Síldarvinnslan fyrir fjörutíu árum

Hér á eftir verður horft fjörutíu ár aftur í tímann og greint frá starfsemi Síldarvinnslunnar árið 1979. Á þessum tíma gerði Síldarvinnslan út þrjá togara og eitt uppsjávarskip og lagði helst áherslu á bolfiskvinnslu og vinnslu á loðnu.
 
 • Togararnir þrír sem Síldarvinnslan gerði út megnið af árinu 1979 voru Barði, Bjartur og Birtingur. Fyrirtækið hafði fest kaup á Barða árið 1970 og var það fyrsti skuttogari Íslendinga. Bjartur var einn af japönsku togurunum og eignaðist Síldarvinnslan hann árið 1973 en Birtingur hafði verið keyptur árið 1977. Uppsjávarskipið sem gert var út árið 1979 var Börkur, sem Norðfirðingar nefndu gjarnan Stóra-Börk í daglegu tali.
 • Frystihús Síldarvinnslunnar árið 1979. Mynd í eigu Skjala- og myndasafns NorðfjarðarFrystihús Síldarvinnslunnar árið 1979. Mynd í eigu Skjala-
  og myndasafns Norðfjarðar
  Togararnir fiskuðu vel og sáu frystihúsi félagsins fyrir hráefni auk þess sem smábátar lönduðu þar afla sínum.  Þá var einnig unninn saltfiskur og skreið í saltfiskverkun félagsins. Á árinu 1979 frysti Síldarvinnslan 2.853 tonn af bolfiski, framleiddi 763 tonn af saltfiski og 40 tonn af skreið.
 • Á árinu 1979 voru margir  smábátar gerðir út frá Neskaupstað og hafði þeim fjölgað ár frá ári eftir að síldarárin liðu undir lok. Síldarvinnslan hafði fest kaup á söltunarhúsi síldarsöltunarstöðvarinnar Sæsilfurs árið 1971 og var þar útbúin beitningaaðstaða fyrir smábátaeigendur. Árið 1979 höfðu 17 smábátaútgerðir beiningaaðstöðu í húsinu, en bátar þeirra lönduðu afla sínum til vinnslu í frystihúsi Síldarvinnslunnar. 
 • Árið 1979 bárust rúmlega 72.000 lestir af loðnu til vinnslu í fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar. Um veturinn tók verksmiðjan á móti tæplega 42.000 tonnum og um sumarið og haustið var liðlega 30.000 tonnum landað til mjöl- og lýsisframleiðslu. Börkur lagði stund á loðnuveiðar og fiskaði vel eins og ávallt.
 • Á árinu 1979 var fryst lítið af loðnu vegna strangra krafna kaupenda um flokkun en hins vegar var fryst meira af loðnuhrognum en áður.  Samtals voru fryst 646 tonn af loðnuafurðum þetta ár. Loðnuhrogn höfðu fyrst verið fryst á vegum Síldarvinnslunnar árið 1978 en fyrir vertíðina 1979 hafði aðstaðan til vinnslu hrognanna verið bætt. Þá voru settar upp sex skiljur ásamt hreinsipottum í steintankinum austan fiskvinnslustöðvarinnar.
 • Skipt var um aðalvél í Berki árið 1979 og því var hann í alllangan tíma frá veiðum á árinu. Sett var í skipið 2.100 hestafla vél í stað 1.200 hestafla. Þá voru settar í skipið nýjar og aflmeiri hliðarskrúfur og nýtt fiskileitartæki. Þegar Börkur sigldi áleiðis til Noregs í vélarskiptin í aprílmánuði var Norðfjörður fullur af hafís og þurfti skipið að sigla varlega út fjörð við þessar aðstæður. Vegna vélarskiptanna lagði Börkur ekki stund á kolmunnaveiðar árið 1979 eins og hann hafði gert árin á undan.
 • Engin svonefnd „Suðurlandssíld“ var söltuð á vegum Síldarvinnslunnar árið 1979 og hafði fyrirtækið ekki fengist við söltun síldar frá árinu 1976. Þegar síldveiðar hófust innanfjarða á Austfjörðum haustið 1980 hófst söltun á vegum fyrirtækisins á ný.Saltfiskverkun Síldarvinnslunnar. Ljósm. Vilberg GuðnasonSaltfiskverkun Síldarvinnslunnar. Ljósm. Vilberg Guðnason
 • Á árinu 1979 þótti kominn tími til að selja Barða, fyrsta skuttogarann í eigu fyrirtækisins, og festa kaup á yngra skipi í staðinn. Urðu þessi skipakaup umtöluð og fjölluðu fjölmiðlar mikið um málið. Kjartan Jóhannsson, þáverandi sjávarútvegsráðherra, setti reglugerð sem kom í veg fyrir að Síldarvinnslan fengi lán úr Fiskveiðisjóði til skipakaupanna og á hinum pólitíska vettvangi var tekist á og þar voru þeir Kjartan sjávarútvegsráðherra og Lúðvík Jósepsson alþingismaður áberandi. Deilt var hart um kaupin á Barða og spurninguna um hvort Síldarvinnslan fengi að endurnýja hann. Niðurstaða málsins varð sú að Síldarvinnslunni tókst að útvega lán hjá enskum banka til skipakaupanna með ábyrgð bæjarsjóðs Neskaupstaðar og var þá unnt að ganga frá skipakaupunum. Þegar niðurstaðan lá fyrir birti eitt dagblaðanna frétt um lyktir Barðamálsins með fyrirsögninni Lúðvík Barði Kjartan.
 • Barði, fyrsta skipið í eigu Íslendinga sem var byggt og útbúið sem skuttogari, kvaddi Neskaupstað hinn 24. október árið 1979. Skipið var selt til Frakklands. Það var engu líkara en Barði vildi ekki yfirgefa Norðfjörð því þegar hann var að leggja af stað og flauta í kveðjuskyni bilaði hann og þurfti að draga skipið upp að bryggju. Bilunin reyndist vera minniháttar og tók skamma stund að gera við hana og að því loknu kvaddi Barði með pomp og pragt.  Nýi Barði, sem keyptur var í hans stað, kom frá Frakklandi en skipið hafði verið smíðað í Póllandi árið 1975 og var systurskip Birtings sem Síldarvinnslan hafði fest kaup á tveimur árum áður.  Hinn nýi Barði kom fyrst til Neskaupstaðar 30. janúar 1980 en þá höfðu ýmsar lagfæringar á skipinu farið fram í Englandi.
 • Á árinu 1979 urðu athyglisverð tímamót á skrifstofu Síldarvinnslunnar en þá var fyrst allt bókhald fyrirtækisins fært í tölvu. Fyrirtækið hafði eignast tölvu árið áður en til að byrja með voru einungis vinnulaun og bónusar reiknaðir út í henni.

 

Árið 1979 framleiddi Síldarvinnslan 40 tonn af skreið. Ljósm. Vilberg GuðnasonÁrið 1979 framleiddi Síldarvinnslan 40 tonn af skreið. 
Ljósm. Vilberg Guðnason
   Börkur NK heldur áleiðis til Noregs í vélarskipti í aprílmánuði 1979. Ljósm. Bjarni ÞórðarsonBörkur NK heldur áleiðis til Noregs í vélarskipti í
aprílmánuði 1979. Ljósm. Bjarni Þórðarson
   

Barði NK. Mikil átök áttu sér stað um kaupin á þessu skipi árið 1979. Ljósm. Guðmundur SveinssonBarði NK. Mikil átök áttu sér stað um kaupin á þessu
skipi árið 1979. Ljósm. Guðmundur Sveinsson
   Barði NK, fyrsti skuttogari landsmanna, siglir út Norðfjörð í síðasta sinn 24.október 1979. Ljósm. Guðmundur SveinssonBarði NK, fyrsti skuttogari landsmanna, siglir út Norðfjörð í síðasta sinn 24.október 1979. Ljósm. Guðmundur Sveinsson

 

 

Landsmót 50+

Landsmót 50+Eins og Austfirðingum öllum ætti að vera kunnugt fer Landsmót 50+ fram í Neskaupstað dagana 28.-30. júní nk. Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands hefur ákveðið að fella niður skráningargjöld fyrir þátttakendur af sambandssvæðinu í þeim tilgangi að hvetja sem flesta til þátttöku. Landsmót 50+ einkennist af gleði og hamingju og miklu meiri áhersla er lögð á skemmtun og góðan félagsskap en keppni. Því hafa allir sem náð hafa tilskyldum aldri tækifæri til að njóta góðra samvista í léttum leik við fólk víða að af landinu á Landsmótinu.
 
Fram hefur komið í fréttum að Austfirðingar hafi verið tregir til að skrá sig til þátttöku á landsmótinu og virðist það fyrst og fremst vera vegna þess að þeir þekkja ekki þann anda sem ríkir á slíku móti. Hefur UÍA sérstaklega hvatt Austfirðinga til þátttöku og einn liður í því er að fella niður skráningargjöldin. Tekið skal fram að þó mótið sé einkum ætlað fólki yfir fimmtugu þá er einnig boðið upp á greinar sem opnar eru öllum aldurshópum og má þar nefna frisbígolf, strandblak, garðahlaup, lomber, pílukast og golf.
 
Hér vill Síldarvinnslan hvetja starfsmenn sína til þátttöku í landsmótinu en hægt er að skrá sig út þriðjudaginn 25. júní. Allar upplýsingar um mótið er að finna á umfi.is (https:/www.umfi.is/verkefni/landsmot-50plus/) og þar er einnig unnt að skrá sig. Þeir sem vilja aðstoð við skráningu geta hringt á skrifstofu UÍA (471-1353), í Gunnar hjá UÍA (899-7888) eða Grétu Sóleyju hjá UÍA (865-8433). Einnig er hægt að hringja á skrifstofu UMFÍ (568-2929).
 
Hér eru taldar upp keppnisgreinar á landsmótinu og er öruggt að sérhver getur þar fundið einhverja grein sem hentar: Boccia, frjálsar íþróttir (hlaup, kúluvarp, langstökk, hástökk, kringlukast, spjótkast, lóðkast), frisbígolf, garðahlaup, golf, línudans, lomber, pútt, pönnukökubakstur, ringó, skák, stígvélakast, strandblak og sund.
                  
Starfsmenn Síldarvinnslunnar ! Tökum þátt í landsmótinu og skemmtum okkur vel ! 

Besti mánuður í sögu Gullvers

Gullversmenn bíða eftir hífoppi. Ljósm. þorgeir BaldurssonGullversmenn bíða eftir hífoppi. Ljósm. þorgeir BaldurssonÍsfisktogarinn Gullver NS kom til Seyðisfjarðar sl. sunnudag með fullfermi eða rúmlega 107 tonn eftir fjóra daga á veiðum. Aflinn fékkst frá Skeiðarárdýpi og austur á Fót og var hann mjög blandaður; ufsi, þorskur, gullkarfi og djúpkarfi. Að sögn Rúnars L. Gunnarssonar skipstjóra eru menn ánægðir með aflabrögðin upp á síðkastið og gera sér vonir um að áframhald verði á þeim.
 
Þegar rýnt er í aflatölur og verðmæti Gullvers í maímánuði kemur í ljós að aflinn hefur verið afar góður eða samtals um 770 tonn og aflaverðmæti um 175 milljónir króna, en það eru án efa mestu verðmæti í einum mánuði í sögu skipsins. Alls landaði Gullver sjö sinnum í maí.
 
Gert er ráð fyir að Gullver fari í slipp í lok júnímánaðar eða að afloknum þremur næstu veiðiferðum.

Eyjarnar gera það gott

Bergey VE. Ljósm. Þorgeir BaldurssonBergey VE. Ljósm. Þorgeir BaldurssonEftir sjómannadag héldu skip Bergs-Hugins, Vestmannaey VE og Bergey VE, til veiða á Vestfjarðamiðum. Lögð var áhersla á að veiða þorsk og gekk það afar vel, en bæði skipin fylltu sig á skömmum tíma. Vestmannaey landaði síðan á Dalvík og Bergey á Grundarfirði. Að löndun lokinni héldu skipin strax til veiða á ný. Nú voru það veiðar á ýsu og ufsa sem voru á dagskránni og reyndar verður lögð áhersla á veiðar á þeim tegundum það sem eftir lifir kvótaársins. Bergey veiddi fyrir vestan, fyllti sig og landaði í gær í Vestmannaeyjum. Vestmannaey hélt austur fyrir og mun væntanlega landa fullfermi í Eyjum á morgun.
 
Arnar Richardsson, rekstarstjóri Bergs-Hugins, segir að þar á bæ séu menn afar ánægðir með aflabrögð skipanna og vonandi verði áframhald á góðri veiði í sumar.

Námskeið um Catsat í Neskaupstað

Ragnar Harðarson framkvæmdastjóri Akor og Igor Sancristobal haffræðingur. Ljósm. Smári GeirssonRagnar Harðarson framkvæmdastjóri Akor og
Igor Sancristobal haffræðingur. Ljósm. Smári Geirsson
Sl. þriðjudag komu skipstjórnarmenn á uppsjávarskipum Síldarvinnslunnar, Loðnuvinnslunnar og Samherja saman á fræðslunámskeiði í Neskaupstað. Á námskeiðinu var fjallað um hið svonefnda Catsat upplýsingakerfi en kerfið veitir fjölþættar upplýsingar um skilyrði í hafinu og aflar þeirra meðal annars með gerfihnöttum og sérstökum mælibaujum sem finna má í öllum heimsins höfum. Einkum var fjallað um upplýsingar sem kerfið veitir og geta komið að gagni við makrílveiðar. Leiðbeinandinn á námskeiðinu var Spánverjinn Igor Sancristobal, en hann er aðalhaffræðingur hafrannsóknastofnunarinnar CLS, sem vinnur að hafrannsóknum um heim allan og hefur meðal annars þróað Catsat kerfið.
 
Það er íslenska fyrirtækið Akor ehf sem er sölu- og þjónustuaðili fyrir Catsat í okkar heimshluta en Akor annast reyndar markaðssetningu á kerfinu í norður- og austanverðri Evrópu og einnig í vestanverðri Afríku. Ragnar Harðarson framkvæmdastjóri Akor var á námskeiðinu í Neskaupstað og sagði að það væri einkar mikilvægt fyrir þá sem selja og þjónusta kerfið að fá tækifæri til að hitta skipstjórnarmenn sem nota það.
 
Dæmi um upplýsingar Catsat kerfið veitir: Til vinstri á tölvuskjánum sést hitastig á yfirborði sjávar en til hægri er þverskurðarmynd sem sýnir hitastig og hitaskil í hafinu.Dæmi um upplýsingar Catsat kerfið veitir: Til vinstri á tölvuskjánum sést hitastig á yfirborði sjávar en til hægri er þverskurðarmynd sem sýnir hitastig og hitaskil í hafinu.Einn þeirra sem sótti námskeiðið á þriðjudag var Tómas Kárason skipstjóri á Beiti NK. Heimasíðan ræddi við hann og spurði fyrst hve lengi Síldarvinnsluskipin hefðu notað Catsat kerfið. „Við erum búnir að nota þetta kerfi í ein átta ár og það veitir okkur margvíslegar upplýsingar um nánast hvað sem er í sjónum. Í gegnum kerfið fáum við til dæmis upplýsingar um strauma, hitastig, hæðir og lægðir í sjónum, átumagn og fleira. Þetta er komið í allmörg íslensk skip og reynslan virðist almennt vera góð. Nú er komin afladagbók inn í kerfið og hún gefur okkur kost á að skoða hvernig aðstæður í sjónum hafa áhrif á veiðar. Ef þú ert að fiska vel við ákveðnar aðstæður þá gerir kerfið þér kleift að leita á ný að sambærilegum aðstæðum í hafinu. Nú er ætlunin að bjóða upp á þá þjónustu hjá kerfinu að setja upp líklega staði fyrir veiðar á makríl og það væri gaman að taka þátt í að þróa hana. Ég hef þá trú að menn munu smátt og smátt auka notkunina á Catsat kerfinu því það er í alla staði athyglisvert. Þá skemmir ekki fyrir að fá góða fræðslu um kerfið og njóta góðrar þjónustu við það,“ segir Tómas. 

Síldarvinnslan fyrir fimmtíu árum

Fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar tók á móti tæplega 12.000 tonnum af loðnu árið 1969. Ljósm. Jóhann ZoegaFiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar tók á móti tæplega
12.000 tonnum af loðnu árið 1969. Ljósm. Jóhann Zoega
Hér á eftir verður horft hálfa öld aftur í tímann og greint frá starfsemi Síldarvinnslunnar árið 1969. Árið 1969 var hið svonefnda síldarævintýri endanlega liðið undir lok og stóð fyrirtækið á tímamótum. Framleiðslutæki fyrirtækisins hentuðu að miklu leyti fyrst og fremst til síldveiða og vinnslu síldar og því var ljóst að nauðsynlegt var fyrir fyrirtækið að laga sig að nýjum aðstæðum. Árið 1969 er því tímamótaár í sögu Síldarvinnslunnar, en það ár hófst undirbúningur verkefna sem áttu eftir að hafa mikil áhrif. 
  • Árið 1969 barst engin norsk-íslensk síld til fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar. Norðfirsku síldarbátarnir héldu til síldveiða við Hjaltlandseyjar og söltuðu aflann um borð. Síldarsöltunarstöðvarnar Sæsilfur, Drífa og söltunarstöð Síldarvinnslunnar tryggðu sér tvö síldveiðiskip hver; festu stöðvarnar kaup á hausskurðarvélum og var þeim komið fyrir um borð í skipunum sem söltuðu síldina á vegum stöðvanna. Síldarvinnsluskipin Barði og Bjartur söltuðu síld fyrir söltunarstöð fyrirtækisins. Erfiðlega gekk að hausskera og slógdraga síldina á miðunum og því var það fagnaðarefni þegar samningar um sölu á heilsaltaðri síld náðust. Alls voru saltaðar 2425 tunnur af Hjaltlandssíld á vegum Síldarvinnslunnar þetta sumar. Birtingur NK lagði stund á togveiðar og síldveiðar í Norðursjó árið 1969. Ljósm. Guðmundur SveinssonBirtingur NK lagði stund á togveiðar og síldveiðar
   í Norðursjó árið 1969. Ljósm. Guðmundur Sveinsson

 

 • Sumarið 1969 lögðu Síldarvinnslubátarnir Börkur og Birtingur stund á togveiðar og var aflanum landað til vinnslu í hraðfrystihús félagsins. Börkur og Birtingur voru smíðaðir sem síldveiðiskip en búnaði til togveiða hafði verið komið fyrir í þeim árið 1968 þegar síldin var horfin. Í septembermánuði héldu bæði Börkur og Birtingur síðan til síldveiða í Norðursjó en skipin þóttu alls ekki henta til togveiða eftir að hausta tók. 
 • Árið 1969 voru 2098 tunnur af svonefndri Suðurlandssíld saltaðar í Neskaupstað þannig að enn gátu menn upplifað skammvinna söltunarstemmningu.
 • Árið 1969 héldu fimm Norðfjarðarbátar til loðnuveiða sem þá voru eingöngu stundaðar út af suður- og vesturströnd landsins. Fjórir þessara báta voru í eigu Síldarvinnslunnar; Barði, Bjartur, Börkur og Birtingur. Að auki hélt Magnús til loðnuveiða. Alls var landað 11.995 tonnum af loðnu á vertíðinni í verksmiðju Síldarvinnslunnar en þetta var annað árið sem verksmiðjan tók á móti loðnu til vinnslu.
 • Hraðfrystihús Síldarvinnslunnar frysti 1395 tonn af bolfiski á árinu 1969, en auk þess vann fyrirtækið 581 tonn af saltfiski og 200 pakka af skreið.
 • Á árinu 1969 var mikið rætt um stöðu atvinnulífsins í kjölfar hvarfs norsk-íslensku síldarinnar og tóku forsvarsmenn Síldarvinnslunnar mikinn þátt í þeirri umræðu. Umræðurnar snerust að miklu leyti um endurnýjun fiskiskipaflota fyrirtækisins, þannig að það eignaðist skip sem hentuðu til bolfiskveiða. Þá var einnig rætt um hugsanlegar nýjungar á sviði vinnslu sjávarafurða og beindist þá athygli manna einkum að niðurlagningaverksmiðju.Unnið að niðurlagningu í niðurlagningaverksmiðju Síldarvinnslunnar, en undirbúningur að byggingu verksmiðjunnar hófst fyrir alvöru árið 1969. Lengst til hægri er Jóhannes Stefánsson, sem lengi var stjórnarformaður Síldarvinnslunnar. Ljósm. Guðmundur SveinssonUnnið að niðurlagningu í niðurlagningaverksmiðju Síldarvinnslunnar, en undirbúningur að byggingu
  verksmiðjunnar hófst fyrir alvöru árið 1969. Lengst til
  hægri er Jóhannes Stefánsson, sem lengi var
  stjórnarformaður Síldarvinnslunnar.
  Ljósm. Guðmundur Sveinsson
 • Í marsmánuði 1969 ræddi stjórn Síldarvinnslunnar í fyrsta sinn þann möguleika að fyrirtækið festi kaup á skuttogara. Allt þetta ár var unnið að skuttogarakaupum með nýsmíði í huga. Endir málsins varð þó sá að keyptur var notaður togari frá Frakklandi en hann kom ekki til heimahafnar í Neskaupstað fyrr en í árslok 1970. Var þar um að ræða Barða, fyrsta skipið í eigu Íslandinga sem að öllu leyti var byggt og útbúið sem skuttogari.
 • Árið 1969 hóf stjórn Síldarvinnslunnar að fjalla um það af fullri alvöru að fyrirtækið kæmi á fót niðurlagningaverksmiðju, en slík verksmiðja hafði verið til umræðu innan stjórnarinnar frá árinu 1966. Ástæða þess að rætt var um verksmiðjuna af meiri alvöru en áður var sá atvinnuleysisvandi sem steðjaði að eftir hvarf síldarinnar. Ákvörðun var tekin um að koma verksmiðjunni á fót en koma þurfti upp húsnæði fyrir hana og festa kaup á nauðsynlegum vélbúnaði. Niðurlagningarverksmiðjan  tók til starfa snemma árs 1971 og með tilkomu hennar sköpuðust mörg störf og flest þeirra hentuðu konum sem þótti mikilvægt. Í fyrstu var framleiddur sjólax í verksmiðjunni og einnig gaffalbitar.

   

Barði NK, fyrsti skuttogari landsmanna. Árið 1969 hófst umræða í stjórn Síldarvinnslunnar um kaup á skuttogara. Ljósm. Kristinn BenediktssonBarði NK, fyrsti skuttogari landsmanna. Árið 1969 hófst
umræða í stjórn Síldarvinnslunnar um kaup á skuttogara.
Ljósm. Kristinn Benediktsson 
    

Bjartur NK lagði stund á síldveiðar í Norðursjó og loðnuveiðar árið 1969. Ljósm.: Guðmundur SveinssonBjartur NK lagði stund á síldveiðar í Norðursjó og loðnuveiðar árið 1969. Ljósm. Guðmundur Sveinsson

Árið 1969 voru skrifstofur Síldarvinnslunnar í Steininum. Þar var mikið þingað um viðbrögð fyrirtækisins við hvarfi norsk-íslensku síldarinnar. Ljósm. Vilberg GuðnasonÁrið 1969 voru skrifstofur Síldarvinnslunnar í Steininum.
Þar var mikið þingað um viðbrögð fyrirtækisins við hvarfi
norsk-íslensku síldarinnar. Ljósm. Vilberg Guðnason