Síðasti síldarfarmurinn í bili

Beitir NK að landa í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonBeitir NK að landa í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonBeitir NK kom til Neskaupstaðar í morgun með tæplega 900 tonn af íslenskri sumargotssíld. Er þetta síðasti síldarfarmurinn sem unninn verður í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í bili eða þar til afli berst að landi  á ný að loknu verkfalli. Börkur NK landaði 880 tonnum af síld til vinnslu fyrr í vikunni og á undan honum landaði Bjarni Ólafsson AK 670 tonnum.
 
Tómas Kárason, skipstjóri á Beiti, sagði af aflinn hefði fengist í fimm holum. „Þetta voru fimm hol og þau voru afar misjöfn að stærð. Það stærsta var 330 tonn en hið minnsta um 90 tonn. Veiðin er mjög breytileg en það eru blettir sem gefa góðan afla. Vandinn er að hitta á blettina. Almennt verður þó að segjast að það er ekki mikið að sjá af síld. Í túrnum byrjuðum við veiðar um 70 mílur vestur af Reykjanestá en enduðum um 115 mílur norðvestur af tánni. Þarna var bræla um tíma og við héldum bara sjó í eina 12 tíma. Eftir svona brælu tekur alltaf tíma að finna fiskinn á ný,“ sagði Tómas.
 

Hörkuoktóber hjá Gullver – mannabreytingar

Gullver NS heldur til veiða. Ljósm. Ómar BogasonGullver NS heldur til veiða. Ljósm. Ómar BogasonAfli Gullvers NS í októbermánuði var góður. Skipið kom með 524 tonn að landi í mánuðinum, þar af var 284 tonn þorskur og 115 tonn karfi. Drjúgur hluti aflans fór til vinnslu hjá frystihúsi Gullbergs á Seyðisfirði og þar hefur verið nægt hráefni.
 
Um þessar mundir lætur Rúnar Gunnarsson af störfum sem skipstjóri á Gullver en hann hefur fengið ársleyfi og mun taka við störfum hafnarvarðar á Seyðisfirði. Í stað Rúnars mun Þórhallur Jónsson gegna starfi skipstjóra ásamt Jónasi P. Jónssyni. Þórhallur hefur verið 1. stýrimaður á skipinu undanfarin ár.
 
Það eru ákveðin tímamót fólgin í því að Rúnar skuli láta af störfum eftir farsælan feril á skipinu. Þeir Rúnar og Jónas hafa verið á Gullver frá því að skipið kom nýtt til Seyðisfjarðar í júlímánuði 1983, fyrst sem stýrimenn og síðan sem skipstjórar. Nú er það bara spurningin hvort Rúnar snúi aftur á sjóinn að loknu ársleyfinu eða hvort hann festir rætur í hafnarvarðarstarfinu.
 
Að sögn Jónasar P. Jónssonar eru þeir Rúnar ekki þeir einu sem hafa verið í áhöfn Gullvers frá því að skipið hóf veiðar. Magnús Stefánsson bátsmaður hefur einnig fylgt Gullver frá fyrstu tíð.
 
 Jónas P. Jónsson skipstjóri er ánægður með aflabrögðin í októbermánuði. „Það er búin að vera góð veiði á okkar hefðbundnu miðum. Við erum venjulega fjóra daga í viku á sjó en liggjum í landi í tvo til þrjá daga. Það er því ljóst að unnt væri að fiska enn meira á skipið. Hver veiðiferð hjá okkur er annarri lík. Við byrjum á því að veiða karfa í Berufjarðarál og Lónsdýpi en síðan er farið í þorsk og ufsa í Hvalbakshallinu eða norður á Fæti. Reyndar fórum við alla leið á Tangaflakið í síðasta túr. Í lok hvers túrs nú í haust hefur venjulega verið lögð áhersla á að ná í 10-15 tonn af ýsu. Almennt má segja að þetta fyrirkomulag hafi gengið vel,“ sagði Jónas.
 

Blængur frá veiðum – tíminn nýttur til námskeiðahalds

Hluti Blængsmanna og starfsfólks fiskiðjuvers á lyftara- og krananámskeiði. Ljósm. Hákon ErnusonHluti Blængsmanna og starfsfólks fiskiðjuvers á lyftara- og krananámskeiði. Ljósm. Hákon ErnusonFrystitogarinn Blængur NK hefur verið á Akureyri frá því í byrjun ágúst en þar vinna starfsmenn Slippsins að því að koma fyrir nýjum búnaði á vinnsludekki skipsins. Að framkvæmdum loknum mun Blængur geta lagt stund á ísfiskveiðar ásamt því að geta fryst aflann. Skipið verður útbúið til að geyma frystar afurðir í lest á brettum en slíkt fyrirkomulag leiðir til mikillar vinnuhagræðingar og flýtir fyrir löndun. Fiskikössunum er raðað á brettin á vinnsludekkinu og er brettunum síðan staflað í lestinni með lyftara.
 
Framkvæmdir við Blæng hafa nokkuð dregist á langinn og er nú gert ráð fyrir að skipið geti hafið veiðar snemma í desembermánuði.
 
Á meðan framkvæmdirnar við Blæng hafa staðið yfir hefur tíminn verið nýttur til námskeiðahalds fyrir áhöfnina ásamt því að hún hefur sótt fræðslufundi um ýmis málefni. Í síðustu viku fór til dæmis  fram námskeið fyrir minni vinnuvélar (lyftara- og krananámskeið) í umsjá Vinnueftirlitsins. Auk Blængsmanna sótti starfsfólk fiskiðjuvers og fiskimjölsverksmiðju í Neskaupstað námskeiðið og útskrifuðust um 20 manns. Áður hafði áhöfnin á Blængi sótt kynningarfundi um nýja starfsmannastefnu Síldarvinnslunnar og öryggisnámskeið. Boðið verður upp á svonefnt sápunámskeið fyrir áhöfnina en þá mun fulltrúi frá OLÍS fara yfir notkun á þeim hreinsiefnum sem notuð eru um borð í skipinu og eins hefur verið kannað að bjóða upp á námskeið í vírasplæsningum í samvinnu við Fjarðanet.