Gamall kunningi með kolmunna til Neskaupstaðar

Gardar að landa kolmunna í Neskaupstað í morgun. Ljósm. Smári GeirssonGardar að landa kolmunna í Neskaupstað í morgun.
Ljósm. Smári Geirsson
Norska skipið Gardar kom í morgun með 1.800 tonn af kolmunna til Neskaupstaðar. Skipið er gamall kunningi Norðfirðinga, en það var í eigu Síldarvinnslunnar á árunum 2010-2013 og bar þá nafnið Beitir. Skipstjórinn á Gardar, Jonny Tøkje, upplýsti að aflinn hefði fengist vestur af Írlandi og þar væri mikið magn af kolmunna á ferðinni. „Það var svo sannarlega mikið að sjá og það þurfti aldrei að leita. Þarna var mikið fiskirí. Það tók okkur 2 ½ sólarhring að sigla af miðunum til Neskaupstaðar,“ sagði Jonny.
 
Jonny Tøkje skipstjóri á Gardar. Ljósm. Smári GeirssonJonny Tøkje skipstjóri á Gardar.
Ljósm. Smári Geirsson
Gardar kom til löndunar á Íslandi meðal annars vegna þess að nú er áformað að skipið veiði loðnukvóta sinn við landið. „Við höfum 1.120 tonna kvóta og við þurfum að gefa okkur tíma til að ná honum. Það tekur tíma að sinna loðnuveiðinni. Það mega 30 norsk loðnuskip veiða loðnu við landið samtímis og til dæmis núna bíða 22 eftir því að geta hafið veiðar. Ég hafði samband við önnur skip frá sömu útgerð sem voru úti í nótt en þetta eru skipin Manon og Slaatterøy. Skipin voru austur af Langanesi og þær upplýsingar fengust að lítið væri að hafa. Loðnan stendur djúpt og erfitt að ná henni í nót. Í gær melduðu norsk skip 2.700 tonn af loðnu og allir sjá að það er ekki mikið. En við erum bjartsýnir og trúum því að veiðin eigi eftir að batna. Það tekur dálítið á þolinmæðina að þurfa að bíða eftir því að fá að hefja veiðar en nú eru vetrarolympíuleikarnir að hefjast og þá verður hægt að fylgjast með þeim í sjónvarpi alla daga þannig að okkur ætti ekki að leiðast,“ sagði Jonny Tøkje að lokum.
 
 
 

Sérkennileg loðnuvertíð

Landað úr Liafjord til manneldisvinnslu í morgun. Ljósm. Smári GeirssonLandað úr Liafjord til manneldisvinnslu í morgun.
Ljósm. Smári Geirsson
Segja má að það sé sérskennileg staða að íslenski loðnuflotinn skuli vera bundinn við bryggju um þessar mundir að undanskildum fimm skipum sem hafa haldið til kolmunnaveiða í færeyskri lögsögu. Á loðnumiðunum eru einungis norsk skip sem melduðu inn 5.500 tonn sl. sólarhring. Norsku skipin eru mörg með 200-500 tonna afla og munu sex þeirra landa hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað, ýmist til manneldisvinnslu eða til mjöl- og lýsisframleiðslu. Í morgun var verið að landa úr Liafjord til manneldisvinnslu og var ráðgert að landað yrði úr Norderveg og Fiskskjer á eftir honum. Þá munu Strand Senior og Vea landa í fiskimjölsverksmiðjuna.
 
Það sem af er loðnuvertíðinni hafa vinnsluskipin Hákon EA og Vilhelm Þorsteinsson EA landað tæplega 5.000 tonnum í frystigeymslur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Þá hefur grænlenska skipað Polar Amaroq skipað fjórum förmum beint um borð í flutningaskip, tvisvar á Eskifirði og tvisvar í Neskaupstað. Polar Amaroq lá inni á Norðfjarðarflóa í morgun og var að frysta.

Norsk loðnuskip landa í Neskaupstað

Norsk loðnuskip í Norðfjarðarhöfn í gær. Ljósm. Hákon ErnusonNorsk loðnuskip í Norðfjarðarhöfn í gær. Ljósm. Hákon ErnusonUm helgina lönduðu fjögur norsk loðnuskip slöttum í Neskaupstað. Þetta voru skipin Tronderbas, Vendla, Vea og Havsnurp og munu þau samtals hafa landað um 1.100 tonnum. Mörg norsku skipanna hafa verið í biðstöðu að undanförnu m.a. vegna óhagstæðs tíðarfars og átu í loðnunni. Um helgina voru norsku skipin einungis búin að melda 6.200 tonn en þá mátti gera ráð fyrir að þau ættu eftir að veiða um 60.000 tonn.

Beitir á kolmunna

Beitir NK að kolmunnaveiðum. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonBeitir NK að kolmunnaveiðum.
Ljósm. Helgi Freyr Ólason
Beitir NK hélt til kolmunnaveiða í gærkvöldi, en önnur uppsjávarskip Síldarvinnslunnar bíða frétta um niðurstöðu loðnumælinga. Heimasíðan sló á þráðinn til Sturlu Þórðarsonar skipstjóra á Beiti í morgun. „Við erum á leiðinni á gráa svæðið syðst í færeysku lögsögunni, en mér skilst að þar hafi Færeyingarnir verið að fiska vel að undanförnu. Þetta er 360-370 mílna sigling á miðin. Það eru fleiri íslensk skip á leiðinni á þessi mið, ég veit um Hoffell SU og Guðrúnu Þorkelsdóttur SU“, sagði Sturla.