Aðalfundur Síldarvinnslunnar hf. vegna ársins 2016

SVN-LOGO2 Prent

Aðalfundur Síldarvinnslunnar hf. vegna ársins 2016 var haldinn í dag, föstudaginn 9. júní.

 • Hagnaður ársins nam 4.100 milljónum króna.
 • Opinber gjöld af starfsemi fyrirtækisins og starfsmanna þess námu 4.600 milljónum króna. 
 • Eiginfjárhlutfall er 63%.
 • Afli skipa samstæðunnar var 138 þúsund tonn.
 • Fiskimjölsverksmiðjur félagsins tóku á móti 124 þúsund tonnum af hráefni.
 • Fiskiðjuverið tók á móti 53 þúsund tonnum af hráefni til frystingar.
 • Um frystigeymslur félagsins fóru 74 þúsund tonn af afurðum.
 • Framleiddar afurðir voru 90 þúsund tonn.

Rekstur

Rekstrartekjur samstæðunnar á árinu 2016 voru alls 18,4 milljarðar króna og rekstrargjöld námu 13,0 milljörðum króna.  EBITDA var 5.400 milljónir króna.   Fjármagnsliðir voru jákvæðir um 580 milljónir króna. Hagnaður samstæðunnar fyrir reiknaða skatta nam 5.100 milljónum króna. Reiknaður tekjuskattur nam 1.000 milljónum króna og var hagnaður ársins því 4.100 milljónir króna.  

Gjöld til hins opinbera

Á árinu 2016 greiddi Síldarvinnslan og starfsmenn 4.600 milljónir króna  til hins opinbera. Greiddur tekjuskattur og veiðigjöld námu samtals 2.000 milljónum króna. Starfsmenn fyrirtækisins greiddu 1.300 milljónir í staðgreiðslu af launum.

Fjárfestingar

Samtals námu fjárfestingar félagsins 2.600 milljónum króna og voru þær þáttur í að auka verðmætasköpun félagsins. Stærsta einstaka fjárfesting ársins voru kaup félagsins á 37,2% hlut í Runólfi Hallfreðssyni ehf. sem gerir út uppsjávarskipið Bjarna Ólafsson AK. Eftir kaupin á Síldarvinnslan 75,2% hlut í félaginu. Helstu fjárfestingarnar í fastafjármunum voru áframhaldandi uppbygging á  uppsjávarvinnslu félagsins.

Efnahagur

Heildareignir samstæðunnar í árslok 2016 voru bókfærðar á 46,6 milljarða króna. Veltufjármunir voru bókfærðir á 9 milljarða króna og skuldir og skuldbindingar samstæðunnar námu 17,3  milljörðum króna. Eigið fé samstæðunnar í árslok var 29,3 milljarðar króna.   Í árslok var eiginfjárhlutfall samstæðunnar 63%.

Starfsemi

Útgerð félagsins gekk vel á árinu. Afli bolfiskskipa samstæðunnar var um 19.500 tonn að verðmæti 4.700 milljónir króna. Afli uppsjávarskipa var 118 þúsund tonn að verðmæti 4.500 milljónir. Heildaraflaverðmæti afla skipanna var 9.300 milljónir króna og aflamagn 138.000 tonn á árinu. 

Fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar tóku á móti um 124 þúsund tonnum af hráefni á árinu 2016. Framleidd voru 28 þúsund tonn af mjöli og 8 þúsund tonn af lýsi. Samtals voru framleidd 36 þúsund tonn af mjöli og lýsi á árinu að verðmæti 6.800 milljónir króna.

Í uppsjávarvinnsluna var landað 53 þúsund tonnum af hráefni. Framleiddar afurðir voru tæp 40 þúsund tonn. Þar vega makrílafurðir þyngst og síðan síldarafurðir og loks loðnuafurðir.  Verðmæti framleiðslunnar var 7.200 milljónir króna. 

Um frystigeymslurnar fóru 74 þúsund tonn af afurðum á árinu.

Samtals nam framleiðsla á afurðum rúmum 90 þúsund tonnum á árinu 2016 að verðmæti 18,2 milljarðar króna.

Starfsmenn

Hjá samstæðu Síldarvinnslunnar störfuðu 347 manns til sjós og lands um síðustu áramót. Launagreiðslur félagsins voru rúmar 3.800 milljónir króna á árinu 2016 en af þeim greiddu starfsmenn 1.300 milljónir í skatta.

Aðalfundur

Á fundinum var samþykkt að greiða 1.200 milljónir króna í arð til hluthafa fyrir rekstrarárið 2016. Þá var samþykkt að laun stjórnarmanna yrðu 165 þúsund kr. á mánuði.

Fréttatilkynning frá Síldarvinnslunni hf. föstudaginn 9. júní 2017.

Nánari upplýsingar veitir Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri, í síma 896 4760.

550 tonna kolmunnahol í Rósagarðinum

Beitir NK að dæla kolmunna í Rósagarðinum. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonBeitir NK að dæla kolmunna í Rósagarðinum. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonÍ fyrradag var hörkuveiði hjá kolmunnaskipunum í Rósagarðinum 65 mílur suðaustur af landinu. Beitir NK tók tvö hol þennan dag og fékk 550 tonn í öðru og 500 tonn í hinu. Bjarni Ólafsson AK fékk einnig góðan afla og fiskurinn þarna er „ofboðslega fallegur og stór“ að sögn Runólfs Runólfssonar skipstjóra. Bjarni landaði 1.300 tonnum á Seyðisfirði í gær.

Beitir er að landa 1.900 tonnum í Neskaupstað í dag og þar af fengust 1.700 tonn í Rósagarðinum. Sturla Þórðarson skipstjóri segir að veiðin hafi verið mjög góð í fyrradag en lítil í gær. „Það er mikil hreyfing á fiskinum þarna og veiðin er dálítið köflótt. Í fyrradag sást töluvert af fiski en minna í gær. Við fengum tvö yfir 500 tonna hol í fyrradag og það er ágætt. Vonandi verður áframhald á þessu,“ sagði Sturla.

Gert er ráð fyrir að kolmunnaskipin haldi á ný til veiða í Rósagarðinum eftir sjómannadagshelgina.

Blængur sneisafullur af úthafskarfa

Blængur NK. Ljósm. Hákon ErnusonBlængur NK. Ljósm. Hákon ErnusonFrystitogarinn Blængur NK kom til Neskaupstaðar í gærkvöldi með fullfermi af úthafskarfa. Veiðiferðin tók 21 dag en skipið var 16 daga að veiðum. Aflinn var 560 tonn upp úr sjó eða 15.600 kassar. Theodór Haraldsson skipstjóri segir að Blængur sé einstaklega heppilegt skip til veiða eins og þessara, það sé öflugt og kraftmikið í alla staði. „Veiðin gekk afar vel þarna á Reykjaneshryggnum. Við enduðum til dæmis á því að taka 35 tonna hol eftir tíu tíma. Og vinnslan er alltaf að ganga betur og betur þó enn megi bæta afköstin. Það er ávallt verið að sníða vankanta af vinnslulínunni og það tekur dálítinn tíma. Afköstin hjá okkur voru 700 kassar á sólarhring fyrst í túrnum en í lokin vorum við komnir í 1140 kassa. Veðrið var fínt megnið af túrnum. Það kom ein bræla og við þurftum þá að stoppa í 18 tíma. Það voru einungis fjögur íslensk skip að úthafskarfaveiðum að þessu sinni. Auk okkar voru það Vigri, Þerney og Arnar. Að auki var þarna fjöldi erlendra skipa. Síðustu dagana vorum við eina íslenska skipið að veiðum auk eins Spánverja og nokkurra Rússa. Skipin höfðu lokið úthafskarfaveiðum, voru búin með kvóta sína,“ sagði Theodór.

Löndun hefst úr Blængi í fyrramálið en áhöfnin mun njóta sjómannadagshelgarinnar að lokinni þessari vel heppnuðu veiðiferð.

Sjómannadagshelgin er framundan

Sigling 2015

               Hópsigling norðfirska flotans á sjómannadegi 2015. Ljósm: Guðlaugur B. Birgisson

Fyrst var haldið upp á sjómannadaginn hér á landi árið 1938. Í Neskaupstað var hins vegar dagurinn fyrst haldinn hátíðlegur árið 1942 og voru það ýmis félagasamtök í bænum sem stóðu fyrir hátíðarhöldunum. Dagskrá hátíðarhaldanna í Neskaupstað árið 1942 mörkuðu að miklu leyti þá megindrætti sem einkenndu hátíðarhöldin um árabil. Í fyrsta lagi var efnt til hópsiglingar norðfirska flotans. Í öðru lagi fór fram sýning björgunartækja og björgunar í stól. Í þriðja lagi var efnt til kappróðurs. Í fjórða lagi var samkoma í skrúðgarðinum með ræðuhöldum og fjölbreyttri dagskrá. Í fimmta lagi var minningarathöfn við leiði óþekkta sjómannsins í kirkjugarðinum. Í sjötta lagi íþróttakeppni á íþróttavellinum og í sjöunda lagi dansleikur um kvöldið. Strax á árinu 1943 var útisamkoman í skrúðgarðinum flutt að sundlauginni sem einmitt var tekin í notkun það ár. Við sundlaugina fóru fram ræðuhöld, tónlistarflutningur, koddaslagur, stakkasundskeppni og fleira. Síðar var reiptogið einnig flutt að sundlauginni.

Róður 2016

Kappróður 2016. Ljósm: Guðlaugur B. Birgisson            

    Dagskrá sjómannadagsins höfðaði vel til íbúa bæjarins, ekki síst barnanna. Það var ævintýri fyrir þau að sigla með bátunum í hópsiglingunni og það var svo sannarlega spennandi að fylgjast með kappróðrinum svo ekki sé talað um koddaslaginn og reiptogið.

                Á árinu 1945 var ákveðið að sjómannadagsráð Neskaupstaðar yrði einungis skipað fulltrúum sjómanna og útvegsmanna og var svo um langt skeið. Undanfarna áratugi hefur ráðið að mestu verið skipað áhugamönnum um hátíðarhöldin og í þeim hópi hafa verið starfsmenn sjávarútvegsfyrirtækja og fyrrverandi sjómenn. Hafa hátíðarhöldin vaxið að umfangi og undanfarna áratugi hafa þau gjarnan staðið yfir í fjóra daga. Hefur sjómannadagsráð oft fengið félagasamtök til liðs við sig svo hátíðarhöldin geti verið sem glæsilegust.

reipitog 2016

Reiptog við sundlaugina á sjómannadegi 2016. Ljósm: Guðlaugur B. Birgisson

                Hér fylgir dagskrá sjómannadagshátíðarhaldanna um komandi helgi og kennir þar ýmissa grasa:

Hátíðarhöld Sjómannadagsins í Neskaupstað

2017

 

Fimmtudagur 8.júní

kl. 18:30-              Pizzahlaðborð í Capitano

kl. 20:30-21:30     Happy Hour   á Kaupfélagsbarnum opið til 01:00

kl. 22:00-              Egilsbúð  Brján ROCKNES,aldurstakmark 18 ár. Verð 2.500

Föstudagur     9.júní

kl. 10:00               Miðbærinn skreyttur og fánar dregnir að húni.

kl. 20–23.00         Unglingaball í Atóm

kl. 22:00-             Egilsbúð, Steinar og Bjarni, aldurstakmark 18 ár. Verð 2.500

kl. 23:00-01:00     Kaupfélagsbarinn opin

           

Laugardagur  10.júní

kl. 10:00               Myndlistasýning í Nesbæ kaffihúsi

kl.10:00-12:00      Hópsigling Norðfirska flotans – allir velkomnir - talsamband á rás 12

                             Smábátaeigendur eru hvattir til þátttöku á bátum sínum. Börn skulu vera í fylgd fullorðinna.

kl. 11:30-13:30     „Bröns“ í Hotel Capitano

kl. 13:00               Sjóva Kvennahlaup ÍSÍ farið frá Nesbæ kaffihúsi

kl. 13:00-15:00     Hoppikastalar á bryggju neðan við kirkjuna , sjá nánar á  http://www.hopp.is

kl. 14:00               Kappróður

kl. 23:00-01:00     Kaupfélagsbarinn opin

kl. 23.00-03:00    Egilsbúð, Danshljómsveit Friðjóns Jóhannsonar  aldurstakmark 18 ár. Verð 2.500 kr

           

Sunnudagur    11.júní

kl. 09:00               Sjómannadagsmót GN og Gjögurs á Norðfjarðarvelli

kl. 09:30               Skip og bátar draga íslenska fánann að húni –bæjarbúar flaggi sem víðast.

kl. 11:00               Dorgveiðikeppni 12 ára og yngri – skráning við Jósafatsafn

    Allir þátttakendur skulu vera í björgunarvestum og mæta vel fyrir tímann.

kl. 12:00               Grillveisla að hætti Jóns Gunnars í boði SVN og Fellabakarís

kl. 11:30-14:00              3 rétta Sjómannadagsmatseðill á 6900 kr í tilefni dagsins á Hildibrand Hótel

kl. 14:00               Hátíðarmessa í Norðfjarðarkirkju.

Séra Sigurður Rúnar Ragnarsson. Kór Norðfjarðarkirkju syngur. Að messu lokinni verður lagður blómsveigur við minnisvarðann um óþekkta sjómanninn í kirkjugarðinum

kl. 14:30 -18:00             Kaffisala Gerpis að Nesi   Allur ágóði rennur til björgunarstarfa sveitarinnar.

kl. 15:00               Leikfélagið Djúpið með andlitsmálingu og fleira fyrir börnin á bílastæði við sundlaug

kl. 15:30               Hátíðardagskrá við sundlaugina: 

 •           Heiðrun.
 •           Björgunarbátasund áhafna.
 •           Reiptog, koddaslagur, skráning hjá Halla Egils. 6611790.
 •           Verðlaunaafhendingar.

kl. 18:00-              3 rétta Sjómannadagsmatseðill á 6900 kr í tilefni dagsins á Hildibrand Hótel             

                        Hvetjum alla sem hlotið hafa heiðursmerki Sjómannadagsins til þess að bera það.

 

Sjómannadagsráð Neskaupstaðar og samstarfsaðilar:

Bjsv Gerpir, Haki, Sún, SVN, G. Skúlason og Hafnarsjóður Fjarðabyggðar.                     

Allar fyrirspurnir vinsamlegast sendar á  This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Kaupið merki dagsins!