Maímánuður var góður hjá togurunum

Löndun úr Bjarti NK. Ljósm. Hákon ErnusonLöndun úr Bjarti NK. Ljósm. Hákon ErnusonAlmennt má segja að vel hafi fiskast hjá togurum Síldarvinnslunnar og dótturfélaga hennar í maímánuði síðastliðnum. Annan mánuðinn í röð slógu ísfisktogarar Bergs-Hugins met hvað aflaverðmæti varðar. Aflinn var tæplega 1100 tonn hjá Bergey og Vestmannaey þó svo að Vestmannaey hafi verið í slipp hluta af mánuðinum. Aflaverðmæti skipanna tveggja í maímánuði var 278 milljónir króna eða litlu meira en var í aprílmánuði síðastliðnum.
 
Ísfisktogarinn Bjartur NK aflaði 561 tonn í mánuðinum. Var hann mest við veiðar á Vestfjarðamiðum og landaði sex sinnum. Þorskafli Bjarts var 319 tonn en annars var ufsi og karfi uppistaða aflans. Ísfisktogarinn Gullver NS var að veiðum fyrir austan í mánuðinum og var afli hans 478 tonn, þar af 241 tonn þorskur.
 
Frystitogarinn Barði NK landaði hinn 10. maí. Aflinn var 400 tonn upp úr sjó og var hann blandaður; ufsi, karfi, þorskur og gulllax. Skipið landaði á ný 2. júní og aftur var aflinn 400 tonn upp úr sjó. Í þeirri veiðiferð var karfi og ufsi uppistaða aflans.

Blængur verður glæsilegur

20160608 085915

                Frystitogarinn Blængur NK 125 hefur að undanförnu verið í Gdansk í Póllandi þar sem unnið hefur verið að umfangsmiklum endurbótum á skipinu. Nú eru framkvæmdir komnar vel á veg og verið er að ljúka við að mála skipið í nýjum Síldarvinnslulitum. Liturinn á skrokknum er mun dekkri en sá sem hefur lengi verið notaður, en í reynd ekki ósvipaður litnum á fyrstu bátunum sem Síldarvinnslan eignaðist árið 1965. Freysteinn Bjarnason hefur verið eftirlitsmaður með framkvæmdunum ytra og bað heimasíðan hann að senda huggulegt sendibréf heim þar sem lýst er öllum þeim endurbótum sem unnið er að. Bréf Freysteins fylgir hér:

Góðan og blessaðan daginn.

                Héðan frá Póllandi er allt gott að frétta og allt á réttri leið. Framkvæmdir ganga vel um þessar mundir og unnið af krafti á mörgum vígstöðvum, skipið fer væntanlega úr flotdokkinni á morgun, fimmtudag. Búið er að þjónusta skrokkinn afar vel, komin ný bógskrúfa, sett tvö ný botnstykki fyrir dýptarmæli og straumlogg, skipið öxuldregið og skrúfan tekin í sundur til viðhalds og sömuleiðis stýrið. Þá er búið að mála skrokkinn í nýjum litum Síldarvinnslunnar og skreyta á ýmsan hátt. Áður hafði skipið verið sandblásið frá toppi til táar.

20160608 085647

                Svo maður hverfi til upphafsins fóru fyrstu vikurnar í að „rífa, tæta og skemmileggja“ eins og sagt er á kjarngóðu máli. Allt var hreinsað út úr íbúðum og brú alveg inn að stáli. Það var heilmikið verk og heldur sóðalegt. Skera þurfti burt þil og styrkingar vegna allra breytinganna. Allt var sandblásið og ryðvarið. Öllum innréttingum verður umbylt og gjörbreytt. Töluverðar skemmdir voru í stálverki, sérstaklega í brúargólfi og rennusteinum, eðli máls samkvæmt eftir öll þessi ár. Allur vinnslubúnaður var fjarlægður af vinnsludekki, fjarlægt kvartsefni af gólfi og það síðan allt sandblásið. Brotin öll steypa af lestargólfi, settar stoðir fram með lestarveggjum beggja vegna til að halda við pallettur eða fiskikör, síðan verður steypt í gólfið á ný og lestin verður eins og annað; betra en nýtt.

                Aftur til dagsins í dag. Búið er að stilla upp nýjum stjórn- og tækjapúltum í brúnni og byrjað að leggja einhverja kílómetra af rafmagnsköplum. Lokið er öllum lögnum á íbúðahæðum ss. ferskvatn, ofnalagnir, niðurföll, klóak, loftræsting og allt það sem nauðsynlegt er. Búið er að undirbúa komu heita pottsins og klæðning á veggþiljum hefst á morgun. Verið er að byrja á að koma fyrir nýrri löndunarlúgu sem er sett út við lunningu stb. megin.

                Ljóst er að verkinu hefur seinkað nokkuð frá upphaflegri áætlun en nú er miðað við að verklok verði 20. júlí nk.

               Ég lofa því að glæsilegt skip siglir til Íslands fyrir verslunarmannahelgi.

                                                                    Bestu kveðjur, ég sakna ykkar allra.

                                                                                         Freysteinn

Bjartur NK seldur til Íran

Bjartur NK er á leiðinni til Íran í ágústmánuði. Ljósm. Sigurður Steinn EinarssonBjartur NK er á leiðinni til Íran í ágústmánuði. Ljósm. Sigurður Steinn EinarssonÍsfisktogarinn Bjartur NK hefur verið seldur til Íran en ráðgert er að afhenda skipið nýjum eigendum í  ágústmánuði næstkomandi.
 
Bjartur var smíðaður í Japan og hefur alla tíð verið í eigu Síldarvinnslunnar. Honum var hleypt af stokkunum í skipasmíðastöð í Niigata hinn 25. október árið 1972 og afhentur Síldarvinnslunni 12. janúar árið 1973. Siglingin frá Niigata til Neskaupstaðar tók 49 sólarhringa og var vegalengdin 13.150 sjómílur. Á siglingunni heim var komið við í Honolulu á Hawaii og Balboa við Panamaskurðinn.
 
Bjartur sigldi í fyrsta sinn inn Norðfjörð klukkan 8.30 að morgni föstudagsins 2. mars 1973. Skipið þótti afar vel búið og hið glæsilegasta í alla staði. Stærð skipsins er 461 tonn og var það í upphafi búið 2000 hestafla aðalvél. Allur tækjabúnaður í skipinu var japanskur  ef undan er skilin talstöðin sem var af danskri gerð.
 
Útgerð Bjarts hefur gengið vel frá upphafi og hefur ekki þótt vera ástæða til að gera miklar breytingar á skipinu. Árið 1984 var þó ný 2.413 hestafla aðalvél sett í það og árið 2004 hélt Bjartur til Póllands þar sem meiriháttar viðhaldi var sinnt. Heildarafli Bjarts frá því að hann hóf veiðar árið 1973 er rúmlega 140 þúsund tonn. Miðað við núverandi fiskverð má gera ráð fyrir að aflaverðmæti skipsins á þessum tíma nemi hátt í 30 milljörðum króna.
 
Bjartur hefur tekið þátt í togararalli Hafrannsóknastofnunar og hefur ekkert annað skip jafn oft tekið þátt í því. Í marsmánuði sl. lauk Bjartur þátttöku í sínu 26. ralli.  
 
Nánar verður fjallað um sögu Bjarts hér á heimasíðunni þegar kemur að því að hann hverfur á braut til fjarlægra slóða. 
 

Fjórðungssjúkrahúsinu færð þvottavél fyrir speglunarbúnað að gjöf

Elín Hjaltalín Jóhannesdóttir hjúkrunarfræðingur og Jón Sen yfirlæknir við ristilspeglunartækið.  Ljósm.  Smári GeirssonElín Hjaltalín Jóhannesdóttir hjúkrunarfræðingur og Jón Sen yfirlæknir við ristilspeglunartækið. Ljósm. Smári Geirsson
Á aðalfundi Síldarvinnslunnar sem haldinn var sl. fimmtudag var samþykkt að færa Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað þvottavél fyrir speglunarbúnað að gjöf en vélin kostar 3,4 milljónir króna. Á starfsmannafundi fyrirtækisins sem haldinn var í gær afhenti Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Jóni Sen yfirlækni gjöfina. Jón þakkaði fyrir þessa höfðinglegu gjöf og sagði að hin nýja þvottavél væri bæði einföld í notkun og fljótvirk og hún myndi gera það að verkum að speglunartæki sjúkrahússins myndu nýtast mun betur en hingað til.
 
Eins og áður hefur verið fjallað um hér á heimasíðunni var í lok árs 2014 undirritaður samningur á milli Síldarvinnslunnar og Heilbrigðisstofnunar Austurlands um að starfsmönnum Síldarvinnslunnar sem náð hafa 50 ára aldri gefist kostur á ristilspeglun á Fjórðungssjúkrahúsinu þeim að kostnaðarlausu. Við undirritun samningsins færði Síldarvinnslan sjúkrahúsinu ristilspeglunartæki að gjöf og hafði sjúkrahúsið þá yfir tveimur slíkum tækjum að ráða. Þessi tæki nýttust ekki eins vel og æskilegt hefði verið því langan tíma tók að þvo búnaðinn á milli speglana. Hin nýja þvottavél mun bæta þarna úr og munu afköst við ristilspeglanir geta aukist verulega með tilkomu hennar.
 

Fjölmennasti starfsmannafundur í sögu Síldarvinnslunnar

DSC04259 

Um 200 manns sóttu starfsmannafund Síldarvinnslunnar fyrr í dag. Ljósm: Sigurður Steinn Einarsson

Um 200 manns sóttu starfsmannafund Síldarvinnslunnar sem haldinn var í dag í Egilsbúð í Neskaupstað. Fundinn sóttu sjómenn og starfsmenn landvinnslu í Neskaupstað og Seyðisfirði ásamt starfsmönnum Gullbergs ehf. á Seyðisfirði en í þeim hópi voru einnig skipverjar á Gullver NS. Þá sátu fundinn gestir frá Loðnuvinnslunni á Fáskrúðsfirði. Fundurinn bar yfirskriftina Hvernig á að byggja upp heilbrigðan vinnustað ?

Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar setti fundinn og fjallaði um mikilvægi þess að starfsfólki liði vel á vinnustað og þar byggi það við öruggt og jákvætt umhverfi. Salóme Rut Harðardóttir, íþrótta- og heilsufræðingur,  gerði síðan grein fyrir niðurstöðum rannsóknar sem hún gerði á lífsánægju og starfsumhverfi sjómanna en rannsóknin hefur vakið verulega athygli og töluvert verið um hana fjallað í fjölmiðlum að undanförnu. Þá flutti Jóhann Ingi Gunnarsson, sálfræðingur, erindi um starfsanda og liðsheild og Edda Björgvins gerði mikilvægi jákvæðra samskipta og gleði á vinnustað góð skil. Í lokin fjallaði Hákon Ernuson, starfsmannastjóri Síldarvinnslunnar, um helstu áherslur í nýrri starfsmannastefnu fyrirtækisins.

DSC04244

Edda Björgvins leikkona fjallaði um gleði á vinnustað. Ljósm: Sigurður Steinn Einarsson

 

                Í lok fundar var brugðið á leik og stofnuð í skyndi hljómsveit þar sem framkvæmdastjórinn sýndi snilldartakta á bassa og Helga Ingibjargardóttir, starfsmaður í fiskvinnslustöð Gullbergs sá um að slá taktinn. Gítarspil annaðist síðan Jón Hilmar Kárason og sá til þess að útkoman var glæsileg.

                Að fundi loknum var öllum gestum boðið upp á góðar veitingar og kvöddu þeir Egilsbúð saddir og glaðir.

DSC04256 2

               Nýjasta hljómsveit landsins. Ljósm: Sigurður Steinn Einarsson

„Ég hef aldrei notið þess betur að vera á sjó en einmitt núna,“ segir Sigurður Karl Jóhannsson háseti á Berki

„Ég hef aldrei notið þess betur að vera á sjó en einmitt núna,“ segir Sigurður Karl Jóhannsson háseti á BerkiSigurður Karl Jóhannsson hefur verið sjómaður á skipum Síldarvinnslunnar frá 14 ára aldri eða í 45 ár. Hann hefur upplifað gríðarlegar breytingar á sjómannsstarfinu og getur rakið þær með skilmerkilegum hætti. Heimasíða Síldarvinnslunnar ákvað að biðja Sigurð um að segja stuttlega frá reynslu sinni af sjónum og hvernig störfin og skipin hafa breyst. Nú skal Sigurði gefið orðið:
Byrjaði 14 ára hálfdrættingur
 
Ég var 14 ára þegar ég byrjaði á sjónum sumarið 1971. Það var á Barða sem var fyrsti eiginlegi skuttogarinn sem við Íslendingar eignuðumst. Þarna um borð var ég á hálfum hlut á móti Ragnari Sverrissyni en Magni Kristjánsson var skipstjóri. Það var góður skóli að vera á Barðanum og okkur strákunum var ekkert hlíft, stundum var meira að segja pínulítið níðst á okkur. Við vorum til dæmis ávallt látnir vaska upp eftir hverja vakt en það þurftu aðrir hásetar ekki að gera. Svo vorum við píndir reglulega og við tókum alltaf á móti, en þetta var allt í gamni gert. Þarna um borð lærðum við mikið hvað sjómennskuna varðaði og höfðum gott af því að vera þarna. Að loknu fyrsta sumrinu á sjónum var farið í skólann en sumarið eftir kom ekki annað til greina en að halda áfram á Barðanum.
 
Árið 1973 fór ég síðan á Bjart en Magni Kristjánsson var einnig með hann. Bjartur var spánnýr Japanstogari og allt þar um borð þótti óskaplega flott og fínt. Þar um borð var aðbúnaður og vinnuaðstaða miklu betri en á Barðanum og mér fannst ég hafa himin höndum tekið þegar ég kom þar um borð.
 
Fyrstu fjögur árin sem ég var á sjó var ég alltaf sjóveikur – jafnvel í blíðu leið mér illa og ældi oft eins og múkki. Þetta var komið á sálina á mér. En þrátt fyrir bölvaða sjóveikina hélt ég áfram á sjónum og ég er ánægður með þá þrjósku sem ég sýndi þá. Einn góðan veðurdag hvarf sjóveikin og ég hef ekki fundið fyrir henni síðan.
Á fimm skipum í 45 ár
 
Ég hef í reyndinni bara verið á fimm Síldarvinnsluskipum í þau 45 ár sem ég hef starfað hjá fyrirtækinu þó ég hafi farið einn og einn túr á öðrum. Fyrst var ég semsagt á Barða og síðan á Bjarti á árunum 1973-1988. Þá lá leiðin á Börk, sem oft hefur verið nefndur Stóri-Börkur. Á Berki var ég til ársins 2010 en þá var skipt yfir á þáverandi Beiti og af Beiti yfir á núverandi Börk þegar hann var keyptur árið 2014. Skipstjórarnir sem ég hef verið með hafa ekki verið margir, fyrst Magni Kristjánsson eins og fyrr getur, þá Sveinn Benediktsson á Bjarti, síðan Helgi Geir Valdimarsson og Sturla Þórðarson á Stóra-Berki og síðan Sturla, Hálfdan Hálfdanarson og Hjörvar Hjálmarsson. Þá fór ég í afleysingatúra með ýmsum góðum skipstjórum.

Lesa meira...

Fleiri greinar...

  1. Aðalfundur Síldarvinnslunnar hf. vegna ársins 2015
  2. Stjórnarkjör á aðalfundi
  3. Hátíðarhöld Sjómannadagsins í Neskaupstað 2016
  4. Pylsupartí í blíðunni
  5. Starfsmannafundur
  6. Afreksmannasjóður Guðmundar Bjarnasonar
  7. Nýtt öryggiskerfi: Hvað er að frétta?
  8. Tæplega 65.000 tonn af kolmunna til Neskaupstaðar og Seyðisfjarðar