Ný og glæsileg netagerð Fjarðanets í Neskaupstað

Netagerð Nesk Samsett-ÚTLIT

Tölvuteiknuð mynd sem sýnir landfyllinguna og nýju netagerðina.

                Nú er lokið við að gera landfyllingu austan við fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Á þessari landfyllingu mun Fjarðanet hf. reisa nýja netagerð og er gert ráð fyrir að byggingarframkvæmdir geti hafist í vor og þeim verði lokið í árslok 2017. Næsta verkefni á svæðinu verður að reka niður stálþil og ganga frá viðlegukanti fyrir skip sem nýta munu þjónustuna sem netagerðin ætlar að bjóða upp á. Tekið skal fram að þessi landfylling er fyrsti áfangi landfyllingar á þessu svæði en ráðgert er að hún teygi sig lengra í átt til fiskimjölsverskmiðjunnar.

                Húsið sem rísa mun á landfyllingunni sem gerð hefur verið verður 85 metra langt og 26 metra breitt eða um 2200 fermetrar. Það mun hýsa netaverkstæði, gúmmíbátaþjónustu og veiðarfærageymslu. Húsnæðinu verður skipt í tvennt eftir endilöngu; öðru megin í því verður netaverkstæðið og hinum megin veiðarfærageymsla fyrir nætur og troll. Í öðrum enda hússins verður síðan rými fyrir víraverkstæði, gúmmíbátaþjónustuna og skrifstofur auk starfsmannaaðstöðu.

                Öll starfsemi Fjarðanets í Neskaupstað mun flytjast úr gamla netagerðarhúsinu í þetta nýja hús. Gamla húsið var byggt árið 1965 og er orðið of lítið auk þess sem aðstaðan í því svarar ekki kröfum tímans. Skip og veiðarfæri hafa stækkað mikið á seinni tímum og með tilkomu nýja hússins verður í alla staði betra og þægilegra að vinna við stór veiðarfæri. Til dæmis hefur vinna við flottroll að mestu leyti farið fram utanhúss en með tilkomu nýja hússins færist sú vinna inn þar sem henni verður sinnt við kjöraðstæður. Öll aðstaða í nýja húsinu verður hin fullkomnasta og framleiðslugeta fyrirtækisins í Neskaupstað mun aukast töluvert. Í ljósi þessa er horft fram á verulega aukningu í starfsemi Fjarðanets í Neskaupstað á komandi árum.

                Veiðarfærageymslan í húsinu veldur einnig byltingu en nætur hafa verið geymdar utan dyra til þessa með öllum þeim ókostum sem því fylgir.

                Jón Einar Marteinsson, framkvæmdastjóri Fjarðanets, segir að gríðarleg þörf sé fyrir þetta nýja hús. „Aðstaðan hefur ekki verið nægilega góð hjá okkur en með tilkomu nýja hússins verður hún til fyrirmyndar. Við ætlum okkur að bjóða upp á góða þjónustu í framtíðinni og þessi nýja bygging er forsenda þess að það sé hægt,“ sagði Jón Einar.

Fjarðanet - mynd

Norðfjarðarhöfn. Nýja netagerðin mun rísa á landfyllingunni sem er næst á myndinni. Ljósm: Haraldur Egilsson 

Verkfalli frestað og veiðar hefjast á ný

Togararnir hafa hafið veiðar eftir verkfall.Togararnir hafa hafið veiðar eftir verkfall. Ljósm. Þorgeir BaldurssonVerkfall sjómanna hófst sl. fimmtudagskvöld og héldu þá öll veiðiskip til hafnar. Í gær var síðan verkfalli frestað en þá náðust samningar á milli Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur annars vegar og Sjómannafélags Íslands hins vegar. Áður höfðu verið undirritaðir samningar á milli Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Sjómannasambands Íslands. Verkföllum sjómanna hefur því verið frestað til 14. desember og nú fer í hönd kynning á samningunum og síðan atkvæðagreiðsla. 
 
Strax í gærkvöldi hófu veiðiskipin að streyma á miðin. Vestmannaey og Bergey héldu til veiða frá Vestmannaeyjum klukkan átta í gærkvöldi og um líkt leyti lét Gullver úr höfn á Seyðisfirði. Barði NK sigldi út Norðfjörð klukkan tíu. Síldarskipin bíða átekta en óhagstætt veður er á síldarmiðunum fyrir vestan land. Börkur og Beitir eru því enn í höfn í Neskaupstað og Bjarni Ólafsson á Akranesi. Gert er ráð fyrir að Bjarni Ólafsson haldi fyrstur til veiða og gæti það gerst á morgun.

Kynning á nýju starfsmannastefnunni

Plaköt með lykilþáttum starfsmannastefnunnar. Ljósm. Hákon ErnusonPlaköt með lykilþáttum starfsmannastefnunnar. Ljósm. Hákon ErnusonKynning á nýrri starfsmannastefnu Síldarvinnslunnar er hafin fyrir nokkru en hún verður kynnt á fundum í hverri deild fyrirtækisins. Þegar hafa fundir verið haldnir í fiskiðjuverinu og fiskimjölsverksmiðjunni í Neskaupstað, fiskimjölsverksmiðjunni á Seyðisfirði og með áhöfn Barða NK. Í kjölfar hvers fundar eru hengd upp plaköt á hverjum vinnustað þar sem gerð er grein fyrir lykilþáttum stefnunnar. Plakötin eru á þremur tungumálum; íslensku, ensku og pólsku. Hákon Ernuson starfsmannastjóri segir að kynningarferlið gangi vel en það taki nokkurn tíma. „Það er mjög mikilvægt að fara yfir stefnuna með starfsfólki á hverjum vinnustað. Fólkið er mjög meðvitað um þá vinnu sem farið hefur fram við mótun stefnunnar enda er hún að hluta til byggð á starfsánægjukönnun og viðtölum sem tekin voru við starfsmenn í öllum deildum fyrirtækisins. Við innleiðingu nýju stefnunnar verður mikil áhersla lögð á öryggismál og heilsufar, enda eru þau málefni í forgangi. Þá er hafin vinna við gerð nýrrar fræðsluáætlunar, en í tengslum við mótun hennar hefur starfsmönnum verið send könnun sem þeir eru hvattir til að svara.  Það er ærið verkefni að kynna þessa nýju stefnu og hrinda henni í framkvæmd, en allt snýst þetta um að gera Síldarvinnsluna að eftirsóknarverðu fyrirtæki að starfa hjá,“sagði Hákon.
 
Nýju starfsmannastefnuna má finna á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Síðasti síldarfarmurinn í bili

Beitir NK að landa í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonBeitir NK að landa í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonBeitir NK kom til Neskaupstaðar í morgun með tæplega 900 tonn af íslenskri sumargotssíld. Er þetta síðasti síldarfarmurinn sem unninn verður í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í bili eða þar til afli berst að landi  á ný að loknu verkfalli. Börkur NK landaði 880 tonnum af síld til vinnslu fyrr í vikunni og á undan honum landaði Bjarni Ólafsson AK 670 tonnum.
 
Tómas Kárason, skipstjóri á Beiti, sagði af aflinn hefði fengist í fimm holum. „Þetta voru fimm hol og þau voru afar misjöfn að stærð. Það stærsta var 330 tonn en hið minnsta um 90 tonn. Veiðin er mjög breytileg en það eru blettir sem gefa góðan afla. Vandinn er að hitta á blettina. Almennt verður þó að segjast að það er ekki mikið að sjá af síld. Í túrnum byrjuðum við veiðar um 70 mílur vestur af Reykjanestá en enduðum um 115 mílur norðvestur af tánni. Þarna var bræla um tíma og við héldum bara sjó í eina 12 tíma. Eftir svona brælu tekur alltaf tíma að finna fiskinn á ný,“ sagði Tómas.
 

Hörkuoktóber hjá Gullver – mannabreytingar

Gullver NS heldur til veiða. Ljósm. Ómar BogasonGullver NS heldur til veiða. Ljósm. Ómar BogasonAfli Gullvers NS í októbermánuði var góður. Skipið kom með 524 tonn að landi í mánuðinum, þar af var 284 tonn þorskur og 115 tonn karfi. Drjúgur hluti aflans fór til vinnslu hjá frystihúsi Gullbergs á Seyðisfirði og þar hefur verið nægt hráefni.
 
Um þessar mundir lætur Rúnar Gunnarsson af störfum sem skipstjóri á Gullver en hann hefur fengið ársleyfi og mun taka við störfum hafnarvarðar á Seyðisfirði. Í stað Rúnars mun Þórhallur Jónsson gegna starfi skipstjóra ásamt Jónasi P. Jónssyni. Þórhallur hefur verið 1. stýrimaður á skipinu undanfarin ár.
 
Það eru ákveðin tímamót fólgin í því að Rúnar skuli láta af störfum eftir farsælan feril á skipinu. Þeir Rúnar og Jónas hafa verið á Gullver frá því að skipið kom nýtt til Seyðisfjarðar í júlímánuði 1983, fyrst sem stýrimenn og síðan sem skipstjórar. Nú er það bara spurningin hvort Rúnar snúi aftur á sjóinn að loknu ársleyfinu eða hvort hann festir rætur í hafnarvarðarstarfinu.
 
Að sögn Jónasar P. Jónssonar eru þeir Rúnar ekki þeir einu sem hafa verið í áhöfn Gullvers frá því að skipið hóf veiðar. Magnús Stefánsson bátsmaður hefur einnig fylgt Gullver frá fyrstu tíð.
 
 Jónas P. Jónsson skipstjóri er ánægður með aflabrögðin í októbermánuði. „Það er búin að vera góð veiði á okkar hefðbundnu miðum. Við erum venjulega fjóra daga í viku á sjó en liggjum í landi í tvo til þrjá daga. Það er því ljóst að unnt væri að fiska enn meira á skipið. Hver veiðiferð hjá okkur er annarri lík. Við byrjum á því að veiða karfa í Berufjarðarál og Lónsdýpi en síðan er farið í þorsk og ufsa í Hvalbakshallinu eða norður á Fæti. Reyndar fórum við alla leið á Tangaflakið í síðasta túr. Í lok hvers túrs nú í haust hefur venjulega verið lögð áhersla á að ná í 10-15 tonn af ýsu. Almennt má segja að þetta fyrirkomulag hafi gengið vel,“ sagði Jónas.
 

Blængur frá veiðum – tíminn nýttur til námskeiðahalds

Hluti Blængsmanna og starfsfólks fiskiðjuvers á lyftara- og krananámskeiði. Ljósm. Hákon ErnusonHluti Blængsmanna og starfsfólks fiskiðjuvers á lyftara- og krananámskeiði. Ljósm. Hákon ErnusonFrystitogarinn Blængur NK hefur verið á Akureyri frá því í byrjun ágúst en þar vinna starfsmenn Slippsins að því að koma fyrir nýjum búnaði á vinnsludekki skipsins. Að framkvæmdum loknum mun Blængur geta lagt stund á ísfiskveiðar ásamt því að geta fryst aflann. Skipið verður útbúið til að geyma frystar afurðir í lest á brettum en slíkt fyrirkomulag leiðir til mikillar vinnuhagræðingar og flýtir fyrir löndun. Fiskikössunum er raðað á brettin á vinnsludekkinu og er brettunum síðan staflað í lestinni með lyftara.
 
Framkvæmdir við Blæng hafa nokkuð dregist á langinn og er nú gert ráð fyrir að skipið geti hafið veiðar snemma í desembermánuði.
 
Á meðan framkvæmdirnar við Blæng hafa staðið yfir hefur tíminn verið nýttur til námskeiðahalds fyrir áhöfnina ásamt því að hún hefur sótt fræðslufundi um ýmis málefni. Í síðustu viku fór til dæmis  fram námskeið fyrir minni vinnuvélar (lyftara- og krananámskeið) í umsjá Vinnueftirlitsins. Auk Blængsmanna sótti starfsfólk fiskiðjuvers og fiskimjölsverksmiðju í Neskaupstað námskeiðið og útskrifuðust um 20 manns. Áður hafði áhöfnin á Blængi sótt kynningarfundi um nýja starfsmannastefnu Síldarvinnslunnar og öryggisnámskeið. Boðið verður upp á svonefnt sápunámskeið fyrir áhöfnina en þá mun fulltrúi frá OLÍS fara yfir notkun á þeim hreinsiefnum sem notuð eru um borð í skipinu og eins hefur verið kannað að bjóða upp á námskeið í vírasplæsningum í samvinnu við Fjarðanet.

Tæplega 69 þúsund tonn af makríl og síld til Neskaupstaðar á nýliðinni vertíð

Frá Norðfjarðarhöfn á nýliðinni makríl- og síldarvertíð. Ljósm. Smári GeirssonFrá Norðfjarðarhöfn á nýliðinni makríl- og síldarvertíð. Ljósm. Smári GeirssonHjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað hófust veiðar og vinnsla á makríl og norsk-íslenskri síld í júlímánuði sl. Fyrsta frysta makrílnum var landað 14. júlí en fyrsta makrílnum til vinnslu var landað 17. sama mánaðar. Framan af var áhersla lögð á makrílveiðarnar og síld barst þá að landi sem meðafli en undir lok vertíðarinnar hófust hreinar síldveiðar. Síðasta löndun var 28. október en þá var landað frystri síld. Hér á eftir verður gefið yfirlit um þessar veiðar og vinnslu aflans.
 
Sá afli sem kom til vinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað á veiðitímabilinu nam 38.262 tonnum. Tekið var á móti 23.076 tonnum af makríl, 11.930 tonnum af norsk-íslenskri síld og 3.256 tonnum af íslenskri sumargotssíld en drjúgur hluti af sumargotssíldinni var meðafli undir lok vertíðarinnar. Þessi afli kom frá þremur skipum, Berki NK, Beiti NK og Bjarna Ólafssyni AK. Aflinn skiptist á skipin sem hér segir:
 
  Makríll Norsk-íslensk síld Íslensk sumargotssíld Samtals
Börkur NK 8.550 5.236 1.452 15.238
Beitir NK 8.734 4.886 1.682 15.302
Bjarni Ólafsson AK 5.792 1.808 122 7.722
 
Fyrir utan þann makríl- og síldarafla sem landað var til vinnslu í fiskiðjuverinu lönduðu fjögur vinnsluskip frystum makríl og síld í frystigeymslur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Frystar afurðir þeirra námu 22.678 tonnum. Skipin sem hér um ræðir eru Vilhelm Þorsteinsson EA, Hákon EA, Kristina EA og grænlenska skipið Polar Amaroq. Þá lönduðu  vinnsluskipin samtals 7.970 tonnum af afskurði og fráflokkuðum fiski í fiskimjölsverksmiðjuna í Neskaupstað.
 
Á framansögðu má sjá að á nýliðinni makríl- og síldarvertíð bárust samtals 68.910 tonn af makríl og síld til Neskaupstaðar.
 

Tíminn hefur verið ótrúlega fljótur að líða

Jóhannes Sveinbjörnsson um borð í Bjarti NK. Ljósm. Guðjón B. MagnússonJóhannes Sveinbjörnsson um borð í Bjarti NK. Ljósm. Guðjón B. MagnússonJóhannes Sveinbjörnsson lét af störfum hjá Síldarvinnslunni hinn 31. október sl. en þá varð hann 70 ára. Jóhannes hóf störf hjá fyrirtækinu haustið 1971 þannig að starfstími hans hjá því voru 45 ár. Hann segir að þessi ár hafi verið ótrúlega fljót að líða og margir starfsfélaganna séu eftirminnilegir. Þá hafi breytingarnar á starfsumhverfinu verið hálfbyltingarkenndar. Hér skal Jóhannesi gefið orðið:   
 
Á sjó og í síld
 
Ég er fæddur hér í Neskaupstað en fjölskyldan bjó reyndar í Sandvík fyrsta æviárið mitt. Eins og aðrir strákar byrjaði ég að vinna snemma. Fjórtán ára að aldri var ég til dæmis með Guðmundi Bjarnasyni á Ver á handfæraveiðum við Langanes. Ég starfaði í frystihúsi og mikið á síldarplönunum hérna í bænum. Ég var á Sæsilfri, Mána og Ás og árið 1965 tók ég þátt í að koma síldarplani Naustavers á laggirnar og þar varð ég verkstjóri 18 ára gamall. Naustaver starfaði í fjögur ár. Á þessum árum fór ég tvær vertíðir til Hornafjarðar á vélbátnum Þorsteini. Þar vorum við á handfærum og það var eftirminnilegur tími. Um borð í Þorsteini voru bæði Siggi Jóns og Siggi Nobb og það var sko aldrei leiðinlegt að vera samskipa þessum mönnum.
 
Árið 1968 fór ég einn túr á Árna Magnússyni frá Sandgerði á miðin við Svalbarða. Þar var veidd síld og söltuð um borð en söltunarstöðin Sæsilfur tók síðan á móti síldinni. Eftir þennan túr var ég ráðinn til Sæsilfurs og var verkstjóri við verkun síldarinnar. Þegar síldarævintýrinu lauk endanlega réðst ég sem háseti á Svein Sveinbjörnsson NK sem ýmist var á útilegu á netum eða á síld í Norðursjó.
 
Ráðinn til Síldarvinnslunnar
 
Haustið 1971 var ég ráðinn til Síldarvinnslunnar. Í upphafi vann ég með Guðjóni heitnum Marteinssyni í saltfiskinum og sá um landanir úr skuttogaranum Barða, fyrsta eiginlega skuttogara landsmanna. Fyrir utan þetta hóf ég fljótlega að sinna ýmsum störfum sem tengdust skipum fyrirtækisins.
 
Árið 1973 bættist skuttogarinn Bjartur í flota Síldarvinnslunnar og þá voru togararnir orðnir tveir. Þá var ég ráðinn til að sjá um landanir úr togurunum og öðrum bátum sem lögðu upp afla hjá fyrirtækinu. Í mínum verkahring var einnig að sjá um allar útskipanir á freðfiski.
 
Framan af voru engir fastráðnir í landanirnar og ég þurfti því eilíflega að leita að mönnum til að sinna þeim. Fljótlega varð mönnum ljóst að nauðsynlegt væri að ráða fasta starfsmenn og þá varð til hið svonefnda löndunargengi sem margir muna eflaust eftir.
 
Löndun á fiski úr togurunum var mannaflsfrekt verkefni framan af. Það þurfti 10-12 manns í hverja löndun auk kranamanna. Útskipun á freðfiski krafðist síðan enn fleiri manna; það þurfti marga til að ná fiskinum úr frystiklefunum og stafla honum á bíla sem síðan óku með hann út á höfn. Þar var fiskurinn síðan hífður um borð í flutningaskipið og honum staflað í lestar.
 
Þegar löndunargengið var ekki að landa fiski eða skipa út fiski fékkst það við ýmis störf sem tengdust skipum fyrirtækisins. Einkum var unnið við veiðarfæri.
 
Það voru margir sem unnu mjög lengi í löndunargenginu og segja má að það hafi verið samheldinn og góður hópur. Enginn vann þó lengur í genginu en Víglundur Gunnarsson kranamaður. Hann vann ekki bara á krananum heldur sá til þess að hann væri í fullkomnu lagi og það var lengi ærið verk því það verður að segjast eins og er að kranarnir sem áður voru notaðir voru engin nýtískutæki.
 
Jóhannes Sveinbjörnsson á 70 ára afmælisdaginn. Ljósm. Guðjón B. MagnússonJóhannes Sveinbjörnsson á 70 ára afmælisdaginn. Ljósm. Guðjón B. MagnússonTækniþróunin hefur haft sín áhrif á störf við fisklandanir eins og svo mörg önnur. Allur búnaður hefur breyst og batnað, vinnan er léttari en áður og starfsmönnum hefur fækkað. Í dag eru 5-6 menn að landa úr togara og þar af einungis 1-2 niðri í lest skipsins en í lestinni voru gjarnan 8 á fyrri tíð. Kör hafa leyst kassa af hólmi og afköst við löndunina hafa margfaldast. 
 
Ráðinn reddari
 
Það var líklega árið 1999 sem ég var síðan ráðinn starfsmaður útgerðar Síldarvinnslunnar. Halldór Hinriksson hafði áður verið í því starfi en var að hætta fyrir aldurs sakir. Þetta starf er ótrúlega fjölbreytt og í því fólst allskonar reddingar, enda menn sem gegna slíkum störfum gjarnan kenndir við reddingarnar. Ég sinnti öllu sem tilheyrði útgerðinni að undanskildum vélbúnaði. Það þurfti að sjá til þess að allt væri klárt þegar skip létu úr höfn, allar skoðanir á skipunum væru í lagi og undirbúa komur skipanna úr veiðiferðum. Þessu starfi sinnti ég í 17 ár og hef notið mín vel í því. Tíminn hefur í reynd verið ótrúlega fljótur að líða – hann hefur þotið áfram.
 
Lengst af var ég einn í að starfa fyrir útgerðina í landi, en síðustu tvö árin hefur Sæmundur Sigurjónsson verið með mér. Vissulega er skemmtilegra að eiga starfsfélaga en að vera einn að bauka.
 
Starf reddarans felur í sér að það þarf að hafa samkipti við marga. Ég þurfti að vera í tengslum við umbúðafyrirtæki vegna frystiskipanna, skoðunarstofnanir vegna skoðana á skipunum, yfirmenn skipanna og að sjálfsögðu stjórnendur fyrirtækisins. Allt þetta samstarf hefur verið afar farsælt og ég man í reynd aldrei eftir því að komið hafi til einhverra árekstra. Ég hef verið ánægður í mínu starfi og á þessari stundu vil ég þakka öllu því góða fólki sem ég hef unnið með hjá Síldarvinnslunni. 
 

Beitir með 950 tonn af síld að vestan

Beitir NK. Ljósm. Hákon ErnusonBeitir NK. Ljósm. Hákon ErnusonBeitir NK kom til Neskaupstaðar í gærkvöldi með 950 tonn af íslenskri sumargotssíld sem fékkst fyrir vestan land. Sturla Þórðarson skipstjóri segir að um fallega demantssíld sé að ræða og hafi vinnsla á henni hafist strax í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. „Við fengum þennan afla 100 mílur vestur og vestnorðvestur af Garðskaga. Holin voru afar misjöfn; í sumum var sáralítið en mest fengum við 230-240 tonn í holi. Það er alls ekki mikla síld að sjá þarna en við fengum þó einn ágætan sólarhring,“ sagði Sturla.

Þokkalegur afli og góður fiskur

Barði NK. Ljósm. Hákon ErnusonBarði NK. Ljósm. Hákon ErnusonÍsfisktogarinn Barði NK kom til hafnar í Neskaupstað í gærkvöldi og var afli skipsins 94 tonn. Skipið hélt til veiða sl. fimmtudag. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri var ánægður með túrinn. „Við byrjuðum að veiða í Berufjarðarálnum en vorum síðan mest utan Fótar og upp á Fætinum. Það aflaðist þokkalega og fiskurinn sem fékkst er mjög góður. Leitað var að ufsa og karfa en lítið fannst. Veður í túrnum var heldur leiðinlegt, það brældi af og til,“ sagði Steinþór.
 
Áhöfnin á Barða var áður á Bjarti og segir Steinþór að hún sé óðum að venjast skipinu. „Þetta er allt að slípast til en það tekur ávallt einhvern tíma,“ sagði Steinþór.
 
Gert er ráð fyrir að Barði haldi til veiða á ný um hádegisbil á morgun og verður það væntanlega síðasti túr fyrir sjómannaverkfall ef af því verður.

Fyrsta sumargotssíldin að vestan til Neskaupstaðar

 Börkur NK að landa í Neskaupstað. Ljósm. Smári Geirsson Börkur NK að landa í Neskaupstað. Ljósm. Smári GeirssonBörkur NK kom til Neskaupstaðar í morgun með fyrstu sumargotssíldina sem þangað berst á vertíðinni af miðum fyrir vestan land. Afli skipsins var rúmlega 300 tonn og fer hann allur til vinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Að sögn Hálfdanar Hálfdanarsonar skipstjóra er þarna um þokkalegustu síld að ræða en hún fékkst í fimm holum djúpt út af Faxaflóa. „Það virðist vera lítið af síld þarna á ferðinni þó svo að einn og einn bátur fái eitt og eitt gott hol. Flest hol skipanna eru léleg og stærsta holið okkar var innan við 100 tonn,“ sagði Hálfdan. „Það er ekkert annað að gera en að halda áfram að leita. Eins og er snýst þetta mikið um að vera á réttum stað á réttum tíma. Hafa ber í huga að í fyrra var veiðin einnig afar skrykkjótt framan af en lagaðist svo þegar á leið. Ég trúi því að þetta eigi allt eftir að koma,“ sagði Hálfdan að lokum.
 

Ný starfsmannastefna Síldarvinnslunnar

Ný starfsmannastefna SíldarvinnslunnarÞessa dagana er verið að kynna nýja starfsmannastefnu Síldarvinnslunnar fyrir starfsmönnum fyrirtækisins. Nýja stefnan hefur verið í vinnslu síðasta árið. Við vinnslu stefnunnar var meðal annars höfð til hliðsjónar starfsánægjukönnun og viðtöl sem tekin voru við starfsmenn í öllum deildum fyrirtækisins. Helstu stefnumiðin eru svohljóðandi: 
 
Síldarvinnslan er hátæknivætt sjávarútvegsfyrirtæki í fremstu röð. Slíkur rekstur stendur og fellur með þekkingu og frammistöðu starfsmanna. Það skiptir Síldarvinnsluna því miklu máli að hafa á að skipa góðum og ánægðum starfsmönnum. Í því skyni stefnum við að því að bjóða upp á vinnuumhverfi sem einkennist af hvatningu, öryggi og góðum samskiptum. Við viljum bjóða okkar fólki upp á:
 
  • vinnuumhverfi þar sem stjórnendur og starfsmenn vinna að því í sameiningu að auka sífellt öryggi, velferð og árangur
  • trygga vinnu og góða afkomu
  • vinnu þar sem fólk er hvatt til að gera sitt besta og að efla stöðugt þekkingu sína og færni
  • sveigjanleika og jafnvægi vinnu og einkalífs, eins og frekast er unnt
  • samskipti sem einkennast af samráði og virðingu 
  • jafnrétti til launa og starfsþróunartækifæra
 
Stefnan inniheldur einnig fjölda markmiða og leiða sem miða að því að gera stefnuna að veruleika. 
 
„Þetta er allt hugsað til að gera Síldarvinnsluna að enn betri vinnustað“, segir Hákon Ernuson starfsmannastjóri. „Samhliða tæknivæðingu sjávarútvegsins mun skipta sífellt meira máli að fyrirtæki séu að hugsa vel um fólkið sitt. Samkeppni um gott fólk er hörð og hún mun bara fara harðnandi á næstu árum. Þau fyrirtæki sem vinna ekki skipulega í þessum málum verða að okkar mati mun líklegri til að lenda í vandræðum með mönnun og frammistöðu“, segir Hákon. „Við höfum þegar sett af stað mörg verkefni við innleiðingu stefnunnar og það er vinna sem allir starfsmenn eiga að verða varir við. Þessa dagana erum við aðallega að vinna í miklum breytingum í tengslum við öryggismál og skipuleggja heilsufarsskoðanir, sem eru í boði fyrir alla starfsmenn yfir þrítugu. Öryggi og heilsa verða í forgangi hjá okkur og þetta eru mjög umfangsmikil verkefni. Við höfum einnig hafið vinnslu nýrrar fræðsluáætlunar sem mun vonandi líta dagsins ljós fyrir áramót, þannig að það er allt komið á fullt í að gera stefnuna að veruleika“, segir Hákon að lokum. 
 
Hér verður nánar fjallað um einstaka þætti stefnunnar á næstu vikum, en hana má finna í heild sinni hér á heimasíðunni. Síðar verða veittar ítarlegri upplýsingar um ýmis framkvæmdaatriði tengd stefnunni.

Framkvæmdum við saltfiskskemmuna lokið

Fremst er saltfiskskemman, fjær má sjá skreiðarskemmuna í Síldarvinnslulitunum og fjærst sést gamla frystihúsið. Ljósm. Smári GeirssonFremst er saltfiskskemman, fjær má sjá skreiðarskemmuna í Síldarvinnslulitunum
og fjærst sést gamla frystihúsið. Ljósm. Smári Geirsson
Lokið er við að skipta um klæðningu á svonefndri saltfiskskemmu í Neskaupstað og er húsið nú orðið til fyrirmyndar. Klæðningin er að sjálfsögðu í Síldarvinnslulitunum og er útlit skemmunnar sambærilegt við útlit hinnar svonefndu skreiðarskemmu sem skipt var um klæðningu á fyrir nokkru. Þessi tvö hús voru svo sannarlega farin að láta á sjá en nú eru þau til prýði. Það var Nestak hf. sem annaðist framkvæmdirnar við saltfiskskemmuna.
 
Saga saltfiskskemmunnar er merk en hún var reist sem síldarverksmiðja á árunum 1966-1967. Það var hlutafélagið Rauðubjörg sem byggði verksmiðjuna. Síldarvinnslan festi kaup á byggingunni árið 1973 og hóf þar saltfiskverkun árið eftir. Saltfiskverkunin var fjölmennur vinnustaður og störfuðu þar allt að 120 manns yfir sumartímann í nokkur ár. Skemman hýsti saltfiskverkun til ársins 1997 og í henni var einnig söltuð síld á árunum 1986-1997. Hin síðari ár hefur saltfiskskemman verið nýtt sem geymsluhúsnæði rétt eins og skreiðarskemman. 

Dauft yfir síldveiðunum fyrir vestan

Börkur NK. Ljósm: Hákon ErnusonBörkur NK. Ljósm: Hákon ErnusonBörkur NK hélt vestur fyrir land á laugardagskvöld til veiða á íslenskri sumargotssíld. Heimasíðan sló á þráðinn í morgun og ræddi við Hálfdan Hálfdanarson skipstjóra. „Það er heldur lítið að frétta af okkur og hér er lítið að sjá,“ sagði Hálfdan. Við höfum verið djúpt út af Faxaflóa, um 100 mílur vestur af Garðskaga, og erum komnir með 200 tonn í þremur holum. Hér hafa skip verið að fá upp í 170 tonn í holi og það er það allra mesta. Hér er heldur dauft hljóð í mönnum sem stendur, það er enginn kraftur í þessu. Núna er hálfgerð bræla, en það ætti að verða í lagi með veðrið þegar líður á daginn,“ sagði Hálfdan að lokum.

Síldarvinnslan hlýtur umhverfisviðurkenningu Fjarðabyggðar

SVN Fulltrúar Síldarvinnslunnar sem veittu umhverfisviðkenningu Fjarðabyggðar móttöku. Ljósm. Smári GeirssonFulltrúar Síldarvinnslunnar sem veittu umhverfisviðurkenningu
Fjarðabyggðar móttöku. Ljósm. Smári Geirsson
Síldarvinnslan hlaut í dag umhverfisviðurkenningu Fjarðabyggðar 2016 en þetta er í fyrsta sinn sem sveitarfélagið veitir slíka viðurkenningu. Það var Páll Björgvin Guðmundsson bæjarstjóri sem veitti viðurkenninguna við athöfn sem fram fór í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði. Umhverfisviðurkenning var veitt í þremur flokkum og hlaut Síldarvinnslan hana í flokki fyrirtækja.
 
Auglýst var eftir tilnefningum til viðurkenninga í ágúst og september og var öllum sem áttu lögheimili í Fjarðabyggð heimilt að senda inn tilnefningar. Sérstök dómnefnd fékk það hlutverk að fjalla um tilnefningarnar og leggja mat á þær. Í dómnefndinni áttu sæti Freyr Ævarsson umhverfisfulltrúi Fljótsdalshéraðs, Sveinbjörn Hrafn Kristjánsson starfsmaður áhaldahúss Fljótsdalshéraðs og Anna Heiða Gunnarsdóttir garðyrkjufræðingur á Reyðarfirði. 
 
Í umsögn dómnefndarinnar segir eftirfarandi um umhverfi Síldarvinnslunnar: „Viðurkenningin er veitt fyrir sérlega snyrtilegt umhverfi. Ásýnd húss og vinnusvæðis er stílhreint og öll umgengni til fyrirmyndar.“ Þá segir einnig í umsögninni að blómaker séu skemmtileg í stíl við húsnæði fyrirtækisins og mikið lagt í að viðhalda svæðinu snyrtilegu, blómabeðum og grasfleti. Þá er það mat dómnefndarinnar að fyrirtækið leggi sjáanlega mikinn metnað í blómlega og fallega ásýnd á starfssvæði sínu. 
 
Stefnt er að því að Fjarðabyggð veiti umhverfisviðurkenningu árlega hér eftir. 
Athafnasvæði Síldarvinnslunnar við Norðfjarðarhöfn. Ljósm. Hlynur SveinssonAthafnasvæði Síldarvinnslunnar við Norðfjarðarhöfn. Ljósm. Hlynur Sveinsson

Síldveiði er enn fyrir austan

Síldveiði er enn fyrir austanSíldarvinnsluskipin Beitir og Börkur leggja enn stund á síldveiðar austur af landinu og allur aflinn fer til manneldisvinnslu í fiskiðjuverinu í Neskaupstað. Lokið var við að landa tæplega 1000 tonnum úr Berki í fyrradag og í gær kom Beitir með tæplega 900 tonn.
 
Afli skipanna er blanda af norsk-íslenskri síld og íslenskri sumargotssíld. Hlutfall sumargotssíldarinnar hefur farið vaxandi og um þessar mundir er hún um helmingur aflans.
 
Sturla Þórðarson, skipstjóri á Beiti, segir að um sé að ræða hina þokkalegustu síld. „Við fengum síldina núna í Reyðarfjarðardýpi og Seyðisfjarðardýpi. Við enduðum í Seyðisfjarðardýpinu um 60 mílur frá landi og þar var töluvert að sjá þegar farið var í land,“ sagði Sturla. 

Fleiri kíló, færri krónur

Gullver NS. Ljósm. Ómar BogasonGullver NS. Ljósm. Ómar BogasonVinnsla hjá Gullberg ehf. á Seyðisfirði hefur gengið vel það sem af er ári og nú annað árið í röð stefnir í metframleiðslu hjá starfsmönnum þar.  Á fyrstu 9 mánuðum ársins hafa verið unnin 2.700 tonn sem er aukning um 200 tonn  á milli ára. Til samanburðar þá var aðeins unnið úr 1.300 tonnum árið 2014 á Seyðisfirði og því er um að ræða rúmlega tvöföldun á magni frá þeim tíma.
 
Sömu sögu er að segja af togaranum Gullver NS en hann hefur veitt 3.250 tonn á fyrstu 9 mánuðum ársins til samanburðar við 3.000 tonn árið áður. Þrátt fyrir að meiri afli fari í gegnum húsið og togarinn fiski meira þá hafa tekjur fyrirtækisins minnkað á milli ára. Togarinn, sem fiskað hefur 250 tonnum meira á þessu ári en árið áður, er með 70 milljóna kr minna aflaverðmæti. Segja má að samdrátturinn í aflaverðmæti endurspegli í raun þá breytingu sem hefur verið að eiga sér stað í rekstrarumhverfi Gullbergs ehf. Þannig hefur afurðaverð bolfisks verið að gefa töluvert eftir í erlendri mynt og síðan bætist styrking krónunnar þar við. Þrátt fyrir aukningu á unnu magni þá hefur afkoman dregist saman. Þannig var rekstrarhagnaður fyrstu sex mánuði sl. árs 218 milljónir króna en í ár er hann einungis 120 milljónir.
 
Gullver NS hefur í áratugi skapað sér sérstöðu á karfamörkuðum í Þýskalandi fyrir afhendingaröryggi og gæði hráefnis. Við lokun Rússlandsmarkaðar, sem hafði tekið við 7.000 tonnum af karfa árið 2014, fór karfi að streyma í auknu magni til Þýskalands og annara landa. Nú á þessu ári hefur magnið aukist um 40% miðað við sama tíma í fyrra og verðið lækkað um 30% í krónum talið.  Einnig hefur Rússabannið breytt veiðistýringu flotans í karfa. Afli ísfisktogara hefur aukist um 20% en afli frystitogara aftur á móti dregist saman.

Jólasíldin – ljósmyndasamkeppni

Ljosmyndakeppni 2016Jólasíld Síldarvinnslunnar er fyrir marga starfsmenn fyrirtækisins ómissandi hluti jólahátíðarinnar. Engin síld er jafn bragðgóð og þegar minnst er á hana kemur vatn í munn manna. Aðferðirnar sem notaðar eru við framleiðslu síldarinnar eru vel geymt leyndarmál en þær hafa verið þróaðar af miklum kunnáttumönnum í áranna rás.
 
Lögð hefur verið áhersla á að merkimiðinn á síldarfötunum sé með jólalegri mynd af skipum eða athafnasvæði Síldarvinnslunnar. Í fyrra var efnt til samkeppni á meðal þeirra sem hafa tekið slíkar myndir og nú hefur verið ákveðið að endurtaka leikinn. Þeir sem vilja taka þátt í þessari ljósmyndasamkeppni sendi myndir til Jóns Gunnars Sigurjónssonar yfirverkstjóra í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar fyrir 2. nóvember nk. (This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.). Veitt verða vegleg verðlaun fyrir myndina sem verður fyrir valinu. 

Tæknidagur fjölskyldunnar var frábær

Á sýningarsvæði Síldarvinnslunnar á tæknideginum. Ljósm. Smári GeirssonÁ sýningarsvæði Síldarvinnslunnar á tæknideginum. Ljósm. Smári GeirssonHinn árlegi tæknidagur fjölskyldunnar var haldinn í Verkmenntaskóla Austurlands sl. laugardag. Í stuttu máli sagt tókst dagurinn frábærlega, hann var afar fjölsóttur og virtust gestir njóta dagsins til hins ítrasta. Alls skráðu 973 nöfn sín í gestabækur við innganga, en víst er að nöfn hluta gestanna voru aldrei skráð þannig að fullyrða má að gestir hafi verið vel á annað þúsund. Eru þetta mun fleiri gestir en í fyrra, en þá skráðu liðlega 300 færri nöfn sín í gestabækur.
 
Dagurinn, sem Austurbrú stendur fyrir ásamt Verkmenntaskólanum, á að höfða til allra aldurshópa og virðist það hafa tekist fullkomlega. Vakin var athygli á fjölbreyttum viðfangsefnum á sviði tækni, verkmennta og vísinda og þess vandlega gætt að börnum væri boðið upp á forvitnilegt efni. Fjöldi fyrirtækja og stofnana kynntu starfsemi sína og háskólastofnanir og fleiri veittu innsýn í vísindarannsóknir. Hægt var að fylgjast með krufningu á dýrum, skoða kappakstursbíl í raunstærð, sækja fyrirlestra um ýmis málefni, fara í skoðunarferð í Norðfjarðargöng og í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar, skoða björgunarbúnað af nýjustu gerð og þá var FABLAB- versktæðið opið svo eitthvað sé nefnt. Ævar vísindamaður bauð upp á dagskrá fyrir börnin og unnt var að kynna sér eldsmíði að fornum sið. Í reynd væri hægt að telja lengi upp allt það sem boðið var upp á á tæknideginum. Fyrir utan hina hefðbundnu dagskrá var 30 ára afmælis Verkmenntaskóla Austurlands minnst á þessum degi.
 
Síldarvinnslan var eins og áður með sýningarsvæði á tæknideginum og var það fjölsótt. Þar var unnt að kynnast starfsemi fyrirtækisins og hægt að fá að bragða á ýmsum sjávarafurðum. Þarna gæddi fólk sér á reyktri eðalsíld, niðursoðinni loðnu og lituðum loðnuhrognum sem Japanir nefna masago.
 
Elvar Jónsson skólameistari segir að mikil ánægja ríki með tæknidaginn og hann hafi í alla staði verið frábær. Aðsóknin fór fram úr björtustu vonum að hans sögn og gestirnir voru afar ánægðir með daginn. Þá segir hann að gestir komi sífellt lengra að til að njóta þess sem dagurinn býður upp á.

Tekið á móti gestum í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar

Tekið á móti gestum í fiskiðjuveri SíldarvinnslunnarÍ tengslum við tæknidag fjölskyldunnar næstkomandi laugardag verður tekið á móti gestum í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar frá  kl. 10.30-12.00. Engin vinnsla fer fram í verinu á þeim tíma en gestir munu geta skoðað allan tæknibúnað undir leiðsögn og horft á myndir sem sýna vinnsluferilinn.
 
Fiskiðjuverið er á meðal fullkomnustu verksmiðja sinnar tegundar og allir sem ekki þekkja starfsemi þess ættu að grípa tækifærið á laugardaginn og koma í heimsókn.

Undirflokkar