Aðalfundur Síldarvinnslunnar hf. 2015

Aðalfundur Síldarvinnslunnar hf. 2015Verður haldinn miðvikudaginn 19. ágúst  2015 í Hótel Egilsbúð, Neskaupstað, kl. 13:00.
 
Dagskrá:
 
 1. Skýrsla stjórnar
 2. Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til staðfestingar
 3. Tekin ákvörðun um greiðslu arðs
 4. Tillaga stjórnar um starfskjarastefnu
 5. Breyting á samþykktum 
  1. tillaga um breytingu á ákvæði 4.02 í samþykktum félagsins er varðar tímasetningu og boðun til aðalfundar félagsins
 6. Ákveðin þóknun til stjórnar félagsins
 7. Kosin stjórn félagsins
 8. Kosnir endurskoðendur
 9. Önnur mál, löglega fram borin
Stjórn Síldarvinnslunnar hf.
 

Ný brettasmiðja Tandrabergs tekur til starfa um mánaðamótin

Nýja brettasmiðjan er risin á hafnarsvæðinu í Neskaupstað. Ljósm.: Smári GeirssonNýja brettasmiðjan er risin á hafnarsvæðinu í Neskaupstað. Ljósm.: Smári GeirssonTandraberg ehf. hefur að undanförnu verið að reisa nýja brettasmiðju á hafnarsvæðinu í Neskaupstað. Framkvæmdir við nýbygginguna hófust í febrúarmánuði, þegar grafið var fyrir húsinu, en síðan hófust eiginlegar byggingaframkvæmdir í aprílmánuði. Húsið er 600 fermetrar að stærð og er það nú risið. Um þessar mundir er síðan unnið að uppsetningu vélbúnaðar í brettasmiðjunni og er gert ráð fyrir að framleiðsla hefjist um næstu mánaðamót.
 
 
 
Unnið að uppsetningu véla í nýju brettasmiðjunni. Ljósm.: Smári Geirsson.Unnið að uppsetningu véla í nýju brettasmiðjunni. Ljósm.: Smári Geirsson.Að sögn Einars B. Kristjánssonar, framkvæmdastjóra Tandrabergs, er mikil þörf fyrir þessa nýju brettasmiðju. „Við höfum verið að framleiða 60.000 bretti á ári en með tilkomu brettasmiðjunnar verður sú framleiðsla vélvædd og auðveldari í alla staði. Í nýju smiðjunni munu að jafnaði starfa þrír menn og munu þeir geta framleitt 600 bretti á dag miðað við að einungis sé unnin dagvinna,“ sagði Einar. „Vélarnar sem notaðar verða við framleiðsluna eru ítalskar og er maður frá framleiðandanum staddur í Neskaupstað þessa dagana og stjórnar hann uppsetningu þeirra. Þessar vélar eru fullkomnar og verður auðvelt að auka framleiðsluna, jafnvel þrefalda hana, með einföldum aðgerðum. Það bendir allt til þess að í náinni framtíð muni eftirspurn eftir brettum aukast verulega. Við höfum verið að þjóna viðskiptavinum allt suður að Djúpavogi en Síldarvinnslan er langstærsti einstaki brettanotandinn og hefur keypt af okkur um 80% af framleiðslunni á undanförnum árum,“ sagði Einar að lokum.
 

Úr margmiðlun á sjóinn

               Vestmannaey

Vestmannaey VE 444. 

Veiðar skipa Bergs-Hugins hafa gengið vel það sem af er ári og er aflinn mun meiri en á sama tíma og í fyrra og einnig aflaverðmæti. Í ár hafa skipin tvö, Vestmannaey og Bergey, fiskað liðlega 5000 tonn en á sama tíma í fyrra var aflinn liðlega 4800 tonn. Meðalverð á kg. hefur einnig verið mun hærra í ár en var í fyrra.

                Heimasíðan sló á þráðinn til Héðins Karls Magnússonar skipstjóra á Vestmannaey og spurðist frétta. Héðinn Karl er fæddur árið 1980 og lauk námi í margmiðlunarfræðum áður en hann hóf nám í Stýrimannaskólanum. „Ég hef að mestu verið á sjó frá unglingsaldri en lauk margmiðlunarnáminu um 2000 rétt áður en netbólan sprakk. Stýrimannaskólanum lauk ég árið 2008 og hef síðan verið á Vestmannaey. Hér um borð hef ég verið netamaður, stýrimaður og leyst af sem skipstjóri af og til. Margmiðlunarnámið og tölvukunnáttan kemur að ágætu gagni á sjónum enda tölvuvæðingin mikil um borð í fiskiskipum,“sagði Héðinn Karl. „Við erum nú við veiðar á Látragrunni og höfum verið þar að mestu síðustu þrjár vikurnar. Það hefur gengið vel að fiska en uppistaða aflans er ýsa. Það er heldur rólegra yfir veiðunum nú en hefur verið, fiskurinn gefur sig mest á nóttunni þessa dagana þannig að það er ekki sólarhringsveiði eins og var. Við erum komnir með um 50 tonn og okkur vantar 20 tonn til að fylla. Hér um borð eru allir kátir og menn eru nokkurn veginn búnir að jafna sig eftir þjóðhátíð,“ sagði Héðinn Karl að lokum.

Vanhugsuð þátttaka í viðskiptabanni gegn Rússum

GI i turninum

Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar.

Engin efnisleg umræða hefur farið fram um þátttöku íslenskra stjórnvalda í að framlengja viðskiptabann gegn Rússum 30. júlí sl. vegna málefna Úkraínu. Samt eru gríðarlegir hagsmunir þjóðarbúsins lagðir að veði með þessari ákvörðun.  Íslenskir útflytjendur fengu fyrst að vita af ákvörðuninni frá viðskiptavinum sínum í Rússlandi.

Lýsa yfir hlutleysi

Undirritaður átti fundi bæði með ráðherra og formanni utanríkismálanefndar eftir að í ljós kom að Ísland studdi upphaflegar þvingunaraðgerðir gegn Rússum þar sem þeim var fyllilega gerð grein fyrir þeim afleiðingum sem þetta gæti haft ef viðskiptabann gegn Íslandi kæmi til framkvæmda.  Samt sér Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar, enga ástæðu til að staldra við þótt gríðarlegir hagsmunir séu í húfi fyrir íslenskt efnahagslíf.

Hlutverk stjórnvalda er að skapa umgjörð um starfsskilyrði fyrirtækja og styðja við þann farveg sem alþjóðleg viðskipti fara um. Sé raunverulegur vilji til að aðstoða íslensk fyrirtæki og gæta að hagsmunum þjóðarinnar getur ráðherra lýst yfir hlutleysi stjórnvalda og reynt að vinda ofan af stuðningi Íslands í aðgerðum gegn Rússum. Á þann hátt er sjálfstæði Íslendinga í utanríkismálum undirstrikað.

Viðskiptaþvinganir hafa takmörkuð áhrif og bitna helst á þeim sem síst skyldi, það er almennum borgurum viðkomandi ríkja. Hlutverk utanríkisráðuneytisins er að framfylgja utanríkisstefnu ríkisstjórnarinnar eftir diplómatískum leiðum en ekki að beita þjóðir viðskiptaþvingunum án umræðu. Það á að rækta viðskiptin við Rússa á þessum erfiðu tímum og er full ástæða að viðhalda áratuga góðum viðskiptasamböndum við Rússa.

Mikilvægur markaður

Afleiðingar af þessari þátttöku Íslendinga eru að öllum líkindum að steypast yfir okkur á næstu dögum í formi innflutningsbanns á einn af okkar mikilvægustu mörkuðum fyrir frystan uppsjávarfisk; loðnu-, síldar- og makrílafurðir. Auk þess hefur markaður fyrir bolfiskafurðir okkar verið vaxandi í Rússlandi. Viðskiptaaðilar okkar þar í landi hafa verið duglegir að upplýsa okkur um fréttaflutning af þessu máli sl. viku og hefur verið alveg skýrt í þeirra huga hvert málið stefnir. Samt virðast þessar fréttir koma utanríkisráðherra á óvart í Morgunblaðinu og hann segir óljóst hvað Medvedev forsætisráðherra sé að segja. Hér eru miklir hagsmunir í húfi og ráðherra lætur málið koma sér í opna skjöldu!

Við Íslendingar höfum síðustu áratugina átt í farsælum og góðum viðskiptum við Rússland og stóðu þau viðskipti af sér kalda stríðið.   Eins og sést í samantekt hér að neðan, sem byggð er á gögnum frá Hagstofu Íslands, hafa viðskipti við Rússland með sjávarafurðir vaxið ár frá ári.

 graf2

Viðskipti með síldarafurðir eiga sér margra áratuga sögu; markaður fyrir frosna loðnu hefur vaxið síðustu áratugina og markaður fyrir loðnuhrogn er stækkandi.  Með tilkomu makrílsins nýttust viðskiptasamböndin strax til að byggja upp góða markaði fyrir makrílafurðir okkar. Hagsmunirþjóðarinnar eru hér miklir.

Öflugt sölunet

Sérþekking á erlendum mörkuðum hefur byggst upp á löngum tíma innan sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi og hefur bundið saman öflugt sölunet sem trosnar ekki auðveldlega. Þessi sambönd hafa haldið enda allt kapp lagt á að halda góðum tengslum við Rússa. Það eru pólitísku samböndin sem eru að rakna upp í höndunum á utanríkisráðherra. Þar ber hann einn ábyrgð.

Utanríkisráðherra nefnir að ráðuneytið sé alltaf reiðubúið að aðstoða útflytjendur. „Frá því að þvinganirnar tóku gildi gagnvart Rússum hefur enginn útflytjandi óskað aðstoðar ráðuneytisins, sendiráða eða Íslandstofu við að finna nýja markaði,“ segir Gunnar Bragi í Morgunblaðinu.

Íslensk útflutningsfyrirtæki eru með fulltrúa á sínum snærum út um allan heim að selja sjávarafurðir frá Íslandi, þau taka þátt í öllum helstu sölusýningum í heiminum til að kynna íslenskan fisk og kynnast fjarlægum mörkuðum og treysta ný sambönd.  Við tökum þátt í alþjóðlegu samstarfi og ráðstefnum þar sem farið er yfir alla markaði t.d. fyrir uppsjávarfisk. Ástæða þess að opinberir starfsmenn eru ekki beðnir um aðstoð við að selja fisk er einfaldlega sú að útflutningsfyrirtækin eru að vinna að því öllum stundum og tryggja þar með bestu hagsmuni Íslands á hverjum tíma. Það er í verkahring utanríkisráðherra að tryggja pólitíska hagsmuni Íslendinga erlendis.

Milli vonar og ótta

Nú sitja stjórnendur fyrirtækja milli vonar og ótta um það hvort stjórnvöld í Rússlandi láti okkur á listann yfir þjóðir sem beittar verða viðskiptaþvingunum.  Mikilvægar vertíðir eru framundan. Kraftar utanríkisráðherra og hans fólks eiga ekki að fara í það að selja sjávarafurðir. Athygli þeirra á að beinast að því að halda góðu sambandi við viðskiptaþjóðir okkar svo við getum flutt út sjávarafurðir og aflað þjóðarbúinu tekna.

Síldarvinnslan í Neskaupstað hefur flutt út síldarafurðir til Rússlands í meira en hálfa öld og hefur sá markaður ávallt skipt fyrirtækið og starfsfólk þess miklu máli.  Vonum við að svo verði áfram um ókomna tíð og að samskipti okkar og viðskiptavina okkar í Rússlandi haldi áfram að styrkjast.

Gunnþór Ingvason

Framkvæmdastjóri

Síldarvinnslunnar í Neskaupstað

 

Vinnsla hafin á Seyðisfirði að afloknu sumarfríi

Gullver NS landaði 90 tonnum í gær  Ljósm. Ómar BogasonGullver NS landaði 90 tonnum í gær Ljósm. Ómar BogasonVinnsla hófst í gærmorgun í fiskvinnslustöð Gullbergs á Seyðisfirði að afloknu fjögurra vikna sumarfríi. Ísfisktogarinn Gullver kom þá til löndunar og var afli hans um 90 tonn, mest þorskur og karfi.
 
Í fiskvinnslustöðinni er lögð áhersla á að vinna ferska þorskhnakka sem sendir eru á markað með ferjunni Norrænu. Bakflökin eru síðan fryst í blokk sem fer á Bandaríkjamarkað.
 
Gert er ráð fyrir að Gullver haldi á ný til veiða í dag.

Veiðar og vinnsla á makríl

Makrílvinnsla gengur vel. Ljósm. Sylvía Kolbrá HákonardóttirMakrílvinnsla gengur vel. Ljósm. Sylvía Kolbrá HákonardóttirMakrílvertíðin hófst hjá Síldarvinnslunni um 10. júlí. Um verslunarmannahelgina hafði 9.383 tonnum verið landað til vinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar og kemur sá afli af þremur skipum; Berki NK, Beiti NK og Bjarna Ólafssyni AK. Þá höfðu frystiskipin Kristina EA og Hákon EA landað um 3.500 tonnum í frystigeymslur Síldarvinnslunnar fyrir helgina.
 
Um helgina gengu veiðar vel og kom Börkur með 600 tonn til löndunar í gær. Beitir er að leggja af stað í land þegar þetta er ritað með 850 tonn. Bjarni Ólafsson er á miðunum. Frystiskipið Vilhelm Þorsteinsson landaði  500 tonnum í gær og Kristina er að landa  rúmlega 2.000 tonnum í dag.
 

Fleiri greinar...

 1. Vaðandi makríll í stórum flekum á Papagrunni
 2. Blængur kemur til heimahafnar í fyrsta sinn
 3. Dramatískur fréttaflutningur
 4. Rauðátan til rannsóknar
 5. Góður makrílafli fyrir austan
 6. Nýtt „kalt kar“
 7. Sjávarútvegsskóli Austurlands á Seyðisfirði
 8. Birtingur NK til makrílrannsókna við Grænland