Nýr Beitir til Neskaupstaðar

Beitir NK við komuna til Neskaupstaðar. Ljósm. Guðlaugur BirgissonEins og áður hefur verið greint frá seldi Síldarvinnslan uppsjávarveiðiskipið Beiti NK til Noregs í desembermánuði sl. en festi þess í stað kaup á skipinu Polar Amaroq sem var í eigu grænlenska félagsins Polar Pelagic. Eftir kaupin á grænlenska skipinu hélt það til Akureyrar þar sem unnið var að ýmsum breytingum og lagfæringum á því. Til dæmis var nótakassinn stækkaður verulega, komið fyrir nýju slönguspili og nýrri vindu á afturskipi. Á Akureyri var skipt um einkennisstafi og nafn á skipinu og fékk það að sjálfsögðu nafnið Beitir NK 123. Á meðan Beitir var á Akureyri lagði áhöfn hans stund á loðnuveiðar á Birtingi NK.

Hinn nýi Beitir kom til Neskaupstaðar að afloknum lagfæringunum í gær og getur hann fljótlega orðið tilbúinn að halda til veiða.

Hinn nýi Beitir var smíðaður árið 1997 og er 2148 brúttótonn að stærð. Getur skipið lestað um 2100 tonn rétt eins og eldri Beitir. Í hinum nýja Beiti eru tvær aðalvélar af gerðinni MaK og er hvor um sig 3260 ha. þannig að heildarhestaflafjöldi er 6250. Annars er skipið afar vel búið tækjum, hentar vel til uppsjávarveiða með flotvörpu og nót og að sjálfsögðu útbúið til að koma með kældan afla að landi.

Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri á Beiti segir að sér lítist afar vel á nýja skipið. „Þetta skip hentar vel til veiða og ég er sannfærður um að það á eftir að reynast með ágætum“, sagði hann. „Skipið er vel búið og það er afskaplega gott að sigla því auk þess sem það er hagkvæmt í rekstri. Þetta er gæðaskip, það fer ekkert á milli mála“.

Síldarvinnslan selur eignir sínar á Siglufirði

Gunnþór Ingvason og Róbert Guðfinnsson handsala söluna á eignum Síldarvinnslunnar á SiglufirðiÍ gær handsalaði Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar hf.  sölu á öllum eignum Síldarvinnslunnar á Siglufirði til Róberts Guðfinnssonar athafnamanns þar. Um er að ræða eignir sem áður tilheyrðu SR-mjöli en árið 2003 runnu Síldarvinnslan og SR-mjöl saman í eitt fyrirtæki sem ber nafn Síldarvinnslunnar. 

Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar sagði eftirfarandi um sölu eignanna: „Við hjá Síldarvinnslunni gleðjumst yfir því að afhenda athafnamanninum og Siglfirðingnum Róberti Guðfinnssyni umræddar eignir. Róbert stendur í umfangsmikilli uppbyggingu á ferðamannaþjónustu á Siglufirði auk þess að koma að rekstri skíðasvæðisins á staðnum og uppbyggingu golfvallarins svo eitthvað sé nefnt. Með þessum kaupum stuðlar Róbert enn frekar að uppbyggingu á staðnum. Ég trúi því að þær hugmyndir sem Róbert hefur um nýtingu eignanna muni koma samfélaginu vel og stuðla að frekari framþróun á Siglufirði og í Fjallabyggð.

Við bindum vonir við að nýtingarhugmyndir Róberts boði nýtt upphaf fyrir nýtingu eignanna í þágu atvinnu og mannlífs á Siglufirði.

Kaupverð og kjör eru trúnaðarmál á milli kaupanda og seljanda. Það liggur hins vegar fyrir að verði eignanna er stillt í hóf og þannig hefur Síldarvinnslan lagt sitt af mörkum til að framtíðarhugmyndir Róberts geti orðið að veruleika samfélaginu á Siglufirði og í Fjallabyggð til góða.“


„Það þýðir ekkert annað en að vera bjartsýnn“

Börkur NK. Ljósm. Þórhildur Eir SigurgeirsdóttirBörkur NK hélt út til loðnuleitar sl. þriðjudagskvöld og kom að landi í gær. Hann leitaði með fjórum öðrum skipum austur í hafi og norður fyrir Langanes og síðan nær landi ásamt Bjarna Ólafssyni AK. Leitin var árangurslaus. Heimasíðan hafði samband við Sigurberg Hauksson skipstjóra á Berki og spurði hann nánar út í þessa leit og hvernig honum litist á framhaldið: „Í þessari leit tóku þátt fimm skip, auk Barkar voru það Bjarni Ólafsson, Polar Amaroq, Faxi og Ingunn. Skipin röðuðu sér upp með 5-6 mílna millibili og leituðu í hafinu út af Austfjörðum og norður fyrir Langanes án árangurs. Að þessari leit lokinni könnuðum við á Berki ásamt Bjarna Ólafssyni grunninn en ekkert fannst þar heldur. Eins og fram hefur komið í fréttum liggur leitarskip Hafrannsóknastofnunar á Akureyri og hyggst bíða með frekari leit. Það eru afskaplega fá skip á þessari slóð núna en þegar við fórum í land voru ein 3 norsk skip komin til veiða og fleiri voru á leiðinni.

Það hefur gerst áður að loðnan hafi látið bíða eftir sér og það þýðir ekkert annað en að vera bjartsýnn. Sennilegt er að menn bíði nú í nokkra daga og haldi síðan til leitar og ef ekkert finnst út af Austfjörðum verður líklega leitað norður af Sléttu og vestur fyrir Kolbeinsey .“

Test 2

 

Test 2

Veitingastaðurinn Larus (Mávur á

 latnesku) er nýr veitingastaður og í alla staði hinn glæsilegasti. Hann er í göngufæri frá hótelinu, eingöngu í 250 m fjarlæ

gð og tekur gangan um 5 mínútur. Gengið er eftir göngustíg í gegnum fallegan garð með aldargömlum kastaníutrjám. 

  

Togararnir koma að landi


Bjartur NK kom til Neskaupstaðar í morgun. Ljósm. Þórhildur Eir SigurgeirsdóttirÍsfisktogarinn Bjartur NK kom að aflokinni veiðiferð til heimahafnar í Neskaupstað í morgun með 92 tonn og er uppistaða aflans þorskur og karfi. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri  segir að karfinn hafi fengist á Lónsdýpi, í Berufjarðarál og í Hvalbakshalli en þorskurinn í Hvalbakshalli og austur fyrir Hæl. Hér er um að ræða þriðju veiðiferð Bjarts eftir áramót og hefur fiskast þokkalega að mati Steinþórs í öllum veiðiferðunum.

Frystitogarinn Barði NK kemur til hafnar í kvöld en hann var við veiðar á Vestfjarðamiðum. Afli hans er 347 tonn upp úr sjó og er aflaverðmætið 88 milljónir króna í þessari fyrstu veiðiferð nýbyrjaðs árs. Um 160 tonn af aflanum er karfi, 52 tonn þorskur, 28 tonn ýsa, 47 tonn ufsi og 16 tonn grálúða.

Lítið um að vera á loðnumiðunum

Birtingur NK í Neskaupstað.  Ljósm. Þórhildur Eir SigurgeirsdóttirFrá því á laugardag hefur lítið verið um að vera á loðnumiðunum, fá skip hafa verið að veiðum og afli hefur verið lítill í trollið. Það viðrar ekki vel til nótaveiða og spáin er óhagstæð fyrir næstu daga. Þetta ástand hefur leitt til þess að sum loðnuskipanna hafa haldið til hafnar og liggja þar bundin við bryggju. 

Birtingur NK kom til Neskaupstaðar í gærkvöldi með 350 tonn og er verið að frysta úr honum í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar.


Samfelld loðnuvinnsla í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar

Fryst loðna á leið í pökkun.  Ljósm. Hákon ViðarssonFrá upphafi loðnuvertíðinnar hefur vinna við loðnufrystingu verið samfelld í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Börkur NK kom með fyrstu loðnuna aðfaranótt 13. janúar og síðan hefur unnið á vöktum. Þegar þetta er skrifað er verið að landa úr Berki en löndun úr Bjarna Ólafssyni AK lauk í morgun. Gert er ráð fyrir að frysting á loðnu úr Berki ljúki á morgun en þá hefjist löndun úr Polar Amaroq sem enn er á miðunum.

Loðnufrystingin hefur gengið vel og er allt kapp lagt á að stýra veiðum þannig að hráefnið sem kemur til vinnslu sé ávallt sem best og ferskast.


Test

Síldarvinnslan hf. í Neskaupstað

 

Test

Veitingastaðurinn Larus (Mávur á latnesku) er nýr veitingastaður og í alla staði hinn glæsilegasti. Hann er í göngufæri frá hótelinu, eingöngu í 250 m fjarlægð og tekur gangan um 5 mínútur. Gengið er eftir göngustíg í gegnum fallegan garð með aldargömlum kastaníutrjám.

Jólakveðja frá Síldarvinnslunni

Nýi Polar Amaroq er „glæsilegt hörkuskip“

Hinn nýi Polar Amaroq siglir inn Norðfjörð í morgun. Ljósm. Guðlaugur Birgisson

Hinn nýi Polar Amaroq sigldi í fyrsta sinn inn Norðfjörð klukkan rúmlega 11 í morgun. Skipstjórar á skipinu eru Geir Zoega og Halldór Jónasson.  Heimasíðan hafði samband við Geir þegar siglt var inn fjörðinn og var hann svo sannarlega glaður í bragði: „Þetta er glæsilegt hörkuskip“, sagði Geir, „við fengum skítabrælu alla leiðina frá Skagen í Danmörku og það reyndi svo sannarlega á skipið. Áhöfnin er alsæl og gat ekki hugsað sér betri jólagjöf en þetta frábæra skip. Allur búnaður um borð er fyrsta flokks og það verður svo sannarlega spennandi að hefja veiðar eftir áramótin. Það verður unun að vinna á þessu skipi“.

Jólatrésskemmtun Síldarvinnslunnar

Hin hefðbundna jólatrésskemmtun Síldarvinnslunnar verður haldin í Egilsbúð föstudaginn 27. desember kl. 16. Öllum börnum og foreldrum í Fjarðabyggð er boðið á skemmtunina en þangað munu koma jólasveinar ásamt því að boðið verður upp á drykki og smákökur. Egill Jónsson mun leika undir dans og söng en kór 9. bekkinga mun leiða sönginn.

Fyrir mörg börn er jólatrésskemmtunin fastur liður í jólahaldinu og fullvíst er að þau munu skemmta sér vel á föstudaginn. 
 

Nýr Polar Amaroq kemur til Neskaupstaðar í dag

Nýji Polar Amaroq væntanlegur í dag.Um klukkan 13 í dag er nýr Polar Amaroq væntanlegur til Neskaupstaðar. Skipið er í eigu grænlenska fyrirtækisins Polar Pelagic sem Síldarvinnslan á þriðjung í en það leysir af hólmi eldra skip með sama nafni. Nýja skipið hét áður Gardar og var í eigu norska útgerðarfélagsins K. Halstensen AS. Það var byggt árið 2004 og lengt árið 2006.

Hið nýja skip er vinnsluskip, 3.200 brúttótonn að stærð, 83,8 m. á lengd og 14,6 m. á breidd. Í skipinu er Wartsila aðalvél, 7507 ha. og er það búið tveimur hliðarskrúfum. Skipið er búið öllum siglingatækjum og getur lestað 2535 tonn, þar af 2000 í kælitanka. Frystigeta um borð er 140 tonn á sólarhring og er þá miðað við heilfrystan fisk en frystirýmið er fyrir 1000 tonn.

Skipstjórar á nýja skipinu verða Geir Zoega og Halldór Jónasson.


Þorgeir sigurvegari í ljósmyndakeppni sjómanna

Ljósmynd Þorgeirs BaldurssonarSjómannablaðið Víkingur efnir árlega til ljósmyndakeppni sjómanna. Í ár bárust á annað hundrað myndir í keppnina og þurfti dómnefndin bæði að velja þrjár bestu myndirnar auk þess sem hún valdi fimmtán myndir sem sendar verða til þátttöku í Norðurlandakeppni. Í fyrsta sæti keppninnar í ár hafnaði Þorgeir Baldursson og er myndin sem bar sigur úr bítum tekin um borð í Beiti NK. Myndin fylgir hér með fréttinni og sýnir Kristin Snæbjörnsson stýrimann á Beiti fylgjast með höfuðlínustykkinu.

Þorgeir hefur farið nokkrar veiðiferðir á skipum Síldarvinnslunnar og tekið myndir í þeim en sumar þessara mynda hafa einmitt fylgt fréttum hér á heimasíðunni. Þá hefur Þorgeir einnig tekið frábærar myndir af Síldarvinnsluskipunum sem víða hafa birst.


Síldarvinnslutogararnir komnir í jólafrí

Vinnsla á Bjarti NK.  Ljósm. Þorgeir Baldursson

Togarar Síldarvinnslunnar, Barði NK og Bjartur NK, komu að landi í gærkvöldi og í morgun og hafa þar með lokið veiðum fyrir hátíðar. Áhafnirnar munu því fara í vel þegið jólafrí en áformað er að skipin haldi til veiða á ný hinn 3. janúar.

Frystitogarinn Barði kom til hafnar í gærkvöldi og var hann með fullfermi af ufsa og karfa. Veiðiferðin hófst austur af landinu en síðan var haldið vestur og veitt í Víkurálnum. Vegna bilunar þurfti skipið að vera í þrjá daga á Ísafirði. Að sögn Bjarna Ólafs Hjálmarssonar skipstjóra aflaðist mjög vel í túrnum en tíðarfarið var hins vegar heldur rysjótt.

Ísfisktogarinn Bjartur kom til hafnar í morgun. Aflinn var blandaður, um 66 tonn af þorski og 22 tonn af grálúðu. Skipið var á veiðum í Seyðisfjarðardýpi og á Digranesflaki. Að sögn Steinþórs Hálfdanarsonar skipstjóra var fínasta fiskirí í túrnum eins og reyndar hefur verið að undanförnu. Nóg virðist vera af þorski og tiltölulega auðvelt að ná honum en heldur fyrirhafnarmeira er að ná grálúðunni.

Síldveiðiskipin hætt veiðum fyrir jól

Síldarvinnsla í fiskiðjuveri Síldarvinnslunar.  Ljósm. Þórhildur Eir SigurgeirsdóttirSíldveiðiskipin Birtingur NK og Börkur NK komu til Neskaupstaðar í morgun og er þar með veiðum þeirra lokið fyrir jól.  Birtingur var með 320 tonna afla og Börkur með rúmlega 400 tonn en allur aflinn fer til manneldisvinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Skipin hafa að undanförnu verið að veiðum í Breiðamerkurdýpi og hefur veiðin yfirleitt verið dræm. Þá hefur síldin sem þar hefur veiðst verið mun smærri en sú síld sem fengist hefur í Breiðafirði

Meira fjör í Breiðamerkurdýpinu

Birtingur NK. Ljósm. Þorgeir BaldurssonBirtingur NK er á leið til Neskaupstaðar með um 750 tonn af síld sem fékkst í Breiðamerkurdýpinu. Að sögn Atla Rúnars Eysteinssonar stýrimanns fékkst aflinn á þremur nóttum í níu köstum en einungis fiskast á nóttunni. Tvær fyrstu næturnar skiluðu heldur litlu og var ekki mikla síld að sjá en í gærkvöldi var meira líf en verið hefur. Þá fékk Birtingur gott kast og fleiri bátar voru að fá þokkalegan afla, meðal annars fékk Börkur NK um 300 tonna kast. „ Síldin sem veiðist þarna er mun smærri en sú síld sem fengist hefur í Breiðafirðinum“, segir Atli Rúnar,“en það hefur lítið verið að hafa fyrir vestan og því er eðlilegt að látið sé reyna á veiðar þarna.“

Það er áhöfnin á Beiti NK sem er á Birtingi um þessar mundir en Beitir er í slipp í Danmörku og hefur verið seldur til Noregs. Polar Amaroq mun síðan fá nafnið Beitir og áhöfnin flytjast yfir á það skip. Að sögn Atla kunna þeir Beitismenn vel við sig á Birtingi enda hafa flestir eða allir verið á honum áður og þykir vænt um skipið.
 

 
 

Fyrsta síldin úr Breiðamerkurdýpi

Birtingur NK áður Börkur NK. Ljósm. Þorgeir Baldursson

Sl. laugardag kom Börkur NK til Neskaupstaðar með fyrstu síldina úr Breiðamerkurdýpi sem þangað hefur borist á vertíðinni. Eins og öllum er kunnugt hefur sáralítið veiðst af síld í Breiðafirðinum upp á síðkastið og þegar Börkur kom með umræddan afla var liðinn hálfur mánuður frá því að síðast barst afli til vinnslu í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar. Gæftaleysi hefur verið mikið á miðunum fyrir vestan og auk þess hefur lítið fundist þar af veiðanlegri síld þannig að bátarnir hafa reynt fyrir sér á Breiðamerkurdýpi.

Afli Barkar í þessari veiðiferð var 630 tonn. Að sögn Jóns Gunnars Sigurjónssonar  verkstjóra í fiskiðjuverinu reyndist síldin úr Breiðamerkurdýpinu vera smærri en sú sem veiðist fyrir vestan en ágætlega gekk þó að vinna hana.

Áhöfn Beitis er nú við síldveiðar í Breiðamerkurdýpi á Birtingi NK en Beitir hefur verið seldur og er farinn í slipp til Danmerkur. Polar Amaroq mun síðan leysa Beiti af hólmi. 

Polar Pelagic festir kaup á vinnsluskipinu Gardar, Beitir NK tekinn upp í kaupin en Polar Amaroq verður Beitir

Vinnsluskipið Gardar .Grænlenska útgerðarfélagið Polar Pelagic, sem Síldarvinnslan á þriðjung í, hefur fest kaup á vinnsluskipinu Gardar af útgerðarfyrirtækinu K. Halstensen AS í Noregi. Beitir NK mun ganga upp í kaupin en núverandi uppsjávarskip Polar Pelagic, Polar Amaroq, mun verða eign Síldarvinnslunnar og fá nafnið Beitir.

Meginástæðan fyrir kaupunum á Gardar er nauðsyn þess að Polar Pelagic eignist vinnsluskip, ekki síst vegna nýtingar á makrílnum sem veiddur er innan grænlenskrar lögsögu. Gardar er stórt og öflugt skip sem hentar vel fyrir þær aðstæður sem grænlenska útgerðarfélagið býr við. Gardar var byggður árið 2004 og lengdur árið 2006. Hann er 3.200 brúttótonn að stærð, 83,8 m. á lengd og 14,6 m. á breidd. Skipið er vel búið öllum siglingatækjum og getur lestað 2535 tonn , þar af 2000 í kælitanka. Aðalvélin er 7507 ha. Wartsila og er skipið búið tveimur hliðarskrúfum, 950 ha. að framan og 1200 ha. að aftan. Frystigetan um borð er 140 tonn á sólarhring þegar miðað er við heilfrystan fisk en frystirýmið er fyrir 1000 tonn.

Beitir NK. Ljósm. Þórhildur Eir SigurgeirsdóttirBeitir NK mun ganga upp í kaupin á Gardar en Síldarvinnslan festi kaup á honum árið 2009. Beitir var byggður árið 1998 og er 2188 brúttótonn að stærð. Hann getur lestað 2100 tonn og er búinn 9.999 ha. aðalvél af gerðinni Wartsila. Polar Pelagic festi kaup á Polar Amaroq í marsmánuði á þessu ári en skipið var byggt árið 1997. Polar Amaroq  er 2148 brúttótonn að stærð og getur lestað um 2100 tonn rétt eins og Beitir. Í Polar Amaroq eru tvær aðalvélar af gerðinni MaK og er hvor um sig 3260 ha. þannig að heildarhestaflafjöldi er 6.520.

Polar Amaroq. Ljósm. Þórhildur Eir SigurgeirsdóttirGert er ráð fyrir að Gardar verði afhentur nýjum eiganda 15.-18. desember og Beitir NK verði afhentur á sama tíma. Polar Amaroq (hinn nýi Beitir) verður afhentur Síldarvinnslunni um svipað leyti.  Mun Beitir fara í slipp í Danmörku fyrir afhendingu og nokkrar endurbætur munu verða gerðar á Polar Amaroq. Frá því að Beitir heldur af landi brott og þar til að hinn nýi Beitir verður tilbúinn til veiða mun áhöfnin halda til síldveiða á Birtingi NK sem hefur að undanförnu legið í höfn á Seyðisfirði.
 

 

Framkvæmdir við stækkun Norðfjarðarhafnar ganga vel

Þrengsli í Norðfjarðarhöfn hafa oft verið mikil og erfitt fyrir stærstu skip að athafna sig. Ljósm.: Jón Már JónssonFramkvæmdir við stækkun Norðfjarðarhafnar ganga vel og virðast tímaáætlanir ætla að standast í öllum meginatriðum. Þessar framkvæmdir skipta Síldarvinnsluna miklu máli enda hafa stærstu skip átt mjög erfitt með að athafna sig í höfninni til þessa. Slík skip geta einungis siglt inn í höfnina í blíðviðri og jafnvel þarf björgunarbáturinn Hafbjörg að aðstoða lóðsbátinn Vött við að koma þeim að bryggju. Umferð um höfnina er mikil og má nefna að á árinu 2012 voru skipakomurnar 519 og eru þá smærri bátar ekki taldir með. Þá hafa þrengsli í höfninni oft verið til óþæginda og ekki er óalgengt að skip þurfi að bíða úti á firði til að komast að.

Skrifað hefur verið undir þrjá verktakasamninga vegna núverandi framkvæmda við höfnina. Í maí var skrifað undir samning við Héraðsverk sem sér um jarðvinnuhlutann, þ. e. hafnargarða, grjótfláa, gerð nýrrar smábátahafnar o. fl. Framkvæmdir að hálfu Héraðsverks hafa gengið vel og er fyrsti áfangi verksins langt kominn en verklok eru áætluð í desember. Annar áfangi þess verks sem Héraðsverk sinnir verður síðan unninn á næsta ári og er helstu þáttur þess verkhluta færsla grjótgarðs. Gert er ráð fyrir að vinna við annan áfanga hefjist 15. apríl og ljúki 31. október 2014. 

Í júlímánuði í sumar var skrifað undir samning við Björgun um dýpkun hafnarinnar og dælingu efnis undir nýja grjótgarðinn. Dælingin verður einnig unnin í áföngum og á dælingu innan hafnar að verða lokið um mánaðamótin janúar – febrúar 2014 og er sá hluti verksins á áætlun. Vinna við síðari hluta verksins hefst síðan á vormánuðum en þá verður gamli grjótgarðurinn fluttur utar. Verklok við dýpkunarframkvæmdir og dælingu á efni eru áætluð í júnímánuði 2014.

Þriðji verksamningurinn vegna hafnarframkvæmdanna var undirritaður hinn 14. nóvember sl. Var hann gerður við Hagtak og felur í sér lengingu stálþils togarabryggjunnar um 60 metra. Þeirri framkvæmd á að vera lokið um mánaðamótin apríl – maí 2014.Lesa meira...

Kassafrystarnir frá Skaganum leystu vandann - grein Útvegsblaðsins

ÚtvegsblaðiðSmelltu hér til að lesa umfjöllun Útvegsblaðsins

 

 

 

 

Undirflokkar