Siglingar Barkar til Grimsby

Börkur NK sigldi til Grimsby með ísvarinn fisk á árunum 1983-1991. Á myndinni er lestun skipsins fyrir eina slíka ferð sumarið 1986. Ljósm. Skjala- og myndasafn Norðfjarðar.Börkur NK sigldi til Grimsby með ísvarinn fisk á árunum 1983-1991. Á myndinni er lestun skipsins fyrir eina slíka ferð sumarið 1986. Ljósm. Skjala- og myndasafn Norðfjarðar.Síldarvinnslan festi kaup á nótaskipinu Berki árið 1973. Skipið var keypt fyrst og fremst með loðnuveiðar í huga en eins var fyrirhugað að nýta það til kolmunnaveiða. Talið var nauðsynlegt að Síldarvinnslan eignaðist stórt skip til loðnuveiðanna sem hentaði vel til að sigla langan veg með fullfermi í misjöfnum vetrarveðrum. Börkur var fyrsta loðnuskipið í eigu Íslendinga sem gat flutt 1.000 tonna farm að landi og vöktu kaupin á því verulega athygli og umtal. 
 
Þó Börkur hentaði vel til loðnuveiða gekk lengi vel erfiðlega að finna skipinu verkefni utan loðnuvertíðanna. Kolmunnaveiðarnar gengu heldur treglega og því var ýmislegt annað reynt; árið 1975 lagði Börkur stund á loðnuveiðar í Barentshafi, 1973-1976 var hann gerður út á síld- og makrílveiðar í Norðursjó, 1975 hélt skipið til veiða á makríl undan ströndum Norðvestur-Afríku og áfram var reynt að finna því verkefni. Árið 1976 stóð til að selja Börk vegna verkefnaskorts en þá hófust sumar- og haustveiðar á loðnu sem gerðu það að verkum að hætt var við söluna.
 
Árið 1983 hóf Síldarvinnslan að nýta Börk sem fiskflutningaskip og var það gert allt til ársins 1991. Sigldi skipið með ísvarinn fisk frá Neskaupstað til Grimsby drjúgan hluta ársins en þó einkum yfir sumartímann og var fiskurinn seldur þar á markaði. Fiskurinn sem siglt var með kom frá togurum fyrirtækisins en ekki síður frá smábátum, en mikill fjöldi þeirra var gerður út frá Neskaupstað á þessum árum. Hér verður stuttlega fjallað um þessa fiskflutninga Barkar og ýmislegt sem tengdist þeim.
 

●  Þegar fiskflutningar Barkar hófust árið 1983 leitaði vikublaðið Austurland til Ólafs Gunnarssonar framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar og spurði hann hvers vegna fyrirtækið gripi til þessarar ráðstöfunar, en um leið var minnt á að líklega væru yfir 30 ár liðin frá því að norðfirskt skip hefði siglt með afla annarra skipa. Ólafur sagði að meginástæðan fyrir siglingum Barkar væru þrjár. Í fyrsta lagi væri verið að auka möguleika togara fyrirtækisins til karfaveiða og ef Börkur annaðist siglingar með karfann væri unnt að komast hjá því að togararnir sjálfir þyrftu að sigla með tilheyrandi töfum frá veiðum. Í öðru lagi myndi Börkur sigla með smáfisk því vinnsla á slíkum fiski væri vandkvæðum bundin og í þriðja lagi væri ljóst að loðnuveiðar yrðu einungis stundaðar 2-3 mánuði á ári og þess vegna væri brýnt að finna verkefni fyrir Börk. Að lokum benti Ólafur á að með siglingum skipsins myndu möguleikar togara og smábáta til veiða almennt aukast.

●  Með tímanum var lögð aukin áhersla á að Börkur sigldi til Grimsby með smábátaafla. Hafa verður í huga að sumarið 1983 voru um 70 smábátar gerðir út frá Neskaupstað og átti þeim eftir að fjölga. Árið 1986 voru smábátarnir orðnir rúmlega 100 og líklega náði smábátaútgerðin hámarki sumarið 1989 en þá voru um 120 bátar gerðir út frá staðnum og reyndist afli þeirra vera um 4.000 tonn.

●  Yfirleitt var átta manna áhöfn á Berki í siglingunum en fjölmargir Norðfirðingar fengu að fara með í siglingatúra og upplifa dásemdir Grimsby. Það er um 800 mílna sigling frá Neskaupstað til Grimsby og tók siglingin gjarnan þrjá til fjóra sólarhringa.Börkur NK í höfn í Grimsby.  Ljósm. Þórður ÞórðarsonBörkur NK í höfn í Grimsby. Ljósm. Þórður Þórðarson

 ●  Þegar til Grimsby kom var aflanum skipað á land en fiskurinn var fluttur út ísaður í plastkössum. Þegar fiskurinn var kominn í land birtist fjöldi manna í hvítum sloppum sem gengu á milli kassanna, skoðuðu fiskinn og lyktuðu af honum. Þetta voru fiskkaupmenn sem keyptu fisk á markaðnum. Síðan hófst uppboðið á fiskinum og voru gjarnan þrír uppboðshaldarar sem sáu um það. Fiskkaupmennirnir hrúguðust í kringum þá. Öll hersingin æddi á milli fiskkassanna með tilheyrandi hrópum og köllum og einnig hvísli í eyru uppboðshaldaranna. Fyrir leikmenn var ógerningur að átta sig á því að þarna ríkti eitthvert skipulag. Yfirleitt var síðan allur fiskurinn úr Berki seldur á um það bil hálftíma. Þetta tók svo sannarlega fljótt af.

●  Barkarmenn voru orðnir svo heimavanir í Grimsby eftir að hafa siglt þangað árum saman að þeir töluðu um fólk og staði þar með svipuðum hætti og þeir töluðu um sveitunga sína og staði í heimabænum. Á þessum árum var kráin Rainbow, Young Chinese Restaurant – Disco and Dinner og danshúsið The Winter Gardens nefnt álíka oft í Neskaupstað og félagsheimili heimamanna, Egilsbúð. Barkarmenn voru orðnir svo heimavanir á Young Chinese Restaurant að þeir fóru þar inn bakdyramegin og í gegnum eldhúsið svo þeir þyrftu ekki að bíða í biðröð. Í hvert sinn sem gestir fengu að fljóta með Berki til Grimsby voru þeir leiddir inn á þá dýrðarstaði sem áhöfn skipsins þekkti best og hafði mest viðskipti við.

Kráin Rainbow í Grimsby var engin sóðabúlla. Ljósm. Þórður ÞórðarsonKráin Rainbow í Grimsby var engin sóðabúlla.
Ljósm. Þórður Þórðarson
●  Guðmundur heitinn Bjarnason fór með Berki til Grimsby í september 1984 og skrifaði fróðlega grein um túrinn. Hann lýsir því til dæmis hve kráin Rainbow kom honum á óvart því hann hafði ímyndað sér að hún væri sóðabúlla. Kráin reyndist vera tiltölulega huggulegur staður með plusssætum og öllu tilheyrandi. Þá varð hann mjög undrandi þegar hann hitti þá Grimsbykonu sem Barkarmenn töluðu helst um, Lindu Johnson, en hún var fastagestur á Rainbow og drottning staðarins. Guðmundur hafði haldið að hún væri stútungskerling og heldur óaðlaðandi en í ljós kom að Linda var ung stúlka og eldhress sem gaman var að spjalla við. Tengsl Barkarmanna og Lindu voru sterk og traust og þegar þeir birtust á kránni tók hún á móti þeim eins og þjóðhöfðingjum.

●  Guðmundur segir einnig í greininni að engu líkara hafi verið en Barkarmenn hafi átt heima á Young Chinese Restaurant. Hann fór með þeim inn á staðinn bakdyramegin og þegar gengið var í gegnum eldhúsið kíktu menn jafnvel í pottana. Danshúsið The Winter Gardens naut líka reglulega návista við Barkarmenn. Þangað kom mikill fjöldi gesta, einkum á miðvikudagskvöldum. Þar voru sjómannskonur, ógiftar vinnukonur, reiðar eiginkonur, gleðikonur og karlmenn í veiðihug. Að mörgu leyti minnti miðvikudagskvöld á The Winter Gardens á íslenskt sveitaball af bestu gerð og það var án efa þess vegna sem Barkarmenn létu sig vart vanta þar þegar eitthvað var um að vera.

●  Grimsbyferðir Barkar voru nýttar til verslunar í stórum stíl. Meðal annars voru keyptar sláttuvélar af gerðinni Flymo þannig að þær voru til á fjölmörgum heimilum í Neskaupstað. Eins var keypt mikið af reiðhjólum, barnafötum og pappírsbleyjum ásamt öðru góssi. Allt fékkst þetta á hagstæðu verði í breska hafnarbænum. Svarta gengið svokallaða, sem var tollaragengi að sunnan, kom reglulega og tók á móti Berki þegar hann kom úr siglingatúrunum en leit þeirra um borð í skipinu skilaði aldrei miklum árangri. Þá skal þess getið að í hverri ferð voru allir tankar Barkar fylltir olíu sem fékkst á miklu hagstæðara verði í Grimsby en á Íslandi.

●  Tengsl Barkarmanna við Grimsby urðu svo sannarlega traust og leiddu til ýmissa samskipta. Eitt það eftirminnilegasta í því samhengi var heimsókn knattspyrnuliðsins Grimsby Town til Íslands sumarið 1986. Í siglingaferðum Barkar til Grimsby fæddist sú hugmynd að knattspyrnuliðið myndi heimsækja Neskaupstað og leika við Þrótt. Á þessum árum var Grimsby Town ágætis lið og átti tryggt sæti í næst efstu deild ensku knattspyrnunnar. Eftir samningaviðræður við stjórn enska félagsins var tekin ákvörðun um að Þróttur og fisksölufyrirtækið Fylkir í Grimsby myndu bjóða  liðinu í Íslandsferð og með í þeirri för skyldu vera  Jón Olgeirsson ræðismaður í Grimsby, Michael Brown þingmaður frá Grimsby og blaðamaður frá Grimsby Evening Telegraph. Ákveðið var að Grimsby Town skyldi leika þrjá leiki á Íslandi, við ÍBV, Akranes og Þrótt, en Magni Kristjánsson skipstjóri á Berki hafði forystu um skipulagningu heimsóknarinnar.

Knattspyrnumenn úr Grimsby Town FC ásamt gestum fóru í siglingu með varðskipinu Óðni. Ljósm. Skjala- og myndasafn NorðfjarðarKnattspyrnumenn úr Grimsby Town FC ásamt gestum fóru í siglingu með varðskipinu Óðni.
Ljósm. Skjala- og myndasafn Norðfjarðar
●  Gestirnir frá Grimsby komu til Neskaupstaðar hinn 8. ágúst og daginn eftir fór knattspyrnuleikurinn gegn Þrótti fram á malarvellinum. Þótti leikurinn hin besta skemmtun og lögðu um 600 manns leið sína á völlinn til að njóta hans. Er þetta án efa í fyrsta og eina sinnið sem erlent knattspyrnulið skipað atvinnumönnum hefur leikið á Austurlandi. Þróttarar stóðu í Grimsbymönnum framan af en á endanum þurftu þeir að láta í minni pokann og töpuðu leiknum 6-0. Lék Karl Þórðarson frá Akranesi með Þrótti í annan hálfleikinn sem gestur.

●  Leikmenn Grimsby Town æfðu stíft í Neskaupstað þá daga sem liðið dvaldi þar og fylgdust bæjarbúar af áhuga með æfingunum enda gekk ekki lítið á þegar þær fóru fram. Að auki bauð bæjarstjórn gestunum til dýrindis veislu og þá fóru þeir ásamt leikmönnum og fulltrúum Þróttar í siglingu um Norðfjörð og Mjóafjörð með varðskipinu Óðni. Í viðtali við Mike Lyons þjálfara Grimsbymanna í vikublaðinu Austurlandi lýsti hann mikilli ánægju með Íslandsferðina og taldi hann að hún kæmi liðinu að góðu gagni. Þá lofaði hann fegurð landsins og allar móttökur. Áður en Mike Lyons hóf þjálfun var hann lengi leikmaður Everton og mikil hetja í þeim herbúðum.

●  Það eru ekki síst minningar frá þessum tíma sem gera það að verkum að Norðfirðingar hugsa gjarnan afar hlýtt til Grimsby, gamla togarabæjarins við mynni Humberfljótsins.

 

Síldarvinnslan fyrir þrjátíu árum

Hér á eftir verður horft þrjátíu ár aftur í tímann og greint frá starfsemi Síldarvinnslunnar árið 1989. Á þessu tímabili gengu sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi almennt í gegnum mikla erfiðleika og var afkoma þeirra döpur. En þrátt fyrir erfiðan fjárhag var sífellt reynt að vinna að umbótum og átti það ekki síst við um Síldarvinnsluna.
 

Loðnuverksmiðja Síldarvinnslunnar. Ljósm. Skjala- og myndasafn NorðfjarðarLoðnuverksmiðja Síldarvinnslunnar.
Ljósm. Skjala- og myndasafn Norðfjarðar 
●  Í aprílmánuði 1989 var aðalfundur Síldarvinnslunnar haldinn. Á honum kom fram að hagnaður hefði orðið af rekstri fyrirtækisins á árinu 1988 og þótti það miklum tíðindum sæta. Hagnaðurinn nam 11 milljónum króna. Finnbogi Jónsson framkvæmdastjóri þakkaði hagnaðinn góðu starfsfólki, fjölþættum rekstri, aðhaldi á sviði fjárfestinga og viðhalds og þvi að fyrirtækið hefði ekki orðið fyrir neinum meiriháttar óhöppum á árinu. Finnbogi benti á að uppsafnað tap fyrirtækisins væri um 530 milljónir króna þannig að það þyrfti 50 ár með samsvarandi hagnaði og á árinu 1988 til að eyða hinu uppsafnaða tapi.

●  Lengi hafði verið rætt um framkvæmdir við loðnuverksmiðju félagsins sem myndu leiða til þess að hún yrði reyklaus. Stefnt var að því að framkvæmdir við verksmiðjuna hæfust árið 1989 og hún yrði reyklaus á loðnuvertíð haustið 1990. Kostnaður við breytingar á verksmiðjunni var álitinn vera 150 milljónir króna og helsta óvissan fólst í því hvort lán fengist til framkvæmdanna.

Síldarfrysting í gamla frystihúsinu. Ljósm. Skjala- og myndasafn NorðfjarðarSíldarfrysting í gamla frystihúsinu. Ljósm. Skjala- og myndasafn Norðfjarðar●  Heildarvelta Síldarvinnslunnar var tæpar 1.900 milljónir króna á árinu 1989. Hagnaður varð fyrir afskriftir og fjármagnskostnað og nam hann 210 milljónum. Eftir að tekið hafði verið tillit til afskrifta, fjármagnskostnaðar og hagnaðar af sölu eigna var hins vegar tap á rekstrinum og nam það 35,5 milljónum króna.

Beitir NK með fullfermi af loðnu. Ljósm. Guðni K. ÁgústssonBeitir NK með fullfermi af loðnu. Ljósm. Guðni K. Ágústsson●  Á árinu 1989 varð hagnaður af botnfiskveiðum og botnfiskvinnslu en tap af rekstri loðnuskipa og loðnuverksmiðju og mátti rekja það til loðnubrests um haustið. Fyrirtækið gerði á þessu ári út uppsjávarskipið Börk, fjölveiðiskipið Beiti og togarana Barða, Bjart og Birting.

●  Á árinu 1989 störfuðu að meðaltali 420 manns hjá Síldarvinnslunni.

●  Síldarvinnslan saltaði í 7.619 tunnur af síld haustið 1989 og 699 tonn af síld voru fryst á árinu.

Árið 1989 festi Síldarvinnslan kaup á skuttogarnum Júlíusi Geirmundssyni IS og fékk hann nafnið Barði NK. Ljósm. Snorri SnorrasonÁrið 1989 festi Síldarvinnslan kaup á skuttogarnum Júlíusi Geirmundssyni IS og fékk hann nafnið Barði NK.
Ljósm. Snorri Snorrason
●  Á árinu 1989 fjárfesti Síldarvinnslan fyrir 260 milljónir króna og var mest fjárfest í fiskiskipum. Stærsta fjárfestingin fólst í kaupunum á frystitogaranum Júlíusi Geirmundssyni frá Ísafirði en hann fékk nafnið Barði og leysti eldri togara með því nafni af hólmi. Í Júlíusi Geimundssyni var búnaður til heilfrystingar á fiski. Á þessu ári framleiddi Síldarvinnslan 1.153 tonn af sjófrystum fiski.

●  Á loðnuvertíð um veturinn fékkst leyfi til að setja loðnu í grunn gömlu loðnuverksmiðjunnar eins og gert hafði verið áður. Heilbrigðisnefnd Neskaupstaðar gaf leyfi til að nota grunninn sem þró en tók fram að þetta yrði í síðasta sinn sem það yrði leyft. Með ákveðnum ráðstöfunum var þó einnig heimilað að nota grunninn undir loðnu á loðnuvertíðinni 1990. Á árinu 1989 tók Síldarvinnslan á móti 44.369 tonnum af loðnu til mjöl- og lýsisframleiðslu auk þess sem 345 tonn voru fryst.

●  Árið 1989 var tekin í notkun ný sprautusöltunarvél og nýtt saltdreifikerfi í saltfiskverkun Síldarvinnslunnar og þótti tilkoma þessa búnaðar mikið framfaraskref. Á árinu voru framleidd 4.405 tonn af saltfiski.

●  Árið 1989 framleiddi Síldarvinnslan 279 tonn af skreið og þurrkuðum þorskhausum á Nígeríumarkað. Hafði slík framleiðsla verið veruleg árin á undan en henni lauk að loknu þessu ári. 

●  Haustið 1989 var reist heljarmikil turnbygging við loðnuverksmiðju Síldarvinnslunnar. Innan þessarar turnbyggingar voru fjórir mjölturnar sem tóku samtals 250 tonn af mjöli. Tilkoma turnisins gerði kleift að vinna við sekkjun á mjöli þegar best hentaði og eins gaf hann möguleika á því að blanda saman mjöli og tryggja þannig jafnari gæði.

●  Árið 1989 var fluttur út ísaður bolfiskur til Grimsby með Berki NK eins og gert hafði verið frá árinu 1983. Alls voru 764 tonn flutt út með þeim hætti á árinu.

Smábátar landa og bíða löndunar við gömlu frystihúsbryggjuna. Sumarið 1989 voru um 120 smábátar gerðir út frá Neskaupstað. Ljósm. Skjala- og myndasafn NorðfjarðarSmábátar landa og bíða löndunar við gömlu frystihúsbryggjuna. Sumarið 1989 voru um 120 smábátar gerðir út frá Neskaupstað.
Ljósm. Skjala- og myndasafn Norðfjarðar
●  Á níunda áratug síðustu aldar var mikil smábátaútgerð frá Neskaupstað. Líklega urðu smábátarnir þó aldrei fleiri en sumarið 1989 en þá voru um 120 bátar gerðir út þaðan. Fiskuðu bátarnir um 4.000 tonn þetta sumar og var aflinn ýmist unninn í hraðfrystihúsi Síldarvinnslunnar eða fluttur út með Berki. 

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

Grundarfjörður og Neskaupstaður

Guðmundur Runólfsson hf. í Grundarfirði festi nýverið kaup á Bergey VE en Bergey var í eigu Bergs-Hugins, dótturfyrirtækis Síldarvinnslunnar í Vestmannaeyjum. Bergey hefur nú fengið nafnið Runólfur og lét úr höfn í Vestmannaeyjum 30. september sl. og hélt áleiðis til nýrrar heimahafnar í Grundarfirði. Til Grundarfjarðar kom skipið 1. október og var vel fagnað. 
 
Í tengslum við kaupin á Bergey var ýmislegt rifjað upp um sögu Guðmundar Runólfssonar hf. og hvernig saga fyrirtækisins teygir anga sína austur til Neskaupstaðar. Hér skal getið um tvennt í þessu sambandi og í báðum tilvikum koma skip sem bera heitið Runólfur við sögu.
 
Fyrsti Runólfur smíðaður í Neskaupstað
 
Fyrsti Runólfur var smíðaður hjá Dráttarbrautinni í Neskaupstað árið 1947. Myndin er tekin þegar smíðinni var að ljúka. Ljósm. Magnús GuðmundssonFyrsti Runólfur var smíðaður hjá Dráttarbrautinni í Neskaupstað árið 1947. Myndin er tekin þegar smíðinni
var að ljúka. Ljósm. Magnús Guðmundsson
Síðla árs 1945 hófst bátasmíði á vegum Dráttarbrautarinnar hf. í Neskaupstað og var fyrsta verkefnið smíði á svonefndum ríkisbátum. Smíði á fyrsta ríkisbátnum lauk árið 1947 og var kaupandi hans Runólfur hf. í Grundarfirði en aðaleigandi fyrirtækisins var Guðmundur Runólfsson skipstjóri. Bátnum var gefið nafnið Runólfur og fékk einkennisstafina SH 135. Þarna var um að ræða fyrsta bátinn af allmörgum sem borið hafa nafnið Runólfur.
 
Runólfur var 39 tonn að stærð og var Guðmundur Runólfsson gagnrýndur töluvert fyrir  að hafa fest kaup á svo stórum báti. Töldu margir að báturinn myndi engan veginn henta til útgerðar frá Grundarfirði.
 
Að sögn Runólfs Guðmundssonar, sonar Guðmundar útgerðarmanns og núverandi stjórnarformanns Guðmundar Runólfssonar hf., reyndist þessi fyrsti Runólfur afar vel og með tilkomu hans var lagður grunnur að því fyrirtæki sem nú starfar á Grundarfirði og ber nafn föður hans. Það fiskaðist afar vel á þennan fyrsta Runólf en hann var gerður út á línu að heiman auk þess sem hann lagði stund á síldveiðar með nót og reknetum. Báturinn var gerður út frá Grundarfirði til loka ársins 1959 en þá var hann seldur úr byggðarlaginu. Hann var síðan dæmdur í þurrafúa árið 1967.
 
Fyrirtæki Guðmundar Runólfssonar óx og dafnaði á þeim tíma sem fyrsti Runólfur var gerður út og hefur vaxið mikið síðan. Nú fæst fyrirtækið við útgerð og fiskvinnslu ásamt því að reka netagerð og eru starfsmennirnir um 90 talsins. Eigendur fyrirtækisins nú eru sjö börn Guðmundar Runólfssonar og einn frændi þeirra. Þarna er því um sannkallað fjölskyldufyrirtæki að ræða.
 
Tilraunaveiðar á kolmunna
 
Kolmunnaveiðar við Ísland eiga sér ekki langa sögu. Lengi vel var litið á kolmunnann sem hinn mesta óþverrafisk og mótaðist það viðhorf á síldarárunum svonefndu á sjöunda áratug síðustu aldar. Stundum kom það fyrir að síldarbátarnir köstuðu á kolmunnatorfur og þá smaug fiskurinn í hvern möskva og sat þar kyrfilega fastur. Oftast þurfti að „snörla“ nótina inn og stíma í land og við tók löng lota við að berja kolmunnann úr nótinni. Þetta var erfitt verk og með eindæmum óþrifalegt og leiðinlegt.
 
Runólfur SH að landa kolmunna í Neskaupstað sumarið 1976. Ljósm. Guðmundur SveinssonRunólfur SH að landa kolmunna í Neskaupstað
sumarið 1976. Ljósm. Guðmundur Sveinsson
Þegar kom fram á áttunda áratug síðustu aldar hóf Síldarvinnslan að hyggja að kolmunnaveiðum með flotvörpu enda var fiskurinn mikið veiddur af erlendum þjóðum. Þegar nótaskipið Börkur var keypt árið 1973 var því fyrst og fremst ætlað að leggja stund á loðnu- og kolmunnaveiðar og hóf hann kolmunnaveiðarnar strax vorið 1973. Hinn 19. maí kom hann með fyrsta farminn til löndunar og reyndist hann vera 200 tonn. Miklar vonir voru bundnar við veiðarnar og þóttu þær fara þokkalega af stað. Reyndin varð hins vegar sú að kolmunnaveiðarnar gengu ekki vel hjá Berki og varð heildarafli skipsins þetta sumar einungis 370-380 tonn. Eftir þessa slöku byrjun varð hlé á kolmunnaveiðum við landið.
 
Árið 1976 ákváðu stjórnvöld að hefja tilraunaveiðar á kolmunna úti af Austurlandi. Gerður var samningur við Guðmund Runólfsson hf. í Grundarfirði um að togari fyrirtækisins, Runólfur, yrði nýttur til veiðanna. Samningurinn kvað á um að veiðarnar skyldu fara fram á tímabilinu 12. júlí til 26 ágúst. 
 
Veiðar Runólfs hófust með flotvörpu en undir lok tímabilsins veiddi skipið kolmunnann í botnvörpu á Glettinganesgrunni. Afli skipsins á tímabilinu var 1.100 tonn og var megninu af honum landað í Neskaupstað en einnig var landað á Hornafirði og í Þorlákshöfn. Í Neskaupstað voru gerðar tilraunir með ýmsar vinnsluaðferðir á kolmunnanum. Þar var framleiddur marningur úr honum, hann var frystur til beitu og eins var framleidd skreið sem seld var til Nígeríu. Nokkrir byrjunarörðugleikar voru við vinnsluna en með tímanum tókst að ná ágætum tökum á henni.
 
Skipstjóri á Runólfi á tilraunaveiðunum var í fyrstu Axel Schiöth en síðan Runólfur Guðmundsson. Magni Kristjánsson, skipstjóri á Berki, var um borð í Runólfi framan af en í ágústmánuði hélt Börkur til kolmunnaveiða á ný eftir þriggja ára hlé.
 
Í fréttum af tilraunaveiðum Runólfs segir að þær hafi gengið allvel og hafi skipið fengið allt upp í 50 tonn í holi.
 

Svakalega fín síldarvertíð

Beitir NK með 530 tonna hol af síld.  Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonBeitir NK með 530 tonna hol af síld.
Ljósm. Helgi Freyr Ólason
Síldveiðin fyrir austan land gengur vel og vinnsla í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað er samfelld. Það eru fjórir bátar sem landa til vinnslu í fiskiðjuverinu, en það eru Börkur NK, Beitir NK, Bjarni Ólafsson AK og Margrét EA. Að auki landar síðan Hákon EA frystri síld í Neskaupstað. Lokið var við að landa úr Beiti NK 1250 tonnum í gærmorgun og hófst þá strax löndun úr Bjarna Ólafssyni AK sem var með tæplega 600 tonn. Nú er verið að landa úr Margréti EA sem er með tæplega 1100 tonn. Heimasíðan ræddi stuttlega við Tómas Kárason, skipstjóra á Beiti, og spurði hann hvort hér væri ekki um að ræða lúxusvertíð. „Jú, það má svo sannarlega segja að þetta sé lúxusvertíð. Vertíðin hefur bara verið svakalega fín. Tíðin hefur verið góð og við höfum lengst af einungis þurft að fara 40-50 mílur til að sækja síldina. Veiðin hefur mest farið fram á Héraðsflóa, sunnan við Digranesflakið og norðan við Glettinganesflak. Og síldin sem hefur fengist þarna hefur verið hreint út sagt glimrandi; stór, eða um 400 gr. og átulaus. Ég held að vart sé hægt að hugsa sér betra eða ferskara hráefni. Við höfum gjarnan verið að koma með um 1200 tonn í hverri veiðiferð og aflinn hefur fengist í 3-4 holum. Nú upp á síðkastið hefur orðið vart við síld af öðrum stofni í bland við norsk-íslensku síldina og hafa bátarnir m.a. þess vegna fært sig utar. Núna eru þeir út af Héraðsflóa, utan við landgrunnskantinn þannig að við erum kannski að sigla um 70 mílur á miðin. Athyglisvert er að þessi síld, sem við teljum vera íslenska sumargotssíld, er algjörlega laus við sýkingu, en hún er fjarri því eins feit og norsk-íslenska síldin.  Fyrir okkur er þetta afar róleg síldarvertíð; það er stutt að fara, það veiðist vel og því þurfa skipin oft að bíða í landi á milli veiðiferða því það eru afköst fiskiðjuversins sem stjórna í reyndinni veiðunum. Við lukum við löndun í gærmorgun en við förum örugglega ekki út fyrr en í fyrsta lagi annað kvöld þannig að menn hafa það tiltölulega náðugt,“ segir Tómas.