Kolmunnafarmarnir berast til verksmiðjanna

600 tonna kolmunnahol hjá Berki NK. Ljósm. Atli Rúnar Eysteinsson600 tonna kolmunnahol hjá Berki NK. Ljósm. Atli Rúnar EysteinssonSegja má að fínasta kolmunnaveiði hafi verið í færeysku lögsögunni síðustu dagana og hefur mikill afli borist til fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og á Seyðisfirði. Að vísu er núna bræla á miðunum og skipin ekki að veiðum.
 
Beitir NK landaði rúmlega 2900 tonnum í Neskaupstað aðfaranótt föstudags og hélt til veiða strax að löndun lokinni. Skipið kom á miðin seint á laugardag og fékk strax 600 tonna hol eftir að hafa togað í 18 tíma. Í kjölfarið fengust síðan 240 tonn eftir 5 tíma en þá skall brælan á.
 
Börkur NK kom til Neskaupstaðar í morgun með um 2300 tonn sem fengust í fimm holum.
 
Bjarni Ólafsson AK landaði 1600 tonnum á Seyðisfirði sl. föstudag og í nótt landaði Vilhelm Þorsteinsson EA rúmlega 2100 tonnum þar. Í kjölfar Vilhelms kom Hákon EA og er hann að landa um 1300 tonnum.
 
Það eru annir hjá starfsmönnum fiskimjölsverksmiðjanna í Neskaupstað og á Seyðisfirði um þessar mundir. Gunnar Sverrisson, rekstrarstjóri fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar, segir að kolmunninn sem nú berst að landi sé hið þokkalegasta hráefni og vinnsla á honum gangi mjög vel.

Kolmunni á leið til Seyðisfjarðar

Fiskimjölsverksmiðjan á Seyðisfirði. Ljósm. Hákon ErnusonFiskimjölsverksmiðjan á Seyðisfirði. Ljósm. Hákon ErnusonBjarni Ólafsson AK er væntanlegur til Seyðisfjarðar í fyrramálið með 1600 tonn af kolmunna sem fékkst í færeysku lögsögunni. Gunnar Sverrisson verksmiðjustjóri fiskimjölsverksmiðjunnar á Seyðisfirði segir að það sé ávallt fagnaðarefni þegar hráefni berst til verksmiðjunnar. Í janúarmánuði bárust tæplega 4000 tonn af kolmunna en hins vegar kom engin loðna til Seyðisfjarðar enda allri loðnu á vertíðinni landað til manneldisvinnslu. „Við erum alltaf bjartsýnir hérna og eigum von á góðri kolmunnaveiði á næstunni og þá berst hráefni til okkar. Við erum alltaf tilbúnir að taka á móti hráefni og hefja vinnslu,“ sagði Gunnar.
 
Beitir NK er á leiðinni til Neskaupstaðar með 2900 tonn af kolmunna og er væntanlegur í kvöld.

Ufsa- og karfavinnsla í fiskiðjuverinu fram að makríl- og síldarvertíð

Ufsavinnsla í fiskiðjuverinu. Ljósm.Hákon ErnusonUfsavinnsla í fiskiðjuverinu. Ljósm.Hákon ErnusonUfsavinnsla hófst í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað sl. fimmtudag en að undanförnu hefur ufsi verið unnin þegar vinnsla á uppsjávarfiski hefur ekki farið fram.  Ufsi var til dæmis unninn nokkra daga í janúar áður en loðnuvinnsla hófst og reyndar einnig í örfáa daga í desember. Þar á undan fór ufsavinnsla síðast fram árið 2014. Ráðgert er að vinna einnig karfa í fiskiðjuverinu og er þessa dagana unnið að undirbúningi þeirrar vinnslu.
 
Tæplega 20 manns starfa nú við ufsavinnsluna en allmargir fastir starfsmenn fiskiðjuversins hafa tekið sér frí. Reyndar er lögð áhersla á að sem flestir fastir starfsmenn hafi lokið sínu sumarleyfi fyrir miðjan júlí. Um þessar mundir er verið að fara yfir umsóknir sumarstarfsmanna en þeir munu væntanlega taka þátt í vinnslu á ufsa og karfa áður en vinnsla á makríl og síld hefst í júlímánuði. Gert er ráð fyrir að sumarstarfsmennirnir geti hafið störf 13. júní.