Framlag Síldarvinnslusamstæðunnar til samfélagsins nam 9,7 milljörðum króna á árunum 2014-2015 – þar af voru veiðigjöld 1,8 milljarðar

Capture

            Endurskoðunarfyrirtækið Deloitte hefur reiknað út svonefnt samfélagsspor Síldarvinnslusamstæðunnar fyrir árin 2014 og 2015. Samfélagsspor er tiltekin aðferðafræði sem notuð er til að greina heildarframlag fyrirtækja til samfélagsins í formi skatta og opinberra gjalda. Til Síldarvinnslusamstæðunnar teljast, auk móðurfélagsins Síldarvinnslunnar hf., Gullberg ehf., Bergur-Huginn ehf., Fóðurmjölsverksmiðjan Laxá hf. og SVN-eignafélag ehf.

       Hér skal getið um nokkrar athyglisverðar niðurstöður samfélagssporsins:

 • Rekstrartekjur samstæðunnar námu 27 milljörðum króna árið 2015 og fjöldi ársverka var 334.

 • Rekstrarkostnaður fyrir utan laun og skatta á árinu 2015 nam 10,5 milljörðum króna og er stór hluti kostnaðarins vegna kaupa á vörum og þjónustu frá öðrum innlendum fyrirtækjum.

 • Launagreiðslur námu 15% af verðmætasköpun ársins 2015.

 • Meðaltal heildarlauna starfsmanna á árinu 2015 var 12,3 milljónir króna.

 • Samfélagssporið nam 15,3 milljónum fyrir hvern starfsmann á árinu 2015.

 • Veiðigjöld námu 909 milljónum króna á árinu 2014 og 872 milljónum á árinu 2015.

 • Veiðigjöld sem hlutfall af samfélagsspori námu tæplega 20% árið 2014 og 17% árið 2015.

 • Á árinu 2015 greiddi samstæðan 100 milljónir króna í kolefnis- og raforkugjald.

 • Alls greiddi samstæðan 94 milljónir króna í stimpilgjöld á árinu 2015, þar af voru greiddar 82 milljónir í stimpilgjöld vegna kaupa á uppsjávarskipinu Beiti NK.

 • Samanlagt námu greiddir og innheimtir skattar ásamt opinberum gjöldum samstæðunnar 4,6 milljörðum króna árið 2014 og 5,1 milljarði árið 2015. Samanlagt nam því framlag samstæðunnar til samfélagsins 9,7 milljörðum króna í formi skatta og gjalda á árunum 2014 og 2015. Ekki eru metin margfeldisáhrif vegna kaupa á innlendum vörum og þjónustu.

  Hér fyrir neðan má sjá nánari upplýsingar um samfélagssporið

16-06-22_Samfélagsspor_SVN_glærur.pdf

Síldarvinnslan fyrir 50 árum

Börkur NK kom nýr til Neskaupstaðar í nóvembermánuði árið 1966. Ljósm. Guðmundur SveinssonBörkur NK kom nýr til Neskaupstaðar í nóvembermánuði árið 1966. Ljósm. Guðmundur SveinssonÁrið 1966 er áhugavert ár þegar saga Síldarvinnslunnar er skoðuð. Þetta var fyrsta heila árið sem Síldarvinnslan rak fiskvinnslustöð og síldarsöltunarstöð og jafnframt var þetta fyrsta heila ár útgerðar Síldarvinnslunnar. Fest voru kaup á eignum Samvinnufélags útgerðarmanna snemma árs 1965 og voru fiskvinnslustöðin og síldarsöltunarstöðin á meðal þeirra. Fyrstu fiskiskipin í eigu Síldarvinnslunnar, Barði og Bjartur, hófu veiðar á árinu 1965 þannig að árið 1966 var fyrsta heila rekstrarár útgerðarinnar. Hér á eftir verður getið um nokkrar athyglisverðar staðreyndir hvað varðar starfsemi  Síldarvinnslunnar á árinu 1966.
 
 • Síldveiðarnar á árinu 1966 slógu öll fyrri met.  Framan af vertíð þurftu veiðiskipin að sækja síldina langt norður í höf en þegar hausta tók þétti síldin sig á Rauða torginu og var veiðin þar ævintýraleg. Á vertíðinni veiddu íslensku veiðiskipin rúmlega 770 þúsund tonn af stórri og fallegri norsk-íslenskri síld.
 • Síldveiðarnar hjá Síldarvinnsluskipunum Barða og Bjarti gengu afar vel á vertíðinni. Barði landaði alls 7531 tonni og Bjartur 8318 tonnum.
 • Í nóvembermánuði þetta ár bættist þriðja síldveiðiskipið í flota Síldarvinnslunnar. Það fékk nafnið Börkur. Börkur hóf síldveiðar strax og landaði 2782 tonnum á vertíðinni.
 • Alls tók síldarverksmiðja Síldarvinnslunnar í Neskaupstað á móti 107.533 tonnum af síld á vertíðinni 1966. Það var langmesta magn sem borist hafði til verksmiðjunnar, en árið áður hafði hún tekið á móti 70.200 tonnum og var það fyrra met.
 • Unnið á síldarsöltunnarstöð Síldarvinnslunnar. Fiskvinnslustöðin í baksýn. Ljósm. v.LindenUnnið á síldarsöltunnarstöð Síldarvinnslunnar. Fiskvinnslustöðin í baksýn. Ljósm. v.Linden
 • Mjög miklar umbætur voru gerðar á síldarverksmiðjunni á þessu ári. Verksmiðjuhúsið var stækkað, komið fyrir nýjum sjóðara, nýrri pressu og þremur skilvindum bætt við þær sem fyrir voru. Jafnframt var nýr ketill settur upp og komið fyrir soðeimingartækjum. Þegar þessum framkvæmdum var lokið höfðu afköst verksmiðjunnar aukist og gat hún unnið úr 700 tonnum á sólarhring en meðalafköst voru 600 tonn.
 •  Alls voru saltaðar 11.431 tunna af norsk-íslenskri síld hjá síldarsöltunarstöð Síldarvinnslunnar árið 1966. Heildarsöltunin hjá sex síldarsöltunarstöðvum í Neskaupstað á vertíðinni var 52.925 tunnur og var það næst mesta söltun á einni vertíð hjá söltunarstöðvum bæjarins á árum hins svonefnda síldarævintýris. Mest var saltað árið 1963 en þá fór síld ofan í 56.375 tunnur í Neskaupstað.
 • Í fiskvinnslustöð Síldarvinnslunnar var mikil áhersla lögð á síldarfrystingu á árinu 1966. Alls voru þar fryst 992 tonn af síld en einungis 346 tonn af bolfiski.
 • Síldarvinnslan festi kaup á síldarflökunarvélum árið 1966 og hóf tilraunir með síldarflökun.
 • Snemma árs 1966 héldu skip Síldarvinnslunnar, Barði og Bjartur, til loðnuveiða. Loðnuveiðar voru þá eingöngu stundaðar úti fyrir suður- og suðvesturströnd landsins og var engri loðnu landað í Neskaupstað. Loðna barst fyrst til vinnslu í Neskaupstað tveimur árum síðar.
 
Eins og sést á staðreyndaupptalningunni hér að framan tengdust umsvif Síldarvinnslunnar á árinu 1966 fyrst og fremst veiðum og vinnslu á norsk-íslenskri síld. Það átti eftir að breytast mikið á næstu árum, en það er önnur saga.Síldarverksmiðja Síldarvinnslunnar tók á móti 107.533 tonnum af síld á vertíðinni 1966. Ljósm. Hjörleifur GuttormssonSíldarverksmiðja Síldarvinnslunnar tók á móti 107.533 tonnum af síld á vertíðinni 1966. Ljósm. Hjörleifur Guttormsson

Samningur um fræðsluáætlun

Hákon Ernuson, starfsmannastjóri Síldarvinnslunnar og Jóna Árný Þórðardóttir undirrita samning um greiningu og vinnslu fræðsluáætlunar. Einnig á mynd: Verkefnisstjórarnir Haraldur Gísli Eðvaldsson, Hulda Guðnadóttir og Tinna Kristbjörg Halldórsdóttir. Ljósm. Sigurður Ólafsson Hákon Ernuson, starfsmannastjóri Síldarvinnslunnar og Jóna Árný Þórðardóttir undirrita samning um greiningu og vinnslu fræðsluáætlunar. Einnig á mynd: Verkefnisstjórarnir Haraldur Gísli Eðvaldsson, Hulda Guðnadóttir og Tinna Kristbjörg Halldórsdóttir. Ljósm. Sigurður Ólafsson Síldarvinnslan og Austurbrú hafa gengið frá samningi um gerð nýrrar fræðsluáætlunar fyrir starfsmenn Síldarvinnslunnar. Ný starfsmannastefna Síldarvinnslunnar gerir ráð fyrir eflingu fræðslustarfs innan fyrirtækisins og er því mikilvægt að greina fræðsluþarfir og gera nýja áætlun um hvernig skal uppfylla þær. Verkefnið er styrkt af fræðslusjóðum fagfélaga, en Landsmennt, Sjómennt, Starfsafl og Menntasjóður VSSÍ koma að fjármögnun verkefnisins. Ráðgjafar Austurbrúar munu vinna greiningu og nýja fræðsluáætlun og styðjast við aðferðafræði sem nefnist „Markviss“. Aðferðafræðin byggir á ríku samráði vinnuveitanda og starfsmanna um samsetningu fræðsluáætlunar og verður skipaður sjö manna stýrihópur sem í sitja fulltrúar starfsmanna og stjórnenda. Tekin verða viðtöl og gerð viðhorfskönnun meðal starfsmanna til að tryggja að áætlunin verði sem nákvæmust. Fyrsti fundur stýrihópsins verður haldinn 15. ágúst og verður ný fræðsluáætlun tilbúin fyrir árslok.