Blængur veiðir víða

Blængur NK að veiðum í Víkurálnum. Ljósm. Guðmundur St. ValdimarssonBlængur NK að veiðum í Víkurálnum.
Ljósm. Guðmundur St. Valdimarsson
Sl. miðvikudag kom frystitogarinn Blængur NK til löndunar í Neskaupstað að lokinni tuttugu og þriggja daga veiðiferð. Afli skipsins var um 620 tonn upp úr sjó að verðmæti um 180 milljónir króna. Uppistaða aflans var karfi og ufsi. Heimasíðan ræddi við Theodór Haraldsson skipstjóra og spurði hvernig veiðiferðin hefði gengið fyrir sig. „Við fórum út 31. ágúst og ætlunin var að fara á Vestfjarðamið, en þá var bræla fyrir vestan svo við hófum veiðar í Lónsbugtinni og á Breiðdalsgrunni. Þar var heldur lítið að hafa og haldið var vestur strax og útlit var fyrir betra veður þar. Megnið af túrnum vorum við síðan á Halanum í ufsaleit og fórum tvisvar í Víkurálinn í karfa. Síðan brældi á meðan við vorum fyrir vestan og þá var haldið í ufsaleit á Fjöllin við Reykjanesið. Það reyndist vera lítið af ufsa þar og við komum okkur aftur vestur strax og veður skánaði þar. Eins og sést á þessari lýsingu réði veðrið miklu í þessari veiðiferð; haustið er komið með sínum lægðum. Eins verður að hafa í huga að september getur verið býsna erfiður hvað veiðar varðar, reynslan hefur sýnt okkur það. Þegar upp var staðið rættist vel úr túrnum og miðað við veður og tímalengd geta menn bara verið ágætlega sáttir,“ segir Theodór.

Gert er ráð fyrir að Blængur haldi til veiða á ný annað kvöld.

Síldveiðin gengur vel

Gott síldarhol hjá Beiti NK. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonGott síldarhol hjá Beiti NK. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonSíldveiðin austur af landinu gengur áfram vel. Beitir NK kom með tæplega 1000 tonn til vinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnarí Neskaupstað um hádegi í gær og ræddi heimasíðan stuttlega við Tómas Kárason skipstjóra. „Það er mikla síld að sjá og yfirleitt gengur býsna vel að ná henni. Við fengum til dæmis 685 tonn í fyrsta holi veiðiferðarinnar og toguðum þá í einn og hálfan tíma. Holið var tekið utarlega í Héraðsflóadýpinu. Mér finnst eins og fiskurinn sé byrjaður að þoka sér í austur eða norðaustur og það þýðir að það verður heldur lengra að sækja hann. Annars er þetta búin að vera hin fínasta síldarvertíð og ekki yfir neinu að kvarta,“ segir Tómas.

Jón Gunnar Sigurjónsson yfirverkstjóri í fiskiðjuverinu í Neskaupstað segir að vinnsla síldarinnar gangi vel. Síldin er bæði heilfryst og flökuð og flökin fryst bæði með roði og roðlaus.

 

 

Rættist úr í lokin

Gullver NS kemur til löndunar í hádeginu í gær. Ljósm. Ómar BogasonGullver NS kemur til löndunar í hádeginu í gær.
Ljósm. Ómar Bogason
Ísfisktogarinn Gullver NS kom til Seyðisfjarðar að lokinni veiðiferð  í hádeginu í gær með 92,5 tonn. Aflinn var mest þorskur en um 10 tonn voru ýsa auk þess sem smávegis var af ufsa og karfa. Heimasíðan ræddi við Steinþór Hálfdanarson sem var skipstjóri í veiðiferðinni. „Sannast sagna var veiðin heldur treg framan af í þessum túr, en það rættist úr í lokin þegar við fengum ein 30 tonn á skömmum tíma. Við hófum veiðar á Tangaflakinu, færðum okkur yfir á Glettinganesflak og síðan aftur á Tangaflakið. Við vorum semsagt bara í kálgörðunum hér heima. Fiskurinn sem fékkst er stór og fallegur og hann er úttroðinn af síld,“ segir Steinþór.
 
Gert er ráð fyrir að Gullver haldi til veiða á ný annað kvöld.
 
 
 

Afar góður fiskur fyrir austan

Bergey VE að landa í Neskaupstað. Ljósm. Smári GeirssonBergey VE að landa í Neskaupstað. Ljósm. Smári GeirssonVestmannaeyjaskipin, Bergey VE og Vestmannaey VE, hafa að undanförnu verið að veiðum fyrir austan land. Skip Bergs- Hugins hafa undanfarin ár venjulega haldið austur fyrir til veiða um miðjan september og fiskað þar fram að jólum og jafnvel fram yfir áramót. Heimasíðan ræddi stuttlega við Birgi Þór Sverrisson skipstjóra á Vestmannaey og Jón Valgeirsson, skipstjóra á Bergey, í morgun. Birgir Þór sagði að Vestmannaey hefði landað nánast fullfermi á Seyðisfirði sl. mánudag. „Þetta var stór og afar fallegur fiskur, nánast eingöngu þorskur og ýsa. Þorskurinn var gjarnan 8-10 kg. og ýsan var líka býsna myndarleg. Í þessum túr byrjuðum við að veiða grunnt á Tangaflakinu og héldum síðan norður í Skáp við Glettinganesflak. Veiðin gekk býsna vel en svo brældi og þá fórum við í land með aflann. Við héldum út að löndun lokinni og lentum þá í brasi; festum trollið og þurftum að slæða það upp. Núna erum við í Litladýpinu í reytingsveiði. Við gerum ráð fyrir að landa, líklega á Norðfirði, næstkomandi föstudag,“ segir Birgir Þór.
 
Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergey, tekur undir með Birgi Þór og segir að fiskurinn fyrir austan hafi verið stór og fallegur. „Við lönduðum í gær um 60 tonnum á Norðfirði. Aflinn var þorskur og ýsa. Þorskinn fengum við á Glettinganesflakinu og ýsuna á Tangaflakinu. Við fórum út strax eftir löndun og erum núna að trolla í Litladýpi. Aflinn er fínasti þorskur en þetta er dálítið ufsaborið. Við reiknum með að landa fyrir austan á föstudagsmorgun,“ segir Jón.