Tæknidagur fjölskyldunnar

Frá sýningarsvæði Síldarvinnslunnar á tæknideginum í fyrra. Ljósm. Smári Geirsson  Frá sýningarsvæði Síldarvinnslunnar á tæknideginum í fyrra. Ljósm. Smári Geirsson Tæknidagur fjölskyldunnar verður haldinn í Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað laugardaginn 15. október. Auk Verkmenntaskólans stendur Austurbrú fyrir deginum sem nú er haldinn í fjórða sinn. Dagskráin hefst kl. 12.00 og lýkur kl. 16.00 og er aðgangur ókeypis. Dagurinn er helgaður tækni, vísindum og nýsköpun og hefur verið afar vel sóttur frá upphafi.
 
Eins og áður mun mikill fjöldi fyrirtækja og stofnana kynna starfsemi sína á tæknideginum og verður kappkostað að höfða til allra aldurshópa. Síldarvinnslan mun að sjálfsögðu taka fullan þátt og leggja áherslu á að gestir geti fengið góða innsýn í starfsemi fyrirtækisins.
 
Boðið verður upp á margt forvitnilegt á tæknideginum að þessu sinni. Hægt verður að fá að kynnast þyrluflugi í gegnum sýndarveruleikagleraugu, rafmagnsframleiðslu með vindmyllum, hrálýsi úr loðnu, landmótun í sandkassa, eldsmíði að gömlum sið og mörgu fleiru. Ævar vísindamaður verður á staðnum og mun hann leiða börnin inn í töfraheim vísindanna. Þá mun verða gerð forvitnileg tilraun til að ganga á vatni svo eitthvað sé nefnt.
 
Verkmenntaskóli Austurlands mun einnig fagna þrjátíu ára afmæli sínu á tæknideginum en skólinn tók til starfa í ársbyrjun 1986. 
 
Það verður enginn svikinn af því að koma á tæknidaginn og njóta þess sem þar verður boðið upp á.

Barði NK úr fyrsta ísfisktúrnum

Barði NK  Ljósm. Hákon ErnusonBarði NK Ljósm. Hákon ErnusonBarði NK kom til Neskaupstaðar í morgun úr sínum fyrsta ísfisktúr, en áður hefur Síldarvinnslan gert hann út sem frystitogara. Áhöfnin á ísfisktogaranum Bjarti NK, sem nýlega var seldur, fór yfir á Barða en áhöfnin sem var á Barða fer yfir á frystitogarann Blæng.  Afli Barða í þessum fyrsta túr var 80 tonn og var uppistaða hans þorskur en dálítið var af ufsa og karfa. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri sagði að þessi veiðiferð hefði í reynd gengið vel. „Þarna var ný áhöfn á skipinu og hún þarf að sjálfsögðu að venjast því. Þá var verið að prufukeyra nýja ísfisklínu á millidekkinu og eins og vænta mátti kom ýmislegt í ljós sem þarf að lagfæra. Í þessum fyrsta túr vorum við mest á Fætinum og á Breiðdalsgrunni en lentum reyndar vestur í Lónsdýpi og í Berufjarðarál,“ sagði Steinþór.

Til þess eru vítin að varast þau

Myndatexti

Dæmi eru um stórskaðleg áhrif af úthlutun aflaheimilda með uppboðsleið án þess að sú reynsla skili sér í einlita umræðu um málið hér á landi. Tilraunir Rússa og Eista eru víti til varnaðar.

Hér hefur verið kallað eftir uppboðsleið til að auka hlut samfélagsins í svonefndri auðlindarentu. Vitnað er til tilrauna Færeyinga, sem boðið hafa upp lítinn hluta heimilda úr deilistofnum. Minna fer fyrir því að vitnað sé til skrifa fræðimanna og tilrauna annarra þjóða. Þá hefur samfélagslegum áhrifum uppboðsleiðar lítill gaumur verið gefinn. Sjávarútvegsfyrirtæki eru víða meginstoðir atvinnulífs og starfsmenn drjúgur hluti íbúa.

Horfið var frá uppboðsleið í Eistlandi og Rússlandi eftir tilraunir með slíkt 2001 til 2003. Í Eistlandi, þar sem boðin voru upp 10% heimilda, var kerfið talið hafa leitt til sóunar á auðlindinni, gjaldþrota smærri fyrirtækja og stórminnkandi starfs­öryggis sjómanna.

Rússar buðu upp aflaheimildir í Austur-Rússlandi og í Barentshafi og þótt ekki hafi allur kvóti selst fékkst fyrir hann mun hærra verð en ráð hafði verið fyrir gert. Ríkið fékk í sinn hlut sem svarar 20,3 milljörðum króna 2001, 29,6 milljörðum 2002 og 38,6 milljörðum 2003. Voru þá ekki allir sáttir ?

Sex milljarða króna hagnaður af sjávarútvegi í austurhluta Rússlands árið 2000 snerist í sex milljarða tap árið eftir. Fljótlega kom að því að 90% sjávarútvegsfyrirtækja á svæðinu voru sögð illa stödd fjárhagslega og tekjur sveitarfélaga skertust. Eftir upptöku uppboðsleiðarinnar runnu 96% af skatttekjum af sjávarútvegi til ríkisins en 4% til sveitarfélaga, í stað 34% áður.

Fyrirtækjunum reyndist erfitt að áætla kvótakaup vegna meðafla og keyptu sum kvóta sem ekki veiddist. Árið 2001 veiddust ekki 77 þúsund tonn af heimildum sem seldar voru á uppboði. Þá eru vísbendingar um stóraukið brottkast. Skyndilega veiddist nær enginn smáufsi, heldur bara af stærð sem best hentaði til vinnslu. Talið er að framhjáland­anir og ólöglegar veiðar í Austur-Rússlandi hafi numið um 120 milljörðum króna 2001 til 2003.

Sumarið 2003 hættu Rússar að bjóða upp aflaheimildir á svæðinu og hurfu aftur til kerfis sem byggði á veiðireynslu. Veiðigjöld runnu að 80% til ríkisins og 20% til sveitarfélaga.

Hér hlýtur reynsla Rússa og Eista að skipta máli. Vert er að hugleiða hvort ekki séu líkur á að í uppboðskerfi standi smærri og meðalstór sjávarútvegsfyrirtæki höllum fæti gagnvart þeim stærstu, hvort samkeppni um kvóta leiði ekki til skaðlegrar verðbólu og hvort ávinningur til lengri tíma verði hverfandi þótt tekjur ríkisins kunni að aukast í fyrstu. Eins þarf að hugleiða hvort starfsöryggi fólks í sjávarútvegi verði ógnað og hvort óvissa aukist um tekjur sveitarfélaga og hvort fyrirséð séu áhrif á langtímafjárfestingu og áætlanagerð í sjávarútvegi.

Sjávarbyggðir byggja tilveru sína á aflaheimildum. Spyrja má hvort rétt sé, sanngjarnt eða skynsamlegt að setja tilverugrundvöll byggðarlaga á uppboðsmarkað. Ef vilji er til að auka tekjur ríkisins af greininni eru til aðrar leiðir en uppboðsleiðin. Hætturnar sem henni fylgja virðast einfaldlega of margar og miklar.

 - Sigurður Steinn Einarsson

Til að lesa nánar um þetta efni er hægt að smella hér

 

 

Enn einn risamakríllinn og sá stærsti

Nýi risamakríllinn vigtaður í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Ljósm: Eyðun SímonsenNýi risamakríllinn vigtaður í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Ljósm: Eyðun SímonsenHinn 20. september sl. var greint frá því að í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað hafi komið makríll sem var óvenju stór og reyndar sá stærsti sem starfsfólk hafði augum litið. Þegar fiskurinn var vigtaður kom í ljós að hann var 1285 gr. Tíu dögum síðar bárust þær fréttir að Vilhelm Þorsteinsson EA hefði fengið makríl sem var enn stærri og þyngri. Reyndist hann vera 1302 gr.
 
Og enn er metið slegið. Þegar landað var úr Berki NK sl. föstudag kom á land makríll sem var hvorki meira né minna en 1370 gr. að þyngd og stærri og pattarlegri en fyrri metfiskar. Eyðun Simonsen verkstjóri í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar sagði að allir þessir fiskar þættu vera gríðarstórir af þessari tegund og hann hefði ekki heyrt um stærri fiska sem veiðst hefðu hér við land. „Þessi er sá stærsti sem ég hef séð en kannski eiga fleiri enn stærri eftir að koma í ljós síðar, hver veit ?,“ sagði Eyðun.

Gengur vel að veiða síldina

Vinnsla á síld í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Ljósm. Hákon ErnusonVinnsla á síld í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Ljósm. Hákon ErnusonStrax og Beitir NK lauk við að landa síðasta makrílfarminum í Neskaupstað hélt hann til síldveiða sl. föstudag og var kominn inn seint á laugardag með 1000 tonn af stórri og góðri síld. Tómas Kárason skipstjóri sagði í samtali við heimasíðuna að túrinn hefði gengið vel í alla staði. „Við fengum þessi 1000 tonn í fjórum holum og vorum að veiðum 20-30 mílur norðaustur af Norðfjarðarhorni. Það var nóg af síld að sjá á þessum slóðum og þannig er það oft um þetta leyti árs. Við héldum strax að löndun lokinni til veiða á ný en það virðist ætla að verða eitthvað rysjótt tíðin framundan. Vonandi verðum við þó búnir að ná góðum afla áður en brælir fyrir alvöru,“ sagði Tómas. 
 
Sömu sögu er að segja af Berki NK. Hann hélt til síldveiða að lokinni makríllöndun sl. laugardag og kom inn í gærkvöldi með um 1100 tonn af gæðasíld. Það er því unnið með fullum afköstum í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar og verður vonandi svo þar til þessum síldveiðum lýkur.

Síðasti makrílfarmur vertíðarinnar til vinnslu í fiskiðjuverinu

Börkur NK að landa makríl. Ljósm. Smári GeirssonBörkur NK að landa makríl. Ljósm. Smári GeirssonÍ gærkvöldi kom Börkur NK til Neskaupstaðar úr Smugunni með síðasta makrílfarminn sem unninn verður í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar á þessari vertíð. Afli skipsins var 915 tonn og segir Hálfdan Hálfdanarson skipstjóri að um sé að ræða ágætan fisk og sé meðalþyngd hans 400-430 grömm. Að auki sé fiskurinn átulaus og henti því afar vel til vinnslu. „Aflinn fékkst í fjórum holum austur undir norsku línunni og það var 400 mílna stím heim,“ sagði Hálfdan. Þegar Hálfdan var spurður út í vertíðina sagði hann: „Hún hefur að mestu gengið vel. Byrjunin var svolítið skrýtin en þá þurfti að sækja aflann vestur fyrir Vestmannaeyjar og í Faxaflóa en á móti kemur að fiskurinn virðist stoppa lengur við landið en áður og veiði hefur staðið yfir lengra fram á haustið. Í fyrra hófust veiðar fyrr og við á Síldarvinnsluskipunum vorum búnir með kvótann í byrjun september. Sjálfsagt eru göngur makrílsins að einhverju leyti breytilegar á milli ára en ljóst er að það var mikið magn af honum við landið í ár eins og mælingar sýndu,“ sagði Hálfdán að lokum.
 
Nú munu Síldarvinnsluskipin Börkur og Beitir snúa sér að veiðum á norsk-íslenskri síld.
 
Ekkert lát er á löndunum vinnsluskipa í Neskaupstað. Í dag er Hákon EA að landa 650 tonnum af frystum makríl og síld og síðastliðinn þriðjudag landaði Vilhelm Þorsteinsson EA 550 tonnum. Kristina EA landaði á laugardag og sunnudag 2340 tonnum og er það án efa stærsti farmur af frystum afurðum sem íslenskt fiskiskip hefur komið með að landi.

Barði NK á ísfisk

Barði NK. Ljósm. Hákon ErnusonBarði NK. Ljósm. Hákon ErnusonBarði NK hélt til Akureyrar í lok ágústmánaðar þar sem starfsmenn Slippsins hófu að fjarlægja úr honum vinnslubúnað á vinnsluþilfari og koma síðan fyrir búnaði til meðhöndlunar á ísfiski. Barða er ætlað að taka við hlutverki ísfisktogarans Bjarts sem seldur var til íransks fyrirtækis fyrir skömmu. Framkvæmdirnar um borð í Barða gengu samkvæmt áætlun og er hann væntanlegur til Neskaupstaðar í dag. Síðan er ráðgert að hann haldi til veiða á laugardaginn. Áhöfnin á Bjarti mun færast yfir á Barða en áhöfnin sem var á Barða mun færast yfir á frystitogarann Blæng. Blængur er nú á Akureyri þar sem starfsmenn Slippsins vinna við að koma fyrir í honum vinnslubúnaði á vinnsluþilfari.

Síldarvinnslan eykur eignarhlut sinn í Runólfi Hallfreðssyni ehf.

Bjarni Ólafsson AK. Ljósm. Smári GeirssonBjarni Ólafsson AK. Ljósm. Smári GeirssonSíldarvinnslan hefur aukið eignarhlut sinn í útgerðarfélaginu Runólfi Hallfreðssyni ehf. sem gerir út uppsjávarskipið Bjarna Ólafsson AK. Nú á Síldarvinnslan rúmlega 75% í félaginu en bræðurnir og skipstjórarnir Gísli og Runólfur Runólfssynir eiga tæplega 25%.
 
Stofnendur útgerðarfélagsins voru hjónin Runólfur Hallfreðsson og Ragnheiður Gísladóttir en þegar þau voru fallin frá áttu börn þeirra 62% í félaginu. Þrjú barnanna ákváðu að selja sína eignarhluta í félaginu nú í haust og festi Síldarvinnslan kaup á þeim, en Síldarvinnslan hefur átt 38% í félaginu frá árinu 2003 eða frá samrunanum við SR-mjöl. 
 
Gísli Runólfsson segir að ánægja ríki með þessi málalok. „Við höfum verið að vinna með Síldarvinnslunni um langt skeið og það samstarf hefur verið afar gott og farsælt. Við bræðurnir og áhöfnin á Bjarna Ólafssyni teljum að það hafi vart verið hægt að hugsa sér betri niðurstöðu. Þetta tryggir að Bjarni Ólafsson verði gerður út með líkum hætti og hefur verið og allt samstarf um útgerð hans hefur verið traust og til fyrirmyndar að mínu mati,“ sagði Gísli.

Beitir og Börkur ljúka makrílveiðum í Smugunni

Beitir NK. Ljósm. Hákon ErnusonBeitir NK. Ljósm. Hákon ErnusonBeitir NK hélt í Smuguna til makrílveiða sl. fimmtudagdag. Hann er væntanlegur til Neskaupstaðar í dag með 1200 tonn af makríl sem fengust í sex holum. Sturla Þórðarson skipstjóri sagði að lítið hefði fengist í tveimur fyrstu holunum en þá var keyrt 40 mílur í norður og þar reyndist vera gott lóð. Aflinn fékkst að mestu um 12 mílur frá norsku línunni og gekk makríllinn í norðaustur. Að sögn Sturlu er þetta þokkalegur fiskur, að meðaltali 420-430 grömm. Siglingin heim af miðunum er um 380 mílur.
Börkur NK lagði af stað í Smuguna í gær. Að loknum þessum veiðiferðum munu skipin snúa sér að síldveiðum.
 
Bjarni Ólafsson AK kom til Neskaupstaðar í morgun með 250 tonn af síld þannig að vinnsla er hafin í fiskiðjuverinu að loknu vel þegnu helgarfríi.

Risamakríll í Neskaupstað

Makríllinn stóri og myndalegiMakríllinn stóri og myndalegiÞegar verið var að landa síld og makríl í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar úr Beiti NK í gær kom á land makríll sem vakti óskipta athygli starfsfólksins. Makríllinn var sá stærsti sem það hafði augum litið og þegar hann var vigtaður reyndist hann 1285 grömm að þyngd. Jón Gunnar Sigurjónsson yfirverkstjóri í fiskiðjuverinu sagði að þessi makríll væri óvenju stór. „ Ég held að þetta sé stærsti makríll sem ég hef séð. Annað slagið koma fiskar sem vigta um 1000 grömm en það er mjög fátítt. Þessi fiskur sprengir með afgerandi hætti alla stærðarflokka. Stærsti flokkurinn er 600 grömm og stærri og á það venjulega við um 600-800 gramma fisk. Það má segja að þessi fiskur sé óvenju stór og myndarlegur,“ sagði Jón Gunnar.Vigtin sýndi 1.285 grVigtin sýndi 1.285 gr

Nú er síldin í aðalhlutverki

Norðfjarðarhöfn í morgun. Næst er Beitir NK að landa síld og makríl til vinnslu,þá sést flutningaskip sem er að lesta frystan makríl og fjærst er Hákon EA að landa frystum makríl. Ljósm. Hákon ErnusonNorðfjarðarhöfn í morgun. Næst er Beitir NK að landa síld og makríl til vinnslu,þá sést flutningaskip sem er að lesta
frystan makríl og fjærst er Hákon EA að landa frystum makríl. Ljósm. Hákon Ernuson
Síðustu dagana hafa makríl- og síldarskipin sem landa afla sínum í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar lagt meiri áherslu á síldveiðar en gert hefur verið fyrr á vertíðinni. Til þessa hefur yfirleitt öll áhersla verið lögð á að ná makrílkvótanum og síldin einungis verið meðafli. Beitir NK er nú að landa rúmlega 1100 tonnum til vinnslu í fiskiðjuverinu og þar af eru einungis 260 tonn makríll. Bjarni Ólafsson AK kom síðan til Neskaupstaðar í dag með 600 tonn og er ráðgert að hann hefji löndun í kvöld. Afli Bjarna er eingöngu síld. 
 
Gísli Runólfsson, skipstjóri á Bjarna Ólafssyni, sagði að aflinn hefði fengist í tveimur stuttum holum. „Við fengum þetta 15 mílur austur af Norðfjarðarhorni og þetta er falleg síld af stærstu gerð. Það var mikið af síld að sjá á þessu svæði og hún virðist reyndar vera alveg upp í landsteinum. Við fórum til dæmis yfir góða torfu þegar við áttum tvær mílur í Hornið. Það er víða líflegt og við fréttum í morgun að það væri mikil makrílveiði úti í Smugu,“ sagði Gísli.
 

Afar góð makrílveiði

Borkur og Bjarni

Fjær liggur Bjarni Ólafsson AK sem verið er að landa úr. Börkur NK bíður löndunar. Ljósm: Smári Geirsson

                Lokið var við að landa 500 tonnum af makríl úr Beiti NK í Neskaupstað í gær. Allur aflinn fór til vinnslu í fiskiðjuverinu en makrílinn var töluvert síldarblandaður. Í kjölfar Beitis hófst löndun úr Bjarna Ólafssyni AK en hann er með 600 tonn. Börkur NK kom síðan til hafnar í nótt með 840 tonn. Heimasíðan ræddi við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra á Berki og spurði hvar aflinn hefði fengist. „Við fengum aflann í fjórum holum í kantinum utan við Gerpistotu, um 50 mílur út af Gerpi. Þetta er góður makríll og það var mikið að sjá í gær. Fiskurinn er um 460 gr. að meðaltali. Makríllinn gengur í norður og fer hratt. Öll skip á miðunum fengu góðan afla í gær en fyrir þessa hrotu hafði ekki verið mikið að hafa um tíma. Aflinn hjá okkur er ekkert síldarblandaður enda toguðum við yfir daginn og þá heldur síldin sig niðri,“ sagði Hjörvar.

Tveir „Big Mama“ – frystiskápar settir upp í fiskiðjuverinu í Neskaupstað

Unnið að uppsetningu „Big Mama“ – frystiskápanna í  fiskiðjuverinu. Ljósm: Hákon ErnusonUnnið að uppsetningu „Big Mama“ – frystiskápanna í fiskiðjuverinu. Ljósm: Hákon ErnusonÞessa dagana eru unnið hörðum höndum við að setja upp tvo stóra frystiskápa í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Er tilkoma skápanna liður í því að auka afköst fiskiðjuversins. Hér er um að ræða svonefnda kassafrysta en þeir eru stærri en þeir fjórir kassafrystar sem fyrir eru í verinu. Skáparnir eru hannaðir og smíðaðir hjá Þorgeir & Ellert hf. og Skaganum hf. á Akranesi . Að sögn Ingólfs Árnasonar, framkvæmdastjóra Skagans, hefur uppsetning skápanna gengið vel og hugsanlegt er að hefja notkun þeirra í næstu viku. Segir Ingólfur að þessir skápar séu hinir fyrstu sinnar tegundar og afkastageta þeirra sé mun meiri en eldri skápanna. „Það er ekki vitað til þess að stærri skápar séu til í heiminum, enda köllum við þá „Big Mama“. Okkur þykir vel viðeigandi að fyrstu stóru skáparnir séu settir upp í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar en fyrsti skápurinn af minni gerðinni var einmitt settur þar upp árið 2010“, sagði Ingólfur.
 
Nýju skáparnir eru 4,6 m á breidd, 5,4 m á dýpt og 6,1 m á hæð. Hver frystiplata í þeim er 13 fermetrar á meðan hún er 6,5 fermetrar í eldri skápunum. Afkastageta nýju skápanna er 60 tonn á sólarhring á meðan hún er rúmlega 30 tonn í þeim eldri.
 
Kassafrystar hafa ýmsa kosti fram yfir hefðbundna blástursfrysta. Þeir gefa kost á jafnri vinnslu allan sólarhringinn, eru ekki eins orkufrekir og blástursfrystar og orkunotkun þeirra er jafnari. Frystitími í kassafrystunum er styttri og þeir henta mun betur til heilfrystingar á stærri uppsjávarfiski.

Börkur NK á síld

Börkur NK að landa afla til vinnslu í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar. Ljósm: Smári GeirssonBörkur NK að landa afla til vinnslu í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar. Ljósm: Smári GeirssonVegna óhagstæðs veðurs á makrílslóðinni hélt Börkur NK til síldveiða í gærmorgun. Vaktavinnufólk í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað fékk frí í gær og í dag en ráðgert er að vinnsla hefjist á ný í fyrramálið. Heimasíðan hafði samband við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra á Berki í morgun og spurði frétta. „Við erum að dæla og höldum í land að því loknu. Þetta er líklega um 300 tonna hol og við verðum komnir með um 900 tonn að dælingu lokinni. Aflinn fékkst í þremur holum í Holunni í Reyðarfjarðardýpi. Það er dálítið af síld að sjá. Það er ekki mjög mikið lóð en þetta gefur mjög vel. Síldin er hin fallegasta – 360-370 gr síld sem hentar örugglega vel til vinnslu. Það var bræla þegar við komum út í gær en veðrið í nótt var hið fínasta. Nú er hins vegar veðrið að versna. Ég reikna með að farið verði á ný á makríl þegar veðrið batnar seinna í vikunni,“ sagði Hjörvar.

23.500 tonn af makríl og síld til Neskaupstaðar

Nær samfelld vinnsla hefur verið í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar frá verslunarmannahelgi. Ljósm. Hákon ErnusonNær samfelld vinnsla hefur verið í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar
frá verslunarmannahelgi. Ljósm. Hákon Ernuson
Nú er verið að landa makríl úr Beiti NK í Neskaupstað og eins og áður fer  allur aflinn til vinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Alls hafa borist 23.500 tonn af makríl og síld til vinnslu í fiskiðjuverinu á yfirstandandi vertíð og er makríllinn í miklum meirihluta. Í fiskiðjuverinu hefur verið svo til samfelld vinnsla frá verslunarmannahelgi en nk. sunnudag og mánudag verður vaktavinnufólkinu gefið frí.
 
Nú líður að lokum makrílveiðanna og þá munu veiðiskipin snúa sér að norsk-íslensku síldinni.
 

Makríl skipað út af krafti

Frystum makríl skipað út í Norðfjarðarhöfn í morgun. Ljósm. Smári GeirssonFrystum makríl skipað út í Norðfjarðarhöfn í morgun. Ljósm. Smári GeirssonÍ Norðfjarðarhöfn liggja nú tvö flutningaskip og lesta frystan makríl. Annað þeirra, Green Brazil, tekur 4000 tonn og hitt, Green Explorer, tekur 1000 tonn. Á sama tíma er Börkur NK að landa tæplega 1000 tonnum til vinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Heimir Ásgeirsson, yfirverkstjóri í frystigeymslum Síldarvinnslunnar, segir að mikilvægt sé að losa úr geymslunum enda sé sífellt streymi á frystum fiski inn í þær. „Við erum alltaf að taka á móti frystum afurðum til geymslu. Vilhelm Þorsteinsson EA landaði um 500 tonnum sl. nótt og Hákon EA mun landa 650 tonnum á laugardag. Þá framleiðir fiskiðjuverið af fullum krafti allan sólarhringinn. Það er því mikilvægt að afurðirnar fari frá okkur jafnt og þétt,“ sagði Heimir.

Góður afli hjá Gullver

Nóg að gera hjá starfsfólki Gullbergs á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar BogasonNóg að gera hjá starfsfólki Gullbergs á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar BogasonÍsfisktogarinn Gullver NS hefur aflað vel að undanförnu og í frystihúsi Gullbergs ehf. á Seyðisfirði hafa ríkt annir. Alls færði Gullver 598 tonn að landi í ágústmánuði í sex veiðiferðum. Hann landaði síðan 102 tonnum sl. mánudag og var uppistaða aflans þorskur, karfi og ufsi. Gullver heldur aftur á veiðar í kvöld. „Það hefur verið mikið að gera hjá okkur að undanförnu og í reyndinni vantar fólk til starfa,“ sagði Ómar Bogason hjá Gullbergi í viðtali við heimasíðuna.
 

Frystum afurðum landað nánast daglega

 Frystum makríl landað úr Hákoni EA í frystigeymslur Síldarvinnslunnar í gær. Ljósm. Smári Geirsson. Frystum makríl landað úr Hákoni EA í frystigeymslur Síldarvinnslunnar í gær. Ljósm. Smári Geirsson.Um þessar mundir koma vinnsluskip nánast daglega til Neskaupstaðar og landa frystum afurðum í frystigeymslur Síldarvinnslunnar. Sl. miðvikudag var lokið við að landa 645 tonnum af síldarflökum úr grænlenska skipinu Polar Amaroq en aflinn fékkst í grænlensku lögsögunni  beint norður af landinu. Halldór Jónasson skipstjóri segir að á þessum slóðum séu litlar síldarlóðningar en þrátt fyrir það kroppi menn þokkalega í partroll. Polar Amaroq er á partrollsveiðum með Polar Princess, sem landaði 900 tonnum í Hafnarfirði á sama tíma og Polar Amaroq landaði í Neskaupstað, en þetta er önnur veiðiferð skipanna á síldveiðum. „Það gefur miklu betri árangur við þær aðstæður sem þarna ríkja að nota partrollið og síldin sem við fáum er stór og falleg. Þetta er 410 gramma síld,“ sagði Halldór.
 
Í kjölfar Polar Amaroq lönduðu Vilhelm Þorsteinsson EA og Hákon EA í frystigeymslurnar í gær og var uppistaða aflans makríll. Hákon landaði 635 tonnum og Vilhelm um 500. Síðan er von á Kristinu EA í fyrramálið og mun hún landa rúmlega 2000 tonnum af frystum makríl.
 
Þegar heimasíðan hafði samband við Heimi Ásgeirsson yfirverkstjóra í frystigeymslunum sagðist hann varla geta gefið sér tíma til að ræða þessi mál. „Hér eru miklar annir. Fyrir utan landanir fara reglulega frá okkur gámar með frystum afurðum og síðan koma skip sem lesta hér í höfninni. Við erum búnir að skipa út á þriðja þúsund tonnum í þessari viku og í morgun kom skip sem mun taka á fjórða þúsund tonn. Gámunum er skipað út á Reyðarfirði þannig að þetta þýðir mikla flutninga yfir Oddsskarð. Við eigum síðan von á öðru skipi á sunnudag og því þriðja á mánudag. Svona gengur þetta fyrir sig á vertíðinni, það er ekki hægt að kvarta undan verkefnaskorti,“ sagði Heimir.
 

Makrílvertíðin virðist ætla að teygja sig lengra fram á haustið

Bjarni Ólafsson AK landar makríl til vinnslu í fiskiðjuverinu. Ljósm. Smári GeirssonBjarni Ólafsson AK landar makríl til vinnslu í fiskiðjuverinu. Ljósm. Smári GeirssonNú er verið að landa 520 tonnum af makríl í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað úr Bjarna Ólafssyni AK. Reiknað er með að löndun úr honum ljúki um hádegisbil og þá kemst Börkur NK að, en hann bíður löndunar með 650 tonn. Heimasíðan ræddi stöðu veiðanna við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra á Berki. „Aflinn í þessum túr fékkst í þremur holum austan við Hvalbak. Það er að ganga fiskur frá landinu þarna út og þarna er hann í æti og virðist ekki vera á förum. Annars er makríllinn þannig að stundum sést mikið af honum og stundum lítið eða ekkert. Þetta er fiskur sem syndir hratt og ýmist hverfur eða blossar upp. Það var mikið líf á veiðisvæðinu seinni partinn í gær og allt leit vel út. Þessi makrílvertíð virðist ætla að teygja sig lengra fram á haustið en vertíðir síðustu ára hafa gert. Á þessum tíma í fyrra voru skipin að veiða langt austur í hafi. Annars hefur veiðst vel að undanförnu, þrátt fyrir dagamun. Þá hefur tíðin verið einstaklega góð og það skiptir svo sannarlega miklu máli,“ sagði Hjörvar.

Bjartur kvaddur – hefur fiskað 142.730 tonn að verðmæti 29 milljarðar króna miðað við núverandi fiskverð

DSC04636 2

Bjartur NK siglir um Norðfjörð áður en hann sigldi endanlega á brott í gærkvöldi. Ljósm: Sigurður Steinn Einarsson

Ísfisktogarinn Bjartur NK kom úr sinni síðustu veiðiferð hér við land sl. sunnudag. Afli skipsins var 101 tonn og var þorskur uppistaðan. Í gærkvöldi sigldi Bjartur síðan út Norðfjörð í hinsta sinn. Hann hefur verið í eigu Síldarvinnslunnar í liðlega fjörutíu og þrjú ár en verður afhentur írönskum kaupanda í Reykjavík nk. mánudag.

                Skuttogarinn Bjartur NK kom nýr til Neskaupstaðar 2. mars 1973. Þá hafði hann lokið lengstu samfelldu siglingu norðfirsks skips fyrr og síðar. Bjartur var smíðaður í Niigata í Japan og tók siglingin þaðan til heimahafnar í Neskaupstað 49 sólarhringa en vegalengdin var um 13.150 sjómílur. Á leiðinni kom Bjartur við í Honolulu á Hawaii-eyjum og Balboa við Panamaskurðinn.

bjartur i skipasmidastodinni

Bjartur NK í smíðum í Niigata-skipasmíðastöðinni. Ljósm: Magni Kristjánsson

                Stjórn Síldarvinnslunnar tók ákvörðun um að láta smíða Bjart seint á árinu 1971 en þá hafði fengist nokkur reynsla af útgerð skuttogarans Barða NK sem fyrirtækið festi kaup á árið 1970. Í upphafi var Bjarti ætlað að leysa Barða af hólmi en eftir að smíði togarans hófst var ákveðið að gera báða togarana út og reyndar urðu togararnir í eigu fyrirtækisins þrír þegar Birtingur NK bættist í flotann árið 1977.

                Alvöru skuttogaravæðing á Íslandi hófst árið 1971 og var þá ákveðið að láta smíða tíu togara í Japan. Síldarvinnslan festi kaup á einu þessara skipa og var það smíðað í Niigata ásamt þremur öðrum en sex skipanna voru smíðuð í Muroran.

                Hinn 25. október árið 1972 var togara Síldarvinnslunnar hleypt af stokkunum í Niigata-skipasmíðastöðinni og var honum þá gefið nafnið Bjartur. Síldarvinnslan fékk skipið afhent 12. janúar 1973 og daginn eftir var lagt af stað í hina löngu siglingu til Íslands. Klukkan 8.30 að morgni föstudagsins 2. mars sigldi Bjartur fánum prýddur inn Norðfjörð og var honum vel fagnað.

bjartur kemur heim 1973

Bjartur NK kemur nýr til Neskaupstaðar 2. mars 1973. Ljósm: Guðmundur Sveinsson

                Bjartur þótti afar vel búið skip og voru miklar vonir við það bundnar. Stærð skipsins var 461 brúttótonn og aðalvélin var 2000 hestöfl. Allar vélar og tækjabúnaður um borð var japanskrar gerðar ef undan er skilin talstöðin sem var dönsk smíð.

                Útgerð Bjarts hefur gengið vel frá upphafi og ekki hefur þótt brýn ástæða til að gera miklar breytingar á skipinu. Aðalvélin var endurnýjuð árið 1984 og árið 2004 hélt Bjartur til Póllands þar sem meiriháttar viðhaldi var sinnt. Þá var skipt um hluta spilbúnaðar, plötur í skutrennu og víðar endurnýjaðar og unnið að ýmsum öðrum lagfæringum. Að öðru leyti hefur reglubundið viðhald verið látið nægja.

                Afli Bjarts á þeim rúmlega fjörutíu og þremur árum sem hann hefur verið í eigu Síldarvinnslunnar er 142.730 tonn. Ársafli skipsins var mestur árið 1981 eða 4.568 tonn en alls hefur ársaflinn sjö sinnum farið yfir 4.000 tonn. Minnstur var ársafli skipsins árið 2001, 1.953 tonn, en verulegan hluta þess árs var Bjartur í slipp á Akureyri í kjölfar eldsvoða um borð. Miðað við núverandi fiskverð má áætla að aflaverðmæti Bjarts á þessu liðlega fjörutíu og þriggja ára tímabili nemi um 29 milljörðum króna.

Capture 2

                Ekkert skip hefur tekið jafn oft þátt í togararalli Hafrannsóknastofnunar og Bjartur. Í marsmánuði sl. lauk hann sínu 26. ralli.

                Magni Kristjánsson var fyrsti skipstjórinn á Bjarti og sigldi hann skipinu heim frá Japan. Magni var á Bjarti á árunum 1973-1976. Þegar Bjartur hafði verið gerður út í fjörutíu ár sagði Magni eftirfarandi: „Það fiskaðist strax vel á Bjart  og hann hefur ávallt verið hagkvæmt skip. Það var vandað til smíði hans og því entist allt ákaflega vel um borð. Það fer ekkert á milli mála að þessi japanski togari hefur verið einstaklega farsælt skip.“

                Sveinn Benediktsson tók við skipstjórn á Bjarti árið 1976 og gegndi starfinu til ársins 1991. Að mati Sveins er Bjartur mikið gæðaskip. „Bjartur er traust og gott skip. Ég var óskaplega ánægður með Bjart. Japanska vélin sem upphaflega var í honum var að vísu heldur lítil og það var til bóta að fá nýja vél  árið 1984. Þetta var afar gott skip að vera á,“ segir Sveinn.

                Eftirmaður Sveins í skipstjórastóli var Birgir Sigurjónsson og stýrði hann skipinu til ársins 2006. Birgir segist bera hlýjar tilfinningar til skipsins. „Bjartur er frábært skip í alla staði. Ég var á Bjarti í 33 ár sem stýrimaður og skipstjóri og mér þykir vænt um þetta skip. Mér leið afar vel þarna um borð. Það er eftirsjá að Bjarti en tíminn líður og endurnýjunar er þörf. Við það þurfa allir að sætta sig,“ segir Birgir.

                Jón Hlífar Aðalsteinsson var skipstjóri á Bjarti á árunum 2006-2011. Hann á ljúfar minningar frá veru sinni á skipinu. „Það var mjög fínt að vera á Bjarti. Skipið fór svo vel með mann. Bjartur er gott skip og jafnan aflaðist vel á það. Segja má að Bjartur hafi fyllilega staðið yngri skipum snúning og endurminningarnar frá Bjartsárunum eru svo sannarlega góðar,“ sagði Jón Hlífar.

                Steinþór Hálfdanarson tók við skipstjórn á Bjarti þegar Jón Hlífar lét af störfum og er hann síðasti skipstjórinn á skipinu áður en það hverfur af landi brott. Það er Steinþór sem siglir skipinu til Reykjavíkur þar sem nýr eigandi tekur við því. „Bjartur er afar gott sjóskip og fer vel með áhöfn. Miðað við stærð er hann sjóborg. Það hefur fiskast vel á skipið alla tíð og mönnum hefur líkað vel að vera á því. Margir hafa verið í áhöfninni um áratuga skeið og ekki virst hafa haft nokkurn áhuga á að skipta um pláss. Auðvitað er Bjartur barn síns tíma en hann skilaði sínu fram í síðasta túr. Vissulega er endurnýjunar þörf en margir muna sakna Bjarts því hann hefur þjónað okkur einstaklega vel,“ segir Steinþór.

Undirflokkar