Þokkalegasta kolmunnaveiði í íslensku lögsögunni

Gott kolmunnahol. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonGott kolmunnahol. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonAð undanförnu hefur verið þokkalegasta kolmunnaveiði í íslensku lögsögunni. Skipin byrja venjulega að toga við Þórsbankann og síðan er togað í austur í átt að færeysku lögsögunni en ekki farið inn í hana, það er stoppað við línuna. Beitir NK landaði rúmum 1.500 tonnum í Neskaupstað í gær og hélt á kolmunnamiðin strax að lokinni löndun. Heimasíðan ræddi við Leif Þormóðsson, stýrimann á Berki NK og Gísla Runólfsson, skipstjóra á Bjarna Ólafssyni AK, í morgun en skipin voru bæði að kolmunnaveiðum. Leifur upplýsti að Börkur væri kominn með 1.650 tonn og hefði aflinn fengist í átta holum. „Það er lengi dregið, yfirleitt í sólarhring eða svo. Aflinn hjá okkur hefur gjarnan verið 150 – 350 tonn í holi og segja má að þetta sé ágætis reytingur. Við eigum að landa í Neskaupstað í nótt og gert er ráð fyrir að við förum einn túr enn á kolmunna áður en makrílveiði kemst á dagskrá,“ segir Leifur.
 
Gísli Runólfsson segir að þeir á Bjarna Ólafssyni séu komnir með 1.200 tonn í þremur holum. „Þetta hefur bara gengið vel hjá okkur núna. Við fengum rúm 300 tonn í fyrsta holi , síðan 470 tonn og loks 380 tonn í gær. Það er hins vegar heldur lítið að hafa í dag,“ segir Gísli.

Söluhorfur á makríl ágætar en verra útlit með síldina

Gústaf Baldvinsson. Ljósm. Hákon ErnusonGústaf Baldvinsson. Ljósm. Hákon ErnusonÁ dögunum heimsóttu nokkrir starfsmenn sölufyrirtækisins Ice Fresh Seafood Neskaupstað og funduðu þar með forsvarsmönnum Síldarvinnslunnar. Gústaf Baldvinsson framkvæmdastjóri fór fyrir starfsmönnum sölufyrirtækisins og notaði heimasíðan tækifærið til að spyrja hann dálítið um sögu fyrirtækisins og horfur á sölu makríl- og síldarafurða á nýbyrjaðri vertíð.
 
Gústaf segir að Ice Fresh Seafood hefði verið stofnað árið 2007 og  hefur hann gegnt starfi framkvæmdastjóra frá upphafi. Hlutverk fyrirtækisins er að selja sjávarafurðir og annast það sölu bæði fyrir innlend og erlend sjávarútvegsfyrirtæki. Undanfarin ár hefur Ice Fresh Seafood selt afurðir til 50-60 landa út um allan heim. Fyrirtækið hefur höfuðstöðvar á Akureyri, skrifstofu í Reykjavík og söluskrifstofur í  Boulogne í Frakklandi, San Sebastian á Spáni og í Hull í Englandi þar sem Gústaf hefur aðsetur. Starfsmenn fyrirtækisins eru um 30 talsins og  eru þeir mikið á ferðinni en Gústaf segir að gríðarlega mikilvægt sé að heimsækja viðskiptalöndin, kynnast öllum aðstæðum þar og byggja upp traust tengsl við kaupendur. 
 
Ice Fresh Seafood annast sölu á frystum uppsjávarafurðum Síldarvinnslunnar, sjófrystum afurðum og einnig mjöli og lýsi. Samstarfið við Síldarvinnsluna hófst strax við stofnun sölufyrirtækisins og hefur það aukist jafnt og þétt. Sérstaklega er sala á frystri loðnu, makríl og síld mikilvægir þættir í samskiptum fyrirtækjanna auk afurða fiskimjölsverksmiðjanna og því er sérhver loðnuvertíð og makríl- og síldarvertíð spennandi álagstími. Gústaf segir að sala á loðnuafurðum hafi gengið ágætlega á síðustu vertíð en staðan sé flóknari þegar kemur að makríl og síld á vertíðinni sem nú er að hefjast. „Söluhorfur á makríl eru ágætar og þar finnum við fyrir mikilli eftirspurn frá mörgum mörkuðum. Hins vegar er því ekki að neita að við höfum nokkrar áhyggjur af síldinni. Eftirspurn dróst saman á síldarmörkuðum á síðustu vertíð og verð lækkuðu mikið. Því miður sér ekki fyrir endann á þessari niðursveiflu hvað síldina varðar. Inn í þetta spilar hið svonefnda Rússabann sem er grafalvarlegt. Rússabannið hefur áhrif á nánast alla okkar sölustarfsemi því Rússland var okkar helsti markaður fyrir uppsjávarafurðir,“ segir Gústaf.

Fyrsti makríllinn á vertíðinni til Neskaupstaðar

Guðmundur Jónsson skipstjóri. Á bak við hann sést Vilhelm Þorsteinsson EA.  Ljósm. Smári GeirssonGuðmundur Jónsson skipstjóri. Á bak við hann sést
Vilhelm Þorsteinsson EA. Ljósm. Smári Geirsson
Vilhelm Þorsteinsson EA kom til Neskaupstaðar í gær með fyrsta makrílinn sem þangað berst á vertíðinni. Afli skipsins var 700 tonn upp úr sjó og þar af 500 tonn af frystum makríl. Vilhelm Þorsteinsson kom einnig til Neskaupstaðar með fyrsta makrílfarminn á síðustu vertíð en það var 11. júlí eða átta dögum fyrr en í ár. Heimasíðan ræddi við Guðmund Jónsson skipstjóra á Vilhelm og spurði hann hvernig honum litist á vertíðina. „Mér líst vel á vertíðina, ég trúi því að þetta verði fínasta vertíð. Annars er makríllinn heldur seinna á ferðinni en undanfarin ár enda er sjórinn við landið heldur kaldari en hann hefur verið um þetta leyti árs. Við byrjuðum túrinn á því að fara í Smuguna en þar var heldur lítið að hafa. Við fengum þar þrjú hundruð tonn. Síðan var farið á miðin austan við Vestmannaeyjar, í Háfadýpið, og þar fengum við meirihluta aflans. Veiðin var þar heldur róleg en hún glæddist, allavega hjá einhverjum skipum, eftir að við héldum í land. Makríllinn sem fæst þarna er stór og fallegur. Þetta er 430 gramma fiskur og 19-20% feitur. Það er svolítil áta í honum. Ég reikna með að þetta verði allt heldur seinna á ferðinni nú en síðustu ár en í fyrra var makrílvertíðinni lokið í lok september og þá vorum við búnir að vera í Smugunni um mánaðartíma. Við fórum í Smuguna 29. ágúst því þá var veiðin búin hér við landið,“ segir Guðmundur Jónsson.

Sjávarútvegsskólinn í Neskaupstað

Nemendur Sjávarútvegsskólans sem kennt var í Neskaupstað. Ljósm. Magnús VíðissonNemendur Sjávarútvegsskólans sem kennt var í Neskaupstað.
Ljósm. Magnús Víðisson
Sumarið 2013 stofnaði Síldarvinnslan sjávarútvegsskóla í Neskaupstað og var tilgangur skólans að bjóða ungmennum upp á fræðslu um sjávarútveg. Skólinn var starfræktur í samvinnu við Vinnuskóla Fjarðabyggðar og fengu nemendur greidd laun á meðan á skólavistinni stóð. Mikill áhugi reyndist vera fyrir skólastarfinu og árið 2014 hófu önnur sjávarútvegsfyrirtæki í Fjarðabyggð að taka þátt í starfsemi hans. Þá breyttist nafn skólans úr Sjávarútvegsskóli Síldarvinnslunnar í Sjávarútvegsskóli Fjarðabyggðar. Árið 2015 bættust síðan fleiri fyrirtæki á Austurlandi í hóp þeirra sem stóðu að skólanum og Sjávarútvegsskóli Austurlands varð til.
 
Á árinu 2015 hófust viðræður við sjávarútvegsdeild Háskólans á Akureyri um að hún tæki að sér starfsemi Sjávarútvegsskólans enda var hún orðin allumfangsmikil. Þeim viðræðum lyktaði með því að skrifað var undir samstarfssamning á milli Háskólans og sex fyrirtækja á Austurlandi á vormánuðum 2016. Fyrirtækin voru Síldarvinnslan, Loðnuvinnslan, Eskja, Gullberg, HB-Grandi og Skinney-Þinganes. Frá þessum tíma hefur sjávarútvegsdeild Háskólans á Akureyri annast starfsemi Sjávarútvegsskóla Austurlands og reyndar hefur Sjávarútvegsskóla að austfirskri fyrirmynd einnig verið komið á fót á Norðurlandi. Því má segja að Sjávarútvegsskóli Síldarvinnslunnar sem stofnaður var 2013 hafi svo sannarlega skotið rótum víða.
 
Sl. föstudag lauk kennslu í Sjávarútvegsskólanum í Neskaupstað en hún hafði þá staðið yfir í eina viku. Nemendur í Neskaupstað voru 13 talsins en kennarar voru Magnús Víðisson sjávarútvegsfræðingur og Kristín Axelsdóttir nemi í sjávarútvegsfræðum. Kennsla í skólanum hefur þegar farið fram á Vopnafirði, Seyðisfirði og Fáskrúðsfirði og þessa viku er kennt á Eskifirði. Þess skal getið að nemendur frá Fljótsdalshéraði sóttu kennslu á Seyðisfjörð og nemendur frá Reyðarfirði og Stöðvarfirði á Fáskrúðsfjörð. Að auki hefur kennsla farið fram á Akureyri, Húsavík og Dalvík á vegum Sjávarútvegsskóla Norðurlands en sjávarútvegsdeild Háskólans á Akureyri sér einnig um skólahaldið þar.
 
Kristín Axelsdóttir og Magnús Víðisson kennarar í Sjávarútvegsskólanum. Ljósm. Smári GeirssonKristín Axelsdóttir og Magnús Víðisson kennarar
í Sjávarútvegsskólanum. Ljósm. Smári Geirsson
Heimasíðan ræddi við þau Magnús og Kristínu að loknu skólahaldinu í Neskaupstað og kom fram hjá þeim að kennslan fyrir austan gengi mjög vel. Sögðu þau að vel væri tekið á mót þeim á öllum kennslustöðum, samstarfsfyrirtækin sinntu skólanum vel og nemendurnir væru áhugasamir. Töluðu þau bæði um að það væri gefandi að fá tækifæri til að sinna kennslu í Sjávarútvegsskólanum og þau nytu þess að kynnast sjávarútvegi í mörgum byggðarlögum og byggðarlögunum sjálfum. Í samtalinu var upplýst að á milli 70 og 80 nemendur myndu sækja skólann á Austurlandi í ár og um 120 á Norðurlandi. Bæði Magnús og Kristín töldu líklegt að þau myndu sækjast eftir kennslu við skólann næsta sumar og þá kæmi fengin kennslureynsla að góðum notum.