Blængur NK úr fyrsta túr að loknum endurbótum

Löndun úr Blængi NK á Akureyri í gær. Ljósm. Bjarni Ólafur HjálmarssonLöndun úr Blængi NK á Akureyri í gær. Ljósm. Bjarni Ólafur HjálmarssonFrystitogarinn Blængur NK landaði í gær 10.000 kössum af frystum fiski á Akureyri en áður hafði skipið millilandað 1.100 kössum hinn 6. mars. Veiðiferðin hófst 22. febrúar og var hin fyrsta eftir gagngerar endurbætur á skipinu. Heimasíðan ræddi við Bjarna Ólaf Hjálmarsson skipstjóra og Theodór Haraldsson stýrimann og spurði hvernig túrinn hefði gengið. Þeir sögðu að hann hefði gengið vel og fyrir lægi unnt væri að ná afbragðs árangri á skipinu hvað varðaði veiði. Byrjað var að fiska á Austfjarðamiðum og síðan haldið norður fyrir land og þaðan vestur á Hala. Á Halanum var fín ufsaveiði. Þaðan var haldið suður fyrir land í karfa og þar fékkst góður afli á tveimur sólarhringum. Aflinn í veiðiferðinni var um 450 tonn upp úr sjó og var uppistaða hans ufsi og karfi. Sögðu þeir Bjarni Ólafur og Theodór að unnt hefði verið að fiska mun meira, en eðlilega hefði þurft að lagfæra ýmislegt á vinnsludekkinu og afköstin þar ekki alltaf verið upp á það besta. Nánast hvern einasta dag hafi skipið verið látið reka á meðan aflinn var unninn.

Sögðu þeir félagar að vandamálunum á millidekkinu hefði stórlega fækkað í veiðiferðinni. Fyrst var farið inn til Neskaupstaðar og nokkrar lagfæringar gerðar og eins var ýmislegt lagfært á Akureyri þegar þar var millilandað. Á millidekkinu er mikill og flókinn búnaður sem tekur tíma til að fá að virka eins og menn vilja. Þessa dagana eru starfsmenn Slippsins á Akureyri að sníða síðustu vankantana af búnaðinum og eins er þar Norðmaður sem vinnur við að forrita nýja plastbrettavefju sem er um borð. Þegar vefjan verður komin í gagnið verður hvert bretti plastað á millidekkinu áður en það fer niður í frystilestina.

Þeir Bjarni Ólafur og Theodór sögðu að áhöfninni litist mjög vel á vinnsludekkið og menn hefðu tröllatrú á því að afköst yrðu þar góð í framtíðinni þegar reynslu hefði verið aflað og einstaka agnúar sniðnir af. Þá sögðu þeir einnig að skipið væri afar gott eftir endurbæturnar. Það væri öflugt til veiða og mjög gott sjóskip auk þess sem allur aðbúnaður um borð væri hinn ágætasti.

Rallinu lokið hjá Barða

Barði NK hefur lokið rallinu í ár. Ljósm. Smári GeirssonBarði NK hefur lokið rallinu í ár. Ljósm. Smári GeirssonBarði NK kom til hafnar í Neskaupstað aðfaranótt sunnudags og hafði þá lokið sínu hlutverki í hinu árlega ralli Hafrannsóknastofnunar. Barði hélt í rallið 28. febrúar og má segja að verkefni hans hafi gengið samkvæmt áætlun. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri segir að fyrri hluti rallsins hafi gengið einstaklega vel enda menn heppnir með veður. „Seinni hlutinn var heldur erfiðari en þá var veðrið óhagstæðara,“sagði Steinþór. „Þetta var fyrsta rallið á Barða en í áhöfninni eru þrælvanir rallkarlar því þeir voru áður á Bjarti NK sem fór í hvorki fleiri né færri en 26 röll,“ sagði Steinþór að lokum.

Barði mun halda til veiða á morgun. Í dag verða rallveiðarfærin frá Hafrannsóknastofnun tekin í land og síðan verða veiðarfæri skipsins sett um borð.

Fiskvinnslustöðin á Seyðisfirði að klæðast nýjum búningi

Fiskvinnslustöðin á Seyðisfirði í Síldarvinnslulitunum. Gullver NS liggur við bryggju. Ljósm. Ómar BogasonFiskvinnslustöðin á Seyðisfirði í Síldarvinnslulitunum. Gullver NS liggur við bryggju.
Ljósm. Ómar Bogason
Fiskvinnslustöðin á Seyðisfirði er að stórum hluta komin í Síldarvinnslulitina. Húsið var rautt að lit og farið að láta á sjá en nú er langt komið með að endurnýja klæðningu þess og þak auk þess sem unnið hefur verið að öðrum umbótum. Stöðin er að taka miklum stakkaskiptum, verður hin glæsilegasta og bæjarprýði. Framkvæmdir við húsið hófust síðastliðið sumar og eru nú langt komnar. Adolf Guðmundsson, rekstrarstjóri á Seyðisfirði, segir að það sé afar ánægjulegt að fiskvinnslustöðin sé að fá nýtt og betra útlit. Hún sé áberandi hús í bænum og útlit þess skipti miklu máli.
 
Myndina sem fylgir tók Ómar Bogason og sést blá fiskvinnslustöðin en framan við hana liggur togarinn Gullver sem hefur haldið sínum rauða lit.

Kolmunnaveiðar íslenskra skipa að hefjast

BO mars 2017 HEBjarni Ólafsson AK hélt til kolmunnaveiða í gær. Ljósm. Hákon ErnusonBjarni Ólafsson AK hélt til kolmunnaveiða frá Neskaupstað í gær og Börkur í nótt. Heimasíðan ræddi við Runólf Runólfsson skipstjóra á Bjarna Ólafssyni að því tilefni. „Jú, við erum að byrja á kolmunnanum og það verður ærið verkefni fyrir íslensk skip því kvótinn er stór. Það er æðislegt að hafa svona verkefni að lokinni góðri loðnuvertíð. Við munum koma við í Færeyjum og taka troll en síðan verður haldið á miðin vestur af Írlandi. Það er tveggja og hálfs sólahrings sigling á miðin, þetta eru 650 mílur. Íslensku skipin eru gjarnan að búa sig á þessar veiðar eða leggja af stað en Vilhelm Þorsteinsson EA er kominn á miðin. Þarna eru helst færeysk og rússnesk skip að veiðum núna. Mér skilst að veiðin hafi verið ágæt að undanförnu, dálítið köflótt en heilt yfir ágæt,“ sagði Runólfur.

Gert er ráð fyrir að Beitir NK haldi til kolmunnaveiða í kvöld.

Starfsmenn fiskvinnslustöðvarinnar á Seyðisfirði á íslenskunámskeiði

Nemendur og kennari íslenskunámskeiðsins á Seyðisfirði. Ólafía Þ. Stefánsdóttir kennari er fremst fyrir miðju.   Ljósm. Ómar BogasonNemendur og kennari íslenskunámskeiðsins á Seyðisfirði. Ólafía Þ. Stefánsdóttir kennari er fremst fyrir miðju. Ljósm. Ómar BogasonUm þessar mundir er erlendum starfsmönnum fiskvinnslustöðvar Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði boðið upp á íslenskunámskeið. Alls sækir 21 starfsmaður námskeiðið og eru þeir frá níu þjóðlöndum. Kennari á námskeiðinu er Ólafía Þ. Stefánsdóttir. Ólafía segir að hún hafi aldrei haft svona fjölbreyttan nemendahóp á námskeiði fyrr en námskeiðið lofi hins vegar góðu. „Nemendurnir eru hreint frábærir í alla staði og afar áhugasamir um að ná tökum á íslenskunni,“ sagði Ólafía. „Við förum hægt yfir námsefnið og notum tímann einnig til að fara í leiki og æfa nemendurna í að tala saman á íslensku. Þetta hristir hópinn saman og gerir allt námið skemmtilegra. Mér þætti tilhlýðilegt að nýta fjölbreytileikann í hópnum og efna til einhvers konar þjóðahátíðar í lok námskeiðsins og þá myndu nemendurnir kynna sitt heimaland. Við eigum nefnilega að nýta okkur þennan fjölbreytileika og fræðast líka af þeim. Ég hlakka svo sannarlega til að vinna áfram með hópnum og vona innilega að þau læri að bjarga sér á íslensku,“ sagði Ólafía að lokum.

Námskeiðið er alls 20 kennslustundir og mun því ljúka um mánaðamótin mars-apríl.

Lok loðnuvertíðar hjá Síldarvinnsluskipunum

Börkur NK að loðnuveiðum út af Skagafirði í gær. Ljósm. Sigurjón M. JónusonBörkur NK að loðnuveiðum út af Skagafirði í gær. Ljósm. Sigurjón M. JónusonSíldarvinnsluskipin hafa lokið veiðum á þessari loðnuvertíð og eru þau ýmist að landa, bíða löndunar eða á landleið úr síðasta túr. Beitir er að landa hrognaloðnu í Neskaupstað og Börkur býður þar löndunar með 1.800 tonn. Bjarni Ólafsson er á austurleið með hrognaloðnu af miðunum fyrir vestan.

Börkur lauk vertíðinni út af Skagafirði þar sem góður afli fékkst í gær. Haft var samband við Hálfdan Hálfdanarson skipstjóra og hann spurður hvort ekki væri óvenjulegt að ljúka veiðum á loðnuvertíð á þessum slóðum. „Jú, það má segja að það hafi komið á óvart. Þarna var mokveiði í gær. Við köstuðum sex eða sjö sinnum og fengum upp í 800 tonn í kasti. Beitir var á austurleið og átti þarna leið hjá og þá vorum við akkúrat að dæla. Við notuðum tækifærið og gáfum honum 200 tonn. Þetta er smærri loðna en fyrir vestan og hrognaþroskinn er ekki eins langt kominn. Þroskinn er kannski 18-20% og þessi loðna á talsvert eftir í hrygningu. Annars hefur vertíðin gengið vel – góð veður og góð veiði. Það var ekkert sjálfgefið að ná þessum kvóta á svona stuttum tíma en það tókst og allir eru ánægðir,“ sagði Hálfdan.

Beitir NK dælir loðnu úr nót Barkar NK í gær. Ljósm. Sigurjón M. JónusonBeitir NK dælir loðnu úr nót Barkar NK í gær. Ljósm. Sigurjón M. Jónuson

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Loðnusjómenn alsælir með vertíðina

 Börkur NK. Ljósm. Hákon Ernuson Börkur NK. Ljósm. Hákon ErnusonNú er farið að sjá fyrir endann á yfirstandandi loðnuvertíð og í tilefni af því hafði heimasíðan samband við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra á Berki NK og spurði hvað hann vildi segja um vertíðina. Börkur NK er væntanlegur til Neskaupstaðar með fullfermi af hrognaloðnu í dag og er þetta fyrsti túrinn á vertíðinni sem Hjörvar er ekki með skipið. Hjörvar er afar ánægður með vertíðina og segir að loðnusjómenn séu almennt alsælir með hana. „Á vertíðinni hefur verið mikið af loðnu og einstök veðurblíða og er óvenjulegt að veður haldist svona gott á þessum árstíma. Alla vertíðina hafa menn helst þurft að passa sig á að fá ekki of mikinn afla í kasti. Það hefur gengið misjafnlega og hafa mörg skip lent í veiðarfæratjóni. Segja má að þetta sé lúxusvandamál og mörg dæmi eru um gríðarstór köst á vertíðinni, jafnvel stærri köst en áður hefur heyrst um. Elstu menn í flotanum telja þessa vertíð vera á borð við þær bestu hvað loðnumagnið varðar,“ sagði Hjörvar.

Þegar Hjörvar er spurður að því hvort ekki hafi komið á óvart hve mikið hafi verið af loðnu segir hann að ýmsar fréttir hafi bent til mikillar loðnugengdar þó fræðimenn hafi verið svartsýnir. „Ég held að fræðimennirnir viti afskaplega lítið um loðnuna og auðvitað háir það þeim hve litlu fjármagni er varið til rannsókna. Við höfðum heyrt frá togurum að mjög mikið væri af loðnu sunnarlega í Grænlandskantinum en þar var ekkert leitað. Það var einungis leitað norðar. Og blessaðir fræðimennirnir tala ávallt þannig að þegar þeir hafa farið yfir takmarkað hafsvæði þá hafi þeir séð alla fiska í sjónum. Þetta er ekki svona. Stundum sést mikið af fiski á tilteknu svæði en næsta dag sést ekki neitt. Það þýðir ekki að allur fiskurinn sem sást þarna í gær sé dauður. Menn verða að taka rannsóknir af þessu tagi til alvarlegrar endurskoðunar og það er dapurlegt að útgerðin hafi þurft að kosta rannsóknaleiðangurinn í febrúar sem leiddi til þeirrar glæsivertíðar sem nú er langt komin,“ sagði Hjörvar að lokum.

Barði NK hálfnaður í rallinu

Barði NK er hálfnaður í rallinu. Ljósm. Hákon ErnusonBarði NK er hálfnaður í rallinu. Ljósm. Hákon ErnusonBarði NK kom til Neskaupstaðar í dag en skipið er nú hálfnað í ralli Hafrannsóknastofnunar. Haldið var í rallið hinn 28. febrúar sl. og er Barða ætlað að toga á 182 fyrirfram ákveðnum togstöðvum á svonefndu norðaustursvæði. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri segir að rallið hafi gengið einstaklega vel til þessa. „Það er búin að vera rennandi blíða allan tímann og ekkert sem hefur tafið okkur. Þetta hefur því gengið eins og best er á kosið. Nú munum við landa í Neskaupstað og fara síðan út aftur annað kvöld og taka seinni hluta rallsins. Við erum búnir fyrir norðan land en eigum eftir Digranesflakið og suður að Gerpistotu og þaðan höldum við síðan á Þórsbanka og Verkamannabanka og út að miðlínu,“ sagði Steinþór.

Fyrsta veiðiferð Blængs NK eftir endurbætur og breytingar

Blængur NK. Ljósm. Hákon ErnusonBlængur NK. Ljósm. Hákon ErnusonBlængur NK hefur verið um 12 daga að veiðum í fyrstu veiðiferð eftir gagngerar breytingar á skipinu í Póllandi og á Akureyri. Skipið kom til Akureyrar í gærmorgun og landaði einum gámi af þorski auk þess sem þar var unnið að nokkrum lagfæringum og breytingum á vinnsludekki. Haft var samband við Bjarna Ólaf Hjálmarsson skipstjóra og hann spurður hvernig veiðiferðin hefði gengið. „Þessi veiðiferð er fyrst og fremst hugsuð til að prófa allan búnað um borð. Veiðarfæri og veiðibúnaður allur hefur reynst vel og skipið einnig, en það hefur þurft að vinna að ýmsum breytingum á vinnsludekkinu eins og reyndar allir áttu von á. Sérhver lagfæring á búnaði á vinnsludekki hefur skilað sér og þar hefur allt gengið betur dag frá degi. Við höfum að undanförnu verið að veiðum úti fyrir Norðurlandi og þar hefur mokveiðst af ufsa og þorski. Við höfum togað stutt á hverjum sólarhring og síðan látið reka á meðan aflinn er unninn. Ég reikna með að við verðum viku til viðbótar í þessum fyrsta túr eftir breytingar á skipinu,“ sagði Bjarni Ólafur.

Samfelld vinnsla á loðnuhrognum í Neskaupstað og Helguvík

Það er mikið að gera í hrognavinnslu hjá Síldarvinnslunni þessa dagana. Ljósm. Hákon ErnusonÞað er mikið að gera í hrognavinnslu hjá Síldarvinnslunni þessa dagana. Ljósm. Hákon ErnusonÞessa dagana er samfelld hrognavinnsla í Neskaupstað og Helguvík. Í Neskaupstað var lokið við að kreista hrogn úr Berki NK í gær og nú er verið að kreista úr Margréti EA. Síðar í dag hefst löndun úr Hákoni EA og á eftir honum kemur Beitir NK sem nú er á austurleið með 2.600 tonn. Í Helguvík var klárað að kreista úr Vilhelm Þorsteinssyni EA í nótt og nú er Polar Amaroq að landa þar hrognaloðnu.

Öll áhersla er lögð á hrognavinnsluna um þessar mundir og því hefur engri loðnu verið landað í fiskimjölsverksmiðjuna á Seyðisfirði síðustu daga. Alls hafa um 13.560 tonn borist til verksmiðjunnar og er lokið við að vinna hráefnið.

Áframhaldandi mokveiði er á loðnumiðunum en nú eru skipin að veiðum norðan við Snæfellsnes.

 

Hrognafrysting hafin í Neskaupstað

Það gengur vel að kreista loðnu í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonÞað gengur vel að kreista loðnu í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonÍ gær voru unnin hrogn úr Beiti NK í Neskaupstað og eru það fyrstu hrognin sem þar eru unnin á vertíðinni. Hluti af farmi skipsins var kreistur en hrognin voru á mörkum þess að vera nægilega þroskuð til vinnslu. Vel gekk að kreista og frysta og var allt tilbúið til að vinna hrogn úr farmi Bjarna Ólafssonar AK sem var næstur til löndunar. Hrognin úr farmi Bjarna eru betur þroskuð og ríkir mikið annríki hjá þeim sem starfa við vinnsluna. Fulltrúar japanskra kaupenda loðnuhrogna fylgjast grannt með framleiðslunni.

Nú er Börkur NK á austurleið með fullfermi af hrognaloðnu og er hann væntanlegur til Neskaupstaðar í kvöld.

 

 

Aflinn í mettúr Beitis reyndist vera 3.120 tonn

Beitir NK

Landað úr Beiti NK í gær. Ljósm: Hákon Ernuson

                Löndun úr Beiti NK lauk í Neskaupstað klukkan þrjú í nótt. Greint hafði verið frá því að afli skipsins væri rúmlega 3.000 tonn og um væri að ræða mettúr loðnuveiðiskips, en hann reyndist vera 3.120 tonn. Hluti aflans fór til hrognavinnslu en öðru var landað til vinnslu hjá fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar. Tómas Kárason skipstjóri sagði að það kæmi sér ekki á óvart hvað hefði komið upp úr skipinu og aflinn væri nálægt því sem gefið hefði verið upp fyrir löndun. „Þetta var virkilega flott því það er ekkert gefið að fá góða vigt á þessum tíma meðal annars vegna hrognanna í aflanum. Við á Beiti erum ánægðir með þessa fínu veiðiferð og ég hef ekki heyrt um meiri loðnuafla í veiðiferð hjá nokkru skipi. Víst er að ekkert íslenskt skip hefur þessa burðargetu og færeysk og norsk loðnuskip ekki heldur. Nú er bara að klára vertíðina með stæl en það er ekki mikið eftir af kvóta hjá okkur, kannski tveir fullfermistúrar eða svo,“ sagði Tómas. 

Hrognavinnsla hafin í Helguvík

Hrognin eru að koma!  Myndin er tekin í Saltveri í dag. Ljósm. Guðjón Helgi ÞorsteinssonHrognin eru að koma! Myndin er tekin í Saltveri í dag. Ljósm. Guðjón Helgi ÞorsteinssonBörkur NK kom með 700 tonn af loðnu til Helguvíkur í gær og hófst þá hrognakreisting. Það er síðan Saltver ehf í Reykjanesbæ sem annast pökkun og frystingu hrognanna. Kreistingin gekk vel og mun frysting hefjast í dag.

Eggert Ólafur Einarsson, verksmiðjustjóri í Helguvík, sagði að vinnsla í fiskimjölsverksmiðjunni gengi vel en nú hefur verið tekið á móti 5.000 tonnum þar. „Það eru stífir dagar framundan eins og ávallt á meðan á hrognatöku stendur,“ sagði Eggert.

Vilhelm Þorsteinsson EA er væntanlegur til Helguvíkur í dag með 2.000 tonn sem væntanlega verða kreist. Þá er Bjarni Ólafsson AK á leið til Neskaupstaðar með fullfermi af hrognaloðnu. Polar Amaroq er að landa fullfermi á Seyðisfirði og Beitir NK er að landa í Neskaupstað.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Beitir fékk rúmlega 3.000 tonn á 13 tímum – stærsti loðnufarmurinn

Beitir NK. Ljósm. Smári GeirssonBeitir NK. Ljósm. Smári GeirssonBeitir NK fyllti sig á loðnumiðunum í nótt og er á leið til Neskaupstaðar með rúmlega 3.000 tonn. Líklega er þetta stærsti loðnufarmur sem skip hefur borið að landi. Heimasíðan hafði samband við Tómas Kárason skipstjóra í morgun en þá var Beitir staddur út af Pétursey. Tómas sagði að Beitir kæmi til Neskaupstaðar upp úr miðnætti og þá yrði kannað hvort unnt yrði að vinna hrogn úr farminum. „Við fengum þennan afla í fjórum köstum á Grindavíkurleirnum og það tók okkur 13 tíma að fylla skipið. Það er mjög mikið af loðnu að sjá og ég hef aldrei tekið þátt í svona loðnuveiði. Svo er loðnan líka svo stór og falleg,“ sagði Tómas.

Ef farið er 20 ár aftur í tímann má sjá að þessi farmur Beitis jafngildir fullfermisförmum fimm minnstu loðnuskipanna sem þá voru í viðskiptum við Síldarvinnsluna. Ef hins vegar er farið 10 ár aftur í tímann jafngildir Beitisfarmurinn fullfermisförmum þriggja minnstu viðskiptaskipanna. Má á þessu sjá hver þróun loðnuflotans hefur verið síðustu áratugi.

Frábærar öskudagsheimsóknir

Frábærar öskudagsheimsóknirHver syngjandi hópurinn á fætur öðrum hefur heimsótt skrifstofur Síldarvinnslunnar í dag og eru krakkarnir klæddir hinum skrautlegustu búningum í tilefni öskudagsins. Kennarar Nesskóla hafa fylgt mörgum hópanna og virtust margir þeirra hafa æft söngvana samviskusamlega. Fyrir heimsóknina og sönginn þáði unga fólkið harðfisk og buff að gjöf enda vart annað viðeigandi en að sjávarútvegsfyrirtæki gefi sælgæti úr hafinu.

Það er hressandi og upplífgandi að fá heimsóknir sem þessar og starfsfólk skrifstofunnar naut þeirra til hins ítrasta. Síðar í dag munu krakkarnir fara á öskudagsball í íþróttahúsinu þar sem kötturinn verður sleginn úr tunnunni.

Á myndunum, sem Hákon Ernuson tók, má sjá káta krakka sem heimsóttu skrifstofurnar í dag. 

Frábærar öskudagsheimsóknir

Frábærar öskudagsheimsóknir

 

Barði í rallið í kvöld

 Valur Bogason leiðangursstjóri og Steinþór Hálfdanarson skipstjóri. Ljósm. Smári Geirsson Valur Bogason leiðangursstjóri og Steinþór Hálfdanarson skipstjóri. Ljósm. Smári GeirssonBarði NK mun hefja þátttöku sína í hinu árlega togararalli í kvöld. Togararall á vegum Hafrannsóknastofnunar hefur farið fram frá árinu 1985 og er það þáttur í að meta stofnstærð botnfiska við landið. Að þessu sinni munu rannsóknaskipin Bjarni Sæmundsson og Árni Friðriksson einnig taka þátt í rallinu ásamt Ljósafelli frá Fáskrúðsfirði. Barði er í reynd arftaki Bjarts NK í rallinu en Bjartur tók þátt í 26 röllum, oftar en nokkurt annað skip. Nú er Bjartur horfinn á braut og þá er röðin komin að Barða, en Hafrannsóknastofnun leitaði eftir tilboðum til þátttöku skipa í rallinu.

Í morgun var verið að undirbúa Barða fyrir rallið og hitti þá tíðindamaður heimasíðunnar Steinþór Hálfdanarson skipstjóra að máli. „Við munum leggja af stað í kvöld og gerum ráð fyrir að rallið taki um 20 daga, en það er töluvert háð tíðarfarinu hve langan tíma það tekur. Við eigum að toga á 182 fyrirfram ákveðnum togstöðvum á svonefndu norðaustursvæði, en það er svæðið frá Kolbeinseyjarhrygg austur og suður um að Íslands-Færeyjahrygg. Við reiknum með að byrja hér út af Austfjörðum og halda síðan norðureftir. Við áformum að taka rallið í tvennu lagi og eins gerum við ráð fyrir að landa þeim afla sem við fáum eftir þörfum. Öll veiðarfæri sem notuð eru í rallinu koma frá Hafró og eins þarf að gera dálitlar breytingar á millidekki og koma þar upp vinnuaðstöðu fyrir rannsóknafólkið. Við verðum 13 í áhöfn í rallinu og síðan verða fimm starfsmenn Hafró um borð. Leiðangursstjóri verður Valur Bogason. Hvert tog sem tekið verður er klukkutími að lengd og reynslan sýnir að unnt er að taka 10-11 tog á dag að meðaltali,“ sagði Steinþór skipstjóri.

Fyrsta loðnan til Helguvíkur

Hákon EA kom með fyrstu loðnuna til Helguvíkur aðfaranótt laugardags. Ljósm. Eggert Ólafur EinarssonHákon EA kom með fyrstu loðnuna til Helguvíkur aðfaranótt laugardags.
Ljósm. Eggert Ólafur Einarsson
Aðfaranótt laugardags barst fyrsta loðnan á vertíðinni til fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Helguvík. Það var Hákon EA sem þá landaði 630 tonnum. Polar Amaroq kom síðan til Helguvíkur í morgun með 2.500 tonn og er verið að landa úr honum. Eggert Ólafur Einarsson verksmiðjustjóri var glaður í bragði þegar heimasíðan sló á þráðinn til hans í morgun og sagði hann að verksmiðjan hefði verið gangsett í gærmorgun. „Við erum afskaplega glaðir þegar við fáum fyrsta farminn og hefjum vinnslu. Á loðnuvertíðinni í fyrra fengum við einungis um 3.300 tonn en um 30.000 tonn árið 2015. Hér eru menn bjartsýnir og trúa því að kvótinn náist ef veður helst þokkalegt. Við vorum ekki bjartsýnir í janúar þegar allt benti til að engin loðnuvertíð yrði en nú er það breytt. Þetta er semsagt vertíðin sem aldrei átti að koma og því geta menn ekki annað en verið glaðir,“ sagði Eggert.

Beitir NK fékk um 550 tonn af loðnu á Norðfjarðarflóa í gær

Beitir NK fékk um 550 tonn af loðnu á Norðfjarðarflóa í gær
Þegar Beitir NK var á útleið að lokinni löndun í Neskaupstað í gær rakst hann á myndarlegar loðnulóðningar á Norðfjarðarflóanum. Nokkur bræla var þegar þetta gerðist en ákveðið var að bíða þar til veðrið gengi niður og freita þess að kasta. Tómas Kárason skipstjóri sagði að þetta hefði litið vel út og mönnum hefði þótt spennandi að fá loðnufarm í kartöflugarðinum heima hjá sér. „Þetta voru töluverðar lóðningar og synd að geta ekki kastað strax. Þegar veðrið gekk niður var megnið af loðnunni gengið upp á grynningarnar norður úr Norðfjarðarhorni þannig að við gátum bara kastað á lítinn hluta af þessu og síðan á smærri torfur í flóanum. Við köstuðum fjórum sinnum, fengum 370 tonn í fyrsta kasti en mun minna í hinum þremur. Alls fengum við þarna um 550 tonn og komum inn til löndunar fyrir miðnætti,“ sagði Tómas. „Ég hef aldrei heyrt um að kastað hafi verið á loðnu svona innarlega á flóanum. Norskt skip kastaði á loðnu í mynni flóans fyrr í þessum mánuði og fékk 70 tonn, en við vorum langt inni á flóa,“ sagði Tómas að lokum.
 
Jón Már Jónsson, framkvæmdastjóri landvinnslu hjá Síldarvinnslunni, sagði að loðnan sem Beitir kom með hafi hentað vel til frystingar og ferskara hráefni væri vart hægt að hugsa sér. Loðnan væri heldur smærri en sú sem fæst suður af landinu, en hún væri að öðru leyti ágæt, átulaus og hrognafyllingin 22%. Strax og Beitir kom að landi hófst löndun á aflanum og er hann frystur á Japan.
 
Af öðrum loðnuskipum Síldarvinnslunnar er það að frétta að Börkur NK fyllti í gærkvöldi og er á leið til Seyðisfjarðar með um 2.500 tonn. Bjarni Ólafsson AK er síðan  á leið til Neskaupstaðar með rúmlega 1.600 tonn sem hann fékk út af Alviðru. 
 
Myndirnar með fréttinni tók Ísak Fannar Sigurðsson.
 
Beitir NK fékk um 550 tonn af loðnu á Norðfjarðarflóa í gær
 
Beitir NK fékk um 550 tonn af loðnu á Norðfjarðarflóa í gær
 
 
 

Hörkufiskirí hjá Eyjunum

Vestmannaey VE heldur til veiða. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonVestmannaey VE heldur til veiða. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonVestmannaey VE og Bergey VE hafa fiskað afar vel frá því að verkfalli lauk. Vestmannaey er komin með um 160 tonn í þremur veiðiferðum og Bergey 105 tonn í tveimur. Helmingur afla skipanna er þorskur en hinn helmingurinn er blanda af ýsu, karfa og ufsa. Heimasíðan sló á þráðinn til Birgis Þórs Sverrissonar, skipstjóra á Vestmannaey, og spurðist fyrir um fiskiríið. „Við erum búnir að fara þrjá túra og höfum aflað afar vel. Það tók 30 tíma að fá í fullan bátinn í fyrsta túrnum og 36 tíma í öðrum. Við vorum síðan kallaðir inn í þriðja túr en vorum þá komnir með eitthvað í kringum 30 tonn á 12 tímum. Við erum að fá þetta við bæjardyrnar, erum 1 til 1 ½ tíma frá Eyjum á miðin. Þetta er fallegur og góður fiskur sem veiðist núna. Hann kemur á þetta svæði til hrygningar um þetta leyti en er þó óvenju snemma á ferðinni í ár. Þetta er hefðbundinn göngufiskur sem verður væntanlega á þessum slóðum fram í maí. Vissulega er þessi veiði óvenju öflug miðað við árstíma en við erum í góðum málum og reyndar alsælir. Það er svo sannarlega gott að fá að taka aðeins á því,“ sagði Birgir.
 
Aflinn af Vestmannaey og Bergey fer að hluta til á markað í Bretlandi og Þýskalandi en eins fer hann til vinnslu víða innanlands.

Loðnan er óvenju stór og vel á sig komin

Líneik Haraldsdóttir og Takaho Kusayanagi, sem að öllu jöfnu er kallaður Kusa, að gæðameta loðnu. Japanskir kaupendur eru afar ánægðir með þá loðnu sem nú veiðist. Ljósm. Hákon ErnusonLíneik Haraldsdóttir og Takaho Kusayanagi, sem að öllu jöfnu er kallaður Kusa, að gæðameta loðnu. Japanskir kaupendur eru afar ánægðir með þá loðnu sem nú veiðist. Ljósm. Hákon ErnusonLoðnan sem veiðist um þessar mundir er óvenju stór og falleg og vel á sig komin. Slík loðna hefur ekki sést lengi og ástand hennar hefur svo sannarlega þaggað niður þá svartsýnisumræðu um loðnustofninn sem hefur verið áberandi um skeið. Hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað hefur vinnsla á loðnu til manneldis verið samfelld frá því að veiðar hófust. Skipin koma með kælda loðnuna að landi og unnið er á vöktum við flokkun, pökkun og frystingu á henni. Frosinni loðnunni er síðan staflað upp í frystigeymslum og innan tíðar mun henni verða skipað út. Stærstur hluti loðnunnar er frystur á Japansmarkað og japanskir fulltrúar kaupenda fylgjast grannt með framleiðslunni. Það sem flokkast frá við frystinguna fer síðan til vinnslu hjá fiskimjölsverksmiðjunni. Gera má ráð fyrir að vinnsla á loðnuhrognum hefjist fljótlega en góð eftirspurn er eftir þeim og litlar hrognabirgðir fyrirliggjandi.
 
Þó svo að megináherslan sé lögð á manneldisvinnsluna er svo knappur tími til að ná loðnukvótanum að gera má ráð fyrir að verulegur hluti aflans fari beint til vinnslu á fiskimjöli og lýsi.   

Undirflokkar