Ristilspeglun

logo

                Síldarvinnslan hefur undanfarin ár boðið starfsfólki sínu, sem er 50 ára og eldra, upp á ristilspeglun sem framkvæmd er í Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað. Hefur starfsfólkið hagnýtt sér þetta í ríkum mæli og í einstaka tilvikum hefur speglunin komið í veg fyrir alvarleg veikindi. Hingað til hefur verið hringt í starfsfólkið og því boðið að fara í speglunina en ný persónuverndarlög koma í veg fyrir að sá háttur verði hafður á lengur. Þess í stað þarf starfsfólkið að panta tíma í speglunina með því að senda skilaboð á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. og í skilaboðunum þarf að koma fram nafn, kennitala og símanúmer viðkomandi.

                Starfsfólkið þarf að greiða fyrir ristilspeglunina en Síldarvinnslan mun síðan endurgreiða kostnaðinn við framvísun greiðslukvittunar.

Indverski sendiherrann heimsækir frystihúsið á Seyðisfirði

Sendiherra

 Frá heimsókn indversku sendiherrahjónanna. Frá vinstri: Ómar Bogason, Adolf Guðmundsson, sendiherrahjónin og Þóra Bergný Guðmundsdóttir.

                Í síðustu viku kom indverski sendiherrann, T Armstrong Changsan, í heimsókn til Seyðisfjarðar ásamt eiginkonu sinni. Á Seyðisfirði hittu sendiherrahjónin Þóru Bergnýju Guðmundsdóttur sem rekur farfuglaheimili á staðnum auk þess að reka hótel á Indlandi. Þóra dvelur á Seyðisfirði yfir sumartímann en á Indlandi á öðrum árstímum. Sendiherrann óskaði eftir því að fá að skoða fiskvinnslu á staðnum og var að sjálfsögðu brugðist vel við því og hann boðinn velkominn í heimsókn í frystihús Síldarvinnslunnar. Í frystihúsinu tóku Ómar Bogason og Adolf Guðmundsson á móti sendiherrahjónunum og fræddu þau um íslenskan sjávarútveg ásamt því að hjónin fylgdust með vinnslustarfseminni. Sendiherrann reyndist vera afar áhugasamur um fiskveiðar og fiskvinnslu og spurði margs. Lýsti hann því yfir að hann væri afar ánægður með heimsóknina og taldi hana mjög lærdómsríka. 

Veiðum á norsk-íslenskri síld lokið

71677674 506317843259755 8856964047505981440 n

Gott síldarhol hjá Beiti NK. Ljósm. Helgi Freyr Ólason.

               Nú er veiðum á norsk-íslenskri síld lokið hjá þeim skipum sem leggja upp afla hjá fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Margrét EA er á landleið með 900 tonn og mun hún væntanlega koma til hafnar síðdegis í dag. Þá er Börkur NK einnig á landleið með 900 tonn og mun hann koma til hafnar á morgun. Skipin hafa fundið fyrir því á landleiðinni að vetur konungur er að taka völdin. Barkarmenn sáu vindmælinn fara í 40 metra en þeir á Margréti sáu hann fara í 47 metra. Margrétin þurfti að stoppa í eina sex tíma í nótt vegna veðursins og var þess beðið að lægði.

                Í alla staði má segja að síldarvertíðin hafi gengið vel hjá Síldarvinnslunni. Veiðar fóru lengi vel fram skammt austur af landinu og veður var hagstætt. Þá hefur vinnslan verið samfelld alla vertíðina. Það voru fjögur skip sem sáu fiskiðjuverinu fyrir hráefni en það voru Börkur NK, Beitir NK, Bjarni Ólafsson AK og Margrét EA. Einnig hefur Hákon EA landað frystri síld í Neskaupstað.

Björgunarnámskeið um borð í Gullver

Gullversmenn namskeid

Áhöfn Gullvers NS hlýðir á fyrirlestur á björgunarnámskeiðinu.  Ljósm. Guðjón B. Magnússon

                Sl. miðvikudag og fimmtudag fór fram björgunarnámskeið um borð í Gullver NS þar sem skipið lá í höfn á Seyðisfirði. Alls sóttu 24 Gullversmenn námskeiðið. Tveir frá Slysavarnaskóla sjómanna, þeir Bjarni Þorbergsson og Gísli Birgir Sigurðarson, önnuðust kennslu á námskeiðinu auk þess sem Guðjón B. Magnússon, öryggisstjóri Síldarvinnslunnar, kom að framkvæmd þess. Heimasíðan hafði samband við Rúnar L. Gunnarsson skipstjóra á Gullver og spurði hvernig námskeiðið hefði heppnast.

Gullversmennnamskeid 2

Einn liður námskeiðsins var að flytja mann í börum um borð í skipinu.  Ljósm. Gísli Birgir Sigurðarson.

„Námskeiðið heppnaðist afar vel í alla staði og ég held að öll áhöfnin sé mjög ánægð með þetta framtak. Stundum er einn og einn úr áhöfninni að fara suður og sækja þetta námskeið, sem skylda er að taka á fimm ára fresti. Það er hins vegar í alla staði betra að fá leiðbeinendurna hingað austur þannig að öll áhöfnin geti tekið námskeiðið saman um borð í eigin skipi. Slíkt fyrirkomulag skilar miklu meiru. Þarna var farið í gegnum alla helstu þætti öryggismálanna eins og til dæmis nýliðafræðslu, notkun flotbúninga, endurlífgun, viðbrögð við eldi um borð, flutning á slösuðum manni um borð og meðferð allra helstu björgunartækja. Þetta var í einu orði sagt lærdómsríkt og ég held að öll áhöfnin sé sammála um að námskeiðið hafi orðið að mjög miklu gagni,“ segir Rúnar. 

 

20191017 094813

Flotbúningar voru reyndir á námskeiðinu. Ljósm. Gísli Birgir Sigurðarson.