Samfelld makríl- og síldarvinnsla

Ungir starfsmenn fiskiðjuversins í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonUngir starfsmenn fiskiðjuversins í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonSíðustu tvær vikurnar hefur verið nær samfelld vinnsla á makríl og síld í fiskiðjuverinu í Neskaupstað. Jón Gunnar Sigurjónsson yfirverkstjóri í fiskiðjuverinu segir að vinnslan hafi gengið vel en bagalegt sé hve mikið af síld sé stundum í aflanum. „Skipin reyna að forðast síldina eins og unnt er en engu að síður eru þau alloft að taka hol með háu síldarhlutfalli. Þessi blandaði afli dregur töluvert úr afköstum í fiskiðjuverinu því það tekur ávallt tíma að skipta úr makrílvinnslu yfir í síldarvinnslu og öfugt. Fyrir utan þetta er engin ástæða til að kvarta,“ sagði Jón Gunnar.
 
Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri á Berki sagði í samtali við heimasíðuna að oft væri erfitt að ná hreinum makrílholum um þessar mundir. „Við erum að toga og erum komnir með um 470 tonn. Það er líklega um helmingur aflans síld þrátt fyrir að við reynum að forðast hana sem best við getum. Skipin hafa ekkert verið að toga á nóttunni því þá kemur síldin upp í miklu magni og blandast makrílnum en samt erum við að fá of mikla síld. Kvótinn af síld er lítill og því skiptir svo miklu máli að ná sem hreinustum makrílholum en það er erfitt. Það virðist vera mikið magn af síld hér á ferðinni. Ég reikna með að við komum inn til löndunar í kvöld,“ sagði Hjörvar.
 
Börkur landaði síðast 755 tonnum al. laugardag og sunnudag, þá kom Beitir með 800 tonn og lauk löndun í gær. Nú er verið að landa úr Bjarna Ólafssyni tæpum 500 tonnum.
 

Norðfjarðarflugvöllur verður heilsárs öryggisflugvöllur

                DSC04614 2

Fulltrúar heimamanna undirrita samning. Sitjandi við borðið frá vinstri: Guðmundur R. Gíslason framkvæmdastjóri SÚN, Páll Björgvin Guðmundsson bæjarstjóri Fjarðabyggðar og Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar. Á bakvið þá standa frá vinstri: Valdimar Hermannsson bæjarfulltrúi, Jón Björn Hákonarson forseti bæjarstjórnar og Eydís Ásbjörnsdóttir bæjarfulltrúi. Ljósm: Smári Geirsson

Í morgun voru undirritaðir samningar um endurbætur á Norðfjarðarflugvelli en sveitarfélagið Fjarðabyggð, Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað og Síldarvinnslan hf. koma að framkvæmdunum með myndarlegum fjárframlögum. Framkvæmdirnar fela í sér að skipt verður um burðarlag vallarins og síðan sett á hann klæðning. Markmiðið með þessum framkvæmdum er að bæta flugvöllinn þannig að hann geti allt árið gegnt hlutverki sjúkraflugvallar fyrir Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað og aukið þannig öryggi íbúanna eystra og allra þeirra sjómanna sem leggja stund á veiðar á Austfjarðamiðum.

                Samningur Innanríkisráðuneytisins og Fjarðabyggðar gerir ráð fyrir að framkvæmdirnar kosti 158 milljónir króna. Á fjárlögum ríkisins er varið 82 milljónum til verksins en heimamenn leggja fram 76 milljónir; sveitarfélagið Fjarðabyggð 26 milljónir og Samvinnufélag útgerðarmanna og Síldarvinnslan samtals 50 milljónir.

DSC04617 2

Innanríkisráðherra og bæjarstjóri Fjarðabyggðar undirrita samning um endurbyggingu Norðfjarðarflugvallar. Ljósm: Smári Geirsson

                Undirritun samninganna fór fram í flugstöðinni á Norðfjarðarflugvelli og sagði Ólöf Nordal innanríkisráðherra við það tilefni að þetta verkefni væri óvenjulegt hvað varðaði þátttöku heimamanna í fjármögnun þess. Þá benti ráðherrann á að með auknum ferðamannastraumi gæti öryggisflugvöllur eins og Norðfjarðarflugvöllur gegnt sífellt mikilvægara hlutverki.  Jón Karl Ólafsson framkvæmdastjóri Isavia tók undir orð ráðherra og taldi að þeir samningar sem undirritaðir voru í morgun gætu orðið fyrirmynd annarra samninga og eins benti hann á að í framtíðinni lægju margvísleg tækifæri í góðum flugvelli.

                Páll Björgvin Guðmundsson bæjarstjóri og Jón Björn Hákonarson forseti bæjarstjórnar  fögnuðu mjög undirritun samninganna ásamt fulltrúum Heilbrigðisstofnunar Austurlands. Lesin var upp bókun bæjarstjórnar Fjarðabyggðar þar sem fram kom að það skyti skökku við að á sama tíma og verið væri að tryggja heilsárs öryggisflugvöll á Austurlandi væri öryggisflugbraut lokað á flugvellinum í Reykjavík.

                Héraðsverk mun vinna að framkvæmdunum við flugvöllinn en þær voru boðnar út og mun Isavia annast umsjón með þeim. Munu undirbúningsframkvæmdir hefjast í vetur en ráðgert er að framkvæmdum ljúki í júlí á næsta ári.

Sjókæling á karfa könnuð um borð í Bjarti NK

karfi 2

Unnur Inga við sjókælda karið um borð í Bjarti NK.

Í sumar hefur Síldarvinnslan unnið í samstarfi við Nýsköpunarsjóð námsmanna, Matís og IceFresh GMBH að rannsóknarverkefni sem snýr að sjókælingu á gullkarfa. Verkefnið er unnið af tveimur háskólanemum þeim Hafrúnu Hálfdanardóttur sem stundar nám í Lífefna- og sameindalíffræði við Háskóla Íslands og Unni Ingu Kristinsdóttur sem stundar nám í sjávarútvegsfræði við Háskólann á Akureyri.

Verkefnið fer fram um borð í togaranum Bjarti NK, í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar og í fiskvinnslu IceFresh í Frankfurt. Um borð í Bjarti er búið að koma upp tankalíki ásamt kælipressu sem kælir sjó til að viðhalda gæðum karfans. Við löndun er karfinn ýmist fluttur flakaður eða heill til Þýskalands þar sem karfinn er skoðaður og metinn.

karfi

Kælipressan um borð í Bjarti NK.

Unnur Inga hefur farið síðustu tvær veiðiferðir á Bjart NK til að fylgjast með aflanum og ganga úr skugga um að kælingin sé í lagi og taka samanburðarsýni. Aðspurð segir Unnur að verkefnið hafi gengið áfallalaust fyrir sig fyrir utan brælu sem skipið lenti í á Austfjarðamiðum fyrr í mánuðinum. Unnur stefnir á að skrifa lokaritgerð sína í sjávarútvegsfræði útfrá niðurstöðum þessa verkefnis.

Karfa verkefni

Hafrún og Unnur að fara í gegnum karfann í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. 

Hafrún Hálfdánardóttir sinnir þeim atriðum verkefnisins sem vinna þarf í landi og í samstarfi við Matís í Neskaupstað hefur hún unnið að því að greina örveruvöxt, seltu og fleira sem kanna þarf við kælingu hráefnis í sjó í stað hefðbundinnar aðferðar.  

Nú er yfirstandandi síðasta veiðiferð Bjarts á Íslandsmiðum og er Unnur Inga háseti í þeim túr. Strákarnir á Bjarti eru hæstánægðir með veru Unnar um borð í ágúst og segir sagan að umgengni um borð í skipinu hafi aldrei verið jafn mikið til fyrirmyndar. 

Góð makrílveiði í fyrrinótt og í gær

Makrílvinnsla í fiskiðjuverinu í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonMakrílvinnsla í fiskiðjuverinu í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonAllt í einu fór að fiskast makríll úti fyrir suðausturlandi í fyrrinótt eftir dapra veiði að undanförnu. Bjarni Ólafsson AK kom með 500 tonn til Neskaupstaðar í gær og í nótt kom Börkur NK með 900 tonn. Heimasíðan hafði samband við Hálfdan Hálfdanarson skipstjóra á Berki og spurði hvernig veiðiferðin hefði gengið: „Hún gekk vel. Í fyrrinótt og í gær var fínasta makrílveiði á þeim slóðum sem við höfum mest verið á síðustu árin; suður af Hvalbak og í Berufjarðarálnum. Við fengum þennan afla í fimm holum og það var töluvert að sjá. Í gær var vaðandi fiskur á stóru svæði á þessum slóðum. Þetta er ágætur makríll og það er lítið af síld í aflanum,“ sagði Hálfdan.

Makríllinn erfiður – Beitir að landa síld

Beitir NK að landa í fiskiðjver Síldarvinnslunnar. Ljósm. Hákon ErnusonBeitir NK að landa í fiskiðjver Síldarvinnslunnar. Ljósm. Hákon ErnusonBeitir NK kom til Neskaupstaðar í gærkvöldi og er að landa til vinnslu í fiskiðjuverinu. Aflinn er 560 tonn, þar af tæp 500 tonn síld. Heimasíðan ræddi við Sturlu Þórðarson skipstjóra og sagði hann að mun erfiðara væri að eiga við makrílinn en undanfarin ár. „Makríllinn hefur verið erfiður viðureignar núna. Hann gefur sig stundum hér og stundum þar og þá yfirleitt í stuttan tíma og stundum gefur hann sig hvergi. Vegna erfiðleika við að ná makríl var ákveðið að fara í síld í þessum túr til að halda uppi vinnslu í fiskiðjuverinu. Síldin er þokkalega góð og við fengum hana djúpt út í Norðfjarðardýpi, um 50 mílur frá bryggjunni hérna beint í austur. Nú er eitthvað að rætast úr makrílveiðinni og skipin hér eystra hafa fengið afla í nótt og í morgun. Það er vonandi góðs viti,“ sagði Sturla.
 
Gera má ráð fyrir að löndun úr Beiti ljúki í kvöld.

Úthlutað úr Afreksmannasjóði Guðmundar Bjarnasonar í fyrsta sinn

Fyrstu styrkþegarnir úr Afreksmannasjóði Guðmundar Bjarnasonar. Talið frá vinstri: María Rún Karlsdóttir, Særún Birta Eiríksdóttir og Þórarinn Örn Jónsson. Ljósm. Smári GeirssonFyrstu styrkþegarnir úr Afreksmannasjóði Guðmundar Bjarnasonar. Talið frá vinstri: María Rún Karlsdóttir, Særún Birta Eiríksdóttir og Þórarinn Örn Jónsson. Ljósm. Smári Geirsson
 
Í gær var íþróttafólki í fyrsta sinn úthlutað styrkjum úr Afreksmannasjóði Guðmundar Bjarnasonar. Samþykkt var að stofna sjóðinn á aðalfundi Síldarvinnslunnar árið 2015 og skyldi fyrirtækið árlega veita honum eina milljón króna til ráðstöfunar. Sjóðurinn var stofnaður í minningu Guðmundar Bjarnasonar sem þá var nýlátinn en Guðmundur var lengi virkur í íþróttastarfi auk þess að sitja í stjórn Síldarvinnslunnar og gegna starfi bæjarstjóra í Neskaupstað og síðar í Fjarðabyggð á árunum 1991-2006. Reglugerð fyrir sjóðinn var undirrituð í lok maímánaðar og er stjórn hans skipuð aðalstjórn Þróttar og einum fulltrúa frá Síldarvinnslunni. Í stjórn sjóðsins sitja nú Stefán Már Guðmundsson, Eysteinn Kristinsson og Guðlaug Ragnarsdóttir frá Þrótti og Guðný Bjarkadóttir frá Síldarvinnslunni. 
 
Tilgangur sjóðsins er að styrkja einstaklinga innan Þróttar sem náð hafa framúrskarandi árangri í íþrótt sinni. Á það við þegar viðkomandi hefur öðlast rétt til keppni á fjölþjóðlegum mótum, verið valinn í landslið, unnið Íslandsmeistaratitil, sett Íslandsmet eða skarað fram úr með eftirtektarverðum hætti. Sækja þarf um styrk úr sjóðnum og er ráðgert að styrkjum verði úthlutað tvisvar á ári. Næst verður úthlutað seint á þessu ári.
 
Þrír íþróttamenn sóttu um styrk úr sjóðnum fyrir fyrstu úthlutun og fengu umsóknir þeirra jákvæða umfjöllun. Veittu þeir styrkjum sínum móttöku í gær. Styrkþegarnir leggja allir stund á blak og hafa náð mjög góðum árangri í íþróttinni. Styrkþegarnir eru eftirtaldir: María Rún Karlsdóttir, Særún Birta Eiríksdóttir og Þórarinn Örn Jónsson. María Rún hefur leikið með A-landsliði Íslands að undanförnu en þau Særún Birta og Þórarinn með unglingalandsliðum.
 
Við afhendingu styrkjanna sagði Stefán Már Guðmundsson formaður Þróttar að sjóður eins og Afreksmannasjóðurinn væri gríðarlega mikilvægur fyrir norðfirskt íþróttafólk. Oft þyrftu þeir sem næðu góðum árangri í íþróttum að borga háar fjárhæðir vegna æfinga og keppnisferða og myndu styrkir úr sjóðnum létta verulega undir með iðkendunum. Gjarnan leitaði íþróttafólkið eftir styrkjum frá fyrirtækjum með góðum árangri en beiðnir um slíka styrki yrðu erfiðari eftir því sem þær yrðu fleiri. Hann taldi að Afreksmannasjóðurinn muni virka hvetjandi fyrir norðfirskt íþróttafólk og stuðla að því að allir sem næðu framúrskarandi árangri á íþróttasviðinu gætu notið þess án þess að hafa miklar fjárhagsáhyggjur. Vildi hann hvetja íþróttafólk innan Þróttar til að sækja um styrki úr sjóðnum ef það ætti möguleika á að fá úthlutað úr honum. 

Fleiri greinar...

  1. Sumarfríi á Seyðisfirði lokið og allt komið í fullan gang
  2. Bjartur annar aflahæsti togarinn á landinu í júlímánuði
  3. Nýi liturinn á skipunum
  4. Verslunarmannahelgarfríi lokið
  5. Sannkallað hörkuskip
  6. Blængur kemur til Neskaupstaðar í dag eftir gagngerar endurbætur í Póllandi
  7. Makríllinn berst að landi en Neistaflugsfrí framundan
  8. Veikt pund en kærkomið þjóðhátíðarfrí hjá Bergey VE og Vestmannaey VE