Kolmunni á leið til Seyðisfjarðar

Fiskimjölsverksmiðjan á Seyðisfirði. Ljósm. Hákon ErnusonFiskimjölsverksmiðjan á Seyðisfirði. Ljósm. Hákon ErnusonBjarni Ólafsson AK er væntanlegur til Seyðisfjarðar í fyrramálið með 1600 tonn af kolmunna sem fékkst í færeysku lögsögunni. Gunnar Sverrisson verksmiðjustjóri fiskimjölsverksmiðjunnar á Seyðisfirði segir að það sé ávallt fagnaðarefni þegar hráefni berst til verksmiðjunnar. Í janúarmánuði bárust tæplega 4000 tonn af kolmunna en hins vegar kom engin loðna til Seyðisfjarðar enda allri loðnu á vertíðinni landað til manneldisvinnslu. „Við erum alltaf bjartsýnir hérna og eigum von á góðri kolmunnaveiði á næstunni og þá berst hráefni til okkar. Við erum alltaf tilbúnir að taka á móti hráefni og hefja vinnslu,“ sagði Gunnar.
 
Beitir NK er á leiðinni til Neskaupstaðar með 2900 tonn af kolmunna og er væntanlegur í kvöld.

Ufsa- og karfavinnsla í fiskiðjuverinu fram að makríl- og síldarvertíð

Ufsavinnsla í fiskiðjuverinu. Ljósm.Hákon ErnusonUfsavinnsla í fiskiðjuverinu. Ljósm.Hákon ErnusonUfsavinnsla hófst í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað sl. fimmtudag en að undanförnu hefur ufsi verið unnin þegar vinnsla á uppsjávarfiski hefur ekki farið fram.  Ufsi var til dæmis unninn nokkra daga í janúar áður en loðnuvinnsla hófst og reyndar einnig í örfáa daga í desember. Þar á undan fór ufsavinnsla síðast fram árið 2014. Ráðgert er að vinna einnig karfa í fiskiðjuverinu og er þessa dagana unnið að undirbúningi þeirrar vinnslu.
 
Tæplega 20 manns starfa nú við ufsavinnsluna en allmargir fastir starfsmenn fiskiðjuversins hafa tekið sér frí. Reyndar er lögð áhersla á að sem flestir fastir starfsmenn hafi lokið sínu sumarleyfi fyrir miðjan júlí. Um þessar mundir er verið að fara yfir umsóknir sumarstarfsmanna en þeir munu væntanlega taka þátt í vinnslu á ufsa og karfa áður en vinnsla á makríl og síld hefst í júlímánuði. Gert er ráð fyrir að sumarstarfsmennirnir geti hafið störf 13. júní.

Góð kolmunnaveiði

Börkur NK siglir inn Norðfjörð með fullfermi af kolmunna. Ljósm. Hákon ErnusonBörkur NK siglir inn Norðfjörð með fullfermi af kolmunna. Ljósm. Hákon ErnusonBæði Beitir NK og Börkur NK héldu til kolmunnaveiða hinn 5. apríl sl. Segja má að veiðin hjá skipunum hafi verið góð og er Börkur væntanlegur til Neskaupstaðar á miðnætti með 2300 tonn. Heimasíðan sló á þráðinn til Hjörvars Hjálmarssonar skipstjóra á Berki og forvitnaðist um veiðiferðina. „Það má segja að þetta hafi gengið ágætlega hjá okkur en við vorum að veiða suðaustast í færeysku lögsögunni. Við toguðum frá 10 og upp í 25 klukkutíma og aflinn fékkst í einum sex holum. Í hverju holi fengum við á bilinu 350-500 tonn og það verður að teljast þokkalegt. Staðreyndin er sú að fiskurinn hefur ekki enn gengið af neinum krafti að sunnan og inn í færeysku lögsöguna en það mun án efa gerast á næstu dögum. Tvö síðustu árin hefur veiðin hjá íslensku skipunum hafist af krafti 13. apríl og ætli það gerist ekki einnig í ár. Það var athyglisvert að við vorum að fá ágætis afla í engu lóði eins og til dæmis í síðasta holinu, en stundum er þetta svona,“ sagði Hjörvar.
 
Sturla Þórðarson skipstjóri á Beiti tók undir með Hjörvari og sagði að veiðin gengi vel en enn væri beðið eftir að fiskurinn gengi af krafti inn í færeysku lögsöguna að sunnan. Beitir er kominn með 1600 tonn í fimm holum  en togað er frá 10 tímum og allt upp í sólarhring.

Skrifstofuaðstoð

Skrifstofuaðstoð Síldarvinnslan leitar eftir starfsmanni á skrifstofu félagsins í Neskaupstað. Starfið felst í símsvörun, umsjón með eldhúsi og almennum skrifstofustörfum. Almenn tölvuþekking er skilyrði s.s. Word, Exel. Vinnutíminn  er frá kl.08:00 til kl.16:00.  Áhugasamir sendi inn ferilskrá á netfangið hakon (hjá) svn.is. Umsóknarfrestur er til 18.apríl.
 
Aðrar hæfniskröfur sem verða metnar:
 
 • Menntun
 • Reynsla sem nýtist í starfi
 • Tungumálakunnátta
 • Þekking á Navision kostur
 • Hæfni í mannlegum samskiptum
 
Nánari upplýsingar veitir Hákon Ernuson í s.470-7050, starfsmannastjóri Síldarvinnslunnar hf.

Fyrsta vinnustofan um einelti

Þátttakendur í fyrstu vinnustofunni um einelti  Ljósm.Hákon ErnusonÞátttakendur í fyrstu vinnustofunni um einelti. Ljósm. Hákon ErnusonMiðvikudaginn 6. apríl var haldin vinnustofa um einelti og áreitni með stjórnendum í fiskiðjuveri og fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Vinnustofan var haldin á Hótel Hildibrand og leiðbeinandi var Sigurður Ólafsson, ráðgjafi. Vinnustofan er liður í innleiðingu á endurnýjaðri starfsmannastefnu Síldarvinnslunnar. Á vinnustofunni var farið yfir ábyrgð stjórnenda í meðferð eineltismála og ræddar aðferðir til að taka á einelti og áreitni með markvissum hætti.  Einnig voru ræddar aðferðir til að minnka líkur á því að einelti komi upp. Það liggur ljóst fyrir að Síldarvinnslan ætlar ekki að líða einelti og áreitni í starfsemi fyrirtækisins heldur vinna skipulega gegn því að slíkt eigi sér stað meðal starfsmanna. Allir stjórnendur hjá Síldarvinnslunni munu sitja sambærilegar vinnustofur til að tryggja sameiginlegan skilning á vandamálinu og aðferðum til að glíma við það. Fljótlega munu stjórnendur um borð í skipunum taka þátt í slíkri vinnustofu og það sama á við um stjórnendur á Seyðisfirði og í Helguvík.
 
Síldarvinnslan mun í tengslum við endurnýjun starfsmannastefnunnar taka ýmis mál fastari tökum en áður og eineltismálin eru þar á meðal.

Framkvæmdir við Blæng NK ganga vel í Póllandi

Blængur NK í þurrdokk í Gdansk. Ljósm. Karl Jóhann BirgissonBlængur NK í þurrdokk í Gdansk. Ljósm. Karl Jóhann BirgissonFrystitogarinn Blængur NK er nú í þurrdokk í Gdansk Póllandi þar sem unnið er að ýmsum framkvæmdum í skipinu. Skipið fór í dokkina fyrir einni og hálfri viku og síðan hefur verið unnið við að sandblása það og mála ásamt því sem íbúðir hafa verið rifnar en þær verða allar endurnýjaðar. Heimasíðan sló á þráðinn til Karls Jóhanns Birgissonar, rekstrarstjóra útgerðarsviðs Síldarvinnslunnar, sem staddur er í Gdansk. „Við höfum verið óskaplega heppnir með veður þannig að vel hefur gengið að sandblása og mála skipið. Það er farið að vora hér í norðanverðu Póllandi. Blængur mun fara úr dokkinni í næstu viku og leggjast við bryggju og þar verður framkvæmdum um borð haldið áfram en áætlað er að verkið hér í Póllandi taki 12 vikur. Það hefur ekkert óvænt komið upp á og allt lítur vel út hvað varðar áframhald verksins hér ytra. Þegar öllum framkvæmdum lýkur hér í Póllandi verður síðan siglt til Akureyrar þar sem ný vinnslulína verður sett í skipið,“ sagði Karl Jóhann.
 
Aðspurður kvaðst Karl Jóhann koma heim um helgina en Freysteinn Bjarnason verður hins vegar fulltrúi Síldarvinnslunnar og eftirlitsmaður með framkvæmdunum við Blæng í Póllandi.

Fleiri greinar...

 1. Börkur og Beitir halda til kolmunnaveiða
 2. Bjartur með 200 tonn á einni viku
 3. Birtingur NK (áður Börkur) á Kanarí
 4. Grænlandsfálki í heimsókn um borð í Gullver
 5. Togararnir landa fyrir páskana
 6. Hafþór Eiríksson nýr verksmiðjustjóri fiskimjölsverksmiðjunnar í Neskaupstað
 7. Einelti skal tekið föstum tökum
 8. Blængur NK til Póllands