Framkvæmdir við Blæng NK ganga vel í Póllandi

Blængur NK í þurrdokk í Gdansk. Ljósm. Karl Jóhann BirgissonBlængur NK í þurrdokk í Gdansk. Ljósm. Karl Jóhann BirgissonFrystitogarinn Blængur NK er nú í þurrdokk í Gdansk Póllandi þar sem unnið er að ýmsum framkvæmdum í skipinu. Skipið fór í dokkina fyrir einni og hálfri viku og síðan hefur verið unnið við að sandblása það og mála ásamt því sem íbúðir hafa verið rifnar en þær verða allar endurnýjaðar. Heimasíðan sló á þráðinn til Karls Jóhanns Birgissonar, rekstrarstjóra útgerðarsviðs Síldarvinnslunnar, sem staddur er í Gdansk. „Við höfum verið óskaplega heppnir með veður þannig að vel hefur gengið að sandblása og mála skipið. Það er farið að vora hér í norðanverðu Póllandi. Blængur mun fara úr dokkinni í næstu viku og leggjast við bryggju og þar verður framkvæmdum um borð haldið áfram en áætlað er að verkið hér í Póllandi taki 12 vikur. Það hefur ekkert óvænt komið upp á og allt lítur vel út hvað varðar áframhald verksins hér ytra. Þegar öllum framkvæmdum lýkur hér í Póllandi verður síðan siglt til Akureyrar þar sem ný vinnslulína verður sett í skipið,“ sagði Karl Jóhann.
 
Aðspurður kvaðst Karl Jóhann koma heim um helgina en Freysteinn Bjarnason verður hins vegar fulltrúi Síldarvinnslunnar og eftirlitsmaður með framkvæmdunum við Blæng í Póllandi.

Börkur og Beitir halda til kolmunnaveiða

Börkur NK siglir inn Norðfjörð með fullfermi af kolmunna í apríl 2015. Ljósm.Hákon ErnusonBörkur NK siglir inn Norðfjörð með fullfermi af kolmunna í apríl 2015. Ljósm.Hákon ErnusonBörkur NK hélt til kolmunnaveiða suður af Færeyjum síðastliðna nótt og ráðgert er að Beitir NK sigli í kjölfar hans í dag.  Um 30 tíma sigling er á veiðisvæðið en vegalengdin á miðin er um 380-400 mílur. Íslensku skipin geta veitt kolmunnann á gráa svæðinu á milli írsku og færeysku lögsögunnar og inni í færeysku lögsögunni. Þær reglur gilda að inni í færeysku lögsögunni mega einungis 12 íslensk skip veiða samtímis og tvö síðustu ár hafa íslensk skip stundum þurft að bíða í höfn í Færeyjum eftir að komast að.
 
Heimasíðan sló á þráðinn til Hjörvars Hjálmarssonar skipstjóra á Berki í morgun og sagði hann að nú væri beðið eftir því að kolmunninn gengi norður úr írsku lögsögunni og inn á gráa svæðið en síðan gengi hann inn í færeysku lögsöguna. „Síðustu tvö árin hófst kolmunnaveiði íslenskra skipa þarna hinn 13. apríl og gerum við ráð fyrir að veiðin hefjist um svipað leyti í ár. Það hefur verið hörkuveiði að undanförnu í írsku lögsögunni þannig að menn eru bara bjartsýnir,“ sagði Hjörvar. 

Bjartur með 200 tonn á einni viku

Bjartur NK. Ljósm. Hákon ErnusonBjartur NK. Ljósm. Hákon ErnusonÍsfisktogarinn Bjartur NK hélt til veiða á annan í páskum. Vegna dræmrar veiði á Austfjarðamiðum hélt hann á Selvogsbanka og fékk þar góðan þorskafla ásamt því að veiða vænan karfa á Melsekk. Eftir tvo daga á veiðum var haldið til Hafnarfjarðar og landað fullfermi eða 100 tonnum. Í Hafnarfirði biðu Bjartsmenn af sér veður en héldu til veiða á ný á föstudagsmorgun og var veitt á svipuðum slóðum og áður. Góð karfaveiði var á Tánni og í Grindavíkurdýpi en yfir nóttina fékkst þorskur, ýsa og ufsi í bland á Selvogsbankanum. Nú er Bjartur á landleið til Neskaupstaðar með fullfermi eftir þrjá daga á veiðum.
 
Skipstjóri á Bjarti er Bjarni Már Hafsteinsson.

Birtingur NK (áður Börkur) á Kanarí

Birtingur NK við bryggju í Las Palmas. Ljósm. Hjörvar M. SigurjónssonBirtingur NK við bryggju í Las Palmas. Ljósm. Hjörvar M. SigurjónssonBirtingur NK kvaddi Neskaupstað hinn 15. mars og hélt áleiðis til Las Palmas á Kanaríeyjum þar sem hann hefur verið afhentur nýjum eigendum. Pólska fyrirtækið Atlantex hefur fest kaup á skipinu og fær það nafnið Janus og einkennisstafina GDY-57 þannig að ný heimahöfn verður Gdynia í Póllandi.
 
Skipstjóri í siglingunni til Kanaríeyja var Tómas Kárason og segir hann ferðina hafa gengið vel í alla staði. „Það var siglt beint í suður, 180 gráður, alla leiðina og tók siglingin sjö og hálfan sólarhring.  Við vorum sjö um borð og nutum ferðarinnar til hins ítrasta. Þegar við vorum út af Biskajaflóanum fengum við meðvind og það var siglt á 12 mílum það sem eftir var. Þegar til Las Palmas var komið var lagst að bryggju og síðan var skipið tekið í þurrdokk. Það virðist líta vel út í alla staði og skrokkurinn og skrúfan virtust í besta standi. Í reynd hafa menn formlega kvatt þetta merka aflaskip með söknuði og óskað því velfarnaðar í höndum nýrra eigenda. Það eru margir sem hugsa til skipsins með mikilli hlýju og eiga ljúfar minningar sem tengjast því. Einn okkar manna, Hjörvar Sigurjónsson, mun fara fyrsta túrinn á skipinu eftir eigendaskiptin og mun hann miðla nýrri áhöfn af reynslu sinni,“ sagði Tómas.Birtingur NK í þurrdokk í Las Palmas. Ljósm. Hjörvar M. SigurjónssonBirtingur NK í þurrdokk í Las Palmas. Ljósm. Hjörvar M. SigurjónssonÍ gær var unnið við að mála nýtt nafn og númer á skipið. Ljósm. Tómas KárasonÍ gær var unnið við að mála nýtt nafn og númer á skipið. Ljósm. Tómas Kárason
 

Grænlandsfálki í heimsókn um borð í Gullver

Grænlandsfálki í heimsókn um borð í GullverÁ föstudaginn langa gerði ungur fálki sig heimankominn um borð í Gullver NS en þá var skipið að veiðum á Hvalbakshallinu um 50 mílur frá landi. Þegar skipverjar urðu varir við fuglinn var hann að gæða sér á gulllaxi. Ólafur K. Nielsen fuglafræðingur fékk myndir af fuglinum og telur hann að hér sé um Grænlandsfálka að ræða sem einhverra hluta vegna hefur ferðast frá sínum hefðbundnu heimaslóðum.
 
Að kvöldi föstudagsins var fuglinn fram í stafni skipsins og hímdi þar. Einn Gullversmanna gekk þá aftan að honum og tók hann upp. Í fyrstu sýndi fálkinn dálítinn mótþróa en fljótlega róaðist hann. Útbúinn var kassi sem hann hafðist við í þar til í land var komið og þá fékk hann gæðaþorsk að borða. Haft var samband við Náttúrustofu Austurlands og skoðaði fulltrúi hennar fuglinn á Egilsstöðum og var hann merktur. Að því loknu  var fálkanum sleppt og virtist hann vera í besta formi þegar hann flaug á brott.
 
Gunnlaugur Hafsteinsson vélstjóri á Gullver tók meðfylgjandi myndir af fálkanum.Grænlandsfálki í heimsókn um borð í Gullver

Togararnir landa fyrir páskana

Togað í rökkrinu. Ljósm. Guðmundur AfreðssoTogað í rökkrinu. Ljósm. Guðmundur AfreðssonTogarar Síldarvinnslunnar og dótturfélaga koma allir inn og landa fyrir páskana. Öll skipin taka hlé frá veiðum yfir hátíðina að Gullver NS undanskildum.
 
Bjartur NK kom úr sinni fyrstu veiðiferð að afloknu togararalli sl. mánudag. Hann landaði 70 tonnum í Neskaupstað og var uppistaða aflans þorskur og karfi.
 
Gullver NS landaði einnig sl. mánudag á Seyðisfirði. Aflinn var 74 tonn og rétt eins og hjá Bjarti var þorskur og karfi uppistaða aflans. Gullver hélt á ný til veiða í gærkvöldi.
 
Vestmannaeyjaskipin Vestmannaey VE og Bergey VE eru bæði að landa fullfermi, 70 tonnum, í Vestmannaeyjum í dag. Hjá báðum skipum er aflinn að mestu þorskur, ufsi og karfi.
 
Frystitogarinn Barði NK hélt til veiða hinn 27. febrúar, millilandaði snemma í marsmánuði og lauk síðan veiðiferðinni þegar hann kom til Neskaupstaðar í gær. Afli skipsins í túrnum er 600 tonn upp úr sjó, þar af rúm 400 tonn af gullkarfa.

Fleiri greinar...

  1. Hafþór Eiríksson nýr verksmiðjustjóri fiskimjölsverksmiðjunnar í Neskaupstað
  2. Einelti skal tekið föstum tökum
  3. Blængur NK til Póllands
  4. Loðnuveiðum Síldarvinnsluskipanna er lokið
  5. Birtingur NK (áður Börkur NK) seldur úr landi – skipið hefur veitt 1.546.235 tonn á meðan það hefur verið í eigu Síldarvinnslunnar
  6. Bjartur NK hefur lokið sínu 26. ralli
  7. Nær samfelld vinnsla á loðnuhrognum í Neskaupstað
  8. Síldarvinnslan styrkir Knattspyrnufélag Fjarðabyggðar