Konur í sjávarútvegi heimsækja Austfirði

Konur í sjávarútvegiKonur í sjávarútvegiDagana 15.-17. maí nk. mun félagið Konur í sjávarútvegi efna til kynnisferðar um Austfirði. Um 30 konur víðs vegar að af landinu munu taka þátt í ferðinni. Meðal annars er ráðgert að heimsækja sjávarútvegsfyrirtæki á Fáskrúðsfirði, Eskifirði, í Neskaupstað og á Seyðisfirði.

Félagið Konur í sjávarútvegi var stofnað árið 2013 og er félaginu ætlað að vera vettvangur fyrir konur sem starfa í sjávarútvegi og tengdum greinum. Markmið félagsins er að búa til tengslanet fyrir konur sem starfa á þessu sviði, koma á samvinnu á milli þeirra og sinna kynningu á greininni. Tilgangurinn með starfinu er að efla konur sem starfa í sjávarútvegi og gera þær sýnilegar jafnt innan greinarinnar sem utan.

Mun félagið standa fyrir kynningu á starfsemi sinni í Norðurljósasetrinu á Fáskrúðsfirði mánudaginn 15. maí kl. 17.30 og í Safnahúsinu í Neskaupstað þriðjudaginn 16. maí kl. 17.30 og eru allir velkomnir á kynningarfundina, jafnt karlar sem konur.

Togararnir afla vel

Blængur NK   Ljósm. Hákon ErnusonBlængur NK. Ljósm. Hákon ErnusonSegja má að togarar Síldarvinnslunnar hafi aflað vel að undanförnu. Að vísu hefur lítið aflast á Austfjarðamiðum en skipstjórarnir á Barða NK og Gullveri NS telja að nú sé fiskur að ganga á hefðbundin togaramið eystra.

Ísfisktogarinn Barði NK landar 110 tonnum í Neskaupstað í dag og er ýsa og þorskur uppistaða aflans. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri segir að aflinn hafi fengist í Lónsbugtinni og þar hafi verið jöfn og góð veiði allan túrinn. Barði mun halda á ný til veiða kl. 15 í dag.

Ísfisktogarinn Gullver NS var að taka síðasta hol veiðiferðarinnar á Papagrunni í morgun. Jónas P. Jónsson skipstjóri segir að aflinn sé um 106 tonn eða 350 kör. „Við byrjuðum á að fara vestur kanta í karfaleit en síðastu einn og hálfan eða tvo sólarhringana vorum við í Lónsbugtinni og fengum þar ýsu og þorsk. Við vorum að leggja af stað heim til Seyðisfjarðar með fullt skip,“ sagði Jónas.

Frystitogarinn Blængur NK kom til Akureyrar í morgun og mun landa þar. Bjarni Ólafur Hjálmarsson skipstjóri segir að aflinn sé 13.000 kassar eða um 530 tonn upp úr sjó. „Við vorum mest í Víkurálnum og uppistaða aflans er ufsi og karfi. Það gekk afar vel að veiða allan túrinn og það slitnaði aldrei hjá okkur í vinnslunni. Við munum stoppa á Akureyri þessa vikuna og það verður unnið að lagfæringum á millidekkinu. Það eru nokkrir hnökrar þar sem þarf að sníða af. Við höldum síðan til veiða á sunnudagskvöld og þá verður farið í úthafið – haldið til úthafskarfaveiða á Reykjaneshrygg,“ sagði Bjarni Ólafur.

Vestmannaeyjaskipin Vestmannaey VE og Bergey VE hafa fiskað afar vel að undanförnu og lönduðu bæði fullfermi í Vestmannaeyjum í gær. Bergey fer í slipp í dag til hefðbundins viðhalds en Vestmannaey hélt á ný til veiða síðdegis í gær og er nú að veiðum á Öræfagrunni.

Beitir NK kominn með 9.300 tonn af kolmunna

Beitir NK að dæla kolmunna. Þetta var 650 tonna hol.   Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonBeitir NK að dæla kolmunna. Þetta var 650 tonna hol. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonBeitir NK kom til Neskaupstaðar í morgun með 2.200 tonn af kolmunna sem fékkst í færeysku lögsögunni. Þar með er Beitir kominn með 9.300 tonn en hann hóf veiðarnar upp úr miðjum marsmánuði. Tómas Kárason skipstjóri segir að hingað til hafi kolmunnaveiðarnar gengið vel en vissulega veiðist mismikið frá einum tíma til annars. „Við vorum kallaðir inn með þessi 2.200 tonn því auðvitað þarf að hugsa um að verksmiðjurnar hafi hráefni til að vinna úr og einnig að of mikill afli berist ekki að landi á sama tíma. Þessi túr byrjaði afar vel. Við fengum 650 tonn í fyrsta holi, en síðan dofnaði verulega yfir veiðinni. Fiskurinn var dreifður og skipin þurftu að toga lengi. Við toguðum lengst í 18 tíma en sum skipin toguðu vel yfir 20 tíma. Þegar við fórum í land var treg veiði, en þetta á eftir að lagast. Kolmunnaveiðin er gjarnan svona; stundum gengur vel en svo koma tímabil þar sem lítið fiskast. Það var hins vegar kostur við þennan túr að veðrið var afar gott allan tímann sem við vorum á veiðum, en það var hins vegar haugabræla á leiðinni á miðin,“ sagði Tómas.

Vilhelm Þorsteinsson EA er að landa 1.700 tonnum af kolmunna á Seyðisfirði í dag.