Nýliðin síldarvertíð í tölum

Norðfjarðarhöfn á síldarvertíðinni. Ljósm. Smári GeirssonNorðfjarðarhöfn á síldarvertíðinni. Ljósm. Smári GeirssonNorsk íslenskri síld á nýliðinni vertíð var fyrst landað til vinnslu í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað 11. september sl. Eins og fram hefur komið gekk vertíðin afar vel. Síldin hélt sig skammt út af Austfjörðum allan vertíðartímann og var veiðin góð. Síðast var norsk-íslenskri síld á vertíðinni landað í Neskaupstað 29. október sl.

Þrjú skip lögðu upp síldarafla hjá Síldarvinnslunni á vertíðinni og voru það Beitir NK, Börkur NK og Margrét EA. Beitir og Börkur lönduðu ellefu sinnum og Margrét fimm sinnum. Beitir landaði samtals 10.477 tonnum, Börkur 9.713 tonnum og Margrét 5.167 tonnum. Samtals tók því fiskiðjuverið á móti 25.357 tonnum af síld á vertíðinni. 

Á allri vertíðinni var norsk-íslenska síldin úrvalshráefni til vinnslu. Í fiskiðjuverinu var síldin ýmist heilfryst eða flökuð og fryst með roði eða án.

Togararnir landa góðum afla

Landað úr Vestmannaey VE í Neskaupstað. Ljósm. Smári GeirssonLandað úr Vestmannaey VE í Neskaupstað.
Ljósm. Smári Geirsson
Ísfisktogararnir hafa verið að fá ágætan afla austur af landinu. Bergey VE landaði í Neskaupstað í gær og Vestmannaey VE landaði þar fullfermi í dag. Þá kom Gullver NS til Seyðisfjarðar í morgun með fullfermi. Egill Guðni Guðnason, stýrimaður á Vestmannaey, sagði að vel hafi gengið að fiska. „Við fengum þennan afla á Glettinganesgrunni og síðan á Breiðdalsgrunni og út í Hvalbakshalli. Þetta er mest þorskur en einnig dálítið af ýsu. Það kom gott skot í Hvalbakshallinu og þar var mokveiði í tæpan sólarhring. Þetta var hinn þægilegasti túr miðað við veðravítið í síðasta túr,“ segir Egill Guðni. 
 
Þórhallur Jónsson, skipstjóri á Gullver hefur svipaða sögu að segja. „Við byrjuðum á Glettinganesflakinu í ýsukroppi en fengum síðan þorsk suður á Litladýpi og á Breiðdalsgrunni. Túrinn tók um þrjá og hálfan sólarhring. Það var góður þorskafli þarna suður frá en þegar við fórum hafði veiðin dottið niður. Það munaði miklu að við fengum gott veður í túrnum, það var einungis smá kaldi eina nóttina en annars fínt veður,“segir Þórhallur. 
 
Gullver NS kom til hafnar á Seyðisfirði fyrir hádegi í dag. Á myndinni eru Gullversmenn að ganga frá festum og gera klárt fyrir löndun í blíðunni. Ljósm. Ómar BogasonGullver NS kom til hafnar á Seyðisfirði fyrir hádegi í dag. Á myndinni eru Gullversmenn að ganga frá festum og gera klárt fyrir löndun í blíðunni. Ljósm. Ómar Bogason

Mun síldin hafa vetursetu út af Austfjörðum?

Nýliðin síldarvertíð gekk eins og í sögu. Norsk-íslensk síld hefur haldið sig í miklum mæli skammt út af Austfjörðum og þangað hafa skipin sótt hana. Góður afli fékkst í stuttum holum og stór og falleg síldin var úrvalshráefni til vinnslu. Vertíðin fékk marga til að rifja upp síldarárin svonefndu þegar síldin hafði vetursetu á hinu svonefnda Rauða torgi og afli var ævintýralegur.
Síldarstemning í Norðfjarðarhöfn á nýliðinni vertíð.  Ljósm. Sigurjón JónusonSíldarstemning í Norðfjarðarhöfn á nýliðinni vertíð.
Ljósm. Sigurjón Jónuson
 
Hjá Síldarvinnslunni hófst síldarvertíðin hinn 11. september sl. þegar Börkur NK kom með 890 tonn til vinnslu í fiskiðjuver fyrirtækisins. Þá var rætt við Hálfdan Hálfdanarson skipstjóra og upplýsti hann að aflinn hefði fengist í fjórum stuttum holum í Seyðisfjarðardýpinu og þegar veiðum lauk hafi skipið átt 32 mílur í land. Þetta var byrjunin, en öll vertíðin hafði sömu einkenni og þessi fyrsti síldartúr. Síldin hefur haldið sig skammt undan landi og alla vertíðina var hún stór og góð, gjarnan 380-400  grömm að þyngd. Dálítið bar einnig á íslenskri sumargotssíld á miðunum en hún er smærri en sú norsk-íslenska. Þrjú skip lönduðu síld á vertíðinni í Neskaupstað og voru það Börkur NK, Beitir NK og Margrét EA.
 
Hjá Síldarvinnslunni fór öll síldin á vertíðinni til manneldisvinnslu. Í fiskiðjuverinu var lengst af unnið á þremur vöktum og gekk framleiðslan vel í alla staði. Hráefnið sem skipin komu með að landi  var fyrsta flokks og réðst það af því að skammt var að fara eftir síldinni, skipin toguðu stutt í hvert sinn og síðan var aflinn vel kældur um borð. Í fiskiðjuverinu var síldin ýmist heilfryst eða flökuð og fryst með eða án roðs. 
 
:  Síldin sem barst að landi á vertíðinni var úrvalshráefni.  Ljósm. Hákon ErnusonSíldin sem barst að landi á vertíðinni var úrvalshráefni. Ljósm. Hákon ErnusonÞað sem vakti sérstaka athygli á þessari vertíð er sú staðreynd að síldin hélt sig allan tímann á svipuðum slóðum skammt út af Austfjörðum. Undanfarin ár hefur hún fjarlægst landið á meðan á vertíðinni hefur staðið og til dæmis í fyrra fór veiðin undir lokin helst fram í færeyskri lögsögu og í hinni svonefndu Síldarsmugu. Nú virðist norsk-íslenska síldin hins vegar kunna vel við sig út af Austfjörðum og hefur hún enn ekki sýnt á sér neitt fararsnið. Þetta hefur leitt til þess að ýmsir velta því fyrir sér hvort síldin sé að taka upp sömu hegðun og í lok síldaráranna svonefndu þegar hún hafði vetursetu á Rauða torginu. Á síldarárunum var Jakob Jakobsson fiskifræðingur oft spurður út í göngur norsk-íslensku síldarinnar og þegar hann fjallaði um hegðun síldarinnar á árunum 1964-1967 vakti hann sérstaka athygli á vetursetu hennar fram að áramótum út af Austfjörðum. Hann sagði að þarna héldi síldin sig í gífurlega stórum torfum þegar hausta tæki og virtist hún vera þarna að meira eða minna leyti í eins konar vetrardvala þrjá síðustu mánuði ársins. Hún héldi sig gjarnan á miklu dýpi á daginn en nærri yfirborðinu þegar dimma tæki. Í janúarmánuði hæfist síðan hrygningarganga þessa mikla síldarstofns þvert yfir hafið til Noregs og þangað væri hann kominn upp úr miðjum febrúar.
 
Sagan segir okkur að það er vart á síldina að treysta og að því kom að síldin breytti hegðun sinni og gekk ekki upp að landinu. Síldarárunum lauk og öll ævintýri sem tengdust þeim voru geymd í banka minninganna. Norsk-íslensk síld barst ekki til vinnslu á ný til Neskaupstaðar fyrr en á árinu 1994 og síðan hefur síldin skipað fastan árlegan sess í atvinnulífinu. Í fyrstu var mestur hluti aflans sóttur á hafsvæði utan íslenskrar lögsögu en með árunum gekk síldin inn í lögsöguna og þar fékkst meginhluti aflans. Í ár hefur hinsvegar sú breyting átt sér stað að öll veiði hefur verið skammt undan landi og af nógu að taka. 
 
Hjörvar Hjálmarsson, skipstjóri á Berki, var spurður  hvað hann teldi einkenna nýliðna síldarvertíð. „Síldarvertíðin er sérstök að því leyti að það hefur verið mjög mikið af síld hér upp við landið allan vertíðartímann. Það hefur verið gríðarlega mikið af síld að sjá og hefur veiðin að mestu farið fram í Norðfjarðardýpi, Seyðisfjarðardýpi og út af Héraðsflóa svona 30-50 mílur frá landi. Alla vertíðina hefur verið auðvelt að fá góðan afla og hafa vinnslustöðvarnar fengið úrvalshráefni til vinnslu. Það sem er sérstakt við þessa vertíð er að síldin hefur haldið kyrru fyrir á þessum slóðum. Undanfarin ár hefur hún gengið út af grunnunum 5. til 11. október og jafnvel fyrr og þá hafa skipin þurft að elta hana alla leið út í færeysku lögsöguna og Smuguna. Nú er hún hins vegar sallaróleg og hreyfir sig ekki. Það hefur sáralítið gengið út af grunnunum að undanförnu. Þetta fær mann til að velta því fyrir sér hvort síldin sé að taka upp á því að hafa hér vetursetu en og hún gerði á síldarárunum. Auðvitað vonar maður það og það yrði mikill fengur fyrir lífríkið hér austar af landinu ef svo væri,“ segir Hjörvar. 
 

Á flótta undan veðri

Vestmannaey VE. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonVestmannaey VE. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonÍsfisktogararnir Gullver NS, Bergey VE og Vestmannaey VE eru allir í höfn í dag, en veðrið hefur verið slæmt að undanförnu. Gullver kom til Seyðisfjarðar í morgun með um 45 tonn og Vestmannaey kom til Neskaupstaðar með um 20 tonn. Heimasíðan heyrði hljóðið í Birgi Þór Sverrissyni skipstjóra á Vestmannaey. „Við vorum úti í rúma tvo sólarhringa og það var sannkallað drulluveður. Vegna veðursins gekk heldur treglega að veiða en við tókum þó ein sex hol. Við byrjuðum úti í Hvalbakshalli en hröktumst síðan norður eftir undan veðrinu. Við færðum okkur líka í gær af kantinum og upp á grunnslóðina en þar var veðrið heldur skárra. Það spáir vitlausu veðri aftur í dag og á morgun þannig að það er líklega best að hafa hægt um sig. Síðan held ég að eigi að koma einhver pása. Það má alltaf eiga von á svona veðurfari á þessum árstíma og menn verða bara að sætta sig við það en við vitum að það þarf að hafa næði til að finna fiskinn,“ segir Birgir Þór.