Síldarvinnslan er hátæknivætt sjávarútvegsfyrirtæki í fremstu röð. Slíkur rekstur stendur og fellur með þekkingu og frammistöðu starfsmanna. Það skiptir Síldarvinnsluna því miklu máli að hafa á að skipa góðum og ánægðum starfsmönnum. Í því skyni stefnum við að því að bjóða upp á vinnuumhverfi sem einkennist af hvatningu, öryggi og góðum samskiptum. Við viljum bjóða okkar fólki upp á:

 • vinnuumhverfi þar sem stjórnendur og starfsmenn vinna að því í sameiningu að auka sífellt öryggi, velferð og árangur
 • trygga vinnu og góða afkomu
 • vinnu þar sem fólk er hvatt til að gera sitt besta og að efla stöðugt þekkingu sína og færni
 • sveigjanleika og jafnvægi vinnu og einkalífs, eins og frekast er unnt
 • samskipti sem einkennast af samráði og virðingu
 • jafnrétti til launa og starfsþróunartækifæra

 Við hyggjumst vinna að ofangreindu með eftirfarandi hætti

Umbótastarf, öryggi og heilsa:

 • Við teljum öll vinnuslys vera óásættanleg, óþörf og fyrirbyggjanleg með réttum vinnubrögðum. Við hyggjumst leggja sérstaka áherslu á að tryggja að vinna hjá Síldarvinnslunni hafi sem minnst neikvæð áhrif á heilsu fólks og að allir geti komið heilir heim
 • Við leitumst við að nýta þekkingu starfsmanna til að greina og grípa tækifæri til umbóta í rekstri, sérstaklega í því skyni að auka öryggi starfsmanna og gæði vörunnar
 • Við greinum hættur í vinnuumhverfinu stöðugt og vinnum markvisst að því að koma í veg fyrir eða uppræta þær
 • Til að tryggja markvissa vinnu á sviði öryggismála er starfrækt öryggisnefnd á öllum vinnustöðum Síldarvinnslunnar. Öryggisnefnd fundar að lágmarki ársfjórðungslega, ræðir öryggisatvik, stöðu umbótaverkefna og forgangsröðun þeirra. Öryggisfulltrúar á hverjum vinnustað, ásamt stjórnendum, bera svo ábyrgð á framgangi umbótavinnunnar. Öryggisráð Síldarvinnslunnar og öryggisstjóri hafa yfirumsjón með öryggismálum og veita stuðning og aðhald
 • Sérstök áhersla verður lögð á að tryggja öryggi nýrra starfsmanna og skulu þeir fá markvissa kennslu í öruggum vinnubrögðum áður en þeir fá að vinna sjálfstætt
 • Við bjóðum starfsmönnum okkar upp á reglubundnar heilsufarsskoðanir og niðurgreiðum líkamsrækt og heilsueflingu
 • Óheimilt er að vera undir áhrifum vímuefna í vinnutíma og er litið á það sem alvarlegt brot á öryggisreglum. Starfsmenn sem eiga við vímuefnavanda að stríða geta fengið stuðning til að vinna bug á honum. Starfsmenn geta einnig fengið stuðning við að vinna bug á tóbaksfíkn

Starfsöryggi og kjör

 • Við leitumst við að tryggja starfsöryggi og kjör starfsmanna eins og framast er unnt. Útgerð og fiskvinnsla er í eðli sínu háð ákveðinni óvissu, en í ljósi sterkrar stöðu Síldarvinnslunnar hefur fyrirtækið getað boðið fastráðnum starfsmönnum upp á örugga vinnu og góðar árstekjur
 • Stefnt er að því að starfsmenn njóti góðra kjara fyrir sanngjarnt vinnuframlag og góða frammistöðu
 • Öll mismunun, til dæmis á grundvelli kynferðis, uppruna, kynhneigðar eða annarra persónubundinna þátta, er óheimil. Ákvarðanir um ráðningar, laun og stöðuhækkanir skulu byggja á hæfnikröfum viðkomandi starfs, hæfni og reynslu viðkomandi og/eða kjarasamningum eftir því sem við á
 • Síldarvinnslan stefnir að því að gæta fyllsta jafnréttis milli kvenna og karla, bæði hvað varðar laun og tækifæri innan fyrirtækisins. Síldarvinnslan hyggst láta framkvæma óháðar jafnlaunaúttektir til að tryggja að kynjunum sé ekki mismunað launalega

Hvatning, starfsþróun og fræðsla

 • Stjórnendum hjá Síldarvinnslunni ber að gera starfsmönnum ljóst til hvers er ætlast af þeim í starfi. Þeim ber svo að fylgjast með frammistöðu starfsmanna og gefa þeim uppbyggilega endurgjöf. Þetta skilar sér í bættri frammistöðu og nýtingu á hæfni hvers og eins. Kröfur til starfsmanna taka svo breytingum í takt við hæfileika, frammistöðu og áhuga hvers og eins
 • Leitast skal við að nýta hæfileika fólks sem best og fela því verkefni við hæfi. Stefnt er að því að gefa góðum starfsmönnum tækifæri til framgangs í starfi
 • Þörf starfsmanna fyrir fræðslu er greind reglulega og eru námskeið og þjálfun skipulögð til að mæta þeim þörfum

Sveigjanleiki og jafnvægi

 • Leitast skal við að hafa vinnu, frí og vinnsluhlé eins fyrirsjáanleg og kostur er og koma upplýsingum þar að lútandi eins fljótt til skila og mögulegt er
 • Ef forsendur stafsmanns til að sinna núverandi starfi breytast, þá er skoðað hvort önnur störf innan fyrirtækisins komi til greina í staðinn
 • Leitast skal við að gefa starfsmönnum leyfi frá starfi þegar þeir óska þess, svo fremi sem vinnsla á hverjum tíma gefur möguleika til þess. Taka skal sérstakt tillit til óska um frí og sveigjanleika ef um veikindi í fjölskyldu eða aðrar persónulegar ástæður er að ræða
 • Leitast er við að hafa starfslok hjá Síldarvinnslunni sveigjanleg. Við 67 ára aldur á starfsmaður samtal við starfsmannastjóra um starfslok. Tímasetning starfsloka byggir á eðli starfs, frammistöðu í starfi, vilja og heilsu starfsmanns. Ef heilsufar er gott og gagnkvæmur vilji er fyrir hendi má starfsmaður halda áfram að starfa hjá fyrirtækinu til 70 ára aldurs
 • Samtal um tilhögun starfsloka hefst við 62 ára aldur. Þá er geta starfsmanns til að sinna sama starfi út starfsæfina metin, en vitað er að sum störf verða erfiðari með aldrinum, svo sem vaktavinna og sjómennska. Vilji starfsmaður minnka við sig vinnu eða er ófær um að gegna starfinu af heilsufarsástæðum skal leitast við að finna honum annað starf innan fyrirtækisins

Samskipti og samráð

 • Síldarvinnslan leggur sig fram um að gefa starfsmönnum greinargóðar upplýsingar um rekstur fyrirtækisins á hverjum tíma. Á heimasíðu fyrirtækisins er ávallt að finna nýjustu fréttir af starfseminni
 • Ársfjórðungslega eru haldnir starfsmannafundir á öllum vinnustöðum Síldarvinnslunnar. Stjórnendur hvers vinnustaðar bera ábyrgð á að fundirnir séu haldnir. Á fundunum er farið yfir öryggismál og umbótastarf, horfur í veiðum og vinnslu og allar fyrirhugaðar breytingar í rekstrinum. Á fundunum skal varið tíma til umræðna og spurninga
 • Þegar breytingar eða aðgerðir sem skipta starfsmenn máli eru fyrirhugaðar, skal upplýsa starfsmenn tímanlega, gefa þeim tækifæri á að koma athugasemdum á framfæri og spyrja spurninga
 • Starfsmenn og stjórnendur Síldarvinnslunnar skulu sýna hverjir öðrum virðingu og kurteisi. Hvers konar einelti eða áreitni er óheimil með öllu

Stafsmannastefnan er ekki tæmandi. Að auki gilda ýmsar reglur um framkvæmd starfsmannamála, ábyrgðir og skyldur. Auk þess er Síldarvinnslan að sjálfsögðu bundin af lögum og kjarasamningum og fylgir þeim í einu og öllu. Frekari upplýsingar um þetta má finna á heimasíðu Síldarvinnslunnar