Síldarvinnslan fyrir þrjátíu árum

Hér á eftir verður horft þrjátíu ár aftur í tímann og greint frá starfsemi Síldarvinnslunnar árið 1989. Á þessu tímabili gengu sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi almennt í gegnum mikla erfiðleika og var afkoma þeirra döpur. En þrátt fyrir erfiðan fjárhag var sífellt reynt að vinna að umbótum og átti það ekki síst við um Síldarvinnsluna.
 

Loðnuverksmiðja Síldarvinnslunnar. Ljósm. Skjala- og myndasafn NorðfjarðarLoðnuverksmiðja Síldarvinnslunnar.
Ljósm. Skjala- og myndasafn Norðfjarðar 
●  Í aprílmánuði 1989 var aðalfundur Síldarvinnslunnar haldinn. Á honum kom fram að hagnaður hefði orðið af rekstri fyrirtækisins á árinu 1988 og þótti það miklum tíðindum sæta. Hagnaðurinn nam 11 milljónum króna. Finnbogi Jónsson framkvæmdastjóri þakkaði hagnaðinn góðu starfsfólki, fjölþættum rekstri, aðhaldi á sviði fjárfestinga og viðhalds og þvi að fyrirtækið hefði ekki orðið fyrir neinum meiriháttar óhöppum á árinu. Finnbogi benti á að uppsafnað tap fyrirtækisins væri um 530 milljónir króna þannig að það þyrfti 50 ár með samsvarandi hagnaði og á árinu 1988 til að eyða hinu uppsafnaða tapi.

●  Lengi hafði verið rætt um framkvæmdir við loðnuverksmiðju félagsins sem myndu leiða til þess að hún yrði reyklaus. Stefnt var að því að framkvæmdir við verksmiðjuna hæfust árið 1989 og hún yrði reyklaus á loðnuvertíð haustið 1990. Kostnaður við breytingar á verksmiðjunni var álitinn vera 150 milljónir króna og helsta óvissan fólst í því hvort lán fengist til framkvæmdanna.

Síldarfrysting í gamla frystihúsinu. Ljósm. Skjala- og myndasafn NorðfjarðarSíldarfrysting í gamla frystihúsinu. Ljósm. Skjala- og myndasafn Norðfjarðar●  Heildarvelta Síldarvinnslunnar var tæpar 1.900 milljónir króna á árinu 1989. Hagnaður varð fyrir afskriftir og fjármagnskostnað og nam hann 210 milljónum. Eftir að tekið hafði verið tillit til afskrifta, fjármagnskostnaðar og hagnaðar af sölu eigna var hins vegar tap á rekstrinum og nam það 35,5 milljónum króna.

Beitir NK með fullfermi af loðnu. Ljósm. Guðni K. ÁgústssonBeitir NK með fullfermi af loðnu. Ljósm. Guðni K. Ágústsson●  Á árinu 1989 varð hagnaður af botnfiskveiðum og botnfiskvinnslu en tap af rekstri loðnuskipa og loðnuverksmiðju og mátti rekja það til loðnubrests um haustið. Fyrirtækið gerði á þessu ári út uppsjávarskipið Börk, fjölveiðiskipið Beiti og togarana Barða, Bjart og Birting.

●  Á árinu 1989 störfuðu að meðaltali 420 manns hjá Síldarvinnslunni.

●  Síldarvinnslan saltaði í 7.619 tunnur af síld haustið 1989 og 699 tonn af síld voru fryst á árinu.

Árið 1989 festi Síldarvinnslan kaup á skuttogarnum Júlíusi Geirmundssyni IS og fékk hann nafnið Barði NK. Ljósm. Snorri SnorrasonÁrið 1989 festi Síldarvinnslan kaup á skuttogarnum Júlíusi Geirmundssyni IS og fékk hann nafnið Barði NK.
Ljósm. Snorri Snorrason
●  Á árinu 1989 fjárfesti Síldarvinnslan fyrir 260 milljónir króna og var mest fjárfest í fiskiskipum. Stærsta fjárfestingin fólst í kaupunum á frystitogaranum Júlíusi Geirmundssyni frá Ísafirði en hann fékk nafnið Barði og leysti eldri togara með því nafni af hólmi. Í Júlíusi Geimundssyni var búnaður til heilfrystingar á fiski. Á þessu ári framleiddi Síldarvinnslan 1.153 tonn af sjófrystum fiski.

●  Á loðnuvertíð um veturinn fékkst leyfi til að setja loðnu í grunn gömlu loðnuverksmiðjunnar eins og gert hafði verið áður. Heilbrigðisnefnd Neskaupstaðar gaf leyfi til að nota grunninn sem þró en tók fram að þetta yrði í síðasta sinn sem það yrði leyft. Með ákveðnum ráðstöfunum var þó einnig heimilað að nota grunninn undir loðnu á loðnuvertíðinni 1990. Á árinu 1989 tók Síldarvinnslan á móti 44.369 tonnum af loðnu til mjöl- og lýsisframleiðslu auk þess sem 345 tonn voru fryst.

●  Árið 1989 var tekin í notkun ný sprautusöltunarvél og nýtt saltdreifikerfi í saltfiskverkun Síldarvinnslunnar og þótti tilkoma þessa búnaðar mikið framfaraskref. Á árinu voru framleidd 4.405 tonn af saltfiski.

●  Árið 1989 framleiddi Síldarvinnslan 279 tonn af skreið og þurrkuðum þorskhausum á Nígeríumarkað. Hafði slík framleiðsla verið veruleg árin á undan en henni lauk að loknu þessu ári. 

●  Haustið 1989 var reist heljarmikil turnbygging við loðnuverksmiðju Síldarvinnslunnar. Innan þessarar turnbyggingar voru fjórir mjölturnar sem tóku samtals 250 tonn af mjöli. Tilkoma turnisins gerði kleift að vinna við sekkjun á mjöli þegar best hentaði og eins gaf hann möguleika á því að blanda saman mjöli og tryggja þannig jafnari gæði.

●  Árið 1989 var fluttur út ísaður bolfiskur til Grimsby með Berki NK eins og gert hafði verið frá árinu 1983. Alls voru 764 tonn flutt út með þeim hætti á árinu.

Smábátar landa og bíða löndunar við gömlu frystihúsbryggjuna. Sumarið 1989 voru um 120 smábátar gerðir út frá Neskaupstað. Ljósm. Skjala- og myndasafn NorðfjarðarSmábátar landa og bíða löndunar við gömlu frystihúsbryggjuna. Sumarið 1989 voru um 120 smábátar gerðir út frá Neskaupstað.
Ljósm. Skjala- og myndasafn Norðfjarðar
●  Á níunda áratug síðustu aldar var mikil smábátaútgerð frá Neskaupstað. Líklega urðu smábátarnir þó aldrei fleiri en sumarið 1989 en þá voru um 120 bátar gerðir út þaðan. Fiskuðu bátarnir um 4.000 tonn þetta sumar og var aflinn ýmist unninn í hraðfrystihúsi Síldarvinnslunnar eða fluttur út með Berki. 

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

Grundarfjörður og Neskaupstaður

Guðmundur Runólfsson hf. í Grundarfirði festi nýverið kaup á Bergey VE en Bergey var í eigu Bergs-Hugins, dótturfyrirtækis Síldarvinnslunnar í Vestmannaeyjum. Bergey hefur nú fengið nafnið Runólfur og lét úr höfn í Vestmannaeyjum 30. september sl. og hélt áleiðis til nýrrar heimahafnar í Grundarfirði. Til Grundarfjarðar kom skipið 1. október og var vel fagnað. 
 
Í tengslum við kaupin á Bergey var ýmislegt rifjað upp um sögu Guðmundar Runólfssonar hf. og hvernig saga fyrirtækisins teygir anga sína austur til Neskaupstaðar. Hér skal getið um tvennt í þessu sambandi og í báðum tilvikum koma skip sem bera heitið Runólfur við sögu.
 
Fyrsti Runólfur smíðaður í Neskaupstað
 
Fyrsti Runólfur var smíðaður hjá Dráttarbrautinni í Neskaupstað árið 1947. Myndin er tekin þegar smíðinni var að ljúka. Ljósm. Magnús GuðmundssonFyrsti Runólfur var smíðaður hjá Dráttarbrautinni í Neskaupstað árið 1947. Myndin er tekin þegar smíðinni
var að ljúka. Ljósm. Magnús Guðmundsson
Síðla árs 1945 hófst bátasmíði á vegum Dráttarbrautarinnar hf. í Neskaupstað og var fyrsta verkefnið smíði á svonefndum ríkisbátum. Smíði á fyrsta ríkisbátnum lauk árið 1947 og var kaupandi hans Runólfur hf. í Grundarfirði en aðaleigandi fyrirtækisins var Guðmundur Runólfsson skipstjóri. Bátnum var gefið nafnið Runólfur og fékk einkennisstafina SH 135. Þarna var um að ræða fyrsta bátinn af allmörgum sem borið hafa nafnið Runólfur.
 
Runólfur var 39 tonn að stærð og var Guðmundur Runólfsson gagnrýndur töluvert fyrir  að hafa fest kaup á svo stórum báti. Töldu margir að báturinn myndi engan veginn henta til útgerðar frá Grundarfirði.
 
Að sögn Runólfs Guðmundssonar, sonar Guðmundar útgerðarmanns og núverandi stjórnarformanns Guðmundar Runólfssonar hf., reyndist þessi fyrsti Runólfur afar vel og með tilkomu hans var lagður grunnur að því fyrirtæki sem nú starfar á Grundarfirði og ber nafn föður hans. Það fiskaðist afar vel á þennan fyrsta Runólf en hann var gerður út á línu að heiman auk þess sem hann lagði stund á síldveiðar með nót og reknetum. Báturinn var gerður út frá Grundarfirði til loka ársins 1959 en þá var hann seldur úr byggðarlaginu. Hann var síðan dæmdur í þurrafúa árið 1967.
 
Fyrirtæki Guðmundar Runólfssonar óx og dafnaði á þeim tíma sem fyrsti Runólfur var gerður út og hefur vaxið mikið síðan. Nú fæst fyrirtækið við útgerð og fiskvinnslu ásamt því að reka netagerð og eru starfsmennirnir um 90 talsins. Eigendur fyrirtækisins nú eru sjö börn Guðmundar Runólfssonar og einn frændi þeirra. Þarna er því um sannkallað fjölskyldufyrirtæki að ræða.
 
Tilraunaveiðar á kolmunna
 
Kolmunnaveiðar við Ísland eiga sér ekki langa sögu. Lengi vel var litið á kolmunnann sem hinn mesta óþverrafisk og mótaðist það viðhorf á síldarárunum svonefndu á sjöunda áratug síðustu aldar. Stundum kom það fyrir að síldarbátarnir köstuðu á kolmunnatorfur og þá smaug fiskurinn í hvern möskva og sat þar kyrfilega fastur. Oftast þurfti að „snörla“ nótina inn og stíma í land og við tók löng lota við að berja kolmunnann úr nótinni. Þetta var erfitt verk og með eindæmum óþrifalegt og leiðinlegt.
 
Runólfur SH að landa kolmunna í Neskaupstað sumarið 1976. Ljósm. Guðmundur SveinssonRunólfur SH að landa kolmunna í Neskaupstað
sumarið 1976. Ljósm. Guðmundur Sveinsson
Þegar kom fram á áttunda áratug síðustu aldar hóf Síldarvinnslan að hyggja að kolmunnaveiðum með flotvörpu enda var fiskurinn mikið veiddur af erlendum þjóðum. Þegar nótaskipið Börkur var keypt árið 1973 var því fyrst og fremst ætlað að leggja stund á loðnu- og kolmunnaveiðar og hóf hann kolmunnaveiðarnar strax vorið 1973. Hinn 19. maí kom hann með fyrsta farminn til löndunar og reyndist hann vera 200 tonn. Miklar vonir voru bundnar við veiðarnar og þóttu þær fara þokkalega af stað. Reyndin varð hins vegar sú að kolmunnaveiðarnar gengu ekki vel hjá Berki og varð heildarafli skipsins þetta sumar einungis 370-380 tonn. Eftir þessa slöku byrjun varð hlé á kolmunnaveiðum við landið.
 
Árið 1976 ákváðu stjórnvöld að hefja tilraunaveiðar á kolmunna úti af Austurlandi. Gerður var samningur við Guðmund Runólfsson hf. í Grundarfirði um að togari fyrirtækisins, Runólfur, yrði nýttur til veiðanna. Samningurinn kvað á um að veiðarnar skyldu fara fram á tímabilinu 12. júlí til 26 ágúst. 
 
Veiðar Runólfs hófust með flotvörpu en undir lok tímabilsins veiddi skipið kolmunnann í botnvörpu á Glettinganesgrunni. Afli skipsins á tímabilinu var 1.100 tonn og var megninu af honum landað í Neskaupstað en einnig var landað á Hornafirði og í Þorlákshöfn. Í Neskaupstað voru gerðar tilraunir með ýmsar vinnsluaðferðir á kolmunnanum. Þar var framleiddur marningur úr honum, hann var frystur til beitu og eins var framleidd skreið sem seld var til Nígeríu. Nokkrir byrjunarörðugleikar voru við vinnsluna en með tímanum tókst að ná ágætum tökum á henni.
 
Skipstjóri á Runólfi á tilraunaveiðunum var í fyrstu Axel Schiöth en síðan Runólfur Guðmundsson. Magni Kristjánsson, skipstjóri á Berki, var um borð í Runólfi framan af en í ágústmánuði hélt Börkur til kolmunnaveiða á ný eftir þriggja ára hlé.
 
Í fréttum af tilraunaveiðum Runólfs segir að þær hafi gengið allvel og hafi skipið fengið allt upp í 50 tonn í holi.
 

Svakalega fín síldarvertíð

Beitir NK með 530 tonna hol af síld.  Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonBeitir NK með 530 tonna hol af síld.
Ljósm. Helgi Freyr Ólason
Síldveiðin fyrir austan land gengur vel og vinnsla í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað er samfelld. Það eru fjórir bátar sem landa til vinnslu í fiskiðjuverinu, en það eru Börkur NK, Beitir NK, Bjarni Ólafsson AK og Margrét EA. Að auki landar síðan Hákon EA frystri síld í Neskaupstað. Lokið var við að landa úr Beiti NK 1250 tonnum í gærmorgun og hófst þá strax löndun úr Bjarna Ólafssyni AK sem var með tæplega 600 tonn. Nú er verið að landa úr Margréti EA sem er með tæplega 1100 tonn. Heimasíðan ræddi stuttlega við Tómas Kárason, skipstjóra á Beiti, og spurði hann hvort hér væri ekki um að ræða lúxusvertíð. „Jú, það má svo sannarlega segja að þetta sé lúxusvertíð. Vertíðin hefur bara verið svakalega fín. Tíðin hefur verið góð og við höfum lengst af einungis þurft að fara 40-50 mílur til að sækja síldina. Veiðin hefur mest farið fram á Héraðsflóa, sunnan við Digranesflakið og norðan við Glettinganesflak. Og síldin sem hefur fengist þarna hefur verið hreint út sagt glimrandi; stór, eða um 400 gr. og átulaus. Ég held að vart sé hægt að hugsa sér betra eða ferskara hráefni. Við höfum gjarnan verið að koma með um 1200 tonn í hverri veiðiferð og aflinn hefur fengist í 3-4 holum. Nú upp á síðkastið hefur orðið vart við síld af öðrum stofni í bland við norsk-íslensku síldina og hafa bátarnir m.a. þess vegna fært sig utar. Núna eru þeir út af Héraðsflóa, utan við landgrunnskantinn þannig að við erum kannski að sigla um 70 mílur á miðin. Athyglisvert er að þessi síld, sem við teljum vera íslenska sumargotssíld, er algjörlega laus við sýkingu, en hún er fjarri því eins feit og norsk-íslenska síldin.  Fyrir okkur er þetta afar róleg síldarvertíð; það er stutt að fara, það veiðist vel og því þurfa skipin oft að bíða í landi á milli veiðiferða því það eru afköst fiskiðjuversins sem stjórna í reyndinni veiðunum. Við lukum við löndun í gærmorgun en við förum örugglega ekki út fyrr en í fyrsta lagi annað kvöld þannig að menn hafa það tiltölulega náðugt,“ segir Tómas.

Tæknidagur fjölskyldunnar haldinn í sjöunda sinn

Frá sýningasvæði Síldarvinnslunnar á síðasta tæknidegi. Ljósm. Hákon ErnusonFrá sýningasvæði Síldarvinnslunnar á síðasta tæknidegi.
Ljósm. Hákon Ernuson
Tæknidagur fjölskyldunnar verður haldinn í Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað í sjöunda sinn nk. laugardag. Það er Verkmenntaskólinn og Austurbrú sem standa að deginum og eins og venjulega er mikið lagt í dagskrána. Aðgangur er ókeypis og hefst dagskráin kl. 12 og lýkur kl. 16.
 
Samkvæmt venju er boðið upp á margt á tæknideginum og er lögð mikil áhersla á að höfða til allra aldurshópa. Fjöldi fyrirtækja og stofnana munu kynna starfsemi sína og eins munu gestir geta aflað sér upplýsinga um tækninýjungar af ýmsum toga. Fjölbreytt námsframboð Verkmenntaskólans verður kynnt og gestir munu geta séð þann kennslubúnað sem skólinn hefur upp á að bjóða. Þá mun Vísindasmiðja Háskóla Íslands heimsækja tæknidaginn og verður hún með fjölbreytta dagskrá. Alls munu ellefu manns koma á vegum Vísindasmiðjunnar, en hún leggur áherslu á að stuðla að auknum áhuga barna og ungmenna á tækni og vísindum.
 
Að sjálfsögðu mun Síldarvinnslan kynna starfsemi sína á tæknideginum eins og hún hefur ávallt gert. Þá verður gestum boðið upp á veitingar á sýningarsvæði fyrirtækisins. Hjá starfsmönnum Síldarvinnslunnar er tæknidagurinn ávallt tilhlökkunarefni enda hefur hann verið afar fjölsóttur og vel heppnaður í alla staði. Vonandi munu sem flestir leggja leið sína í Verkmenntaskólann á laugardaginn og fullyrða má að það verður enginn svikinn af því.