Ísfisktogararnir koma til löndunar – veður truflar veiðar

Gullver NS kemur til löndunar. Ljósm. Ómar BogasonGullver NS kemur til löndunar. Ljósm. Ómar BogasonGullver NS kom til löndunar á Seyðisfirði á mánudagsmorgun. Skipið var með fullfermi eða 105 tonn og var uppistaða aflans þorskur, karfi og ufsi. Jónas Jónsson skipstjóri segir að veiðin í túrnum hafi verið jöfn og góð allan tímann. „Við byrjuðum í Lónsdýpinu og fiskuðum þar karfa og ufsa en síðan var farið í Hvalbakshall og norður á Fótinn til að veiða þorsk,“ sagði Jónas. Gert er ráð fyrir að Gullver haldi á ný til veiða um hádegisbil á morgun.
 
Bjartur NK kom til Neskaupstaðar seint í gærkvöldi með 80 tonn. Uppistaða aflans var þorskur. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri segir að veiðin hafi verið sæmileg en veitt hafi verið á þeirra hefðbundnu veiðislóð. „Við vorum að veiðum frá Lónsdýpi og austur í Seyðisfjarðardýpið,“sagði Steinþór.
 
Vestmannaey VE er á leið til Seyðisfjarðar með um 50 tonn af þorski en skipið hefur verið að veiðum á Austfjarðamiðum. Versnandi veður gerir það að verkum að stefnan er sett á Seyðisfjörð núna.
 
Þegar þetta er ritað er Bergey VE að ýsuveiðum á Tangaflaki. Skipið er komið með 52 tonn og er aflinn blandaður; þorskur, ufsi og ýsa.

Börkur með rúmlega 1400 tonn af góðri síld

Börkur NK landar síld í Neskaupstað. Ljósm. Kristinn Agnar EiríkssonBörkur NK landar síld í Neskaupstað. Ljósm. Kristinn Agnar EiríkssonBörkur NK kom til Neskaupstaðar um klukkan fjögur í nótt með um 1430 tonn af síld að vestan. Þessi afli fékkst á réttum sólarhring á Wilson‘s Corner sem er suðvesturhorn Látragrunns. Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri var ánægður með vel heppnaða veiðiferð. „Aflinn fékkst í fimm holum og þetta er betri afli en fengist hefur hingað til á þessari vertíð. Þá er síldin einnig í stærra lagi, þannig að þetta er eins gott og það getur verið,“ sagði Hjörvar.
 
Gert er ráð fyrir að Börkur haldi í síðasta síldartúr vertíðarinnar að löndun lokinni.

Foreldrafélagi Seyðisfjarðarskóla færð endurskinsvesti að gjöf

Hákon Ernuson starfsmannastjóri afhendir Vilborgu Diljá Jónsdóttur formanni foreldrafélagsins endurskinsvestinHákon Ernuson starfsmannastjóri afhendir Vilborgu Diljá Jónsdóttur formanni foreldrafélagsins endurskinsvestinÍ gær heimsótti Hákon Ernuson starfsmannastjóri Síldarvinnslunnar Seyðisfjarðarskóla og færði Foreldrafélagi skólans gul öryggisvesti að gjöf frá Síldarvinnslunni en vestin eru ætluð nemendum í 1.- 3. bekk. Það er síðan Foreldrafélagið sem mun afhenda börnunum vestin. Vestin eru með endurskini og þjóna fyrst og fremst þeim tilgangi að gera börnin sýnilegri þegar þau eru á ferð í vetrarskammdeginu og auka þannig öryggi þeirra. Það er ekki síst mikilvægt að börnin sjáist vel á leið í og úr skóla. Vilborg Diljá Jónsdóttir, formaður Foreldrafélagsins, veitti vestunum móttöku að börnunum viðstöddum.

Jólasíld - niðurstaða ljósmyndasamkeppni

Verðlaunamyndin á jólasíldarfötunni. Ljósm. Hákon ErnusonVerðlaunamyndin á jólasíldarfötunni. Ljósm. Hákon ErnusonÍ byrjun október sl. var tilkynnt um að efnt yrði til ljósmyndasamkeppni um mynd á merkimiða sem notaður yrði á síldarföturnar undir jólasíld Síldarvinnslunnar í ár. Myndin þurfti að vera jólaleg og sýna skip eða athafnasvæði Síldarvinnslunnar.
 
Alls voru sendar inn á milli 50 og 60 myndir sem dómnefnd þurfti að vega og meta. Margar myndanna voru mjög góðar og uppfylltu fullkomlega þær kröfur sem gerðar voru. Þegar upp var staðið voru dómnefndarmenn sammála um að mynd sem Guðlaugur B. Birgisson tók væri best og bar hún sigur úr býtum í keppninni. Mynd Guðlaugs sýnir Börk NK ljósum prýddan í Norðfjarðarhöfn. 
 
Nú er jólasíldin fullverkuð og tilbúin og reyndar þegar farið að setja hana í föturnar. Víst er að vatn kemur í munn margra þegar minnst er á jólasíldina og ekki skemmir myndin á loki fötunnar fyrir þetta árið.Jón Gunnar Sigurjónsson verksmiðjustjóri fiskiðjuversins t.h. afhendir Guðlaugi B. Birgissyni verðlaunin. Ljósm. Hákon ViðarssonJón Gunnar Sigurjónsson verksmiðjustjóri fiskiðjuversins t.h. afhendir Guðlaugi B. Birgissyni verðlaunin. Ljósm. Hákon Ernuson

Polar Amaroq landaði á ný fullfermi af loðnu

Polar Amoraq í höfn í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonPolar Amoraq í höfn í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonGrænlenska uppsjávarskipið Polar Amaroq landaði fullfermi af frystri loðnu eða 640 tonnum í Hafnarfirði þriðjudaginn 17. nóvember. Þeirri loðnu sem flokkaðist frá í vinnslunni var landað í Helguvík. Þetta er annar fullfermistúr skipsins í þessum mánuði. Í veiðiferðinni var ágæt loðnuveiði Grænlandsmegin á Dohrnbankanum og var loðnan heppileg til vinnslu. Að löndun lokinni hélt Polar Amaroq aftur á sömu mið en þá var ís lagstur yfir veiðisvæðið. Halldór Jónasson skipstjóri sagði að nú væri loðnan af þessu svæði án efa gengin inn í íslenska lögsögu.
 
Polar Amaroq kom til Neskaupstaðar sl. mánudag og þá var Halldór skipstjóri tekinn tali. „ Þetta var fínasta loðna sem við vorum að vinna í síðasta túr og við fengum aflann í fjórum holum. Þegar við komum út á ný var kominn ís yfir veiðisvæðið. Við byrjuðum þá að leita innan grænlensku lögsögunnar þar sem íslaust var en þar fundum við ekkert. Síðan leituðum við út af Vestfjörðum í íslensku lögsögunni og þar mátti sjá fínar lóðningar á köflum í kantinum við Halann. Það má hins vegar ekki veiða loðnu í troll innan íslenskrar lögsögu og því var lítið aðhafst. Við köstuðum nótinni að vísu tvisvar en loðnan gefur sig ekki í nótina ennþá. Þá sigldum við og leituðum austur með Norðurlandi en þar var lítið að sjá þó dálítið ryk kæmi í ljós vestan við Kolbeinseyjarhrygg. Í ljósi þess að brælur eru í kortunum var ákveðið að sigla til Neskaupstaðar og þangað var komið sl. mánudag. Við gerum jafnvel ráð fyrir að fara út á ný eftir helgi og taka lokastöðu á þessu fyrir jólin,“ sagði Halldór. Loðnulóðning á kantinum við Halann sl. laugardag. Ljósm. Halldór JónasonLoðnulóðning á kantinum við Halann sl. laugardag. Ljósm. Halldór Jónason

Birtingur og Börkur með síldarafla á austurleið

20151112 104613

Birtingur NK landar síld til vinnslu. Ljósm: Kristinn Agnar Eiríksson

                Bæði Birtingur og Börkur eru á leið til Neskaupstaðar með síldarafla. Birtingur er með 750 tonn og væntanlegur síðdegis í dag og í kjölfar hans kemur Börkur með liðlega 1300 tonn. Tómas Kárason skipstjóri á Birtingi segir að aflinn hafi fengist í fimm holum. „Við byrjuðum í Jökuldýpinu og enduðum utan við Látragrunn. Undir lok túrsins var töluverða síld að sjá en aflinn hefur verið misjafn. Holin hjá okkur í þessum túr voru frá 50 tonnum og upp í 400 tonn. Það var bölvuð bræla megnið af túrnum, 18-20 metrar og haugasjór. Það er býsna leiðinlegt sjólag á þessum slóðum. Síldin sem fæst er hins vegar ágæt,“ sagði Tómas.

                Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri á Berki segir að þeir verði komnir til Neskaupstaðar í fyrramálið. „Við fengum þennan afla í sjö holum um 90 mílur vestur úr Snæfellsnesi. Nú undir lokin virtist vera að koma fiskur utan úr hafi og það var mun meira en sjá en áður. Veðrið í túrnum hefur verið hundleiðinlegt og það er svo sannarlega gott að vera á stóru og öflugu skipi við svona aðstæður. Síldin er stór og góð og hlýtur að henta afar vel til vinnslu,“sagði Hjörvar.

Fleiri greinar...

  1. Togararnir landa
  2. Síldarvinnslan færir 1. bekkingum í Nesskóla öryggisvesti að gjöf
  3. Hálf öld liðin frá því að Síldarvinnslan hóf útgerð
  4. Endurskoðun starfsmannastefnu
  5. Síld kemur að vestan
  6. Átak í öryggismálum
  7. Kolmunni og síld
  8. Polar Amaroq finnur loðnu víða en ís og bræla til vandræða