Tæplega 69 þúsund tonn af makríl og síld til Neskaupstaðar á nýliðinni vertíð

Frá Norðfjarðarhöfn á nýliðinni makríl- og síldarvertíð. Ljósm. Smári GeirssonFrá Norðfjarðarhöfn á nýliðinni makríl- og síldarvertíð. Ljósm. Smári GeirssonHjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað hófust veiðar og vinnsla á makríl og norsk-íslenskri síld í júlímánuði sl. Fyrsta frysta makrílnum var landað 14. júlí en fyrsta makrílnum til vinnslu var landað 17. sama mánaðar. Framan af var áhersla lögð á makrílveiðarnar og síld barst þá að landi sem meðafli en undir lok vertíðarinnar hófust hreinar síldveiðar. Síðasta löndun var 28. október en þá var landað frystri síld. Hér á eftir verður gefið yfirlit um þessar veiðar og vinnslu aflans.
 
Sá afli sem kom til vinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað á veiðitímabilinu nam 38.262 tonnum. Tekið var á móti 23.076 tonnum af makríl, 11.930 tonnum af norsk-íslenskri síld og 3.256 tonnum af íslenskri sumargotssíld en drjúgur hluti af sumargotssíldinni var meðafli undir lok vertíðarinnar. Þessi afli kom frá þremur skipum, Berki NK, Beiti NK og Bjarna Ólafssyni AK. Aflinn skiptist á skipin sem hér segir:
 
  Makríll Norsk-íslensk síld Íslensk sumargotssíld Samtals
Börkur NK 8.550 5.236 1.452 15.238
Beitir NK 8.734 4.886 1.682 15.302
Bjarni Ólafsson AK 5.792 1.808 122 7.722
 
Fyrir utan þann makríl- og síldarafla sem landað var til vinnslu í fiskiðjuverinu lönduðu fjögur vinnsluskip frystum makríl og síld í frystigeymslur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Frystar afurðir þeirra námu 22.678 tonnum. Skipin sem hér um ræðir eru Vilhelm Þorsteinsson EA, Hákon EA, Kristina EA og grænlenska skipið Polar Amaroq. Þá lönduðu  vinnsluskipin samtals 7.970 tonnum af afskurði og fráflokkuðum fiski í fiskimjölsverksmiðjuna í Neskaupstað.
 
Á framansögðu má sjá að á nýliðinni makríl- og síldarvertíð bárust samtals 68.910 tonn af makríl og síld til Neskaupstaðar.
 

Tíminn hefur verið ótrúlega fljótur að líða

Jóhannes Sveinbjörnsson um borð í Bjarti NK. Ljósm. Guðjón B. MagnússonJóhannes Sveinbjörnsson um borð í Bjarti NK. Ljósm. Guðjón B. MagnússonJóhannes Sveinbjörnsson lét af störfum hjá Síldarvinnslunni hinn 31. október sl. en þá varð hann 70 ára. Jóhannes hóf störf hjá fyrirtækinu haustið 1971 þannig að starfstími hans hjá því voru 45 ár. Hann segir að þessi ár hafi verið ótrúlega fljót að líða og margir starfsfélaganna séu eftirminnilegir. Þá hafi breytingarnar á starfsumhverfinu verið hálfbyltingarkenndar. Hér skal Jóhannesi gefið orðið:   
 
Á sjó og í síld
 
Ég er fæddur hér í Neskaupstað en fjölskyldan bjó reyndar í Sandvík fyrsta æviárið mitt. Eins og aðrir strákar byrjaði ég að vinna snemma. Fjórtán ára að aldri var ég til dæmis með Guðmundi Bjarnasyni á Ver á handfæraveiðum við Langanes. Ég starfaði í frystihúsi og mikið á síldarplönunum hérna í bænum. Ég var á Sæsilfri, Mána og Ás og árið 1965 tók ég þátt í að koma síldarplani Naustavers á laggirnar og þar varð ég verkstjóri 18 ára gamall. Naustaver starfaði í fjögur ár. Á þessum árum fór ég tvær vertíðir til Hornafjarðar á vélbátnum Þorsteini. Þar vorum við á handfærum og það var eftirminnilegur tími. Um borð í Þorsteini voru bæði Siggi Jóns og Siggi Nobb og það var sko aldrei leiðinlegt að vera samskipa þessum mönnum.
 
Árið 1968 fór ég einn túr á Árna Magnússyni frá Sandgerði á miðin við Svalbarða. Þar var veidd síld og söltuð um borð en söltunarstöðin Sæsilfur tók síðan á móti síldinni. Eftir þennan túr var ég ráðinn til Sæsilfurs og var verkstjóri við verkun síldarinnar. Þegar síldarævintýrinu lauk endanlega réðst ég sem háseti á Svein Sveinbjörnsson NK sem ýmist var á útilegu á netum eða á síld í Norðursjó.
 
Ráðinn til Síldarvinnslunnar
 
Haustið 1971 var ég ráðinn til Síldarvinnslunnar. Í upphafi vann ég með Guðjóni heitnum Marteinssyni í saltfiskinum og sá um landanir úr skuttogaranum Barða, fyrsta eiginlega skuttogara landsmanna. Fyrir utan þetta hóf ég fljótlega að sinna ýmsum störfum sem tengdust skipum fyrirtækisins.
 
Árið 1973 bættist skuttogarinn Bjartur í flota Síldarvinnslunnar og þá voru togararnir orðnir tveir. Þá var ég ráðinn til að sjá um landanir úr togurunum og öðrum bátum sem lögðu upp afla hjá fyrirtækinu. Í mínum verkahring var einnig að sjá um allar útskipanir á freðfiski.
 
Framan af voru engir fastráðnir í landanirnar og ég þurfti því eilíflega að leita að mönnum til að sinna þeim. Fljótlega varð mönnum ljóst að nauðsynlegt væri að ráða fasta starfsmenn og þá varð til hið svonefnda löndunargengi sem margir muna eflaust eftir.
 
Löndun á fiski úr togurunum var mannaflsfrekt verkefni framan af. Það þurfti 10-12 manns í hverja löndun auk kranamanna. Útskipun á freðfiski krafðist síðan enn fleiri manna; það þurfti marga til að ná fiskinum úr frystiklefunum og stafla honum á bíla sem síðan óku með hann út á höfn. Þar var fiskurinn síðan hífður um borð í flutningaskipið og honum staflað í lestar.
 
Þegar löndunargengið var ekki að landa fiski eða skipa út fiski fékkst það við ýmis störf sem tengdust skipum fyrirtækisins. Einkum var unnið við veiðarfæri.
 
Það voru margir sem unnu mjög lengi í löndunargenginu og segja má að það hafi verið samheldinn og góður hópur. Enginn vann þó lengur í genginu en Víglundur Gunnarsson kranamaður. Hann vann ekki bara á krananum heldur sá til þess að hann væri í fullkomnu lagi og það var lengi ærið verk því það verður að segjast eins og er að kranarnir sem áður voru notaðir voru engin nýtískutæki.
 
Jóhannes Sveinbjörnsson á 70 ára afmælisdaginn. Ljósm. Guðjón B. MagnússonJóhannes Sveinbjörnsson á 70 ára afmælisdaginn. Ljósm. Guðjón B. MagnússonTækniþróunin hefur haft sín áhrif á störf við fisklandanir eins og svo mörg önnur. Allur búnaður hefur breyst og batnað, vinnan er léttari en áður og starfsmönnum hefur fækkað. Í dag eru 5-6 menn að landa úr togara og þar af einungis 1-2 niðri í lest skipsins en í lestinni voru gjarnan 8 á fyrri tíð. Kör hafa leyst kassa af hólmi og afköst við löndunina hafa margfaldast. 
 
Ráðinn reddari
 
Það var líklega árið 1999 sem ég var síðan ráðinn starfsmaður útgerðar Síldarvinnslunnar. Halldór Hinriksson hafði áður verið í því starfi en var að hætta fyrir aldurs sakir. Þetta starf er ótrúlega fjölbreytt og í því fólst allskonar reddingar, enda menn sem gegna slíkum störfum gjarnan kenndir við reddingarnar. Ég sinnti öllu sem tilheyrði útgerðinni að undanskildum vélbúnaði. Það þurfti að sjá til þess að allt væri klárt þegar skip létu úr höfn, allar skoðanir á skipunum væru í lagi og undirbúa komur skipanna úr veiðiferðum. Þessu starfi sinnti ég í 17 ár og hef notið mín vel í því. Tíminn hefur í reynd verið ótrúlega fljótur að líða – hann hefur þotið áfram.
 
Lengst af var ég einn í að starfa fyrir útgerðina í landi, en síðustu tvö árin hefur Sæmundur Sigurjónsson verið með mér. Vissulega er skemmtilegra að eiga starfsfélaga en að vera einn að bauka.
 
Starf reddarans felur í sér að það þarf að hafa samkipti við marga. Ég þurfti að vera í tengslum við umbúðafyrirtæki vegna frystiskipanna, skoðunarstofnanir vegna skoðana á skipunum, yfirmenn skipanna og að sjálfsögðu stjórnendur fyrirtækisins. Allt þetta samstarf hefur verið afar farsælt og ég man í reynd aldrei eftir því að komið hafi til einhverra árekstra. Ég hef verið ánægður í mínu starfi og á þessari stundu vil ég þakka öllu því góða fólki sem ég hef unnið með hjá Síldarvinnslunni. 
 

Beitir með 950 tonn af síld að vestan

Beitir NK. Ljósm. Hákon ErnusonBeitir NK. Ljósm. Hákon ErnusonBeitir NK kom til Neskaupstaðar í gærkvöldi með 950 tonn af íslenskri sumargotssíld sem fékkst fyrir vestan land. Sturla Þórðarson skipstjóri segir að um fallega demantssíld sé að ræða og hafi vinnsla á henni hafist strax í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. „Við fengum þennan afla 100 mílur vestur og vestnorðvestur af Garðskaga. Holin voru afar misjöfn; í sumum var sáralítið en mest fengum við 230-240 tonn í holi. Það er alls ekki mikla síld að sjá þarna en við fengum þó einn ágætan sólarhring,“ sagði Sturla.

Þokkalegur afli og góður fiskur

Barði NK. Ljósm. Hákon ErnusonBarði NK. Ljósm. Hákon ErnusonÍsfisktogarinn Barði NK kom til hafnar í Neskaupstað í gærkvöldi og var afli skipsins 94 tonn. Skipið hélt til veiða sl. fimmtudag. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri var ánægður með túrinn. „Við byrjuðum að veiða í Berufjarðarálnum en vorum síðan mest utan Fótar og upp á Fætinum. Það aflaðist þokkalega og fiskurinn sem fékkst er mjög góður. Leitað var að ufsa og karfa en lítið fannst. Veður í túrnum var heldur leiðinlegt, það brældi af og til,“ sagði Steinþór.
 
Áhöfnin á Barða var áður á Bjarti og segir Steinþór að hún sé óðum að venjast skipinu. „Þetta er allt að slípast til en það tekur ávallt einhvern tíma,“ sagði Steinþór.
 
Gert er ráð fyrir að Barði haldi til veiða á ný um hádegisbil á morgun og verður það væntanlega síðasti túr fyrir sjómannaverkfall ef af því verður.

Fyrsta sumargotssíldin að vestan til Neskaupstaðar

 Börkur NK að landa í Neskaupstað. Ljósm. Smári Geirsson Börkur NK að landa í Neskaupstað. Ljósm. Smári GeirssonBörkur NK kom til Neskaupstaðar í morgun með fyrstu sumargotssíldina sem þangað berst á vertíðinni af miðum fyrir vestan land. Afli skipsins var rúmlega 300 tonn og fer hann allur til vinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Að sögn Hálfdanar Hálfdanarsonar skipstjóra er þarna um þokkalegustu síld að ræða en hún fékkst í fimm holum djúpt út af Faxaflóa. „Það virðist vera lítið af síld þarna á ferðinni þó svo að einn og einn bátur fái eitt og eitt gott hol. Flest hol skipanna eru léleg og stærsta holið okkar var innan við 100 tonn,“ sagði Hálfdan. „Það er ekkert annað að gera en að halda áfram að leita. Eins og er snýst þetta mikið um að vera á réttum stað á réttum tíma. Hafa ber í huga að í fyrra var veiðin einnig afar skrykkjótt framan af en lagaðist svo þegar á leið. Ég trúi því að þetta eigi allt eftir að koma,“ sagði Hálfdan að lokum.
 

Ný starfsmannastefna Síldarvinnslunnar

Ný starfsmannastefna SíldarvinnslunnarÞessa dagana er verið að kynna nýja starfsmannastefnu Síldarvinnslunnar fyrir starfsmönnum fyrirtækisins. Nýja stefnan hefur verið í vinnslu síðasta árið. Við vinnslu stefnunnar var meðal annars höfð til hliðsjónar starfsánægjukönnun og viðtöl sem tekin voru við starfsmenn í öllum deildum fyrirtækisins. Helstu stefnumiðin eru svohljóðandi: 
 
Síldarvinnslan er hátæknivætt sjávarútvegsfyrirtæki í fremstu röð. Slíkur rekstur stendur og fellur með þekkingu og frammistöðu starfsmanna. Það skiptir Síldarvinnsluna því miklu máli að hafa á að skipa góðum og ánægðum starfsmönnum. Í því skyni stefnum við að því að bjóða upp á vinnuumhverfi sem einkennist af hvatningu, öryggi og góðum samskiptum. Við viljum bjóða okkar fólki upp á:
 
 • vinnuumhverfi þar sem stjórnendur og starfsmenn vinna að því í sameiningu að auka sífellt öryggi, velferð og árangur
 • trygga vinnu og góða afkomu
 • vinnu þar sem fólk er hvatt til að gera sitt besta og að efla stöðugt þekkingu sína og færni
 • sveigjanleika og jafnvægi vinnu og einkalífs, eins og frekast er unnt
 • samskipti sem einkennast af samráði og virðingu 
 • jafnrétti til launa og starfsþróunartækifæra
 
Stefnan inniheldur einnig fjölda markmiða og leiða sem miða að því að gera stefnuna að veruleika. 
 
„Þetta er allt hugsað til að gera Síldarvinnsluna að enn betri vinnustað“, segir Hákon Ernuson starfsmannastjóri. „Samhliða tæknivæðingu sjávarútvegsins mun skipta sífellt meira máli að fyrirtæki séu að hugsa vel um fólkið sitt. Samkeppni um gott fólk er hörð og hún mun bara fara harðnandi á næstu árum. Þau fyrirtæki sem vinna ekki skipulega í þessum málum verða að okkar mati mun líklegri til að lenda í vandræðum með mönnun og frammistöðu“, segir Hákon. „Við höfum þegar sett af stað mörg verkefni við innleiðingu stefnunnar og það er vinna sem allir starfsmenn eiga að verða varir við. Þessa dagana erum við aðallega að vinna í miklum breytingum í tengslum við öryggismál og skipuleggja heilsufarsskoðanir, sem eru í boði fyrir alla starfsmenn yfir þrítugu. Öryggi og heilsa verða í forgangi hjá okkur og þetta eru mjög umfangsmikil verkefni. Við höfum einnig hafið vinnslu nýrrar fræðsluáætlunar sem mun vonandi líta dagsins ljós fyrir áramót, þannig að það er allt komið á fullt í að gera stefnuna að veruleika“, segir Hákon að lokum. 
 
Hér verður nánar fjallað um einstaka þætti stefnunnar á næstu vikum, en hana má finna í heild sinni hér á heimasíðunni. Síðar verða veittar ítarlegri upplýsingar um ýmis framkvæmdaatriði tengd stefnunni.

Fleiri greinar...

 1. Framkvæmdum við saltfiskskemmuna lokið
 2. Dauft yfir síldveiðunum fyrir vestan
 3. Síldarvinnslan hlýtur umhverfisviðurkenningu Fjarðabyggðar
 4. Síldveiði er enn fyrir austan
 5. Fleiri kíló, færri krónur
 6. Jólasíldin – ljósmyndasamkeppni
 7. Tæknidagur fjölskyldunnar var frábær
 8. Tekið á móti gestum í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar