Hin árlega loðnuspenna

Nú bíður fjöldi fólks eftir fréttum úr loðnuleiðangri sem nú er í gangi.  Grænlenska skipið Polar Amaroq fór til leitar á laugardag.  Árni Friðriksson fór frá Reykjavík á mánudag,  Aðalsteinn Jónsson fór frá Eskifirði á þriðjudag og þá héldu einnig Börkur NK og Margrét EA til leitar.  
 
Mikið er í húfi og því öllu tjaldað til, verðmæti loðnunnar hafa aukist mjög á undanförnum árum.  Hefur aukin áhersla á hrognavinnslu og frystingu til manneldis skilað mikilli verðmætasköpun miðað við það sem áður var. Þannig má reikna með að 180 þúsund tonna loðnukvóti myndi gefa einhverja 26 milljarða í útflutningstekjur.   Þetta eru miklir fjármunir sem munar virkilega um fyrir þjóðarbúið.  En ef loðnan skilar sér ekki er að sjálfsögðu tapið mest í þeim samfélögum þar sem loðnan er unnin og skipin gerð út.
 
Tekjur til starfsmanna af 180 þúsund tonna kvóta gætu numið rúmum 6 milljörðum.  Þar erum við að tala um sjómannslaun og laun verkafólks í landi.  Margfeldið af afleiddum störfum í þjónustu í kringum útgerðina eins og  netaverkstæði, vélaverkstæði og önnur þjónusta er ótalin.  Í þessum samfélögum skiptir loðna miklu máli og er stór hluti af árstekjum starfsfólks og skapar vinnu t.d. á nótaverkstæðum lungað úr árinu við yfirferð á loðnunótum, auk viðhaldsverkefna fyrir iðnaðarmenn.  Þarna eru Fjarðabyggð og Vestmannaeyjar stærstu löndunarstaðir fyrir loðnu og því mikið í húfi fyrir þessi byggðarlög.
 
Ef svo ólíklega vill til að það verði loðnubrestur annað árið í röð þá er full ástæða til að hafa áhyggjur af stöðu mála.  Því eins og komið hefur fram þá eru loðnuafurðir verðmætar á mörgum mörkuðum og detti þær alveg út getur verið erfitt að endurheimta þá markaði þegar loðnan fer að veiðast á ný. Einnig ber að geta þess að loðnan skiptir umtalsverðu máli í rekstri margra fyrirtækja í Asíu.
 
Asíumarkaður er okkar verðmætasti markaður fyrir loðnuhrogn og hrygnu sem er komin með ákveðna hrognafyllingu,  síðan hefur hængurinn verið frystur á Austur Evrópu.  Í Asíu hafa menn gjarnan haft góða birgðastöðu til að mæta sveiflum á framboði milli ára en nú er svo komið að þær birgðir eru að klárast.  Aldrei í sögunni hefur verið loðnubrestur tvö ár í röð og því er ástæða til að trúa því að fiskurinn muni á endanum skila sér í mælingum í ár.
 
Okkar verðmætasti markaður fyrir loðnuafurðir í Asíu er Japansmarkaður og sveiflast verð þar mjög í takt við framboð og eftirspurn hverju sinni. Nær öll loðna sem flutt er til Japans kemur frá Íslandi og Noregi. Nú er verið að leita að loðnunni við Ísland og fyrir liggur að enginn kvóti verður gefinn út í Barentshafi þannig að viðskiptavinir okkar í Asíu hafa miklar áhyggjur af stöðu mála og fylgjast grannt með. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá innflutning á loðnuafurðum til Japans eftir löndum:
 
Hin árlega loðnuspenna
  
Þegar myndin er skoðuð kemur í ljós að uppistaða innflutnings á loðnu til Japans kemur frá Íslandi eða 58% af magninu sl. 6 ár. Veiðin í Barentshafi hefur ekki verið mikil, þannig að stór hluti af loðnunni sem kemur frá Noregi er veiddur á Íslandsmiðum.
 
Hin árlega loðnuspenna
 
Á ofangreindri  mynd sést hvernig innflutningur á loðnuhrognum hefur verið sl. ár beint til Japans og hvernig verðin hafa hækkað á sama tíma og magn minnkar.  En þessi mynd sýnir að beinn innflutningur hefur minnkað því að hluta til hefur vinnslan færst t.d. til Kína, auk þess sem eftirspurn eftir loðnuhrognum hefur aukist í öðrum löndun Asíu og eins í Austur Evrópu.  Þegar mikið er veitt kaupa Japanir gjarnan meira á lægri verðum og geyma til jöfnunar á magni í upp- og niðursveiflum.
 
Af framansögðu er ljóst að mikið er í húfi, fiskurinn er brellinn og getur verið erfitt að ná utan um hann.  Loðnan er mikilvæg í fæðukeðjunni við Íslandsstrendur, hún flytur mikla orku inn í lífríkið þannig að nauðsynlegt er að afla vitneskju um atferli og göngumynstur með rannsóknum.  Eins þarf að kanna afrán hvala og annarra sjávardýra.  Fyrir liggur að fjölgun hvala síðastliðin 20 ár er búin að vera gríðarleg.
 
Tekin var upp ný aflaregla með breyttri aðferðafræði við að meta stofninn fyrir nokkrum árum.  Nauðsynlegt er að fara ofan í þessa reiknireglu og huga að því hvort tekin væri áhætta með stofninn þó gefinn væri út ákveðinn byrjunarkvóti. Þá myndi flotinn fara af stað og finna loðnuna og unnt yrði að sinna okkar mikilvægustu mörkuðum.  Í gegnum tíðina hefur oft verið örðugt að hitta á loðnugöngur og hefur flotinn þurft að hafa töluvert fyrir því að finna þær. Það segir okkur að þrjú til fjögur leitarskip geta auðveldlega siglt framhjá göngunum og orðið einskis vör. 
 
Allir sem starfa við loðnuútveg og –vinnslu verða að vera bjartsýnir og hafa fulla trú á að það náist að mæla loðnuna og gefa út kvóta svo hægt verði að draga björg í bú.  Menn voru svartsýnir 2017 en þá var sjómannaverkfall í upphafi árs, lítið mældist í janúarleiðangri og menn nánast búnir að afskrifa vertíð.  Í loðnuleiðangri dagana  3.-11.  febrúar fannst hins vegar loðna í töluverðu magni fyrir norðan land og úr varð góð vertíð.
Gunnþór B. Ingvason
 
Nánar af yfirstandandi loðnuleit:
 
Á meðfylgjandi mynd má sjá skipulag yfirstandandi  loðnuleitar eins og það leit út þegar haldið var af stað, síðan tekur skipulagið breytingum eftir því hvernig aðstæður eru.  Í leitinni taka þátt þrjú skip mönnuð rannsóknarmönnum frá Hafró, Árni Friðriksson, Aðalsteinn Jónsson og Polar Amaroq, síðan eru hjálparskipin Börkur og Margrét.   Uppleggið er að hjálparskipin taka grunninn og útkantinn til að stytta leggi mæliskipanna. Árið 2017 voru færri skip við leit en þá voru Norðmenn að veiðum og gátu veitt miklvægar upplýsingar.  Skipstjórar annarra skipa eru einnig duglegir að melda upplýsingar um loðnu sem þeir verða varir við og sem hægt er að skoða, þannig eru fréttir utan af Dohrnbanka frá grænlenskum skipum.
 
Hin árlega loðnuspenna 
 
Hægt er að fylgjast með leitarskipunum. Meðfylgjandi mynd (hér fyrir neðan) er lifandi á síðunni skip.hafro.is.   Samstarf útgerðar og Hafrannsóknastofnunar í þessari vinnu er til fyrirmyndar enda kemur saman reynsla skipstjórannna og þekking fiskifræðinganna.   Á myndinni sjást lykkjur á leiðum skipanna en þar hafa skipin tekið tog til að ná í sýni af loðnunni.  
 
Hin árlega loðnuspenna
 

Flúið norður

Gullver NS kemur til hafnar. Ljósm. Ómar BogasonGullver NS kemur til hafnar. Ljósm. Ómar BogasonÍsfisktogarinn Gullver NS landaði 88 tonnum á Seyðisfirði sl. þriðjudag. Aflinn var að mestu þorskur. Heimasíðan ræddi stuttlega við Rúnar L. Gunnarsson skipstjóra og spurði út í fiskiríið. „Það er búið að vera heldur lélegt hérna fyrir austan að undanförnu og því vorum við allan túrinn á Rifsbankanum norður af Melrakkasléttunni. Þarna urðum við áþreifanlega varir við loðnu en hún sást bæði í netinu og í fiskinum. Nú held ég að fiskiríið sé að lagast hér eystra og það gerist með loðnunni. Þarna á Rifsbankanum voru fimm togarar ásamt okkur. Vonandi getum við veitt hérna fyrir austan í næsta túr,“ segir Rúnar.
 
Gullver hélt á ný til veiða í gær.
 
 

Loðnan er laus á kostunum

Bjarni Sæmundsson náttúrufræðingur var fyrstur hér á landi til að rannsaka loðnunaBjarni Sæmundsson
náttúrufræðingur var
fyrstur hér á landi til að
rannsaka loðnuna
Þessa dagana er mikið rætt um blessaða loðnuna og margir bíða með öndina í hálsinum eftir að hún finnist. Fyrsti maðurinn hér á landi til að fjalla um loðnuna með vísindalegum hætti var án efa Bjarni Sæmundsson náttúrufræðingur. Bjarni var brautryðjandi á sviði rannsókna á lífríki sjávar og hóf rannsóknir sínar fyrir aldamótin 1900. Fiskirannsóknir sínar dró hann síðan saman og birti í bókinni Fiskarnir sem út kom árið 1926. Hér skal vitnað orðrétt í umfjöllun Bjarna um loðnuna í bókinni:
 
Hrygningin fer fram á vorin og fram eftir sumrinu, og þegar að henni líður, leitar loðnan inn að löndum, oft afar mikil mergð, í þéttum torfum, sem ná yfir löng svæði, jafnvel tugi kílómetra, og má þá oft óbeinlínis sjá til ferða hennar í fjarlægð, af fuglagerjunum og hvalablæstrinum... Gengur hún oft mjög nærri landi, einkum í aflandsvindi, alveg upp í fjörur og inn í árósa og lón; en hún er yfirleitt mjög „laus á kostunum“ og óviss í öllum göngum sínum; sum ár er mergð af henni en önnur sést hún ekki á sama staðnum; stundum er hún spök og dvelur lengi (t.d. í Hornafirði á veturna), en stundum verður aðeins vart við hana nokkura daga og ræður þar sennilega um bæði hiti í sjó, veður og fæða.
 
Í bók Bjarna er einnig fjallað um nafnið á loðnunni og útskýrir hann tilkomu þess með eftirfarandi hætti:
 
Nafn sitt dregur loðnan af því, að hreistur hennar er smágert, þunnt og laust, og á hængnum eru hreisturblöðin í nokkrum röðum ofan við rákina, ílöng og hin lengstu dregin út í alllanga totu, svo að úr þeim verður loðin rák eftir endilangri hlið fisksins. Algengasta nafnið á fiskinum er loðna.
 
Í skrifum sínum upplýsir Bjarni að fyrir norðan séu einnig eftirfarandi nöfn notuð: Loðsíli, vorsíli, loðka, loðsíld og kampasíld. Í Austur-Skaftafellssýslu segir hann að hrygnan sé nefnd barsíli en í Vestmannaeyjum sé hún nefnd hrognasíli eða hrognaseiði. Þá greinir hann frá því að á Akranesi sé hængurinn nefndur hæringur.
 

Þetta er svo sannarlega fínn bátur

Landað úr Bergey VE í gærmorgun. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonLandað úr Bergey VE í gærmorgun.
Ljósm. Guðmundur Alfreðsson
Hinn nýi ísfisktogari Bergs-Hugins, Bergey VE, kom úr sinni fyrstu alvöru veiðiferð til heimahafnar í Vestmannaeyjum í gærmorgun. Aflinn var fullfermi eða um 75 tonn. Heimasíðan ræddi við Jón Valgeirsson skipstjóra og spurði fyrst hvar skipið hefði verið að veiðum. „Við byrjuðum út af Vík í Mýrdal, fórum síðan í Skeiðarárdýpið og undir lokin vorum við í Sláturhúsinu út af Hornafirði. Það gekk vel að fiska og aflinn var blandaður. Nú fengum við fyrir alvöru að reyna bátinn og ég er mjög hrifinn af honum. Þetta er svo sannarlega fínn bátur en við erum enn að slípa til og læra á hann og allt um borð. Á millidekkinu virkaði allt vel en böndin þar eru tölvustýrð og við erum enn að læra á þau. Þá þarf eitthvað að laga þarna til fyrir stærri fisk. En þetta lítur afskaplega vel út og menn ánægðir. Þá eru spilin súpergóð. Þetta eru rafmagnsspil sem mjög skemmtilegt er að vinna með. Enn á eftir að stilla þau fullkomlega. Það eru alls engin vonbrigði með þetta skip og hér er allt stærra og rýmra en í gömlu skipunum. Þessir bátur er mjög skemmtilegur; það er gott að fiska á hann, hann er góður í lausagangi og virðist vera mjög gott sjóskip, segir Jón.

Blængur með fínan túr þrátt fyrir brælu

Landað úr Blængi NK. Ljósm. Smári GeirssonLandað úr Blængi NK. Ljósm. Smári GeirssonFrystitogarinn Blængur NK kom til Neskaupstaðar aðfaranótt mánudags eftir ágætan túr. Afli skipsins var rúmlega 540 tonn upp úr sjó að verðmæti 153 milljónir króna. Aflinn er blandaður en mest af gulllaxi, karfa og ufsa. Bjarni Ólafur Hjálmarsson skipstjóri er ánægður með túrinn. „Þetta var þriggja vikna túr en við fórum út 12. janúar. Veðrið gerði okkur erfitt fyrir fyrstu tvær vikurnar. Vegna brælunnar urðum við að veiða fyrir austan og norðan land en að því kom að við gátum fært okkur suður fyrir. Fyrir sunnan landið veiddum við frá Lónsdýpinu og vestur í Skerjadýpi og þar var ágætis kropp í gulllaxi, karfa og ufsa. Við verðum að vera ágætlega sáttir við niðurstöðu túrsins því veðrið truflaði okkur verulega framan af,“ segir Bjarni Ólafur.
 
Gert er ráð fyrir að Blængur haldi á ný til veiða nk. fimmtudagskvöld.
 
 

Aukin áhersla á umhverfismál og samfélagsábyrgð

Hildur Hauksdóttir sérfræðingur í umhverfismálum hjá SFS. Ljósm. Karl Jóhann BirgissonHildur Hauksdóttir sérfræðingur í umhverfismálum hjá SFS.
Ljósm. Karl Jóhann Birgisson
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) hafa að undanförnu lagt aukna áherslu á umhverfismál og samfélagsábyrgð. Til marks um þetta var Hildur Hauksdóttir ráðin til samtakanna í októbermánuði sl. sem sérfræðingur í umhverfismálum. Hildur lauk  BS-prófi í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og MBA-prófi að auki frá Griffith háskólanum í Ástralíu. Áður en hún hóf störf hjá SFS starfaði hún að umhverfis- og markaðsmálum hjá HB Granda sem nú nefnist Brim.
 
Sl. miðvikudag kom Hildur til Neskaupstaðar í þeim tilgangi að halda fund með fulltrúum sjávarútvegsfyrirtækja eystra um umhverfismál og samfélagsábyrgð. Til fundarins komu yfir 20 fulltrúar frá Síldarvinnslunni ,Eskju og Loðnuvinnslunni og að mati fundarmanna var umfjöllunarefnið bæði áhugavert og gagnlegt. Í samtali við tíðindamann heimasíðunnar sagði Hildur að fundurinn hefði heppnast vel. „Eitt af verkefnum SFS þessa dagana er að vinna að stefnumótun í umhverfismálum með aðildarfyritækjum. Á því sviði standa öll fyrirtækin frammi fyrir sambærilegum áskorunum og skynsamlegt að víðtæk samvinna sé höfð um stefnumótunina. Á fundinum var farið yfir stöðu umhverfismála hjá fyrirtækjunum eystra og reyndar einnig um stöðu umhverfismála almennt, bæði hér á landi og á heimsvísu. Við í sjávarútvegi höfum til dæmis náð góðum árangri á sviði loftslagsmála en þó eru mörg tækifæri til að gera betur. Í þessu sambandi fjölluðum við um hvað sjávarútvegsfyrirtækin eystra geta gert betur. Eins var fjallað sérstaklega um sorpmál á fundinum og rætt hvernig skynsamlegt væri að auka samvinnu á því sviði. Fyrir utan hin augljósu umhverfisverkefni var fjallað um samfélagsábyrgð sjávarútvegsfyrirtækjanna. Þegar rætt er um samfélagsábyrgð er lögð áhersla á þrjár meginstoðir. Í fyrsta lagi umhverfismál, í öðru lagi efnahagslega þætti og í þriðja lagi samfélagsmál. Nú er sett krafa á fyrirtæki um gagnsæi og upplýsingagjöf og í því sambandi var rætt um svonefnda samfélagsskýrslu sem veitir þá upplýsingar um bæði fjárhagslega þætti og aðra þætti sem tengjast umhverfi og samfélagi. Á fundinum var rætt um gerð samfélagsskýrsla og hvernig hugsanlegt væri að innleiða útgáfu þeirra. Á þessu sést að viðfangsefni fundarins eystra var víðtækt og mér fannst fundurinn einkar ánægjulegur,“ segir Hildur.