Góð makrílveiði í Smugunni

Börkur NK kemur til löndunar í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonBörkur NK kemur til löndunar í Neskaupstað.
Ljósm. Hákon Ernuson
Beitir NK hefur verið að makrílveiðum í Smugunni síðustu daga en er nú á landleið til Neskaupstaðar með 800 tonn. Er hann væntanlegur síðdegis en þá lýkur vinnslu á síld sem verið er að landa úr Bjarna Ólafssyni AK. Börkur NK hélt til veiða í Smugunni sl. þriðjudagskvöld og er nú á landleið með 1000 tonn af makríl. Heimasíðan sló á þráðinn til Hjörvars Hjálmarssonar skipstjóra á Berki. „Það var mjög góð veiði þegar við komum í Smuguna og við fengum þessi 1000 tonn í fjórum stuttum holum. Við stoppuðum í sólarhring á miðunum en vorum einungis 18 tíma að veiðum. Það var töluvert að sjá þarna og skipin voru að gera það gott seinni partinn í gær og í gærkvöldi. Áður en við komum þarna hafði verið bræluskítur, en þegar brælunni lauk fannst fljótlega töluvert af fiski. Mér líst vel á framhaldið á þessu. Það ætti að vera unnt að veiða þarna töluvert og eins er ég sannfærður um að það verði veiði á Austfjarðamiðum þegar makríllinn gengur að vestan. Ég neita að trúa öðru. Það er vissulega talsvert langt að sækja aflann í Smuguna, en við vorum að veiða 350 mílur austnorðaustur af Norðfjarðarhorni í þessum túr. Það er í alla staði svo miklu þægilegra og betra að veiða á heimamiðum,“ sagði Hjörvar.

Blængur með góðan afla

Frystum afurðum landað úr Blængi NK í dag. Ljósm. Hákon ErnusonFrystum afurðum landað úr Blængi NK í dag.
Ljósm. Hákon Ernuson
Frystitogarinn Blængur NK kom til Neskaupstaðar í morgun með góðan afla. Aflinn er tæplega 500 tonn upp úr sjó að verðmæti 151 milljón. Uppistaðan í aflanum er grálúða og ufsi. Að sögn Bjarna Ólafs Hjálmarssonar skipstjóra var skipið allan tímann að veiðum á miðunum út af Austur- og Suðausturlandi. Veiðin var almennt góð og reyndar var mokufsaveiði í eina tíu daga. Veðrið var gott allan túrinn að undanskilinni einni smábrælu.
 
Gert er ráð fyrir að Blængur haldi til veiða á ný á sunnudagskvöld og verður þá farið í annan hefðbundinn túr þar sem áhersla verður lögð á karfa-, ufsa- og grálúðuveiðar.

Sendiherra Japans heimsækir Síldarvinnsluna

Yasuhiko Kitagawa sendiherra og Gunnþór B. Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar. Ljósm. Smári GeirssonYasuhiko Kitagawa sendiherra og Gunnþór B. Ingvason
framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar.
Ljósm. Smári Geirsson
Yasuhiko Kitagawa sendiherra Japans á Íslandi heimsótti Síldarvinnsluna í Neskaupstað í gær. Var hann fræddur um starfsemi fyrirtækisins og sögu þess auk þess sem hann heimsótti fiskiðjuverið og kynnti sér vinnsluna þar. Japan hefur lengi verið næst stærsta viðskiptaland Síldarvinnslunnar í frystum afurðum og hefur sala á loðnuafurðum þangað verið einkar mikilvæg. Japanskir kaupendur senda árlega fulltrúa sína til Neskaupstaðar til að fylgjast með loðnufrystingu og framleiðslu loðnuhrogna og sterk tengsl hafa myndast á milli þessara fulltrúa og starfsmanna Síldarvinnslunnar. Kitagawa var greint frá hve viðskiptin við Japan væru fyrirtækinu mikilvæg og hve öll samskiptin við japönsku kaupendurna væru farsæl og ánægjuleg.
 
Kitagawa hefur verið sendiherra á Íslandi í tíu mánuði en hann reiknar með að gegna starfinu í þrjú ár.
 

Makríllinn eltur í Smuguna – síld veidd á Austfjarðamiðum

Bjarni Ólafsson AK er vætanlegur til Neskaupstaðar í dag með síldarafla. Ljósm. Hákon ErnusonBjarni Ólafsson AK er vætanlegur til Neskaupstaðar í dag
með síldarafla. Ljósm. Hákon Ernuson
Síðustu tvo til þrjá sólarhringa hefur nánast engin makrílveiði verið fyrir austan land. Makríllinn hefur verið á hraðri austurleið að undanförnu og er Beitir NK núna búinn að elta hann í Smuguna. Bjarni Ólafsson AK hefur hins vegar snúið sér að síldinni á Austfjarðamiðum eftir að hafa leitað þar að makríl án árangurs. Heimasíðan sló á þráðinn til Gísla Runólfssonar skipstjóra á Bjarna Ólafssyni í morgun og innti hann frétta. „Hér er engan makríl að hafa eins og er enda hefur hann verið á hraðri austurleið að undanförnu. Þessi fiskur fer svo hratt yfir að það er með ólíkindum, en það á ábyggilega eftir að koma meiri makríll að vestan, spurningin er bara hvenær. Í hitteðfyrra vorum við að veiða makríl í Smugunni á þessum árstíma þannig að þetta á ekkert að koma mönnum mikið á óvart. Við snerum okkur að síldinni í bili og hér er töluvert af síld á grunnunum. Við erum komnir með hátt í 600 tonn í tveimur holum og erum að fara að hífa hér í Seyðisfjarðardýpinu. Ég reikna með að við verðum í Neskaupstað í dag,“ sagði Gísli að lokum.