Loðnuveiðar hafnar

Lodna 2014Síldarvinnsluskipin Börkur og Beitir héldu til loðnuveiða frá Neskaupstað á laugardag. Heimasíðan hafði samband um kl 10.00 í morgun og fékk fréttir. Sigurður V. Jóhannesson stýrimaður á Beiti sagði að fyrsta holið hefði komið mjög á óvart. „Þetta byrjaði ansi vel. Við toguðum í sex tíma í gær og fengum 650 tonn. Það er býsna gott. Síðan toguðum við í eina tíu tíma í nótt og fengum 150 tonn,“ sagði Sigurður.
 
Hálfdan Hálfdanarson skipstjóri á Berki sagði að þeir væru einnig búnir að taka tvö hol. „Við fengum rúm 300 tonn í því fyrra og um 200 í því síðara. Togað var fyrst í fimm tíma og síðan í átta. Það var ekki mikið að sjá í myrkrinu í nótt en núna er eitthvað að sjá. Vissulega er þetta engin mokveiði hjá okkur en þetta er byrjað og það er gott,“ sagði Hálfdan.
 
Bæði skipin voru að veiðum um 55 mílur norðaustur úr Langanesi og þar voru sjö skip að veiðum á svæðinu. Loðnan sem fæst er hin fínasta en í henni er einhver áta. Í nótt var leiðindaveður á miðunum en það skánaði mikið með morgninum.

Brunaæfing um borð í Blængi NK

Blængsmenn fengu þjálfun í meðferð slökkvitækja. Ljósm. Guðjón B. MagnússonBlængsmenn fengu þjálfun í meðferð slökkvitækja.
Ljósm. Guðjón B. Magnússon
Sl. miðvikudag fór fram brunaæfing um borð í frystitogaranum Blængi NK sem lá í Norðfjarðarhöfn. Æfingunni var stýrt af Slökkviliði Fjarðabyggðar og gekk vel í alla staði. Guðjón B. Magnússon, öryggisstjóri Síldarvinnslunnar, segir að æfing eins og þessi sé afar mikilvæg. Í henni séu æfð viðbrögð við eldi sem gæti komið upp um borð. Í því sambandi er lögð áhersla á að áhöfnin kynni sér staðsetningu á öllum öryggisbúnaði og æfi notkun á honum. Þá eru menn einnig þjálfaðir í reykköfun. Telur Guðjón að æfing eins og þessi auki mjög öryggi áhafnarinnar og segir hann að stefnt sé að því að hafa sambærilegar æfingar með áhöfnum allra skipa Síldarvinnslunnar. 
 
Guðmundur Sigfússon slökkviliðsstjóri segir að slökkviliðið sé afar ánægt með að efnt sé til brunaæfinga með áhöfnum skipa. „Við leggjum áherslu á forvarnir og hluti af því er að koma að æfingu eins og þessari. Slökkviliðið hóf samstarf við Síldarvinnsluna um brunaæfingar um borð í skipum árið 2014 en við teljum þörf á að efna til svona æfinga árlega. Sjómennirnir fara á fimm ára fresti í Slysavarnaskóla sjómanna og læra þar ákveðin grundvallaratriði en það er ekki síður mikilvægt að þeir hljóti þjálfun um borð í því skipi sem þeir eru á. Þeir þurfa að vita allt um staðsetningu öryggistækja um borð í eigin skipi, flóttaleiðir og fleiri öryggisatriði. Þá er ávallt farið yfir öryggisbúnaðinn um borð þegar efnt er til brunanámskeiða eins og þessa og þá er ekki óalgengt að í ljós komi eitthvað sem betur má fara eða þörf er á að lagfæra. Almennt má segja að námskeið af þessu tagi auki mjög öryggi áhafnar enda eru brunar um borð í skipum afar erfiðir viðfangs og hættulegir mönnum. Þekking á öryggisbúnaði skips gerir það að verkum að hver einstaklingur er líklegri til að gefa honum gaum reglulega og bregðast við ef eitthvað er athugavert við ástand hans,“ sagði Guðmundur slökkviliðsstjóri.
 
Frá brunaæfingunni um borð í Blængi NK. Ljósmynd: Guðjón B. MagnússonFrá brunaæfingunni um borð í Blængi NK.
Ljósmynd: Guðjón B. Magnússon
 

150 milljónir til heilbrigðismála á sex árum

Jón Sen yfirlæknir við ristilspeglunartæki sem Síldarvinnslan gaf sjúkrahúsinu 2016. Ljósm. Hákon ErnusonJón Sen yfirlæknir við ristilspeglunartæki
sem Síldarvinnslan gaf sjúkrahúsinu 2016.
Ljósm. Hákon Ernuson
Í tilefni af 60 ára afmæli Síldarvinnslunnar 11. desember sl. var tilkynnt um ýmsa samfélagsstyrki fyrirtækisins. Á meðal þeirra var sjö milljón króna styrkur til Umdæmissjúkrahúss Austurlands (Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað) til kaupa á nýju sérhæfðu hjartaómskoðunartæki. Afhending þessa styrks leiddi til þess að vert þótti að athuga hve Síldarvinnslan ásamt Samvinnufélagi útgerðarmanna og Olíusamlagi útvegsmanna hefði styrkt sjúkrahúsið og heilbrigðismálefni mikið á sl. sex árum. Til skýringar skal þess getið að Samvinnufélagið og Olíusamlagið eiga hluti í Síldarvinnslunni og nýta drjúgan hluta af arði hlutabréfanna til að styrkja samfélagsleg málefni.
 
Á sl. sex árum hafa umrædd fyrirtæki annars vegar styrkt sjúkrahúsið til tækjakaupa og hins vegar lagt fram fjármuni til endurbóta á Norðfjarðarflugvelli en flugvöllurinn skiptir afar miklu máli fyrir sjúkraflug og er fyrst og fremst nýttur til slíks flugs. Ekkert fer á milli mála að umræddir styrkir hafa stuðlað að stórauknu öryggi Austfirðinga og gert sjúkrahúsið í alla staði hæfara til að sinna hinu mikilvæga hlutverki sínu. Hvað varðar framlög til tækjakaupa hafa fyrirtækin haft náið samráð við stjórnendur sjúkrahússins og Hollvinasamtök þess.
 
Framlög Síldarvinnslunnar og Samvinnufélagsins til endurbóta á flugvellinum voru samtals 50 milljónir króna en ríkið og sveitarfélagið Fjarðabyggð lögðu einnig af mörkum fjármuni til framkvæmdarinnar. Til viðbótar stóð Samvinnufélag útgerðarmanna, sveitarfélagið og verktakafyrirtækið Héraðsverk straum af kostnaði við gerð flughlaðsins. Framkvæmdum við völlinn lauk sl. sumar og var hann endurvígður í ágústmánuði. Til viðbótar kostaði Samvinnufélagið lýsingu á völlinn á árinu 2012. Fyrir utan framlag til endurbóta á flugvellinum hefur Síldarvinnslan styrkt sjúkrahúsið um 45 milljónir króna til tækjakaupa á sl. sex árum.
 
Árlega hefur Samvinnufélagið styrkt sjúkrahúsið til kaupa á mikilvægum tækjum og búnaði og eins hefur Olíusamlagið styrkt það til endurnýjunar á öllum sjúkrarúmum. Samtals hefur Samvinnufélagið veitt styrki til kaupa á tækjum að upphæð 45 milljónir króna á sl. sex árum og Olíusamlagið hefur veitt slíka styrki að upphæð 12,3 milljónir.
 
Þegar allt er saman tekið kemur í ljós að þessi þrjú fyrirtæki hafa veitt styrki til heilbrigðismála að upphæð rúmlega 150 milljónir króna á umræddu sex ára tímabili. Heimasíðan sneri sér til Guðjóns Haukssonar forstjóra Heilbrigðisstofnunar Austurlands og spurði hvaða máli þessir styrkir skiptu fyrir stofnunina. Guðjón sagði að sá stuðningur sem Heilbrigðisstofnun Austurlands hefði notið frá fyrirtækjum, félagasamtökum og einstaklingum væri algjörlega ómetanlegur og þar hefðu ofangreind fyrirtæki verið í fararbroddi. „Það er staðreynd að ef þessara styrkja nyti ekki við væri heilbrigðisþjónusta á Austurlandi á öðrum og verri stað en hún er í dag. Það er líka mikilvægt fyrir okkur sem vinnum innan Heilbrigðisstofnunar Austurlands að finna hversu samfélagið stendur þétt við bakið á okkur, það hvetur okkur áfram í allri okkar vinnu. Það er auðvitað alltaf von okkar að þær fjárveitingar sem við fáum til reksturs heilbrigðisþjónustunnar dugi til tækjakaupa en hingað til hefur sú einfaldlega ekki verið raunin. Í því ljósi hefur sá stuðningur sem við höfum notið gert okkur kleift að sinna þjónustu sem við að öðrum kosti hefðum ekki getað sinnt,“ sagði Guðjón Hauksson.
 

2017 var þungt ár í bolfiskvinnslunni

Fiskvinnslustöðin á Seyðisfirði. Gullver NS við bryggju framan við stöðina. Ljósm. Ómar BogasonFiskvinnslustöðin á Seyðisfirði. Gullver NS við bryggju
framan við stöðina. Ljósm. Ómar Bogason
Á árinu 2017 tók fiskvinnslustöð Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði á móti 2.625 tonnum af bolfiski til vinnslu, þar af var þorskur um 1.980 tonn og ufsi 491 tonn. Er þetta mun minna hráefni en unnið var á árinu 2016 en þá var tekið á móti um 3.500 tonnum. Ein helsta ástæða minnkandi vinnslu á milli áranna er sjómannaverkfallið í upphafi sl. árs. Ómar Bogason framleiðslustjóri fiskvinnslustöðvarinnar segir að árið 2017 hafi verið þungt í bolfiskvinnslunni. „Verkfallið í upphafi árs hafði sín áhrif og leiddi til þess að ekkert var unnið fyrstu tvo mánuði ársins. Hin sterka króna hafði neikvæð áhrif á afkomuna og eins lækkaði afurðaverð á okkar helstu mörkuðum, einkum varð verðlækkunin mikil á ufsaafurðum. Þá hefur launakostnaður aukist til muna. Á árinu lauk framkvæmdum við að klæða fiskvinnslustöðina að utan og nú er húsið orðið til fyrirmyndar sem okkur finnst afar jákvætt,“ sagði Ómar.
 
Aflinn sem kemur til vinnslu í fiskvinnslustöðinni á Seyðisfirði kemur frá togaranum Gullver NS og að hluta til frá Vestmannaeyjatogurunum Vestmannaey og Bergey. Gullver fiskaði 4.350 tonn á árinu 2017 og er það mesti afli sem skipið hefur borið að landi á einu ári. Afli Gullvers var 300 tonnum meiri en á árinu 2016 en aflaverðmætið hins vegur 15 milljón krónum minna.