslunarmannahelgi.

                                                                    Bestu kveðjur, ég sakna ykkar allra.

                                                                                         Freysteinn

Bjartur NK seldur til Íran

Bjartur NK er á leiðinni til Íran í ágústmánuði. Ljósm. Sigurður Steinn EinarssonBjartur NK er á leiðinni til Íran í ágústmánuði. Ljósm. Sigurður Steinn EinarssonÍsfisktogarinn Bjartur NK hefur verið seldur til Íran en ráðgert er að afhenda skipið nýjum eigendum í  ágústmánuði næstkomandi.
 
Bjartur var smíðaður í Japan og hefur alla tíð verið í eigu Síldarvinnslunnar. Honum var hleypt af stokkunum í skipasmíðastöð í Niigata hinn 25. október árið 1972 og afhentur Síldarvinnslunni 12. janúar árið 1973. Siglingin frá Niigata til Neskaupstaðar tók 49 sólarhringa og var vegalengdin 13.150 sjómílur. Á siglingunni heim var komið við í Honolulu á Hawaii og Balboa við Panamaskurðinn.
 
Bjartur sigldi í fyrsta sinn inn Norðfjörð klukkan 8.30 að morgni föstudagsins 2. mars 1973. Skipið þótti afar vel búið og hið glæsilegasta í alla staði. Stærð skipsins er 461 tonn og var það í upphafi búið 2000 hestafla aðalvél. Allur tækjabúnaður í skipinu var japanskur  ef undan er skilin talstöðin sem var af danskri gerð.
 
Útgerð Bjarts hefur gengið vel frá upphafi og hefur ekki þótt vera ástæða til að gera miklar breytingar á skipinu. Árið 1984 var þó ný 2.413 hestafla aðalvél sett í það og árið 2004 hélt Bjartur til Póllands þar sem meiriháttar viðhaldi var sinnt. Heildarafli Bjarts frá því að hann hóf veiðar árið 1973 er rúmlega 140 þúsund tonn. Miðað við núverandi fiskverð má gera ráð fyrir að aflaverðmæti skipsins á þessum tíma nemi hátt í 30 milljörðum króna.
 
Bjartur hefur tekið þátt í togararalli Hafrannsóknastofnunar og hefur ekkert annað skip jafn oft tekið þátt í því. Í marsmánuði sl. lauk Bjartur þátttöku í sínu 26. ralli.  
 
Nánar verður fjallað um sögu Bjarts hér á heimasíðunni þegar kemur að því að hann hverfur á braut til fjarlægra slóða. 
 

Fjórðungssjúkrahúsinu færð þvottavél fyrir speglunarbúnað að gjöf

Elín Hjaltalín Jóhannesdóttir hjúkrunarfræðingur og Jón Sen yfirlæknir við ristilspeglunartækið. Ljósm. Smári GeirssonElín Hjaltalín Jóhannesdóttir hjúkrunarfræðingur og Jón Sen yfirlæknir við ristilspeglunartækið. Ljósm. Smári Geirsson
Á aðalfundi Síldarvinnslunnar sem haldinn var sl. fimmtudag var samþykkt að færa Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað þvottavél fyrir speglunarbúnað að gjöf en vélin kostar 3,4 milljónir króna. Á starfsmannafundi fyrirtækisins sem haldinn var í gær afhenti Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Jóni Sen yfirlækni gjöfina. Jón þakkaði fyrir þessa höfðinglegu gjöf og sagði að hin nýja þvottavél væri bæði einföld í notkun og fljótvirk og hún myndi gera það að verkum að speglunartæki sjúkrahússins myndu nýtast mun betur en hingað til.
 
Eins og áður hefur verið fjallað um hér á heimasíðunni var í lok árs 2014 undirritaður samningur á milli Síldarvinnslunnar og Heilbrigðisstofnunar Austurlands um að starfsmönnum Síldarvinnslunnar sem náð hafa 50 ára aldri gefist kostur á ristilspeglun á Fjórðungssjúkrahúsinu þeim að kostnaðarlausu. Við undirritun samningsins færði Síldarvinnslan sjúkrahúsinu ristilspeglunartæki að gjöf og hafði sjúkrahúsið þá yfir tveimur slíkum tækjum að ráða. Þessi tæki nýttust ekki eins vel og æskilegt hefði verið því langan tíma tók að þvo búnaðinn á milli speglana. Hin nýja þvottavél mun bæta þarna úr og munu afköst við ristilspeglanir geta aukist verulega með tilkomu hennar.
 

Fjölmennasti starfsmannafundur í sögu Síldarvinnslunnar

DSC04259 

Um 200 manns sóttu starfsmannafund Síldarvinnslunnar fyrr í dag. Ljósm: Sigurður Steinn Einarsson

Um 200 manns sóttu starfsmannafund Síldarvinnslunnar sem haldinn var í dag í Egilsbúð í Neskaupstað. Fundinn sóttu sjómenn og starfsmenn landvinnslu í Neskaupstað og Seyðisfirði ásamt starfsmönnum Gullbergs ehf. á Seyðisfirði en í þeim hópi voru einnig skipverjar á Gullver NS. Þá sátu fundinn gestir frá Loðnuvinnslunni á Fáskrúðsfirði. Fundurinn bar yfirskriftina Hvernig á að byggja upp heilbrigðan vinnustað ?

Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar setti fundinn og fjallaði um mikilvægi þess að starfsfólki liði vel á vinnustað og þar byggi það við öruggt og jákvætt umhverfi. Salóme Rut Harðardóttir, íþrótta- og heilsufræðingur,  gerði síðan grein fyrir niðurstöðum rannsóknar sem hún gerði á lífsánægju og starfsumhverfi sjómanna en rannsóknin hefur vakið verulega athygli og töluvert verið um hana fjallað í fjölmiðlum að undanförnu. Þá flutti Jóhann Ingi Gunnarsson, sálfræðingur, erindi um starfsanda og liðsheild og Edda Björgvins gerði mikilvægi jákvæðra samskipta og gleði á vinnustað góð skil. Í lokin fjallaði Hákon Ernuson, starfsmannastjóri Síldarvinnslunnar, um helstu áherslur í nýrri starfsmannastefnu fyrirtækisins.

DSC04244

Edda Björgvins leikkona fjallaði um gleði á vinnustað. Ljósm: Sigurður Steinn Einarsson

 

                Í lok fundar var brugðið á leik og stofnuð í skyndi hljómsveit þar sem framkvæmdastjórinn sýndi snilldartakta á bassa og Helga Ingibjargardóttir, starfsmaður í fiskvinnslustöð Gullbergs sá um að slá taktinn. Gítarspil annaðist síðan Jón Hilmar Kárason og sá til þess að útkoman var glæsileg.

                Að fundi loknum var öllum gestum boðið upp á góðar veitingar og kvöddu þeir Egilsbúð saddir og glaðir.

DSC04256 2

               Nýjasta hljómsveit landsins. Ljósm: Sigurður Steinn Einarsson

„Ég hef aldrei notið þess betur að vera á sjó en einmitt núna,“ segir Sigurður Karl Jóhannsson háseti á Berki

„Ég hef aldrei notið þess betur að vera á sjó en einmitt núna,“ segir Sigurður Karl Jóhannsson háseti á BerkiSigurður Karl Jóhannsson hefur verið sjómaður á skipum Síldarvinnslunnar frá 14 ára aldri eða í 45 ár. Hann hefur upplifað gríðarlegar breytingar á sjómannsstarfinu og getur rakið þær með skilmerkilegum hætti. Heimasíða Síldarvinnslunnar ákvað að biðja Sigurð um að segja stuttlega frá reynslu sinni af sjónum og hvernig störfin og skipin hafa breyst. Nú skal Sigurði gefið orðið:
Byrjaði 14 ára hálfdrættingur
 
Ég var 14 ára þegar ég byrjaði á sjónum sumarið 1971. Það var á Barða sem var fyrsti eiginlegi skuttogarinn sem við Íslendingar eignuðumst. Þarna um borð var ég á hálfum hlut á móti Ragnari Sverrissyni en Magni Kristjánsson var skipstjóri. Það var góður skóli að vera á Barðanum og okkur strákunum var ekkert hlíft, stundum var meira að segja pínulítið níðst á okkur. Við vorum til dæmis ávallt látnir vaska upp eftir hverja vakt en það þurftu aðrir hásetar ekki að gera. Svo vorum við píndir reglulega og við tókum alltaf á móti, en þetta var allt í gamni gert. Þarna um borð lærðum við mikið hvað sjómennskuna varðaði og höfðum gott af því að vera þarna. Að loknu fyrsta sumrinu á sjónum var farið í skólann en sumarið eftir kom ekki annað til greina en að halda áfram á Barðanum.
 
Árið 1973 fór ég síðan á Bjart en Magni Kristjánsson var einnig með hann. Bjartur var spánnýr Japanstogari og allt þar um borð þótti óskaplega flott og fínt. Þar um borð var aðbúnaður og vinnuaðstaða miklu betri en á Barðanum og mér fannst ég hafa himin höndum tekið þegar ég kom þar um borð.
 
Fyrstu fjögur árin sem ég var á sjó var ég alltaf sjóveikur – jafnvel í blíðu leið mér illa og ældi oft eins og múkki. Þetta var komið á sálina á mér. En þrátt fyrir bölvaða sjóveikina hélt ég áfram á sjónum og ég er ánægður með þá þrjósku sem ég sýndi þá. Einn góðan veðurdag hvarf sjóveikin og ég hef ekki fundið fyrir henni síðan.
Á fimm skipum í 45 ár
 
Ég hef í reyndinni bara verið á fimm Síldarvinnsluskipum í þau 45 ár sem ég hef starfað hjá fyrirtækinu þó ég hafi farið einn og einn túr á öðrum. Fyrst var ég semsagt á Barða og síðan á Bjarti á árunum 1973-1988. Þá lá leiðin á Börk, sem oft hefur verið nefndur Stóri-Börkur. Á Berki var ég til ársins 2010 en þá var skipt yfir á þáverandi Beiti og af Beiti yfir á núverandi Börk þegar hann var keyptur árið 2014. Skipstjórarnir sem ég hef verið með hafa ekki verið margir, fyrst Magni Kristjánsson eins og fyrr getur, þá Sveinn Benediktsson á Bjarti, síðan Helgi Geir Valdimarsson og Sturla Þórðarson á Stóra-Berki og síðan Sturla, Hálfdan Hálfdanarson og Hjörvar Hjálmarsson. Þá fór ég í afleysingatúra með ýmsum góðum skipstjórum.

Lesa meira...

Aðalfundur Síldarvinnslunnar hf. vegna ársins 2015

DSC04141 2

 • Hagnaður ársins nam 6,2 milljörðum króna.
 • Opinber gjöld af starfsemi fyrirtækisins og starfsmanna þess námu 5,1 milljarði króna. 
 • Eiginfjárhlutfall er 62%.
 • Afli skipa samstæðunnar var 155 þúsund tonn.
 • Fiskimjölsverksmiðjur félagsins tóku á móti 263 þúsund tonnum af hráefni.
 • Fiskiðjuverið tók á móti 52 þúsund tonnum af hráefni til frystingar.
 • Um frystigeymslur félagsins fóru 70 þúsund tonn af afurðum.
 • Framleiddar afurðir voru 115 þúsund tonn.

 

Rekstur

Rekstrartekjur samstæðunnar á árinu 2015 voru alls 27 milljarðar króna og rekstrargjöld námu 18,9 milljörðum króna.  EBITDA var 8,2 milljarðar króna.   Fjármagnsliðir voru jákvæðir um 410 milljónir króna. Hagnaður samstæðunnar fyrir reiknaða skatta nam 7,6 milljörðum króna. Reiknaður tekjuskattur nam 1.420 milljónum króna og var hagnaður ársins því 6,2 milljarðar króna.  

Gjöld til hins opinbera

Á árinu 2015 greiddi Síldarvinnslan og starfsmenn 5,1 milljarð króna  til hins opinbera. Greiddur tekjuskattur er 1.240 milljónir króna og veiðigjöld voru tæplega 900 milljónir. Á meðal gjalda sem greidd voru á árinu eru 82 milljónir króna í stimpilgjöld vegna kaupa fyrirtækisins á Beiti NK og 100 milljónir króna í kolefnis- og raforkugjald.

Fjárfestingar

Samtals námu fjárfestingar félagsins 5,4 milljörðum króna og voru þær þáttur í að auka verðmætasköpun félagsins ásamt því að bæta aðbúnað og öryggi starfsmanna. Helstu fjárfestingarnar voru kaup á nýju uppsjávarveiðiskipi frá Danmörku, Beiti NK 123. Skipið var smíðað árið 2014 og ber 3.200 tonn. Eins var haldið áfram á braut uppbyggingar í uppsjávarvinnslu félagsins. Reist var viðbygging austan við fiskiðjuverið og er sú bygging liður í að auka afköst vinnslunnar í 900 til 1.000 tonn á sólarhring.

Efnahagur

Heildareignir samstæðunnar í árslok 2015 voru bókfærðar á 54,4 milljarða króna. Veltufjármunir voru bókfærðir á 9,1 milljarða króna og skuldir og skuldbindingar samstæðunnar námu 20,7  milljörðum króna. Eigið fé samstæðunnar í árslok var 33,7 milljarðar króna.   Í árslok var eiginfjárhlutfall samstæðunnar 62%.

Starfsemi

Útgerð félagsins gekk vel á árinu. Afli bolfiskskipa samstæðunnar var 19.500 tonn að verðmæti 6,1 milljarður króna. Afli uppsjávarskipa var 135 þúsund tonn að verðmæti 4,4 milljarðar. Heildaraflaverðmæti afla skipanna var 10,5 milljarðar króna og aflamagn 155.000 tonn á árinu. 

Fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar tóku á móti um 263 þúsund tonnum af hráefni á árinu 2015. Framleidd voru 52 þúsund tonn af mjöli og 15 þúsund tonn af lýsi. Samtals voru framleidd 67 þúsund tonn af mjöli og lýsi á árinu að verðmæti 13,1 milljarðar króna.

Í uppsjávarvinnsluna var landað 52 þúsund tonnum af hráefni. Framleiddar afurðir voru 32.000 tonn. Þar vega makrílafurðir þyngst og síðan síldarafurðir og loks loðnuafurðir.  Verðmæti framleiðslunnar var 6,2 milljarðar króna. 

Um frystigeymslurnar fóru 70 þúsund tonn af afurðum á árinu.

Samtals nam framleiðsla á afurðum 115.000 tonnum á árinu 2015 að verðmæti rúmlega 24 milljarðar króna.

Starfsmenn

Hjá samstæðu Síldarvinnslunnar störfuðu 334 manns til sjós og lands um síðustu áramót. Launagreiðslur félagsins voru rúmar 4.100 milljónir króna á árinu 2015 en af þeim greiddu starfsmenn 1.370 milljónir í skatta.

Aðalfundur

Á fundinum var samþykkt að greiða 15 milljónir USD í arð til hluthafa fyrir rekstrarárið 2015. Skal miða arðgreiðsluna við kaupgengi Seðlabanka Íslands á aðalfundardegi. Greiðsla arðsins fer fram 15. júní 2016. Þá var samþykkt að hækka stjórnarlaun úr 125 þúsund krónum á mánuði í 150 þúsund kr. á mánuði.

Aðalfundur Síldarvinnslunnar hf. var haldinn fimmtudaginn 2. júní.  

 

Fréttatilkynning frá Síldarvinnslunni hf. fimmtudaginn 2. júní 2016.

Nánari upplýsingar veitir Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri, í síma 896 4760.

Stjórnarkjör á aðalfundi

DSC04224

Nýkjörin stjórn Síldarvinnslunnar ásamt framkvæmdastjóra. Talið frá vinstri: Halldór Jónasson, Arna Bryndís Baldvins McClure, Ingi Jóhann Guðmundsson, Björk Þórarinsdóttir, Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri, Anna Guðmundsdóttir, Þorsteinn Már Baldvinsson, Guðmundur Rafnkell Gíslason. Ljósm: Smári Geirsson

Aðalfundur Síldarvinnslunnar hf. var haldinn í dag. Þar var stjórn félagsins endurkjörin að öðru leyti en því að Freysteinn Bjarnason hvarf úr henni en Guðmundur Rafnkell Gíslason var kjörinn í hans stað. Freysteini voru þökkuð góð störf í þágu Síldarvinnslunnar en hann hefur átt sæti í stjórninni frá árinu 2005.

Eftirtalin voru kjörin í stjórnina:

Anna Guðmundsdóttir

Björk Þórarinsdóttir

Guðmundur Rafnkell Gíslason

Ingi Jóhann Guðmundsson

Þorsteinn Már Baldvinsson

Varamenn:

Arna Bryndís Baldvins McClure

Halldór Jónasson

Hátíðarhöld Sjómannadagsins í Neskaupstað 2016

des-júní 156

 

Fimmtudagur 2.júní

 kl. 18:30-             Pizzahlaðborð í Capitano

 kl. 21:00-            Egilsbúð  David Bowie, aldurstakmark 18 ár. Verð 3.200

 kl. 23:00-            Egilsbúð Hlynur Ben, aldurstakmark 18 ár

 Föstudagur    3.júní

 kl. 10:00              Miðbærinn skreyttur og fánar dregnir að húni.

 kl. 20–23.00        Unglingaball í Atóm

 kl. 23:00-            Egilsbúð, Í svörtum fötum heldur uppi stuðinu, aldurstakmark 18 ár. Verð 2.500

          

 Laugardagur  4.júní

 kl. 10:00              Myndlistasýning í Nesbæ kaffihúsi

 kl.10:00-12:00    Hópsigling Norðfirska flotans – allir velkomnir - talsamband á rás 12. Smábátaeigendur eru hvattir til þátttöku á bátum sínum. Börn skulu vera í fylgd fullorðinna.

 kl. 11:30-13:30    „Bröns“ í Hotel Capitano

 kl. 13:00              Kvennahlaup ÍSÍ í boði Sjóvá, rásmark við kaffihúsið Nesbæ.

 kl. 13:00-15:00    Hoppikastalar á bryggju neðan við kirkjuna , sjá nánar á  http://www.hopp.is

 kl. 14:00             Kappróður

 kl. 23.00-03:00             Egilsbúð, Ball með Eyþóri Inga og hljómsveit  aldurstakmark 18 ár. Verð 2.500 kr

          Sunnudagur   5.júní

 kl. 09:00              Sjómannadagsmót GN og Gjögurs á Norðfjarðarvelli

 kl. 09:30              Skip og bátar draga íslenska fánann að húni –bæjarbúar flaggi sem víðast.

 kl. 11:00              Dorgveiðikeppni 12 ára og yngri – skráning við Jósafatsafn. Allir þátttakendur skulu vera í björgunarvestum og mæta vel fyrir tímann.

 kl. 12:00              Grillveisla að hætti Jóns Gunnars í boði Nesbakka, Fellabakarís, SVN og Samhentra

 kl. 11:30-14:00             Sjómannadagsmatseðill í tilefni dagsins á Hildibrand Hótel

 kl. 14:00              Hátíðarmessa í Norðfjarðarkirkju.

Séra Sigurður Rúnar Ragnarsson, ræðumaður Salóme Rut Harðardóttir. Kór Norðfjarðarkirkju syngur. Að messu lokinni verður lagður blómsveigur við minnisvarðann um óþekkta sjómanninn í kirkjugarðinum

 kl. 14:30 -18:00            Kaffisala Gerpis að Nesi   Allur ágóði rennur til björgunarstarfa sveitarinnar.

 kl. 15:00              Leikfélagið Djúpið með andlitsmálingu og fleira fyrir börnin á bílastæði við sundlaug

 kl. 15:30              Hátíðardagskrá við sundlaugina: 

 
 •          Aldraðir sjómenn heiðraðir.

 •          Björgunarbátasund áhafna.
 •          Reiptog, koddaslagur, skráning hjá Halla Egils. 6611790.
 •          Verðlaunaafhendingar.

 

                          Hvetjum alla sem hlotið hafa heiðursmerki Sjómannadagsins til þess að bera það.

 Sjómannadagsráð Neskaupstaðar og samstarfsaðilar:

 Bjsv Gerpir, Haki, Sún, SVN, G. Skúlason og Hafnarsjóður Fjarðabyggðar.                    

 Allar fyrirspurnir vinsamlegast sendar á  This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

 

Kaupið merki dagsins!

 

Pylsupartí í blíðunni

Grillað í blíðunni hjá Gullveri. Ljósm. Ómar BogasonGrillað í blíðunni hjá Gullberg Ljósm. Ómar BogasonSumarið er svo sannarlega komið á Austfjörðum. Það er blíða dag eftir dag og allir brosa út að eyrum. Í gær efndi starfsfólk fiskvinnslustöðvar Gullbergs á Seyðisfirði til pylsupartís í hádeginu en þá var yfir 20 stiga hiti. Sömu hlýindi voru í Neskaupstað þar sem skrifstofufólk Síldarvinnslunnar tók íspásu um miðjan dag. Myndin sem fylgir er af starfsmönnum Gullbergs í pylsupartíinu og er hún tekin við rauðmálaðan gafl frystigeymslunnar. Brátt mun rauði liturinn hverfa því nú eru að hefjast miklar endurbætur á fiskvinnslustöðinni og blár Síldarvinnslulitur mun leysa þann rauða af hólmi.
 

Starfsmannafundur

 

Hvernig á að byggja upp heilbrigðan vinnustað ?

Fiskidjuverid juli 2014 HV

Síldarvinnslan heldur starfsmannafund í Egilsbúð í Neskaupstað mánudaginn 6. júní og hefst hann kl. 10. Fundurinn er haldinn í tengslum við endurskoðun starfsmannastefnu fyrirtækisins en Síldarvinnslan hefur það markmið að vinnustaðir fyrirtækisins einkennist af vellíðan starfsfólks og öryggi. Jafnframt er það ótvírætt markmið að útrýma öllum neikvæðum þáttum á borð við einelti.

                Dagskrá fundarins er eftirfarandi:

 • Starfsánægja og velferð. Af hverju þarf að ræða það ? Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri
 • Lífsánægja og starfsumhverfi sjómanna. Salóme Rut Harðardóttir íþrótta- og heilsufræðingur
 • Starfsandi og liðsheild. Jóhann Ingi Gunnarsson sálfræðingur
 • Jákvæð samskipti á vinnustað, gleði og húmor. Edda Björgvins leikkona
 • Starfsmannastefna Síldarvinnslunnar. Hvað ætlar Síldarvinnslan að gera til að byggja upp heilbrigðan vinnustað? Hákon Ernuson starfsmannastjóri
 • Tónlist.

                               Boðið verður upp á veitingar á fundinum

Afreksmannasjóður Guðmundar Bjarnasonar

Gunnþór Ingvason og Stefán Már Guðmundsson við undirritun reglugerðar um Afreksmannasjóð Guðmundar Bjarnasonar. Ljósm: Smári GeirssonGunnþór Ingvason og Stefán Már Guðmundsson við undirritun reglugerðar um Afreksmannasjóð Guðmundar Bjarnasonar. Ljósm: Smári GeirssonÍ dag undirrituðu Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar og Stefán Már Guðmundsson formaður Íþróttafélagsins Þróttar reglugerð fyrir Afreksmannasjóð Guðmundar Bjarnasonar. Á aðalfundi Síldarvinnslunnar í fyrra var samþykkt að stofna sjóðinn og skyldi Síldarvinnslan árlega veita honum eina milljón króna til ráðstöfunar. Sjóðurinn er stofnaður í minningu Guðmundar Bjarnasonar sem lést á síðasta ári. Guðmundur var formaður Þróttar á árunum 1984 til 1987 og formaður knattspyrnudeildar félagsins á árunum 1976-1985. Þá sat Guðmundur í stjórn Knattspyrnusambands Íslands á árunum 1978-1991. Sæti í stjórn Síldarvinnslunnar átti Guðmundur á árunum 1991-2005 auk þess sem hann sat í stjórn Samvinnufélags útgerðarmanna frá 1984 til dauðadags en stjórnarformaður félagsins var hann frá 2005. Guðmundur gegndi starfi bæjarstjóra, fyrst í Neskaupstað og síðan í Fjarðabyggð, á árunum 1991-2006.
 
Tilgangur sjóðsins er að styrkja einstaklinga innan Þróttar sem náð hafa framúrskarandi árangri í íþrótt sinni. Á það við þegar viðkomandi hefur öðlast rétt til keppni á fjölþjóðlegum mótum, verið valinn í landslið, unnið Íslandsmeistaratitil, sett Íslandsmet eða skarað fram úr með eftirtektarverðum hætti. Sækja þarf um styrk úr sjóðnum og er gert ráð fyrir að styrkjum verði úthlutað tvisvar á ári. Stjórn Íþróttafélagsins Þróttar ásamt einum fulltrúa frá Síldarvinnslunni skipa sjóðsstjórnina.
 

Nýtt öryggiskerfi: Hvað er að frétta?

DSC03722

Guðjón B. Magnússon öryggisstjóri Síldarvinnslunnar. Ljósm: Hákon Ernuson

 

 Nú stendur yfir innleiðing á nýju öryggiskerfi Síldarvinnslunnar undir stjórn Guðjóns B. Magnússonar, nýs öryggisstjóra fyrirtækisins. Sigurður Ólafsson, ráðgjafi, hefur aðstoðað Guðjón við innleiðinguna, ásamt Ásgrími Ásgrímssyni, öryggisstjóra Launafls. Markmið þessarar vinnu er að byggja upp öryggismenningu hjá fyrirtækinu þar sem hættur eru stöðugt greindar, lausnir fundnar, innleiddar, mældar og endurbættar eftir því sem tækni, veiðum og vinnslu fleygir fram. „Þetta er langtímaverkefni sem stendur og fellur með þátttöku starfsmanna og stjórnenda á hverjum vinnustað“, segir Guðjón. „Þetta snýst um að nýta þekkingu starfsmanna til að greina hættur, hanna og innleiða lausnir sem virka. Í þessu sambandi skiptir breytt hugarfar og ekki síður breytt hegðun miklu máli – markmiðið er að byggja upp öryggisvenjur sem skila árangri. Það er ljóst að það tekur tíma og orku að byggja upp öryggismenningu, en bæði rannsóknir og reynsla sýna hvað það skilar miklum árangri. Til dæmis sést mjög skýrt á slysa- og dánartíðni sjómanna hverskonar árangur næst þegar menn ganga skipulega í að auka öryggi og öryggisvitund. Fyrir örfáum áratugum fórust fjölmargir sjómenn á hverju ári. Ákvörðun var tekin um að gera ráðstafanir til að bæta öryggi sjómanna og nú eru alvarlega slys á sjó mjög fátíð miðað við það sem áður var. Slysatíðni í fiskiðnaði er hins vegar enn allt of há og ljóst að það þarf að huga betur að öryggismálunum, enda sést að flest stóru sjávarútvegs- og fiskvinnslufyrirtækin hafa ráðið öryggisstjóra til starfa og eru að stórauka áherslu á öryggismál. Það eru sífellt fleiri að átta sig á því að það þarf að ráðstafa tíma og fjármunum í öryggismálin ef árangur á að nást, en ég held líka að menn séu að þessu vegna þess að það borgar sig og skilar sér í snarlækkaðri tíðni slysa. Það er ekki  ásættanlegt að það verði slys í sjávarútvegi sem hefði mátt fyrirbyggja með réttum búnaði eða vinnubrögðum. Við stefnum því gallhörð að því að útrýma slysum hjá Síldarvinnslunni og mér finnst sérlega spennandi og gefandi að taka þátt í þeirri vinnu ásamt þeim sem hafa veitt okkur ráðgjöf á sviði öryggismálanna“, segir Guðjón að lokum.

Staðan á innleiðingu öryggiskerfis Síldarvinnslunnar er sú að búið er að gera drög að nýjum áhættugreiningum í fiskiðjuverinu í Neskaupstað og er nú komið að lokarýni og undirbúningi innleiðingar. „Við munum leggja mikla áherslu á nýliðafræðslu núna fyrir komandi síldar- og makrílvertíð og þá ekki síst með öryggismálin í huga. Við viljum að öryggismálin njóti athygli hvern einasta vinnudag og mikilvægi þeirra má aldrei gleymast“, segir Guðjón. Talsverðar breytingar verða gerðar á búnaði og vinnuaðstöðu til að auka öryggið fyrir síldar- og makrílvertíðina og fyrirhugað er yfirfara allt fiskiðjuverið og síðan aðra vinnustaði út frá öryggissjónarmiðum.

Reynslan úr fiskiðjuverinu verður síðan nýtt við innleiðingu kerfisins í öðrum starfsstöðvum og skipum fyrirtækisins, en meira verður að frétta af því innan skamms.

Tæplega 65.000 tonn af kolmunna til Neskaupstaðar og Seyðisfjarðar

DSC04141 2

Beitir NK siglir inn Norðfjarðarflóa með kolmunnafarm. Ljósm: Smári Geirsson                

Kolmunnavertíðinni hjá Síldarvinnslunni lauk í síðustu viku en Beitir NK var síðasta skipið til að koma með afla til löndunar. Alls hefur rúmlega 25.000 tonnum af kolmunna verið landað á Seyðisfirði frá áramótum og tæplega 40.000 tonnum í Neskaupstað. Gunnar Sverrisson rekstrarstjóri fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar segir að kolmunninn á vertíðinni hafi verið ágætt hráefni. „Megnið af aflanum hefur verið vel kælt um borð í skipunum og það eykur gæði hráefnisins og auðveldar vinnsluna,“ segir Gunnar.

                Síldarvinnsluskipin, Beitir og Börkur, hafa aflað vel á vertíðinni en veiðin hefur farið fram í færeysku lögsögunni. Sömu sögu er að segja af öðrum skipum sem landað hafa kolmunnaafla í fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og á Seyðisfirði. Eftirtalin skip lönduðu kolmunnaafla í fiskimjölsverksmiðjurnar á vertíðinni:

Beitir NK 18.749 tonn

Börkur NK 18.818 tonn

Bjarni Ólafsson AK 7.945 tonn

Vilhelm Þorsteinsson EA 7.735 tonn

Hákon EA 7.662 tonn

Norderveg (norskt skip) 2.405 tonn

                Að sögn Hjörvars Hjálmarssonar skipstjóra á Berki var nýliðin kolmunnavertíð afar góð. „Þessi vertíð var til dæmis mun betri en vertíðir síðustu ára. Segja má að vertíðin hafi gengið vel  frá því að veiðar hófust í apríl og þar til þeim lauk í síðustu viku. Dálítið var þó farið að tregast þegar við vorum í síðasta túr. Ég held að allir séu afar sáttir við þessa vertíð, hún var í raun hin fínasta,“ sagði Hjörvar.

Undirflokkar