Landkrabbar í makríltúr

           Landkrabbar í brúnni á Berki NK. Guðmundur Bjarnason til vinstri og Smári Geirsson til hægri. Ljósm: Hjörvar Hjálmarsson     Ég var staddur í Reykjavík þriðjudaginn 12. ágúst þegar Guðmundur Bjarnason hringdi. „Nú er komið að því,“ sagði hann, „við förum saman í makríltúr á Berki á fimmtudagskvöld. Ég er búinn að tala við Hjörvar skipstjóra og hann gerir ráð fyrir okkur.“ Ég varð strax spenntur, enda höfðum við félagarnir árum saman talað um að fara saman til sjós á einhverju Síldarvinnsluskipanna og upplifa nútímaveiðar. Gummi hefur miklu meiri reynslu af sjómennsku en ég; hann hafði farið í allmarga róðra á trillu, á barnsaldri fylgt föður sínum á síldveiðar úti fyrir Norður- og Norðausturlandi á Gullfaxa, farið í handfæratúr við Langanes á Dröfninni, verið gestur og reyndar háseti á Bjarti hluta úr sumri í kringum 1975 og farið í loðnutúr á gamla Berki fyrir óralöngu. Þessi afrekaskrá Gumma var tilkomumikil miðað við mína; ég hafði aldrei farið í fiskiróður og aldrei upplifað alvöru veiðiskap af nokkru tagi. Makríltúr yrði því einstök upplifun fyrir mig. Auðvitað teljumst við báðir vera landkrabbar en Gummi hafði þó áður migið í saltan sjó sem ég hafði ekki gert.

                Þegar ég kom austur á miðvikudagskvöldi hafði ég samband við Gumma og við vorum báðir fullir tilhlökkunar. Hann sagðist ekki ætla að fá sér sjóveikistöflur hvað þá sjóveikisplástur en ég velti því fyrir mér hvort ekki væri öruggara að verða sér úti um slíkt. Það yrði skelfilegt ef túrinn færi allur í vanlíðan og ælustand. Ég hringdi í Hjörvar skipstjóra og hann sagði mér að töflur og plástur væru óþarfi. „Þið eruð að fara út á almennilegu skipi og þurfið ekki á slíku að halda,“ sagði Hjörvar og bætti við að spáin væri afar góð fram á laugardag en þá ætti hins vegar að ganga í brælu. „Við verðum á landleið eða komnir í land þegar brælir,“ fullyrti skipstjórinn. Ég tók fullkomið mark á skipstjóranum og apótekið missti því af öllum sjóveikistöfluviðskiptum þetta sinnið.

                Klukkan fimm á fimmtudag skyldi látið úr höfn. Við Gummi vorum mættir um borð klukkan hálf fimm. Gummi deildi skipstjóraklefanum með frænda sínum Hjörvari en mér var vísað á sjúkraklefann. Þetta var eins og að koma inn í hótelherbergi; uppbúin rúm og allt til alls. Ég hafði spurt skipstjórann daginn áður hvað ég þyrfti að taka með mér á sjóinn og svar hans var stutt og laggott: „Taktu með þér tannburstann, það er nóg.“ Spurningin var sú hvort það hefði einhverja merkingu að úthluta mér sjúkraklefanum. Gerðu menn ráð fyrir að heilsufarið yrði dapurt í túrnum ? Óneitanlega velti ég þessu fyrir mér. 

                Þegar við komum um borð var okkur tjáð að tveir myndatökumenn frá Hampiðjunni myndu einnig koma með í túrinn. Þeim var ætlað að mynda veiðarnar og efnið sem þeir öfluðu yrði síðan notað á sjávarútvegssýningunni sem haldin yrði í Reykjavík í september. Myndatökumennirnir létu bíða eftir sér og því frestaðist brottför skipsins um klukkustund.

                Klukkan sex voru landfestar leystar. Þegar siglt var út Norðfjarðarflóann hreyfðist skipið dálítið og ég velti því fyrir mér hvort það hefðu verið mistök að sleppa sjóveikistöflunum. Þegar komið var út úr flóanum og siglt suður með Síðunni varð sjórinn hins vegar rennisléttur og segja má að hann hafi verið þannig allan túrinn. Skipið hreyfðist lítt og valt ekkert fyrr en við Norðfjarðarhornið á landleið enda var þá skollin á áðurnefnd bræla.

                Börkur er eitt glæsilegasta fiskiskip íslenska flotans, 3588 tonn að stærð og lestar 2500 tonn. Um borð eru öll þægindi og fullyrtu allir kallarnir í áhöfninni að þetta væri besta skip sem þeir hefðu verið á. Þrátt fyrir stærðina þykir skipið lipurt, það er vel búið til veiða og sjóskip er það frábært. Um borð var níu manna áhöfn: Skipstjóri, tveir stýrimenn, þrír vélstjórar, kokkur og tveir hásetar. Allt voru þetta vanir menn sem gengu fumlaust að sínum störfum og verkaskiptingin virtist vera skýr. Allt sem laut að veiðunum gekk hratt og vel fyrir sig en á meðan togað var sinnti mannskapurinn ýmsum verkefnum og þar voru þrif ofarlega á baugi. Í túrnum átti Gunnar Bogason kokkur afmæli og ef til vill hefur það verið skýringin á því að veislumatur var á borðum allan túrinn. Ég trúi því vart að boðið sé upp á svona fæði í hverri veiðiferð því þá litu kallarnir um borð öðruvísi út en þeir gera.
Gunnar Bogason kokkur, afmælisbarnið í eldhúsinu. Ljósm: Smári Geirsson
                Þegar komið var út úr flóanum hafði Hjörvar skipstjóri samband við skip á miðunum til að fá fréttir. Þær fréttir bárust frá Beiti og Lundey að aflinn hjá þeim væri töluvert síldarblandaður en það er eitthvað sem menn vilja forðast á þessum árstíma. Áherslan skyldi lögð á að veiða makríl og flytja að landi gott hráefni til vinnslu. Svo hráefnið yrði sem best mátti ekki taka of mikinn afla í hverju holi og ekki toga of lengi hverju sinni.

                Hjörvar setti stefnuna á Breiðdalsgrunn þrátt fyrir að við Gummi teldum tilhlýðilegt að stefna á Rauða torgið. Á Breiðdalsgrunni hafði fiskast vel í síðasta túr og þar fengist góður afli sem hentaði vel til vinnslu. Fyrir lá að aflinn mátti helst ekki fara mikið yfir 450 tonn því verið var að landa úr Bjarna Ólafssyni og ekki yrði langt í að Beitir héldi til löndunar með góðan afla. Bátunum var skammtað veiðimagn allt í þeim tilgangi að hráefnið yrði sem best og ferskast þegar það kæmi til vinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.

                Þegar ákveðið var hvert stefna skyldi var haldið í messann og var þar boðið upp á dýrindis svínasnitsel. Ég velti því fyrir mér hvort allar máltíðirnar í túrnum myndu renna jafn ljúflega niður og snitselið gerði. Að lokinni máltíðinni hvatti Hjörvar okkur Gumma til að fara í koju en hann skyldi ræsa okkur snemma um morgunin þegar fyrsta holið yrði tekið. Mér gekk ekkert sérstaklega vel að sofna. Malið í vél skipsins truflaði og eins var spenningurinn fyrir því að upplifa veiðarnar töluverður. Að því kom þó að svefninn sótti á.

                Á meðan við Gummi hrutum og létum okkur dreyma hófst veiðiskapurinn. Byrjað var að toga klukkan eitt eftir miðnætti og upp úr klukkan fimm um morguninn var barið fast á klefadyrnar og hrópað: „Það á að fara að taka trollið.“ Við félagarnir bröltum á fætur, drifum okkur í morgunmat hjá afmælisbarninu og síðan var haldið upp í brú þar sem við fylgdumst með öllu sem á gekk. Trollið var dregið inn eftir kúnstarinnar reglum og pokinn með aflanum hífður fram með stjórnborðssíðunni. Dælunni síðan komið fyrir og dæling á aflanum um borð hafin. Aflinn rann ljúflega sína leið og vélstjórarnir stýrðu honum í lestarnar þar sem kældur sjórinn beið hans.
Trollið tekið. Ljósm: Smári Geirsson
                Hörður vélstjóri gaf upp magnið úr fyrsta holinu þegar dælingu var lokið. Það reyndist vera 147 tonn af þokkalega góðum makríl. Sýnatökur sýndu hins vegar að átan í fiskinum væri of mikil og um það bil 10% aflans væri síld. Þetta þýddi að menn voru þokkalega ánægðir með magnið og töldu síldarhlutfallið viðsættanlegt en hins vegar voru menn ósáttir við átuna.

                Klukkan átta um morguninn var kastað á ný og byrjað að toga. Nú fylgdumst við Gummi með öllu frá upphafi og sátum hjá Hjörvari í brúnni. Við heimtuðum útskýringar á öllum hans aðgerðum og góndum á mælana. Þegar birtist stór og girnileg torfa á mælunum fylltumst við spenningi og töldum að nú fengist góður afli á örskotsstundu. Hjörvar tók hins vegar fljótt ákvörðun um að sneiða hjá torfunni: „Hún er síldarleg þessi,“ sagði hann og vildi þess vegna forðast hana eins og heitan eldinn.

                Hægt var að fylgjast með innkomunni í trollið á einum mælanna. Hjörvar sagði að hann sæktist eftir gulum lit á innkomunni því það væri makríll, síldin birtist hins vegar sem rauðir punktar. Aflanemarnir komu inn hver á fætur öðrum. Fyrst kviknaði  á „aumingjanum“ sem sýndi að um 30 tonn voru komin í pokann, næsti nemi sýndi um 60 tonn og þegar fjórði neminn var inni var ljóst að fiskurinn í pokanum myndi vega 120-130 tonn og þá var kominn tími til að hyggja að því að taka trollið.
Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri fylgist náið með tækjunum. Ljósm: Smári Geirsson
                Trollið var tekið eftir að togað hafði verið í fjóran og hálfan tíma og aflinn reyndist vera liðlega 150 tonn. Sýnatökur sýndu að miklu minni áta var í fiskinum en hafði verið í fyrsta holinu en hins vegar reyndist um 30% aflans vera síld og það voru menn ekki sáttir við.

                Aflanemarnir komu seint inn í þriðja holi veiðiferðarinnar enda tjáði Hjörvar okkur félögunum að oft væri lítil veiði um hábjartan daginn. Aldrei virtist ætla að kvikna á fyrsta nemanum og hálfgerð ördeyða ríkti þegar togað var yfir hin þekktu togaramið Bæli karlsins og Tólf tonna pyttinn. Við Gummi vorum orðnir hálf örvæntingarfullir en Hjörvar var rólegur. Örvæntingin hvarf hins vegar eins og dögg fyrir sólu þegar togað var yfir Örvæntingarhorn því þá lóðaði á mikinn fisk og innkoman í trollið var í góðu lagi. Trollið var síðan tekið eftir að togað hafði verið í þrjá og hálfan tíma og reyndist aflinn vera 117 tonn. Það var meiri afli en menn höfðu gert ráð fyrir um þetta leyti dags og sáust brosviprur á andlitum kallanna.

                Eins og fyrr segir skyldi aflinn ekki vera meiri en 450 tonn í túrnum og því var einungis þörf á að taka eitt stutt kvöldhol til viðbótar. Hjörvar heyrði í skipstjóranum á Lundey og upplýsti hann að þeir hefðu rekist á allstóra makríltorfu í um 6-7 mílna fjarlægð. Ákveðið var að halda í áttina að því svæði og var trollinu kastað um klukkan átta um kvöldið. Ágætis innkoma var strax í trollið og fljótlega kviknaði á  fyrstu tveimur aflanemunum. Þá var kominn tími til að hætta þó vissulega hefði verið freistandi að toga lengur enda skila kvöldholin oft mestum afla. Aflinn úr þessu síðasta holi reyndist vera 79 tonn og var fiskurinn einkar stinnur og fallegur enda hafði einungis verið togað í einn og hálfan tíma. Dælingu aflans lauk um klukkan 11 um kvöldið.
Dæling úr kvöldholinu. Ljósm: Smári Geirsson
                Þegar veiðum var lokið hóf áhöfnin að vinna við ýmsar lagfæringar á veiðarfærinu ásamt því að þrífa og  ganga frá fyrir heimsiglinguna. Þeim verkum lauk ekki fyrr en um klukkan tvö um nóttina.

                Við Gummi vorum stoltir og ánægðir þegar í land var komið. Aflinn var tæplega 490 tonn og tvennt stóð uppúr að lokinni veiðiferðinni: Við urðum ekki sjóveikir og við reyndumst engar fiskifælur. Það gat ekki verið betra. Það var í reyndinni ævintýri að fá að upplifa veiðiferð sem þessa. Þarna skynjuðum við hve tæknin spilar stórt hlutverk í veiðunum og hve skipulagið um borð er gott og áhöfnin samstillt og vinnusöm. Þá skemmdi skipið sjálft ekki fyrir en Börkur er sannkallað glæsifley sem fer vel með afla og mannskap.

Smári Geirsson

Örtröð í Norðfjarðarhöfn

Þrjú skip við festar á Norðfirði og bíða eftir að komast að. Fjórða skipið er mjölskip á leið til Noregs. Ljósm. Sigurður Steinn EinarssonEins og stundum áður þegar makríl- og síldarvertíð stendur yfir er mikið um að vera í Norðfjarðarhöfn. Veiðiskipin koma hvert af öðru með afla til vinnslu og vinnsluskip landa í frystigeymslur Síldarvinnslunnar. Þá koma flutningaskipin hvert af öðru til að lesta afurðir. Í morgun var verið að landa um 500 tonna afla úr Berki NK og nýlega var lokið við að landa afla úr Bjarti NK. Þá beið Bjarni Ólafsson AK löndunar með um 500 tonna afla. Fyrir utan þessi veiðiskip liggur flutningaskip í höfninni sem er að taka 3.500 tonn af frystum makríl til Afríku og skip sem var að lesta 580 tonn af mjöli. Úti á firði biðu síðan þrjú flutningaskip eftir því að komast að en öll eiga þau að lesta frystar afurðir. Hið fyrsta þeirra mun taka 1.500 tonn til Evrópu, annað mun sigla til Eystrasaltsins með um 2.000 tonn og hið þriðja mun taka 6.000 tonn til Afríku. Alls munu því fara um 13.000 tonn af frystum afurðum um borð í flutningaskipin sem komin eru til Norðfjarðar.

Makrílvertíðin gengur vel

Makrílvertíð í fullum gangi. Ljósm: Sigurður Steinn Einarsson
Að undanförnu hafa makrílveiðar gengið vel hjá skipum sem landa í Neskaupstað og vinnslan hefur sömuleiðis gengið með ágætum. Aflinn sem berst að landi er dálítið síldarblandaður en fiskurinn verður betra hráefni eftir því sem á líður. Afli Beitis, Barkar og Bjarna Ólafssonar er unnin í fiskiðjuverinu en að auki hafa vinnsluskipin Vilhelm Þorsteinsson og Kristina landað frystum afurðum í frystigeymslurnar. Frystitogarinn Barði lagði stund á makrílveiðar í júlímánuði og fór í þrjá fullfermistúra. Ísfisktogarinn Bjartur er að halda í sinn fjórða makrílveiðitúr og er hann jafnframt lokatúr skipsins á þeim veiðum. Bjartur hefur landað sínum afla til vinnslu í fiskiðjuverinu.

                Útskipanir á makríl eru hafnar af fullum krafti. Í dag er verið að skipa út 3500 tonnum sem fara til Nígeríu og í næstu viku koma tvö skip. Annað mun lesta 5000 tonn sem einnig fara til Afríku og hitt 1500 tonn sem fara til Portúgal. Þannig að alls verður skipað út 10.000 tonnum á einni viku. „Það er mikið að gera núna,“ sagði Heimir Ásgeirsson yfirverkstjóri í frystigeymslunum, „fyrir utan þessi 10.000 tonn sem eru að fara frá okkur á nokkrum dögum munu vinnsluskipin Kristina og Vilhelm Þorsteinsson koma til löndunar eftir helgi. Þetta er eins og það á að vera,“ sagði Heimir að lokum.

Birtingur til makrílveiða við Grænland

Birtingur NK við nýja viðlegukantinn í Norðfjarðarhöfn. Ljósm: Sigurður Steinn Einarsson

Birtingur NK mun láta úr höfn í Neskaupstað í kvöld og halda til makrílveiða í grænlensku lögsögunni. Skipið mun veiða úr kvóta grænlenska fyrirtækisins Polar Seafood. Skipstjóri á Birtingi verður Steinþór Hálfdanarson.  
 

Sjávarútvegsfyrirtækin á Austfjörðum greiddu 9% af tekjuskatti fyrirtækja á Íslandi

Á Austfjörðum starfa stór og öflug sjávarútvegsfyrirtæki sem eiga það flest sameiginlegt að leggja áherslu á veiðar og vinnslu á uppsjávarfisk. Starfsemi þessara fyrirtækja er ekki aðeins mikilvæg fyrir landsvæðið heldur stendur starfsemi þeirra undir 4,2% af landsframleiðslu. Þá skiptir starfsemi þeirra miklu í gjaldeyrissköpun Íslendinga en árið 2012 fluttu þessi fyrirtæki út sjávarafurðir fyrir 46 milljarða króna sem nemur 7,3% af útflutningsverðmætum Íslendinga það ár. Vekur það athygli að sjávarútvegsfyrirtækin á Austfjörðum greiddu 9% af tekjuskatti fyrirtækja á Íslandi árið 2012.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í skýrslunni „Umsvif sjávarútvegs á Austfjörðum“ sem hagfræðineminn Ásgeir Friðrik Heimisson hefur unnið að í sumar en skýrslan er unnin fyrir Austurbrú. Þá segir Ásgeir ekki hafa gert sér grein fyrir því hversu mikið umfang sjávarútvegurinn á Austfjörðum hafi í hagkerfi Íslendinga en um 3.400-4.700 starfa á Íslandi má rekja til starfsemi sjávarútvegsins á Austfjörðum.

Ásgeir mun halda kynningu um niðurstöður skýrslunnar á Egilsbraut 11 (Kreml) í Neskaupstað á þriðjudaginn nk. kl 17:00 og er kynningin opin öllum. 

Skýrsluna má í heild sinni lesa hér

14 þúsund tonnum af makríl landað í Neskaupstað

Margur er knár þó hann sé smár átti vel við þegar Bjartur NK sigldi framhjá Kristinu EA í gær. Ljósm: Sigurður Steinn Einarsson

Vinnsla hófst aftur í fiskiðjuverinu á mánudaginn eftir verslunarmannahelgi þegar Beitir NK kom með 450 tonn til vinnslu. Börkur NK er að landa 490 tonnum í fiskiðjuverið og Bjarni Ólafsson AK er kominn með 430 tonn á leið í vinnslu. Í gær fór Bjartur NK í sinn fyrsta makríltúr sumarsins og Barði NK hélt til veiða í sinn fjórða túr. Eru þá öll skip Síldarvinnslunnar á makríl nema Birtingur NK.

Það sem af er sumri hafa skip Síldarvinnslunnar landað um 8 þúsund tonnum af makríl og má því segja að makrílvertíðin gangi vel. Frystigeymslur Síldarvinnslunnar hafa tekið á móti um 4.000 tonnum af makríl frá Vilhelm Þorsteinssyni EA og nú er Kristina EA að landa um 2.000 tonnum. Hefur því verið landað 14 þúsund tonnum af makríl í Neskaupstað það sem af er sumri.

Góð makrílveiði í Hvalbakshallinu

Fiskiðjuver og frystigeymslur Síldarvinnslunnar. Ljósm. Sigurður Steinn Einarsson

Mjög góð makrílveiði hefur verið á Austfjarðamiðum undanfarna daga og hefur fiskiðjuver Síldarvinnslunnar verið á fullum afköstum. Bjarni Ólafsson AK kom með rúm 400 tonn af makríl á sunnudaginn, daginn eftir kom Beitir NK með um  500 tonn og í morgun kom Börkur NK með 460 tonn til vinnslu. „Mjög góð veiði er í Hvalbakshallinu og fengum við aflann í fjórum holum. Þetta er allt saman hreinn makríll“ segir Sturla Þórðarson skipstjóri á Berki NK.


Á morgun er von á Bjarna Ólafssyni AK til löndunar og að því loknu verður fiskiðjuverið þrifið. Stafsmönnum fiskiðjuversins verður svo gefið frí frá laugardegi til mánudags til að taka þátt og njóta glæsilegrar dagskrár Neistaflugs sem fer fram í Neskaupstað um helgina.

Amerísk sjónvarpsstjarna í heimsókn hjá Síldarvinnslunni

Sjónvarpsstjarna úr amerísku þáttaröðinni „Deadliest Catch“ kynnti sér starfsemi Síldarvinnslunnar í dag. Rick Fehst var skipstjóri á bátnum Early Dawn en fyrir þá sem ekki vita snýst þáttaröðin um dramatískar veiðar á krabba í erfiðum veðurskilyrðum fyrir utan strendur Alaska. Hann er hér á landi til að undirbúa samstarf Háskólans í West-Kentucky og Háskólans á Akureyri á sviði hnattrænna hlýnunar.  


Rick vinnur hjá „Semester at Sea“ sem er námslota fyrir háskólanema þar sem kennt er um borð í skipi og fer kennsla fram að jafnaði í 100 daga á hafi úti. Semester at Sea var stofnað árið 1963 og hafa 55.000 háskólanemar útskrifast úr lotunni. Rick segist hafa kynnst hnattrænni hlýnun beint í starfi sínu en hann hefur verið 35 ár á sjó og tekið eftir miklum breytingum í hafinu. Nefnir hann að gott dæmi um áhrif hlýnunarinnar hér á landi vera aukna göngu makríls við Ísland.

Fór Rick í heimsókn í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar en nú stendur yfir frysting á síld og makríl úr Berki NK. Kom honum á óvart hversu hátt tæknistigið væri hér á landi og hafði hann oft velt því fyrir sér hvernig svo fámenn þjóð gæti framleitt svo mikið en eftir að hafa skoðað skipaflotann og fiskvinnslur landsins væri hann farinn að skilja málið betur. 

Aflahæsta löndunarhöfn Íslands stækkar við sig​

Birtingur skartar sínu fegursta við nýja viðlegukantinn. Í bakgrunn má sjá Vilhelm Þorsteinsson EA landa í bræðslu og Börk NK sem kemur til löndunar í fiskiðjuverið. Ljósm. Sigurður Steinn EinarssonNú stendur yfir stækkun á Norðfjarðarhöfn þar sem unnið er að því að gera höfnina rýmri og aðgengilegri fyrir stærri skip.Í gær var svo komið að því að nýr 60 metra viðlegukantur var vígður þegar Birtingur NK lagðist upp að.  

Undanfarin ár hefur Norðfjarðarhöfn verið ein umsvifamesta höfn landsins. Síðustu ár hefur verið landað yfir 200 þúsund tonnum í höfninni. Það sem af er ári hefur verið landað 97 þúsund tonnum í Norðfjarðahöfn. Mikil verðmæti fara um höfnina og til að mynda var aflaverðmæti þess afla sem fór um höfnina í fyrra rúmir 15 milljarðar króna.

Vertíðin er komin vel af stað í Neskaupstað en Beitir NK varað ljúka löndun á 480 tonnum í fiskiðjuverið og Börkur NK er að landa 460 tonnum. Einnig er Vilhelm Þorsteinsson að landa afla sínum, um 700 tonnum, þar af 500 tonnum í frystigeymslur Síldarvinnslunnar. Barði NK er væntanlegur til löndunar á morgun með fullfermi af makríl en hann hefur verið á miðunum utan Reykjaness.

Yfir 3000 tonn af makríl og síld til fiskiðjuvers Síldarvinnslunnar

 Vinnsla á makríl og síld gengur vel í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Ljósm. Hákon Viðarsson.​Í gær kom Beitir NK með um 400 tonn af makríl og síld til Neskaupstaðar og eru þá komin 3100 tonn til fiskiðjuvers Síldarvinnslunnar á vertíðinni. Klárað var að landa 330 tonnum úr Bjarna Ólafssyni AK í gær. Vinnsla í fiskiðjuverinu hófst sl. laugardag og hefur hún gengið vel.

Skipin hafa verið að veiðum suðaustur af landinu. Þau hafalagt áherslu á að veiða makríl en fengið bæði norsk-íslenska síld og íslenska sumargotssíld sem meðafla.

85% árgangsins sótti nám í Sjávarútvegsskóla Fjarðabyggðar

Nemendahópurinn frá Norðfirði fyrir framan Jón Kjartansson. Ljósm. Sigurður Steinn EinarssonDagana 23. júní til 11. júlí starfaði Sjávarútvegsskóli Fjarðabyggðar en skólinn er samvinnuverkefni Austurbrúar, Vinnuskóla Fjarðabyggðar og sjávarútvegsfyrirtækjanna Eskju, Loðnuvinnslunnar og Síldarvinnslunnar. Öllum ungmennum í Fjarðabyggð sem fædd voru árið 2000 stóð til boða að sækja skólann og alls útskrifuðust 55 nemendur úr skólanum eða 85% árgangsins. Verður það að teljast afar góð þátttaka en á því tímabili sem skólinn starfaði var nokkuð um að ungmenni úr árgangnum væru í sumarleyfisferðum með fjölskyldum sínum.

Meginmarkmiðið með skólahaldinu er að auka þekkingu og skilning ungmennanna á þeirri grunnatvinnugrein sem sjávarútvegurinn er en greinin er í reynd undirstaða byggðarlaganna í Fjarðabyggð og allra byggðakjarna við sjávarsíðuna á Austurlandi. Í skólanum voru fluttir fyrirlestrar um eðli og sögu sjávarútvegs og eins vakin athygli á þeim fjölbreyttu störfum sem tengjast atvinnugreininni beint og óbeint. Til að auka skilning nemendanna á námsefninu var fjöldi fyrirtækja heimsóttur, jafnt sjávarútvegsfyrirtæki sem fyrirtæki sem þjónusta sjávarútveginn. Þá var farið um borð í fiskiskip og þær aðstæður sem sjómennirnir búa við skoðaðar.           

Nemendahópurinn frá Eskifirði og Reyðarfirði í heimsókn hjá Matís. Ljósm. Elvar Ingi ÞorsteinssonKennt var á þremur stöðum í Fjarðabyggð; Neskaupstað, Fáskrúðsfirði og Eskifirði. Á hverjum stað var kennt í eina viku og á lokadegi kennslunnar var ferðast um sveitarfélagið, farið í heimsóknir og  efnt til uppskeruhátíðar ásamt því sem útskriftarskírteini voru afhent. Til dæmis heimsóttu allir hóparnir fiskimjölsverksmiðju Eskju á Eskifirði, botnfiskvinnslu Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði og uppsjávarfrystihús Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Kom það nemendum verulega á óvart hve tæknistig vinnslustöðvanna er hátt og eins vöktu tæki og veiðibúnaður fiskiskipanna mikla athygli.           

Allir námshóparnir fóru í heimsókn í Verkmenntaskóla Austurlands þar sem skólameistari kynnti námsleiðir og sýndi kennsluaðstöðu. Vakti hann athygli nemendanna á því hve mörg störf á Austurlandi tengjast sjávarútveginum beint og óbeint. Flest iðnfyrirtæki þjóna sjávarútveginum og stór hluti vélstjóra starfar annað hvort á fiskiskipum eða hjá landvinnslum sjávarútvegsfyrirtækjanna. Meira að segja tengist afkoma hárgreiðslustofanna að verulegu leyti því hvernig sjávarútvegsfyrirtækjunum vegnar. Sjávarútvegurinn er því sannkölluð grunnatvinnugrein í austfirsku samfélagi.
  
Nemendahópurinn frá Fáskrúðsfirði og Stöðvarfirði í heimsókn í fiskimjölsverksmiðju Eskju. Ljósm. Elvar Ingi ÞorsteinssonÍ Verkmenntaskólanum var einnig fjallað um þær námsgreinar á háskólastigi sem tengjast sjávarútvegi  eða geta tengst greininni. Í því samhengi var farið í heimsókn til Matís í Neskaupstað þar sem meðal annars fara fram efnamælingar á hráefni og framleiðsluafurðum sjávarútvegsfyrirtækjanna. Þar fengu nemendur að kynnast því hvernig títrað er með sýru og basa og vöktu litabreytingar eftir sýrustigi mikla lukku á meðal nemendahópanna. Þetta var svo sannarlega spennandi.
             
Ekkert fer á milli mála að námið í skólanum breytti sýn nemendanna á sjávarútveginn og opnaði augu þeirra fyrir mikilvægi þátta eins og til dæmis gæða- og markaðsmálum. Þá varð nemendum einnig  ljóst hve störf sem tengjast sjávarútvegi eru ótrúlega fjölbreytt. Að sjávarútvegi starfa sjómennirnir sem gegna ýmsum hlutverkum, starfsfólk við fiskvinnslu, iðnaðarmenn á ýmsum sviðum, fólk með menntun á sviði rannsókna, markaðsmála og fjármála svo nokkuð sé nefnt. Þá byggja aðrar atvinnugreinar í sjávarbyggðunum að miklu leyti á starfsemi sjávarútvegsfyrirtækjanna  og þeim verðmætum sem þau skapa.

Mikið um að vera í Norðfjarðarhöfn

 Börkur NK til vinstri að landa makríl til vinnslu í fiskiðjuverinu. Til hægri er Bjartur NK sem kemur til löndunar eftir góðan túr. Ljósm. Hákon Viðarsson.Um þetta leyti árs eru mikil umsvif í Norðfjarðarhöfn. Skip koma og fara og að auki hefur verið  unnið að gerð nýs hafnargarðs sem er hluti af umfangsmiklum framkvæmdum sem staðið hafa yfir frá síðasta ári. Makríl- og síldarvertíð er hafin og koma veiðiskipin reglulega til hafnar með hráefni fyrir fiskiðjuver Síldarvinnslunnar. Þá koma vinnsluskipin til löndunar með frystar makríl- og síldarafurðir en þeim er komið fyrir í frystigeymslum Síldarvinnslunnar. Þessu fylgja tíðar komur flutningaskipa sem lesta framleiðsluna og flytja hana til viðeigandi markaðslanda.

Fyrir utan makríl- og síldarskipin koma togarar og bátar til löndunar ásamt erlendum loðnuskipum sem landað hafa afla sínum síðustu daga. Strandveiðibátarnir sem landað hafa í Norðfjarðarhöfn að undanförnu eru 11 talsins og hafa fiskað misjafnlega vel.


Sumarloðna berst til Neskaupstaðar

Danska loðnuskipið Ruth að taka nótina í Neskaupstað. Ljósm. Smári Geirsson.Danska uppsjávarskipið Ruth frá Hirtshals kom til Neskaupstaðar í morgun með 1800 tonn af loðnu sem fékkst í grænlensku lögsögunni. Um borð í Ruth eru fjórir starfsmenn Síldarvinnslunnar sem eru vanir nótaveiðum og lætur skipstjórinn afar vel af þeim. Í kjölfar danska skipsins kom síðan norska skipið Saebjorn til Neskaupstaðar með um 900 tonn af loðnu.

Norsk og dönsk loðnuskip hafa verið að fá ágætan afla í grænlensku lögsögunni að undanförnu. Samkomulag er í gildi um veiðar úr þessum loðnustofni og er hlutur Íslands 81%. Hlutur Grænlendinga er 11% og Noregs 8%. Að auki fá Norðmenn ákveðinn hluta frá Íslendingum vegna samnings um veiðar í Barentshafi. Grænlendingar hafa lengi eftirlátið Evrópusambandinu 2/3 af sínum kvóta og hafa dönsk skip oft veitt þann kvóta í grænlenskri lögsögu yfir sumartímann. Norðmenn hafa síðan takmarkaðan aðgang að grænlenskri lögsögu til að veiða úr stofninum.  

Barði millilandar í Hafnarfirði og Bjartur með góðan túr

Bjartur kemur til hafnar í Neskaupstað í gær. Ljósm. Hákon Viðarsson.Frystitogarinn Barði kom til Hafnarfjarðar í morgun og landar þar fullfermi. Aflinn er að mestu makríll en dálítið er þó af grálúðu og þorski. Skipið hefur síðustu daga verið að makrílveiðum suðvestur af landinu, í Grindavíkurdýpi og á nærliggjandi slóðum. Gert er ráð fyrir að Barði haldi á ný til veiða að löndun lokinni seint í dag og samkvæmt áætlun á veiðiferðinni að ljúka um næstu mánaðamót.

Ísfisktogarinn Bjartur kom til hafnar í Neskaupstað í gær að afloknum góðum túr. Aflinn var um 90 tonn og var hann mjög blandaður. Um 29 tonn aflans var þorskur, 23 tonn karfi, 19 tonn ufsi og 14 tonn grálúða. Að sögn Steinþórs Hálfdanarsonar skipstjóra gengu veiðarnar vel og var einkar auðvelt að ná þorski, karfa og grálúðu. Var skipið á veiðum í Berufjarðarál og í Seyðisfjarðardýpi.

Áhöfnin á Bjarti fer nú í þriggja vikna frí og er ráðgert að skipið haldi á ný til veiða hinn 5. ágúst.

Vinnsla á makríl hafin í fiskiðjuverinu í Neskaupstað

Makríl landað úr Berki NK í morgun.  Ljósm. Hákon ViðarssonVinnsla á makríl hófst í fiskiðjuverinu í Neskaupstað sl. laugardag. Þá kom Beitir með 550 tonna afla sem fékkst í Hvalbakshallinu í 4 holum. Þegar lokið var við að landa úr Beiti hófst löndun úr Berki sem kom með 450 tonn af sömu veiðislóð. Í sumum holanna var hreinn makríll en í einhverjum þeirra var aflinn síldarblandaður.

Bjarni Ólafsson AK er væntanlegur til Neskaupstaðar í dag með 380 tonn þannig að vertíðin fer vel af stað.

Jón Gunnar Sigurjónsson yfirverkstjóri í fiskiðjuverinu segir að það sé afar gott að vertíðin skuli vera hafin og vinnslan gangi vel strax í upphafi. „Fiskurinn er í reynd nákvæmlega eins og við reiknuðum með þannig að þetta er allt samkvæmt áætlun“, sagði Jón Gunnar. 

Nýja pökkunarstöðin vígð með pompi og pragt

Frá vígslu pökkunarstöðvarinnar.  Ljósm. Hákon ViðarssonÍ dag var nýja pökkunarstöðin sem reist hefur verið við fiskiðjuver Síldarvinnslunnar vígð. Framkvæmdir við stöðina hófust í byrjun aprílmánaðar og hafa gengið afar vel. Húsið er 1000 fermetrar að stærð og í því verður komið fyrir kassavélum og brettavafningsvélum þannig að allri framleiðslu fiskiðjuversins verður pakkað þar. Miðað við núverandi afköst fiskiðjuversins er full þörf á að bæta pökkunaraðstöðuna en vélbúnaðurinn í nýja húsinu er miðaður við afkastaaukningu sem fyrirhuguð er í manneldisvinnslunni.

Til vígsluhátíðarinnar var boðið öllum þeim sem komið hafa að hönnun og byggingu pökkunarstöðvarinnar og var þar glatt á hjalla. Jón Már Jónsson framkvæmdastjóri landvinnslu hjá Síldarvinnslunni var hress í bragði þegar við hann var rætt og lagði hann áherslu á að pökkunarstöðin væri mikilvægur áfangi í uppbyggingaráætlunum Síldarvinnslunnar á sviði manneldisvinnslu. „Framkvæmdir við byggingu hússins hafa gengið einstaklega vel“, sagði Jón Már. „Skipulag framkvæmdanna hefur verið afar gott og verktakar hafa staðið sig að öllu leyti með eindæmum vel. Byrjað var að grafa fyrir húsinu 8. apríl sl., uppsláttur hófst 25. apríl og byggingin varð fokheld um síðustu mánaðamót. Um leið og búið var að loka húsinu hófst vinna við uppsetningu vélbúnaðar og er hún komin vel á veg. Í reynd er magnað að sjá hús af þessari stærð rísa á rúmum þremur mánuðum og má þakka það Mannviti sem hannaði húsið og annaðist eftirlit með framkvæmdum og einnig helstu verktökum. Aðalverktaki var Nestak en eins komu að málum Haki ehf., Launafl ehf., Fjarðalagnir ehf., Sakki ehf., Húsið þitt ehf., Höfuð-Verk ehf., Ingólfur málari og fleiri smærri verktakafyrirtæki. Þá ber að nefna að starfsmenn Síldarvinnslunnar áttu sinn góða þátt í framkvæmdinni. Það má kalla ótrúlegt að framkvæmd eins og þessi skuli unnin á jafn stuttum tíma án þess að nokkurn tímann hafi komið upp samskiptavandamál á milli verktaka því oft var þröngt á þingi og hver að vinna ofan í öðrum á byggingarsvæðinu. Það liggur alveg fyrir að þessi framkvæmd er mjög vel heppnuð“, sagði Jón Már að lokum. 

Makríl- og síldarvertíð hafin af fullum krafti hjá Síldarvinnsluskipunum

Beitir fékk 100 tonn í fyrsta holi vertíðarinnar. Ljósm. Hákon ViðarssonUppsjávarskipið Beitir hélt til makrílveiða í gær og hóf þegar að toga í Hvalbakshallinu. Börkur mun síðan halda til veiða í dag. Tómas Kárason skipstjóri á Beiti sagðist vera þokkalega bjartsýnn hvað veiðihorfur varðaði. „Við vorum að hífa fyrsta holið eftir að hafa togað í 6 tíma og þetta eru um  100 tonn. Aflinn er nánast hreinn makríll, það er einungis ein og ein síld í þessu,“ sagði Tómas um hádegisbil í dag.

Frystitogarinn Barði hóf makrílveiðar í byrjun mánaðarins og hefur verið að veiðum fyrir suðaustan og sunnan land. Haft var samband við Theodór Haraldsson skipstjóra og sagði hann að veiðin hefði verið misjöfn þennan tíma: „Í byrjun túrsins fiskuðum við grálúðu en hófum makrílveiðar fljótlega; byrjuðum í Hvalbakshalli en höfum fært okkur vestar og erum nú í Grindavíkurdýpi. Ég reikna með að við verðum komnir með fullfermi, um 180 tonn af afurðum, í byrjun næstu viku og þá verður komið til löndunar“, sagði Theodór.

Viðbótarstarfsmenn ráðnir í fiskiðjuverið

Vaktir vegna makríl- og síldarvinnslu verða settar á í fiskiðjuverinu í Neskaupstað á næstu dögum. Ljósm.: Hákon Viðarsson.Makríl- og síldarvertíðin hefst óvenju seint hjá Síldarvinnslunni í ár miðað við síðustu ár. Ástæðurnar eru tvær: Í fyrsta lagi er síldarkvótinn minni en verið hefur og í öðru lagi vilja menn bíða þess að makríllinn fitni og verði betra hráefni til manneldisvinnslu. Nú er hins vegar ballið að byrja og unnið af krafti að gera allt klárt í fiskiðjuverinu fyrir vertíðina.

Í vor voru ráðnir um 20 nýir starfsmenn í fiskiðjuverið og einnig til að sinna ýmsum umhverfisverkefnum. Nú, þegar settar verða á vaktir vegna makríl- og síldarvinnslu, þarf að ráða álíka fjölda til viðbótar. Auglýst var eftir starfsfólki í síðustu viku og að sögn Hákonar Viðarssonar starfsmannastjóra voru viðbrögð góð við auglýsingunni og hafa borist margar atvinnuumsóknir. Þessa dagana er verið að fara í gegnum umsóknirnar og verður gengið frá ráðningum fyrir helgina.

Í upphafi vertíðarinnar verður unnið á þrískiptum vöktum í fiskiðjuverinu en í haust verður vaktakerfinu breytt og teknar upp tvískiptar vaktir. 

Skólastarf Sjávarútvegsskóla Fjarðabyggðar á Eskifirði

Nemendur Sjávarútvegsskóla Fjarðabyggðar á Eskifirði. Ljósm. Sigurður Steinn Einarsson.Á Eskifirði hófst kennsla í Sjávarútvegsskóla Fjarðabyggðar sl. mánudag. Nemendur þar eru 18 talsins og koma þeir frá Eskifirði og Reyðarfirði.

Á fyrsta kennsludegi voru fyrirlestrar um útgerð og fiskvinnslu á Íslandi. Á öðrum degi var farið í vettvangsheimsóknir í fiskimjölsverksmiðju Eskju og netaverkstæði Egersund ásamt því að fjallað var um markaðs- og gæðamál. Í dag var fjallað um sögu fiskveiða og hlýtt á gestafyrirlesara með mikla reynslu af sjómennsku auk þess sem farið var í heimsókn um borð í uppsjávarskipið Jón Kjartansson SU. Á morgun verður efnt til spurningakeppni þar sem nemendur verða spurðir út úr námsefni skólans og þeir  undirbúnir fyrir lokaverkefni námsins. Á föstudag verður farin útskriftarferð til Fáskrúðsfjarðar og Neskaupstaðar þar sem fyrirtæki og stofnanir verða heimsóttar og ýmislegt gert til skemmtunar. Í lokin fá nemendur síðan afhent útskriftarskírteini.

Beðið eftir að makríllinn fitni

Uppsjávarskip Síldarvinnslunnar bíða þessi að makríllinn bæti á sig. Ljósm. Hákon Viðarsson.Skip Síldarvinnslunnar hafa ekki hafið makrílveiðar ennþá en segja má að þau séu í startholunum. Þessa dagana og vikurnar er fiskurinn að fitna og gæði hans aukast eftir því sem tíminn líður. Gera má ráð fyrir að í íslensku lögsögunni séu gæðin hvað mest í septembermánuði og enn aukast þau eftir að fiskurinn er horfinn úr lögsögunni. Á meðan skipin bíða þess að hefja veiðarnar er dyttað að þeim og unnið er af krafti að undirbúningi vertíðarinnar í fiskiðjuverinu. Þessa dagana er til dæmis verið að setja upp vélar og búnað í nýrri pökkunarstöð fiskiðjuversins.

Á meðan á biðinni stendur er að sjálfsögðu fylgst náið með gangi makrílveiða hjá þeim skipum sem þegar hafa hafið þær. Vinnsluskipið Vilhelm Þorsteinsson EA hefur til dæmis landað frosnum afla tvisvar í Neskaupstað eftir að hann hóf veiðar. Hann landaði fyrst 476 tonnum 25. júní og sl. þriðjudag landaði hann 480 tonnum. Vilhelm hefur ekki átt í neinum vandræðum að fiska fyrir vinnsluna um borð og sama er að segja um Polar Amaroq sem veiðir í grænlensku lögsögunni. Athygli hefur vakið að makríl virðist vera að finna víða við landið þannig að þau skip sem þegar hafa hafið veiðar eru dreifð.


Undirflokkar