Fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar tóku á móti 206 þúsund tonnum árið 2013

Fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Ljósm. Smári GeirssonSamkvæmt samantekt Fiskifrétta tóku fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar á móti 206 þúsund tonnum af hráefni á árinu 2013 en það er um 33% af því heildarmagni sem fór til vinnslu á mjöli og lýsi. Verksmiðja Síldarvinnslunnar í Neskaupstað tók á móti langmestu hráefni allra verksmiðja á landinu eða um 123 þúsund tonnum sem er um 20% af heildinni. Verksmiðja Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði tók á móti rúmlega 44 þúsund tonnum og verksmiðjan í Helguvík rúmlega 39 þúsund tonnum. Loðna var mikilvægasta hráefni fiskimjölsverksmiðja á landinu á árinu 2013. Rúmlega helmingi loðnunnar var landað beint í verksmiðjurnar en tæplega helmingur var loðna sem flokkaðist frá við manneldisvinnslu. Hverfandi hluta norsk-íslensku síldarinnar, íslensku síldarinnar og makrílsins var landað beint í verksmiðjur þar sem þessar tegundir eru nánast að öllu leyti nýttar til manneldisvinnslu. Öðru máli gegnir um kolmunnann en hann fer nánast allur beint til mjöl- og lýsisvinnslu.


Brunaæfing í fiskimjölsverksmiðjunni í Neskaupstað

Frá brunaæfingu í fiskimjölsverksmiðjunni í Neskaupstað.  Ljósm. Guðjón B. MagnússonHinn 23. janúar sl. var efnt til brunaæfingar í fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað í samvinnu við Slökkvilið Fjarðabyggðar. Samhliða æfingunni var gerð úttekt á verksmiðjunni með tilliti til brunavarna og farið yfir allan brunavarnabúnað. Allir starfsmenn verksmiðjunnar sóttu æfinguna og sýndu verkefnunum mikinn áhuga.

Guðjón B. Magnússon verksmiðjustjóri lofar samstarfið við Slökkviliðið og segir þá þjálfun sem það hafi veitt starfsmönnunum ómetanlega. „Á æfingunni fengu menn að kynnast notkun slökkvitækja og annars búnaðar með tilliti til mismunandi elda og er slík þjálfun afar gagnleg. Að auki var farið yfir viðbrögð ef eldur kemur upp. Það er afar mikilvægt að starfsmenn þekki þann eldvarnarbúnað sem til staðar er á vinnustaðnum og sé þjálfaður í að nota hann. Í kjölfar æfingarinnar voru ákvarðanir teknar um umbætur á búnaðinum, til dæmis var slökkvitækjum fjölgað og staðsetningu þeirra breytt. Þá er rétt að geta þess að ekki alls fyrir löngu skipulagði Slökkviliðið námskeið fyrir starfsmenn um störf í þröngum rýmum og var það einnig afar gagnlegt“, sagði Guðjón.

Upplýsti verksmiðjustjórinn að stefnt væri að því að halda brunaæfingar oftar í framtíðinni og stuðla þannig að auknu öryggi starfsmanna á vinnustaðnum.   


Unnið að milljarðasamningum í húsakynnum Síldarvinnslunnar í Neskaupstað

Pökkun í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar hf.  Ljósm. Hákon ViðarssonÞriðjudaginn 28. janúar  var undirritaður samningur á milli Pelagos p/f í Færeyjum og Skagans hf. á Akranesi. Felur samningurinn í sér að Pelagos festir kaup á á vinnslukerfi fyrir uppsjávarfisk frá Skaganum fyrir nýtt fiskiðjuver sem rísa skal í Fuglafirði.  Er ráðgert að fiskiðjuverið muni geta framleitt 600 tonn af frystum afurðum á sólarhring til að byrja með en síðan verði afköstin aukin upp í 1000 tonn. Gert er ráð fyrir að fiskiðjuverið geti tekið til starfa í ágústmánuði á þessu ári.

Hið nýja fiskiðjuver mun rísa við hlið fiskimjölsverksmiðjunnar Havsbrun í Fuglafirði en Havsbrun er einn eigenda hins fyrirhugaða vers ásamt útgerðarfélögunum Christian í Grjótinum og Framherja.

Samningurinn sem hér um ræðir hljóðar upp á vel á þriðja milljarð króna og er að mörgu leyti sambærilegur þeim samningi sem gerður var um byggingu fiskiðjuvers Varðinn Pelagic á Suðurey í Færeyjum. Skaginn lauk byggingu fiskiðjuvers Varðinn árið 2012 og tók það á móti um eitt hundrað þúsund tonnum af hráefni til vinnslu á síðasta rekstrarári.

Grunnur að samningunum um byggingu þessara tveggja færeysku fiskiðjuvera var lagður í Neskaupstað. Í báðum tilvikum hittust samningsaðilar þar, kynntu sér starfsemi fiskiðjuvers Síldarvinnslunnar og í kjölfarið var sest að samningaborði. Umræddur samningur við Pelagos var mótaður á skrifstofum Síldarvinnslunnar nú í byrjun árs.  Þannig hefur Síldarvinnslan lagt sitt af mörkum til að tryggja að þessir mikilvægu samningar gætu náð fram að ganga og að hið íslenska hugvit væri selt úr landi öllu þjóðfélaginu til hagsbóta. Ingólfur Árnason framkvæmdastjóri Skagans segir að samvinnan við Síldarvinnsluna í tengslum við þessa samninga hafi verið einstaklega góð og það hafi skipt miklu máli fyrir samningsaðila að hafa aðgang að allri þeirri þekkingu og reynslu sem starfsmenn fyrirtækisins búa yfir. Þá leggur Ingólfur áherslu á að sú tækni og það hugvit sem nú hefur verið selt til Færeyja hafi verið þróað í nánu samstarfi íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja á borð við Síldarvinnsluna og iðnfyrirtækja eins og Skagans. Það sé einkar ánægjulegt að sjá hve þetta samstarf hefur borið ríkulegan ávöxt og leitt til farsælla viðskipta út fyrir landsteinana. 

Systurfyrirtækin Skaginn hf. og Þorgeir & Ellert hf. á Akranesi munu leiða starfið við uppbyggingu fiskiðjuversins í Fuglafirði en fjölmörg önnur íslensk fyrirtæki munu einnig koma að verkefninu. Má þar nefna fyrirtæki á borð við Kælismiðjuna Frost á Akureyri, 3X Technology á Ísafirði og Slippinn á Akureyri.  Fyrir þessi fyrirtæki er samningurinn um byggingu fiskiðjuversins afar dýrmætur auk þess sem hann sýnir svart á hvítu hve íslensk þekking á sviði vinnslu sjávarfangs er mikils metin. 


Nýr Beitir til Neskaupstaðar

Beitir NK við komuna til Neskaupstaðar. Ljósm. Guðlaugur BirgissonEins og áður hefur verið greint frá seldi Síldarvinnslan uppsjávarveiðiskipið Beiti NK til Noregs í desembermánuði sl. en festi þess í stað kaup á skipinu Polar Amaroq sem var í eigu grænlenska félagsins Polar Pelagic. Eftir kaupin á grænlenska skipinu hélt það til Akureyrar þar sem unnið var að ýmsum breytingum og lagfæringum á því. Til dæmis var nótakassinn stækkaður verulega, komið fyrir nýju slönguspili og nýrri vindu á afturskipi. Á Akureyri var skipt um einkennisstafi og nafn á skipinu og fékk það að sjálfsögðu nafnið Beitir NK 123. Á meðan Beitir var á Akureyri lagði áhöfn hans stund á loðnuveiðar á Birtingi NK.

Hinn nýi Beitir kom til Neskaupstaðar að afloknum lagfæringunum í gær og getur hann fljótlega orðið tilbúinn að halda til veiða.

Hinn nýi Beitir var smíðaður árið 1997 og er 2148 brúttótonn að stærð. Getur skipið lestað um 2100 tonn rétt eins og eldri Beitir. Í hinum nýja Beiti eru tvær aðalvélar af gerðinni MaK og er hvor um sig 3260 ha. þannig að heildarhestaflafjöldi er 6250. Annars er skipið afar vel búið tækjum, hentar vel til uppsjávarveiða með flotvörpu og nót og að sjálfsögðu útbúið til að koma með kældan afla að landi.

Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri á Beiti segir að sér lítist afar vel á nýja skipið. „Þetta skip hentar vel til veiða og ég er sannfærður um að það á eftir að reynast með ágætum“, sagði hann. „Skipið er vel búið og það er afskaplega gott að sigla því auk þess sem það er hagkvæmt í rekstri. Þetta er gæðaskip, það fer ekkert á milli mála“.