Síldarvinnslan styrkir Hugin

Síldarvinnslan og Íþróttafélagið Huginn á Seyðisfirði hafa nýverið gert styrktar- og auglýsingasamning sín á milli. Samningurinn kveður á um að Síldarvinnslan styrki félagið og að félagið auglýsi nafn fyrirtækisins með ákveðnum hætti á keppnisdögum.

Guðjón Harðarson, fulltrúi Hugins, segir að styrkur Síldarvinnslunnar sé ómetanlegur fyrir félagið. Allt íþróttastarf byggi í reyndinni á velvild og skilningi styrktaraðila og sífellt sé erfiðara að halda úti slíku starfi vegna síaukins ferðakostnaðar. „Flugfargjöld hafa hækkað mikið að undanförnu og þau eru allt að drepa,“ sagði Guðjón. „Við hjá Hugin erum afskaplega þakklát þeim fyrirtækjum og stofnunum sem styrkja starfsemi félagsins og ekki má gleyma því að bæjarbúar láta sitt ekki eftir liggja. Reksturinn er afar þungur en það er ekkert annað að gera en að halda áfram. Meginatriðið er þó þetta: Flugfargjöld eru alltof há og gera alla starfsemi íþróttafélaga á landsbyggðinni erfiða en öðrum kostnaðarliðum starfseminnar er haldið í lágmarki eins og frekast er kostur,“ sagði Guðjón að lokum.


Síldarvinnsluskip á frímerki

Síldarvinnsluskip á frímerkiÍ síðasta mánuði kom út ný útgáfa frímerkja hjá Póstinum og ber hún heitið Togarar og fjölveiðiskip. Í útgáfunni eru fjögur frímerki og á einu þeirra er mynd af skuttogaranum Barða NK 120 sem Síldarvinnslan festi kaup á árið 1970. Barði hefur verið talinn fyrsti skuttogarinn í eigu Íslendinga enda var hann fyrsti togari landsmanna með allan hefðbundinn skuttogarabúnað og eingöngu ætlaður til togveiða.

Barði NK var smíðaður í Frakklandi árið 1967. Hann var 327,59 lestir að stærð og með 1200 hestafla vél. Síldarvinnslan festi kaup á skipinu árið 1970 og kom það í fyrsta sinn til heimahafnar í Neskaupstað hinn 14. desember það ár. Eftir að Síldarvinnslan festi kaup á skipinu voru gerðar á því ýmsar endurbætur en það hélt síðan til veiða hinn 11. febrúar 1971.

Fyrsti skipstjóri á Barða NK var Magni Kristjánsson og gegndi hann starfinu til 1973. Við af honum tók Birgir Sigurðsson og stýrði hann skipinu til 1977. Þriðji og síðasti skipstjórinn var Herbert Benjamínsson og var hann við stjórnvöl þar til skipið var selt til Frakklands árið 1979.

Barði tekur sig vel út á frímerkinu. Það er hannað af Elsu Nielsen en hönnunin byggir á ljósmynd sem Anna K. Kristjánsdóttir vélstjóri tók.

Dauft yfir kolmunnaveiðum

Beitir NK á kolmunnamiðunum fyrr á vertíðinni. Ljósm. Tómas Kárason.Kolmunnaskip Síldarvinnslunnar komu öll til löndunar í Neskaupstað í síðustu viku. Börkur landaði tæplega 1800 tonnum, Beitir um 1700 tonnum og Birtingur 500 tonnum eftir stutta veiðiferð. Afli hafði verið tregur og því voru skipin kölluð í land. Beitir hélt til veiða á ný á fimmtudagskvöld og kom til hafnar í gær með lítinn afla. Hálfdan Hálfdanarson skipstjóri á Beiti sagði að í veiðiferðinni hefðu verið tekin tvö hol og í ljós hefði komið að fiskurinn væri dreifður og var árangur því  lítill. Annað holið var tekið við miðlínuna á milli Íslands og Færeyja og hitt við Hvalbakshallið.

Síldarvinnslunni afhent MSC-vottunarskírteini fyrir síldveiðar

Rut Hermannsdóttir verkefnisstjóri, Gunnþór, Gísli Gíslason framkvæmdastjóri MSC og Valur Ásmundsson sölustjóri. Ljósm. Hákon Viðarsson.Í gær var Síldarvinnslunni afhent MSC- vottunarskírteini fyrir síldveiðar bæði úr norsk- íslenska stofninum og úr íslenska sumargotsstofninum. Þessi vottun felur í sér viðurkenningu á því að veiðar skipa fyrirtækisins séu stundaðar með sjálfbærum og ábyrgum hætti. Þar með hafa bæði síldveiðar og síldarvinnsla Síldarvinnslunnar hlotið MSC- vottun.

Það var Gísli Gíslason sem afhenti vottunarskírteinið en Gísli er framkvæmdastjóri MSC á Íslandi, í Færeyjum og á Grænlandi. Við þetta tækifæri flutti Gísli fróðlegt erindi fyrir starfsmenn Síldarvinnslunnar um eðli og þróun MSC-vottunarkerfisins og kom fram í því að um 80 fyrirtæki á Íslandi hafi nú fengið svonefnda rekjanleikavottun MSC. Ljóst er að vottun af þessu tagi skiptir orðið miklu máli því hún veitir neytendum traustar upplýsingar um að varan sé framleidd með sjálfbærum hætti og því styrkir hún markaðsstöðu viðkomandi framleiðslufyrirtækja. Neytendur á stórum markaðssvæðum fylgjast grannt með því hvort vörur séu merktar með vottunarmerkjum eður ei og MSC- merkið er mjög þekkt vottunarmerki.