Sumarblíða einkenndi túrinn

Landað úr Blængi NK. Ljósm. Smári GerissonLandað úr Blængi NK. Ljósm. Smári GerissonFrystitogarinn Blængur NK kom til Neskaupstaðar í gær að lokinni rúmlega þriggja vikna veiðiferð. Afli skipsins var 570 tonn upp úr sjó að verðmæti um 180 milljónir króna. Heimasíðan ræddi við Bjarna Ólaf Hjálmarsson skipstjóra og spurði fyrst hvar skipið hefði verið að veiðum. „Við veiddum víða. Við vorum hér fyrir austan land, úti fyrir Norðurlandi, vestur í Víkurál og reyndar einnig á Skerjadýpinu. Mest vorum við fyrir vestan. Aflinn er blandaður en þó mest af karfa. Segja má að túrinn hafi gengið vel og veðurfarið hefur verið einstakt. Það sem einkenndi túrinn var sannkölluð sumarblíða. Ufsaleysi skyggði þó á. Við leituðum sífellt að ufsa án árangurs. Það virðist bara enginn ufsi vera á ferðinni nú um stundir,“ segir Bjarni Ólafur.

Gert er ráð fyrir að Blængur haldi á ný til veiða næstkomandi fimmtudag og verður þá stefnan sett á Barentshafið. Gert er ráð fyrir að skipið veiði þar 600-700 tonn. Skipstjóri í Barentshafstúrnum verður Theodór Haraldsson.

Síldarvinnslan auglýsir eftir aðalbókara

Síldarvinnslan auglýsir eftir aðalbókaraAðalbókari hefur yfirumsjón með  fjárhags- og viðskiptabókhaldi félagsins og tryggir réttmæti fjárhagsupplýsinga. Jafnframt kemur aðalbókari að gerð ársreiknings, árshlutareikninga og annarra reglubundinna uppgjöra móðurfélagsins og samstæðunnar í samvinnu við fjármálastjóra. Aðalbókari tekur þátt í greiningu fjárhagsupplýsinga og undirbúningi upplýsinga fyrir stjórn og framkvæmdastjóra. 
 
Menntun og hæfni: 
• Háskólamenntun á sviði viðskiptafræði.  Meistaragráða (MACC) í reikningshaldi og endurskoðun er kostur 
• Reynsla af uppgjörsvinnu og ársreikningsgerð 
• Reynsla af færslu og umsjón bókhalds 
• Þekking á Navision, Excel og PowerBI 
• Góð íslensku- og enskukunnátta 
• Færni í mannlegum samskiptum og teymisvinnu 
 
Vinnustöð aðalbókara er á skrifstofu félagsins í Neskaupstað. Ef nýr aðalbókari býr ekki þegar á svæðinu mun Síldarvinnslan aðstoða við búferlaflutninga, þ.m.t. atvinnuleit maka.  
 
Umsækjendur eru beðnir um að sækja um starfið í gegnum Alfreð (www.alfred.is). Umsóknarfrestur er til og með 1. nóvember 2020. 
 
Nánari upplýsingar um starfið gefur Hákon Ernuson, starfsmannastjóri (This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.). 

Svona stór kolmunni hefur ekki sést í mörg ár

Svona stór kolmunni hefur ekki sést í mörg árBjarni Ólafsson AK kom til Neskaupstaðar sl. nótt með 1.835 tonn af kolmunna. Þetta er þriðji kolmunnafarmurinn sem skipið landar á skömmum tíma. Heimasíðan ræddi við Runólf Runólfsson skipstjóra um kolmunnaveiðarnar. „Þessi veiðiferð gekk afskaplega vel og við fengum aflann um 60 mílur beint út af Norðfirði. Það er stutt að fara og þetta er eins þægilegt og það getur verið. Aflinn fékkst í fimm holum. Stærsta holið var 560 tonn og það minnsta um 200 tonn. Það er bara dregið yfir daginn. Við köstum klukkan hálfsjö á morgnana og drögum í tíu og hálfan tíma. Það er látið reka yfir nóttina því þá gengur fiskurinn upp í sjó og dreifir sér. Hér er um að ræða stóran og fallegan kolmunna, fiskurinn er í reynd ótrúlega fallegur. Nú er að fjölga skipum á miðunum. Víkingur og Venus eru að hefja kolmunnaveiðar og Börkur og Beitir eru farnir að veiða kolmunna á milli þess sem þeir veiða síld. Það er afskaplega ánægjulegt að geta veitt kolmunnann í íslenskri lögsögu en síðast gátum við það í einhverjum mæli sumarið 2018 ef ég man rétt. Við munum ljúka við að landa í kvöld og þá verður strax haldið á ný út til áframhaldandi veiða,“ segir Runólfur.

Börkur NK kom í gær til Neskaupstaðar með 630 tonn af síld og 250 tonn af kolmunna. Hann hóf löndun strax og lokið var við að landa liðlega 1.000 tonnum af síld úr Beiti NK. Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri á Berki sagði að þeir hefðu tekið eitt kolmunnahol með síldartrollinu og það hefði bara gengið vel. „Þetta er sérstaklega stór og myndarlegur kolmunni sem þarna fæst. Við höfum ekki séð svona stóran kolmunna í mörg ár. Við munum ljúka við að landa í kvöld og þá verður örugglega strax haldið til kolmunnaveiða á ný,“ segir Hjörvar.

Beitir NK hélt til veiða að lokinni löndun í gærkvöldi. Gert er ráð fyrir að hann veiði kolmunna fram á sunnudag en snúi sér þá að síldinni og komi inn til löndunar á mánudag.

Margt býr í djúpinu

Ankerið sem Beitir NK fékk í vörpuna. Ljósm. Tómas KárasonAnkerið sem Beitir NK fékk í vörpuna.
Ljósm. Tómas Kárason
Í lok september sl.  var Beitir NK að síldveiðum í sunnanverðu Seyðisfjarðardýpi og fékk þá forláta ankeri í vörpuna. Síldin er veidd með flotvörpu en á daginn heldur hún sig niður við botn og þá er varpan dregin eftir botninum við veiðarnar. Þegar varpan var tekin eftir eitt botnholið kom ankerið í ljós, en það er augljóslega gamalt.

Við lauslega athugun gæti ankerið verið frá tímabilinu frá miðri 19. öld til byrjunar 20. aldar þannig að ekki er ósennilegt að hér sé um ankeri frá skútuöld að ræða. Á ensku kölluðust ankeri af þessari gerð fisherman´s anchor eða admiralty anchor en í Ameríku var gjarnan talað um stock anchors. Hér á landi voru ankeri eins og þetta gjarnan nefnd bátsankeri eða stokkankeri, þó stokkankeri hafi hugsanlega frekar verið notað um ankeri  þar sem stokkurinn var úr tré. Ankeri af þessari gerð hafa verið til mjög lengi en það er ekki fyrr en á 19. öld sem farið er að steypa þau í heilu lagi og um leið verður þá hnakkinn bogadregnari. Einnig er hægt að benda á að lykkja er fest í efra auga ankersins en á eldri gerðum var venjulega járnhringur þar í gegn.

Fróðir menn hafa verið spurðir um hugsanlegan aldur ankersins og hafa þeir hallast að því að það sé frá seinni hluta 19. aldar.