Framkvæmdir hafnar við nýbyggingu á hafnarsvæðinu í Neskaupstað

Framkvæmdir hafnar við pökkunarmiðstöð. Ljósm. Smári Geirsson.Í gær hófust framkvæmdir við nýbyggingu sem Síldarvinnslan reisir á hafnarsvæðinu í Neskaupstað. Byggingin sem um ræðir verður 1000 fermetrar að stærð og áföst fiskiðjuverinu. Nýja húsið mun þjóna hlutverki pökkunarmiðstöðvar fiskiðjuversins en þar verður komið fyrir kassavélum og brettavafningsvélum. Full ástæða er til að bæta pökkunaraðstöðuna miðað við núverandi afköst versins en eins er nýja húsið byggt með tilliti til afkastaaukningar sem fyrirhuguð er í framtíðinni.

Það er Haki ehf. sem annast jarðvegsframkvæmdir vegna byggingarinnar en unnið er að samningum við aðra verktaka. Ráðgert er að nýja húsið verði fullbyggt í lok júnímánaðar áður en makríl- og síldarvertíð hefst. 


Beitir og Börkur í höfn í Þvereyri á Suðurey

Frá Þvereyri á Suðurey í FæreyjumKolmunnaskipin Beitir og Börkur liggja nú í höfn á Þvereyri á Suðurey í Færeyjum. Engin kolmunnaveiðiveiði sem heitið getur hefur að undanförnu verið innan færeyskrar lögsögu þar sem íslenskum skipum er heimilt að veiða. Beitir og Börkur héldu til veiða frá Neskaupstað sl. föstudag en hafa legið í höfn frá því að þeir komu til Færeyja. Önnur íslensk skip liggja ýmist í höfn eða eru úti að fylgjast með en láta reka að mestu. Heimasíðan sló á þráðinn til Hálfdans Hálfdanarsonar skipstjóra á Beiti og heyrði í honum hljóðið:“Við liggjum hér í höfn og það fer vel um mannskapinn, hér er sólskin og blíða en því miður lítið að frétta af fiskiríi“, sagði Hálfdan.  „ Við bíðum rólegir eftir því að fiskurinn gangi inn í færeysku lögsöguna. Færeysku skipin eru að mokfiska í skosku landhelginni hér suður af en þau hafa heimild til að veiða þar. Á undanförnum árum hefur verið nokkuð misjafnt hvenær kolmunninn hefur látið sjá sig í miklu magni í færeyskri lögsögu. Í fyrra og hitteðfyrra var komin góð veiði um 10. apríl en stundum hefur þetta gerst síðar. Það skiptir hins vegar máli að bíða hérna því einungis 12 íslensk skip mega veiða samtímis í færeyskri lögsögu og því koma menn hér til að ná sér í númer svo unnt sé að hefja veiðar strax og fiskurinn sýnir sig. Við erðum bara að bíða þolinmóðir, það er ekkert annað í stöðunni“. 


Frystitogarinn Barði að gera það gott í gullkarfanum

Löndun úr Barða NK. Ljósm. Þorgeir BaldurssonFrystitogarinn Barði kom í gærkvöldi til Hafnarfjarðar þar sem hann millilandar fullfermi af gullkarfa. Ráðgert er að togarinn haldi til veiða á ný í kvöld og verður stefnan þá tekin á karfamiðin á Melsekk. Theodór Haraldsson stýrimaður upplýsti að mjög góð veiði hefði verið í veiðiferðinni og veður gott. „ Við höfum verið að toga í um 6 tíma á sólarhring en síðan látið reka á meðan aflinn er unninn. Búið var að fylla skipið eftir einungis 9 daga á veiðum en aflinn er um 340 tonn upp úr sjó og er örugglega 95% aflans gullkarfi. Það er oft mjög góð veiði á þessum slóðum um þetta leyti árs og veiðin hjá okkur var um 5-10 tonn á togtíma“, sagði Theodór. 


Börkur NK kemur með fyrsta kolmunnafarminn til Neskaupstaðar

Börkur NK kom um hádegi í dag til Neskaupstaðar með fyrsta kolmunnafarminn á vertíðinni. Ljósm. Hákon Viðarsson.Upp úr hádeginu í dag kom Börkur NK með fyrsta kolmunnafarminn á vertíðinni til Neskaupstaðar. Afli skipsins er 1.600 tonn og fer hann til mjöl- og lýsisvinnslu. Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri sagðist trúa því að þetta væri byrjunin á góðri vertíð enda eigi að vera mikill kolmunni í hafinu og kvótinn mikill. Þá sagði hann að veiðar hefðu gengið vel á nýju skipi en á meðan löndun færi fram yrði ýmislegt smávægilegt sem tengist togveiðibúnaði þess lagfært. Hjörvar lýsti fyrstu veiðiferð kolmunnavertíðarinnar þannig: „Við hófum veiðar sunnan við Rockall-svæðið utan írskrar lögsögu en þar hafði veiðst vel áður en við komum þangað. Eftir að við komum fjöruðu veiðarnar út hægt og bítandi og síðasta holið, 230 tonn, tókum við sunnan í Færeyjabanka. Það er ljóst að hrygningarfiskurinn er ekki enn genginn inn í færeyska lögsögu svo neinu nemur en það mun sennilega gerast á næstu 7-10 dögum og þá má gera ráð fyrir að kraftveiði hefjist. Fiskurinn er á leið norður eftir á fæðustöðvar að lokinni hrygningu“.

Þegar þetta er ritað er Beitir kominn með 1.400 tonn af kolmunna og var að kasta, Bjarni Ólafsson var að fylla sig og Polar Amaroq var að veiðum. Þessi skip munu væntanlega koma til löndunar á næstu dögum.