Síldarvinnslan styrkir Þrótt

DSC039611

Stefán Már og Gunnþór við undirritun samningsins. Ljósm: Smári Geirsson

                Miðvikudaginn 24. febrúar sl. var styrktar- og auglýsingasamningur á milli Síldarvinnslunnar hf. og Íþróttafélagsins Þróttar undirritaður á skrifstofum Síldarvinnslunnar.  Hér er um að ræða endurnýjun á samningi sem verið hefur í gildi undanfarin ár. Það voru þeir Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar og Stefán Már Guðmundsson formaður Þróttar sem undirrituðu samninginn.

                Gunnþór sagði í samtali við heimasíðuna að Síldarvinnslan væri stolt af því að vera einn af helstu styrktaraðilum Þróttar. „Starfsemi félagsins er fjölbreytt og kraftmikil og það gegnir mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Í reyndinni er heiður að fá að leggja sitt af mörkum til þess að starfsemi félagsins haldi áfram að vera jafn gróskumikil og hingað til,“ sagði Gunnþór.

                Stefán Már Guðmundsson formaður Þróttar sagði að samningurinn skipti félagið miklu máli. „Forsendan fyrir öflugri starfsemi Þróttar er sú velvild sem ríkir í garð félagsins í samfélaginu. Þróttur vill bjóða börnum og ungmennum upp á góða og faglega þjálfun í öllum þeim greinum sem félagið sinnir og það er í reynd samfélagsleg nauðsyn að halda úti metnaðarfullu íþróttastarfi. Fyrir Þrótt er algerlega ómetanlegt að eiga fyrirtæki á borð við Síldarvinnsluna sem sýna félaginu áhuga og skilning. Stuðningur eins og sá sem felst í samningnum við Síldarvinnsluna er stórkostlegur fyrir samfélagið allt og það er gleðilegt að heyra að forsvarsmenn Síldarvinnslunnar telja að þeim fjármunum sem ráðstafað er til að styrkja Þrótt sé vel og skynsamlega varið,“ sagði Stefán.

Bjartur heldur í togararall í 26. sinn

DSC039641

Bjartur NK undirbúinn fyrir sitt 26. togararall. Ljósm: Hákon Ernuson

                Bjartur NK er það skip sem oftast hefur tekið þátt í togararalli. Í dag er ráðgert að hann haldi í sitt 26. rall. Togararall hefur farið fram árlega frá 1985 og er það mikilvægur þáttur í árlegu mati á stofnstærð botnfiska við landið. Hafrannsóknastofnun leitaði eftir tilboðum til þátttöku skipa í rallinu og varð niðurstaðan sú að auk Bjarts mun Ljósafell SU annast rallið þetta árið ásamt hafrannsóknaskipunum  Árna Friðrikssyni og Bjarna Sæmundssyni.

                Í rallinu mun Bjartur toga á 183 fyrirfram ákveðnum togstöðvum á svæðinu frá Eyjafirði að Gerpistotu og síðan á Þórsbanka suður að miðlínu. Að sögn Steinþórs Hálfdanarsonar skipstjóra á Bjarti er gert ráð fyrir að rallið taki um tuttugu daga en landað verði einu sinni á meðan á rallinu stendur. Steinþór segir að það sé ágætis tilbreyting fyrir áhöfnina að taka þátt í rallinu og sá tími einkennist af öðrum þankagangi en þegar hefðbundnar veiðar séu stundaðar. Þá sé líka afar ánægjulegt að taka þátt í ralli sem skilar jákvæðri niðurstöðu og ávallt vonist menn eftir slíkri niðurstöðu.

Japansfrysting hafin og kolmunna landað

DSC03951

Norska skipið Norderveg að landa kolmunna í Neskaupstað. Ljósm: Hákon Ernuson

Japansfrysting er hafin í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Hrognafylling loðnunnar er nægjanleg til að unnt sé að frysta hana fyrir Japansmarkað. Beitir NK kom í gær með 820 tonn af loðnu og er verið að frysta úr honum núna. Vilhelm Þorsteinsson EA kom í morgun með fullfermi af frystri loðnu.

Í nótt kom norska skipið Norderveg til Neskaupstaðar með 2300 tonn af kolmunna og er verið að landa úr því.