Fyrsta loðnan til Neskaupstaðar

Norsku loðnuskipin Gardar og Kings Bay í Norðfjarðarhöfn. Ljósm. Hákon ErnusonNorsku loðnuskipin Gardar og Kings Bay í Norðfjarðarhöfn. Ljósm. Hákon Ernuson

Ole Toft, skipstjóri á Gardar. Ljósm. Hákon ErnusonOle Toft, skipstjóri á Gardar. Ljósm. Hákon ErnusonÍ gær komu tveir norskir bátar með loðnu til Neskaupstaðar. Gardar (áður Beitir NK) kom með um 300 tonn og Kings Bay með 600 tonn. Af

linn fékkst í nót um 30 mílur norðaustur af Langanesi. Mikil áta reyndist í loðnunni og því fór einungis takmarkað magn af afla Kings Bay til manneldisvinnslu og ekkert af afla Gardar. Heimasíðan ræddi við Ole Toft, skipstjóra á Gardar, og spurði hann um veiðarnar hingað til. „Við fórum frá Bergen 31. janúar og komum á miðin sl. fimmtudag. Þá var slæmt veður og við byrjuðum ekki að fiska fyrr en á laugardag. Við fengum um 300 tonn og komum til Neskaupstaðar í gær. Það var mikil áta í loðnunni þannig að hún var ekki frystingarhæf svo við lönduðum í fiskimjölsverksmiðjuna. Það hefur gengið ágætlega að fiska hjá norsku bátunum. Loðnan er stór 

 

og falleg en átan skemmir fyrir. Við á Gardar megum veiða 620 tonn af loðnu á Íslandsmiðum og við verðum að fiska í nót. Okkur er óheimilt að fiska í troll. Það eru 10 menn í áhöfn á nótinni,“ sagði Ole Toft. „Það eru margir Íslendingar sem þekkja Gardar. Gardar hét áður Beitir og var frá Neskaupstað. Gamli Gardar heitir nú Polar Amaroq. Nú ætlum við að bíða hér í höfn í nokkra daga. Við vonumst síðan til að fá átulausa loðnu sem hæf verður til manneldisvinnslu, en fyrir slíkan afla ættum við að fá gott verð,“ sagði Ole Toft að lokum.

Polar Amaroq veiðir og leitar

Polar Amaroq GR 18-49 frá Tasiilaq í höfn í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonPolar Amaroq GR 18-49 frá Tasiilaq í höfn í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonÍ gær var greint frá því hér á heimasíðunni að grænlenska skipið Polar Amaroq hefði fengið 350-400 tonn af loðnu norðnorðaustur af Langanesi og væri hún fryst um borð í skipinu. Auk þess að veiða mun Polar Amaroq leita að loðnu og eru rannsóknamenn frá Hafrannsóknastofnun um borð. Í morgun ræddi heimasíðan við Guðmund Hallsson stýrimann og sagði hann að tekið hefði verið eitt hol fyrir vinnsluna í gærkvöldi og fengust þá 250 tonn. Verið væri að vinna þann afla um borð en skipið væri nú byrjað að sigla eftir leitarleggjunum. Sagði Guðmundur að það hefði verið „ágætt að sjá“ á blettinum sem skipið var á í gær og nú yrði spennandi að sjá hvað kæmi út úr leitinni.
 
Í morgun mátti sjá fréttir í norskum miðlum um að norska skipið Fiskebas hefði fengið 165 tonn af loðnu við Ísland og væri á leiðinni til Fáskrúðsfjarðar með aflann.

Polar Amaroq kominn með 350-400 tonn af stórri og fallegri loðnu

Polar Amaroq fékk fyrstu loðnuna á vertíðinni og frystir um borð. Ljósm. Hákon ErnusonPolar Amaroq fékk fyrstu loðnuna á vertíðinni og frystir um borð. Ljósm. Hákon ErnusonGrænlenska skipið Polar Amaroq hélt til loðnuveiða og -rannsókna á þriðjudagskvöld, en um borð í skipinu eru rannsóknamenn frá Hafrannsóknastofnun. Heimasíðan sló á þráðinn um hádegið í dag og spurði frétta. Bæði var rætt við Geir Zoёga skipstjóra og Guðmund Hallsson stýrimann. Þegar rætt var við þá félaga var skipið statt um 54 mílur norðnorðaustur af Langanesi á hefðbundinni loðnuslóð. Fram kom hjá þeim að í gær hefðu þeir orðið varir við töluvert af loðnu á þessum slóðum og kom það nokkuð á óvart ef tekið er tillit til þeirra mælinga sem áður hafa farið fram. Nokkuð erfitt hafi verið að meta magn en tekin voru tvö hol í gærkvöldi og nótt og fengust þá 350-400 tonn af stórri og fallegri loðnu og reyndist hrognafyllingin vera á bilinu 10-11%. Fyrra holið var mjög stutt en hið síðara um fjórir tímar. Vel gengur að frysta loðnuna um borð í Polar Amaroq en skipið getur fryst hátt í 200 tonn á sólarhring.
 
Gert er ráð fyrir að rannsóknaskip frá Hafrannsóknastofnun haldi til loðnuleitar á morgun en að sögn þeirra Polar-manna er veður heldur leiðinlegt á leitarsvæðinu um þessar mundir. Þá er von á norskum og færeyskum skipum á næstunni og þá fjölgar þeim sem svipast um eftir loðnunni.
 
Geir Zoёga sagði að menn hresstust alltaf þegar fyrsta loðnan kæmi um borð. „Maður verður glaður og bjartsýnn þegar loðnulyktin finnst og við höfum heyrt að skip hafi orðið vör við loðnu víðar fyrir norðan land. Vonandi verður loðnuvertíðin miklu betri en gert hefur verið ráð fyrir,“ sagði Geir að lokum.

Eignarréttur á fiskikörum er ekki virtur

Ýmis sjávarútvegsfyrirtæki hafa látið framleiða fyrir sig sérmerkt fiskikör en þrátt fyrir merkinguna er eignarréttur á körunum oft ekki virtur. Bergur-Huginn ehf. í Vestmannaeyjum er eitt þeirra fyrirtækja sem lengi hefur átt sérmerkt kör en haldist illa á þeim. Kör fyrirtækisins hurfu í verulegu magni og vitað er að þeir sem tóku þau létu oft slípa merki fyrirtækisins af þeim. Körin voru síðan notuð með ýmsum hætti, meðal annars undir alls konar rusl.
 
Að því kom að Magnús Kristinsson framkvæmdastjóri fékk nóg og var þá ákveðið að Bergur-Huginn léti Sæplast sérframleiða kör fyrir fyrirtækið. Nýju körin voru að sjálfsögðu með merki þess en þau voru einnig græn að lit, en ekkert annað fyrirtæki á kör í þessum lit. Þetta var gert til þess að körin væru auðþekkjanleg og það dygði ekki að slípa merkið af þeim eftir að þau höfðu verið tekin traustataki af einhverjum óvönduðum. 
 
Þannig auglýsti Bergur-Huginn ehf. fyrir jólin og vakti athygli á eignarrétti á fiskikörum.Þannig auglýsti Bergur-Huginn ehf. fyrir jólin og vakti athygli á eignarrétti á fiskikörum.Að sögn Magnúsar dugði þessi ráðstöfun ekki. Kör fyrirtækisins eru tekin þrátt fyrir græna litinn og enn er haft fyrir því að slípa merkið af þeim. Magnús segir að þetta sé áhugavert umhugsunarefni. „Í reynd er ótrúlegt hvernig menn umgangast fiskikör. Menn sem almennt virða eignarrétt annarra virða alls ekki eignarrétt á fiskikörum. Þeim þykir sjálfsagt að taka kör, jafnvel í nokkru magni, og nota þau í eigin atvinnurekstri. Þetta er hreint út sagt ótrúlegt, vegna þess að kör eru ekki ódýr og það skiptir miklu máli fyrir eiganda þeirra að þau séu til staðar. Körin eru gerð til að geyma í þeim fisk og þess vegna skiptir miklu máli hvernig þau eru notuð og hvernig um þau er hugsað. Það þarf til dæmis að þrífa þau vel reglulega og þess vegna skiptir máli hvað í þau er sett,“ sagði Magnús.
 
Nú fyrir jólin vakti Bergur-Huginn athygli á þessu máli með auglýsingu um leið og það sendi frá sér jólakveðju. Fyrirsögn auglýsingarinnar var Virðum eignarréttinn og henni fylgdi einnig mynd af vörubifreið sem hlaðin var grænum fiskikörum fyrirtækisins.
 

Gengishækkun og afurðaverðsbreytingar eru sjávarútvegsfyrirtækjum og sjómönnum erfiðar

Barði NK

               Barði NK. Ljósm: Hákon Ernuson

Í tengslum við yfirstandandi kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna hafa áhrif gengisbreytinga og lækkandi verðs á fiskmörkuðum gjarnan komið til umræðu. Gengi krónunnar hefur hækkað mikið síðustu mánuði og virðist enn ekkert lát vera á þeirri þróun. Auk hinna óhagstæðu gengisbreytinga hefur afurðaverð farið lækkandi á helstu mörkuðum. Þetta tvennt hefur valdið mörgum sjávarútvegsfyrirtækjum erfiðleikum og rýrt mjög kjör sjómanna. Til þess að útskýra hvað hér er um að ræða er birt meðfylgjandi tafla. Taflan sýnir framleiðslu og framleiðsluverðmæti frystitogarans Barða NK á árinu 2015 og til samanburðar framleiðsluverðmæti og afurðaverð á núverandi gengi og miðað við núverandi afurðaverð.

Barði2015 til 2017

                Fram kemur að framleiðsla skipsins á árinu 2015 hafi verið 2.957 tonn en afli upp úr sjó var tæplega 5.000 tonn. Framleiðsluverðmætið var 1.653 milljónir króna. Ef aðeins er horft er til núverandi gengis skilar sama framleiðsla einungis 1.336 milljónum króna sem er lækkun um 19,2%. Fram kemur í töflunni að lækkunin er breytileg eftir tegundum og þeim mörkuðum sem selt er á. Ef einnig er tekið tillit til afurðaverðslækkunar verður breytingin enn meira afgerandi. Þá nema heildarverðmætin einungis 1.209 milljónum króna sem er lækkun um heil 26,84%. Þetta þýðir í reynd að verð á afurðunum hefur lækkað um 26,84% í íslenskum krónum frá 2015.

                Að sjálfsögðu hefur þessi þróun neikvæð áhrif fyrir útgerð skipsins en hlutur skipverja lækkar einnig mikið. Sem dæmi má nefna að árshlutur háseta var 18,8 milljónir á árinu 2015 en verður einungis 13,8 milljónir miðað við núverandi gengi og afurðaverð. Árstekjur þeirra lækka því um 5 milljónir króna.  

 

Austfirskir útvegsmenn þinga um stöðu samningamála

DSC04845

Hluti fundarmanna á fundinum á Eskifirði í gærkvöldi. Ljósm: Smári Geirsson

                 Í gærkvöldi komu austfirskir útvegsmenn saman á fundi á Eskifirði en á fundinum kynnti samninganefnd útvegsmanna stöðu samningaviðræðna við samtök sjómanna. Nú eru liðnar rúmlega sex vikur frá því að verfall sjómannasamtakanna hófst og tæpar tvær vikur frá því að verkbann á vélstjóra tók gildi. Fundurinn á Eskifirði var fjórði kynningarfundurinn sem haldinn er á landinu.

                Á fundinum var farið ítarlega yfir kröfur bæði sjómannasamtakanna og útvegsmanna og gerð grein fyrir umfjöllun um þær, en sjómannasamtökin hafa í tvígang á undanförnum mánuðum fellt kjarasamninga sem gerðir höfðu verið. Skýrt kom fram að samningar við sjómenn eru flóknir og staða útgerða og útgerðaflokka afar misjöfn til að koma til móts við kröfur þeirra. Þá er ljóst að gengisþróunin að undanförnu hefur haft neikvæð áhrif á hag útgerða og sjómanna og litar sú þróun mjög kjaraviðræðurnar. Í janúarmánuði hefur gengisvísitalan til dæmis hækkað um tæp 4,5%.

                Boðað hefur verið til samningafundar nk. föstudag og skiptir miklu máli hvað kemur út úr þeim fundi. Sjávarútvegsráðherra hefur sagt að ekki standi til að setja lög á kjaradeiluna og vísa henni til gerðadóms en spurningin er hve lengi íslenskt efnahagslíf getur þolað það ástand sem nú ríkir. Hafa verður í huga að það er ekki einungis fiskiskipaflotinn sem hefur stöðvast heldur finna öll fyrirtæki sem þjóna sjávarútvegnum fyrir verkfallinu með skýrum hætti svo ekki sé minnst á fiskvinnslufólk um allt land.  

 

Fleiri greinar...

  1. Síldarvinnslan framúrskarandi 2016
  2. Fyrstu starfsár Síldarvinnslunnar
  3. Veruleg fækkun slysa á starfsstöðvum Síldarvinnslunnar – Beitir NK slysalaus í þrjú ár
  4. Síldarvinnslan hf. á stórafmæli í ár
  5. Frystigeymslurnar í Neskaupstað tóku á móti tæplega 74 þúsund tonnum árið 2016
  6. 2016 var gott ár hjá fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað
  7. Aflaverðmæti skipa Síldarvinnslunnar og dótturfélaga minnkaði um 19,2% á milli ára
  8. Fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar tóku á móti rúmlega 131 þúsund tonnum árið 2016