Rallinu lokið hjá Barða

Barði NK hefur lokið rallinu í ár. Ljósm. Smári GeirssonBarði NK hefur lokið rallinu í ár. Ljósm. Smári GeirssonBarði NK kom til hafnar í Neskaupstað aðfaranótt sunnudags og hafði þá lokið sínu hlutverki í hinu árlega ralli Hafrannsóknastofnunar. Barði hélt í rallið 28. febrúar og má segja að verkefni hans hafi gengið samkvæmt áætlun. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri segir að fyrri hluti rallsins hafi gengið einstaklega vel enda menn heppnir með veður. „Seinni hlutinn var heldur erfiðari en þá var veðrið óhagstæðara,“sagði Steinþór. „Þetta var fyrsta rallið á Barða en í áhöfninni eru þrælvanir rallkarlar því þeir voru áður á Bjarti NK sem fór í hvorki fleiri né færri en 26 röll,“ sagði Steinþór að lokum.

Barði mun halda til veiða á morgun. Í dag verða rallveiðarfærin frá Hafrannsóknastofnun tekin í land og síðan verða veiðarfæri skipsins sett um borð.

Fiskvinnslustöðin á Seyðisfirði að klæðast nýjum búningi

Fiskvinnslustöðin á Seyðisfirði í Síldarvinnslulitunum. Gullver NS liggur við bryggju. Ljósm. Ómar BogasonFiskvinnslustöðin á Seyðisfirði í Síldarvinnslulitunum. Gullver NS liggur við bryggju.
Ljósm. Ómar Bogason
Fiskvinnslustöðin á Seyðisfirði er að stórum hluta komin í Síldarvinnslulitina. Húsið var rautt að lit og farið að láta á sjá en nú er langt komið með að endurnýja klæðningu þess og þak auk þess sem unnið hefur verið að öðrum umbótum. Stöðin er að taka miklum stakkaskiptum, verður hin glæsilegasta og bæjarprýði. Framkvæmdir við húsið hófust síðastliðið sumar og eru nú langt komnar. Adolf Guðmundsson, rekstrarstjóri á Seyðisfirði, segir að það sé afar ánægjulegt að fiskvinnslustöðin sé að fá nýtt og betra útlit. Hún sé áberandi hús í bænum og útlit þess skipti miklu máli.
 
Myndina sem fylgir tók Ómar Bogason og sést blá fiskvinnslustöðin en framan við hana liggur togarinn Gullver sem hefur haldið sínum rauða lit.

Kolmunnaveiðar íslenskra skipa að hefjast

BO mars 2017 HEBjarni Ólafsson AK hélt til kolmunnaveiða í gær. Ljósm. Hákon ErnusonBjarni Ólafsson AK hélt til kolmunnaveiða frá Neskaupstað í gær og Börkur í nótt. Heimasíðan ræddi við Runólf Runólfsson skipstjóra á Bjarna Ólafssyni að því tilefni. „Jú, við erum að byrja á kolmunnanum og það verður ærið verkefni fyrir íslensk skip því kvótinn er stór. Það er æðislegt að hafa svona verkefni að lokinni góðri loðnuvertíð. Við munum koma við í Færeyjum og taka troll en síðan verður haldið á miðin vestur af Írlandi. Það er tveggja og hálfs sólahrings sigling á miðin, þetta eru 650 mílur. Íslensku skipin eru gjarnan að búa sig á þessar veiðar eða leggja af stað en Vilhelm Þorsteinsson EA er kominn á miðin. Þarna eru helst færeysk og rússnesk skip að veiðum núna. Mér skilst að veiðin hafi verið ágæt að undanförnu, dálítið köflótt en heilt yfir ágæt,“ sagði Runólfur.

Gert er ráð fyrir að Beitir NK haldi til kolmunnaveiða í kvöld.

Starfsmenn fiskvinnslustöðvarinnar á Seyðisfirði á íslenskunámskeiði

Nemendur og kennari íslenskunámskeiðsins á Seyðisfirði. Ólafía Þ. Stefánsdóttir kennari er fremst fyrir miðju.   Ljósm. Ómar BogasonNemendur og kennari íslenskunámskeiðsins á Seyðisfirði. Ólafía Þ. Stefánsdóttir kennari er fremst fyrir miðju. Ljósm. Ómar BogasonUm þessar mundir er erlendum starfsmönnum fiskvinnslustöðvar Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði boðið upp á íslenskunámskeið. Alls sækir 21 starfsmaður námskeiðið og eru þeir frá níu þjóðlöndum. Kennari á námskeiðinu er Ólafía Þ. Stefánsdóttir. Ólafía segir að hún hafi aldrei haft svona fjölbreyttan nemendahóp á námskeiði fyrr en námskeiðið lofi hins vegar góðu. „Nemendurnir eru hreint frábærir í alla staði og afar áhugasamir um að ná tökum á íslenskunni,“ sagði Ólafía. „Við förum hægt yfir námsefnið og notum tímann einnig til að fara í leiki og æfa nemendurna í að tala saman á íslensku. Þetta hristir hópinn saman og gerir allt námið skemmtilegra. Mér þætti tilhlýðilegt að nýta fjölbreytileikann í hópnum og efna til einhvers konar þjóðahátíðar í lok námskeiðsins og þá myndu nemendurnir kynna sitt heimaland. Við eigum nefnilega að nýta okkur þennan fjölbreytileika og fræðast líka af þeim. Ég hlakka svo sannarlega til að vinna áfram með hópnum og vona innilega að þau læri að bjarga sér á íslensku,“ sagði Ólafía að lokum.

Námskeiðið er alls 20 kennslustundir og mun því ljúka um mánaðamótin mars-apríl.

Lok loðnuvertíðar hjá Síldarvinnsluskipunum

Börkur NK að loðnuveiðum út af Skagafirði í gær. Ljósm. Sigurjón M. JónusonBörkur NK að loðnuveiðum út af Skagafirði í gær. Ljósm. Sigurjón M. JónusonSíldarvinnsluskipin hafa lokið veiðum á þessari loðnuvertíð og eru þau ýmist að landa, bíða löndunar eða á landleið úr síðasta túr. Beitir er að landa hrognaloðnu í Neskaupstað og Börkur býður þar löndunar með 1.800 tonn. Bjarni Ólafsson er á austurleið með hrognaloðnu af miðunum fyrir vestan.

Börkur lauk vertíðinni út af Skagafirði þar sem góður afli fékkst í gær. Haft var samband við Hálfdan Hálfdanarson skipstjóra og hann spurður hvort ekki væri óvenjulegt að ljúka veiðum á loðnuvertíð á þessum slóðum. „Jú, það má segja að það hafi komið á óvart. Þarna var mokveiði í gær. Við köstuðum sex eða sjö sinnum og fengum upp í 800 tonn í kasti. Beitir var á austurleið og átti þarna leið hjá og þá vorum við akkúrat að dæla. Við notuðum tækifærið og gáfum honum 200 tonn. Þetta er smærri loðna en fyrir vestan og hrognaþroskinn er ekki eins langt kominn. Þroskinn er kannski 18-20% og þessi loðna á talsvert eftir í hrygningu. Annars hefur vertíðin gengið vel – góð veður og góð veiði. Það var ekkert sjálfgefið að ná þessum kvóta á svona stuttum tíma en það tókst og allir eru ánægðir,“ sagði Hálfdan.

Beitir NK dælir loðnu úr nót Barkar NK í gær. Ljósm. Sigurjón M. JónusonBeitir NK dælir loðnu úr nót Barkar NK í gær. Ljósm. Sigurjón M. Jónuson

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Loðnusjómenn alsælir með vertíðina

 Börkur NK. Ljósm. Hákon Ernuson Börkur NK. Ljósm. Hákon ErnusonNú er farið að sjá fyrir endann á yfirstandandi loðnuvertíð og í tilefni af því hafði heimasíðan samband við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra á Berki NK og spurði hvað hann vildi segja um vertíðina. Börkur NK er væntanlegur til Neskaupstaðar með fullfermi af hrognaloðnu í dag og er þetta fyrsti túrinn á vertíðinni sem Hjörvar er ekki með skipið. Hjörvar er afar ánægður með vertíðina og segir að loðnusjómenn séu almennt alsælir með hana. „Á vertíðinni hefur verið mikið af loðnu og einstök veðurblíða og er óvenjulegt að veður haldist svona gott á þessum árstíma. Alla vertíðina hafa menn helst þurft að passa sig á að fá ekki of mikinn afla í kasti. Það hefur gengið misjafnlega og hafa mörg skip lent í veiðarfæratjóni. Segja má að þetta sé lúxusvandamál og mörg dæmi eru um gríðarstór köst á vertíðinni, jafnvel stærri köst en áður hefur heyrst um. Elstu menn í flotanum telja þessa vertíð vera á borð við þær bestu hvað loðnumagnið varðar,“ sagði Hjörvar.

Þegar Hjörvar er spurður að því hvort ekki hafi komið á óvart hve mikið hafi verið af loðnu segir hann að ýmsar fréttir hafi bent til mikillar loðnugengdar þó fræðimenn hafi verið svartsýnir. „Ég held að fræðimennirnir viti afskaplega lítið um loðnuna og auðvitað háir það þeim hve litlu fjármagni er varið til rannsókna. Við höfðum heyrt frá togurum að mjög mikið væri af loðnu sunnarlega í Grænlandskantinum en þar var ekkert leitað. Það var einungis leitað norðar. Og blessaðir fræðimennirnir tala ávallt þannig að þegar þeir hafa farið yfir takmarkað hafsvæði þá hafi þeir séð alla fiska í sjónum. Þetta er ekki svona. Stundum sést mikið af fiski á tilteknu svæði en næsta dag sést ekki neitt. Það þýðir ekki að allur fiskurinn sem sást þarna í gær sé dauður. Menn verða að taka rannsóknir af þessu tagi til alvarlegrar endurskoðunar og það er dapurlegt að útgerðin hafi þurft að kosta rannsóknaleiðangurinn í febrúar sem leiddi til þeirrar glæsivertíðar sem nú er langt komin,“ sagði Hjörvar að lokum.

Fleiri greinar...

  1. Barði NK hálfnaður í rallinu
  2. Fyrsta veiðiferð Blængs NK eftir endurbætur og breytingar
  3. Samfelld vinnsla á loðnuhrognum í Neskaupstað og Helguvík
  4. Hrognafrysting hafin í Neskaupstað
  5. Aflinn í mettúr Beitis reyndist vera 3.120 tonn
  6. Hrognavinnsla hafin í Helguvík
  7. Beitir fékk rúmlega 3.000 tonn á 13 tímum – stærsti loðnufarmurinn
  8. Frábærar öskudagsheimsóknir