Aflahæsta löndunarhöfn Íslands stækkar við sig​

Birtingur skartar sínu fegursta við nýja viðlegukantinn. Í bakgrunn má sjá Vilhelm Þorsteinsson EA landa í bræðslu og Börk NK sem kemur til löndunar í fiskiðjuverið. Ljósm. Sigurður Steinn EinarssonNú stendur yfir stækkun á Norðfjarðarhöfn þar sem unnið er að því að gera höfnina rýmri og aðgengilegri fyrir stærri skip.Í gær var svo komið að því að nýr 60 metra viðlegukantur var vígður þegar Birtingur NK lagðist upp að.  

Undanfarin ár hefur Norðfjarðarhöfn verið ein umsvifamesta höfn landsins. Síðustu ár hefur verið landað yfir 200 þúsund tonnum í höfninni. Það sem af er ári hefur verið landað 97 þúsund tonnum í Norðfjarðahöfn. Mikil verðmæti fara um höfnina og til að mynda var aflaverðmæti þess afla sem fór um höfnina í fyrra rúmir 15 milljarðar króna.

Vertíðin er komin vel af stað í Neskaupstað en Beitir NK varað ljúka löndun á 480 tonnum í fiskiðjuverið og Börkur NK er að landa 460 tonnum. Einnig er Vilhelm Þorsteinsson að landa afla sínum, um 700 tonnum, þar af 500 tonnum í frystigeymslur Síldarvinnslunnar. Barði NK er væntanlegur til löndunar á morgun með fullfermi af makríl en hann hefur verið á miðunum utan Reykjaness.

Yfir 3000 tonn af makríl og síld til fiskiðjuvers Síldarvinnslunnar

 Vinnsla á makríl og síld gengur vel í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Ljósm. Hákon Viðarsson.​Í gær kom Beitir NK með um 400 tonn af makríl og síld til Neskaupstaðar og eru þá komin 3100 tonn til fiskiðjuvers Síldarvinnslunnar á vertíðinni. Klárað var að landa 330 tonnum úr Bjarna Ólafssyni AK í gær. Vinnsla í fiskiðjuverinu hófst sl. laugardag og hefur hún gengið vel.

Skipin hafa verið að veiðum suðaustur af landinu. Þau hafalagt áherslu á að veiða makríl en fengið bæði norsk-íslenska síld og íslenska sumargotssíld sem meðafla.

85% árgangsins sótti nám í Sjávarútvegsskóla Fjarðabyggðar

Nemendahópurinn frá Norðfirði fyrir framan Jón Kjartansson. Ljósm. Sigurður Steinn EinarssonDagana 23. júní til 11. júlí starfaði Sjávarútvegsskóli Fjarðabyggðar en skólinn er samvinnuverkefni Austurbrúar, Vinnuskóla Fjarðabyggðar og sjávarútvegsfyrirtækjanna Eskju, Loðnuvinnslunnar og Síldarvinnslunnar. Öllum ungmennum í Fjarðabyggð sem fædd voru árið 2000 stóð til boða að sækja skólann og alls útskrifuðust 55 nemendur úr skólanum eða 85% árgangsins. Verður það að teljast afar góð þátttaka en á því tímabili sem skólinn starfaði var nokkuð um að ungmenni úr árgangnum væru í sumarleyfisferðum með fjölskyldum sínum.

Meginmarkmiðið með skólahaldinu er að auka þekkingu og skilning ungmennanna á þeirri grunnatvinnugrein sem sjávarútvegurinn er en greinin er í reynd undirstaða byggðarlaganna í Fjarðabyggð og allra byggðakjarna við sjávarsíðuna á Austurlandi. Í skólanum voru fluttir fyrirlestrar um eðli og sögu sjávarútvegs og eins vakin athygli á þeim fjölbreyttu störfum sem tengjast atvinnugreininni beint og óbeint. Til að auka skilning nemendanna á námsefninu var fjöldi fyrirtækja heimsóttur, jafnt sjávarútvegsfyrirtæki sem fyrirtæki sem þjónusta sjávarútveginn. Þá var farið um borð í fiskiskip og þær aðstæður sem sjómennirnir búa við skoðaðar.           

Nemendahópurinn frá Eskifirði og Reyðarfirði í heimsókn hjá Matís. Ljósm. Elvar Ingi ÞorsteinssonKennt var á þremur stöðum í Fjarðabyggð; Neskaupstað, Fáskrúðsfirði og Eskifirði. Á hverjum stað var kennt í eina viku og á lokadegi kennslunnar var ferðast um sveitarfélagið, farið í heimsóknir og  efnt til uppskeruhátíðar ásamt því sem útskriftarskírteini voru afhent. Til dæmis heimsóttu allir hóparnir fiskimjölsverksmiðju Eskju á Eskifirði, botnfiskvinnslu Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði og uppsjávarfrystihús Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Kom það nemendum verulega á óvart hve tæknistig vinnslustöðvanna er hátt og eins vöktu tæki og veiðibúnaður fiskiskipanna mikla athygli.           

Allir námshóparnir fóru í heimsókn í Verkmenntaskóla Austurlands þar sem skólameistari kynnti námsleiðir og sýndi kennsluaðstöðu. Vakti hann athygli nemendanna á því hve mörg störf á Austurlandi tengjast sjávarútveginum beint og óbeint. Flest iðnfyrirtæki þjóna sjávarútveginum og stór hluti vélstjóra starfar annað hvort á fiskiskipum eða hjá landvinnslum sjávarútvegsfyrirtækjanna. Meira að segja tengist afkoma hárgreiðslustofanna að verulegu leyti því hvernig sjávarútvegsfyrirtækjunum vegnar. Sjávarútvegurinn er því sannkölluð grunnatvinnugrein í austfirsku samfélagi.
  
Nemendahópurinn frá Fáskrúðsfirði og Stöðvarfirði í heimsókn í fiskimjölsverksmiðju Eskju. Ljósm. Elvar Ingi ÞorsteinssonÍ Verkmenntaskólanum var einnig fjallað um þær námsgreinar á háskólastigi sem tengjast sjávarútvegi  eða geta tengst greininni. Í því samhengi var farið í heimsókn til Matís í Neskaupstað þar sem meðal annars fara fram efnamælingar á hráefni og framleiðsluafurðum sjávarútvegsfyrirtækjanna. Þar fengu nemendur að kynnast því hvernig títrað er með sýru og basa og vöktu litabreytingar eftir sýrustigi mikla lukku á meðal nemendahópanna. Þetta var svo sannarlega spennandi.
             
Ekkert fer á milli mála að námið í skólanum breytti sýn nemendanna á sjávarútveginn og opnaði augu þeirra fyrir mikilvægi þátta eins og til dæmis gæða- og markaðsmálum. Þá varð nemendum einnig  ljóst hve störf sem tengjast sjávarútvegi eru ótrúlega fjölbreytt. Að sjávarútvegi starfa sjómennirnir sem gegna ýmsum hlutverkum, starfsfólk við fiskvinnslu, iðnaðarmenn á ýmsum sviðum, fólk með menntun á sviði rannsókna, markaðsmála og fjármála svo nokkuð sé nefnt. Þá byggja aðrar atvinnugreinar í sjávarbyggðunum að miklu leyti á starfsemi sjávarútvegsfyrirtækjanna  og þeim verðmætum sem þau skapa.

Mikið um að vera í Norðfjarðarhöfn

 Börkur NK til vinstri að landa makríl til vinnslu í fiskiðjuverinu. Til hægri er Bjartur NK sem kemur til löndunar eftir góðan túr. Ljósm. Hákon Viðarsson.Um þetta leyti árs eru mikil umsvif í Norðfjarðarhöfn. Skip koma og fara og að auki hefur verið  unnið að gerð nýs hafnargarðs sem er hluti af umfangsmiklum framkvæmdum sem staðið hafa yfir frá síðasta ári. Makríl- og síldarvertíð er hafin og koma veiðiskipin reglulega til hafnar með hráefni fyrir fiskiðjuver Síldarvinnslunnar. Þá koma vinnsluskipin til löndunar með frystar makríl- og síldarafurðir en þeim er komið fyrir í frystigeymslum Síldarvinnslunnar. Þessu fylgja tíðar komur flutningaskipa sem lesta framleiðsluna og flytja hana til viðeigandi markaðslanda.

Fyrir utan makríl- og síldarskipin koma togarar og bátar til löndunar ásamt erlendum loðnuskipum sem landað hafa afla sínum síðustu daga. Strandveiðibátarnir sem landað hafa í Norðfjarðarhöfn að undanförnu eru 11 talsins og hafa fiskað misjafnlega vel.


Sumarloðna berst til Neskaupstaðar

Danska loðnuskipið Ruth að taka nótina í Neskaupstað. Ljósm. Smári Geirsson.Danska uppsjávarskipið Ruth frá Hirtshals kom til Neskaupstaðar í morgun með 1800 tonn af loðnu sem fékkst í grænlensku lögsögunni. Um borð í Ruth eru fjórir starfsmenn Síldarvinnslunnar sem eru vanir nótaveiðum og lætur skipstjórinn afar vel af þeim. Í kjölfar danska skipsins kom síðan norska skipið Saebjorn til Neskaupstaðar með um 900 tonn af loðnu.

Norsk og dönsk loðnuskip hafa verið að fá ágætan afla í grænlensku lögsögunni að undanförnu. Samkomulag er í gildi um veiðar úr þessum loðnustofni og er hlutur Íslands 81%. Hlutur Grænlendinga er 11% og Noregs 8%. Að auki fá Norðmenn ákveðinn hluta frá Íslendingum vegna samnings um veiðar í Barentshafi. Grænlendingar hafa lengi eftirlátið Evrópusambandinu 2/3 af sínum kvóta og hafa dönsk skip oft veitt þann kvóta í grænlenskri lögsögu yfir sumartímann. Norðmenn hafa síðan takmarkaðan aðgang að grænlenskri lögsögu til að veiða úr stofninum.  

Barði millilandar í Hafnarfirði og Bjartur með góðan túr

Bjartur kemur til hafnar í Neskaupstað í gær. Ljósm. Hákon Viðarsson.Frystitogarinn Barði kom til Hafnarfjarðar í morgun og landar þar fullfermi. Aflinn er að mestu makríll en dálítið er þó af grálúðu og þorski. Skipið hefur síðustu daga verið að makrílveiðum suðvestur af landinu, í Grindavíkurdýpi og á nærliggjandi slóðum. Gert er ráð fyrir að Barði haldi á ný til veiða að löndun lokinni seint í dag og samkvæmt áætlun á veiðiferðinni að ljúka um næstu mánaðamót.

Ísfisktogarinn Bjartur kom til hafnar í Neskaupstað í gær að afloknum góðum túr. Aflinn var um 90 tonn og var hann mjög blandaður. Um 29 tonn aflans var þorskur, 23 tonn karfi, 19 tonn ufsi og 14 tonn grálúða. Að sögn Steinþórs Hálfdanarsonar skipstjóra gengu veiðarnar vel og var einkar auðvelt að ná þorski, karfa og grálúðu. Var skipið á veiðum í Berufjarðarál og í Seyðisfjarðardýpi.

Áhöfnin á Bjarti fer nú í þriggja vikna frí og er ráðgert að skipið haldi á ný til veiða hinn 5. ágúst.

Vinnsla á makríl hafin í fiskiðjuverinu í Neskaupstað

Makríl landað úr Berki NK í morgun.  Ljósm. Hákon ViðarssonVinnsla á makríl hófst í fiskiðjuverinu í Neskaupstað sl. laugardag. Þá kom Beitir með 550 tonna afla sem fékkst í Hvalbakshallinu í 4 holum. Þegar lokið var við að landa úr Beiti hófst löndun úr Berki sem kom með 450 tonn af sömu veiðislóð. Í sumum holanna var hreinn makríll en í einhverjum þeirra var aflinn síldarblandaður.

Bjarni Ólafsson AK er væntanlegur til Neskaupstaðar í dag með 380 tonn þannig að vertíðin fer vel af stað.

Jón Gunnar Sigurjónsson yfirverkstjóri í fiskiðjuverinu segir að það sé afar gott að vertíðin skuli vera hafin og vinnslan gangi vel strax í upphafi. „Fiskurinn er í reynd nákvæmlega eins og við reiknuðum með þannig að þetta er allt samkvæmt áætlun“, sagði Jón Gunnar. 

Nýja pökkunarstöðin vígð með pompi og pragt

Frá vígslu pökkunarstöðvarinnar.  Ljósm. Hákon ViðarssonÍ dag var nýja pökkunarstöðin sem reist hefur verið við fiskiðjuver Síldarvinnslunnar vígð. Framkvæmdir við stöðina hófust í byrjun aprílmánaðar og hafa gengið afar vel. Húsið er 1000 fermetrar að stærð og í því verður komið fyrir kassavélum og brettavafningsvélum þannig að allri framleiðslu fiskiðjuversins verður pakkað þar. Miðað við núverandi afköst fiskiðjuversins er full þörf á að bæta pökkunaraðstöðuna en vélbúnaðurinn í nýja húsinu er miðaður við afkastaaukningu sem fyrirhuguð er í manneldisvinnslunni.

Til vígsluhátíðarinnar var boðið öllum þeim sem komið hafa að hönnun og byggingu pökkunarstöðvarinnar og var þar glatt á hjalla. Jón Már Jónsson framkvæmdastjóri landvinnslu hjá Síldarvinnslunni var hress í bragði þegar við hann var rætt og lagði hann áherslu á að pökkunarstöðin væri mikilvægur áfangi í uppbyggingaráætlunum Síldarvinnslunnar á sviði manneldisvinnslu. „Framkvæmdir við byggingu hússins hafa gengið einstaklega vel“, sagði Jón Már. „Skipulag framkvæmdanna hefur verið afar gott og verktakar hafa staðið sig að öllu leyti með eindæmum vel. Byrjað var að grafa fyrir húsinu 8. apríl sl., uppsláttur hófst 25. apríl og byggingin varð fokheld um síðustu mánaðamót. Um leið og búið var að loka húsinu hófst vinna við uppsetningu vélbúnaðar og er hún komin vel á veg. Í reynd er magnað að sjá hús af þessari stærð rísa á rúmum þremur mánuðum og má þakka það Mannviti sem hannaði húsið og annaðist eftirlit með framkvæmdum og einnig helstu verktökum. Aðalverktaki var Nestak en eins komu að málum Haki ehf., Launafl ehf., Fjarðalagnir ehf., Sakki ehf., Húsið þitt ehf., Höfuð-Verk ehf., Ingólfur málari og fleiri smærri verktakafyrirtæki. Þá ber að nefna að starfsmenn Síldarvinnslunnar áttu sinn góða þátt í framkvæmdinni. Það má kalla ótrúlegt að framkvæmd eins og þessi skuli unnin á jafn stuttum tíma án þess að nokkurn tímann hafi komið upp samskiptavandamál á milli verktaka því oft var þröngt á þingi og hver að vinna ofan í öðrum á byggingarsvæðinu. Það liggur alveg fyrir að þessi framkvæmd er mjög vel heppnuð“, sagði Jón Már að lokum. 

Makríl- og síldarvertíð hafin af fullum krafti hjá Síldarvinnsluskipunum

Beitir fékk 100 tonn í fyrsta holi vertíðarinnar. Ljósm. Hákon ViðarssonUppsjávarskipið Beitir hélt til makrílveiða í gær og hóf þegar að toga í Hvalbakshallinu. Börkur mun síðan halda til veiða í dag. Tómas Kárason skipstjóri á Beiti sagðist vera þokkalega bjartsýnn hvað veiðihorfur varðaði. „Við vorum að hífa fyrsta holið eftir að hafa togað í 6 tíma og þetta eru um  100 tonn. Aflinn er nánast hreinn makríll, það er einungis ein og ein síld í þessu,“ sagði Tómas um hádegisbil í dag.

Frystitogarinn Barði hóf makrílveiðar í byrjun mánaðarins og hefur verið að veiðum fyrir suðaustan og sunnan land. Haft var samband við Theodór Haraldsson skipstjóra og sagði hann að veiðin hefði verið misjöfn þennan tíma: „Í byrjun túrsins fiskuðum við grálúðu en hófum makrílveiðar fljótlega; byrjuðum í Hvalbakshalli en höfum fært okkur vestar og erum nú í Grindavíkurdýpi. Ég reikna með að við verðum komnir með fullfermi, um 180 tonn af afurðum, í byrjun næstu viku og þá verður komið til löndunar“, sagði Theodór.

Viðbótarstarfsmenn ráðnir í fiskiðjuverið

Vaktir vegna makríl- og síldarvinnslu verða settar á í fiskiðjuverinu í Neskaupstað á næstu dögum. Ljósm.: Hákon Viðarsson.Makríl- og síldarvertíðin hefst óvenju seint hjá Síldarvinnslunni í ár miðað við síðustu ár. Ástæðurnar eru tvær: Í fyrsta lagi er síldarkvótinn minni en verið hefur og í öðru lagi vilja menn bíða þess að makríllinn fitni og verði betra hráefni til manneldisvinnslu. Nú er hins vegar ballið að byrja og unnið af krafti að gera allt klárt í fiskiðjuverinu fyrir vertíðina.

Í vor voru ráðnir um 20 nýir starfsmenn í fiskiðjuverið og einnig til að sinna ýmsum umhverfisverkefnum. Nú, þegar settar verða á vaktir vegna makríl- og síldarvinnslu, þarf að ráða álíka fjölda til viðbótar. Auglýst var eftir starfsfólki í síðustu viku og að sögn Hákonar Viðarssonar starfsmannastjóra voru viðbrögð góð við auglýsingunni og hafa borist margar atvinnuumsóknir. Þessa dagana er verið að fara í gegnum umsóknirnar og verður gengið frá ráðningum fyrir helgina.

Í upphafi vertíðarinnar verður unnið á þrískiptum vöktum í fiskiðjuverinu en í haust verður vaktakerfinu breytt og teknar upp tvískiptar vaktir. 

Skólastarf Sjávarútvegsskóla Fjarðabyggðar á Eskifirði

Nemendur Sjávarútvegsskóla Fjarðabyggðar á Eskifirði. Ljósm. Sigurður Steinn Einarsson.Á Eskifirði hófst kennsla í Sjávarútvegsskóla Fjarðabyggðar sl. mánudag. Nemendur þar eru 18 talsins og koma þeir frá Eskifirði og Reyðarfirði.

Á fyrsta kennsludegi voru fyrirlestrar um útgerð og fiskvinnslu á Íslandi. Á öðrum degi var farið í vettvangsheimsóknir í fiskimjölsverksmiðju Eskju og netaverkstæði Egersund ásamt því að fjallað var um markaðs- og gæðamál. Í dag var fjallað um sögu fiskveiða og hlýtt á gestafyrirlesara með mikla reynslu af sjómennsku auk þess sem farið var í heimsókn um borð í uppsjávarskipið Jón Kjartansson SU. Á morgun verður efnt til spurningakeppni þar sem nemendur verða spurðir út úr námsefni skólans og þeir  undirbúnir fyrir lokaverkefni námsins. Á föstudag verður farin útskriftarferð til Fáskrúðsfjarðar og Neskaupstaðar þar sem fyrirtæki og stofnanir verða heimsóttar og ýmislegt gert til skemmtunar. Í lokin fá nemendur síðan afhent útskriftarskírteini.

Beðið eftir að makríllinn fitni

Uppsjávarskip Síldarvinnslunnar bíða þessi að makríllinn bæti á sig. Ljósm. Hákon Viðarsson.Skip Síldarvinnslunnar hafa ekki hafið makrílveiðar ennþá en segja má að þau séu í startholunum. Þessa dagana og vikurnar er fiskurinn að fitna og gæði hans aukast eftir því sem tíminn líður. Gera má ráð fyrir að í íslensku lögsögunni séu gæðin hvað mest í septembermánuði og enn aukast þau eftir að fiskurinn er horfinn úr lögsögunni. Á meðan skipin bíða þess að hefja veiðarnar er dyttað að þeim og unnið er af krafti að undirbúningi vertíðarinnar í fiskiðjuverinu. Þessa dagana er til dæmis verið að setja upp vélar og búnað í nýrri pökkunarstöð fiskiðjuversins.

Á meðan á biðinni stendur er að sjálfsögðu fylgst náið með gangi makrílveiða hjá þeim skipum sem þegar hafa hafið þær. Vinnsluskipið Vilhelm Þorsteinsson EA hefur til dæmis landað frosnum afla tvisvar í Neskaupstað eftir að hann hóf veiðar. Hann landaði fyrst 476 tonnum 25. júní og sl. þriðjudag landaði hann 480 tonnum. Vilhelm hefur ekki átt í neinum vandræðum að fiska fyrir vinnsluna um borð og sama er að segja um Polar Amaroq sem veiðir í grænlensku lögsögunni. Athygli hefur vakið að makríl virðist vera að finna víða við landið þannig að þau skip sem þegar hafa hafið veiðar eru dreifð.


Skólastarf Sjávarútvegsskóla Fjarðabyggðar á Fáskrúðsfirði

Nemendur Sjávarútvegsskóla Fjarðabyggðar á Fáskrúðsfirði. Ljósm. Sylvía Kolbrá Hákonardóttir.Á Fáskrúðsfirði hófst skólastarf Sjávarútvegsskóla Fjarðabyggðar sl. mánudag. Nemendur þar eru 16 talsins og þar af 1 frá Stöðvarfirði og 3 frá Reyðarfirði.

Kennslan á Fáskrúðsfirði hefur gengið vel. Fyrirlestrar hafa farið fram í húsinu Tanga en að auki hafa nemendur heimsótt hraðfrystihús Loðnuvinnslunnar og uppsjávarskipið Hoffell ásamt því að fólk sem hefur mikla reynslu af störfum í sjávarútvegi hefur komið og frætt nemendur. Á morgun verður síðan farið í útskriftarferð til Eskifjarðar og Neskaupstaðar. Þá verður Verkmenntaskóli Austurlands heimsóttur ásamt MATÍS og öðrum fyrirtækjum sem þjónusta sjávarútveginn í Fjarðabyggð. Í ferðinni verður einnig gert ýmislegt til skemmtunar og útskrifarskírteini afhent. Að sögn Sigurðar Steins Einarssonar, Sylvíu Kolbrár Hákonardóttur og Elvars Inga Þorsteinssonar, sem starfa við skólann og annast kennslu, hefur nemendahópurinn á Fáskrúðsfirði verið mjög áhugasamur og skemmtilegt að vinna með honum.

Nk. mánudag mun skólahald hefjast á Eskifirði en Eskfirðingar og Reyðfirðingar munu sækja skólann þar og enn er mögulegt fyrir þá að skrá sig.

Nýbyggingin fokheld og uppsetning vélbúnaðar hafin

Nýja pökkunarstöðin orðin fokheld. Ljósm. Hákon Viðarsson.Pökkunarstöðin sem verið hefur í byggingu á hafnarsvæðinu í Neskaupstað er nú fokheld og er hafin uppsetning á vélum og búnaði í húsinu. Framkvæmdir við byggingu hússins hófust í byrjun apríl og er það áfast fiskiðjuverinu. Um er að ræða 1000 fermetra byggingu og mun hún hýsa kassavélar og brettavafningsvélar. Miðað við núverandi afköst fiskiðjuversins er mikil þörf á að bæta pökkunaraðstöðuna en eins er vélbúnaðurinn í nýja húsinu miðaður við afkastaaukningu sem fyrirhuguð er í framtíðinni.

Uppsetning vélbúnaðar hafin. Ljósm. Hákon Viðarsson.Öll áhersla er lögð á að uppsetningu véla í pökkunarstöðinni verði lokið áður en makríl- og síldarvinnsla hefst í fiskiðjuverinu en gert er ráð fyrir að skip Síldarvinnslunnar hefji veiðar á makríl og síld í fyrri hluta þessa mánaðar.

Barði með hörkugóðan grálúðutúr

Grálúðu landað úr Barða í gær. Ljósm. Hákon Viðarsson.Frystitogarinn Barði kom til hafnar í Neskaupstað á sunnudagskvöld að aflokinni afar vel heppnaðri veiðiferð. Skipið hélt úr höfn eftir sjómannadag og var ætlunin að veiða úthafskarfa. Karfinn lét hins vegar hvergi á sér kræla og því var haldið til lands að viku liðinni og skipið undirbúið fyrir grálúðuveiðar austur af landinu.

Sannast sagna gengu veiðarnar á grálúðunni vel og millilandaði Barði um miðjan júní. Skipið kom síðan til löndunar að aflokinni veiðiferðinni á sunnudagskvöld eins og fyrr greinir. Að sögn Bjarna Ólafs Hjálmarssonar skipstjóra er hér um að ræða einn albesta túrinn í sögu frystitogarans og áhöfnin afar sátt við veiðiárangurinn. Aflinn í veiðiferðinni var um 340 tonn upp úr sjó og nemur verðmæti aflans um 183 milljónum króna.

Barði mun halda til veiða á ný á föstudag og er þá reiknað með að sótt verði í makríl, en útgefinn makrílkvóti skipsins er um 1000 tonn.


Lyftaranámskeið – stúlkur helmingur þátttakenda

Þátttakendur á lyftaranámskeiðinu. Jónas Þór Jóhannsson leiðbeinandi stendur aftast. Ljósm.: Hákon Viðarsson.Þessa dagana er haldið tveggja daga lyftaranámskeið fyrir starfsfólk Síldarvinnslunnar. Námskeiðið er á vegum Vinnueftirlits ríkisins og er Jónas Þór Jóhannsson leiðbeinandi. Námskeiðið sitja 13 starfsmenn og er um helmingur þeirra stúlkur.

Á námskeiðinu er fjallað um öryggi, réttindi og skyldur ásamt því að vélum og búnaði eru gerð skil. Að sögn Jónasar Þórs gengur námskeiðið vel og eru þátttakendur áhugasamir. „Það er einstaklega gleðilegt hvað kvenfólk er að koma sterkt inn á þetta svið en en hlutur þeirra fer vaxandi hjá stærstu fyrirtækjunum hér eystra. Konur hafa reynst afar vel sem vinnuvélastjórnendur og eru oft bæði lagnari og gætnari en við karlmennirnir“, sagði Jónas Þór.

Námskeið um borð í Sæbjörgu

Hilmar Snorrason skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna. Ljósm. Hákon Viðarsson.Sæbjörg, skip Landsbjargar, liggur nú í höfn í Neskaupstað þar sem sjómönnum er boðið upp á öryggisnámskeið á vegum Slysavarnaskóla sjómanna. Í gær fór kennsla fram á tveimur námskeiðum; annars vegar eins dags námskeiði fyrir smábátasjómenn þar sem þátttakendur voru fimm og hins vegar tveggja daga endurmenntunarnámskeiði fyrir sjómenn á stærri skipum þar sem þátttakendur voru fjórtán. Annað endurmenntunarnámskeið fyrir sjómenn á stærri skipum mun síðan hefjast í dag. Sjómenn á skipum Síldarvinnslunnar hafa fjölmennt á þessi námskeið og er það svo sannarlega þægilegra fyrir þá að fá skólann til sín en að þurfa ferðast um langan veg til að geta sótt sér viðkomandi menntun.

Hilmar Snorrason, skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna, sagði að námskeiðin hafi gengið vel og það væri ánægjulegt að geta komið og boðið upp á fræðsluna á heimaslóðum sjómannanna. Sæbjörgin hefur ekki siglt á milli hafna til námskeiðahalds síðan 2008 en þá voru fjárveitingar til skólahaldsins skornar niður. Hins vegar hafa kennarar Slysavarnaskóla sjómanna farið víða og kennt á námskeiðum. Nú er Sæbjörg á leið í slipp á Akureyri og þá var tækifærið notað og komið við á nokkrum höfnum og boðið upp á námskeið um borð. Fyrst var komið við í Vestmannaeyjum og nú liggur skipið í Neskaupstað. Þvínæst verður haldið til Seyðisfjarðar og loks til Akureyrar. Hilmar segir að aðsóknin á öryggisnámskeið sjómanna hafi aukist verulega eftir hrun og meðal annars hafi margir sótt sérhæfð námskeið fyrir þá sem ætla sér að stunda sjómennsku erlendis.

Öryggisnámskeið um borð í Polar Amaroq

Grænlendingarnir á Polar Amaroq í neyðarflotgöllum ásamt Þórarni Þórarinssyni kennara. Ljósm. Geir ZoëgaGrænlenska uppsjávarskipið Polar Amaroq hefur að undanförnu verið á Akureyri þar sem starfsmenn Slippstöðvarinnar hafa unnið að því að auka frystigetuna um borð. Því verki er nýlega lokið og mun skipið halda til makrílveiða í dag. Eins og lesendum heimasíðunnar er kunnugt er Polar Amaroq í eigu grænlenska fyrirtækisins Polar Pelagic og á Síldarvinnslan þriðjungshlut í því.

 Sjóæfingar fóru fram. Ljósm. Geir ZoëgaÁ meðan unnið var í skipinu á Akureyri var efnt til öryggisnámskeiðs fyrir Grænlendingana í áhöfninni. Þórarinn Þórarinsson kennari í Slysavarnaskóla sjómanna kom norður sl. mánudag og kenndi á námskeiðinu en þörf þótti á að fara yfir allan öryggisbúnað skipsins sem Polar Pelagic festi kaup á í desember sl. Á námskeiðinu var farið yfir reykköfunarbúnað, notkun neyðarflotgalla, notkun Björgvinsbeltis, flutning á meðvitundarlausum manni og björgun úr lest svo nokkuð sé nefnt. Mikil ánægja var með námskeiðið að sögn Geirs Zoega skipstjóra enda skiptir öryggisvitund skipverja miklu máli.

Arndís uppfærð og endurbætt

Stjórnendur fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar funda um Arndísi. Ljósm. Hákon Viðarsson.Arndís nefnist upplýsingakerfið eða tölvugagnaskráin sem fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar nota. Í Arndísi eru skráðar allar nauðsynlegustu upplýsingar sem verksmiðjurnar þurfa á að halda allt frá móttöku hráefnis til útskipunar afurða. Kerfið tryggir fullkominn rekjanleika þannig að unnt er að skoða einkenni  hráefnisins sem berst til vinnslu hverju sinni og eðli afurðanna úr því.

Fyrir stjórnendur fiskimjölsverksmiðjanna er Arndís gulls ígildi og í kerfinu er að finna allar upplýsingar um vertíðir frá árinu 1993. Þetta gagnakerfi fiskimjölsverksmiðjanna er eins og önnur tölvukerfi; ávallt þar að uppfæra þau, endurskoða og bæta. Fyrr í þessum mánuði var haldinn fundur í Neskaupstað þar sem stjórnendur fiskimjölsverksmiðjanna hittust og yfirfóru nýjustu breytingarnar á kerfinu. Það var Ólafur Garðarsson hjá Íkon ehf. sem kynnti breytingarnar en hann hefur unnið að mótun Arndísar frá upphafi. Nýjustu umbæturnar fela í sér meðal annars að allar skráningar verða auðveldari og unnt verður að flytja upplýsingar úr kerfinu yfir í önnur gagnakerfi fyrirtækisins. Þessar breytingar eru til mikilla þæginda fyrir stjórnendur að sögn Gunnars Sverrissonar rekstrarstjóra fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar.

Arndís á sér alllanga sögu og má rekja upphaf hennar allt aftur til áranna 1984-1985 en vart er unnt að tala um heildstæða tölvugagnaskrá fyrr en á árinu 1993. Það voru í reynd verksmiðjustjórar Síldarverksmiðja ríkisins og síðar SR-mjöls sem mótuðu Arndísi í samvinnu við Ólaf Garðarsson þannig að upplýsingakerfið hefur alla tíð tekið mið af þeim þörfum sem voru til staðar í iðnaðinum. Arndís heitir eftir Arndísi Steinþórsdóttur sem starfaði í sjávarútvegsráðuneytinu og var fyrsti stjórnarformaður SR-mjöls. Þegar Síldarvinnslan og SR-mjöl sameinuðust árið 2003 kynntust starfsmenn Síldarvinnslunnar kerfinu og hófu að nota það. 


Sjávarútvegsskóli Fjarðabyggðar tekinn til starfa

Nemendur fengu að prófa að títra og vakti það mikla lukku að vökvinn breytti um lit en rauður litur táknar sýru en blár basa. Ljósm. Sigurður Steinn EinarssonSjávarútvegsskóli Fjarðabyggðar var settur í Neskaupstað síðastliðinn mánudag. Það var Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar sem setti skólann og í máli sínu lagði hann mikla áherslu á nauðsyn þess að ungt fólk í sjávarbyggðum kynntist sjávarútvegi sem atvinnugrein og áttuðu sig á mikilvægi hennar fyrir samfélagið. Kennsla í skólanum mun einnig fara fram á Fáskrúðsfirði og Eskifirði. Á Fáskrúðsfirði hefst skólahaldið hinn 30. júní og á Eskifirði 7. júlí. Í Neskaupstað er  21 nemandi í skólanum en skráningar í skólann standa enn yfir á Fáskrúðsfirði, Stöðvarfirði, Reyðarfirði og Eskifirði.

Að lokinni skólasetningu hófst kennsla  og voru nemendur fræddir um sögu sjávarútvegsins og þær breytingar sem átt hafa sér stað á sviði veiða. Á næsta skóladegi var fiskiðjuver Síldarvinnslunnar heimsótt og síðan fjallað um þróun fiskvinnslu. Á þriðja degi verður fluttur fyrirlestur um gæðamál og markaðsmál ásamt því að Verkmenntaskóli Austurlands verður heimsóttur en verða nemendur fræddir um nám sem tengist sjávarútvegi með beinum og óbeinum hætti. Á fjórða degi koma gestafyrirlesarar í skólann en þar er um að ræða fólk sem starfar í sjávarútvegi og hefur jafnvel upplifað afgerandi breytingar í greininni. Einnig spreyta nemendur sig í fiskiquiz þann daginn. Á lokadegi skólans verður farið í ferðalag og hraðfrystihús Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði heimsótt ásamt fiskimjölsverksmiðjunni á Eskifirði, Fiskmarkaði Austurlands, veiðarfæragerð o. fl. Einnig verður farið um borð í fiskiskip á lokadeginum og fræðst um störf sjómanna og veiðibúnað.

Hópur nemenda Sjávarútvegsskólans í Neskaupstað. Ljósm. Sigurður Steinn EinarssonAð sögn Sigurðar Steins Einarssonar skólastjóra hefur kennslan í Neskaupstað gengið vel til þessa og nemendur verið einkar áhugasamir. Upplýsti Sigurður að nemendum kæmi á óvart hve tæknistig væri hátt í sjávarútveginum og hve störfin í atvinnugreininni væru fjölbreytt. Þá sagði Sigurður að nemendum þætti afar gaman að spreyta sig á ýmsum verkefnum eins og til dæmis að flaka fisk. Aðspurður sagði Sigurður að skráningar í skólann gengju vel utan Neskaupstaðar en aðsóknin í Neskaupstað hefði farið fram úr björtustu vonum. 

Undirflokkar