Allt í góðu hjá togurunum

Trollið tekið á Bjarti NK fyrr í þessum mánuði.  Ljósm. Þorgeir BaldurssonFrystitogarinn Barði NK kom til hafnar í Neskaupstað í gær. Veiðiferðin gekk afar vel og var aflinn rúmlega 362 tonn upp úr sjó, stærsti hlutinn ufsi. Bjarni Ólafur Hjálmarsson skipstjóri var býsna ánægður þegar í land var komið: „Þetta var lúxustúr og mokfiskirí. Við vorum yfirleitt hálfan sólarhring á veiðum og létum síðan reka hinn helminginn á meðan aflinn var unninn. Veitt var á Halanum og tók túrinn einungis 13 daga höfn í höfn. Þetta getur vart verið betra“.

Sömu sögu er að segja af ísfisktogaranum Bjarti NK. Hann kom til hafnar í gær og mun landa í dag. Afli hans er tæp 90 tonn, þar af 56 tonn þorskur og 22 tonn ufsi. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri var kátur þegar haft var samband við hann:“Það fiskaðist í reynd vel allan túrinn. Við byrjuðum suður í Berufjarðarál, tókum síðan eitt hol á Fætinum og ein þrjú á Herðablaðinu. Þá voru tekin þrjú-fjögur hol á Gerpistotunni og sömuleiðis þrjú-fjögur á Hryggnum í Seyðisfjarðardýpinu. Það var einmuna blíðuveður allan túrinn og segja má að allt hafi verið í lukkunnar velstandi“.


Eldri borgarar frá Héraði heimsækja fiskiðjuverið

Eldri borgarar frá Héraði í heimsókn í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar.  Ljósm. Þráinn SkarphéðinssonSíðastliðinn sunnudag komu eldri borgarar frá Héraði í heimsókn í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar. Það var Félag eldri borgara á Héraði sem skipulagði ferðina og taldi hópurinn 25 manns. Hópurinn fór einnig í heimsókn í Safnahúsið í Neskaupstað auk þess að skoða bæinn undir leiðsögn Ínu Gísladóttur.

Að sögn Þráins Skarphéðinssonar formanns ferðanefndar félagsins var heimsóknin til Neskaupstaðar einstaklega vel heppnuð og fyrir marga var heimsóknin í fiskiðjuverið einn af hápunktunum. Þeir sem treystu sér til fóru í skoðunarferð um fiskiðjuverið en aðrir létu sér nægja að horfa yfir helsta verksmiðjusalinn. Þá var hópnum boðið upp á glæsilegt „fermingarveisluhlaðborð“ í verinu þannig að allir fóru þaðan mettir og glaðir. Þráinn lýsir heimsókninni með svofelldum orðum: „Í fiskiðjuverinu ræður tæknin ríkjum og það er stórkostlegt að sjá hvernig fiskiðnaðurinn hefur breyst og þá um leið störfin sem honum tengjast. Enginn í hópi okkar Héraðsmanna hafði komið í fiskiðjuver af þessu tagi áður og í sannleika sagt voru allir gapandi af undrun um leið og menn voru alsælir með móttökurnar. Vélbúnaðurinn er ótrúlega fullkominn og það er ævintýri að fá að sjá og skynja allan framleiðsluferilinn, allt frá því að fiskurinn er flokkaður þegar hann kemur inn í húsið og þangað til honum er pakkað sem endanlegri frosinni afurð. Þá kom líka á óvart að sjá hve öll aðstaða fyrir starfsfólkið er glæsileg. Öllum sem tóku þátt í ferðinni er efst í huga þakklæti til þeirra sem tóku á móti hópnum og það er ljóst að ferðin spyrst vel út því ég hef hitt fólk sem hefur fengið fréttir af  þessari Norðfjarðarferð og dauðsér eftir að hafa ekki komið með“.

Árshátíð starfsmanna Síldarvinnslunnar verður í Búdapest

BúdapestDagana 17. og 18. október nk. munu starfsmenn Síldarvinnslunnar ásamt mökum halda í skemmti- og árshátíðarferð til Búdapest höfuðborgar Ungverjalands. Alls telur hópurinn rúmlega 360 manns.

Farið verður með flugi frá Egilsstöðum og þangað verður hópnum einnig skilað í lok ferðar. Hinn 17. október munu starfsmenn í Helguvík og áhafnir skipanna ásamt mökum halda til Ungverjalands og hinn 18. munu aðrir starfsmenn og makar þeirra fylgja í kjölfarið. Boðið verður upp á rútuferðir frá Neskaupstað og Seyðisfirði til Egilsstaða og sömu leið til baka að ferð lokinni. Nauðsynlegt er að farþegar séu komnir á flugvöllinn tveimur tímum fyrir brottför. Fyrri hópurinn mun halda heim á leið hinn 21. október en sá síðari degi seinna.

Árshátíð starfsmanna fyrirtækisins mun verða haldin laugardaginn 19. október og mun hún hefjast kl. 18. Árshátíðin mun fara fram á veitingastaðnum Larus sem er í um 5 mínútna göngufjarlægð frá hótelinu sem gist verður á (Hotel Novotel City).

Fyrir utan árshátíðina munu starfsmennirnir nýta dvölina í Búdapest með ýmsum hætti. Meðal annars gefst þeim tækifæri til að fara í skipulagðar skoðunarferðir. Ein ferðin er borgarferð, þar sem helstu merkisstaðir borgarinnar verða skoðaðir. Önnur er kvöldsigling á Dóná og sú þriðja er ferð um Dónárdal.

Allar upplýsingar um árshátíðarferðina er unnt að fá með þvi að smella hér:  http://www.vita.is/borgarlif/stadur/item672972/Budapest


25 þúsund tonn af makríl og síld

Makrílvinnsla í fiskiðjuverinu í sumar.  Ljósm. Margrét ÞórðardóttirBeitir NK kom til hafnar í Neskaupstað í morgun með rúmlega 600 tonna afla og var uppistaðan síld. Þar með hafa borist rúmlega 25 þúsund tonn af makríl og síld til fiskiðjuvers Síldarvinnslunnar á vertíðinni.

Börkur NK landaði um 600 tonna farmi í gær og var afli hans einnig síld að mestu leyti.

Veiðisvæði skipanna hefur verið út af Austfjörðum og þurfa þau stundum að hafa töluvert fyrir því að finna svæði þar sem veiðist hrein síld, en á sumum svæðum er síldin töluvert blönduð af makríl og jafnvel kolmunna.