Beitir og Börkur halda til kolmunnaveiða

Beitir landar sumar 2016 HE

Í gærkvöldi héldu uppsjávarskip Síldarvinnslunnar, Beitir og Börkur, til kolmunnaveiða en skipin hafa legið í höfn að undanförnu og ýmsum viðhaldsverkefnum sinnt. Síldarvinnsluskipin lönduðu kolmunna síðast um miðjan maímánuð og þá fékkst hann í færeysku lögsögunni. Sturla Þórðarson, skipstjóri á Beiti, segir að nú verði haldið í Rósagarðinn og þar geri menn sér vonir um veiði. „Við fórum í Rósagarðinn um þetta leyti í fyrra og fiskuðum þokkalega, vorum að fá frá 100 og upp í 400 tonn í holi. Nú ætti kolmunninn að vera feitari en hann var í vor og því betra hráefni. Við höldum til veiða fullir bjartsýni eins og alltaf,“ segir Sturla.

Gott gengi hjá Blængi í Barentshafinu

64587450 931338007201647 1356029086400512000 o 2

                Í byrjun mánaðarins hélt frystitogarinn Blængur NK til veiða í Barentshafinu. Skipið má fiska um 1.200 tonn á Barentshafsmiðum og var í upphafi gert ráð fyrir að það kæmi til Neskaupstaðar að lokinni veiðiferðinni fyrir miðjan júlí. Heimasíðan ræddi við Bjarna Ólaf Hjálmarsson skipstjóra í gær og spurði hvernig veiðiferðin gengi. „Það er ekki hægt að segja annað en að hún gangi vel. Fiskiríið hefur verið framar vonum og veðrið hefur að langmestu leyti verið gott. Við erum núna að veiða talsvert fyrir austan Múrmansk og erum skammt frá 12 mílna línunni. Aflinn hefur verið jafn og góður og við erum komnir með um 850 tonn upp úr sjó. Þetta er að langmestu leyti stór og góður þorskur.

Þetta er miklu betri veiði en var hér í fyrra og eins gengur vinnslan um borð sífellt betur hjá okkur. Við höfum komist upp í að vinna 80 tonn á sólarhring. Að loknum yfirstandandi sólarhring má gera ráð fyrir að verðmæti aflans í veiðiferðinni sé um 300 milljónir og það er ekki hægt annað en að vera ánægður með það,“ segir Bjarni Ólafur.

 

Síldarvinnslan fyrir fjörutíu árum

Hér á eftir verður horft fjörutíu ár aftur í tímann og greint frá starfsemi Síldarvinnslunnar árið 1979. Á þessum tíma gerði Síldarvinnslan út þrjá togara og eitt uppsjávarskip og lagði helst áherslu á bolfiskvinnslu og vinnslu á loðnu.
 
 • Togararnir þrír sem Síldarvinnslan gerði út megnið af árinu 1979 voru Barði, Bjartur og Birtingur. Fyrirtækið hafði fest kaup á Barða árið 1970 og var það fyrsti skuttogari Íslendinga. Bjartur var einn af japönsku togurunum og eignaðist Síldarvinnslan hann árið 1973 en Birtingur hafði verið keyptur árið 1977. Uppsjávarskipið sem gert var út árið 1979 var Börkur, sem Norðfirðingar nefndu gjarnan Stóra-Börk í daglegu tali.
 • Frystihús Síldarvinnslunnar árið 1979. Mynd í eigu Skjala- og myndasafns NorðfjarðarFrystihús Síldarvinnslunnar árið 1979. Mynd í eigu Skjala-
  og myndasafns Norðfjarðar
  Togararnir fiskuðu vel og sáu frystihúsi félagsins fyrir hráefni auk þess sem smábátar lönduðu þar afla sínum.  Þá var einnig unninn saltfiskur og skreið í saltfiskverkun félagsins. Á árinu 1979 frysti Síldarvinnslan 2.853 tonn af bolfiski, framleiddi 763 tonn af saltfiski og 40 tonn af skreið.
 • Á árinu 1979 voru margir  smábátar gerðir út frá Neskaupstað og hafði þeim fjölgað ár frá ári eftir að síldarárin liðu undir lok. Síldarvinnslan hafði fest kaup á söltunarhúsi síldarsöltunarstöðvarinnar Sæsilfurs árið 1971 og var þar útbúin beitningaaðstaða fyrir smábátaeigendur. Árið 1979 höfðu 17 smábátaútgerðir beiningaaðstöðu í húsinu, en bátar þeirra lönduðu afla sínum til vinnslu í frystihúsi Síldarvinnslunnar. 
 • Árið 1979 bárust rúmlega 72.000 lestir af loðnu til vinnslu í fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar. Um veturinn tók verksmiðjan á móti tæplega 42.000 tonnum og um sumarið og haustið var liðlega 30.000 tonnum landað til mjöl- og lýsisframleiðslu. Börkur lagði stund á loðnuveiðar og fiskaði vel eins og ávallt.
 • Á árinu 1979 var fryst lítið af loðnu vegna strangra krafna kaupenda um flokkun en hins vegar var fryst meira af loðnuhrognum en áður.  Samtals voru fryst 646 tonn af loðnuafurðum þetta ár. Loðnuhrogn höfðu fyrst verið fryst á vegum Síldarvinnslunnar árið 1978 en fyrir vertíðina 1979 hafði aðstaðan til vinnslu hrognanna verið bætt. Þá voru settar upp sex skiljur ásamt hreinsipottum í steintankinum austan fiskvinnslustöðvarinnar.
 • Skipt var um aðalvél í Berki árið 1979 og því var hann í alllangan tíma frá veiðum á árinu. Sett var í skipið 2.100 hestafla vél í stað 1.200 hestafla. Þá voru settar í skipið nýjar og aflmeiri hliðarskrúfur og nýtt fiskileitartæki. Þegar Börkur sigldi áleiðis til Noregs í vélarskiptin í aprílmánuði var Norðfjörður fullur af hafís og þurfti skipið að sigla varlega út fjörð við þessar aðstæður. Vegna vélarskiptanna lagði Börkur ekki stund á kolmunnaveiðar árið 1979 eins og hann hafði gert árin á undan.
 • Engin svonefnd „Suðurlandssíld“ var söltuð á vegum Síldarvinnslunnar árið 1979 og hafði fyrirtækið ekki fengist við söltun síldar frá árinu 1976. Þegar síldveiðar hófust innanfjarða á Austfjörðum haustið 1980 hófst söltun á vegum fyrirtækisins á ný.Saltfiskverkun Síldarvinnslunnar. Ljósm. Vilberg GuðnasonSaltfiskverkun Síldarvinnslunnar. Ljósm. Vilberg Guðnason
 • Á árinu 1979 þótti kominn tími til að selja Barða, fyrsta skuttogarann í eigu fyrirtækisins, og festa kaup á yngra skipi í staðinn. Urðu þessi skipakaup umtöluð og fjölluðu fjölmiðlar mikið um málið. Kjartan Jóhannsson, þáverandi sjávarútvegsráðherra, setti reglugerð sem kom í veg fyrir að Síldarvinnslan fengi lán úr Fiskveiðisjóði til skipakaupanna og á hinum pólitíska vettvangi var tekist á og þar voru þeir Kjartan sjávarútvegsráðherra og Lúðvík Jósepsson alþingismaður áberandi. Deilt var hart um kaupin á Barða og spurninguna um hvort Síldarvinnslan fengi að endurnýja hann. Niðurstaða málsins varð sú að Síldarvinnslunni tókst að útvega lán hjá enskum banka til skipakaupanna með ábyrgð bæjarsjóðs Neskaupstaðar og var þá unnt að ganga frá skipakaupunum. Þegar niðurstaðan lá fyrir birti eitt dagblaðanna frétt um lyktir Barðamálsins með fyrirsögninni Lúðvík Barði Kjartan.
 • Barði, fyrsta skipið í eigu Íslendinga sem var byggt og útbúið sem skuttogari, kvaddi Neskaupstað hinn 24. október árið 1979. Skipið var selt til Frakklands. Það var engu líkara en Barði vildi ekki yfirgefa Norðfjörð því þegar hann var að leggja af stað og flauta í kveðjuskyni bilaði hann og þurfti að draga skipið upp að bryggju. Bilunin reyndist vera minniháttar og tók skamma stund að gera við hana og að því loknu kvaddi Barði með pomp og pragt.  Nýi Barði, sem keyptur var í hans stað, kom frá Frakklandi en skipið hafði verið smíðað í Póllandi árið 1975 og var systurskip Birtings sem Síldarvinnslan hafði fest kaup á tveimur árum áður.  Hinn nýi Barði kom fyrst til Neskaupstaðar 30. janúar 1980 en þá höfðu ýmsar lagfæringar á skipinu farið fram í Englandi.
 • Á árinu 1979 urðu athyglisverð tímamót á skrifstofu Síldarvinnslunnar en þá var fyrst allt bókhald fyrirtækisins fært í tölvu. Fyrirtækið hafði eignast tölvu árið áður en til að byrja með voru einungis vinnulaun og bónusar reiknaðir út í henni.

 

Árið 1979 framleiddi Síldarvinnslan 40 tonn af skreið. Ljósm. Vilberg GuðnasonÁrið 1979 framleiddi Síldarvinnslan 40 tonn af skreið. 
Ljósm. Vilberg Guðnason
   Börkur NK heldur áleiðis til Noregs í vélarskipti í aprílmánuði 1979. Ljósm. Bjarni ÞórðarsonBörkur NK heldur áleiðis til Noregs í vélarskipti í
aprílmánuði 1979. Ljósm. Bjarni Þórðarson
   

Barði NK. Mikil átök áttu sér stað um kaupin á þessu skipi árið 1979. Ljósm. Guðmundur SveinssonBarði NK. Mikil átök áttu sér stað um kaupin á þessu
skipi árið 1979. Ljósm. Guðmundur Sveinsson
   Barði NK, fyrsti skuttogari landsmanna, siglir út Norðfjörð í síðasta sinn 24.október 1979. Ljósm. Guðmundur SveinssonBarði NK, fyrsti skuttogari landsmanna, siglir út Norðfjörð í síðasta sinn 24.október 1979. Ljósm. Guðmundur Sveinsson

 

 

Landsmót 50+

Landsmót 50+Eins og Austfirðingum öllum ætti að vera kunnugt fer Landsmót 50+ fram í Neskaupstað dagana 28.-30. júní nk. Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands hefur ákveðið að fella niður skráningargjöld fyrir þátttakendur af sambandssvæðinu í þeim tilgangi að hvetja sem flesta til þátttöku. Landsmót 50+ einkennist af gleði og hamingju og miklu meiri áhersla er lögð á skemmtun og góðan félagsskap en keppni. Því hafa allir sem náð hafa tilskyldum aldri tækifæri til að njóta góðra samvista í léttum leik við fólk víða að af landinu á Landsmótinu.
 
Fram hefur komið í fréttum að Austfirðingar hafi verið tregir til að skrá sig til þátttöku á landsmótinu og virðist það fyrst og fremst vera vegna þess að þeir þekkja ekki þann anda sem ríkir á slíku móti. Hefur UÍA sérstaklega hvatt Austfirðinga til þátttöku og einn liður í því er að fella niður skráningargjöldin. Tekið skal fram að þó mótið sé einkum ætlað fólki yfir fimmtugu þá er einnig boðið upp á greinar sem opnar eru öllum aldurshópum og má þar nefna frisbígolf, strandblak, garðahlaup, lomber, pílukast og golf.
 
Hér vill Síldarvinnslan hvetja starfsmenn sína til þátttöku í landsmótinu en hægt er að skrá sig út þriðjudaginn 25. júní. Allar upplýsingar um mótið er að finna á umfi.is (https:/www.umfi.is/verkefni/landsmot-50plus/) og þar er einnig unnt að skrá sig. Þeir sem vilja aðstoð við skráningu geta hringt á skrifstofu UÍA (471-1353), í Gunnar hjá UÍA (899-7888) eða Grétu Sóleyju hjá UÍA (865-8433). Einnig er hægt að hringja á skrifstofu UMFÍ (568-2929).
 
Hér eru taldar upp keppnisgreinar á landsmótinu og er öruggt að sérhver getur þar fundið einhverja grein sem hentar: Boccia, frjálsar íþróttir (hlaup, kúluvarp, langstökk, hástökk, kringlukast, spjótkast, lóðkast), frisbígolf, garðahlaup, golf, línudans, lomber, pútt, pönnukökubakstur, ringó, skák, stígvélakast, strandblak og sund.
                  
Starfsmenn Síldarvinnslunnar ! Tökum þátt í landsmótinu og skemmtum okkur vel ! 

Besti mánuður í sögu Gullvers

Gullversmenn bíða eftir hífoppi. Ljósm. þorgeir BaldurssonGullversmenn bíða eftir hífoppi. Ljósm. þorgeir BaldurssonÍsfisktogarinn Gullver NS kom til Seyðisfjarðar sl. sunnudag með fullfermi eða rúmlega 107 tonn eftir fjóra daga á veiðum. Aflinn fékkst frá Skeiðarárdýpi og austur á Fót og var hann mjög blandaður; ufsi, þorskur, gullkarfi og djúpkarfi. Að sögn Rúnars L. Gunnarssonar skipstjóra eru menn ánægðir með aflabrögðin upp á síðkastið og gera sér vonir um að áframhald verði á þeim.
 
Þegar rýnt er í aflatölur og verðmæti Gullvers í maímánuði kemur í ljós að aflinn hefur verið afar góður eða samtals um 770 tonn og aflaverðmæti um 175 milljónir króna, en það eru án efa mestu verðmæti í einum mánuði í sögu skipsins. Alls landaði Gullver sjö sinnum í maí.
 
Gert er ráð fyir að Gullver fari í slipp í lok júnímánaðar eða að afloknum þremur næstu veiðiferðum.

Eyjarnar gera það gott

Bergey VE. Ljósm. Þorgeir BaldurssonBergey VE. Ljósm. Þorgeir BaldurssonEftir sjómannadag héldu skip Bergs-Hugins, Vestmannaey VE og Bergey VE, til veiða á Vestfjarðamiðum. Lögð var áhersla á að veiða þorsk og gekk það afar vel, en bæði skipin fylltu sig á skömmum tíma. Vestmannaey landaði síðan á Dalvík og Bergey á Grundarfirði. Að löndun lokinni héldu skipin strax til veiða á ný. Nú voru það veiðar á ýsu og ufsa sem voru á dagskránni og reyndar verður lögð áhersla á veiðar á þeim tegundum það sem eftir lifir kvótaársins. Bergey veiddi fyrir vestan, fyllti sig og landaði í gær í Vestmannaeyjum. Vestmannaey hélt austur fyrir og mun væntanlega landa fullfermi í Eyjum á morgun.
 
Arnar Richardsson, rekstarstjóri Bergs-Hugins, segir að þar á bæ séu menn afar ánægðir með aflabrögð skipanna og vonandi verði áframhald á góðri veiði í sumar.