Beitir með metafla af kolmunna

Beitir NK aflaði vel af kolmunna í síðustu veiðiferð ársins. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonBeitir NK aflaði vel af kolmunna í síðustu
veiðiferð ársins. Ljósm. Helgi Freyr Ólason
Sl. sunnudag kom Beitir NK til Neskaupstaðar með kolmunnafarm úr færeysku lögsögunni. Upp úr skipinu kom hvorki meira né minna en 3.201 tonn og er það líklega stærsti farmur sem íslenskt fiskiskip hefur komið með að landi. Hafa skal í huga að skipið kom með aflann kældan en án kælingar hefði farmurinn orðið stærri. Beitir hefur áður komið með farma yfir 3.000 tonn, en stærsti kolmunnafarmur skipsins á undan þessum var 3.123 tonn og var honum landað í Neskaupstað í aprílmánuði sl.
 
 
 
 
 
 
 

Metár hjá Eyjunum

Bergey VE. Ljósm. Guðmudur AlfreðssonBergey VE. Ljósm. Guðmudur Alfreðsson

Um þessar mundir fagnar útgerðarfélagið Bergur – Huginn ehf. 45 ára afmæli sínu. Félagið var stofnað í desembermánuði 1972 af útgerðum Bergs VE 44 og Hugins VE 55 sem voru í eigu Kristins Pálssonar og Guðmundar Inga Guðmundssonar. Síldarvinnslan hf. festi kaup á útgerðarfélaginu árið 2012.
 
Afmælisárið hófst með sjómannaverkfalli sem stóð fyrstu sjö vikur ársins. Haldið var á miðin að loknu verkfalli hinn 19. febrúar. Mjög góð aflabrögð voru yfir vertíðartímann og lönduðu skip félagsins, Vestmannaey og Bergey, tvisvar til þrisvar í viku fram á vorið. Bergey fór síðan í slipp í maí og Vestmannaey í vélarupptekt í júní.
 
Að lokinni vertíð héldu Eyjarnar áfram að afla vel. Júlímánuður var til dæmis afar góður og afli skipanna yfir þúsund tonn í þeim mánuði. Haustið reyndist heldur rysjótt en þá voru skipin mest að veiðum fyrir austan land. Skipin komu síðan til hafnar í Vestmannaeyjum 11. og 14. desember og þar með voru áhafnirnar komnar í kærkomið jóla- og áramótafrí.
 
Vestmannaey VE. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonVestmannaey VE. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonHeildarafli skipanna tveggja á árinu var 8.575 tonn og aflaverðmæti rétt tæplega tveir milljarðar króna. Hér er um að ræða nýtt aflamet hjá skipum félagsins. Fyrra met er frá árinu 2008 en þá var aflinn 8.493 tonn hjá þremur skipum; Vestmannaey, Bergey og Smáey. Það sem gerir hið nýja aflamet einkar athyglisvert er að skipin tvö voru einungis gerð út í 10 mánuði á árinu, frá 19. febrúar til 14. desember. Afli á sóknardag á árinu var 22 tonn hjá hvoru skipi.
 
Á þessu afmælisári lét Magnús Kristinsson af störfum hjá félaginu um mitt sumar eftir 44 ára starf. Við starfi hans tók Arnar Richardsson.
 
Þau ánægjulegu tímamót urðu á árinu að skrifað var undir samning við skipasmíðastöðina Vard Aukra í Noregi um smíði á tveimur nýjum togskipum fyrir félagið. Þessum nýju skipum er ætlað að leysa núverandi Vestmannaey og Bergey af hólmi. Skipin verða 28,95 m að lengd og 12 m að breidd. Í skipunum verða tvær aðalvélar og verða þau með tveimur skrúfum. Ný kynslóð rafmagnsspila verða í skipunum og allur búnaður um borð verður hinn fullkomnasti. Áætlað er að skipin verði afhent kaupanda í mars- og maímánuði árið 2019. 
 

10 námskeið á árinu

Á þessu ári hafa 10 námskeið verið haldin fyrir starfsmenn Síldarvinnslunnar. Ljósm. Hákon ErnusonÁ þessu ári hafa 10 námskeið verið haldin fyrir starfsmenn
Síldarvinnslunnar. Ljósm. Hákon Ernuson
Í tengslum við gerð nýrrar starfsmannastefnu var unnin ný fræðsluáætlun fyrir Síldarvinnsluna síðasta vetur og var þar vandað til verka. Í starfsmannastefnunni er lögð áhersla á fræðslu, uppbyggingu þekkingar og hæfni starfsmanna og var fræðsluáætlunin unnin í samræmi við ákvæði hennar. Nefnd starfsmanna kom að gerð áætlunarinnar, framkvæmd var viðhorfskönnun á meðal starfsmanna og fundað með stjórnendum um fræðsluþarfir. Austurbrú stýrði vinnunni við gerð áætlunarinnar og sér um framkvæmd hennar ásamt Hákoni Ernusyni starfsmannastjóra. Áætlunin er til þriggja ára og hófst námskeiðahald þegar á árinu sem nú er að líða.
 
Á yfirstandandi ári hefur verið efnt til 10 námskeiða og má þar nefna tölvunámskeið, skyndihjálparnámskeið, námskeið um rafmagnsöryggi, fallvarnanámskeið og námskeið í íslensku fyrir erlent starfsfólk. Yfir 100 manns hafa sótt námskeiðin og hefur ríkt mikil ánægja með þau. 
 
Á næstu vikum eru fyrirhuguð eldvarnanámskeið fyrir áhafnir skipa, samskiptanámskeið, gæðastjórnunarnámskeið auk frekari námskeiða sem tengjast öryggismálum. Starfsmenn eru hvattir til að fylgjast með auglýsingum um námskeiðahald og grípa þau tækifæri sem gefast til að fræðast. Vert er að hafa í huga að þekking verður sífellt mikilvægari í fyrirtæki sem ætlar sér að nýta tækni og vera í fremstu röð á sem flestum sviðum. 

7.100 tonn af kolmunna til Síldarvinnslunnar

Beitir NK á kolmunnaveiðum við Færeyjar Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonBeitir NK á kolmunnaveiðum við Færeyjar.
Ljósm. Helgi Freyr Ólason
Síðustu dagana hafa 7.100 tonn af kolmunna borist til fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og á Seyðisfirði. Kolmunninn fæst í færeysku lögsögunni og hefur veiðin þar verið nokkuð góð.
 
Bjarni Ólafsson AK kom með 1.800 tonn til Neskaupstaðar sl. fimmtudag og upplýsti Gísli Runólfsson skipstjóri að aflinn hefði hengist í fjórum holum en venjulega var togað í 5-12 tíma í hvert sinn. Á föstudag kom Börkur NK til Seyðisfjarðar með 2.200 tonn sem fengust í átta holum. Að sögn Háfdans Hálfdanarasonar skipstjóra var töluvert af fiski að sjá á miðunum en hann var ekki mjög þéttur þannig að veiðin var ekki með skarpasta móti þótt engin ástæða væri til að kvarta. Beitir NK kom síðan til Neskaupstaðar í gærkvöldi með 3.100 tonn. Tómas Kárason skipstjóri tók undir með Hálfdani og sagði að vart yrði við töluverðan fisk á svæðinu. „Við vorum að veiða austur af Akrabergi sem er syðsti oddi Færeyja og veiðin var nokkuð góð.  Við fengum að jafnaði hátt í 400 tonn í holi en við toguðum allt upp í 20 tíma. Slæmt veður um þarsíðustu helgi truflaði veiðiferðina nokkuð en við notuðum bræluna til að lagfæra veiðarfærin. Þarna gekk ofsaveður yfir og við viðgerðarvinnuna stóðum við í færeyskum snjóbyl. Slíkt veður er ekki algengt þarna,“ sagði Tómas.  

Fleiri brot úr sögunni

Fleiri brot úr sögunni
 
Í tilefni af því að Síldarvinnslan varð 60 ára á þessu ári hafa birst pistlar um sögu fyrirtækisins hér á heimasíðunni. Hér verða birt nokkur sögubrot til viðbótar við þau sem áður hafa komið fyrir sjónir lesenda.
 
 
 • Í lok síldarvertíðar í nóvember 1988 fagnaði starfsfólk Síldarvinnslunnar því að fryst hefðu verið 1000 tonn af síld á Japansmarkað á vertíðinni. Þetta þóttu merk tímamót og í ávarpi, sem Finnbogi Jónsson framkvæmdastjóri hélt í glæsilegri kaffiveislu sem haldin var í frystihúsinu af þessu tilefni, kom fram að þetta væri mesta magn síldar sem nokkurt frystihús hefði fryst á Japansmarkað. Upplýsti Finnbogi að hátt í þrjár milljónir sílda hefðu farið um hendur starfsfólks frystihússins við þessa frystingu. Þetta leiðir hugann að þeim breytingum sem hafa orðið á frystingu á uppsjávarfiski á síðari árum. Með tilkomu fiskiðjuvers Síldarvinnslunnar árið 1997 jukust afköst við frystingu gífurlega og allt fram á þennan dag hafa afköstin í verinu verið aukin jafnt og þétt. Ef ætti að efna til veislu í hvert sinn sem 1000 tonn af síld væru framleidd í fiskiðjuverinu nú þyrfti að halda upp á það annan hvern dag ef um framleiðslu á heilfrystri síld væri að ræða og þriðja hvern dag ef um flakaframleiðslu væri að ræða.
 • Síld var flökuð og fryst í fiskvinnslustöð Síldarvinnslunnar árið 1988.Síld var flökuð og fryst í fiskvinnslustöð
  Síldarvinnslunnar árið 1988.
  Á árinu 1988 var Síldarvinnslan eitt fárra sjávarútvegsfyrirtækja á landinu sem skilaði hagnaði. Hagnaðurinn nam 11 milljónum króna. Fram kom að heildarvelta Síldarvinnslunnar á árinu hafði verið 1.920 milljónir og hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnskostnað 302 milljónir. Afskriftirnar námu 90 milljónum en fjármagnskostnaður 201 milljón ! Fjármagnskostnaðurinn kom til vegna uppsafnaðra skulda frá fyrri tíð og þá ekki síst vegna lána sem tekin voru í tengslum við uppbyggingu í kjölfar snjóflóðanna 1974. Heildarskuldir fyrirtækisins á þessum tíma námu 1.250 milljónum króna og uppsafnað tap 530 milljónum. Miðað við svipaða afkomu og á árinu 1988 þurfti 50 ár til að koma fyrirtækinu á græna grein efnahagslega að mati þáverandi framkvæmdastjóra.
 • Starsmenn Síldarvinnslunnar á árinu 1989 voru að meðaltali 420 talsins. Þeir voru fleiri þegar mest var um að vera en færri þegar minna var umleikis. Um vorið var starfsmönnum og mökum þeirra boðið til matarveislu og dansleiks í félagsheimilinu Egilsbúð. Þrískipta þurfti gleðskapnum því alls var 700 manns boðið. Fyrst voru það starfsmenn Dráttarbrautarinnar og  fiskimjölsverksmiðjunnar ásamt áhöfnum loðnuskipa og löndunargengi sem skemmtu sér ásamt mökum, síðan kom röðin að starfsfólki skrifstofu, saltfiskverkunar og frystihúss og loks voru það togarasjómenn og þeir trillukarlar sem lögðu upp afla hjá Síldarvinnslunni.
 • Smábátar bíða löndunar við bryggju fiskvinnslustöðvar Síldarvinnslunnar sumarið 1986. Ljósm. Jóhann ZoёgaSmábátar bíða löndunar við bryggju fiskvinnslustöðvar
  Síldarvinnslunnar sumarið 1986. Ljósm. Jóhann Zoёga
  Áður fyrr lögðu margir smábátar upp afla hjá Síldarvinnslunni. Smábátaútgerðin var misjafnlega mikil, stundum blómstraði hún en á öðrum tímum var hún í lægð. Á síldarárunum svonefndu voru til dæmis fáar trillur gerðar út frá Neskaupstað en að þeim loknum fór þeim fjölgandi. Líklega hafa aldrei jafn margir smábátar verið gerðir út og undir lok níunda áratugar síðustu aldar, en sumarið 1989 var talið að um 120 smábátar reru frá Neskaupstað og þá hafði þeim fjölgað um 20 frá árinu áður. Þegar þarna var komið sögu dugði smábátahöfnin engan veginn fyrir allan þennan fjölda báta og var því ráðist í stækkun hennar. Þess skal getið að smábátaaflinn sem barst á land í Neskaupstað árið 1989 nam um 4.000 tonnum.
 

Verkefnastjóri á sviði starfsmannamála

Sigurður Ólafsson. Ljósm. Hákon ErnusonSigurður Ólafsson. Ljósm. Hákon ErnusonSíldarvinnslan hefur ráðið Sigurð Ólafsson í stöðu verkefnastjóra á sviði starfsmannamála. Sigurður er ráðinn í hálft starf og mun hann fylgja eftir innleiðingu á nýrri starfsmannastefnu fyrirtækisins, en hann veitti einmitt ráðgjöf við gerð stefnunnar. 
 
Sigurður er Norðfirðingur og starfaði töluvert hjá Síldarvinnslunni á yngri árum. Hann var einungis 12 ára gamall þegar hann réðst í sumarstarf í fiskimjölsverksmiðjunni og vann síðan hjá Síldarvinnslunni öll sumur fram að tvítugu, þar af heilt ár í saltfiskverkuninni að loknu stúdentsprófi. Sigurður skrifaði síðan BA - ritgerð í félagsfræði um fyrirtækið þar sem hann gerði samanburðarrannsókn á félagssálrænum áhættuþáttum í ólíkum framleiðsluferlum í fiskvinnslu.
 
Að loknu háskólanámi á Íslandi hóf Sigurður MA - nám í mannauðsstjórnun við háskólann í Bournemouth á Englandi og hefur frá árinu 2001 starfað að mannauðsmálum. Hann starfaði sem ráðgjafi hjá Skýrr hf., sem sérfræðingur og deildarstjóri íslenskrar starfsmannaþjónustu hjá Varnarliðinu, sem framkvæmdastjóri Þekkingarseturs Austurlands og síðan sem mannauðssérfræðingur og fræðslustjóri hjá Alcoa – Fjarðaáli á árunum 2005-2012. Síðustu árin hefur Sigurður starfað sjálfstætt sem ráðgjafi, leiðbeinandi og fyrirlesari. Hann hefur á þeim tíma m.a. sinnt umfangsmiklum verkefnum fyrir Alcoa í Saudi Arabíu, þar sem hann kenndi hópi 250 stjórnenda í nýrri súrálsverksmiðju, álveri og völsunarverksmiðju. Sigurður hefur unnið með fjölda fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga að verkefnum sem lúta að stjórnun og mannlegum samskiptum. Hann mun áfram sinna slíkum verkefnum samhliða starfinu hjá Síldarvinnslunni auk þess sem hann vinnur að uppbyggingu fyrirtækisins Lifðu betur ásamt Orra Smárasyni sálfræðingi, en fyrirtækið vinnur að því að gera gagnreyndar aðferðir til að bæta andlega líðan aðgengilegar á netinu.
 
Hjá Síldarvinnslunni mun Sigurður aðstoða Hákon Ernuson starfsmannastjóra og aðra stjórnendur fyrirtækisins við innleiðingu hinnar nýju starfsmannastefnu, en stefnan er bæði metnaðarfull og framsækin og mun kalla á ýmsar breytingar á vinnubrögðum innan fyrirtækisins. Síldarvinnslan býður Sigurð velkominn til starfa.