Sjómannadagshelgin er framundan

Sigling 2015

               Hópsigling norðfirska flotans á sjómannadegi 2015. Ljósm: Guðlaugur B. Birgisson

Fyrst var haldið upp á sjómannadaginn hér á landi árið 1938. Í Neskaupstað var hins vegar dagurinn fyrst haldinn hátíðlegur árið 1942 og voru það ýmis félagasamtök í bænum sem stóðu fyrir hátíðarhöldunum. Dagskrá hátíðarhaldanna í Neskaupstað árið 1942 mörkuðu að miklu leyti þá megindrætti sem einkenndu hátíðarhöldin um árabil. Í fyrsta lagi var efnt til hópsiglingar norðfirska flotans. Í öðru lagi fór fram sýning björgunartækja og björgunar í stól. Í þriðja lagi var efnt til kappróðurs. Í fjórða lagi var samkoma í skrúðgarðinum með ræðuhöldum og fjölbreyttri dagskrá. Í fimmta lagi var minningarathöfn við leiði óþekkta sjómannsins í kirkjugarðinum. Í sjötta lagi íþróttakeppni á íþróttavellinum og í sjöunda lagi dansleikur um kvöldið. Strax á árinu 1943 var útisamkoman í skrúðgarðinum flutt að sundlauginni sem einmitt var tekin í notkun það ár. Við sundlaugina fóru fram ræðuhöld, tónlistarflutningur, koddaslagur, stakkasundskeppni og fleira. Síðar var reiptogið einnig flutt að sundlauginni.

Róður 2016

Kappróður 2016. Ljósm: Guðlaugur B. Birgisson            

    Dagskrá sjómannadagsins höfðaði vel til íbúa bæjarins, ekki síst barnanna. Það var ævintýri fyrir þau að sigla með bátunum í hópsiglingunni og það var svo sannarlega spennandi að fylgjast með kappróðrinum svo ekki sé talað um koddaslaginn og reiptogið.

                Á árinu 1945 var ákveðið að sjómannadagsráð Neskaupstaðar yrði einungis skipað fulltrúum sjómanna og útvegsmanna og var svo um langt skeið. Undanfarna áratugi hefur ráðið að mestu verið skipað áhugamönnum um hátíðarhöldin og í þeim hópi hafa verið starfsmenn sjávarútvegsfyrirtækja og fyrrverandi sjómenn. Hafa hátíðarhöldin vaxið að umfangi og undanfarna áratugi hafa þau gjarnan staðið yfir í fjóra daga. Hefur sjómannadagsráð oft fengið félagasamtök til liðs við sig svo hátíðarhöldin geti verið sem glæsilegust.

reipitog 2016

Reiptog við sundlaugina á sjómannadegi 2016. Ljósm: Guðlaugur B. Birgisson

                Hér fylgir dagskrá sjómannadagshátíðarhaldanna um komandi helgi og kennir þar ýmissa grasa:

Hátíðarhöld Sjómannadagsins í Neskaupstað

2017

 

Fimmtudagur 8.júní

kl. 18:30-              Pizzahlaðborð í Capitano

kl. 20:30-21:30     Happy Hour   á Kaupfélagsbarnum opið til 01:00

kl. 22:00-              Egilsbúð  Brján ROCKNES,aldurstakmark 18 ár. Verð 2.500

Föstudagur     9.júní

kl. 10:00               Miðbærinn skreyttur og fánar dregnir að húni.

kl. 20–23.00         Unglingaball í Atóm

kl. 22:00-             Egilsbúð, Steinar og Bjarni, aldurstakmark 18 ár. Verð 2.500

kl. 23:00-01:00     Kaupfélagsbarinn opin

           

Laugardagur  10.júní

kl. 10:00               Myndlistasýning í Nesbæ kaffihúsi

kl.10:00-12:00      Hópsigling Norðfirska flotans – allir velkomnir - talsamband á rás 12

                             Smábátaeigendur eru hvattir til þátttöku á bátum sínum. Börn skulu vera í fylgd fullorðinna.

kl. 11:30-13:30     „Bröns“ í Hotel Capitano

kl. 13:00               Sjóva Kvennahlaup ÍSÍ farið frá Nesbæ kaffihúsi

kl. 13:00-15:00     Hoppikastalar á bryggju neðan við kirkjuna , sjá nánar á  http://www.hopp.is

kl. 14:00               Kappróður

kl. 23:00-01:00     Kaupfélagsbarinn opin

kl. 23.00-03:00    Egilsbúð, Danshljómsveit Friðjóns Jóhannsonar  aldurstakmark 18 ár. Verð 2.500 kr

           

Sunnudagur    11.júní

kl. 09:00               Sjómannadagsmót GN og Gjögurs á Norðfjarðarvelli

kl. 09:30               Skip og bátar draga íslenska fánann að húni –bæjarbúar flaggi sem víðast.

kl. 11:00               Dorgveiðikeppni 12 ára og yngri – skráning við Jósafatsafn

    Allir þátttakendur skulu vera í björgunarvestum og mæta vel fyrir tímann.

kl. 12:00               Grillveisla að hætti Jóns Gunnars í boði SVN og Fellabakarís

kl. 11:30-14:00              3 rétta Sjómannadagsmatseðill á 6900 kr í tilefni dagsins á Hildibrand Hótel

kl. 14:00               Hátíðarmessa í Norðfjarðarkirkju.

Séra Sigurður Rúnar Ragnarsson. Kór Norðfjarðarkirkju syngur. Að messu lokinni verður lagður blómsveigur við minnisvarðann um óþekkta sjómanninn í kirkjugarðinum

kl. 14:30 -18:00             Kaffisala Gerpis að Nesi   Allur ágóði rennur til björgunarstarfa sveitarinnar.

kl. 15:00               Leikfélagið Djúpið með andlitsmálingu og fleira fyrir börnin á bílastæði við sundlaug

kl. 15:30               Hátíðardagskrá við sundlaugina: 

  •           Heiðrun.
  •           Björgunarbátasund áhafna.
  •           Reiptog, koddaslagur, skráning hjá Halla Egils. 6611790.
  •           Verðlaunaafhendingar.

kl. 18:00-              3 rétta Sjómannadagsmatseðill á 6900 kr í tilefni dagsins á Hildibrand Hótel             

                        Hvetjum alla sem hlotið hafa heiðursmerki Sjómannadagsins til þess að bera það.

 

Sjómannadagsráð Neskaupstaðar og samstarfsaðilar:

Bjsv Gerpir, Haki, Sún, SVN, G. Skúlason og Hafnarsjóður Fjarðabyggðar.                     

Allar fyrirspurnir vinsamlegast sendar á  This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Kaupið merki dagsins!

Kolmunnakropp í Rósagarðinum

Beitir NK. Ljósm. Hákon ErnusonBeitir NK. Ljósm. Hákon ErnusonNú hafa íslensku skipin hætt kolmunnaveiðum í færeysku lögsögunni og eru farin að reyna fyrir sér í Rósagarðinum. Í yfirstandandi veiðiferð tók Beitir NK eitt 290 tonna hol í færeysku lögsögunni en eftir að hafa leitað nokkuð þar var haldið í Rósagarðinn. Herbert Jónsson stýrimaður á Beiti segir að í Rósagarðinum hafi verið kropp í gær en lítið sé hins vegar að sjá í dag. „Við tókum eitt 290 tonna hol í gærkvöldi eftir að hafa togað í 14 tíma. Það voru einhverjir blettir hérna og þetta reyndist vera mun stærri og betri fiskur en var að fást í færeysku lögsögunni,“ sagði Herbert.

Runólfur Runólfsson skipstjóri á Bjarna Ólafssyni AK tók undir með Herbert og sagði að dálítið hefði verið að sjá í Rósagarðinum í gær en lítið í dag. „Ég held að þetta sé búið við Færeyjar. Við tókum þar eitt hol og fengum 200 tonn. Síðan héldum við í Rósagarðinn og erum búnir að taka þar eitt hol; 270 tonn eftir 15 tíma. Það væri afar gott ef kolmunninn gæfi sig hér í íslensku lögsögunni, það er býsna langt að þurfa að sækja hann í færeysku lögsöguna,“ sagði Runólfur.

Auk Beitis og Bjarna Ólafssonar voru Víkingur og Hoffell að veiðum í Rósagarðinum í morgun en Venus er nýlega lagður af stað í land.

Nú stefna kolmunnaskipin í Rósagarðinn

Bjarni Ólafsson AK landaði 1.800 tonnum af kolmunna í Neskaupstað í gær. Ljósm. Smári GeirssonBjarni Ólafsson AK landaði 1.800 tonnum af kolmunna í Neskaupstað í gær.
Ljósm. Smári Geirsson
Heldur hefur hægst á kolmunnaveiðinni í færeysku lögsögunni að undanförnu en þó koma skip enn til löndunar með góðan afla. Margrét EA landaði 1.700 tonnum í Neskaupstað í fyrradag og í gær landaði Hákon EA 1.650 tonnum á Seyðisfirði. Þá kom Bjarni Ólafsson AK með tæplega 1.800 tonn til Neskaupstaðar í gær. Íslensku skipunum á kolmunnamiðunum hefur farið fækkandi að undanförnu.

Heimasíðan hitti Runólf Runólfsson, skipstjóra á Bjarna Ólafssyni, að máli í gær og spurði hann hvernig veiðarnar á Færeyjamiðum gengju. „Það hefur heldur hægst á kolmunnaveiðinni í færeysku lögsögunni en þó eru dagarnir misjafnir. Fiskurinn gengur í norður og um þessar mundir er veitt í svokölluðu Ræsi rétt norðan við Færeyjabanka. Þessi túr hjá okkur tók viku að meðtalinni siglingu en við vorum fimm daga á veiðum. Aflinn fékkst í sex holum og var togað frá 10 og upp í 23 tíma. Já, lengsta holið var 23 tímar og það er lengsta hol sem ég hef nokkru sinni tekið. Aflinn í hverju holi var í kringum 300 tonn. Við erum nýbúnir að fá þær gleðifréttir að Aðalsteinn Jónsson SU hafi tekið eitt hol í Rósagarðinum og fengið 200 tonn af góðum kolmunna. Það er afar mikilvægt að kolmunni veiðist í íslensku lögsögunni og því eru þetta frábær tíðindi,“ sagði Runólfur.

Ljóst er að fréttin um kolmunna í Rósagarðinum leiðir til þess að íslensk kolmunnaskip munu reyna fyrir sér þar. Í morgun stefndu bæði Bjarni Ólafsson og Beitir NK þangað. Það verður spennandi að fylgjast með því hvort verulegt magn af kolmunna hafi gengið inn í íslenska lögsögu.

Konur í sjávarútvegi eru þörf og mikilvæg félagasamtök

Konur í sjávarútvegi heimsóttu Austfirði fyrr í þessum mánuði. Myndin er tekin um borð í Beiti NK í Norðfjarðarhöfn. Ljósm. Smári GeirssonKonur í sjávarútvegi heimsóttu Austfirði fyrr í þessum mánuði. Myndin er tekin um borð í Beiti NK í Norðfjarðarhöfn. Ljósm. Smári GeirssonFélagið Konur í sjávarútvegi efndi til ferðar um Austfirði fyrir félagskonur fyrr í þessum mánuði. Um 30 konur víðs vegar að af landinu tóku þátt í ferðinni og fræddust um austfirskan sjávarútveg. Þá efndi félagið til funda um starfsemi sína á Fáskrúðsfirði og í Neskaupstað og þóttu þeir vel heppnaðir. Í tilefni af heimsókninni austur hafði heimasíðan samband við formann félagsins, Freyju Önundardóttur útgerðarstjóra, og spurði hana um starfsemi félagsins og árangur umræddrar kynnisferðar. „Heimsóknin austur var sérlega vel heppnuð. Móttökurnar voru frábærar og það var einstaklega fræðandi að fá að skoða fyrirtækin og heyra um sögu þeirra og hlutverk. Fyrir okkur sem þátt tóku í ferðinni var þetta frábær upplifun í alla staði. Þá var einnig mikilvægt fyrir félagið að fá tækifæri til að kynna starfsemi sína og tilgang í ferðinni,“ sagði Freyja. „Félagið Konur í sjávarútvegi var formlega stofnað árið 2014 en unnið hafði verið að undirbúningi stofnunar þess um tíma. Á stofnfundinn í Reykjavík mættu um 100 konur þannig að þörf fyrir félag af þessu tagi var til staðar. Þegar við héldum í ferðina austur voru félagskonur 210 talsins en þeim hefur fjölgað síðan og það er gaman að segja frá því að nú hafa austfirskar konur gengið til liðs við okkur. Það er draumur okkar að félagið starfi um allt land. Rætt hefur verið um að stofna sérstaka félagsdeild fyrir norðan og það væri virkilega gaman að geta einnig stofnað Austurlandsdeild. Við erum að vinna í því að færa okkur út um allt land og verða sýnilegar sem víðast. Ég vil bara hvetja allar konur sem starfa í sjávarútvegi og haftengdum fyrirtækjum að ganga til liðs við okkur. Staðreyndin er sú að félagskonur koma víða að, meðal annars frá sjávarútvegsfyrirtækjum, markaðs- og sölufyrirtækjum, fiskeldisfyrirtækjum, viðskiptabönkum, tæknifyrirtækjum, flutningafyrirtækjum og rannsóknastofum. Það er staðreynd að sjávarútvegurinn teygir anga sína svo ótrúlega víða. Tilgangur félagsins er að styrkja og efla konur sem starfa í sjávarútvegi og tengdum greinum, búa til sterkt tengslanet félagskvenna og kynna sjávarútvegsstarfsemi á jákvæðan og uppbyggilegan hátt. Þetta er göfugur og góður tilgangur,“ sagði Freyja að lokum.

Að undanförnu hefur félagið staðið að viðamikilli rannsókn á stöðu kvenna í sjávarútvegi í samstarfi við Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri og Gallup. Rannsóknin er í reynd frumkvöðlaverkefni sem snýst um að afla upplýsinga um þátttöku kvenna í sjávarútvegi og leita svara við hvers vegna konur eru ekki fjölmennari í jafn fjölbreyttri og áhugaverðri atvinnugrein. Tilgangurinn er að kortleggja tækifæri til vaxtar fyrir sjávarútveg með aukinni þátttöku kvenna innan greinarinnar. Niðurstöður úr fyrsta áfanga rannsóknarinnar liggja fyrir og verða þær væntanlega kynntar á næstu vikum.

 Freyja Önundardóttir, formaður félagsins Konur í sjávarútvegi. Ljósm. Smári Geirsson Freyja Önundardóttir, formaður félagsins Konur í sjávarútvegi. Ljósm. Smári GeirssonÞess skal getið að félagið Konur í sjávarútvegi hlaut Hvatningarverðlaun sjávarútvegsins tveimur dögum eftir að kynningarferðinni um Austfirði lauk. Verðlaunin voru afhent á ársfundi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, en þau eru veitt einstaklingi eða félagasamtökum sem hafa lagt sitt af mörkum til að bæta og efla íslenskan sjávarútveg.

Þeir sem vilja afla sér frekari upplýsinga um félagið Konur í sjávarútvegi er bent á heimasíðuna http://kis.is og fésbókarsíðuna Konur í sjávarútvegi.