Sjómannadagskveðja 2014

Síldarvinnslan þakkar fyrir{nomultithumb}

Framhaldsaðalfundur Síldarvinnslunnar hf. 2014

Framhaldsaðalfundur Síldarvinnslunnar hf. 2014Verður haldinn föstudaginn 6. júní 2014 í Hótel Egilsbúð Neskaupstað kl. 11:00.

Dagskrá:

  1. Skýrsla stjórnar
  2. Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til staðfestingar
  3. Tekin ákvörðun um greiðslu arðs
  4. Tillaga stjórnar um starfskjarastefnu
  5. Ákveðin þóknun til stjórnar félagsins
  6. Kosin stjórn félagsins
  7. Kosnir endurskoðendur
  8. Önnur mál, löglega fram borin


Stjórn Síldarvinnslunnar hf.


Ungir háskólanemar sinna áhugaverðum verkefnum

Ungir háskólanemar á skrifstofu Síldarvinnslunnar. Talið frá vinstri: Ásgeir Heimisson, Sylvía Kolbrá Hákonardóttir, Sigurður Steinn Einarsson og Elvar Ingi Þorsteinsson. Ljósm. Hákon Viðarsson.Það er óvenju fjölmennt á skriftstofum Síldarvinnslunnar í Neskaupstað um þessar mundir. Ástæðan er sú að fjórir ungir háskólanemar vinna þar að athyglisverðum verkefnum sem tengjast sjávarútvegi og fylgir þeim eðlilega líf og fjör. Hér verður stuttlega gerð grein fyrir námsmönnunum og verkefnum þeirra:

Elvar Ingi Þorsteinsson er að vinna lokaverkefni við Viðskiptaháskólann í Árósum. Verkefnið fjallar um möguleika þurrkaðs kolmunna á kínverskum mörkuðum. Markaðssvæði í Kína eru könnuð og farið yfir markaðsaðstæður á hverju svæði. Hafa verður í huga í þessu sambandi að efnahagur fólks batnar hratt á ýmsum svæðum í Kína og þar er mikil eftirspurn eftir þurrkuðum fiski. Elvar kom heim til Neskaupstaðar í janúar og hefur síðan unnið að lokaverkefninu ásamt því að kanna möguleika á síldarmörkuðum í Austur-Evrópu fyrir Síldarvinnsluna.

Sigurður Steinn Einarsson og Sylvía Kolbrá Hákonardóttir vinna að verkefni sem felur í könnun á því hvernig best verður staðið að þurrkun á kolmunna. Sigurður Steinn er að ljúka námi í sjávarútvegsfræðum frá Háskólanum á Akureyri og Sylvía Kolbrá stundar slíkt nám við sama skóla. Um þessar mundir er verið að þýða upp sjófrystan kolmunna og gera þau tilraunir með flökun á honum og síðan þurrkun.  Verkefnið er styrkt af Rannís og samstarfsmaður þeirra tveggja er Snorri Halldórsson sem stundar meistaranám í sjávarútvegsfræðum við Háskólann í Tromsö í Noregi. Auk þessa verkefnis eru þau Sigurður Steinn og Sylvía Kolbrá að vinna að undirbúningi sjávarútvegsnáms fyrir grunnskólanema sem byggt yrði á reynslunni sem fékkst af Sjávarútvegsskóla Síldarvinnslunnar á síðasta ári.

Ásgeir Heimisson er nemi í hagfræði við Háskóla Íslands og vinnur að verkefni sem felur í sér könnun á umsvifum sjávarútvegsins á Austfjörðum og samfélagslegum áhrifum hans. Á síðasta ári vann Ásgeir sambærilegt verkefni fyrir Faxaflóahafnir og vöktu niðurstöður þess verulega athygli. Verkefni Ásgeirs er kostað af Útvegsmannafélagi Austfjarða og Fjarðabyggðarhöfnum og unnið í samstarfi við Austurbrú.


Kolmunnaveiðin gengur heldur treglega

Birtingur NK. Ljósm. Þorgeir BaldurssonBirtingur NK er á landleið með 1400 tonn af kolmunna og verður í Neskaupstað um klukkan tvö í dag. Heimasíðan hafði samband við Steinþór Hálfdanarson skipstjóra og spurði hvernig túrinn hefði gengið. „Þetta er búinn að vera langur túr,“ sagði Steinþór. „Við héldum til veiða 10. maí þannig að túrinn er 11 dagar. Rúmir tveir dagar fara í stím en flestir sjá að því fer fjarri að þarna sé um kraftveiði að ræða. Veiðisvæðið er í færeysku lögsögunni, vestur og suðvestur úr Suðurey. Það hefur alls ekki verið mikið af fiski á miðunum og skipin hafa því leitað nokkuð út fyrir veiðisvæðið en afar lítið fundið. Við toguðum oft í um 20 tíma í þessum túr og vorum að fá 300 tonn mest og allt niður í 70 tonn. Við gerum ráð fyrir að halda aftur til veiða strax að lokinni löndun. Það verður að berja á kvótanum“, sagði Steinþór að lokum.

Byggingaframkvæmdir við pökkunarstöð ganga vel

Bygging pökkunarstöðvarinnar gengur vel.  Ljósm. Hákon ViðarssonByggingaframkvæmdir við nýja pökkunarstöð fiskiðjuversins ganga vel.  Lokið er við að steypa grunn hússins og er verið að setja upp mót til að steypa veggi. Jafnframt er unnið við lagnir og að ganga frá jarðvegi undir plötu. Áætlað er að byggingin verði tilbúin til notkunar um eða uppúr mánaðamótunum júní – júlí eða áður en makríl- og síldarvertíð hefst.

Hin nýja bygging er 1000 fermetrar að stærð og áföst fiskiðjuverinu. Afurðum fiskiðjuversins verður pakkað í henni og þar verður komið fyrir kassavélum og brettavafningsvélum. Pökkunarstöðin er mikilvægur liður í því að auka afköst fiskiðjuversins sem stefnt er að í framtíðinni.

Það er Nestak hf. sem er aðalverktaki við byggingarframkvæmdirnar en Haki ehf. sér um jarðvegsframkvæmdir. Verkfræðstofan Mannvit annast hönnun byggingarinnar og eftirlit með framkvæmdunum. 


Fáninn af Goðanesi kominn heim

Birgir Sigurðsson veitir fánanum af Goðanesi móttöku. Ljósm. Smári GeirssonSl. þriðjudag, hinn 13. maí, kom sextíu manna hópur Færeyinga til Neskaupstaðar. Í hópnum voru margir gamlir togarasjómenn sem verið höfðu á íslenskum togurum á sínum tíma. Færeyingarnir komu með Norrænu til Íslands en til slíkra hópferða hefur verið efnt árlega sl. fimm ár. Sá sem hefur skipulagt ferðirnar að undanförnu er Mortan Johannessen, en hann er í hópi þeirra Færeyinga sem réðust á íslenska togara á sjötta áratug síðustu aldar og hann á enn góða vini á Íslandi sem voru með honum til sjós á þeim tíma.

Færeyingarnir komu að þessu sinni til Neskaupstaðar færandi hendi. Meðferðis höfðu þeir íslenska fánann af togaranum Goðanesi frá Neskaupstað sem strandaði við Færeyjar 2. janúar 1957 og krók af krókstjaka sem rak á land eftir strandið. Fánann fundu menn á sjófuglaveiðum á Skálafirði skammt frá strandstaðnum tveimur mánuðum eftir slysið. Fáninn og krókurinn voru afhentir Minjasafninu í Neskaupstað við hátíðlega athöfn í safnahúsinu þar sem nokkrir gamlir norðfirskir togarajaxlar voru viðstaddir.Birgir Sigurðsson fyrrverandi skipstjóri veitti þessum merku gripum móttöku en Birgir er bróðir Péturs Hafsteins Sigurðssonar  sem var skipstjóri á Goðanesinu þegar það strandaði en Pétur var sá eini sem fórst með skipinu.

Goðanes, sem var í eigu Bæjarútgerðar Neskaupstaðar, strandaði á blindskerjum sem nefnast Flesjar en þau eru í mynni Skálafjarðar. Erindi skipsins til Færeyja var að sækja þangað færeyska sjómenn sem ráðnir höfðu verið á það. Þungur sjór var þegar togarann tók niðri og braut stöðugt á honum. Fljótlega komu færeyskir bátar á vettvang og hófust björgunaraðgerðir þá þegar. Eftir að hafa komið björgunarlínu um borð í hið strandaða skip gekk björgun greiðlega um tíma. En þegar átjándi skipverjinn var á leið frá skipinu í björgunarstól brotnaði það í tvennt og tók þá afturhlutinn að síga hratt í djúpið en mennirnir sex sem eftir voru um borð höfðust við á honum. Fljótlega hvarf afturhluti skipsins undir yfirborð sjávar en færeyskum bátum tókst að bjarga öllum þeim sem þar höfðu verið nema Pétri Hafsteini Sigurðssyni skipstjóra.

Þegar gripirnir voru afhentir í Safnahúsinu lýstu Færeyingar í hópnum strandi Goðaness sem ógleymanlegum atburði. Unnt var að fylgjast með björgunaraðgerðum úr landi og höfðu allir miklar áhyggjur af því hvernig mönnunum á Goðanesinu myndi reiða af. Andrúmsloftið var spennuþrungið og  íbúunum í nágrenni strandstaðarins varð ekki svefnsamt kvöldið 2. janúar og aðfaranótt 3. janúar 1957. Hugur þeirra var hjá mönnunum um borð í hinu strandaða skipi.

Norðfirðingum þykir ákaflega vænt um að fá til varðveislu umrædda gripi af Goðanesinu en vitað er um fleiri gripi úr flakinu sem varðveittir eru í Færeyjum.

Með kjaftfullt skip úr sínum fyrsta túr

Bjarni Már Hafsteinsson ánægður að aflokinni fyrstu veiðiferð sem skipstjóri. Ljósm. Hákon Viðarsson.Ísfisktogarinn Bjartur kom til hafnar í morgun með fullfermi eða liðlega 100 tonn. Það er í sjálfu sér ekkert nýtt en það heyrir til tíðinda að skipstjóri í túrnum var Bjarni Már Hafsteinsson og var þetta fyrsta veiðiferð hans í skipstjórastólnum. Fyrsti stýrimaður var Hákon Bjarnason. Báðir eru þeir í yngri kantinum og meðalaldurinn í brúnni í túrnum undir 30 árum. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri á Bjarti er um þessar mundir skipstjóri á Birtingi sem er við kolmunnaveiðar í færeysku lögsögunni og Jóhann Örn Jóhannsson fyrsti stýrimaður var í fríi þannig að nú reyndi á ungu mennina um borð.

Bjarni var hinn ánægðasti þegar komið var að landi. „Við erum með kjaftfullt skip og túrinn gekk mjög vel í alla staði. Við byrjuðum á að veiða ufsa á suðausturhorni Stokksnesgrunns og síðan var farið austur  í Berufjarðarál og var veiðin köflótt. Þá fórum við í þorskinn á Breiðdalsgrunni og þar var mokfiskirí, algjör aðgæsluveiði. Við byrjuðum í þorskinum klukkan sex í gærmorgun og fengum 45 tonn til miðnættis. Yfirleitt var togað í 40 mínútur í senn og settum við glugga á pokann til að skammta það sem í hann kæmi. Við getum ekki verið annað en sáttir við túrinn,“ sagði Bjarni.

2650 tonnum af frosnum kolmunna hefur verið landað í Neskaupstað

Polar Amaroq hefur lokið löndun og Hákon EA kemur til löndunar. Ljósm. Þorgeir Baldursson.Það sem af er kolmunnavertíðinni hefur 2650 tonnum af frosnum kolmunna verið landað í frystigeymslur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Kolmunninn  er ýmist heilfrystur eða frystur hausskorinn. Það eru þrjú vinnsluskip sem landað hafa frosna kolmunnanum; Vilhelm Þorsteinsson EA, Hákon EA og grænlenska skipið Polar Amaroq.

Kolmunninn sem Vilhelm Þorsteinsson hefur landað er hausskorinn og er hann fluttur að Laugum þar sem hann er þurrkaður. Heilfrysti kolmunninn fer á erlendan markað og hefur fyrsta farminum þegar verið skipað út.


Barði NK dregur skip að landi í annað sinn á fjórum dögum

Barði NK kemur með Bjart NK í togi. Ljósm. Guðlaugur BirgissonFrá því var greint hér á heimasíðunni að frystitogarinn Barði hafi dregið ísfisktogarann Bjart að landi sl. mánudag en bilun hafði orðið í aðalvél Bjarts. Skipin komu til hafnar aðfaranótt þriðjudags og er gert ráð fyrir að Bjartur haldi á ný til veiða annað kvöld eða á sunnudag að aflokinni viðgerð.

Klukkan fimm í morgun var Barði staddur úti af Stokksnesi á vesturleið þegar togarinn Ljósafell frá Fáskrúðsfirði  óskaði aðstoðar. Hafði Ljósafellið fengið í skrúfuna á suðvesturhorni Stokksnesgrunns og þurfti á aðstoð að halda. Barði hélt þegar af stað og var kominn að Ljósafellinu að þremur tímum liðnum. Var Ljósafellið þegar tekið í tog og haldið áleiðis til Fáskrúðsfjarðar. Að sögn Geirs Stefánssonar stýrimanns á Barða gengur siglingin vel enda veður afar gott. Segir hann að gert sé ráð fyrir að komið verði til Fáskrúðsfjarðar seint í kvöld.


Góð kolmunnaveiði og mikið landað

Beitir NK á kolmunnaveiðum. Ljósm. Tómas KárasonSíðustu daga hefur verið góð kolmunnaveiði í færeysku lögsögunni . Bátarnir sem veiða fyrir fiskimjöls- og lýsisframleiðslu hafa verið að fá góð hol og vinnsluskipin hafa átt auðvelt með að fá hæfilegt magn fyrir vinnsluna eftir að hafa togað í tvær til fjórar klukkustundir. Polar Amaroq, sem nú er að landa um 360 tonnum af frystum kolmunna í Neskaupstað, var að veiðum suðvestur af meginflotanum en þar fékkst heldur stærri fiskur sem hentaði betur til vinnslu. Að sögn Geirs Zoega skipstjóra á Polar Amaroq var tiltölulega jöfn  veiði á vestursvæðinu, en á austursvæðinu var verulegur munur á dag- og næturveiði.

Færeyska skipið Fagraberg landaði í gær fullfermi eða um 3000 tonnum á Seyðisfirði og Birtingur er að landa þar fullfermi í dag. Birtingur fékk aflann, 1750 tonn, í einungis fjórum tíu tíma holum að sögn Tómasar Kárasonar skipstjóra. Sagði Tómas að þeir hefðu fært sig suður fyrir það svæði sem flest skipin voru á og þar fiskaðist afar vel. „Það bendir allt til þess að verulegt magn af fiski sé nú að ganga inn í færeysku lögsöguna að sunnan “, sagði Tómas.

Börkur hélt til veiða í gær eftir að hafa landað fullfermi í Neskaupstað og Beitir lauk einnig við að landa þar fullfermi síðastliðna nótt. Þá er Hákon að landa fullfermi af frystum kolmunna í frystigeymslurnar í Neskaupstað og 1200 tonnum til fiskimjöls- og lýsisframleiðslu.

Bjarni Ólafsson er lagður af stað af miðunum með fullfermi.

Um þessar mundir hafa Síldarvinnsluskipin lokið við að veiða helming kolmunnakvótans á yfirstandandi vertíð.

Góður afli og vélarbilun

Bjartur NK. Ljósm. Þórhildur Eir SigurgeirsdóttirFrystitogarinn Barði kom til heimahafnar í Neskaupstað í gær með fullfermi. Aflinn upp úr sjó var 138 tonn af ufsa, 93 tonn af gullkarfa, 60 tonn af djúpkarfa og 24 tonn af þorski auk 10 tonna af gulllaxi og 5 af ýsu. Þegar Barði var nýkominn til hafnar fréttist af því að bilun hefði komið upp í aðalvél ísfisktogarans Bjarts þar sem hann var að veiðum á Haftinu í Berufjarðarál  og fékk Barði það hlutverk að draga hann til hafnar. Komu skipin að landi um miðnætti. Afli Bjarts var samtals 46 tonn og uppistaða hans þorskur og ufsi.

Fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar hafa tekið á móti 35.400 tonnum af kolmunna

Börkur NK að veiðum. Ljósm. Geir ZoëgaFiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði og í Neskaupstað hafa tekið á móti 35.400 tonnum af kolmunna það sem af er vertíðinni. Verksmiðjan í Neskaupstað hefur tekið á móti rúmlega 23.000 tonnum og verksmiðjan á Seyðisfirði 12.400 tonnum. Vinnslan hefur gengið vel en hún hefur þó ekki verið samfelld. Til dæmis var vinnsluhlé á Seyðisfirði í gær og beðið eftir hráefni.

Auk þess kolmunna sem landað hefur verið í fiskimjölsverksmiðjurnar hafa vinnsluskip landað nokkru af frystum afurðum í frystigeymslurnar í Neskaupstað. 

Kolmunnaveiðin er þokkalega góð í færeysku lögsögunni rétt eins og verið hefur. Ágætur afli fæst á daginn en minna á nóttunni. Skipin toga í 7-15 tíma, að sögn Ólafs Gunnars Guðnasonar stýrimanns á Berki og eru þau að fá um og yfir 500 tonna hol á daginn þegar best lætur. Kolmunninn hefur haldið sig á svipuðum slóðum síðustu dagana og hafa Síldarvinnsluskipin verið að veiðum vestan í svokölluðum Munkagrunni. Börkur er á landleið með fullfermi þegar þetta er ritað og Beitir er kominn með góðan afla. Birtingur tók 450 tonna hol í gærkvöldi en ekki hefur frést af honum í dag. 

Kolmunnaskipin að fá góðan afla

Beitir NK á kolmunnamiðunum. Ljósm. Tómas KárasonKolmunnaveiðar hafa gengið vel að undanförnu og hafa skipin komið til löndunar í Neskaupstað og á Seyðisfirði hvert af öðru. Börkur er að landa fullfermi á Seyðisfirði og Hákon bíður löndunar þar. Bjarni Ólafsson er nýlega komin á miðin að aflokinni löndun í Neskaupstað og Polar Amaroq er að landa þar fullfermi. Beitir er á landleið með fullfermi og Birtingur er við það að fylla á miðunum.


Kolmunnaskipin með góðan afla

Beitir NK á kolmunnamiðunum. Ljósm. Tómas KárasonKolmunnaveiðar hafa gengið vel að undanförnu og hafa skipin komið til löndunar í Neskaupstað og á Seyðisfirði hvert af öðru. Börkur er að landa fullfermi á Seyðisfirði og Hákon bíður löndunar þar. Bjarni Ólafsson er nýlega komin á miðin að aflokinni löndun í Neskaupstað og Polar Amaroq er að landa þar fullfermi. Beitir er á landleið með fullfermi og Birtingur er við það að fylla á miðunum.


Góð kolmunnaveiði yfir daginn

 
Beitir NK að kolmunnaveiðum. Ljósm. Tómas KárasonSíðustu daga hefur verið góð kolmunnaveiði í færeysku lögsögunni yfir dagtímann. Þegar kvölda tekur dregur úr veiðinni og er hún lítil yfir nóttina. Öll þrjú skip Síldarvinnslunnar fengu til dæmis um eða yfir 500 tonna hol í gær og verður það að teljast harla gott. Bjarni Ólafsson og Polar Amaroq eru á landleið til Neskaupstaðar með fullfermi og Börkur er einnig með fullfermi á leið til Seyðisfjarðar. Birtingur og Beitir eru að veiðum og hafði heimasíðan samband við Hálfdan Hálfdanarson skipstjóra á Beiti í morgun. „Það hefur verið fínasta veiði yfir daginn en minna á nóttunni, fiskurinn dreifir sér í myrkrinu,“ sagði Hálfdan. „Annars erum við nú með hol á síðunni eftir nóttina og í því eru 200-300 tonn sem þykir gott. Í gærkvöldi fengum við 500-600 tonna hol eftir að hafa togað í 7-8 tíma en þetta hol sem nú er verið að dæla úr tók 10 tíma. Við erum komnir með um 1000 tonn og það er ágætis veiðiútlit“, sagði Hálfdan að lokum.

Yfir 7.000 tonn af kolmunna hafa borist til Seyðisfjarðar

Beitir NK á kolmunnaveiðum. Ljósm. Tómas Kárason.Beitir NK kom með fullfermi af kolmunna til Seyðisfjarðar í fyrrinótt og var lokið við að landa úr skipinu um klukkan fimm í morgun. Aflinn var rúmlega 2.100 tonn og með honum hefur fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði tekið á móti rúmlega 7.000 tonnum á vertíðinni. Að sögn Gunnars Sverrissonar  rekstrarstjóra fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar hefur vinnslan á Seyðisfirði gengið vel eftir að hún hófst af fullum krafti. Segir Gunnar að lokið verði við að vinna það hráefni sem hefur borist til verksmiðjunnar á morgun en miðað við þá veiði sem nú er ætti vinnsluhléið ekki að vera langt.

Birtingur á kolmunnaveiðar

Birtingur NK farinn á kolmunnaveiðar. Ljósm. Þorgeir BaldurssonBirtingur NK hélt til kolmunnaveiða í gær en skipið hefur legið í höfn frá því að loðnuvertíð lauk. Þar með eru kolmunnaveiðiskip Síldarvinnslunnar orðin þrjú talsins en Börkur og Beitir hafa stundað veiðarnar að undanförnu. Kolmunnakvóti Síldarvinnslunnar á yfirstandandi vertíð er um 50 þúsund tonn og því þótti nauðsynlegt að fjölga veiðiskipunum í þrjú. Skipstjóri á Birtingi er Tómas Kárason.


Kolmunna landað yfir páskana

Færeyska skipið Fagraberg kom með 3000 tonn af kolmunna til Seyðisfjarðar. Ljósm. Gunnar SverrissonKolmunnaveiði í færeysku lögsögunni glæddist fyrir páska og yfir páskana komu skip til löndunar bæði til Neskaupstaðar og Seyðisfjarðar. Annars hefur veiðin verið köflótt, stundum hafa skipin þurft að toga lengi en inn á milli hefur fengist góður afli eftir tiltölulega stutt hol. Holin hafa tekið á bilinu 4-14 tíma. Bjarni Ólafsson kom með fullfermi til Neskaupstaðar á föstudaginn langa og á laugardaginn fyrir páska kom Hákon EA með um 1300 tonn. Börkur NK kom síðan til heimahafnar með rúmlega 2500 tonn í fyrradag og var lokið við að landa úr honum í gær.

Á föstudaginn langa kom færeyska skipið Fagraberg til Seyðisfjarðar með 3000 tonn og þegar þetta er ritað er verið að landa um 2000 tonnum úr Polar Amaroq. Gunnar Sverrisson rekstrarstjóri fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar  segir að það sé svo sannarlega gleðiefni að fiskimjölsverksmiðjan á Seyðisfirði skuli fá hráefni. „Verksmiðjan hefur staðið í 11 mánuði og það tók smá tíma að taka hrollinn úr véladótinu en nú gengur allt orðið vel,“ sagði Gunnar. „Það er mikilvægt fyrir fyrirtækið og samfélagið hér að hráefni skuli berast til verksmiðjunnar. Við fengum ekkert á loðnuvertíðinni, enda loðnukvótinn lítill og nánast allt sem veiddist fór til manneldisvinnslu. Nú er hinsvegar kolmunnakvótinn myndarlegur og þá fáum við hráefni til vinnslu.“

Síðustu fréttir af kolmunnamiðunum eru þær að Bjarni Ólafsson er búinn að fylla og lagður af stað til löndunar. Beitir NK er kominn með 1700 tonn og ætti að fylla í dag, en Beitir lenti í vélarbilun þegar veiðar voru að hefjast í færeysku lögsögunni og þurfti að leita til hafnar í Færeyjum til að fá viðgert. 

Bjartur með 97 tonn af blönduðum afla

Bjartsmenn í aðgerð. Ljósm. Þorgeir BaldurssonÍsfisktogarinn Bjartur NK kom til Neskaupstaðar í gær með 97 tonn af blönduðum afla. Um 50 tonn af aflanum var þorskur, 22 tonn ufsi og um 17 tonn karfi. Að sögn Steinþórs Hálfdanarsonar skipstjóra gekk veiðiferðin vel: „Nú gekk okkur mun betur að veiða ufsa en í síðasta túr, en þá var erfitt að ná honum. Töluvert þurfti að hafa fyrir því að ná karfanum en eins og oft áður var ekkert vandamál að fá þorsk. Það þarf að gæta þess að þorskholin verði ekki alltof stór og því toguðum við einungis í hálfa til eina klukkustund hverju sinni eftir að við fórum í þorskveiðina. Við tókum þorskinn á Breiðdalsgrunni en ufsann og karfann í Berufjarðarál og í Hvalbakshalli,“ sagði Steinþór að lokum.

Kolmunnaveiðar hafnar á ný

Sturla Þórðarson, skipstjóri á Berki NK. Ljósm. Þorgeir BaldurssonSíldarvinnsluskipin Börkur og Beitir héldu úr höfn í Færeyjum á mánudagskvöld áleiðis á kolmunnamiðin suður af eyjunum. Börkur hóf veiðar strax og á miðin var komið en bilun kom upp í annarri aðalvél Beitis og var þá haldið til hafnar í Fuglafirði þar sem unnið er að viðgerð.

Heimasíðan hafði samband við Sturlu Þórðarson skipstjóra á Berki og lét hann þokkalega af sér. Sagði hann að fiskurinn væri að ganga inn á veiðisvæðið og væru sumir íslensku bátanna að hitta í gott en 12 íslensk skip mega veiða samtímis í færeysku lögsögunni. Sagði Sturla að þeir á Berki væru búnir að fá 800 tonn í tveimur holum og væru nú að toga. Tæplega  300 tonn fengust í fyrra holinu og rúmlega  500 í því síðara. „Þetta gengur bara orðið nokkuð vel“, sagði Sturla að lokum.


Undirflokkar