Vinnsluskipin frysta loðnu á Norðfirði

DSC03792

Tveir þriðju loðnuflotans frysta nú loðnu á Norðfirði. Ljósm: Hákon Ernuson

Vinnsluskipin Polar Amaroq og Vilhelm Þorsteinsson EA liggja nú inni á Norðfirði og frysta loðnu. Bæði skipin eru að fylla frystilestarnar og mun verða byrjað að landa úr Vilhelm Þorsteinssyni í kvöld og Polar Amaroq á morgun. Þessi tvö skip mynda meirihluta loðnuflotans sem veiðir nú við landið en norska skipið Fiskebas er við veiðar á miðunum. Geir Zoëga skipstjóri á Polar Amaroq sagði að það hefði þurft að hafa lítið fyrir því að ná í aflann í veiðiferðinni. „Við vorum norðnorðaustur úr Langanesi, um 20 mílum vestar en áður, og þetta gekk eins og í sögu. Við tókum bara tvö hol og drógum samtals í fimm klukkutíma. Það voru 400 tonn sem fengust í fyrra holinu og 270 í því seinna. Það er ekki hægt að hugsa sér þetta mikið betra,“ sagði Geir.

Öryggisstjóri ráðinn til starfa

Guðjón B. Magnússon. Ljósm. Hákon ErnusonGuðjón B. Magnússon. Ljósm. Hákon ErnusonGuðjón B. Magnússon hefur verið ráðinn í starf öryggisstjóra Síldarvinnslunnar. Síldarvinnslan mun leggja aukna áherslu á öryggi á vinnustöðum fyrirtækisins og er ráðning öryggiststjóra liður í framkvæmd nýrrar öryggisstefnu.
 
Samkvæmt nýrri starfsmannastefnu fyrirtækisins, sem mun fljótlega taka gildi, verða öryggisnefndir starfandi á hverri starfsstöð og síðan verði skipað öryggisráð sem hafi yfirumsjón með öryggismálum og framkvæmd öryggisstefnunnar. Öryggisstjóri mun starfa með öryggisráðinu og verða öryggisnefndunum til halds og trausts. Markmiðið með starfi öryggisstjórans er í reynd að útrýma vinnuslysum, bæta starfsumhverfi og auka vellíðan starfsmanna.
 
Guðjón B. Magnússon hefur verið vinnslustjóri fiskimjölsverksmiðjunnar í Neskaupstað og mun fyrst um sinn gegna því starfi áfram til hliðar við starf öryggisstjóra. Stefnt er að því að umfang öryggisstjórastarfsins muni aukast verulega á komandi tímum og það verði fullt starf.

Síldarvinnsluskipin hefja ekki loðnuveiðar strax

Börkur NK að loðnuveiðum. Ljósm. Geir ZoёgaBörkur NK að loðnuveiðum. Ljósm. Geir ZoёgaEins og flestum lesendum heimasíðunnar er fullkunnugt um er útgefinn loðnukvóti einungis 173 þúsund tonn og koma rétt liðlega 100 þúsund tonn í hlut íslenskra skipa. Kvóti Síldarvinnsluskipanna gæti orðið um 16 þúsund tonn. Þessi niðurstaða veldur miklum vonbrigðum en veiðistofninn að afloknum rannsóknum var metinn 675 þúsund tonn. Kvótinn er ákveðinn í samræmi við nýja aflareglu og er ljóst að hún leiðir til minni kvóta en sú eldri. Ef eldri reglan hefði verið í gildi má gera ráð fyrir að útgefinn kvóti væri um 250 þúsund tonn.
 
Fyrir Síldarvinnsluna leiðir þessi takmarkaði kvóti til þess að Síldarvinnsluskipin munu ekki hefja loðnuveiðar strax. Langmestu verðmætin liggja í Japansfrystingu og frystingu á loðnuhrognum og slík framleiðsla getur ekki hafist fyrr en loðnan er komin að hrygningu. Markaðir fyrir þessar afurðir eru þokkalegir og eðlilegt er að nýta þá sem best. Þá eru einnig einhverjir markaðir fyrir frysta loðnu í Úkraínu og Austur- Evrópu en kvótinn er það lítill að gera má ráð fyrir takmarkaðri framleiðslu inn á þá. Eins og staðan er í dag borgar sig að bíða með veiðar þar til framleiðsla verðmætustu afurðanna getur átt sér stað. Uppsjávarskip Síldarvinnslunnar, Beitir og Börkur, eru að kolmunnaveiðum í færeysku lögsögunni og munu fást við þær þar til skynsamlegt verður að hefja veiðar á loðnu.

Polar Amaroq með fyrstu loðnu ársins

Polar Amaroq landaði fyrstu loðnu ársins. Ljósm. Hákon ErnusonPolar Amaroq landaði fyrstu loðnu ársins. Ljósm. Hákon ErnusonGrænlenska uppsjávarskipið Polar Amaroq landaði fyrstu loðnu ársins í Neskaupstað sl. laugardag. Afli skipsins var 710 tonn af frosinni loðnu og um 30 tonn af fráflokkaðri sem fór í mjöl- og lýsisvinnslu. Aflinn fékkst í trollhólfinu norðaustur af Langanesi og gekk veiðiferðin vel að sögn Halldórs Jónassonar skipstjóra. 
     
Að löndun lokinni hélt Polar Amaroq á ný til veiða sl. laugardagskvöld. Haft var samband við Geir Zoëga skipstjóra í dag og lét hann vel af sér. „Siglt var á sömu slóðir og í fyrri túrnum og við tókum eitt tveggja tíma hol í gær og fengum um 400 tonn. Síðan hafa menn verið að frysta og það hefur gengið vel. Þetta er góð loðna og það flokkast sáralítið frá. Þegar við komum á miðin var mikið af loðnu að sjá og allt morandi í hval. Það er mjög líflegt um að litast,“ sagði Geir að lokum.

Hafin vinnsla á ufsa í fiskiðjuverinu í Neskaupstað

Vinnsla á ufsa í fiskiðjuverinu í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonVinnsla á ufsa í fiskiðjuverinu í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonÍ fyrradag hófst vinnsla á ufsa í fiskiðjuverinu í Neskaupstað. Togarinn Kaldbakur kom til Neskaupstaðar í fyrradag og landaði 115 tonnum af blönduðum afla, þar af fóru 20 tonn af ufsa til vinnslu í fiskiðjuverinu. Jón Gunnar Sigurjónsson yfirverkstjóri segir að ufsavinnslan sé hugsuð til að brúa bil á milli vertíða í uppsjávarfiski. „Við byrjuðum á ufsavinnslunni á fimmtudaginn og hún gengur samkvæmt áætlun. Við unnum ufsa í tvo daga fyrir áramót en þar áður fór slík  vinnsla fram árið 2014. Vonandi fer fljótlega að veiðast loðna af krafti og þá hefst vinnsla á henni. Við leggjum alla áherslu á að vinna uppsjávarfisk en þegar göt koma í uppsjávarvinnsluna er gott að geta gripið til annarrar vinnslu. Ufsinn er flakaður, snyrtur og frystur og það eru um 25 manns sem starfa við vinnsluna,“ sagði Jón Gunnar.

Beitir NK með 2.850 tonn í fyrstu veiðiferðinni

Beitir NK kemur til löndunar að lokinni fyrstu veiðiferð með 2.850 tonn af kolmunna. Ljósm. Guðlaugur B. BirgissonBeitir NK kemur til löndunar að lokinni fyrstu veiðiferð með 2.850 tonn af kolmunna. Ljósm. Guðlaugur B. BirgissonBeitir NK kom til Neskaupstaðar úr sinni fyrstu veiðiferð síðdegis í gær. Aflinn var 2.850 tonn af kolmunna sem fékkst í færeysku lögsögunni. Löndun hófst strax og skipið kom til hafnar en þegar lokið var við að landa tæplega 400 tonnum bilaði spennir í fiskimjölsverksmiðjunni og því þurfti það að halda til Seyðisfjarðar og ljúka löndun þar. Það mun taka einn til tvo daga að skipta um spenni.
 
Sturla Þórðarson, skipstjóri á Beiti, sagði að veiðiferðin hefði gengið vel í alla staði. „Auðvitað tekur alltaf tíma að venjast nýju skipi en þetta gekk allt eins og best verður á kosið. Það aflaðist þokkalega en að meðaltali fengum við um 300 tonn í holi,“ sagði Sturla.
 
Börkur NK kom með um 2.000 tonn af kolmunna til Neskaupstaðar sl. laugardag og Bjarni Ólafsson AK landaði 1.500 tonnum á Seyðisfirði sl. sunnudag. Gunnar Sverrisson, rekstrarstjóri fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar, segir að kolmunninn sem nú berst að landi sé úrvalshráefni enda komi skipin með allan afla vel kældan.
 
Börkur NK var í morgun kominn með 650 tonn af kolmunna og var að toga. Létu þeir Barkarmenn þokkalega af sér. Bjarni Ólafsson AK hafði fengið 350 tonn í fyrsta holi sl. nótt. 

Fleiri greinar...

  1. Fundir um starfsmannastefnu og öryggismál
  2. Útflutningsbann snertir ekki einungis útgerðirnar
  3. Fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar tóku á móti rúmlega 263 þúsund tonnum af hráefni árið 2015
  4. Árið fer vel af stað hjá togurunum
  5. Börkur og Beitir að kolmunnaveiðum
  6. Gott ár hjá Bergi-Hugin
  7. Aflaverðmæti skipa Síldarvinnslunnar og dótturfélaga jókst um tæplega 24% á milli ára
  8. 83% aukning á hráefni til vinnslu á Seyðisfirði